Dagbók: apríl 1997

Miðvikudagur 30.4.1997 - 30.4.1997 0:00

Miðvikudagskvöldið 30. apríl fórum við Rut á tónleika Jessicu Tivens í Háskólabíói en hún er 16 ára undrabarn, sem ber sig gjarnan saman við Maríu Callas, ef marka má fréttir. Var sannarlega óvenjulegt og eftirminnilegt að heyra jafnunga stúlku flytja þær óperuaríur, sem þarna voru sungnar.

Þriðjudagur 29.4.1997 - 29.4.1997 0:00

Þriðjudaginn 29. apríl kl. 16.30 fór ég á fund í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Voru það nemendur, sem stóðu fyrir fundinum til að ræða um stöðu menntamála og niðurskurð til þeirra auk þess sem málefni skólans voru að sjálfsögðu sérstaklega á dagskrá. Hafa nemendur MH meðal annars efnt til kröfugöngu og fundar á Austurvelli til að koma málstað sínum á framfæri. Ég hafði gaman að þessum fundi með þeim og kom því vonandi til skila, að fyrir því eru engin rök, að um niðurskurð til menntamála sé að ræða. Á hinn bóginn hefur verið fylgt aðhaldsstefnu og sérstaklega verið krafist hagræðingar á framhaldsskólastiginu. Þá ræddum við mikið um það, sem nemendur kalla fall- eða tossaskatt en ég kalla endurinnritunargjald og lagt verður á þá, sem innrita sig að nýju í sama áfanga eða sama bekk og þeir hafa setið í áður.

Fimmtudagur 24.4.1997 - 24.4.1997 0:00

Sumardaginn fyrsta, 24. apríl, fór ég í skátamessu í Hallgrímskirkju, síðan á Vorvítamín Kórs Menntaskólans við Hamrahlíð og Hamrahlíðarkórsins í skólanum og loks til athafnar, þar sem Þorgrímur Þráinsson fékk Íslensku barnabókaverðlaunin.

Miðvikudagur 23.4.1997 - 23.4.1997 0:00

Síðdegis miðvikudaginn 23. apríl var ég viðstaddur þegar opnuð var sýning á myndverkum af Halldóri Laxness í Þjóðarbókhlöðunni á 95 ára afmæli skáldsins. Þar tilkynnti ég, að ríkisstjórnin hefði ákveðið að verja 500 þús. kr. til að koma upp farandsýningu um skáldið og störf hans, sem nota mætti við menningar- og bókmenntakynningar heima og erlendis. Er ekki vansalaust, að ekki sé unnt með skömmum fyrirvara að senda slík kynningarspjöld eða annað efni, þegar efnt er til menningar- eða bókmenntakynninga erlendis, sem færist mjög í vöxt.

Þriðjudagur 22.4.1997 - 22.4.1997 0:00

Að kvöldi þriðjudagsins 22. apríl fór ég í Kringlubíó og sá forsýningu á myndinni Veislan mikla og þáði síðan glæsilegar veitingar á la Primavera.

Laugardagur 19.4.1997 - 19.4.1997 0:00

Laugardaginn 19. apríl ætlaði ég í 10 ára afmæli Framhaldsskólans á Húsavík en komst hvergi vegna verkfalls flugmanna. Var óvenjulegt að fá þannig einn óvæntan laugardag fyrir sjálfan sig.

Föstudagur 18.4.1997 - 18.4.1997 0:00

Síðdegis föstudaginn 18. apríl var ég fundarstjóri á aðalfundi Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis. Var afkoma hans með afbrigðum góð á síðasta ári. Að kvöldi föstudagsins fórum við Rut á frumsýningu á Fiðlaranum á þakinu í Þjóðleikhúsinu. Er það skemmtun og leiklist, sem engan svíkur.

Fimmtudagur 17.4.1997 - 17.4.1997 0:00

Að kvöldi fimmtudagsins 17. apríl flutti ég ávarp á spilakvöldi nokkurra hverfafélaga Sjálfstæðisflokksins í Valhöll. Þar voru 100 manns.

Sunnudagur 13.4.1997 - 13.4.1997 0:00

Sunnudagskvöldið 13. apríl fórum við Rut á tónleika hjá hljómsveit Tónlistarskólans í Reykjavík, sem lék undir stjórn Bernharðs Wilkinson í Langholtskirkju, meðal annars lög eftir þrjú tónskáld úr tónfræðadeild skólans, Arnar Bjarnason, Kolbein Einarsson og Sesselju Guðmunddóttur og þá þreytti sópransöngkonan Xu Wen fyrri hluta einsöngvaraprófs. Söng Kór Langholtskirkju í verki Sesselju.

Laugardagur 12.4.1997 - 12.4.1997 0:00

Síðdegis laugardaginn 12. apríl, eftir heimkomu frá Akureyri, afhenti ég verðlaun Hugvísis og síðan brugðum við okkur í Hafnarborg, þar sem Jón Thor Gíslason var að opna málverkasýningu.

Föstudagur 11.4.1997 - 11.4.1997 0:00

Föstudaginn 11. apríl klukkan 11 f.h. var fyrrnefndur blaðamannafundur í ráðuneytinu um úttekt á háskólanámi í viðskipta- og rekstrargreinum. Eftir hádegið flugum við Rut síðan norður á Akureyri, þar sem égf fór í Verkmenntaskólann og ræddi við forráðamenn hans um skipstjórnarnám á Dalvík, en daginn áður hitti ég forystumenn í skólunum í Vestmannaeyjum vegna þessa náms þar. Að kvöldi föstudagsins fórum við síðan á frumsýningu Leikfélags Akureyrar á leikgerð Vefarans mikla frá Kasmír í Renniverkstæðinu. Þótti okkur takast með ágætum að framkvæma þetta mikla verkefni.

Fimmtudagur 10.4.1997 - 10.4.1997 0:00

Síðdegis fimmtudaginn 10. apríl fór ég með embættismönnum úr ráðuneytinu í heimsókn í Fjölbrautaskóla Suðurnesja í Reykjanesbæ og kynntumst við þar áhugaverðum áformum um samstarf við aðila í atvinnulífi um símenntun og endurmenntun. Finnst mér það í vaxandi mæli vera að skila sér inn í skólastjórnir, að vænst er aukins frumkvæðis frá þeim. Er það hlutverk ráðuneytisins að bergðast við slíkum tillögum með vísan til laga og reglna og á grundvelli þess fjárhagslega svigrúms, sem er fyrir hendi.

Miðvikudagur 9.4.1997 - 9.4.1997 0:00

Miðvikudaginn 9. apríl klukkan 17 boðaði ég til fundar í Borgartúni 6 með öllum starfsmönnum Kennaraháskólans, Fósturskólans, Íþróttakennaraskólans og Þroskaþjálfaskólans um nýtt frumvarp til laga um Kennara- og uppeldisháskóla, sem liggur fyrir Alþingi. Var á fundinum, sem var vel sóttur, sérstaklega rætt um atriði, sem lúta að réttarstöðu starfsmanna. Hef ég falið verkefnisstjórn undir formennsku Hauks Inigibergssonar hjá Hagsýslu ríkisins að vinna að sameiningu þessara stofnana, sem Haukur telur hina umfangsmestu til þessa. Að kvöldi miðvikudagsins 9. apríl fórum við Rut á 70. sýningu á leikritinu Ormstungu í Skemmtihúsinu við Laufásveg og höfðum mikla ánægju af þeirri stund.

Þriðjudagur 8.4.1997 - 8.4.1997 0:00

Þriðjudaginn 8. apríl síðdegis var ráðstefna um námsmannaíbúðir, sem menntamálaráðuneytið efndi til með fulltrúum námsmannahreyfinganna, sveitarfélaga og ferðaþjónustu auk skólameistara. Ráðstefnan var lokaáfangi í undirbúningi undir ákvarðanir ráðuneytisins um framkvæmdir við námsmannaíbúðir og heimavistir. Tel ég heppilegt, að lagaramminn verði svipaður og um Félagsstofnun stúdenta, ef menn vilja, að löggjafinn treysti formlegar forsendur fyrir framtaki námsmanna á þessu sviði.

Mánudagur 7.4.1997 - 7.4.1997 0:00

Mánudagur 7. apríl - klukkan 13.45 skóflustunga vegna nýbyggingar við Verslunarskóla Íslands. Klukkan 18.00 fundur með forystmönnum námsmannahreyfinganna um frumvarp til laga um Lánsjóð íslenskra námsmanna

Laugardagur 5.4.1997 - 5.4.1997 0:00

Síðdegis laugardaginn 5. apríl fórum við Rut í Gerðarsafn í Kópavogi, þar sem þrír myndlistarmenn voru að opna sýningar: Sveinn Björnsson, Helga Egilsdóttir og Gréta Mjöll Bjarnadóttir. Einnig fór ég í Gallerí Fold, þar sem Daði Guðbjörnsson var að opna sýningu, en nýlega voru málverk hans tekin niður í húsakynnum menntamálaráðuneytisins, þar sem þau höfu verið til sýnis um nokkurra vikna skeið og svo sannarlega létt okkur skammdegismánuðina. Ps. Í síðasta pistli féll niður nafn stjórnanda Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og kórsins stóra, sem söng Carmina Burana á Akureyri, enn hann heitir Gumundur Óli Gunnarsson.

Föstudagur 4.4.1997 - 4.4.1997 0:00

Síðdegis föstudaginn 4. apríl tók ég fyrstu skóflustungu að nýjum garði Félagsstofnunar stúdenta með einstaklingsíbúðum í stúdentahverfinu við Háskóla Íslands. Var það í fyrsta sinn, sem ég fékk tækifæri til að stjórna vélskóflu.

Fimmtudagur 3.4.1997 - 3.4.1997 0:00

Síðdegis fimmtudaginn 3. apríl fór ég í Galleríið í Ingólfsstræti 8, þar var að hefjast sýning Þorvalds Þorsteinssonar, Íslensk myndlist, tekur hann ramma úr sjónvarpsfréttum, þar sem viðmælendur fréttamanna standa framan við málverk eftir íslenska listmálara, þegar við þá er rætt.