21.6.2016 14:00

Þriðjudagur 21. 06. 16

Lokasólarhringarnir fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna í Bretlandi um ESB-aðildina verða notaðir til hins ýtrasta af báðum fylkingum. Í dag ávarpaði David Cameron forsætisráðherra þjóðina við útidyrnar á Downing-stræti 10, útidyrnar sem eru best þetta tákn breska forsætisráðherraembættisins. Hann hvatti þjóðina til að greiða atkvæði með aðild, það yrði ekki snúið til baka kæmi til úrsagnar. Andstæðingar aðildar mótmæla harðlega að forsætisráðherrann misnoti þetta valdatákn þjóðarinnar á þennan hátt. 

Í leiðara Fréttablaðsins í dag segir í upphafi:  

Bretar kjósa nú á fimmtudag um áframhaldandi veru sína innan Evrópusambandsins. Kosningarnar eru tvísýnar, skoðanakannanir síðustu mánaða hafa verið meira og minna jafnar upp á hár.“ 

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem íslenskur blaðamaður notar sögnina að kjósa og nafnorðið kosningar um atkvæðagreiðsluna í Bretlandi. Til þessa höfum við greitt atkvæði um mál og þess vegna er talað um þjóðaratkvæðagreiðslu. Þegar valið er á milli manna eða flokka kjósum við hins vegar og göngum til kosninga. Það er til marks um málfátækt að gera ekki greinarmun á atkvæðagreiðslu og kosningum. Þá er jafnan talað um niðurstöður skoðanakannana. 

Hér hefur markvisst verið unnið gegn kristnikennslu í skólum. Sama þróun hefur verið víðar, meðal annars í Danmörku. Nýjar yfirlýsingar Ellen Trane Nørby menntamálaráðherra úr Venstre-flokknum (mið-hægri), benda hins vegar til þess að hún muni beita sér fyrir að allir grunnskólanemendur í Danmörku verði að hljóta kristnikennslu. Nú er þetta eina námsefnið í dönskum grunnskólum sem er valfag. Segist ráðherrann ekki útiloka að þessum reglum verði breytt.

Kemur þetta fram í svari ráðherrans við fyrirspurn frá Marie Karup, þingmanni Danska þjóðarflokksins, sem segir bráðnauðsynlegt að allir – einkum múslimar en einnig Danir – hljóti kristnifræðslu. Claus Hjortdal, formaður samtaka danskra skólastjóra, er eindreginn andstæðingur breytinga á þessu sviði, þær séu í hróplegri andstöðu við danskt frjálslyndi.

Hvað sem trúmálum líður myndast mikið tóm og augljós skortur á þekkingu og skilningi á vestrænum þjóðfélögum sé fræðslu um kristni og áhrif hennar stungið undir stól í skólum. Að ala á slíkri vanþekkingu er engum til sóma.