8.4.2009

Miðvikudagur, 08. 04. 09.

Þingfundur hófst klukkan 10.00 á umræðum um stjórnarskrármálið. Í ræðu minni vakti ég athygli á því, hve mikið skilningsleysi og einstefna hefði komið fram í ræðu Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, í eldhúsdagsumræðum kvöldið áður. Það væri borin von, að við sjálfstæðismenn myndum nokkru sinni samþykkja, að alþingi yrði sett til hliðar og stjórnarskrárvaldið af því tekið.

Miðstjórn Sjálfstæðisflokksins kom saman til fundar klukkan 12.15 í Valhöll. Á fundinum var meðal annars rætt um frétt á Stöð 2 kvöldið áður um, að FL Group hefði veitt Sjálfstæðisflokknum 30 milljón króna fjárstuðning 29. desember 2006, þremur sólarhringum áður en lög um fjárstuðning við stjórnmálaflokka gengu í gildi, lög, sem bönnuðu svo háa styrki.

Ég lýsti þeirri skoðun, að reyndist þetta rétt, væri ekki unnt undir því að sitja, slíkur fjárstuðningur bryti í bága við allar hefðir Sjálfstæðisflokksins. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist vilja kynnast viðhorfum miðstjórnarmanna og átta sig sem best á öllum hliðum málsins, áður en hann lýsti afstöðu sinni.

Í ljósi ágreinings á alþingi um forgangsröð á dagskrá þingsins gerðist hinn sögulegu atburður síðdegis, að þingforseti tók stjórnarskrármálið af dagskrá til að ræða önnur mál. Með þessu unnum við sjálfstæðismenn sigur í ágreiningi okkar við stjórnarflokkana um dagskrá þingsins.

Þingflokkur sjálfstæðismanna hittist klukkan 16.00 og þar skýrði Bjarni Benediktsson frá gangi mála vegna 30 milljónanna frá FL Group og hann mundi senda frá sér yfirlýsingu fyrir fréttir sjónvarps klukkan 19.00.

Ég hélt austur í Fljótshlíð og hlustaði á fréttir í bílnum og þar á meðal um 25 milljón króna styrk til Sjálfstæðisflokksins frá Landsbanka Íslands og að Geir H. Haarde, fyrrverandi formaður flokksins, tæki á sig ábyrgð vegna þess, að flokkurinn hefði tekið á móti styrkjunum.

Bjarni Benediktsson sagði í fréttum, að hann hefði ákveðið, að Sjálfstæðisflokkurinn greiddi 55 milljónir króna til baka, móttaka þessa fjár hæfði ekki Sjálfstæðisflokknum, auk þess mundi hann beita sér fyrir því, að birt yrði skrá yfir alla styrki til flokksins á árinu 2006, sem væru yfir eina milljón krónur.

Sjónvarpið sýndi í kvöld framboðsfund úr suðvestur kjördæmi og Bjarni Benediktsson var þar meðal frambjóðenda annarra flokka. Á mbl.is má lesa:

„Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði á opnum borgarafundi í Hafnarfirði í kvöld að flokkurinn muni skila styrkjum frá FL Group og Landsbankanum til lögaðila. Það þýðir að Stoðir fá 30 milljónir króna og skilanefnd gamla Landsbankans 25 milljónir kr.

Bæði Stoðir og gamli Landsbankinn eru í greiðslustöðvun og Stoðir hafa fengið heimild til að leita nauðasamninga.“

 

 

 

Enginn vafi er á því, að þetta forkastanlega mál hefur skaðað Sjálfstæðisflokkinn í fyrstu atrennu. Ég er hins vegar sannfærður um, að það hvetur enn til þess að flokkurinn velti hverjum steini í sínu innra starfi og styrkist þannig, auk þess sem Bjarni Benediktsson stóðst þessa þungu prófraun.