9.5.2007 20:30

Miðvikudagur 09. 05. 07.

Frá því var skýrt, að Bjarni Torfason skurðlæknir hefði í dag stjórnað hópi 10 manna, sem vann að því í dag að setja gervihjarta í mann. Bjarni skar mig fyrir réttum fjórum vikum og gerði þannig að mínum meinum, að mér fer fram á hverjum degi. Honum og afreksfólki hans sýnast lítil takmörk sett.

Formannaþátturinn á Stöð 2 var vel heppnað sjónvarpsefni, sérstaklega þegar spurningum var beint til hvers formanns fyrir sig. Ég hallast að því, að Stöð 2 hafi haldið betur á kosningabaráttunni en RÚV. Þátturinn í kvöld var til dæmis mun frjálslegri og líflegri en vænta má, að formannaþátturinn verði á RÚV á föstudagskvöld, þar sem stjórnendur setja sig í allt aðrar stellingar en í þessum þætti á Stöð 2.

Viðræðurnar í kvöld voru lausar við stagl um niðurstöður skoðanakannanna, en það setur mikinn svip á fréttir RÚV af kosningabaráttunni. Til lengdar eru þessar talnarunur óspennandi fréttaefni og í raun mikil einföldun á stjórnmálafréttum. Þess á milli koma svo stjórnmálafræðingarnir og segja okkur að taka tölunum með fyrirvara.

Umræðuefnin í þessum þærri voru hefðbundin og í sjálfu sér kom ekki neitt á óvart, sem þar var rætt. Á hinn bóginn er nokkuð sérkennilegt, að ekki þyki ástæða til að víkja einu orði að alþjóðavæðingu, utanríkisstefnu eða stöðu þjóðarinnar í öryggis- og varnarmálum, þegar því kjörtímabili er að ljúka, sem hefur leitt til mestu breytinga í þeim málaflokki síðan 1951. Að þessi mál séu ekki rædd finnst mér sýna, að vel hafi verið á þeim haldið af hálfu ríkisstjórnarinnar. Hins vegar er ástæða til að fá það fram hjá stjórnarandstöðunni, hvort hún ætli að halda áfram á þeirri braut, sem var mótuð í september 2006 eða fara aðra leið til að tryggja öryggi lands og þjóðar.

Geir H. Haarde hélt vel á málum Sjálfstæðisflokksins og varnaðarorð hans um, að vinstri stjórn væri í spilunum voru tímabær. Kjósendur tryggja ekki stjórnarsetu Sjálfstæðisflokksins nema með því að kjósa hann - málið er ekki flóknara en það. Ef menn kjósa vinstri flokkana eru þeir að leggja grunn að stjórn þeirra.