Dagbók: júní 2016

Fimmtudagur 30. 06. 16 - 30.6.2016 11:00

Þeim sem fylgst hefur með framvindu mála og umræðum um þróun öryggismála á N-Atlantshafi kemur ekki á óvart að stjórnvöldum á Íslandi og í Bandaríkjunum þyki tímabært að árétta pólitískan stuðning við aukin umsvif Bandaríkjahers á Íslandi með formlegri yfirlýsingu. Það var gert miðvikudaginn 29. júní í sameiginlegri yfirlýsingu Lilju D. Alfreðsdóttur utanríkisráðherra og Roberts OWorks, varavarnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Frétt utanríkisráðuneytisins um málið og yfirlýsinguna í heild má lesa hér.

Þarna er hvorki talað um fasta viðveru Bandaríkjahers á Íslandi né annað en starfsemi sem hefur verið stunduð héðan árum saman, það er loftrýmis- og kafbátaeftirlit. Í lýsingu á verkefnum flugvélanna er notað nýyrðið „fyrirflug“ sem er þýðing á enska orðin interception, það er þegar sendar eru orrustuþotur í veg fyrir ókunnar flugvélar sem ekki hafa tilkynnt flugumferðarstjórn ferðir sínar. Rússneskar hervélar haga sér á þann hátt en frá 2006 hafa um 110 rússneskar flugvélar flogið í átt að Íslandi án þess að fara inn fyrir 12 mílurnar.

Robert OWork sem ritaði undir yfirlýsinguna með Lilju var hér á landi í byrjun september 2015 og fór þá meðal annars á Keflavíkurflugvöll og kynnti sér aðstæður. Taldi hann að breyta yrði flugskýli 831 vegna nýrra kafbátaleitarflugvéla Bandaríkjamanna. Síðan ákvað bandaríska varnarmálaráðuneytið að ætla fé til breytinganna í fjárlögum fyrir 2017. Nú er síðan ritað undir sameiginlega pólitíska yfirlýsingu til að formfesta þetta eins utanríkisráðherra orðar það og í þágu gagnsæis.

Aukin viðvera orrustu- og kafbátaleitarvéla á Keflavíkurflugvelli leggur auknar skyldur á herðar Landhelgisgæslu Íslands sem annast umsýslu á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli fyrir utan að annast borgaralegan rekstur ratsjárkerfisins hér á landi. 

Í viðtali mínu við Lilju D. Alfreðsdóttur á ÍNN í gær, sem má sjá hér, spurði ég hana um framkvæmd nýju þjóðaröryggisstefnunnar sem nú hefur verið samþykkt hvort utanríkisráðuneytið gegndi öðru hlutverki en á vegum stefnumótunar og sagði hún svo ekki vera. Dagleg framkvæmd er í höndum borgaralegra stofnana innanríkisráðuneytisins. Hefur verið samið um málið milli ráðuneytanna. 

Utanríkisráðherra sagði að með yfirlýsingunni með Bandaríkjunum vildi hún auka gegnsæi. Ég tel að utanríkisráðherra og innanríkisráðherra ættu að rita undir sambærilega yfirlýsingu til að taka enn betur af skarið um verkaskiptingu í öryggismálum milli ráðuneyta þeirra og stofnana.

Miðvikudagur 29. 06. 16 - 29.6.2016 15:30

Í dag ræddi ég við Lilju D. Alfreðsdóttur utanríkisráðherra í þætti mínum á ÍNN. Hún hefur verið tæpa tvo mánuði í ríkisstjórninni og orðið að takast á við mörg mikilvæg málefni eins og nú síðast úrsögn Breta úr ESB. Áður starfaði Lilja að alþjóðamálum í Seðlabanka Íslands og þess vegna er forvitnilegt að heyra viðhorf hennar til alþjóða efnahagsmála.

Áður hefur verið vakið máls á því hér að einkennilegt hafi verið af biskupnum yfir Íslandi og vígslubiskupnum á Hólum að rita grein í Morgunblaðið og kvarta undan því að íslenskir embættismenn færu að lögum og alþjóðasamningum við ákvörðun í útlendingamálum. 

Nú hefur næsta skref verið stigið á sömu braut af þjónum þjóðkirkjunnar með því að breyta Laugarneskirkju í griðastað fyrir tvo unga Íraka sem dvöldust hér ólöglega og hafði því verið vísað úr landi. Þeir höfðu fengið viðvörun um brottvísunina og hvenær þeir yrðu sóttir af lögreglu og fluttir út á Keflavíkurflugvöll að morgni þriðjudags 28. júní. 

Hælisleitendurnir sátu með stuðningsmönnum í Laugarneskirkju þegar lögregla sótti þá. Þeir neituðu að fara að fyrirmælum hennar og voru þá beittir valdi. Stuðningsmennirnir reyndu að hindra lögregluna við skyldustörf hennar og aðrir tóku mynd af lögreglunni að störfum og hefur myndskeiði nú verið dreift um heiminn. Af fréttum ríkisútvarpsins má ráða að það sé gert í því skyni að gera á hlut lögreglunnar eða Íslendinga almennt.

Eins og oft áður er leitast við að bæta málstað hælisleitendanna með ósannindum, að þessu sinni um aldur þeirra. Þá er dregin upp sú mynd að þeim séu settir afarkostir með að flytja þá til Noregs þar sem fjallað verður um mál þeirra eins ber að gera lögum samkvæmt. 

Þeir sem jafnan hafa horn í síðu þjóðkirkjunnar, Siðmennt og Vantrú, lýsa nú ánægju með griðastaðinn í Laugarneskirkju og sömu sögu er að segja um stjórnleysingjasamtökin No Borders. 

Baráttan gegn lögmætum ákvörðunum stjórnvalda um málefni hælisleitenda er fyrir löngu komin í öngstræti. Hún tekur þess vegna á sig sífellt undarlegri myndir hvort heldur er um borð í flugvél á Keflavíkurflugvelli eða í Laugarneskirkju.

Þriðjudagur 28. 06. 16 - 28.6.2016 11:00

 

Paul Hayward, aðal-íþróttafréttamaður The Daily Telegraph, var í Nice að kvöldi mánudagsins 27. júní og fylgdist með karlalandsliði Íslands sigra landslið Englands 2:1 og binda þar með enda á þátttöku Englendinga í EM 2016. Hann skrifar grein í blað sitt í dag og hefst hún á þessum orðum:

„England: a country where governments crumble, markets collapse and the nation's football team loses a European Championship game to Iceland.

In the event of England's exit from Euro 2016, an obvious headline had been laid out: ‘Go in the name of cod, go' – aimed at Roy Hodgson. But there is no need to run it. Hodgson's reign as England manager was beyond untenable from the moment Iceland erupted in celebration and he quit without taking questions.

Iceland deserved every second, every laugh and kiss of the post-match cavorting. But their amazing achievement in earning a quarter-final against France cannot disguise the reality that this was England's most humiliating night in international football: far worse than the 1950 World Cup defeat to the USA in Belo Horizonte.“

Amy Lawrence, íþróttafréttamaður The Guardian,  hefur grein sína um örlög enska liðsins á þessum orðum:

 „Takk fyrir Island. Thank you Iceland. Thank you for Gudmundur Benediktsson's epic falsetto commentary, for bringing one-tenth of the population to France to take part in this odyssey, for making Cristiano Ronaldo uppity and reminding the rest of us of the essential valour of the little guy's right to his aspirations, for competing so fearlessly to defeat England, for blowing our minds. Thank you for your co-manager's other job in dentistry, your class and determination in searching for a first win at a major finals, your exemplary coaching system, your comradeship within the team, your inspired hothousing of young talent in a weather-beaten place. Thank you for showing us imaginative ways of doing things can bring extraordinary achievements.“

Ég geri enga tilraun til að snara þessum lofsamlegu ummælum á íslensku. Líklega hafa aldrei fleiri lesið um Ísland í enskum blöðum en núna. Ógjörningur er að átta sig á endanlegum áhrifum hinnar glæsilegu frammistöðu strákanna okkar.

 

.

Mánudagur 27. 06. 16 - 27.6.2016 12:00

Tvískinnungurinn innan borgarstjórnar Reykjavíkur undir forsæti Sóleyjar Tómasdóttur (VG) er yfirþyrmandi. Sóley er að vísu á leið úr borgarstjórn af persónulegum aðstæðum. Hún hverfur þaðan í skugga álits umboðsmanns borgarbúa frá 3. júní 2016 um ráðstöfun hennar á fjármunum Bílastæðasjóðs Reykjavíkurborgar til samtakanna Miðborgarinnar okkar.

Jakob Frímann Magnússon er framkvæmdastjóri samtakanna sem kynna sig á þann veg að þau séu samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni. Samstarfsaðilarnir séu m.a. Reykjavíkurborg, Bílastæðasjóður, Leigufélag Íslands og fjölmargir aðilar sem vilji stuðla að eflingu miðborgarinnar sem miðstöðvar verslunar, þjónustu og menningar.

Sóley Tómasdóttir og Halldór Auðar Svansson, borgarfulltrúi pírata, sátu  í stjórn Bílastæðasjóðs þegar hún tók ákvörðun um stuðning við Miðborgina okkar á þann hátt sem umboðsmaður borgarbúa telur óheimilan, hafi ákvörðun þeirra verið „verulega ámælisverð“ og þau hafi verið „grandsöm um ólögmæti“ þess sem þau gerðu, það er þeim hafi átt að vita að þau brutu gegn lögum með ákvörðun sinni.

Sóley Tómasdóttir og Halldór Auðar Svansson sitja í forsætisnefnd borgarstjórnar og bókuðu á fundi hennar 16. júní 2016:

 „Ekki er [...] hægt að fallast á að þeir kjörnu fulltrúar sem áttu hlut að ákvarðanatökunni, sem er tímabundin ráðstöfun sem ætlað er að draga úr óvissu í málaflokknum, hafi á nokkurn hátt átt þátt í því að misnota almannafé né hafi farið á svig við siðareglur kjörinna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg.“

Að kjörnir fulltrúar álykti á þennan hátt um eigið sakleysi þegar álit umboðsmanns á í hlut er einsdæmi og er aðeins til marks um spillta stjórnarhætti.

Á þessum sama forsætisnefndarfundi var lagt fram svar siðanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga varðandi skráningu á fjárhagslegum hagsmunum borgarfulltrúa í framhaldi af birtingu Panama-skjalanna. Þeir sem það mál varðar hafa brugðist við með brottför úr borgarstjórn. Borgarfulltrúar sem ráðstafa fé Bílastæðasjóðs á ólögmætan hátt að mati umboðsmanns borgarbúa sitja hins vegar sem fastast og dæma auk þess um eigin sök!

Vegna komu Halldórs Auðar Svanssonar í borgarstjórn var búið til sérstakt stjórnkerfis- og lýðræðisráð svo að honum yrði tryggð formennska í einu af ráðum borgarstjórnar. Ráðið á einfalda stjórnkerfi borgarinnar, efla lýðræði, vanda samráð, auka aðgang að upplýsingum og efla þjónustu við borgarbúa. Að hafa álit umboðsmanns borgarbúa að engu fellur greinilega einnig undir hlutverk formanns stjórnkerfis- og lýðræðisráðs.

 

Sunnudagur 26. 06. 16 - 26.6.2016 11:00

Forsetakosningar eru sérkennileg lýðræðisleg æfing sem ég hef jafnan leitt hjá mér fyrir utan að fara á kjörstað. Aldrei hefur sá sem ég kaus náð kjöri en alla forsetana hef ég hitt, allt frá Sveini Björnssyni fram á þennan dag. Ég man eftir forsetaskrifstofunni í Alþingishúsinu, þar varð síðar mötuneyti þingsins og loks fundarherbergi forsætisnefndar og ríkisstjórnar kæmi hún saman til fundar í þinghúsinu eins og gerðist á óróatímanum veturinn 2008 til 2009.

Um nokkurt árabil (1974 til 1979) starfaði ég í sama húsi og Kristján Eldjárn, Stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg. Forsetaskrifstofan var þá þar og sameiginleg kaffistofa okkar embættismanna forsætisráðuneytisins og forsetaskrifstofunnar. Þá mynduðust vináttubönd sem enn halda. Minningar mínar um Kristján eru góðar, virðing hans fyrir embættinu og ábyrgðarkennd var mikil og trúverðug.

Frú Vigdís var forseti þegar ég settist á þing og í ríkisstjórn. Síðan hef ég kynnst henni á öðrum vettvangi og met einstaka ræktarsemi hennar og hollustu við land og þjóð auk einlægs áhuga hennar á að leggja sitt af mörkum til betra samfélags. Ég dáist af orku hennar og úthaldi og veit hve mikillar virðingar og vinsemdar hún nýtur langt út fyrir landsteinana.

Um langt árabil sátum við Ólafur Ragnar saman í öryggismálanefnd forsætisráðherra undir formennsku Björgvins heitins Vilmundarsonar bankastjóra. Fundirnir þar voru oft stormasamir en jafnframt skemmtilegir. Björgvin hafði einstakt lag á að halda þráðunum saman á þann veg að nefndin sendi frá sér fjölmargar skýrslur og breytti umræðunum um öryggismál. Samstarfið í öryggismálanefndinni auðveldaði mér að glíma við Ólaf Ragnar sem andstæðing í utanríkismálanefnd alþingis í hörðum átökum um aðildina að EES.

Eftir að Ólafur Ragnar varð forseti 1996 hitti ég hann oft við opinberar athafnir og á ríkisráðsfundum en við áttum aldrei óformleg samskipti og hef ég verið gagnrýninn á ýmis embættisverk hans. Ólafur Ragnar gegndi mikilvægu og jákvæðu pólitísku hlutverki eftir óheillaskrefið sem hann steig með minnihlutastjórn Jóhönnu og Steingríms J. 1. febrúar 2009. Axarsköft stjórnarinnar urðu til þess að Ólafi Ragnari tókst að ávinna sér traust þjóðarinnar að nýju.

Ég óska Guðna Th. Jóhannessyni til hamingju og velfarnaðar í embætti forseta Íslands. Embættið sjálft skapar þeim sem gegnir því myndugleika. Sagan sannar þó að það þarf mun meira til svo að vel fari.

Laugardagur 25. 06. 16 - 25.6.2016 15:30

Franski stjórnmálafræðingurinn Dominique Moïsi, prófessor í King's College, ritar grein í franska blaðið Les Echos í tilefni af ákvörðun Breta um að segja sig úr ESB. Hann segir ekki unnt að líta á úrslitin sem slys heldur afleiðingu greinanlegra hörmunga. Hann notar líkingu úr Stjörnustríðinu og segir hrun Berlínarmúrsins árið 1989 hafa verið sigur „björtu hliðar orkunnar“ en þjóðaratkvæðagreiðslan í Bretlandi sýni „dökku hliðina“. Ferðina úr birtunni inn í myrkrið megi rekja beint til nútíma „svika af hálfu elítanna“.

Undir lok greinarinnar segir Dominique Moïsi að ekki eigi að refsa Bretum fyrir það sem þeir höfðu hugrekki til að gera: að segja nei við Evrópu. Þvert á móti eigi evrópskir ráðamenn að líta í eigin barm. Þeir eigi að spyrja hvers vegna þeir hafi allir misst traust þjóða sinna og hvað þeir geti gert hver um sig og sameiginlega á evrópskum vettvangi til að endurvekja þetta traust. Það yrðu mikil mistök að ætla nú að auka yfirþjóðlegt vald innan Evrópu og bæri ekki vott um annað en algjört skilningsleysi á því sem gerst hefði. Fimmtudagsins 23. júní 2016 ætti ekki að verða minnst í sögunni sem dagsins þegar Bretar hlutu sjálfstæði heldur dagsins þegar Evrópumenn áttuðu sig loks á því, eftir áfallið vegna þróunarinnar í Bretlandi, að þeir ættu ekki annan kost en að hugsa sín eigin mál upp á nýtt.

Að sjálfsögðu er ekki útilokað að evrópskir stjórnmálamenn dragi þennan lærdóm af úrslitunum í Bretlandi. Fátt bendir þó til þess fyrstu sólarhringana eftir þau birtust. Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, beitir sér ekki fyrir neinni endurnýjun. Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, viðurkennir þó að gerst hafi dramatískir atburðir sem við verði að bregðast. Nú ber þó hæst kröfuna um að Bretar hraði öllum ákvörðunum, hypji sig sem fyrst á brott. Þetta er hrokafull afstaða Brusselmanna í anda þess sem þeir hafa sýnt íslenskum stjórnvöldum með því m. a. að skirrast við að viðurkenna á heiðarlegan hátt afturköllun aðildarumsóknar Íslendinga. Svartasta skjalsins í utanríkissögu íslenska lýðveldisins.

Breska ríkisstjórnin hefur í hendi sér hvenær tveggja ára úrsagnartími samkvæmt 50. grein sáttmála ESB hefst. Átökin milli ráðamanna í London og Brussel eru rétt að hefjast.

 

Föstudagur 24. 06. 16 - 24.6.2016 11:00

Ákvörðun Breta um að standa utan Evrópusambandið er heimssögulegur atburður sem hefur áhrif langt út fyrir Bretland. Í grein í Morgunblaðinu í dag minni ég á hve nauðsynlegt er fyrir okkur Íslendinga að fylgjast náið með því sem gerist í Bretlandi. Ákvarðanir breskra stjórnvalda hafa oftar en einu sinni haft gífurleg áhrif hér á landi.

Skilin innan Sameinaða konungdæmisins, Bretlands, skýrðust betur en áður í atkvæðagreiðslunni. Skotar og Norður-Írlendingar vilja halda áfram í ESB en Englendingar og Walesbúar vilja á brott. Niðurstaðan vekur að nýju spurninguna um sjálfstæði Skotlands og ætlar stjórnin þar að undirbúa aðra þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.

Afstaða Breta gegn ESB á ekki að koma neinum á óvart sem fylgist náið með þróun mála innan Evrópusambandsins. Miðstjórnarátta Brusselmanna sem starfa án lýðræðislegs umboðs veikir stöðu ESB meðal almennra borgara aðildarlandanna. Viðbrögð Brusselmanna vegna ákvörðunar Breta munu einkennast af hroka í garð Breta og viðleitni til að tyggja eigin völd og áhrif. Íslensk stjórnvöld kynntust þessu viðhorfi í ESB-aðildarviðræðunum og þegar umsóknin var afturkölluð.

David Cameron forsætisráðherra hefur ákveðið að segja af sér vegna úrslitanna. Hann sýnir þar enn virðingu sína fyrir opnum, lýðræðislegum stjórnarháttum. Afstaða hans er í hróplegri andstöðu við viðhorf æðstu stjórnenda ESB. Spennandi verður að sjá hvernig ráðamenn einstakra ESB-landa bregðast við niðurstöðunni í Bretlandi. Þeir sækja umboð sitt til kjósenda sem sætta sig sífellt verr við vald Brusselmanna.

Afstaða Camerons er einnig andstæð viðbrögðum Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar þegar stefnu þeirra og samningum um Icesave-málið var hafnað af þjóðinni í tveimur atkvæðagreiðslum.

Sama viðhorf og ríkir hjá Brusselmönnum er unnt að greina innan íslenska stjórnkerfisins. Má þar til dæmis nefna hin svonefndu opinberu hlutafélög, ohf., á borð við ISAVIA, Ríkisútvarpið og Landsnet. Öll eiga þessi opinberu hlutafélög í útistöðum við almenna borgara á einn eða annan hátt. Hafa þeir meðal annars orðið að leita til dómstóla til að verja rétt sinn gagnvart ISAVIA og Landsnets. Leyndarhyggjan innan ISAVIA í máli Kaffitárs nær yfir öll skynsamleg mörk.

 

Fimmtudagur 23. 06. 16 - 23.6.2016 17:30

Í gær ræddi ég við Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur lögmann á ÍNN um ESB-þjóðaratkvæðagreiðsluna í Bretlandi og forsetakosningarnar hér. Samtalið er komið á netið og má sjá það hér.

Áhyggjur þeirra sem telja að illt umtal um Ísland í heimspressunni skaði þjóðina hljóta að hverfa núna lesi þeir allt sem ritað er um Ísland í tilefni af velgengni íslenska karlalandsliðsins á EM 2016. Í danska blaðinu Jyllands-Posten er til dæmis í dag talað um að Ísland hafi verið EM's positive overraskelse, jákvætt undrunarefni mótsins. Þá segir að íslensku leikmennirnir skapi nú mikið af góðu efni fyrir sagnamenn framtíðarinnar á eldfjallaeyjunni. Dvergur í heimi knattspyrnunnar bregði hvað eftir annað fæti fyrir hina stóru. Vanmetins byrjandans í EM bíði nú að leika í 16 liða riðli við hvorki meira né minna en sjálfa Englendinga sem með réttu megi flokka með stóru knattspyrnuþjóðunum og kalla fastaþátttakendur í lokariðlum stórmóta.

Í dönskum fjölmiðlum í dag er einnig sagt frá því að Bertel Haarder menningarmálaráðherra hafi vilja losna við orðin public service úr dönsku máli. Hann hafi stofnað til óformlegrar samkeppni um nýtt danskt orð um fyrirbærið. Bent er á að í Noregi tali menn um allmennkringkasting.

Tillögur bárust um um dönsku orðin formidlingspligt, fællestjenesten, folkeudsendelser, breddeoplysning, folkelig medietjeneste, bredde-service og VOFFI – Vores Fælles Formidling og Information.

Niðurstaða Dansk Kunstnerråd var að áfram skyldi nota orðin public service í dönsku máli næstvinsælust voru orðin folkelig oplysning.

Bertel Haarder hefði sjálfur kosið almentjeneste, folkelig oplysning, fælles formidling og VOFFI – Vores Fælles Formidling og Information.

Hér á landi er orðið almannaútvarp og er hugtakið skilgreint á þann hátt að útvarpið þurfi ekki að vera ríkisrekið.

 

Miðvikudagur 22. 06. 16 - 22.6.2016 15:30

Í dag ræddi ég við Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur lögmann í þætti mínum á ÍNN. Við ræddum ESB-þjóðaratkvæðagreiðsluna í Bretlandi á morgun og forsetakosningarnar hér á landi laugardaginn 25. júní. Þátturinn er frumsýndur kl. 20.00 í kvöld á rás 20 og síðan er hann á tveggja tíma fresti til kl. 18.00 á morgun. Einnig má sjá hann á tímaflakki Símans.

Á Eyjunni 21. júní eru höfð eftir Guðna Th. Jóhannessyni forsetaframbjóðanda, orð sem féllu í útvarpsþættinum Harmageddon á X-inu að morgni þriðjudags 21. júní:

„Fyrir nú utan það að í öllum mínum rannsóknum og skrifum hef ég nú ekkert verið að hlífa Sjálfstæðisflokknum. Hef aldrei verið í pólitík, aldrei bundist neinum flokki nokkrum einustu böndum. Hef skrifað þannig um samtímasögu að það væri nú helst sjálfstæðismenn sem ættu að þykja það sárt.“

Orðin falla vegna umræðna um að sjálfstæðismenn séu bakhjarl framboðs Guðna Th. Þau má skilja á þann veg að til að öðlast framgang innan akademíunnar hafi hann sært sjálfstæðismenn með skrifum sínum en til að verða forseti sæki hann til sjálfstæðismanna enda séu þeir gamlir vinir hans.

Ástþór Magnússon forsetaframbjóðandi hefur verið iðnastur við að kenna Guðna Th. við sjálfstæðismenn. Talar Ástþór sig upp í ofsa þegar hann boðar þessa kenning sína eins og hann gerir þegar hann gefur til kynna að með framboði sínu og kjöri geti hann komið í veg fyrir þriðju heimsstyrjöldina.

Í sjónvarpssamtali að kvöldi þriðjudags 21. júní sagði Ástþór að mesta hernaðaruppbygging frá 1941 væri nú á Balkanskaganum í nágrenni við landamæri Rússlands. Stendur þessi vitlausa fullyrðing eftir þáttinn eins og viðtekin staðreynd og einnig hitt að á leiðtogafundi NATO 4. júlí á þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna verði tekin einhver ákvörðun varðandi þetta. Mátti ætla af orðum Ástþórs að eitthvað alvarlegt kynni að gerast á hernaðarsviðinu á milli upptökudags samtalsins við hann og útsendingardags.

Að segja Balkanskaga við landamæri Rússlands lýsir mikilli vanþekkingu í landafræði. Að maður sem helgar sig andstöðu við NATO af jafnmiklum ákafa og Ástþór fari rangt með lykildagsetningar varðandi leiðtogafundi bandalagsins vekur undrun.

Í sama pytt datt Ástþór þegar hann sagði að hann læsi það eða heyrði í fjölmiðlum og hjá fræðimönnum víða um heim að Bandaríkjamenn ynnu að því að opna flotastöð í Hvalfirði.

Þegar Ástþór ræðir öryggismál glatar hann trúverðugleikanum.

 

Þriðjudagur 21. 06. 16 - 21.6.2016 14:00

Lokasólarhringarnir fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna í Bretlandi um ESB-aðildina verða notaðir til hins ýtrasta af báðum fylkingum. Í dag ávarpaði David Cameron forsætisráðherra þjóðina við útidyrnar á Downing-stræti 10, útidyrnar sem eru best þetta tákn breska forsætisráðherraembættisins. Hann hvatti þjóðina til að greiða atkvæði með aðild, það yrði ekki snúið til baka kæmi til úrsagnar. Andstæðingar aðildar mótmæla harðlega að forsætisráðherrann misnoti þetta valdatákn þjóðarinnar á þennan hátt. 

Í leiðara Fréttablaðsins í dag segir í upphafi:  

Bretar kjósa nú á fimmtudag um áframhaldandi veru sína innan Evrópusambandsins. Kosningarnar eru tvísýnar, skoðanakannanir síðustu mánaða hafa verið meira og minna jafnar upp á hár.“ 

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem íslenskur blaðamaður notar sögnina að kjósa og nafnorðið kosningar um atkvæðagreiðsluna í Bretlandi. Til þessa höfum við greitt atkvæði um mál og þess vegna er talað um þjóðaratkvæðagreiðslu. Þegar valið er á milli manna eða flokka kjósum við hins vegar og göngum til kosninga. Það er til marks um málfátækt að gera ekki greinarmun á atkvæðagreiðslu og kosningum. Þá er jafnan talað um niðurstöður skoðanakannana. 

Hér hefur markvisst verið unnið gegn kristnikennslu í skólum. Sama þróun hefur verið víðar, meðal annars í Danmörku. Nýjar yfirlýsingar Ellen Trane Nørby menntamálaráðherra úr Venstre-flokknum (mið-hægri), benda hins vegar til þess að hún muni beita sér fyrir að allir grunnskólanemendur í Danmörku verði að hljóta kristnikennslu. Nú er þetta eina námsefnið í dönskum grunnskólum sem er valfag. Segist ráðherrann ekki útiloka að þessum reglum verði breytt.

Kemur þetta fram í svari ráðherrans við fyrirspurn frá Marie Karup, þingmanni Danska þjóðarflokksins, sem segir bráðnauðsynlegt að allir – einkum múslimar en einnig Danir – hljóti kristnifræðslu. Claus Hjortdal, formaður samtaka danskra skólastjóra, er eindreginn andstæðingur breytinga á þessu sviði, þær séu í hróplegri andstöðu við danskt frjálslyndi.

Hvað sem trúmálum líður myndast mikið tóm og augljós skortur á þekkingu og skilningi á vestrænum þjóðfélögum sé fræðslu um kristni og áhrif hennar stungið undir stól í skólum. Að ala á slíkri vanþekkingu er engum til sóma.

Mánudagur 20. 06. 16 - 20.6.2016 16:00

 

Lokadagar baráttunnar um aðild Breta að Evrópusambandinu einkennast af hörkunni sem sett hefur svip sinn á umræður undanfarinna vikna. Hrakspár aðildarsinna snúast að mestu um fjármál og efnahagsmál, fjármálamarkaði og viðskipti. Það er hins vegar óttinn við að evru-samstarfið muni breyta ESB í sambandsríki sem fælir áhrifamikla Breta frá sambandinu. Má þar til dæmis jafnaðarmanninn Owen lávarð, David Owen, fyrrverandi utanríkisráðherra Breta.

Í ríkissjónvarpinu var að kvöldi sunnudags 19. júní rætt við Eirík Bergmann, stjórnmálafræðiprófessor á Bifröst, sem sagði ESB-baráttuna í Bretlandi „alveg skelfilega“ hún einkenndist af „hræðslupólitík á báða bóga og [væri] í rauninni [...] algjörlega óboðleg fyrir lýðræðislega umræðu. Það er eins og báðir ætli að hræða breskan almenning til hlýðni“.

Því miður er þetta reynsla fleiri þjóða sem ganga til þjóðaratkvæðagreiðslu, minnumst Icesave-atkvæðagreiðslnanna hér. Það er blekking að ímynda sér að tíðari þjóðaratkvæðagreiðslur mildi þjóðfélagsumræður. Þær verða þvert á móti skarpari hvort sem það dugir til að skýra flókin mál eða ekki. Við ákvörðun um ráðstöfun á atkvæði vegur skynjun þyngra en þekking. Þetta vita áróðursmenn, þess vegna er meira höfðað til tilfinninga en staðreynda.

Eiríkur segir Breta helstu viðskiptaaðila Íslendinga og fari þeir úr ESB færist sambandið fjær okkur og „umræðan um aðild Íslands að Evrópusambandinu þagni, í það minnsta í bráð“. Fullyrðing prófessorsins er reist á þeirri skoðun að viðskiptahagsmunir móti afstöðu Íslendinga til ESB. Þetta er of þröng túlkun. Hér eins og í Bretlandi ræður mestu óttinn við að sogast inn í evrópskt sambandsríki og glata fullveldi. David Cameron forsætisráðherra segist hafa reist skorður við þeirri þróun með nýjum aðildarskilmálum. Treysta Bretar því? Það kemur í ljós.

Úrsögn Breta skapar nýja pólitíska stöðu á N-Atlantshafi með Noreg, Ísland og Bretland utan ESB. Aðild að EFTA, Fríverslunarsamtökum Evrópu, er augljósasti kosturinn fyrir Breta til að leggja grunn að aðild að innri markaði ESB utan sambandsins. Hitt skal ekki útilokað að ESB taki á sig nýja, frjálslegri mynd til að forða því að hræðslan við ofurvalds-Brusselmenn án lýðræðislegs umboðs  hvetji fleiri ESB-þjóðir til að fara í fótspor Breta. Það er hið nýja eðli ESB sem hræðir ekki hvað verður um banka eða kaupsýslumenn. Sagan sýnir að þeir finna alltaf leið til að bjarga sér.

Sunnudagur 19. 06. 16 - 19.6.2016 16:00

Á vefsíðunni Telegraph.co.uk er fjallað á skemmtilegan hátt um EM 2016. Þar segir í dag að nú hafi öll liðin leikið tvisvar og er gerð úttekt á þeim í ljósi þess. Um íslenska liðið segir:

„Iceland are incredibly well drilled, extremely well organised and know how to defend - in a tournament with no clear favourite, might the efficient Icelanders stand an outside chance? Are they this year's Greece?“

Þessi ummæli eru í samræmi við annað jákvætt sem sagt hefur verið um íslenska liðið á þessari vefsíðu. Þar hefur Ronaldo til dæmis verið tekinn til bæna fyrir svigurmælin í garð íslenska liðsins eftir leikinn 14. júní. Segir Telegraph að vegna orðanna um Ísland sé nú hlegið að Ronaldo eftir 0:0 leik Portúgala gegn Austurríkismönnum þar sem hann hafi ekki einu sinni getað skorað mark úr vítaspyrnu.

Til hvers er vísað í tilvitnuninni hér að ofan þegar spurt er hvort Íslendingar séu Grikkir ársins í ár – það er EM 2016? Jú, vísað er til þess stórviðburðar í knattspyrnusögu Grikkja þegar þeir urðu öllum að óvörum Evrópumeistarar árið 2004. Þá tóku þeir í annað sinn þátt í Evrópumótinu og þótti engum þeir sigurstranglegir. Þeir sigruðu þó Frakka sem komu sem Evrópumeistarar til mótsins og  einnig Portúgala, gestgjafa keppninnar, tvisvar, í upphafs- og lokaleikjum mótsins.

Það er sem sagt ekki leiðum að líkjast þegar höfð eru þessi orð um íslenska liðið. Áfram Ísland!

 

 

 

 

Laugardagur 18. 06. 16 - 18.6.2016 19:30

Marseille-völlurinn, Vélodrome, sem var vettvangur leiks Íslands og Ungverjalands í dag er stræsti knattspyrnuvöllur Frakkands og geta rúmlega 67.000 manns horft á leiki hans. Frönsk blöð segja 64.000 hafa verið á vellinum sem hafi glatt Marseille-búa, þeir hafi óttast að ekki yrði mikill áhugi á leik með íslensku nýliðunum og Ungverjum. Raunin hafi orðið önnur, einkum hafi Ungverjar fjölmennt og sett mikinn svip á borgina.  

Leiknum lauk 1:1. Ungverjar náðu að jafna undir lok leiksins, á 88. mínútu, leikurinn var framlengdur um 4 mínútur. Gylfi Þór Sigurðsson sagði eftir leikinn að einbeitingu hefði skort undir lokin. Nú er þess beðið sem gerist miðvikudaginn 22. júní í leiknum gegn Austurríkismönnum í París.

Eftir leikinn er í EM-sjónvarpsstofunni rætt við sérfræðing hennar í knattspyrnu. Hann vill ekki dæma neinn of hart en taldi þennan leik slakari af Íslands hálfu en þegar keppt var við Portúgala þriðjudaginn 14. júní.

Hér skal ekki deilt við sérfræðinginn um mat hans. Á hinn bóginn mætti stundum ætla að hann sé vanari að ræða um knattsyrnu á ensku en íslensku miðað við slettur eins og „task“, „winner attitude“ og „mentaly“ svo að aðeins þrjú dæmi séu tekin. Hann vandaði sig þó mikið undir lok samtalsins í dag. Knattspyrnumálið er greinilega ensku skotið.

Í Le Monde segir að Íslendingar hafi haldið að þeir mundu vinna „sögulegan sigur“ í leiknum við Ungverja en varnarmaðurinn Sævarsson hafi eyðilagt þann draum á 88. mínútu leiks þar sem Ungverjar hafi lagt sig alla fram um að ná verðskulduðu jafntefli. Íslendingar eigi eftir að iðrast að hafa eytt öllum seinni hálfleiknum í kringum eigið mark.

Kolbeinn Sigþórsson sagði við Le Figaro eftir leikinn að íslensku leikmennirnir litu á hann sem tapleik en þeir ættu enn eftir að láta að sér kveða í keppninni.

Föstudagur 17. 06. 16 - 17.6.2016 18:00

Samtal mitt við Davíð Oddsson forsetaframbjóðanda á ÍNN miðvikudaginn 15. júní er komið á netið og má sjá það hér. 

Kosturinn við að ræða við Davíð Oddsson er að hann hikar ekki við að segja hug sinn, rökstyður mál sitt og skilur þann sem hlustar ekki eftir í neinum vafa um afstöðu sína. Margir eiga erfitt með að kyngja því þegar hann tekur af skarið eða notar sterkar líkingar til að skýra sjónarmið sín.

Dæmi um viðkvæmni gagnvart málflutningi Davíðs má sjá í Morgunblaðinu í dag í grein eftir Þráin Friðriksson jarðvísindamann sem ber fyrirsögnina: Steingert skopskyn

Jarðvísindamaðurinn líkir Davíð Oddssyni við steingerving. Skýring hans á fyrirsögninni er þessi: „skopskyn æskunnar hafði frosið inni í hans persónuleika [vinar höfundar] eins og steingervingur lífveru sem lagðist til hinstu hvílu í mjúka botnleðjuna fyrir milljónum ára“. Segir Þráinn að Davíð sékyndilberi íslenskrar fyndni á árunum 1970 til 2004“.

Þráni finnst miður að Jón Gnarr hafi verið kallaður Jón Gunnar Kristinsson eða Jón Kristinsson  „í pistlum Davíðs í Morgunblaðinu“. Telur Þráinn sig geta fullyrt um höfund nafnlausra ritstjórnargreina blaðsins. Þráinn gefur til kynna að á landsfundum sjálfstæðismanna þori menn ekki annað en hlægja að fyndni Davíðs. Þráinn vorkenndi Davíð meira en Katrínu Jakobsdóttur þegar hún var kölluð „gluggaskraut“ í Morgunblaðinu. Verst þótti honum þó að Barack Obama skyldi kallaður múlatti á síðum Morgunblaðsins og gefur sér að það hafi verið gert til að niðurlægja Bandaríkjaforseta.

Fréttir af kosningafundum Davíðs Oddssonar eru á þann veg að þar skemmti menn sér vel enda er Davíð oft bráðfyndinn á slíkum fundum og segir ekki síður broslegar sögur af sjálfum sér en öðrum. Þráinn Friðriksson vill með grein sinni benda lesendum á að ekki sé við hæfi að hlægja að því sem Davíð Oddsson segir af því að hann hafi „steingert skopskyn“, sé einskonar steingervingur.

Það er undarlegt að maður með jafn háþróað skopskyn og Þráinn Friðriksson skuli verða miður sín þegar Katrínu Jakobsdóttur er líkt við „gluggaskraut“ en þykja með öllu ófyndið að líkja Davíð við steingerving. Grein Þráins er vissulega ekki fyndin en hún er hins vegar hlægilegt innlegg í forsetakosningabaráttuna.

 

Fimmtudagur 16. 06. 16 - 16.6.2016 15:30

Hér hafa félagar í The Chicago Council on Global Affairs verið á ferð til að fræðast um þjóðfélagsmál og kynnast landi og þjóð. Við Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor ræddum við hópinn í hádeginu í dag. Var þess óskað að við ræddum stöðu Íslands í utanríkis- og öryggismálum. Augljóst er að meiri athygli beinist nú að geopólitískri og strategískri stöðu Íslands en verið hefur í um aldarfjórðung.

Samsæriskenningar eru mismunandi furðulegar. Í Markaðnum, fylgiblaði Fréttablaðsins, birtist ein miðvikudaginn 15. júní sem er í furðulegasta kantinum. Kjarni hennar er að Davíð Oddsson hafi boðið sig fram í forsetakosningunum til að draga athygli frá Panama-skjölunum. Í nafnlausum dálki Markaðarins sem ber heitið Skjóðan segir meðal annars:

„Nokkrir útrásarvíkingar reyndust vera með Panama-félög en engar nýjar fréttir voru í því, nema þá að furðu vekur að ekki skuli fleiri þekktir útrásarvíkingar vera þarna á blaði.

Boðað var að flett yrði ofan af aflandsfélögum fyrirtækja og einstaklinga úr íslenskum sjávarútvegi. Leið og beið og eftirvæntingin óx. Þær litlu upplýsingar sem fram komu virtust óspennandi.“ 

Minnt er á að 9. maí var öllum almenningi opnaður aðgangur að Panama-skjölunum en 8. maí hafi Davíð Oddsson kynnt framboð sitt til forseta. Við það hafi Ólafur Ragnar Grímsson endanlega ákveðið að draga sig í hlé en eiginkona hans hafi tengst Panama-skjölunum. Þá segir í Skjóðunni:

„Framboð hans [Davíðs] þjónar hins vegar tvíþættum tilgangi. Forsetinn með tengslin við Panama-félög gat dregið sig í hlé og umræðan hefur snúist um framboð Davíðs og túlkun hans á ferli þess frambjóðanda sem hefur yfirburðafylgi í skoðanakönnunum. 

Panama-skjölin hafa ekki verið rædd frá því Davíð bauð sig fram. Framboð hans er smjörklípa aldarinnar. Kannski hugsaði hann þetta ekki að öllu leyti sem smjörklípu, Verið getur að hann hafi haldið að hann ætti séns. Bakhjarlar hans vita hins vegar hvað þeir syngja. Það er kaldhæðnislegt að höfundur smjörklípunnar í íslenskum stjórnmálum skuli enda feril sinn sem ein allsherjar smjörklípa fyrir íslenska Panama-greifa.“

Málefnalega er kenningin út í hött. Að hún skuli birtast í blaði hjónanna Ingibjargar Stefaníu Pálmadóttur og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, fjölmiðli sem skyldastur er Panama-skjölunum á Íslandi, sýnir að hér megi ef til vill lesa smjörklípu smjörklípunnar. 

Miðvikudagur 15. 06. 16 - 15.6.2016 17:00

Í kvöld verður viðtal mitt við Davíð Oddsson forsetaframbjóðanda sýnt á ÍNN. Frumsýningin er kl. 20.00 á rás 20 og síðan verður samtalið sýnt á tveggja tíma festi til 18.00 á morgun. Eftir frumsýningu má ná því hvenær sem er á tímaflakki Símans.

Nú er vika þar til Bretar greiða atkvæði um aðild að ESB. Undanfarna daga hafa úrsagnarsinnar sótt í sig veðrið og mælst stærsti hópurinn. Er ekki að  efa að báðar fylkingar sæki fram af miklum þunga komandi daga. Aðildarsinninn David Cameron forsætisráðherra hefur oftar en einu sinni sannað að hann berst af mikilli hörku. Hið sama er að segja um úrsagnarsinnan og íhaldsmanninn Boris Johnson. Hann gefst ekki upp fyrr en í fulla hnefana.

Verði úrsögn samþykkt situr David Cameron ekki lengi í embætti sínu, hvorki sem flokksleiðtogi né forsætisráðherra. Hvort Boris Johnson kemur í hans stað veit enginn. Vafalaust verður leitað að einhverjum sem hefur borið kápuna á báðum öxlum. Hvort tekst að sameina Íhaldsflokkinn eftir hrikaleg ESB-átökin kemur í ljós. Raunar er líklegt að Cameron fari fljótlega frá völdum hvort sem málstaður hans sigrar eða ekki í atkvæðagreiðslunni.

Atkvæðagreiðslan 23. júní í Bretlandi vekur fleiri spurningar en svör hvernig sem á málið er litið. Hræðsluáróður hefur meira einkennt málflutning aðildar- en úrsagnarsinna. Ekki síst áróður um hörmungar í efnahagsmálum fari Bretar úr ESB.

Á sínum tíma reyndi Göran Persson, forsætisráðherra Svíþjóðar, að fá Svía til að samþykkja upptöku evru í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann tapaði. Eftir atkvæðagreiðsluna sat Persson fyrir svörum á blaðamannafundi. Hann var spurður: Hvenær hrynur efhagur Svíþjóðar eins og þú spáðir að gerðist án evrunnar? Persson svaraði: Sagði ég þetta? Ég man ekki eftir því.

Þegar elíta stjórnmála, fjármála og fjölmiðla styður eitthvert mál og það tapast er lítið lagt á sig til að brjóta það til mergjar – auðveldara er að sópa erfiðum úrslitum undir teppið og láta eins og ekkert hafi í skorist.

 

Þriðjudagur 14. 06. 16 - 14.6.2016 15:00

Víglundur Þorsteinsson lögfræðingur birtir merkilega grein í Morgunblaðinu í dag. Hún er reist á fjögurra ára rannsóknum hans á gögnum um framkvæmd neyðarlaganna frá október 2008, laganna sem skiptu sköpum um skynsamleg viðbrögð við hruni bankanna. Víglundur segir að eðlileg hagsmunagæsla í þágu þjóðarbúsins hafi ráðið þar til 1. febrúar 2009 þegar minnihlutastjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar, Samfylkingar og VG, komst til valda með stuðningi Framsóknarflokksins. Straumhvörf hafi orðið 11. febrúar 2009 þegar Indriði H. Þorláksson, sérlegur ráðgjafi og fulltrúi Steingríms J. hóf afskipti af málum og markvisst var gengið á svig við ákvæði neyðarlaganna til að þjóna hagsmunum kröfuhafa.

Í greininni segir Víglundur:

„Af hverju var gripið til þess að ganga gegn neyðarlögunum?

Mitt svar er eftirfarandi: Samfylkingin var með það sem sitt aðalstefnumál og nánast eina að ganga í ESB og taka upp evru. VG var strax reiðubúið eftir langa eyðimerkurgöngu utan ríkisstjórna að kokgleypa andstöðuna við ESB og láta hvað eina yfir sig ganga valdanna vegna.“

Tekið skal undir þessa meginniðurstöðu Víglundar. Höfuðmarkmið andstæðinga Sjálfstæðisflokksins á þessum tíma var til dæmis að nota ESB-málið til að kljúfa flokkinn. Hinn 14. nóvember 2008 fól Geir H. Haarde flokksformaður Kristjáni Þór Júlíussyni alþingismanni að leiða könnunarstarf meðal sjálfstæðismanna. Að baki rannsókninni bjó krafa Samfylkingarinnar um að sjálfstæðismenn féllu frá andstöðu við ESB-aðild. Niðurstaðan lá fyrir í janúar 2009 – um 70% sjálfstæðismanna lýstu andstöðu við aðild. 

Minnihlutastjórninni mistókst að breyta stjórnarskránni þrátt fyrir dygga aðstoð framsóknarmanna. Samfylking og VG fengu meirihluta í kosningum í apríl 2009 og eftir það byrjaði ESB-ballið og öllu var fórnað til að því lyki með aðild – eignarhald á bönkum, Icesave og makríll, ekkert af þessu mátti trufla ballið.

Gangur ESB-málsins er og fórnirnar í þágu aðildar eru svartasti kafli utanríkismálasögu þjóðarinnar, kafli sem er enn óuppgerður. 

Víglundur Þorsteinsson hefur lagt verulegan skerf af mörkum til að skýra efni hans. Hann segist enn leita svara við afstöðu Sjálfstæðisflokksins til Icesave og vegna aðstoðar hans „við að smeygja umræðulaust í gegnum þingið því fólskuverki að brjóta neyðarlögin og ákvarðanir FME með því að afhenda kröfuhöfum bankana“.

Þetta mál ber að ræða eins og önnur í aðdraganda komandi þingkosninga.

Mánudagur 13. 06. 16 - 13.6.2016 12:00

 

Áformað er að John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, verði í Danmörku fimmtudaginn 16. júní og fari þaðan til Grænland. Hann hittir Kristian Jensen, utanríkisráðherra Dana, og ræðir við hann um norðurslóðir og loftslagsmál fyrir utan það sem hæst ber í öryggis- og utanríkismálum á líðandi stundu.

Eðlilegt hefði verið að búast við John Kerry í heimsókn hingað á þessu ferðalagi hans. Þrátt fyrir að Kristján Loftsson hafi tilkynnt að hann sé hættur að veiða stórhveli léttir það ekki þeirri kvöð af Kerry að hann megi ekki heimsækja Ísland vegna hvalastefnu íslenskra stjórnvalda, ekki sé nóg að Kristján Loftsson gefi yfirlýsingu um breytta afstöðu til hvalveiða, íslensk stjórnvöld verði einnig að gera það. Í raun er furðulegt að það skuli ekki gert úr því að enginn vill eða hefur burði til að nýta sér opinbera heimild sem er ekki lengur annað en þröskuldur í samskiptum Íslands og Bandaríkjanna.

Fjöldamorðin sem „einmana úlfur“ framdi í Orlando í Flórída aðfararnótt sunnudagsins 12. júní eru enn ein sorgleg áminningin um varnarleysi almennra borgara gagnvart þeim sem komast yfir vopn til að ná sér niðri á samborgurum sínum af hugmyndafræðilegri eða annarri ástæðu.

Samstarfsmenn fjöldamorðingjans í Orlando höfðu varað vinnuveitendur hans við undarlegri og hættulegri hegðun hans en ekkert var gert, meðal annars vegna þess að vinnuveitandinn vildi ekki sæta ámæli fyrir að finna að framkomu múslima, sagði blaðamaður í Flórída við BBC World Service í morgun.

Í franska blaðinu Le Figaro segir í morgun sagt að þrátt fyrir hryðjuverkin í Boston og San Bernardino líti Bandaríkjamenn ekki hættuna af íslamistum jafnalvarlegum augum og Evrópumenn. Spáir blaðið því að allt muni þetta breytast eftir fjöldamorðin í Orlando. Minnt er á að Barack Obama hafi verið tregur til að tengja íslam og hryðjuverk. Ólíklega taki Hillary Clinton sama pól í hæðina. Hún muni taka skýrari afstöðu, ekki sætta sig við „leadership from behind“ í anda Obama. Ekki þarf að spyrja að Donald Trump. Hann krefst afsagnar Obama vegna þess að hann notaði ekki orðin „radical islam“ í ávarpi sínu til þjóðarinnar eftir voðaverkið í Orlando.

 

Sunnudagur 12. 06. 16 - 12.6.2016 21:30

Píratar hafa fundað um helgina og var sagt frá því í kvöldfréttum ríkisins að aðalfundinum yrði fram haldið um næstu helgina. Ekki hefði tekist að ljúka þeim störfum sem vinna átti á fundinum. 

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður pírata, sagði í gær að ekki ætti að vinna að mótun stefnu á fundinum heldur hlusta á grasrótina. Á vefsíðunni ruv.is  sagði laugardaginn 11. júní:

„Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, segir stefnumál flokksins unnin í grasrótinni. Á aðalfundi Pírata sem fer fram nú um helgina er ekki unnið að stefnumálum fyrir komandi Alþingiskosningar.

„Grasrótin er í aðalhlutverki hjá Pírötum,“ segir Birgitta. Stefnumálin séu unnin frá grasrótinni og upp, og því sé ekki [svo!] aðalfundur ekki vettvangur stefnumótunar heldur grasrótarfundir og kosningakerfi Pírata. „Við viljum í alvöru að við búum til þannig stefnu að hún komi ekki frá einhverri elítu innan flokksins heldur frá þeim sem vilja taka þátt í að móta samfélagið með okkur,“ segir Birgitta.“

Þetta segir þingmaðurinn sem hefur boðað að semja beri stjórnarsáttmála með öðrum flokkum fyrir kosningar, ekki skuli kosið nema til 9 mánaða og nota beri þá til að breyta stjórnarskránni og kollsteypa stjórnarráðinu.

Í frétt af aðalfundi pírata á mbl.is sunnudaginn 12. júní segir að þar hafi verið kynntur „stefnumálahópur flokksins“ (elíta?). Þar sé fólk sem hafi tekið að sér að halda formlega um stefnumótunarvinnu fyrir alþingiskosningarnar í haust. Eftir að málin hafa verið valin verði það á hendi framkvæmdaráðs pírata og efstu manna á lista hjá flokknum að kynna málin opinberlega.

Í fréttum stangast þannig á orð Birgittu um grasrótina og tilkynning Sigríðar Bylgju Sigurjónsdóttur, framkvæmdastjóra pírata, um stefnumálahóp.

Allt bendir til að áhrif Birgittu Jónsdóttur í forystu pírata minnki jafnt og þétt. Væri um annan flokk að ræða en pírata hefðu fréttamenn áreiðanlega vakið máls á þversögninni í fréttum af aðalfundi flokksins. Það er hins vegar staðreynd að sem stjórnmálaafl og flokkur eru píratar teknir allt öðrum tökum í fjölmiðlum en aðrir stjórnmálaflokkar.

Fjölmiðlar skulda kjósendum að skýra vel og ítarlega frá því sem gerist á aðalfundi pírata. Flokkurinn hefur mælst stærstur íslenskra stjórnmálaflokka um nokkurt skeið. Að láta eins og Birgitta Jónsdóttir tali fyrir flokksmenn er hluti af blekkingariðju í hennar þágu.

 

 

Laugardagur 11. 06. 16 - 11.6.2016 12:30

Föstudagur 10. 06. 16 - 10.6.2016 23:00

Viðtal mitt við Harald Benediktsson, bónda og þingmann Sjálfstæðisflokksins, á ÍNN miðvikudaginn 8. júní er komið á netið og má sjá hér. 

James Foggo flotaforingi, yfirmaður 6. flota Bandaríkjanna, ritar grein í Proceedingstímarit Flotastofnunar Bandaríkjanna (U.S. Naval Institute) sem kom út í byrjun júní. Fyrirsögnin er: Fjórða orrustan um Atlantshafið. Þar vísar flotaforinginn til sóknar rússneskra kafbáta út á Norður-Atlantshaf undanfarin misseri. Fyrsta orrustan var í fyrri heimsstyrjöldinni við þýska kafbáta, önnur orrustan var einnig við þýska kafbáta í annarri heimsstyrjöldinni. Þriðja orrustan var reiptogið milli kafbátaflota Bandaríkjamanna og Sovétmanna á höfunum umhverfis Ísland í kalda stríðinu. Á þeim árum tóku menn að ræða um GIUK-hliðið varnarviðbúnað Vesturlanda gegn kafbátum sem náði frá Grænlandi um Ísland til Skotlands. Í grein sinni segir Foggo meðal annars:

„Rússar vilja eignast vígstöðu á höfunum við Evrópu og þeir halda úti herafla utan landamæra Rússlands. Komið hefur verið á fót samtengdu kerfi rússneskra strand-eldflauga, orrustuþotna, loftvarnabúnaðar, herskipa og kafbáta sem ógnar nú öllum flotum á Eystrasalti og auk þess aðildarþjóðum NATO í Litháen, Eistlandi og Lettlandi – stjórnvöld ríkjanna ráða ekki yfir eigin ströndum nema leiðtogar Rússa leyfi þeim það. Komið var á fót svipuðu varnarvirki (anti-access/area-denial, A2/AD) á Svartahafi eftir að rússneskur herafli réðst inn í Úkraínu og tók Krím. Stöðugt fjölgar rússneskum hermönnum í Sýrlandi og Rússar hafa sett upp herstöðvar við Norður-Íshafið, hervætt og gert kröfu til stórs hluta þess í andstöðu við venjur alþjóðalaga. Á þennan hátt og með A2/AD hafa Rússar dregið úr getu okkar til að beita valdi okkar og aukið eigin áhrifamátt utan landamæra sinna.

Rússar ráða nú yfir „stálboga“ frá Norður-Íshafi um Eystrasalt til Svartahafs. Við hann bætast víðtækar og tíðar eftirlitsferðir kafbáta um Norður-Atlantshaf og Noregshaf og herafli í fremstu víglínu í Sýrlandi. Þetta gerir Rússum kleift að skapa hættu fyrir næstum allan herflota NATO. Athafnasvæði flotans er ekki lengur látið í friði. Í fyrsta sinn í nærri 30 ár ber að líta á Rússland sem marktækt og áreitið flotaveldi.“

 

Fimmtudagur 09. 06. 16 - 9.6.2016 17:30

Þráteflið um Reykjavíkurflugvöll heldur áfram eftir dóm hæstaréttar í dag um að innan 16 vikna beri ríkinu að loka norðaustur/suðvestur flugbrautinni og endurskoða skipulagsreglur vallarins til samræmis við lokun brautarinnar. Hinn háværi minnihluti sem vill flugvöllinn á brott og beitir til þess einskonar salami-aðferð fagnar þessari niðurstöðu sem reist er á samkomulagi frá október 2013 milli Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, þá innanríkisráðherra, og Jóns Gnarrs, þá borgarstjóra.

Í dómi hæstaréttar segir að sé efni samkomulagsins túlkað sé hafið yfir skynsamlegan vafa að með því hafi innanríkisráðherra gengið undir þá skuldbindingu að tilkynna um lokun flugbrautarinnar samtímis því að nýtt deiliskipulag fyrir flugvallarsvæðið yrði auglýst.

Ólöf Nordal innanríkisráðherra segir að dómi hæstaréttar verði að sjálfsögðu unað. „Ráðuneytið muni og ákveða hvernig rétt sé að bregðast við niðurstöðunni með það að leiðarljósi að tryggja áfram öryggi í flugsamgöngum innanlands,“ segir í tilkynningu innanríkisráðuneytisins í tilefni dómsins. 

Í frétt Morgunblaðsins frá 30. nóvember 1997 segir:

„Braut 07-25 á Reykjavíkurflugvelli, sú sem liggur í stefnu norðaustur-suðvestur, verður ekki lokað nema hliðstæð flugbraut á Keflavíkurflugvelli fáist opnuð á ný. Hefur málið verið rætt við utanríkisráðherra. Þetta kom fram í máli Guðrúnar Ágústsdóttur, forseta borgarstjórnar, á fundi um framtíð Reykjavíkurflugvallar.“

Umrædd flugbraut á Keflavíkurflugvelli hefur ekki verið opnuð. Rökin sem lágu til grundvallar 1997 eru greinilega ekki lengur í gildi hjá Reykjavíkurborg. Sérkennilegt er að af hálfu ríkisins skyldi skrifað undir samkomulag við borgina án þess að hafa fyrirvara um lagningu fyrrnefndar brautar á Keflavíkurflugvelli sé hún á annað borð lengur talin nauðsynleg.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir á mbl.is að í dómi hæstaréttar felist „fullnaðarsigur í málinu“ um neyðarbrautina. Höskuldur Þórhallsson, formaður umhverfis- og samgöngunefndar alþingis, boðar hins vegar frumvarp á Alþingi í ágúst þess efnis að flugvöllurinn í Vatnsmýri verði þar áfram í óbreyttu ástandi þar til annað verði ákveðið af alþingi. 

Eins og sagði í upphafi: Þráteflinu um Reykjavíkurflugvöll er ekki lokið. Líklegt er að framtíð hans verði átakamál í þingkosningunum í október. Fresturinn sem hæstiréttur gaf innanríkisráðherra rennur út 9. október. Alls ekki er útilokað að fyrir þann tíma samþykki alþingi lög sem hnekkja dóminum „með það að leiðarljósi að tryggja áfram öryggi í flugsamgöngum innanlands“ eins og segir í tikynningu innanríkisráðuneytisins.

 

Miðvikudagur 08. 06. 16 - 8.6.2016 15:00

Gestur minn á ÍNN í kvöld er Haraldur Benediktsson, bóndi og þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Við ræðum um búvörusamninginn og ljósleiðaravæðingu í sveitum landsins. Þátturinn frumsýndur kl. 20.00 á rás 20.

Athygli hefur vakið að hvorki Samfylkingin né Viðreisn flagga afstöðu sinni til ESB um þessar mundir. Rót Viðreisnar er þó að finna meðal „sjálfstæðra Evrópusinna“ eins og ESB-aðildarsinnar innan Sjálfstæðisflokksins kölluðu sig fyrir nokkrum árum. Þeim var misboðið þegar flokkurinn samþykkti að ekki skyldi sótt um aðild nema þjóðin vildi það í atkvæðagreiðslu. Nú fylgja þeir hins vegar þessari stefnu og telja sér best sæma að þegja um það. Þeir vita að árétting á hinni nýju stefnu þeirra minnir aðeins á að valdastreituhópur stendur að baki Viðreisn.

Samfylkingin eyðilagði ESB-aðildarmálið fyrir sjálfri sér og skoðanabræðrum undir forystu Jóhönnu og Össurar.

Fyrir utan þetta er staðan þannig innan ESB að þjóðir þurfa að búa við ömurleg skilyrði til að sjá hag sínum betur borgið í sambandinu en utan þess.

Í dag segir Bloomberg-fréttastofan frá niðurstöðu könnunar sem Pew Research Center gerði meðal 10.000 manna í 10 ESB-löndum. Var spurt um afstöðu til ESB. Kemur ekki á óvart að hún var neikvæðust í Grikklandi (71%). Frakkar koma hins vegar næstir en 61% þeirra hafa neikvæða afstöðu til ESB. Frakkar eru neikvæðari í garð ESB en Bretar en þar eru 48% neikvæðir.

BBC segir að í löndunum 10 sýni meðaltalið að naumur meirihluti (51%) sé jákvæður í garð ESB. Mikill meirihluti, 70%, telur ekki heppilegt fyrir ESB að Bretar segi skilið við sambandið.

Á vefsíðu danska ríkisútvarpsins kemur fram að vaxandi fjöldi Dana, 42%, vilji þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Dana að ESB. Þetta er niðurstaða í könnun sem Epinion gerði fyrir DR Nyheder og hefur þeim fjölgað um fimm prósentustig á þremur mánuðum sem vilja þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildina.

Þriðjudagur 07. 06. 16 - 7.6.2016 17:30

Kolbrún Bergþórsdóttir, ritstjóri DV, hefur árum saman verið samviska Samfylkingarinnar. Hún hefur skotið skynsemdarorðum að forystumönnum flokksins í einkasamtölum og skrifað opinberlega þeim til hughreystingar þegar á móti blæs. Nú þykir henni hins vegar nóg komið eins og sjá má leiðara hennar í DV í dag, 7. júní. Ástæðan er kjör Oddnýjar Harðardóttur til formennsku í flokknum.

Kolbrún segir:

„Oddný Harðardóttir er talin líkleg til að leiða flokkinn til vinstri í stað þess að sækja inn á miðjuna, eins og fyrrverandi formaður lagði áherslu á að gert yrði. Með vinstri sveiflu væri Samfylkingin að kasta frá sér tækifærum og þar með væri hún einnig að hrekja frá sér hægri kratana, sem hafa þó kannski aldrei verið verulega velkomnir í Samfylkinguna. Hin nöturlega staðreynd er sú að Samfylkingin er orðin að litlum kredduflokki sem rúmar ekki nema suma.

Líklegast er að í vandræðum sínum fari Samfylkingin í betlileiðangur til Vinstri grænna og hugsanlega Pírata um kosningabandalag fyrir næstu kosningar. Flokkurinn er orðinn svo aumur að hann getur ekki lengur staðið einn.“

Miðjan sem Kolbrún talar um táknar einhvers konar Blairisma hjá jafnaðarmönnum í Evrópu. Hann á hvergi upp á pallborðið í neinum jafnaðarmannaflokki, hvarvetna gæla þeir sem hafa völd við einhvers konar blöndu af blairisma og sósíalisma. Þeir vita ekki hvort þeir eru að koma eða fara og eru franskir jafnaðarmenn undir forystu Feançois Hollandes skýrasta dæmið um það. Hann nýtur nú 4% stuðnings sem forseti Frakklands. Samfylkingin lafir þó í 7 til 8%.

Auðvitað er það rétt hjá Kolbrúnu að vilji menn vinstrimennsku hér er skynsamlegast að kjósa VG og gefa Samfylkingunni frí. Vegna þess hve Samfylkingin hefur verið laus í rásinni og leyft ESB að vera einskonar akkeri til að hafa einhvern fastan punkt kann hópur kjósenda flokksins að snúa sér til Viðreisnar í von um pólitískt afdrep. viðreisnarmenn munu hins vegar brátt átta sig á að miðjumoð á borð við það sem þeir hafa lagt fyrir kjósendur á ekki hljómgrunn hér frekar en annars staðar.

Þótt viðreisnarmenn hafi yfirgefið fyrri flokka á öfugum forsendum við það sem félagar í Alternative für Deutschland gerðu í Þýskalandi skyldi enginn útiloka að Viðreisn reyni að skipa sér sess hægra megin við Sjálfstæðisflokkinn þegar yfir lýkur.

Mánudagur 06. 06. 16 - 6.6.2016 16:15

Sigurður Már Jónsson, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, skrifaði á sínum tíma upplýsandi bók um Icesave-samningana. Sunnudaginn 5. júní 2016 skrifaði hann enn um samningana á vefsíðu sína í tilefni þess að í Svavars-samningunum, fyrstu Icesave-samningnunum, var gert ráð fyrir að 5. júní 2016 hæfust greiðslur til lánardrottnanna Breta og Hollendinga á því sem stæði eftir heimtur úr búi Landsbankans. Sigurður Már segir:

„Ef Icesave-samningarnir, sem kenndir eru við Svavar Gestsson, hefðu verið samþykktir árið 2009 hefðu eftirstöðvar þeirra í dag, 5. júní, numið tæpum 208 milljörðum króna eða um 8,8% af áætlaðri vergri landsframleiðslu ársins 2016. Sú fjárhæð hefði fallið á ríkissjóð og hefði verið til greiðslu í jöfnum ársfjórðungslegum afborgunum á næstu átta árum, eða um 26 milljarðar á ári ásamt vöxtum. Samningarnir kváðu ekki á um greiðslur umfram heimtur úr búi Landsbankans fyrr en eftir 5. júní 2016. Þetta kom fram í svari dr. Hersis Sigurgeirssonar á Vísindavef Háskóla Íslands 9. febrúar síðastliðin og verður að miða gengi við þá dagsetningu en greiðslur átti að inna af hendi í pundum og evrum.“

Bretar og Hollendingar höfnuðu þessum samningunum vegna fyrirvara sem Alþingi setti í lögin um þá, þeir komu því aldrei til framkvæmda. Ætlun Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra var að lauma þessum samningunum í gegnum þingið, helst umræðulaust. Einhver lak þeim í ómerktu umslagi til fréttastofu ríkisútvarpsins 17. júní 2009. Þar með var leyndin úr sögunni og því meira sem rætt var um málið þeim mun ljósara varð hvílíkt óheillaverk hafði verið unnið undir forystu Svavars Gestssonar þótt Steingrímur J. talaði um „glæsilega niðurstöðu“ í tengslum við starf Svavars.

Morgunblaðið birti viðtal við Svavar Gestsson 8. júní 2009 þar sagði:

„Svavar segir að ef reikningarnir hefðu ekki verið gerðir upp hefði allt innstæðutryggingakerfið í Evrópu hugsanlega hrunið. „Við erum í rauninni að bera burt syndir heimsins, eins og sagt var um Jesú Krist,“ segir Svavar.“

Svavar sagðist hafa heyrt, að allt hefði verið „skjálfandi og titrandi“, áður en hann kom að málinu „líka EES-samningurinn, þótt ég kunni þá sögu ekki nákvæmlega.“ Þetta varð fyrirsagnarefni Morgunblaðsins á forsíðu á þennan veg: „EES-samningurinn skalf og nötraði“. 

Sunnudagur 05. 06. 16 - 5.6.2016 13:30

Úrslitin í formannskjöri Samfylkingarinnar voru að Oddný Harðardóttir var sögð hafa fengið 60% en Magnús Orri Schram um 40%. Hvað um Helga Hjörvar, formann þingflokks Samfylkingarinnar? Þegar ofangreindar tölur eru skoðaðar má ætla að Helgi Hjörvar og Guðmundur Ari Sigurjónsson hafi ekki notið neins stuðnings. Fréttirnar gáfu ekki rétta mynd.

Það var ekki fyrr en á Vef-Þjóðviljanum á andriki.is að fullnægjandi skýring fékkst á málinu. Þar sagði laugardaginn 4. júní:

„ Þegar betur er að gáð kemur í ljós að Samfylkingin hefur sett upp kosningakerfi sem leiðir ekki endilega besta kostinn til öndvegis heldur þann sem fæstum þykir sístur. Ekki þann sem heillar helst heldur þann sem fæstir hafa óþol gegn.

Þannig fékk Oddný alls ekki 60% atkvæða í fyrsta sætið heldur aðeins 42%. Og Helgi Hjörvar var ekki án atkvæða í fyrsta sætið heldur vildu 23% að hann yrði formaður.

Samfylking lét félagsmenn sína nefnilega einnig kjósa um hvaða frambjóðanda þeim þætti best að hafa í öðru, þriðja og fjórða sæti í kjörinu.“

Magnús Orri fékk 31,2% í fyrsta sæti og Guðmundur Ari 4%.

Í þessu eins og svo mörgu öðru hjá Samfylkingunni er reynt að fegra hlutina út á við. Enginn formannsframbjóðendanna naut stuðnings meirihluta af 3.787 atkvæðum sem greidd voru.

Margar fréttir í blöðum og á vefsíðum ná of skammt til að lesandinn sjái í hendi sér um hvað málið snýst. Þetta er mikill ljóður á ráði frétta- og blaðamanna og má ef til vill rekja til þess að ekki er um neinn yfirlestur og ábendingar á ritstjórnum að ræða áður en viðkomandi frétt er birt. Stundum er eins og um hálfunninn texta sé að ræða. Oft er kröfunni um mikinn hraða um að kenna. Hitt blasir þó ekki síður við að sá sem skrifaði skilur ekki um hvað málið snýst eða gerir engan mun á auka- og aðalatriðum.


Einkennilegt er þegar gamlar fréttir eru lesnar í ríkisútvarpinu án þess að dagsetningum sé breytt. Í morgun var til dæmis sagt að Múhameð Alí hefði andast í gærkvöldi þegar átti að segja fyrrakvöld. Hann verður jarðsunginn í Louisville í Kentucky. Hér má heyra framburðinn á borgarnafninu. 

Laugardagur 04. 06. 16 - 4.6.2016 18:30

Oddný G. Harðardóttir, alþingismaður og fyrrverandi fjármálaráðherra, var kjörin formaður Samfylkingarinnar. Úrslitin voru kynnt á landsfundi flokksins í gær (3. júní). Hún hlaut 59,9% atkvæða af 3.787 atkvæðum sem greidd voru. Magnús Orri hlaut 40,1% atkvæða.

Oddný flutti stefnuræðu á landsfundinum í dag. Þá var einnig samþykkt stutt ályktun. Hvorki í stefnuræðunni né ályktuninni er að finna eitt einasta orð um stefnu flokksins í utanríkismálum eða öryggis- og varnarmálum. Ekki er heldur minnst einu orði á Evrópusambandið sem hefur til þessa verið burðarásin í stefnu flokksins. Panamaskjölin koma nú sem sameiningartæki Samfylkingarinnar.

Er með ólíkindum á hve hröðum flótta Samfylkingin er frá ESB-stefnu sinni. Gildir sama um Samfylkinguna og ESB og hinn nýja flokk Viðreisn og ESB. Viðreisn flaggar ekki heldur neinni ESB-stefnu.

Þegar verktaki stækkunardeildar ESB opnaði Evrópustofu í Suðurgötu í Reykjavík 21. janúar 2012 var Oddný Harðardóttir fjármálaráðherra fulltrúi Íslands. Hún flutti ræðu við athöfnina og sagði meðal annars að innan tíðar stæði íslenska þjóðin frammi fyrir mikilvægri ákvörðun og síðan:

„Þetta verður ákvörðun sem sem varðar ungt fólk og framtíð þess. Því er nauðsynlegt að upplýsingar um Evrópumál verði ungu fólki aðgengilegar. Opnun Evrópustofu er stórt lýðræðislegt skref. Lýðræðið þrífst jú ekki án upplýsinga. Ég vænti þess að Evrópustofa stuðli að upplýstri og góðri umræðu um þessi mikilvægu mál.“

Þessi orð féllu skömmu eftir að Jóni Bjarnasyni (VG) hafði verið bolað úr ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og um sama leyti og eftirmaður hans Steingrímur J. Sigfússon fór til Brussel í von um að geta leyst hnútinn í sjávarútvegsmálunum með Brusselmönnum. Það tókst ekki og í raun urðu ESB-viðræðurnar að engu nokkrum vikum síðar.

Upplýsingum um þetta var haldið leyndum þar til eftir stjórnarskiptin 2013. Í aðdraganda landsfundar Samfylkingarinnar sagði Árni Páll Árnasonar, forveri Oddnýjar: „Við byggðum aðildarumsókn að ESB á flóknu baktjalda­samkomulagi, sem aldrei hélt …“ Þannig birtist lýðræðisástin þá með aðild Oddnýjar Harðardóttur.

Það er ótrúverðugt að Oddný Harðadóttir noti Panamaskjölin nú til að kynna Samfylkinguna sem flokk sem vilji „uppræta kerfi blekkingar og spillingar“. Er til meiri pólitísk spilling en reyna að troða Íslandi í ESB í krafti flókins baktjaldamakks?

Föstudagur 03. 06. 16 - 3.6.2016 12:00

Vorþingi lauk í gær en ekki 145. löggjafarþinginu. Því verður fram haldið síðar í sumar. Þingmenn koma aftur saman til nefndarfunda og þingfunda í ágústmánuði. Stefnt er að þingkosningum fyrir lok október. 

Einar K. Guðfinnsson þingforseti flutti ávarp í lok fundar í gær og sagði að þingið hefði á þessum vetri „tekið til meðferðar ýmis stór mál og leitt til lykta með farsælum hætti. Væntanlega eru okkur flestum efst í huga tvö lagafrumvörp sem lúta að afléttingu gjaldeyrishafta auk þess máls sem við afgreiddum rétt í þessu, fyrr á þessum fundi“. 

Málið sem þingforseti vísar þarna til er frumvarp sem Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsmálaráðherra flutti til að skapa fótfestu fyrir stjórnvöld gegn nýrri „snjóhengju“, það er gegn því að eigendur erlends fjármagns högnuðust á skammtímaviðskiptum vegna hárra vaxta hér á landi.

Seðlabankinn hefur nú fengið heimild til þess að setja reglur sem kveða á um bindingu reiðufjár vegna fjárfestinga þar sem horft sé til skammtímaávinnings vegna vaxtamunar milli Íslands og annarra landa og gengisbreytinga. Getur bankinn þannig sett reglur um bindiskyldu á reiðufé sem getur numið allt að 75% af viðskiptunum á reikningi hjá innlánsstofnun hér á landi til allt að fimm ára. 

Það sýnir hve staða þessara mála er viðkvæm núna að Bjarni Benediktsson sagði við meðferð málsins, sem lagt var fram með mjög skömmum fyrirvara, að hann vildi ekki „bera áhættuna af því að taka það til skoðunar í nokkra mánuði vegna þess að við sjáum viss merki þess nú þegar að áhugi á viðskiptum af þessu tagi sé ört vaxandi“.

Þessi mál endurspegla gjörbreytinguna sem orðið hefur í efnahagsmálum Íslendinga í tíð ríkisstjórnarinnar sem nú vill að kosið verði í haust. Er einkennilegt að um það skuli deilt að ákveðið hafi verið að efna til kosninga sem fyrst  slík þáttaskil í efnahagsmálunum. Kjósendur eiga kröfu á að vita hvert flokkar vilja stefna á hinum nýja grunni.

Frá hausti 2008 hefur hrunið sem þá varð mótað allt stjórnmálalífið. Tvær ríkisstjórnir hafa setið. Vinstri stjórn sem gerði í raun illt verra. Mið-hægristjórn sem horfðist í augu við vandann og sigraðist á honum. Kostirnir eru skýrir og skynsamlegt að kalla sem fyrst fram afstöðu kjósenda 

 

 

 

Fimmtudagur 02. 06. 16 - 2.6.2016 17:30

Flugum heim frá Berlín í dag með WOW-air. Allt var á áætlun og stóð eins og stafur á bók. Schönefeld-flugvöllur í Berlín er á sinn hátt minnisvarði um DDR. Hann átti að víkja árið 2010 fyrir nýjum flugvelli, Berlin Brandenburg. Hvert hneykslið hefur rekið annað vegna nýja vallarins sem sumir segja nú að verði ekki nothæfur fyrr en 2019. Ákveðið er að Schönefeld verði notaður áfram en flugstöðvarbyggingin hlýtur að verða endurgerð.   

Gunnar Waage trommari, tónskáld og skólastjóri Trommuskólans heldur úti einni ef ekki fleiri vefsíðum um þjóðfélagsmál. Hann er eindreginn andstæðingur Davíðs Oddssonar. Gunnar bregst illa við því sem ég sagði hér í dagbókinni í gær. Hann telur nauðsynlegt að snúast til varnar fyrir Guðna Th. Jóhannesson og gerir það með þessum orðum:

„Björn Bjarnason er sama tegund [og Davíð Oddsson], siðblindur og með hreinar ranghugmyndir um stöðu sína í samfélaginu. Hann segir nú einnig frjálslega frá því á blogsíðu sinni að hann sjái ekkert athugavert við að hafa haft rangt eftir Guðna Th. Jóhannessyni, þar sem að það sé barasta Modus Operandi í pólitík. Málflutningur Björns Bjarnasonar er sjúklegur. Það er fyllilega ljóst að landinu hefur verið stjórnað af mönnum eins og Birni sem áður var dóms og kirkjumálamálaráðherra, sem hvorki sjá neina ástæðu til sanngirni né sannsögli.“

Gunnar Waage tekur sér það bessaleyfi að birta í heild textann hér í dagbókinni í gær með þeim formála til lesenda sinna að hafi þeir „fræðilegan áhuga á að virða fyrir [sér] skólabókardæmi úr geðfræðinni með því að gægjast inn í hugarheim siðblinds veruleikafirrts manns sem eitt sinn var ráðherra í Íslenskri ríkisstjórn“ skuli þeir lesa texta minn.

Málflutningur af þessu tagi er framboði eða málstað Guðna Th. hvorki sæmandi né til framdráttar. Að kvöldi gærdagsins barst mér allt annars konar kveðja frá  Guðna sjálfum í tölvubréfi með fyrirsögninni þakkir: „Sæll,Las bloggið þitt. Takk fyrir að birta aths. No hard feelings Kv. Guðni“

Orðbragð Gunnars Waage og afstaða er langt út fyrir það sem venjulegt er. Hann er fastur pistlahöfundur á Kvennablaðinu.

Miðvikudagur 01. 06. 16 - 1.6.2016 12:00

Guðni Th. Jóhannesson sendi mér bréf vegna þess sem sagði hér á síðunni í gær. Sér hefði sárnað að ég skrifaði þetta: „Í fyrirlestri í Háskólanum í Bifröst 3. maí 2013 lýsti Guðni Th. Jóhannesson því að „ómenntuð sveitakona“ hefði verið „með það á hreinu að Íslendingar voru að berjast fyrir lífsafkomu sinni og að skipherrarnir á varðskipunum voru þjóðhetjurnar sem unnu stríðið“."

Þá segir Guðni Th. í bréfinu að ég geti auðvitað haldið því fram að hann hafi sagt þetta en hann hafi hins vegar birt ummæli á glæru eftir unga stúlku. „Þessi ummæli hafði ég á glærum. Sakaðu dótturina um að kalla móður sína ómenntaða sveitakonu, ekki mig. Eins og þú ættir að geta séð og heyrt var engin niðrunartónn í ummælunum, nemandinn var að bera saman sjónarmið og vildi hnykkja á því að móðirin, ekki langskólagengin, hefði sína sýn á þessi átök á meðan yngri kynslóðin virtist hafa gleymt þeim.“

Mér er ljúft að birta þessa athugasemd frá forsetaframbjóðandanum. Það er hins vegar langsótt hjá honum að ég hafi borið á hann sakir fyrir þessi ummæli og ég eigi að beina ásökunum að nemanda hans sem getið var á glærunni. Mér finnst einfaldlega ekkert athugavert við þessi orð á glærunni. Ég birti þau í dagbókarfærslunni í gær til að bregða ljósi á ummæli Guðna Th. sjálfs um „fávísa lýðinn“. Í lok færslunnar sagði ég:

„Fyrir 15 árum höfðu olíufélögin samráð um verð á ýmsum vörum. Vegna rannsóknar málsins voru birt tölvubréf sem gengu á milli starfsmanna félaganna. Í einu þeirra voru orð sem urðu fleyg: „fólk er fífl!!!!“ Hvert sem tilefnið var spillti þetta málstað félaganna mjög meðal almennings. Orð Guðna Th. „fávís lýðurinn“ eru af sama meiði. Þau breytast ekki með árásum á Davíð Oddsson.“

Í kosninga- og stjórnmálabaráttu verða frambjóðendur og forystumenn að sætta sig að vitnað sé til orða þeirra við skýringar á skoðunum og viðhorfum. Þetta er skrifað í Berlín en í þýskum fjölmiðlum á varaformaður flokksins AfD í vök að verjast vegna orða sem hann lét falla um blökkumann í landsliði Þjóðverja í knattspyrnu: hann kynni að vera vinsæll á vellinum en fáir vildu hann fyrir nágranna. Fyrsta vörn varaformannsins var að neita að rétt væri eftir sér haft og gerði hann með því vont mál verra fyrir sig.