Dagbók: apríl 2009
Fimmtudagur, 30. 04. 09.
Hið einkennilega við stjórnarmyndunina núna er, að eftir því sem hún dregst á langinn, þeim mun meiri tíma þarf til að ræða málin. Fyrst var talið að vikan mundi duga, nú segir Jóhanna Sigurðardóttir í dag, að kannski dugi næsta vika ekki til að komast til botns í málum. Öllum spurningum er svarað með hálfkveðnum vísum eða innantómum frösum, sem gefa til kynna, að ekkert sé handfast í samræðum flokkanna.
Í áranna rás hefur DV verið með mig á heilanum og jagast í mér út af stóru og smáu. Ég sé á vefsíðunni amx.is, að þessu er haldið áfram á dv.is, þótt ég sé hættur sem dóms- og kirkjumálaráðherra. Nú er veist að mér fyrir, að einhver maður fékk gjafsókn. Dóms- og kirkjumálaráðherra hefur ekki afskipti af niðurstöðum gjafsóknarnefndar. Hér ríður vitleysan hjá DV ekki við einteyming, því að maðurinn er að sækja bætur vegna varðhalds, sem hann telur hafa verið ólögmætt. Bæði samkvæmt gömlu lögunum um meðferð opinberra mála og nýju lögunum um meðferð sakamála er sérstakt ákvæði um, að maður skuli fá gjafsókn til slíks málarekstrar í héraði. Á amx.is er spurt, hvort þessi skrif DV samrýmist siðareglum blaðamanna. Mér finnst ekki spurt að ástæðulausu.
Í dag var ég á Hrafnaþingi hjá Ingva Hrafni Jónssyni á sjónvarpsstöðinni ÍNN og Óli Björn Kárason, ritstjóri og nýkjörinn varaþingmaður, var einnig í þættum, þar sem Ingvi Hrafn vildi, að við brytum úrslit kosninganna til mergjar með vísan til Sjálfstæðisflokksins.
Miðvikudagur, 29. 04. 09.
Furðulegt er að hlusta á ummæli flokksformannanna, sem eru að mynda stjórn, að það liggi ekkert á að mynda stjórnina, af því að það sitji stjórn og ráðherrarnir í henni hafi svo mikið að gera, að ekki sé tími til að mynda nýja stjórn. Hvers vegna eru þau þá að reyna að mynda stjórn? Af hverju sitja flokkarnir ekki einfaldlega áfram í stjórn og snúa sér heilshugar að því að leysa úr hinum brýna vanda atvinnulífs og heimila? Hvers vegna er hlaupið úr stjórnarráðinu í Norræna húsið? Hvers vegna eru settir á laggirnar hópar um hitt og þetta? Hvers vegna er látið, eins og allt muni þetta taka langan tíma? Ástæðan er auðvitað sú, að stjórnarflokkana greinir á um grundvallarmál og þeir vilja breiða yfir ágreininginn með hópum og innantómum frösum. Fjölmiðlaliðið tekur einfaldlega þátt í biðleikjunum.
Ég ræddi í gær við forstjóra stórfyrirtækis, sem er í öflugum rekstri og vill ganga frá málum við viðskiptabanka sinn, svo að línur í rekstrinum skýrist. Bankinn hefur ekki svarað erindi fyrirtækisins í níu vikur, lætur einfaldlega ekkert frá sér heyra. Þetta er til marks um rekstur og viðbrögð banka undir ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Í raun er ekki neitt að gerast neins staðar, þar sem ríkisstjórnin er með puttana.
Ef ekki er tími til að mynda ríkisstjórn, vegna þess að ráðherrarnir hafa svo mikið að gera á öðrum vígstöðvum, hafa þeir svo mikið að gera við að mynda ríkisstjórn, þegar beðið er um ákvarðanir, að þeir geta ekki sinnt neinu, sem snertir heimili og fyrirtæki.
Evrópusérfræðingar háskólans á Bifröst og háskólans í Reykjavík eru komnir í hár saman vegna ágreinings um, hvort ríkisstjórn þurfi að standa að aðildarumsókn gagnvart Evrópusambandinu eða ekki. Þetta sýnir, hve illa er komið fyrir stjórnarsamstarfinu. Að sjálfsögðu verður ríkisstjórn að standa að baki slíkri umsókn. Andstaða einstakra sænskra ráðherra við aðild Svía sýnir muninn á starfsháttum sænsku ríkisstjórnarinnar, sem starfar eins og fjölskipað stjórnvald, og hinnar íslensku, þar sem hver ráðherra ber ábyrgð á sínum málaflokki en um meiriháttar ákvarðanir verður auðvitað að ríkja samstaða milli stjórnarflokka.
Þriðjudagur, 28. 04. 09.
Ekki kann góðri lukku að stýra við stjórnarmyndunarviðræður að setja niður viðræðuhópa um hitt og þetta og hefja síðan ferli, þar sem þeir skila af sér til flokksforingja, sem síðan taka málið upp í þingflokkum og skjóta málum svo aftur til viðræðuhópsins og úr verður einhver moðsuða, sem á að sætta ósættanleg sjónarmið. Af vinarþelinu milli Jóhönnu og Steingríms J. fyrir kosningar hefði að óreyndu mátt ætla, að þau tækju loksins fyrir alvöru að leysa vanda heimila og fyrirtækja eftir kosningar, orðin ein með meirihluta á þingi og enga framsóknarmenn til að þvælast fyrir sem yfirlesara frumvarpa og tillagna. Nei, þá hefst þref um Evrópumál og breytingar á skipulagi stjórnarráðsins.
Í Morgunblaðinu í morgun birtist yfirlætislaus grein eftir 55 MBA-nemendur við Háskólann í Reykjavík, sem geymir greiningu á leiðum við gjaldmiðilsbreytingu hér landi, greiningu, sem er laus við allt Evrópusambandssuðið og fordómana. Mér þótti gott, að nemendurnir birtu þessa greiningu í Morgunblaðinu, þótt þeir hefðu átt að vita, að ritstjórn blaðsins víkur jafnan úr vegi til að gera lítið úr skoðunum þeirra, sem leyfa sér að ræða um gjaldmiðilsskipti án þess að ákalla Brusselvaldið og sjálfan Percy Westerlund sér til hjálpar.
Mánudagur, 27. 04. 09.
Í dag eru nákvæmlega tvö ár liðin frá því að Bjarni Torfason, skurðlæknir, útskrifaði mig eftir lungnaaðgerðina miklu. Síðan hef ég ekki kennt mér meins og gengið til starfa minna hvern dag. Þá bjóst ég ekki við, að komandi tvö ár yrðu jafnviðburðarík í stjórnmálunum og raunin hefur orðið. Aðeins í þessum veikindum mínum varð mér misdægurt allan feril minn sem ráðherra síðan 1995 og raunar allan tímann, sem ég sat á þingi, það er frá 1991.
Eins og við var að búast er ekki nein leið fær sameiginlega fyrir Samfylkingu og vinstri-græna til Brussel. Nú hefur varaformönnum flokkanna, Katrínu Jakobsdóttur og Degi B. Eggertssyni, verið falið að ræða þetta mál málanna, svo að hin eldri Jóhanna og Steingrímur J. geti sest að því að bjarga heimilum og fyrirtækjum - eða ber ekki að skilja þetta svo?
Kannski er það arfleifð frá fundinum í Höfða, að stjórnmálamenn leitast við að kenna ríkisstjórnir við staði - Viðey 1991, Þingvelli 2007 og Norræna húsið (!) 2009. Með síðasta staðarvalinu á að leiða þjóðinni í allan sannleika um, að nú skuli mynduð hér norræn velferðarstjórn. Þarf nokkurn stjórnarsáttamála?
Sunnudagur, 26. 04. 09.
Veðrið var blítt og fallegt í Fljótshlíðinni í morgun og tún tekun að grænka. Ég skrifaði pistil að loknum kosningum og setti hér á síðuna.
Bjarni Benediktsson tekur ósigri Sjálfstæðisflokksins réttum tökum. Ég er sammála því mati hans, að verið sé að einfalda útkomu flokksins mikið með því að kenna fylgistapið við afstöðuna í Evrópumálum. Sú skýring líkist helst afsökun þeirra, sem vógu að flokknum undir merkjum sammala.is. Þá er skrýtið, að Kristján Vigfússon, Evrópufræðingur Háskólans í Reykjavík, skuli stíga á stokk sem álitsgjafi og segja, að líklega verði þrennar kosningar árið 2010, þar af tvennar vegna aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Við hvaða rannsóknir styðst þessi niðurstaða?
Ég tek undir orð Steingríms J. Sigfússonar, formanns vinstri-grænna, í viðræðum flokksforingja í ríkissjónvarpinu í kvöld, að elíta fjölmiðlamanna, álitsgjafa og háskólamanna haldi lífi í umræðum um Evrópusambandsaðild fyrir og eftir þessar kosningar. Málið hafi ekki eins víðtæka skírskotun og þessi elíta vilji vera láta. Önnur mál séu brýnni.
Augljóst var á ummælum Jóhönnu Sigurðardóttur, formanns Samfylkingar, í sjónvarpsumræðunum, að henni leið ekkert vel með aðildarmálið í fanginu sem, að því er virtist, ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir ríkisstjórnarsamstarfi gagnvart Steingrími J., en þau Jóhanna sátu á þriggja tíma fundi í dag og gaf Jóhanna til kynna, að þar hefði verið stál í stál, þegar aðild að ESB bar á góma.
Samfylkingin gaf kosningaloforð í Evrópumálum, sem hún getur ekki efnt. Jóhanna sagði fyrir kosningar, að það mundi ráðast af fylgi Samfylkingarinnar, hvort þetta óskamál hennar kæmist í höfn. Fylgið þyrfti að verða mikið. Niðurstaðan varð sú, að fylgi flokksins er nokkru minna nú en í kosningunum 2003. Sé rétt, að fjöldi fólks, sem annars hefði stutt Sjálfstæðisflokkinn, hafi gengið til liðs við Samfylkinguna vegna Evrópusambandsins, hvers vegna er fylgi fylkingarinnar þá ekki meira? Hvað flúðu hana margir vegna ESB-málsins?
Laugardagur, 25. 04. 09.
Setti í dag síðasta pistil minn sem alþingismaður inn á síðuna. Þar vek ég athygli á hinni miklu blekkingu kosningabaráttunnar, að Ísland sé á leið inn í Evrópusambandið að loknum kosningum. Hver ætlar að leiða það afsal á auðlindum þjóðarinnar?
Í gær fór ég í verslun, þegar ég hafði lokið viðskiptunum, spurði kaupmaðurinn, hvort ég héldi, að kosið yrði aftur næsta haust. Ég hafði að sjálfsögðu ekki svar við því. Spurningin byggist hins vegar á þeirri meginskoðun, að sé kosið með því hugarfari að ná sér niðri á einhverjum, sé það ekki leiðin til framtíðar. Því miður heyrist mér á svörum ýmissa, sem spurðir eru á kjörstað í dag, að þeir svari á þann hátt, að þeir séu að gera upp við fortíðina. Kosningar snúast hins vegar um framtíðina.
Stjórnmál snúast um framtíðina, að leggja línur til að ná betri árangri en áður. Hér hafa tveir flokkar kosið forystu til framtíðar, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur. Hvorki Samfylking né vinstri-grænir hafa valið sér framtíðarforystu. Kosningabarátta þeirra hefur einnig verið háð með vísan til fortíðar. Engin samstaða er hjá þessum flokkum um framtíðina. Setjist þeir í ríkisstjórn að kosningum loknum verður þessi staðreynd enn skýrari en áður.
Föstudagur, 24. 04. 09.
Ég ákvað að gera athugasemd við ósannindi Össurar Skarphéðinssonar á vefsíðunni eyjan.is. Þeir sem skoða athugasemdina hér, ættu einnig að renna yfir ummæli lesenda Eyjunnar og sjá hina botnlausu óvild nafnlausra bloggara. Að stjórnmálaumræður séu á þessu stigi er áhyggjuefni og ég fagna því, að þeir, sem þannig tala eru andstæðingar mínir og Sjálftsæðisflokksins.
Klukkan 09.15. kom utanríkismálanefnd alþingis saman til fundar og sátum við Geir H. Haarde hann fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins. Fundurinn var haldinn að ósk Sivjar Friðleifsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, sem vildi nýta sér heimild frá rannsóknarnefnd bankahrunsis um að forsætisráðuneytisins sýndi nefndinni í trúnaði skjöl um samskipti við Breta af hálfu ráðuneytisins dagana 3. til 6. október 2008. Fundurinn stóð í tæpar tvær klukkustundir. Að honum loknum sagði Siv við blaðamenn:
„Við erum bundin trúnaði um upplýsingarnar sem komu fram en ég vil þó segja að atburðarásin er mun ævintýralegri heldur en ég gat nokkru sinni ímyndað mér. Þannig að maður er hálf sleginn yfir upplýsingunum sem þó komu fram bæði í gögnunum og svo í tali nefndarmanna.
Mér finnst eðlilegt að Jóhanna Sigurðardóttiir upplýsi um þau gögn sem komu fram hér. Þetta var ævintýraleg atburðarás. Mjög sérstök. Ég vil samt ekki dæma neinn. Það er enn orð á móti orði varðandi Icesave ábyrgðirnar. Þannig að málið hefur ekki skýrst neitt sérstaklega eftir þennan fund en atburðarásin er óneitanlega mjög ævintýraleg.“
Ég undrast lýsingu Sivjar á fundinum. Orð hennar segja mér aðeins, að hún hefur myndar sér rangar hugmyndir um, hvað gerðist í samskiptum við Breta á þeim dögum, sem hún nefnir í spurningu sinni 3. til 6. október 2008. Þessa daga var Icesave-málið til dæmis ekki orðið að ágreiningsmáli.
Í gær skrifaði ég umsögn um bókina Sofandi að feigðarósi eftir Ólaf Arnarson og birtist hún á vefsíðunni amx.is. Í bókinni er sagt frá bankahruninu og þar með því, sem gerðist 3. til 6. október. Meðal þess var grunur breskra stjórnvalda um, að Kaupþing banki væri að flytja 1,6 milljarða punda frá banka Kaupþings í Bretlandi, Singer & Friedlander (S&F) til Kaupþings í Reykjavík. Alistair Darling, fjármálaráðherra Breta, hafi hringt í Geir H. Haarde, þegar Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþings, og Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri bankans sátu á fundi hjá Geir. Í bókinni segir:
Lesa meira„Þeir gátu því strax fullvissað íslenska forsætisráðherrann um að ásakanir Breta væru ekki á rökum reistar og Geir bar orð þeirra til Darlings“
Fimmtudagur, 23. 04. 09.
Gleðilegt sumar!
Nú liggur fyrir svart á hvítu frá breska Evrópumálaráðherranum, að Bretar munu óska eftir fiskveiðiréttindum á Íslandsmiðum, ef Íslendingar ganga í Evrópusambandið. Bretar telja sig hafa sterka samningsstöðu í krafti Icesave-reikninga. Þá er einnig ljóst, að undir stjórn Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur hefur utanríkisráðuneytið með leynd undirbúið aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Um þetta ræði ég í pistli á vefsíðu minni í dag.
Að þetta skuli ekki verða að stórmáli á lokadögum kosningabaráttunnar sýnir aðeins, hve aumir fjölmiðlarnir eru. ESB-blöðin vilja að sjálfsögðu sem minnst úr þessu gera og ríkisfjölmiðlarnir eru með hugann við styrkveitingar til stjórnmálamanna vegna prófkjara fyrir þremur árum. Það er glimt í fréttum Stöðvar 2 eins og sýndi sig í kvöld, þegar Steingrímur J. var þráspurður um afstöðu vinstri-grænna til olíuvinnslu á Drekasvæðinu, sem Kolbrún Halldórsdóttir, umhverfisráðherra, vill ekki. Steingrímur J. gaf of tvíræð svör til að verða trúverðugur og síðan lét hann fjármálaráðuneytið senda út tilkynningu til að kveða niður orðróm vegna ummæla hans sjálfs á fundi á Egilsstöðum um Icelandair. Frægt var á sinni tíð, þegar frambjóðandi sagði: Skrifaðu flugvöll! Steingrímur J. hrópaði: Skrifaðu flugfélag!
Óskiljanlegt er stjórnmálamönnum og líklega fleirum, hvað fjölmiðlamenn telja, að skipti mestu rétt fyrir kosningar. Vorið 2007 gerði fréttastofa sjónvarps ríkisins mikið veður út af því, að staða, sem ég veitti, hefði aðeins verið auglýst í Lögbirtingablaðinu. Eltist fréttastofan við mig út af þessu og var látið sem um eitthvert hneyksli hefði verið að ræða. Sé ætlunin að setja stjórnmálamenn út af laginu, gildir hið sama um þá og annað fólk, að þeir verða stundum orðlausir af undrun vegna þess, sem um er spurt. Gagnvart hlustendum eða áhorfendum kann þetta að taka á sig þá mynd, að stjórnmálamaðurinn geti ekki eða þori jafnvel ekki að svara. Fréttamaðurinn lítur á það sem afrek út af fyrir sig!
Miðvikudagur, 22. 04. 09.
Á göngu um Öskjuhlíðina sá ég fyrstu lóur vorsins þar. Þennan sama dag árið 2007 sagðist ég í fyrsta sinn hafa heyrt í lóu í Öskjuhlíðinni, en sá enga.
Athygli mín var vakin á því, að Steinunn Valdís Óskarsdóttir, frambjóðandi Samfylkingar og þingmaður, hefði kosið að nota síðasta dálk sinn í Viðskiptablaðinu fyrir kosningar til að ráðast á mig fyrir að nota orðið „fullnaðarsigur“ í ræðu um stjórnarskrármálið á alþingi.
Ég minnist þess alls ekki að hafa notað þetta orð og velti fyrir mér, hvar þingmaðurinn var, þegar hún hlustaði á ræðuna, eða hvort hún hafi aðeins hlustað á Lúðvík Bergvinsson, þingflokksformann sinn, sem tönnlaðist á þessu orði.
Þessi dæmalausa gagnrýni Steinunnar Valdísar er aðeins til marks um, hve skringileg þessi kosningabarátta er. Hún snýst einkum um það, hver er að auglýsa hvað eða hve háa styrki menn fengu fyrir kosningar 2007 - svo að ekki sé minnst á tölur úr skoðanakönnunum, sem tönnlast er á.
ESB-blöðin, Fréttablaðið og Morgunblaðið reyna enn að halda því að fólki, að þjóðinni verði helst bjargað með því að fara inn í ESB og í furðufrétt á forsíðu Fréttablaðsins í dag er látið eins og bresk stjórnvöld, sem settu okkur á bekk hryðjuverkamanna, vilji ólm fá okkur á hraðferð inn í ESB. Ætli þau séu að kaupa sér frið hjá Samfylkingunni í Icesave málinu með þessu? Skyldi Össur Skarphéðinsson hafa falast eftir þessu, þegar hann hitti David Miliband á dögunum? Kannski er Svavar Gestsson tekinn til við að semja um aðild Íslands að ESB en ekki um Icesave?
Heimir Már Pétursson á Stöð 2 segir rangt hjá mér, að hann hafi spurt Bjarna Benediktsson um setu Kjartans Gunnarssonar í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins eins og ég sagði í færslu hér 11. apríl. Þetta er rétt hjá Heimi Má og bið ég hann velvirðingar. Það var Aðalbjörn Sigurðsson hjá RÚV sem vék að miðstjórnarsetu Kjartans.
Þriðjudagur, 21. 04. 09.
Umræðurnar um Evrópumálin verða æ einkennilegri, þegar litið er til þess, hvernig vinstri/grænir eru teknir til við að fara undan í flæmingi og hve Samfylkingin nýtur mikils stuðnings frá embættismannakerfi Evrópusambandsins. Er engu líkara en Jóhanna Sigurðardóttir hafi svarið Brusselvaldinu hollustu á þann veg, að hún ætli að koma Íslandi inn í Evrópusambandið, hvað sem tautar og raular. Nú er ekki lengur rætt um nauðsyn þess að setja sér samningsmarkmið eða huga að því, hver skilyrði Evrópusambandsins verða, heldur skal keyrt á málið og Ögmundur Jónasson segir, að opna skuli allar gáttir, þjóðin eigi hvort sem er síðasta orðið.
Í Katljósi var rætt við þá Ragnar Arnalds og Benedikt Jóhannesson um Ísland og Evrópusambandið. Nokkrir einstaklingar á förnum vegi voru spurður álits á málinu og voru þeir allir nema kannski einn neikvæðir í garð aðildar Íslands. Skýrt var frá því, að sammala.is hefði haldið fund í Iðnó síðdegis, sem 150 manns sóttu en undirskriftir sammala.is væru orðnar um 9 þúsund.
Skýrt var frá því, að Helgi í Góu hefði afhent Jóhönnu Sigurðardóttur undirskriftir 21. 000 manns, sem krefjast umbóta á lífeyrissjóðakerfinu.
Varðskipið Týr kom til Eskifjarðar í morgun með smyglskútuna, sem elt var uppi og sérsveitarmenn náðu á sitt vald í úfnum sjó og næturmyrkri. Sannaðist þar enn hæfni landhelgisgæslumanna og sérsveitarmanna og mikilvægi þess, að efnt hefur verið sameiginlegra æfinga á undanförnum árum. Það liggur síður en svo í hlutarins eðli, að við ráðum yfir svo fjölhæfum og áræðnum löggæslumönnum. Að baki býr mikil þjálfun og einbeittur vilji til að takast á við allt, sem að höndum ber. Hér má hvergi láta undan síga, þótt fjárhagur ríkisins þrengist. Gæslan fær nýja flugvél nú í sumar, sem veldur byltingu í getu hennar til eftirlits á hafinu umhverfis landið.
Mánudagur, 20. 04. 09.
Klukkan 17.30 var ég í höfuðstöðvum Slysavarnafélagsins Landsbjargar við Skógarhlíð, þar sem Sigurgeir Guðmundsson, formaður, og Kristinn Ólafsson, framkvæmdastjóri, ásamt stjórnarmönnum sýndu mér þá vinsemd að veita mér viðurkenningu fyrir gott samstarf á þeim tíma, þegar ég gegndi embætti dóms- og kirkjumálaráðherra.
Ástæða er til að vekja athygli á hinum makalausu viðbrögðum sendiherra Evrópusambandsins (ESB) gagnvart Íslandi við því stefnumiði Sjálfstæðisflokksins að leita samstarfs við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um gjaldmiðilsskipti með augastað á evru. Fulltrúi ASG svaraði spurningu Stöðvar 2 um þessi mál á diplómatískan hátt og sagði, að málið yrði kannað, þegar það yrði tímabært. Percy Westerlund, sendiherra ESB, réðst hins vegar dólgslega á Sjálfstæðisflokkinn og af því alkunna yfirlæti, sem sendimenn Evrópusambandsins telja sér sæma að sýna stjórnmálaflokkum og heilum þjóðum, ef menn beygja sig ekki þegjandi undir Brusselvaldið.
Íslendingar mættu þessari framkomu af hálfu embættismanna ESB strax eftir bankahrunið, þegar þeir gerðu Ísland að blóraböggli, vegna þess að tilskipun ESB um fjármálafyrirtæki dugði ekki til að tryggja öryggi í rekstri þessara fyrirtækja við lausafjárþurrð á heimsvísu. Þá ákváðu þau Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Össur Skarphéðinsson, að ekki skyldi haldið fram lagalegum rétti Íslands gagnvart ESB heldur skoða málið frá pólitísku sjónarhorni. Nú er borin von, að Össur mótmæli þessari íhlutun sendiherra ESB í íslensk stjórnmál og innanlandsmál. Öll afskiptasemi Brusselvaldsins af íslenskum stjórnmálum er Samfylkingunni þóknanleg - það er hið pólitíska sjónarhorn Samfylkingar gagnvart Brusselvaldinu.
Sunnudagur, 19. 04. 09.
Í dag sendi ég pistil á síðuna amx.is og hann má lesa hér. Þar bendi ég á þá staðreynd, að Ísland gerist ekki aðili að Evrópusambandinu nema Sjálfstæðisflokkurinn styðji þá ákvörðun. Þetta verði þeir, sem auglýsa undir merkjum sammala.is, að skilja.
Í fyrradag, 17. apríl, var heimsfrumsýning á nýrri mynd með Russel Crowe en hún heitir á ensku State of Play og segir frá blaðamanni í Washington, sem fæst við að skrifa um mál, þar sem tengjast stjórnmál, öryggismál, ástarmál og fjármál auk þess sem kynntir eru innviðir blaðamennskunnar. 17. apríl var myndin frumsýnd í fimm löndum: Bandaríkjunum, Íslandi, Kanada, Spáni og Tyrklandi. Ég mæli með myndinni.
Lögregla og landhelgisgæsla vinna nú að því að upplýsa nýtt skútusmyglmál, en svo virðist sem skúta hafi legið undan Papey en slöngu-gúmbátur hafi verið nýttur til að selflytja fíkniefni í land á Djúpavogi. Árvekni og viðbúnaður gegn fíkniefnasmygli hefur aukist og samvinna löggæslu og tollgæslu er markvissari en áður.
Lögregla tók skynsamlega á hústökuliði við Vatnsstíg á dögunum.
Ég vara eindregið við því, að íslensk stjórnvöld taki aðra afstöðu til þess að senda hælisleitendur til Grikklands samkvæm Dublin-reglum en önnur ríki, sem starfa samkvæmt reglunum.
Laugardagur, 18. 04. 09.
Fyrsta daginn utan þings nýtti ég til að setja skjalastaflann, sem hafði safnast í ati síðustu daga, á varanlegan geymslustað.
Um kvöldið vorum við Rut heiðursgestir á árshátíð félags fyrrverandi alþingismanna og flutti ég þar ávarp.
Föstudagur, 17. 04. 09.
Þingfundur hófst klukkan 10.30 en áður höfðum við sjálfstæðismenn hist á þingflokksfundi. Um klukkan 13.00 flutti ég mína síðustu ræðu á þingi og var það fyrir framhaldsnefndaráliti okkar sjálfstæðismanna í sérnefndinni um stjórnarskrármál. Greinilegt var á ræðum, sem fluttar voru, að stjórnarsinnar töldu mig helst hafa staðið gegn því, að sátt næðist um stjórnarskrármálið. Ég sagðist stoltur af því, að hafa komið í veg fyrir, að stjórnarskrárgjafarvald alþingis yrði frá því tekið.
Ég hvarf af þingi 13.50 og bjó mig undir jarðarför Ingólfs Guðbrandssonar, tengdaföður míns, í Hallgrímskirkju kl. 15.00, þar sem séra Jón Dalbú Hróbjartsson jarðsöng en jarðsett var í Fossvogskirkjugarði og klukkan 17.00 var erfidrykkja í súlnasal hótel Sögu.
Ég kom aftur í þinghúsið um klukkan 18.15 en þá hafði verið ákveðið að taka stjórnarskrármálið af dagskrá, enda sá stjórnarliðið, að það kæmist ekki upp með að breyta stjórnarskránni á þennan óvandaða hátt. Þingstörfum lauk og var fundum alþingis frestað fram að kosningum um klukkan 21.00.
Á síðustu klukkustundum þinghaldsins var þröngvað í gegn frumvarpi um að gera kaup á vændi refsiverð. Lögfesting slíkrar refsingar á uppruna í Svíþjóð og hefur breiðst til nokkurra landa, þar sem vinstrimenn hafa náð meirihlutavaldi í þjóðþingum. Markmiðið er sagt vera að berjast gegn mansali. Í sama anda voru hugmyndir stjórnarliða um að breyta lögum á þann veg, að nektardans yrði bannaður. Fallið var frá þeim áformum.
Þá er þingsetu minni lokið. Ég hef kunnað vel við alþingi sem vinnustað. Starfsmenn þingsins eru mjög hæfir og sinna störfum sínum af alúð og metnaði. Mötuneyti þingsins er til mikillar fyrirmyndar.
Síðustu vikur voru árangursríkar á þingi, úr því að okkur sjálfstæðismönnum tókst að hindra framgang stjórnarskrármálsins. Einhugur í okkar röðum í andstöðu við málið var mikill. Guðbjartur Hannesson, forseti alþingis, sagði í útvarpsfréttum, að sigur okkar í málinu væri „áfall“ fyrir ríkisstjórnina og er það orð að sönnu. Framvinda málsins og endalok þess sýna, hve Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, á erfitt með að horfast í augu við, að henni tekst ekki að þvinga allt fram, sem hún vill.
Vegna vændislaganna bendi ég á það, sem Gunnlaugur Júlíusson segir um málið á vefsíðu sinni. Það má lesa hér fyrir neðan og er ég sammála þessu viðhorfi:
Lesa meiraFimmtudagur, 16. 04. 09.
Sérnefnd um stjórnarskrármál kom saman til fundar klukkan 08.15 undir formennsku Lúðvíks Bergvinssonar, Samfylkingu. Fundurinn stóð í rúma klukkustund og þá var gert hlé á honum fram að hádegishléi á þingstörfum. Í því hléi var fyrst efnt til þingflokksfunda kl. 13.00, klukkan 13.30 hittust formenn stjórnmálaflokkanna og klukkan 14.00 kom sérnefndin saman.
Á fundi sérnefndarinnar kynntum við sjálfstæðismenn þessa tillögu:
„Alþingi ályktar að kjósa hlutfallskosningu 25 manna nefnd sem hafi það verkefni að leggja fyrir Alþingi tillögu að endurskoðaðri stjórnarskrá í tæka tíð fyrir 17. júní 2011 svo að álykta megi um hana á hátíðarfundi Alþingis í tilefni af 200 ára afmæli Jóns Sigurðssonar.“
Tillagan hlaut ekki hljómgrunn hjá meirihluta nefndarinnar. Við lögðum einnig fram breytingartillögur við 1. og 2.gr frv. og hlutu þær ekki heldur neinn hljómgrunn. Við svo búið var nefndarfundi slitið og sendum við sjálfstæðismenn frá okkur svofellt álit:
„Við umræður í nefndinni lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram hugmynd að efnislegri sátt um 1. og 2. gr. frumvarpsins eins og sjá má á breytingartillögum minni hlutans. Þá var til viðbótar lögð fram tillaga til sátta um heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar. Með samþykkt hennar væri lagður grunnur að vandaðri heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar í anda umræðunnar í þinginu undanfarna mánuði.
Því miður sló meiri hlutinn á útrétta sáttahönd sjálfstæðismanna í öllum framangreindum liðum.“
Um klukkan 16.00 sté Birgir Ármannsson, sérnefndarmaður okkar sjálfstæðismanna, í ræðustól í þingsalnum og greindi frá niðurstöðum í nefndinni og tillögum okkar sjálfstæðismanna. Þá kvaddi Siv Friðleifsdóttir, sérnefndarmaður Framsóknarflokksins eftir brottför Valgerðar Sverrisdóttur, sér hljóðs og réðst á okkur sjálfstæðismenn af óvenjulegum ofsa og bar á okkur sakir, sem áttu ekki við nein rök að styðjast. Hún villti einnig um fyrir Össuri Skarphéðinssyni, utanríkisráðherra, og datt hann í þann pytt að trúa Siv. Þau héldu því fram, að við sjálfstæðismenn vildum ekki hafa ákvæði í stjórnarskrá um bann við að selja eða láta varanlega af hendi náttúruauðlindir, sem eru á hendi ríkisins, af því að þær eru ekki í einkaeign. Í tillögu okkar segir þvert á móti: „Slíkar auðlindir má hvorki selja né láta varanlega af hendi.“
Lesa meira
Miðvikudagur, 14. 04. 09.
Þingfundur hófst klukkan 10.30 og nú voru önnur mál á dagskrá en stjórnarskrármálið. Niðurstaða næturfundar á þingi hafði orðið sú að vísa málinu til sérnefndar að nýju, án þess að ljúka 2. umræðu um málið, sem þýðir, að við sjálfstæðismenn getum tekið þráðinn upp að nýju í umræðunum, ef svo ber undir.
Vandræðagangur stjórnarliðsins á þingi er með eindæmum og raunar stórundarlegt, að Jóhönnu Sigurðardóttur takist ekki að ljúka þingi, þegar aðeins rúm vika er til kosninga. Ég held, að engum hafi nokkru sinni dottið í hug, að unnt væri að standa þannig að þingstörfum. Guðbjartur Hannesson, forseti alþingis, hefur enga stjórn á framvindu mála.
Lúðvík Bergvinsson, alþingismaður, heldur utan um daglegan þátt þingstarfa fyrir Samfylkinguna. Hann er formaður þingflokks forsætisráðherra og forseta alþingis, en virðist ekki frekar en þau hafa burði til að leiða þingstörfin til lykta.
Undarlegt er, að þessi einstæði vandræðagangur endurspeglist ekki í fréttum fjölmiðla, en þá er til þess að líta, að aðeins fréttastofa RÚV heldur úti þingfréttaritunum og þeim finnst þessi upplausn lokadaga þings fyrir kosningar greinilega ekki fréttaefni.
Ingólfur Guðbrandsson, tengdafaðir minn, var kistulagður síðdegis. Blessuð sé minning hans.
Þriðjudagur, 14. 04. 09.
Alþingi kom saman eftir páskahlé síðdegis í dag. Ég var fyrstur ræðumanna Sjálfstæðisflokksins um breytingu á stjórnarskránni, en þráðurinn var tekinn upp frá því fyrir páska. Ég sagði mundu nýta mér málfrelsi mitt fram að kosningum og þingrofi 25. apríl til að standa vörð um alþingi og vald þess til að breyta stjórnarskránni og aldrei samþykkja, að þetta vald yrði framselt til stjórnlagaþings. Alþingi yrði ekki sett í annað sæti með mínum stuðningi. Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, veitti mér andsvar og sagði augljóst, að „málþófsflokkurinn“ væri að sigra í umræðum um stjórnlagaþingið og ég væri að syngja „svanasöng liðins tíma“. Ég sagðist stoltur syngja þann söng til stuðnings alþingi og heiðri þess. Það yrði ekki mitt síðasta verk á þingi að ljá niðurlægingu alþingis stuðning og hvatti ég kjósendur til að hafna þeim frambjóðendum í komandi kosningum, sem vildu vega að virðingu.
Ellert B. Schram, þingmaður Samfylkingar, spurði mig eftir eina af ræðum mínum, hvort ég vildi stuðla að sátt um stjórnarskrármálið með þeirri aðferð, að við þingmenn Sjálfstæðisflokksins færum af mælendaskrá og sérnefnd um málið kæmi saman til að leita samninga um aðra þætti frumvarpsins en stjórnlagaþingið, það yrði greinilega aldrei samkomulagsmál af okkar hálfu. Ég sagðist ekki mundu samþykkja að mælendaskrá yrði afmáð, en mín vegna mætti gera hlé á 2. umræðu og halda fund í sérnefndinni. Ég vildi halda mælendaskránni vegna framkomu meirihluta sérnefndarinnar við okkur sjálfstæðismenn, ég treysti ekki meirihlutanum.
Rétt fyrir klukkan 17.00 var gert hlé á þingfundi vegna þingflokksfunda. Þá lá fyrir, að meirihlutinn hafði fallið frá ákvæðinu um stjórnlagaþing. Kanna ætti, hvað yrði um önnur ákvæði stjórnlagafrumvarpsins. Þegar fundir hófust að nýju eftir þetta hlé breytti forseti dagskránni og tók fyrir önnur mál. Þótt stjórnarskrármálið sé enn á dagskrá þingsins, hefur verið fallist á þau sjónarmið okkar sjálfstæðismanna, að önnur mál sé brýnna að ræða. Úr því sem komið er sé ég engan tilgang í því að taka stjórnarskrármálið aftur á dagskrá, nema það vaki fyrir forseta alþingis, að þing sitji fram að kjördegi.
Mánudagur, 13. 04. 09.
Umræður um fjármál stjórnmálaflokkanna halda áfram. Í dag hefur komið fram á visir.is, að þau Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Össur Skarphéðinsson gengu bæði sem formenn Samfylkingarinnar til fjársterkra aðila og fyrirtækja og óskuðu eftir fjárstuðningi við flokkinn. Þetta er fjáröflunarleið, sem aldrei hefur tíðkast hjá Sjálfstæðisflokknum, enda er hún í raun mun ámælisverðari heldur en hve mikið fé safnast í þágu flokkanna.
Svandís Svavarsdóttir skipar efsta sæti vinstri-grænna hér í Reykjavík suður. Hún hefur nú látið í veðri vaka, að keppinautur sinn í efsta sæti sjálfstæðismanna í Reykjavík suður, Guðlaugur Þór Þórðarson, hafi þegið mútur í tengslum við REI-hneykslið. Þessar alvarlegu ásakanir lúta að því, að lög hafi verið brotin.
Kosningabaráttan hér í kjördæminu er að taka á sig nýstárlegan svip. Spyrja má, hvort ásakanir Svandísar í garð Guðlaugs Þórs falli ekki frekar undir dómara en okkur háttvirta kjósendur.
Sunnudagur, 12. 04. 09.
Í dag skrifaði ég pistil um heiður Sjálfstæðisflokksins og ofurstyrkina og má lesa hann hér. Ég ætla því ekki að ræða það mál frekar að sinni. Þó get ég ekki stillt mig um að segja, að verið er að elta villuljós í málinu, ef spurningarnar snúast um hlut Kjartans Gunnarssonar að því, eftir að hann var hættur sem framkvæmdastjóri flokksins eða hvernig samskiptum okkar Agnesar Bragadóttur var háttað á Morgunblaðinu, þegar ég var þar aðstoðarritstjóri fyrir tæpum 20 árum. Í báðum tilvikum hefur þetta ljós verið kveikt af Sveini Andra Sveinssyni, hrl., sem gengur fram fyrir skjöldu til að verja málstað Guðlaugs Þórs Þórðarsonar. Með því er greinilega ætlunin að draga athygli frá kjarna málsins.
Laugardagur, 11. 04. 09.
Fjölmenn útför var frá kirkjunni að Breiðabólstað í Fljótshlíð í fögru veðri, þegar Jón Kristinsson, bóndi í Lambey, landsfrægur myndlistamaður, var jarðsettur af séra Önundi Björnssyni. Síðan var boðið til Goðalands, þar sem hangikjöt var á borðum.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, telur myndina af ofurstyrkjum FL Group og LÍ til flokksins vera orðna svo skýra, að unnt sé að átta sig til fullnustu á málinu. Þetta sagði hann í beinni útsendingu á öllum fréttastöðvum í kvöld. Þrátt fyrir framvindu málsins í dag, þar sem tveir menn, Þorsteinn M. Jónsson, þáv. varaformaður stjórnar FL Group, og Steinþór Gunnarsson, þáv. yfirmaður verðbréfamála hjá Landsbanka Íslands, lýstu yfir að hafa rekið erindi fyrir Guðlaug Þór Þórðarson, alþingismann, við fjáröflun gagnvart FL og LÍ, birti sjónvarp ríkisins samtal við Gunnar Helga Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við HÍ, sem var greinilega tekið upp fyrir þessa atburðarás alla. Dómar prófessorsins og niðurstöður sönnuðu fallvaltleika skyndiálita af þessu tagi.
Í fréttum Stöðvar 2 var sagt, að Guðlaugur Þór teldi, að ákveðin öfl innan Sjálfstæðisflokksins hefði unnið gegn sér. Lýsti hann þessu þannig:
„Það að láta Agnesi Bragadóttur fjalla um mín mál er álíka hlutlaust og ég myndi fjalla um málefni Ögmundar Jónassonar... Ég held að það þekki það allir hún hefur ekki farið dult með sínar pólitísku skoðanir og ég hef helst ekki viljað ræða það."
Í sömu andrá og þetta var sagt, var sýnd mynd af mér í ræðustól á landsfundi Sjálfstæðisflokksins og tók Stöð 2 þannig undir þann áróður Sveins Andra Sveinssonar, hrl., málsvara Guðlaugs Þórs, að Agnes væri marklaus, af því að við hefðum starfað saman á Morgunblaðinu fyrir tæpum tveimur áratugum! Hvers vegna ætli Sveinn Andri hafi ekki nefnt Ólaf Stephensen, ritstjóra Morgunblaðsins, til sögunnar eða birt mynd af honum?
Föstudagur, 10. 04. 09.
Veðurblíða var mikil í Fljótshlíðinni, Eyjafjallajökull skartaði sínu fegursta auk þess sem sást inn á Mýrdalsjökul og Þríhyrningur dró úr norðan áttinni.
Andri Óttarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, sagði af sér störfum. Kjartan Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, hvatti þá, sem leituðu eftir styrkjum frá FL Group og Landsbanka Íslands til að segja til nafns, hann sagðist vita, hver ætti þar hlut að máli.
Þingflokkur sjálfstæðismanna kom saman, sem er líklega einsdæmi föstudaginn langa, og lýsti stuðningi við Bjarna Benediktsson, formann flokksins, og veitti honum umboð til að grípa til þess, sem hann teldi nauðsynlegt til að vinna flokkinn frá núverandi stöðu.
Fimmtudagur, 09. 04. 09.
Umræður um 55 milljóna króna styrk tveggja stórfyrirtækja til Sjálfstæðisflokksins á árinu 2006 tóku nýja stefnu í dag, þegar Morgunblaðið birti frétt eftir Agnesi Bragadóttur um, að Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður, hefði haft milligöngu um að afla styrkjanna. Guðlaugur Þór segir þetta ekki rétt, hann hafi haft samband við menn, sem óskuðu eftir styrkjunum. Þá ræðst hann harkalega á Agnesi Bragadóttur og telur hana fara með rangt mál.
Sveinn Andri Sveinsson, hæstaréttarlögmaður, tekur upp þykkjuna fyrir Guðlaug Þór á Facebook-síðu sinni og segir:
„Hið rétta er að GÞÞ lá spítala vegna brunasára á þessum tíma. Miklir fjárhagslegir erfiðleikar voru hjá xD á þessum tíma og báðu núv. og fyrrv. framkvstj xD GÞÞ og aðra fulltrúa flokksins að leggja fjáröflun lið. GÞÞ hringdi í 2-3 kunningja sína í viðskiptalífinu og bað þá um að safna e-m peningum og snúa sér með það til skrifstofu flokksins. Meiri voru ekki hans afskipti. Agnes Bragadóttir vann í árafjöld undir stjórn björns Bjarna og er mjög partial þegar kemur að foringjum xD. Henni er bara illa við GÞÞ eftir að hann lagð vin hennar BB að velli. Og NB - hún hringdi ekki einu sinni í GÞÞ til að bera undir hana "skúbbið" - það hentaði ekki hennar hagsmunum. Féll á inngangsprófi í blaðamennsku.“
Agnes Bragadóttir vann aldrei undir minni stjórn á Morgunblaðinu. Ég stjórnaði erlendu fréttadeildinni og skrifaði ritstjórnardálka. Sé annað í þessum skrifum Sveins Andra reist á jafntraustum grunni og þessar fullyrðingar hans um stjórn mína á Agnesi, gef ég ekki mikið fyrir sannleiksást hans. Hvers vegna ætli Sveinn Andri hafi ekki borið þessar fullyrðingar undir mig, áður en hann setti þær á prent? Sveinn Andri fellur á eigin bragði.
Miðvikudagur, 08. 04. 09.
Þingfundur hófst klukkan 10.00 á umræðum um stjórnarskrármálið. Í ræðu minni vakti ég athygli á því, hve mikið skilningsleysi og einstefna hefði komið fram í ræðu Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, í eldhúsdagsumræðum kvöldið áður. Það væri borin von, að við sjálfstæðismenn myndum nokkru sinni samþykkja, að alþingi yrði sett til hliðar og stjórnarskrárvaldið af því tekið.
Miðstjórn Sjálfstæðisflokksins kom saman til fundar klukkan 12.15 í Valhöll. Á fundinum var meðal annars rætt um frétt á Stöð 2 kvöldið áður um, að FL Group hefði veitt Sjálfstæðisflokknum 30 milljón króna fjárstuðning 29. desember 2006, þremur sólarhringum áður en lög um fjárstuðning við stjórnmálaflokka gengu í gildi, lög, sem bönnuðu svo háa styrki.
Ég lýsti þeirri skoðun, að reyndist þetta rétt, væri ekki unnt undir því að sitja, slíkur fjárstuðningur bryti í bága við allar hefðir Sjálfstæðisflokksins. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist vilja kynnast viðhorfum miðstjórnarmanna og átta sig sem best á öllum hliðum málsins, áður en hann lýsti afstöðu sinni.
Í ljósi ágreinings á alþingi um forgangsröð á dagskrá þingsins gerðist hinn sögulegu atburður síðdegis, að þingforseti tók stjórnarskrármálið af dagskrá til að ræða önnur mál. Með þessu unnum við sjálfstæðismenn sigur í ágreiningi okkar við stjórnarflokkana um dagskrá þingsins.
Þingflokkur sjálfstæðismanna hittist klukkan 16.00 og þar skýrði Bjarni Benediktsson frá gangi mála vegna 30 milljónanna frá FL Group og hann mundi senda frá sér yfirlýsingu fyrir fréttir sjónvarps klukkan 19.00.
Ég hélt austur í Fljótshlíð og hlustaði á fréttir í bílnum og þar á meðal um 25 milljón króna styrk til Sjálfstæðisflokksins frá Landsbanka Íslands og að Geir H. Haarde, fyrrverandi formaður flokksins, tæki á sig ábyrgð vegna þess, að flokkurinn hefði tekið á móti styrkjunum.
Bjarni Benediktsson sagði í fréttum, að hann hefði ákveðið, að Sjálfstæðisflokkurinn greiddi 55 milljónir króna til baka, móttaka þessa fjár hæfði ekki Sjálfstæðisflokknum, auk þess mundi hann beita sér fyrir því, að birt yrði skrá yfir alla styrki til flokksins á árinu 2006, sem væru yfir eina milljón krónur.
Sjónvarpið sýndi í kvöld framboðsfund úr suðvestur kjördæmi og Bjarni Benediktsson var þar meðal frambjóðenda annarra flokka. Á mbl.is má lesa:
„Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði á opnum borgarafundi í Hafnarfirði í kvöld að flokkurinn muni skila styrkjum frá FL Group og Landsbankanum til lögaðila. Það þýðir að Stoðir fá 30 milljónir króna og skilanefnd gamla Landsbankans 25 milljónir kr.
Bæði Stoðir og gamli Landsbankinn eru í greiðslustöðvun og Stoðir hafa fengið heimild til að leita nauðasamninga.“
Lesa meira
Þriðjudagur, 07. 04. 09.
Dagurinn hófst á fundi í utanríkismálanefnd alþingis klukkan 08.00, þar sem Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, og Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, fóru yfir skýrslu fjárlaganefndar neðri deildar breska þingsins um hrun íslensku bankanna og áhrif þess á innistæður manna og félaga í Bretlandi.
Í skýrslunni leggja þingmennirnir lykkju á leið sína, til að lýsa yfir því, að Alistair Darling, fjármálaráðherra Breta, hefði farið rangt með, þegar hann túlkaði símtal sitt við Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, á þann veg, að Árni hefði sagt íslensku ríkisstjórnina ætla að hlaupa frá skuldbindingum sínum vegna innistæðutrygginga. Þá telja þeir einnig, að breska ríkisstjórnin hafi gengið fram af of mikilli hörku við að setja Ísland á hryðjuverkalista vegna bankahrunsins.
Mér þóttu lýsingar íslensku ráðherranna á því, sem þeir ætluðu að gera heldur rýr, en að loknum ríkisstjórnarfundi var frá skýrt áformum um að senda Gordon Brown bréf.
Lesa meiraMánudagur, 06. 04. 09.
Umræður um breytingu á stjórnarskránni héldu áfram á alþingi í dag. Við upphaf þingfundar í morgun fluttum við sjálfstæðismenn dagskrártillögu um, að umræðum um stjórnarskrármálið yrði slegið á frest en þau mál tekin til umræðu, sem snertu hag heimila og fyrirtækja. Stjórnarsinnar mega ekki heyra á slíkt minnst og var tillagan felld, loksins þegar hún var borin upp - en það var gert, eftir að stjórnarsinnar höfðu smalað nægum þingmannafjölda í húsið til að geta fellt tillöguna.
Einkennilegt var að hlusta á Guðbjart Hannesson, forseta alþingis, lýsa afgreiðslu dagskrártillögunnar á þann veg, að í henni hafði falist traustsyfirlýsing á hann sem forseta. Að tillagan var flutt er til marks um, að Guðbjarti mistekst með öllu að halda þannig á stjórn þingsins, að þar ríki nauðsynlegt jafnvægi til þess að mál nái fram að ganga. Er grátbroslegt að hlusta á stjórnarsinna kalla á sátt í stjórnarskrármálinu en neita síðan að sættast um dagskrá þingsins. Hvernig er unnt að semja við menn um efni stjórnarskrár, þegar þeir geta ekki samið um dagskrá þingsins?
Yfir þessu háttalagi stjórnarmeirihlutans á alþingi svífur illur andi. Jóhanna Sigurðardóttir vill ekki venjulega kosningabaráttu, henni finnst þægilegast að þurfa ekki að fara nema á milli stjórnarráðshússins og þinghússins. Guðbjartur Hannesson stjórnar þinginu á þann veg sem Jóhönnu þóknast. Hún er fyrsti flutningsmaður þessa óhönduglega stjórnarskrárfrumvarps og heimtar afgreiðslu þess, hvað sem tautar og raular.
Guðbjartur Hannesson talaði um stjórnarskrárbreytingarnar á þann veg í kosningasjónvarpi frá norðvesturlandi, að hann áttar sig greinilega ekki á efni þeirra. Hann heldur, að frumvarpið greiði fyrir aðild að Evrópusambandinu! Þvert á móti hefur verið bent á, að ákvæði 1. gr. frumvarpsins sé þess eðlis, að hún brjóti í bága við hugsanlega aðild að Evrópusambandinu.
Sunnudagur, 05. 04. 09.
Ég skrifaði í dag pistil hér á síðuna um heiður alþingis og heiður Íslands. Ríkisstjórnin vegur að heiðri alþingis með flausturslegum tillögum um breytingu á stjórnarskránni, þar sem vald alþingis er stórskert. Ríkisstjórnin nýtti ekki leiðtogafund NATO í Strassborg/Kehl til að mótmæla ákvörðun Gordons Browns, forsætisráðherra Breta, um að beita Íslendinga hryðjuverkalögum. Í stað mótmæla var Össur Skarphéðinsson, fulltrúi ríkisstjórnarinnar á NATO-fundinum, að eigin sögn með „kurteisishjal“ við Gordon Brown.
Barack Obama, Bandaríkjaforseti, sagði í opinberri ræðu um afvopnunarmál í Prag í morgun, að refsa yrði N-Kóreu fyrir að senda langdræga eldflaug upp í geiminn skömmu fyrir ræðuna [eldflauginn brotnaði og féll til jarðar]. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna var kallað til fundar vegna málsins en Obama sagði það ekki nægja, meira yrði að gera gegn þeim, sem brytu reglur á þennan veg.
Anders Fogh Rasmussen sagði af sér embætti forsætisráðherra Danmerkur, eftir að hafa verið valinn til að gegna stöðu framkvæmdastjóra NATO. Augljóst var, að hann fengi stöðuna, eftir að hann kynnti í síðustu viku, að hann sæktist eftir henni. Tyrkir drógu stuðning sinn við Fogh eins lengi og þeim var fært. Þetta er nefnt „posturing“ á ensku, það er setja sig í stellingar. Forsætisráðherra sækir ekki um starf opinberlega, án þess að vera viss um að fá það.
Barack Obama flutti margar ræður í Evrópuferð sinni. Álitsgjafar í Bandaríkjunum segja, að forsetinn og eiginkona hans Michelle hafi greinilega náð til evrópsks almennings. Á hinn bóginn hafi Obama ekki tekist að ná því fram á G20 leiðtogafundinum um fjármálakrísuna, sem hann ætlaði.
Vegna umræðna um Borgarnesræðu, Kaupþingsmenn, Davíð og fleira benti glöggur lesandi síðu minnar mér á að endurbirta þennan pistil http://www.bjorn.is/pistlar/nr/2606?CacheRefresh=1
Laugardagur, 04. 04. 09.
Þingfundur hélt áfram í dag og var einkum rætt um stjórnarskrármál að tilskipun Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra. Hún heldur þingstörfum í gislingu með kröfunni um, að stjórnarskármálið sé á dagskrá.
Ég var ekki á þingi heldur lagði síðustu hönd á ræðu, sem ég flutti klukkan 14.00, þegar þess var minnst á málþingi Samtaka um vestræna samvinnu (SVS) og Varðbergs, að 60 ár eru liðin, frá því að Atlantshafsbandalagið (NATO) var stofnað. Auk fulltrúa Framsóknarflokks, Samfylkingar, Sjálfstæðisflokks og utanríkisráðuneytis sagði Svanhildur Bogadóttir, borgarskjalavörður, frá skjalasafni föður míns og broti af því, sem það hefur að geyma um aðild Íslands að NATO. Þá var Guðmundur H. Garðarsson, fyrrv. alþingismaður, gerður að heiðursfélaga Varðbergs.
Í dag var sagt frá skýrslu úr breska þinginu, þar sem nefnd hefur kannað áhrif íslenska bankahrunsins í Bretlandi og meðal annars komist að þeirri niðurstöðu, að Alistair Darling, fjármálaráðherra Breta, geti ekki vísað til símtals við Árna Mathiesen, fjármálaráðherra, til skýringar á ákvörðun um að beita hryðjuverkalögum gegn banka Kaupþings í Bretlandi. Með því fellur enn ein ásökun gegn ráðherra Sjálfstæðisflokksins á síðustu mánuðum.
Því meiri upplýsingar. sem birtast, þeim mun erfiðara er að skilja ákvörðun Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, utanríkisráðherra, og samstarfsmanna hennar um að leggja til hliðar allar kröfur þess efnis, að stefna bresku ríkisstjórninni og kalla hana fyrir dómstóla til að verja ákvörðun sína. Ingibjörg Sólrún vildi reka málið á pólitískum forsendum, hún hafnaði því, að látið yrði á lögfræðileg sjónarmið reyna.
Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur, situr nú á þingi fyrir Samfylkingu sem varaþingmaður. Hún var aðstoðarmaður Ingibjargar Sólrúnar og sagði mikils virði, að þingnefndir gætu kynnt sér mál og lét eins og það gæti komið í stað þess, að Íslendingar héldu lögmætum rétti sínum gegn Bretum til haga.
Í fréttum sjónvarps ríkisins var sagt frá því, að Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, hefði hitt Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, á leiðtogafundi NATO í Strassborg en milli þeirra hefði aðeins fallið „kurteisishjal“ - er það í samræmi við annað, þegar litið er til hagsmunagæslu ráðherra Samfylkingarinnar gagnvart Bretum.
Föstudagur, 03. 04. 09.
Umræður um stjórnarskrármálið héldu áfram á alþingi í dag, þar sem Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, vill ekki umræður um önnur mál á dagskrá þingsins. Er með ólíkindum, að Guðbjartur Hannesson, forseti alþingis, sýni það ósjálfstæði, sem birtist í stjórn hans á fundum þingsins. Hann hefur beinlínis viðurkennt, að eiga þar ekki síðasta orð heldur einhverjir aðrir og síðan hafnar hann öllum óskum um samráð og samvinnu. Er þetta þeim mun einkennilegra fyrir þá sök, að frumvarpið, sem Jóhanna vill hafa sem forgangsmál, snýst um að svipta alþingi stjórnarskrárvaldi, stíga til hliðar fyrir annað þing.
Í ræðu í dag las ég fyrir þingmenn úr forystugrein eftir ritstjóra Tímarits lögfræðinga, þar sem varað er við því, að stjórnmálamenn og þá sérstaklega þingmenn gangi fram af fyrirhyggjuleysi við lagasetningu. Orðin eru bein viðvörun til þingmanna og þá ekki síst, þegar verið er með flausturslegum hætti að fjalla um breytingar á sjálfri stjórnarskránni. Ritstjórinn, sem ritar þessi afdráttarlausu viðvörunarorð, er Róbert R. Spanó, sem nú er starfandi umboðsmaður alþingis.
Eftir að ég hafði lesið þessi viðvörunarorð Róberts, lagði Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, til við forseta alþingis, að umboðsmaður alþingis yrði kallaður til fundar við þá, sem bera ábyrgð á hinni makalausu tillögu um breytingu á stjórnarskránni, til að benda þeim á, hvernig staðið skuli að vandaðri málsmeðferð.
Áður en ég tók til máls var vakin athygli á því, að enginn flutningsmanna frumvarpsins um breytingu á stjórnarskránni var í þinghúsinu og var mælst til þess, að þeir yrðu við umræðuna. Þá kom í ljós, að þrír þeirra voru að búa sig undir sjónvarpsviðræður forystumanna flokkanna. Forseti úrskurðaði, að ég skyldi tala, þrátt fyrir fjarveru þriggja flutningsmanna frumvarpsins. Þótti mér þar gengið fram af ósanngirni og óskynsemi eins og á við um svo margar ákvarðanir forseta þingsins að fyrirmælum Jóhönnu Sigurðardóttur.
Fimmtudagur, 02. 04. 09.
Þingfundur hófst klukkan 11.00 á óundirbúnum fyrirspurnum til ráðherra. Hálftíma síðar skyldu hefjast umræður um breytingar á stjórnarskránni. Dagskrá þingsins var hins vegar þannig úr garði gerð, að við sjálfstæðismenn töldum brýnna að mál eins og nýtt álver við Helguvík yrði rætt á undan stjórnarskármálinu, sem snertir á engan hátt þann vanda, sem við er að glíma í þjóðfélaginu. Lögðum við hart að Guðbjarti Hannessyni, forseta alþingis, að beita sér fyrir samkomulagi um dagskrána með því að gera hlé á fundi og hitta þingflokksformenn að máli. Guðbjartur varð ekki við ósk okkar og var því rætt um fundarstjórn hans fram að hádegishléi. Því miður verður að segja þá sögu eins og hún er, að undir forsæti Guðbjarts eru mikil lauastök á stjórn þingfunda og ákvörðunum um dagskrá og í raun er engu líkara, en hann sitji og standi eins og ríkisstjórnin vill án tillits til þess, sem best er og skynsamlegast miðað við eðlilega framvindu þingmála á lokaspretti þingstarfa.
Umræður um stjórnarskrármálið hófust rúmlega 14.30 og að lokinni framsöguræðu Valgerðar Sverrisdóttur, formanns sérnefndar um stjórnarskrármál, fyrir hönd meirihluta sérnefndarinnar talaði ég í 60 mínútur sem framsögumaður minnihlutans og mun ég birta ræðu mína hér á síðunni, þegar ræðuritun þingsins sendir hana frá sér.
Ég átti ekki nægilega sterk orð til að lýsa andúð minni á þeirri ætlan meirihlutans að svipta alþingi frumkvæðisvaldi við breytingu á stjórnarskránni. Taldi ég ákvörðun um þetta jafngilda broti á drengskaparheiti þingmanna um hollustu við stjórnarskrána.
Þau boð berast frá Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, að hún sjái enga ástæðu til að taka þetta mál af dagskrá, þótt nú séu 26 á mælendaskrá og hver hafi heimild til að tala í 40 mínútur í fyrri umferð umræðunnar. Þvermóðska ráðherrans er í raun óskiljanleg eins og viljinn til að rjúfa 50 ára hefð um, að samstaða sé milli stjórnmálaafla um breytingar á stjórnarskránni. Öllum venjulegum mönnum hlýtur að vera erfitt að skilja, hvað kallar á þessar breytingu á stjórnarskránni núna. Ástæðan er þó einföld: Það er verið að kaupa Framsóknarflokkinn til að verja ríkisstjórnina vantrausti. Málið tengist ekki bankahruninu á nokkurn veg.
Miðvikudagur, 01. 04. 09.
Sérnefnd um stjórnarskrármál kom saman til 11. fundar klukkan 12.00. Engir gestir voru boðaðir á fundinn og því var hann ætlaður nefndarmönnum til samræðu. Strax í upphafi fundar gat Valgerður Sverrisdóttir, nefndarformaður, þess, að hún ætlaði að ljúka störfum nefndarinnar á þessum fundi.
Eftir að ég hafði gert grein fyrir viðhorfum okkar sjálfstæðismanna til samkomulags í nefndinni, var augljóst, að allt annað vakti fyrir Valgerði en ræða málið til hlítar með samkomulag að leiðarljósi, henni var mest í mun að ljúka fundinum, hvað sem hver sagði og rökin voru dæmalaus „af því bara“ rök. Ég tel, að þessi asi hafi byggst á ótta Valgerðar við, að óskamál hennar, að svipta Alþingi valdi til að breyta stjórnarskránni, yrði fyrst til að hverfa, ef nýr meirihluti myndaðist í nefndinni. Stjórnarliðar telja sig bundna af loforði við framsóknarmenn um þetta stjórnlagaþing, þótt augljóst sé, að þeim er það í raun þvert um geð. Að ákvæðið sé enn inni í frumvarpinu minnir helst á eltingaleik ráðherra í Ísrael við flokka sérvitringa á Knesset, þingi Ísraels, til að halda völdum. Allur heimurinn hefur oftar en einu sinni fylgst með slíkum eltingaleik af forundran.
Í upphafi þingfundar lýsti ég niðurstöðu í sérnefndinni og harmaði, að ekki skyldi reynt til þrautar að ná þar sáttum. Sé litið 80 ár aftur í tímann, er þetta í þriðja sinn, sem glímt er við afgreiðslu á stjórnarskrárbreytingu í þinginu án samkomulags allra flokka. 1934 og 1959 skipaði Framsóknarflokkurinn sér gegn breytingu á kjördæmaskipan, enda var hún gerð til að jafna kosningarétt, sem jafnframt dró úr forskoti Framsóknarflokksins í krafti ólýðræðislegra reglna. Ég man vel eftir hinum hatrömmu deilum um málið 1959.
Að bera þessi tvö sögulegu tilvik við það, sem er að gerast núna, stenst ekki og þau geta ekki orðið framsóknarmönnum nein afsökun fyrir þeirri einstefnu, sem þeir hafa tekið. Væri málið ekki jafnalvarlegt og raun er, mætti hlæja að því, hvernig þingmenn vinstri-grænna og Samfylkingar láta framsóknarmaddömuna leiða sig í þessu máli. Alvarleikinn byggist á því, að hér er flausturslega og illa staðið að því að breyta stjórnarskránni auk þess sem verið að skapa nýtt og hættulegt fordæmi, sem getur leitt til enn meira ósættis, þegar fram líða stundir.
Það er einkennileg stefna við lagasetningu að líta þannig á, að skynsamlegt sé að stunda hana undir þeim formerkjum að „gefa“ einstökum þingmönnum afgreiðslu á einhverjum gælumálum þeirra og hundsa við það allar almennar leikreglur. Engu er líkara en nú eigi að „gefa“ Valgerði Sverrisdóttur stjórnarskrárbreytingu, af því að hún er að hætta á þingi. Til að hafa Atla Gíslason, þingmann vinstri-grænna, góðan, var frumvarpi hans um vændi böðlað athugunarlaust úr allsherjarnefnd þingsins og virðist eiga að leggja allt kapp á að samþykkja það fyrir þinglok.
Lesa meira