Þriðjudagur 29.4.1997
Þriðjudaginn 29. apríl kl. 16.30 fór ég á fund í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Voru það nemendur, sem stóðu fyrir fundinum til að ræða um stöðu menntamála og niðurskurð til þeirra auk þess sem málefni skólans voru að sjálfsögðu sérstaklega á dagskrá. Hafa nemendur MH meðal annars efnt til kröfugöngu og fundar á Austurvelli til að koma málstað sínum á framfæri. Ég hafði gaman að þessum fundi með þeim og kom því vonandi til skila, að fyrir því eru engin rök, að um niðurskurð til menntamála sé að ræða. Á hinn bóginn hefur verið fylgt aðhaldsstefnu og sérstaklega verið krafist hagræðingar á framhaldsskólastiginu. Þá ræddum við mikið um það, sem nemendur kalla fall- eða tossaskatt en ég kalla endurinnritunargjald og lagt verður á þá, sem innrita sig að nýju í sama áfanga eða sama bekk og þeir hafa setið í áður.