Dagbók: apríl 2016

Laugardagur 30. 04. 16 - 30.4.2016 12:00

 

Finnar hafa tengst NATO á ýmsan hátt undanfarin ár og þar hafa verið umræður um aðild að bandalaginu. Til að meta áhrif hugsanlegrar aðildar kallaði finnska  ríkisstjórnin til hóp fjögurra manna, tveggja Finna og tveggja útlendinga. Hann skilaði skýrslu í gær og má lesa hana hér. Einnig er frétt um hana hér.

Í niðurstöðum hópsins er í fáum orðum minnt á hve mjög þarf að vanda umsóknar- og aðildarferli þegar um er að ræða ákvarðanir sem hafa áhrif á framtíðarstöðu þjóða á alþjóðavettvangi. Ekki beri að hrapa að slíkum ákvörðunum. Sé aðildarferli hafið verði tvíhliða skilningur að ríkja um að þar sé um langtíma skuldbindingu að ræða og að ákvörðun um aðildarumsókn kynni að verða erfið vegna ágreinings um málið.

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra hennar, hefðu tekið mark á slíkum ráðum og farið eftir þeim þegar ákveðið var að sækja um aðild að Evrópusambandinu á vormánuðum 2009. Þeim gefið þetta ráð af landsfundi sjálfstæðismanna í mars 2009 þar sem samþykkt var að ekki skyldi sótt um aðild að ESB nema fyrst hefði verið efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.

Á þetta ráð var ekki hlustað heldur hrapað að umsókn með stuðningi VG sem sagðist andvígt aðild! Aðildarferlið hófst án tvíhliða skilnings ríkisstjórnarinnar og ESB á eðli þess. Logið var til um eðli ferlisins og jafnvel látið eins og um formsatriði væri að ræða sem tæki skamman tíma að kasta aftur fyrir sig. Hvorki fyrr né síðar hefur verið vegið jafnskipulega að trúverðugleika Íslands í alþjóðasamstarfi.

Það er grátbroslegt þegar þeir sem stóðu að sneypuförinni til Brussel og töldu sig geta bæði blekkt Íslendinga og Brusselmenn þykjast nú sérstakir málsvarar orðspors Íslands á alþjóðavettvangi. Þetta eru að meginstofni sömu mennirnir sem töldu að orðsporið mundi glatast ef ekki yrði gengið að Icesave-afarkostum Breta og Hollendinga.

Í gær birti ég grein í Morgunblaðinu þar sem ég ræddi um orðsporið. Má lesa hana hér.

 

Föstudagur 29. 04. 16 - 29.4.2016 12:00

Um það er ekki deilt að Schengen-kerfið hrundi með hruni landamæravörslu við Miðjarðarhaf. Þótt sjá hafi mátt merki um það árum saman að hætta væri á ólöglegum straumi fólks til Evrópu frá Norður-Afríku létu stjórnmálamenn sér nægja að tala um vandann á vettvangi ESB. Þeir gripu ekki til neinna markvissra gagnaðgerða fyrr en fréttir af mannskæðum sjóslysum bárust. Var þá fólk á leið frá Líbíu til Ítalíu.

Síðan bárust fréttir um straum fólks til Grikklands frá Tyrklandi, fyrst á landi og síðan sjó. Ekki var brugðist við þeim vanda fyrr en í óefni var komið eins og dæmin sanna. Það var ekki fyrr en Angela Merkel hafði opnað Þýsakaland fyrir farand- og flóttafólki og meira en milljón manns höfðu streymt til Þýskalands í vaxandi óþökk Þjóðverja sem vandinn var viðurkenndur á þann hátt sem átti að gera miklu fyrr.

Nú hefur pendúllinn sveiflast í hina áttina og er þróun mála í Austurríki ágætt dæmi um það. Þegar ríkisstjórn Ungverjalands ákvað að stöðva straum fólks frá Júgóslavíu fyrrverandi til Ungverjalands og reisti mannhelda girðingu á landamærunum heyrðust hneykslunarraddir víða ekki síst í Austurríki þar sem menn töldu sig þroskaðri en svo að þola ætti svo ómannúðlegar aðfarir.

Staðan er nú þannig í Austurríki að sá sigraði í fyrri umferð forsetakosninga sem helst varar við ólöglegum straumi fólks til landsins. Samþykkt hafa verið ströng ákvæði í útlendingalögum sem veitir ríkisstjórninni aukið vald til að vísa fólki úr landi. Landamærunum gagnvart Slóveníu hefur verið lokað og nú er rætt um að reisa 400 m langa mannhelda girðingu í Brenner-skarði í Ölpunum til að loka landamærunum gagnvart Ítalíu af ótta við að um það muni annars berast bylgja af fólki frá Líbíu.

Straumur ólöglegra eykst hingað til lands. Viðbrögðin minna því miður um of á það sem kallað hefur stórvandræði yfir flest nágrannaríkin. Rætt um málið án þess að grípa til raunhæfra aðgerða. Kostnaður vegna komu hinna ólöglegu vex jafnt og þétt og þeir kalla á vandræði af ýmsum toga eins og sést af fréttum frá Kjalarnesi.

Margt bendir til að alþingismenn misskilji stöðuna og telji lausn vandans felast í nýrri löggjöf eða samtali þeirra á milli. Lausnin felst í að nýta gildandi lagaheimildir og herða landamæravörslu.

Fimmtudagur 28. 04. 16 - 28.4.2016 12:00

Þáttur minn á ÍNN frá í gær þar sem ég ræddi við Sigurjón Einarsson náttúruljósmyndara og Guðrúnu Jónsdóttur, forstöðukonu Safnahúss Borgarfjarðar, er kominn á netið og má sjá hann hér.

Stundum var haft á orði að tíu ár liðu frá því að eitthvað festi rætur annars staðar á Norðurlöndunum áður en það bærist hingað til landsins. Hefur þetta ekki síst verið notað til að lýsa afbrotaþróun og viðbrögðum við henni. Þessi kenning er fokin út í veður og vind þó ekki sé nema vegna hins mikla fjölda ferðamanna sem streymir nú til landsins allan ársins hring.

Efast má um að íslenska stjórnkerfið hafi lagað sig að þessum breytingum svo að ekki sé minnst á umræðuhefðina um stjórnmál og önnur málefni hér á landi. Margt bendir til að þarna sé pottur brotinn. Ein leið til að bregðast við breyttum og nýjum aðstæðum er að kalla á erlenda ráðgjafa. Fá þá til að leggja mat á ýmis lykilmál sem eru til umræðu hér. Þá er ekki átt við þá sem reyna að telja þjóðinni trú um að þeirra boðskapur sé betri en annarra heldur atvinnumenn, sérfróða á sínu sviði sem sinna ráðgjöf um heim allan við úrlausn verkefna sem eru alþjóðleg í eðli sínu en framkvæma þarf innan gildandi laga á hverjum stað.

Í fjögur ár sátum við uppi með ríkisstjórn, vinstri stjórn, sem reyndi í senn að færa klukkuna til baka, til dæmis í skattamálum, og svipta þjóðina fullveldi með aðild að ESB. Trúin á eigin getu stjórnarherranna var svo lítil að þeir töldu til dæmis ekki fært að losa þjóðina úr fjármagnshöftum nema með afsali fullveldis og aðild að ESB.

Núverandi ríkisstjórn réð þaulreynda alþjóðlega sérfræðinga til að semja við kröfuhafana svonefndu og losa þjóðina úr greipum þeirra og leggja þannig lóð á vogarskál meiri hagsældar en nokkru sinni hefur verið mæld í íslensku efnahagslífi.

Hvers vegna er ekki sama leið farin á fleiri sviðum? Hvað um nýja félagið sem á að selja „stööugleikaeignirnar“? Hvers vegna felur fjármálaráðherra ekki stjórn þess að semja við erlenda sérfræðinga um ráðgjöf við smíði sölutillagna og síðan framkvæmd þeirra? Hlutverk stjórnarinnar yrði eftirlit.

Fyrsta einkavæðing bankanna sætir enn gagnrýni vegna þess hvernig að henni var staðið. Önnur einkavæðing bankanna var framkvæmd með leynd. Þriðju einkavæðinguna ætti að framkvæma með aðild erlendra, óháðra sérfræðinga.

Miðvikudagur 27. 04. 16 - 27.4.2016 18:15

Í dag ræddi ég við Sigurjón Einarsson náttúruljósmyndara og Guðrúnu Jónsdóttur, forstöðukonu Safnahúss Borgarfjarðar, í þætti mínum á ÍNN. Hann er frumsýndur kl. 20.00 í kvöld á rás 20.

Furðulegt er að nokkrum á fréttastofu ríkisútvarpsins skuli hafa dottið í hug að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra yrði formaður félags sem stofnað er með lögum til að annast umsýslu og fullnustu svonefndra „stöðugleikaeigna“. Þetta eru eignir sem falla ríkinu í skaut vegna uppgjörsins við kröfuhafana og er Íslandsbanki meðal þeirra.

Ríkisútvarpið tilnefndi fjármálaráðherra ranglega formann þessarar stjórnar í fréttum þriðjudaginn 26. apríl en baðst síðan afsökunar á rangherminu miðvikudaginn 27. apríl.

Eitt er að ríkisútvarpið vaði villu og reyk í þessu máli. Þeir sem skrifa á vefsíðuna Stundina eltu ríkisfréttamennina eins og í blindni. Þar slógu menn því upp í hneykslunartóni sem aðalfrétt að fjármálaráðherra yrði stjórnarformaður í félaginu þótt gert væri ráð fyrir öðru í áliti þingnefndar. Hlakkaði greinilega í þeim sem að frétt Stundarinnar stóð, nú fengi hann enn nýtt tilefni til að veitast að fjármálaráðherra.

Bjarni Benediktsson fjallaði um málið á FB-síðu sinni og sagði meðal annars:

„…vonandi læra einhverjir af þessu að éta ekki umhugsunarlaust upp eftir öðrum (þmt RÚV) og kveða í beinu framhaldi upp dóma. Ég sé að þetta hafa þónokkuð margir gert. Það sem fengist með því væri nefninlega eftirsóknarvert fyrir okkur öll. Betra samfélag.“

Þessi athugasemd ráðherrans fór fyrir brjóstið á Nönnu Elísu Jakobsdóttur á Fréttablaðinu sem skammaði ráðherrann og ráðuneyti hans á FB-síðu sinni fyrir „að leyfa mistökum fréttamanns á RÚV í gær að lifa frá gærkvöldi og inn í daginn í dag í staðinn fyrir að leiðrétta málið“. Þetta er í raun ótrúlegt viðhorf og til marks um hjarðeðli í hópi fjölmiðlamanna.

Er það orðið á ábyrgð ráðuneyta að koma í veg fyrir að fjölmiðlamenn endurtaki vitleysur hver annars í stað þess að leita sjálfstætt staðfestingar á því hvort frétt sé rétt?

Forvitnilegast í þessu máli era að vita hvernig í ósköpunum nokkrum á ríkisfréttastofunni datt þessi vitleysa í hug og setti hana í loftið án þess að leita staðfestingar heimildarmanna. Nanna Elís snýr hlutunum á hvolf með því að breyta vitleysu ríkisútvarpsins í vandamál fjármálaráðuneytisins.

 

 

Þriðjudagur 26. 04. 16 - 26.4.2016 19:00

Í frétt frá 18. apríl á vefsíðu útlendingastofnunar segir:

„Á fyrstu þremur mánuðum ársins 2016 sóttu 134 einstaklingar frá 24 löndum um vernd á Íslandi. Á sama tíma á síðasta ári höfðu 39 einstaklingar sótt um vernd. Flestir umsækjenda komu frá Albaníu (33), Makedóníu (21), Írak (19) og Sýrlandi (12) en alls komu 44% umsækjenda frá löndum Balkanskagans. 78% umsækjenda voru karlkyns og 85% umsækjenda fullorðnir. Umsóknir frá fylgdarlausum ungmennum voru þrjár á fyrsta ársfjórðungi.“

Stofnunin bendir á að aðstæður meirihluta hælisleitenda hér á landi séu frábrugðnar því sem gerist annars staðar í Evrópu. Þar eru Sýrlendingar, Afganir og Írakar fjölmennastir en fólk frá Balkanlöndunum hér. Ástæðan fyrir þessu er pólitísk. Íslensk stjórnvöld hafa ekki tekið nægilega skýrt af skarið um að engar almennar efnislegar forsendur séu fyrir hælisvist fólks frá Balkanlöndunum hér landi. Fordæmið sem alþingi gaf með samþykkt ríkisborgaralaganna skömmu fyrir jólaleyfi sitt dregur dilk á eftir sér.

Á vefsíðunni segir einnig:

„Útlendingastofnun hefur tekist að halda málsmeðferðarhraða í viðunandi horfi það sem af er ári [...] 

Meðalmálsmeðferðartími afgreiddra mála á fyrsta ársfjórðungi 2016 var 103 dagar. Að meðaltali tók 102 daga að afgreiða mál á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og 104 daga að afgreiða mál á grundvelli efnismeðferðar. Ákvarðanir um synjanir voru að meðaltali teknar á 95 dögum og ákvarðanir um veitingar á 112 dögum.“

Þá er þess getið að í lok janúar 2016 hafi verið hafist handa við að vinna mál á grundvelli svonefndrar forgangsmeðferðar. Þegar hafi 23 mál verið afgreidd þannig og þar hafi meðalmálsmeðferðartími verið 13 sólarhringar. Þá segir:

„Kærunefnd útlendingamála kvað upp 80 úrskurði í kærumálum vegna hælisumsókna á fyrsta ársfjórðungi og staðfesti nefndin ákvarðanir Útlendingastofnunar í 87% tilvika. Þar af staðfesti nefndin allar ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum sem afgreidd voru á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og í 82% tilvika þegar um efnismál var að ræða.“

Þetta eru mikilsverðar upplýsingar um málaflokk sem ræður miklu um framvindu stjórnmála í öllum Evrópulöndum. Í tíð núverandi ríkisstjórnar hefur undir forystu innanríkisráðherranna Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og Ólafar Nordal verið unnið skipulega að því að „straumlínulaga“ afgreiðslu hælismála undir stjórn Kristínar Völundardóttur og starfsmanna útlendingastofnunnar.

Allar breytingar á útlendingalögum hér hljóta að taka mið af hertum reglum annars staðar og verða í takt við þær. Annars er verr af stað farið en heima setið.

 

 

Mánudagur 25. 04. 16 - 25.4.2016 15:30

Fréttablaðið kæmi ekki út nema vegna aflandssjóða eigandans. Hvað hafa fastir álitsgjafar blaðsins um upplýsingarnar í Panama-skjölunum að segja? Helst má skilja þá Magnús Guðmundsson sem skrifar leiðara Fréttablaðsins í dag og hinn fasta mánudagshöfund blaðsins, Guðmund Andra Thorsson, á þann veg að þeim hafi ekki verið sjálfrátt sem kusu aflndsskjólin, þeir hafi verið smitaðir af þjóðfélagsmeini.

Magnús segir:

„Allt virðist þetta vera dapurleg afleiðing af hugsunarhætti sem virðist hafa haldið innreið sína í íslenskt samfélag á fyrstu árum aldarinnar. Að réttur einstaklinga til þess að græða peninga væri öllu æðri og það jafnvel á kostnað velferðar samborgara sinna og samfélags.“

Guðmundur Andri segir:

„ Samt er það augljóst að upp úr aldamótum hefur ekki verið maður með mönnum hér á landi í íslenskri auðstétt sem ekki geymdi eignir sínar í slíkum skúmaskotum, með flóknu felu­neti. Þetta var menningarástand, tákn um auðlegð og ríkidæmi, svona eins og bótox, alveg burtséð frá því hvernig það liti út. Stöðutákn. Til marks um að maður væri á fyrsta farrými þjóðlífsins.“

Með öðrum orðum Jón Ásgeir og Ingibjörg Stefanía gerðu ekki annað en allir hinir. Guðmundur Andri gengur lengra til afsökunar þeim þegar hann segir: „ Þetta var nefnilega aldrei spurning um illt innræti einstakra persóna heldur var þetta útbreiddara en svo; þetta var stefna sem sett var af stjórnmálamönnum og hugmyndafræðingum og fylgt fram af harðfylgi.“

Sökudólgarnir eru nefndir til sögunnar: stjórnmálamennirnir og hugmyndafræðingarnir! Góðviljað fólk flutti peningana sína í aflandsskjól fyrir harðfylgi þeirra. Trúir Guðmundur Andri þessu eða vill hann bara reyna að geðjast Jóni Ásgeiri?

Samhljómur álitsgjafa Fréttablaðsins nær ekki einungis til orsakanna heldur einnig til yfirbótarinnar.

Aflandsfólkið á að gera „hreint fyrir sínum dyrum“ segir Magnús og einnig á það að „svara skýrt og skilmerkilega hvaðan þetta fé er komið og hver tilgangurinn“ var með ráðstöfun þess.

Guðmundur Andri segir:

„Sá sem uppvís verður að því að geyma fé sitt utan við samfélag sitt hefur þar með fyrirgert samfélagslegri sæmd sinni. Og mun ekki endurheimta hana með frekju og ofstopa heldur auðmýkt, raunverulegri iðrun og yfirbót.“

Jón Ásgeir heldur Fréttablaðinu úti vegna eigin hagsmuna. Þeir sem enn halda sessi sem fastir álitsgjafar á blaðinu vita sín takmörk. Engu er líkara en Magnús og Guðmundur Andri hafi sammælst – er þetta lína aðalritstjórans, blaðafulltrúa Jóns Ásgeirs til margra ára?

 

Sunnudagur 24. 04. 16 - 24.4.2016 19:00

Í þrjú ár hefur hér verið stjórnarandstaða sem varið hefur mestum tíma á alþingi til að ræða mál undir dagskrárliðnum fundarstjórn forseta. Er raunar óskiljanlegt að þeirri glufu til að sýna forseta alþingis og þinginu sjálfu óvirðingu skuli ekki hafa verið lokað. Eitt er víst að stjórnarandstaðan metur það alls ekki neins við stjórnarliða að gefa henni þetta fría spil til að þusa um allt og ekkert.

Hafi það verið von stjórnarflokkanna að skapa frið um þingstörfin með því að koma til móts við kröfuna um kosningar sem fyrst hljóta forystumenn ríkisstjórnarinnar að hafa orðið fyrir vonbrigðum. Stjórnarandstaðan metur þá sáttarhönd einskis.

Til að árétta vilja sinn til samráðs hafa forystumenn stjórnarandstöðunnar verið boðaðir til funda með forsætisráðherra og fjármálaráðherra í Stjórnarráðshúsinu. Þeir fundir eru til einskis eins og sést af þessum ummælum Svandísar Svavarsdóttur í sjónvarpssamtali í morgun:

„Maður er nátt­úru­lega hissa, svo ekki sé fast­ar að orði kveðið, að ekki sé hægt að setja ein­fald­lega niður þenn­an dag og ég skil það ekki að það sé búið að halda tvo fundi í stjórn­ar­ráðinu með stjórn­ar­and­stöðunni og afrakst­ur­inn skuli enn vera sá að það sé ennþá loðið og lævi blandið hvenær verður kosið. Mér finnst þetta dóna­legt gagn­vart þjóðinni.“

Stjórnarandstaðan á enga heimtingu á að nefnd sé við hana annar kjördagur en sá sem mælt er fyrir í stjórnarskránni, hann er eftir um það bil eitt ár. Náist ekki samkomulag um framgang þingmála á þann veg sem meirihluti alþingis ákveður skapar það stjórnarandstöðunni engan rétt. Allan vafa í þessu máli ber að skýra stjórnarskránni í vil. Að kalla það „dónalegt“ er ekki til marks um annað en rakalausa frekju.

Eftir að hafa talað á þennan veg tók Svandís að býsnast yfir þingmálaskrá sem ríkisstjórnin hefur kynnt stjórnarandstöðunni vegna ítekaðra krafna hennar.

Þeir sem í þrjú ár hafa reist þingstörf sín á glufu í þingsköpum sjá að sjálfsögðu ekkert athugavert við breyta stjórnmálabaráttunni í kveinstafi yfir að vita ekki um kjördag og nöldur yfir fjölda mála á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar.

 

Laugardagur 23. 04. 16 - 23.4.2016 17:10

Í bókinni Útistöður talar Margrét Tryggvadóttir, fyrrv. þingmaður Hreyfingarinnar, um Birgittuvesenið, þar er sérkennilega framgöngu Birgittu Jónsdóttur, þáverandi flokks- og þingsystur sinnar, þegar dró að þinglokum. Hér skal ekki lýst hvernig vesenið birtist Margréti en það blasir nú við þeim sem fylgjast með framgöngu Birgittu þessar vorvikur.

Í gær sat hún fundi í Stjórnarráðshúsinu með forsætisráðherra og fjármálaráðherra, oddvitum ríkisstjórnarinnar, um framgang þingmála. Eftir fundinn sagði hún við ríkisfréttastofuna að fundurinn hafi verið „tilgangslaus“. Hún væri „minna upplýst“ eftir fundinn um kjördag og forgangsmál ríkisstjórnarinnar.

„Það var ekkert samráð á þessum fundi, enda ekki hægt að vera með samráð um eitthvað sem maður veit ekki hvað er,“ sagði Birgitta og afhjúpaði tilgangsleysi þess að boða hana til fundar um slík alvörumál.

Á sínum tíma framlengdi Birgitta líf ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur af því að hún taldi sér trú um og hélt því að öðrum að ríkisstjórnin mundi ná einhverjum árangri. Það reyndist allt rangt mat hjá Birgittu. Nú er hún í stjórnarandstöðu og þykist ekki vita neitt um efni mála sem henni eru kynnt. Vesenið birtist í ýmsum myndum og magnast þegar nær dregur þinglokum.

Það sýnir afskiptapólitík Birgittu og virðingarleysi fyrir eðlilegum stjórnsýsluháttum að í þingræðu miðvikudaginn 20. apríl taldi hún eðlilegt að menntamálaráðherra veitti sérstaklega fé til Kastljóss ríkisútvarpsins til að stjórnendur þáttarins gætu keypt fleiri þætti um Panama-skjölin.

Nú segja fjölmiðlamenn að Donald Trump sem keppir að forsetaframboði fyrir bandaríska repúblíkana hafi breytt um stíl til að milda eigin ímynd. Þegar hann fagnaði sigri í prófkjöri í New York að kvöldi þriðjudags 19. apríl hélt hann sig við skrifaðan ræðutexta. Sérstaklega var eftir því tekið að hann sagði ekki lengur lyin‘Ted (Ted lygari) þegar hann minntist á keppinaut sinn Ted Cruz heldur var formlegri og sagði senator Ted Cruz.

Stjórnarandstaðan hér hefur minnt verulega á Donald Trump undanfarnar vikur. Þar hefur Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, gjarnan gefið tóninn með svigurmælum um stjórnarflokkana og forystumenn þeirra. Skoðanakannanir sýna að þetta hefur ekki skilað Samfylkingunni neinu fylgi, þvert á móti hefur það minnkað. Nú hefur Árni Páll skipt um gír eins og Trump. Hvað gerir Birgitta?

 

 

 

Föstudagur 22. 04. 16 - 22.4.2016 12:00

Viðtal mitt við Ásdísi Kristjánsdóttur, hagfræðing Samtaka atvinnulífsins, á ÍNN miðvikudaginn 20. apríl er komið á netið og má sjá það hér. Við tókum það upp og frumsýndum daginn áður en forsíðufrétt birtist um sama efni í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni: Besta staða frá stríðslokum, þar er vísað til stöðunnar í íslenskum efnahagsmálum.

Hefst fréttin á því að sérfræðingar telji líklegt „að eft­ir tvö til þrjú ár verði er­lend staða þjóðarbús­ins orðin já­kvæð“. Þetta þýðir að eftir tvö eða þrjú ár eigi íslenska þjóðarbúið inneign í útlöndum í stað þess að vera þjakað af erlendum skuldum sem námu 130% af vergri landsframleiðslu í árslok 2008. Nú um þessar mundir er þessi tala 14%. Þetta eru söguleg umskipti til hins betra og er merkilegt að um þau sé ekki talað í fréttum á sama hátt og alið var á svartsýni og úlfúð þegar syrti í álinn við hrun bankakerfisins.

Seðlabanki Íslands hefur mótað hávaxtastefnu í peningamálum til að sporna við hættu á verðbólgu. Kaupmáttur eykst hins vegar um 11,6% milli ára án þess að verð bólgni. Vaxtastefnan kallar hins vegar að nýju á erlenda fjárfesta sem vilja hagnast á vaxtamuninum hér á landi, fjárfesta í vöxtunum með kaupum á skuldabréfum. Þetta leiddi til svonefndrar „snjóhengju“ á árunum fyrir hrun. Hefur ekki enn tekist að losna við hana.

Sig­ríður Bene­dikts­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri fjár­mála­stöðug­leika­sviðs Seðlabank­ans, seg­ir í Morg­un­blaðinu 21. apríl, eng­in merki um áhættu vegna mik­ils inn­flæðis gjald­eyr­is í landið. Þetta sé ekki inn­flæði vegna fjár­fest­ing­ar, sem geti falið í sér áhættu, líkt og gerðist fyr­ir hrunið. Í samtalinu segir hún þó að seðlabankinn þurfi ný tæki til að takast á við þetta innflæði, til dæmis heimild til að skattleggja þá sem fjárfesti hér til skamms tíma. Einnig minnist hún á bindisskyldu, það er að bankar verði skyldaðir til að halda aftur af útlánum.

Um þetta fjöllum við Ásdís undir lok samtalsins. Ég skil Ásdísi þannig að um þessar mundir telji hún brýnast að finna leiðir til að varna því að hér verði til ný snjóhengja, það er stemma stigu við að erlendir fjárfestar komi hingað til að festa fé í vaxtamun.

Augljóst er að tímabært er að skipta um gír í umræðunum um íslensk efnahagsmál, hvað sem öðru líður. Við núverandi aðstæður er ástæðulaust að sitja fastur í svartnætti umræðna undanfarinna ára.

Gleðilegt sumar!

 

Fimmtudagur 21. 04. 16 - 21.4.2016 19:30

Athyglin beinist nú að fjórða valdinu, fjölmiðlunum, hér á landi vegna upplýsinga úr Panama-skjölunum. Upplýst er um umsvif Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og konu hans, Ingibjargar Stefaníu Pálmadóttur, í þremur vefmiðlum í morgun Stundinni, Reykjavík media og Kjarnanum. Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, segir á síðunni í dag:

Þrátt fyrir að Ingibjörg hafi sjálf verið umsvifamikill fjárfestir fyrir hrun og tekið þátt í mörgum áhættusömum fjárfestingaævintýrum í slagtogi við eiginmann sinn eða ein síns liðs þá virðist hún hafi komið nokkuð vel utan hrunvetrinum. Að minnsta kosti hefur henni tekist að halda mörgum af sínum helstu eignum á Íslandi og í krafti auðs síns tekið yfir aðrar eignir, sem Jón Ásgeir átti áður en lenti í erfiðleikum með að halda vegna þrýstings kröfuhafa, rannsókna sérstaks saksóknara og uppþornaðs lánshæfis. Þar ber helst að nefna stærsta einkarekna fjölmiðlafyrirtæki landsins, 365 miðla, sem Ingibjörg tók yfir eftir að Jón Ásgeir hafði tryggt sér áframhaldandi stjórn á því vikurnar eftir bankahrunið. 

Skiptastjórar í þrotabúum félaga sem tengjast hjónunum hafa lengi skoðað alls kyns tilfærslur á eignum sem áttu sér stað innan þeirra á lokametrunum fyrir hrun eða á misserunum eftir það. Með litlum árangri. Peningarnir virtust hafa farið til peningahimna.“ 

Í bók minni Rosabaugur yfir Íslandi segir:

„Fjárhag 365 miðla ehf. þurfti að styrkja í árslok 2009. Í lok mars 2010 staðfesti Ingibjörg S. Pálmadóttir, stjórnaformaður 365 miðla ehf., að tekist hefði að afla félaginu milljarðs króna í aukið hlutafé [...] „Ég er ánægð að þetta er í höfn,“ sagði Ingibjörg við Fréttablaðið sem skýrði frá því að Ingibjörg færi með 90,2% af A-bréfum, atkvæðisbæru hlutafé. [...] Ingibjörgu þótti ástæðulaust að skýra hverjir færu með eignarhald á B-bréfum 365. „Það eru þöglir hluthafar sem fara ekki með atkvæði í félaginu og hafa þess vegna engin áhrif á stjórnun þess.“ Þá áréttaði Ingibjörg að hún færi sjálf með atkvæðisréttinn í 365 miðlum. „Eiginmaður hennar og meðeigandi að félaginu er Jón Ásgeir Jóhannesson,“ sagði í lok fréttar Fréttablaðsins.“ (31. mars 2010).

Í bókinni er vitnað í viðtal við Jón Ásgeir á Stöð 2 í september þá féllu orð á þennan veg:

Fréttamaður: Hefurðu komið einhverjum fjármunum undan?

Jón Ásgeir: Nei. Það er enginn fjársjóður á Tortola eða einhvers staðar í suðurhöfum.

Fréttamaður: Hver er staðan þín?

Jón Ásgeir: Mín persónulega staða? Ég á fyrir Diet Coke, það er nóg.

 

Miðvikudagur 20. 04. 16 - 20.4.2016 16:00

Í dag ræði ég við Ásdísi Kristjánsdóttur, hagfræðing Samtaka atvinnulífsins, í þætti mínum á ÍNN. Við ræðum um stöðu íslenskra efnahagsmála. Það er með ólíkindum að sjálfstæðismenn og framsóknarmenn haldi því ekki betur til haga gagnvart almenningi hve þjóðarbúskapurinn er á góðu róli, hinu besta frá því nútímalegar mælingar á stöðu þjóðarbúsins hófust.

Umsnúningurinn sem orðið í tíð þessarar ríkisstjórnar í efnahagsmálum er með ólíkindum. Þar ráða samningarnir við kröfuhafana úrslitum að lokum. Erlendar skuldir þjóðarbúsins eru aðeins 14% og stefnir í að um eign verði að ræða frekar en skuld gagnvart útlöndum.

Í dag birti Hagstofa Íslands tölur sem sýna að síðastliðna tólf mánuði hafi launavísitalan hækkað um 13,3% og kaupmáttur launa um 11,6%. Að þetta gerist án þess að verðbólgu verði vart er einstakt.

Fyrir nokkrum mánuðum einkenndust fréttir af hrakspám vegna yfirvofandi kjarasamninga og alið var á kvíða og hræðslu vegna þeirra. Ekkert af þessum spám hefur ræst og er það enn fjöður í hatt stjórnvalda að hafa ekki hrakist af leið vegna þessa.

Að sjálfsögðu er það flokkum sem hafa gjörólíka stefnu í efnahagsmálum og stjórnarflokkarnir kappsmál að þegja þunnu hljóði um velgengnina þegar stefnu stjórnarflokkanna er fylgt. Vilja andstæðingar ríkisstjórnarinnar drepa umræðum um alvörumál á dreif með árásum á menn. Að láta þá komast upp með það sýnir að öxull er brotinn í áróðursvél stjórnarflokkanna og þeir hafa ekki burði til að stýra umræðunum.

Á árunum 2005 til 2007 streymdu erlendir peningar inn í landið þar sem útlendingar í leit að háum vöxtum fyrir fé sitt keyptu íslensk skuldabréf. Úr þessu varð „snjóhengjan“ svonefnda. Eftir að samið hefur verið við kröfuhafa er næsta skref að komast sem best undan henni og bræða hana. Skref hafa verið stigin í þá átt en á sama tíma má greina þá þróun frá miðju ári 2015 að ný „snjóhengja“ sé að myndast vegna hinna háu vaxta hér – þeir eru aðeins hærri í tveimur samanburðarríkjum: Brasilíu og Kína.

Spurning er hvers vegna Seðlabanki Íslands haldi svo fast í hávaxtastefnuna í stað þess til dæmis að taka upp bindisskyldu til að takmarka fé í umferð. Er það vegna íhaldssemi? Jón Daníelsson hagfræðingur mælti með því á ársfundi Samtaka atvinnulífsins að frekar yrði hugað að bindisskyldu en hávaxtastefnu.

Um allt þetta má fræðast á ÍNN klukkan 20.00 í kvöld.

 

 

Þriðjudagur 19. 04. 16 - 19.4.2016 16:00

Hvorki gætti virðingar né vinsemdar í garð Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, þegar hann efndi til blaðamannafundar á Bessastöðum síðdegis mánudaginn 18. apríl og kynnti ákvörðun um að æskja eftir endurkjöri í embætti. Hvað sem líður viðhorfi fréttamanna í garð Ólafs Ragnars hefði mátt ætla að þeir sýndu embættinu virðingu og vönduðu framkomu sína á fundi sem fór fram í skrifstofu forsetasetursins. Blaðamenn eru fyrirmyndir ekki síður en aðrir á opinberum vettvangi.

„Heldur þú kannski að þú sért ómissandi?“ hrópaði einhver og annar „ætlar þú að sitja fram í rauðan dauðann“? Fleiri dæmi mætti nefna en þessi tvo verða látin duga til að enduróma tóninn í garð Óiafs Ragnars á blaðamannafundinum.

Á vefsíðuna stundin.is skrifar Bragi Páll Sigurðarson blaðamaður:  

„Ég var að koma heim af þessum blaðamannafundi þar sem maðurinn, sem ég kallaði þaulsetið fretský fyrir stuttu, ákvað að halda aðeins lengur með hvítum hrukkóttum hnúunum um taumana. Rétt eins og aðrir valdasjúkir stjórnendur sem þessi stórfurðulega þrælslundaða þjóð hefur kosið sem fulltrúa sína. […]

 Við búum enn þá í landi þar sem vélin var hönnuð af firrtu fólki sem dýrkar peninga og auðsöfnun. Eldgamlir Thatcher og Reganfasistar stýra fjölmiðlum og ungir og fallegir vel uppaldir fasistar bíða í röðum eftir því að taka við keflinu og passa að ekkert breytist. Við getum engu breytt. Arðránið er kerfisbundið. Við eigum ekki séns. Við getum engu breytt. Rannsóknarskýrslan snýr sér í gröfinni. Við erum fyrir löngu búin að tapa.[…]

Nú er bara spurning hvort þið viljið halda áfram að búa í landi þar sem þið eruð dæmd til þess að vera mis-illa settir þrælar auðvaldsins, eða hvort þið viljið leita gæfunnar á nýjum stað. Ég ætla að minnsta kosti að fara. Virkið allt. Stelið öllu. Brennið allt. Ég gefst upp.“

Sé þetta tónninn sem einkennir kosningabaráttuna fram til 25. júní verður hún engum til ánægju, hvorki frambjóðendum né kjósendum. Er líklegt að áður en yfir líkur dragi fleiri frambjóðendur sig til baka en séra Vig­fús Bjarni Al­berts­son, sjúkra­húsprest­ur á Land­spít­al­an­um, og Guðmundur Franklín Jónsson.

Spurning er hvað gangi blaðamönnum til sem hemja sig ekki betur en þetta. Er það aðeins reiði í garð Ólafs Ragnars Grímssonar eða ofsi sem jaðrar við fyrirlitningu? Verðum við nú vitni að öfgamennsku hér sem annars staðar kynni að teljast hættuleg almannaöryggi? Hvern skyldi Bragi Páll styðja af forsetaframbjóðendunum?

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Mánudagur 18. 04. 16 - 18.4.2016 12:00

Eftir að Ólafur Ragnar Grímsson ákvað að gefa kost á sér til endurkjörs skrifaði ég pistil hér á síðuna. Sjá hér.

Áhorf á sjónvarpsfréttir minnkar jafnt og þétt nema þegar fólk veit eftir öðrum leiðum að eitthvað markvert sé að gerast. Ástæðan fyrir þessu er einföld: það virðist ekkert í fréttum og tíminn sem ætlaður er fyrir þær snýst um eitthvað sem er „plöggað“ eins og sagt er á lélegu máli, eitthvað sem er haldið að fréttmönnum af almannatenglum.

Ég hætti að horfa á fréttir Stöðvar 2 fyrir nokkrum árum og hef ekki misst af neinu, stundum horfi ég ríkissjónvarpsfréttirnar kl. 22.00. Ástæðan fyrir eigin áhugaleysi var enn einu sinni staðfest í morgun við lestur hins ágæta daglega pistils Eiðs Svanbergs Guðnasonar um málfar og efnistök í fjölmiðlum. Þar stóð:

 „KJÁNAGANGUR Í FRÉTTUM

Fréttir í sjónvarpsstöðvum á Vesturlöndum þróast æ meira a í þá átt að vera einhverskonar skemmtiatriði, – ekki fréttir , – heldur oft einhver kjánagangur.

Við sáum þetta í fréttum beggja sjónvarpsstöðvanna á föstudagskvöld.

Borgarstjórinn í Reykjavík ætlaði að setja sumardekkin undir bílinn sinn. Hringdi, eða lét hringja í báðar sjónvarpsstöðvarnar. Þær hlýddu. Mættu. Varla voru myndatökumenn beggja staddir á sama stað, á sama tíma fyrir algjöra tilviljun?  Mynduðu samviskusamlega og sama ,,ekki fréttin” birtist í fréttatímum beggja stöðva. Borgarstjóri lét sem hann væri starfsmaður á dekkjaverkstæði og fór að umfelga. Það er varla verk fyrir viðvaninga.  Svo mæta embættismennirnir í sjónvarpsfréttirnar, þegar verja þarf holótt og hættulegt gatnakerfi höfuðborgarinnar.“

Baldur Guðlaugsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins, ritar grein í Morgunblaðiðí morgun þar sem hann bendir á dæmalausar rangfærslur í langhundi sem Gunnar Smári Egilsson, ritstjóri Fréttatímans, skrifaði í blað sitt í síðustu viku til að rægja Geir H. Haarde og Árna M. Mathiesen fyrir störf þeirra sem fjármálaráðherrar.

Undarleg heift knýr menn til að taka saman efni á borð við það sem Gunnar Smári birti og er að megingrunni til staðlausir stafir. Raunar hefði langhundurinn líklega aldrei birst í blaði undir ritstjórn annars manns en Gunnars Smára sjálfs. Ritstjórar vandir að eigin virðingu og með virðingu fyrir lesendum hefðu aldrei hleypt jafn óvönduðum texta fram hjá sér.

Fjársterkir aðilar standa að útgáfu Fréttatímans sem sækir tekjur til auglýsenda. Gunnar Smári kom Fréttablaðinu í hendur Baugsmanna á sínum tíma en reyndist þeim að lokum dýrkeyptur í orðsins fyllstu merkingu eftir misheppnaða útrás til Danmerkur, Bretlands og Bandaríkjanna. 

Sunnudagur 17. 04. 16 - 17.4.2016 14:00

 

Anne Applebaum er dálkahöfundur hjá Washington Post, höfundur bóka um kommúnismann í Evrópu og sovéska Gúlagið, sérfróð um samtímasögu og þróun alþjóðamála. Nýlega birtist við hana viðtal á vefsíðu The Slovak Spectator. Þar var hún meðal annars spurð hvor hún teldi Panama-skjölin geta breytt evrópskum stjórnmálum á einhvern hátt. Hún svaraði:

„Til þessa hefur ekkert komið fram í Panama-skjölunum sem kemur mér á óvart. Ég vissi hvernig þetta gekk fyrir sig, ég vissi að Rússar geyma fé sitt utan Rússlands. Þessir aflandsbankar eru allir löglegir. Eigi maður til dæmis almennan bankareikning í venjulegum banka í Bretlandi og fari í bankann og segist gjarnan vilja eiga reikning í evrum fær maður það svar að þeir geti ekki stofnað fyrir þig evru-reikning í Bretlandi en þeir geti stofnað evru-reikning utan Bretlands, í aflandsbanka. Þetta er hvorki ólöglegt né undarlegt, bankakerfið starfar svona. Ábyrgð Breta er sérstaklega mikil vegna þess að margir bankar eru á bresku svæði. Ég tel að svarið felist í að loka þessu aflandskerfi, gera það ólöglegt og þá hættir fólk að nota það. Þetta er frekar einföld lausn og hún kæmi öllum til góða.“

Blaðamaðurinn spyr þá hvort unnt sé að loka þessu kerfi þegar sum skjólin séu í Bretlandi, Kýpur. Sum einfaldlega innan ESB.

Anne Applebaum svarar:

„Evrópusambandið getur lokað þeim til dæmis í Bretlandi, Lúxemborg, Kýpur og sagt að það sé ólöglegt að eiga peninga í þeim séu menn evrópskir ríkisborgarar.“

Evrópusambandið lokar þessu kerfi ekki af því að svo margir hafa hag af því að það sé við lýði. Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, átti ríkan þátt í að hanna kerfið í Lúxemborg sem víða hefur sætt ámæli. Að hann beiti sér fyrir grundvallarbreytingu á þessu kerfi er af og frá. Hann svarar gagnrýnendum þess fullum hálsi.

Sanngjörn skattlagning er helsti óvinur útflutnings á fjármunum. Þegar sósíalistar í Frakklandi lögðu 75% skatt á stóreignamenn fluttu þeir einfaldlega úr landi. Auðlegðarskattur Jóhönnu og Steingríms J. ýttu undir flutning fjár úr landi.

Allt er þetta vitað og öllum ljóst. Hvers vegna hefur það verið liðið hér að atvinnurekendur geta komist upp með að greiða 0,45% tryggingargjald í stað 7% með því að nýta sér einhverja glufu. Hver hefur hag af að viðhalda þessari glufu? Óþarfi er að leita út fyrir landsteinana til kynnast einhverju sem mismunar þegar skattkerfið er skoðað.

 

 

Laugardagur 16. 04. 16 - 16.4.2016 16:00

Í dag var tilkynnt að Íslandsbanki mundi flytja höfuðstöðvar sínar frá Kirkjusandi í Norðurturninn svonefnda í Kópavogi. Í frétt mbl.is segir að.höfuðstöðvarnar hafi verið á Kirkju­sandi í 20 ár. Þær séu þó í raun á fjórum stöðum og sameinist nú með 650 starfsmönnum. Mik­il hag­kvæmni fylg­i sam­ein­ing­unni þar sem sam­an­lagður fer­metra­fjöldi höfuðstöðva­starf­semi minnki úr 13.900 í 8.600 fer­metra í Norðurt­urn­in­um. Raka­skemmd­ir hafi fund­ist í höfuðstöðvum bank­ans á Kirkju­sandi og ljóst sé að fara þurfi í tölu­verðar end­ur­bæt­ur á hús­næðinu.. 

Íslandsbanki er í eigu íslenska ríkisins og nú er spurning hvort forráðamenn þess eða alþingismenn muni reka upp ramakvein eins og gert var fyrir skömmu þegar enn einu sinni var vakið máls á því að hinn ríkisbankinn Landsbanki Íslands vildi reisa nýjar höfuðstöðvar í Austurhöfninni, skammt frá Hörpu.

Í frétt á mbl.is föstudaginn 15. apríl segir að eftir nýja athugun sé það enn niðurstaða bankaráðs Lands­bank­ans að besti kost­ur­inn til að leysa húsnæðisvanda bankans sé að flytja í nýja bygg­ingu í Aust­ur­höfn. Ráðgjaf­ar hafi yf­ir­farið fyrri út­reikn­inga bankaráðs og  þetta sé einnig niðurstaða þeirra.

Fráfarandi formaður bankaráðsins, Tryggvi Pálsson, sagði á aðalfundi Landsbankans 14. apríl að lokaorðið um hvort bankinn hæfist handa við að reisa nýjar höfuðstöðvar væri hjá stærsta hluthafanum, íslenska ríkinu. Bankaráðið hef­ði fjallað um  nýj­ar höfuðstöðvar allt frá ár­inu 2010 og hag­kvæm­ast væri fyr­ir Lands­bank­ann að þær yrðu í Austurhöfninni.

Niðurstaða athugana bankaráðsins er að spara megi hundruð millj­óna á hverju ári með flutn­ingi í nýja bygg­ingu og að Aust­ur­höfn­in sé besti kost­ur­inn. Lóðin sé á góðum stað, skipu­lag liggi fyr­ir og hægt sé að hefja fram­kvæmd­ir. Vinnuaðstaða batni til muna, mikil fækkun verði á fermetrum undir starfsemina sem lækki rekstrarkostnað um verulegar fjárhæðir.

Meðal þeirra sem snerust af mestum þunga gegn áformum stjórnenda Landsbankans um nýjar höfuðstöðvar var Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður efnahags- og atvinnumálanefndar alþingis. Nú er spurning hvort hann samþykkir að Íslandsbanki flytji í Kópavoginn úr því að hann vill ekki að Landsbankinn flytji sig um set. Hvað ræður afstöðu Frosta, að bankinn reisi sjálfur höfuðstöðvar sínar?

Hver skyldi stefna meirihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur vera? Fyrirtæki í sambærilegum rekstri sjá gjarnan hagkvæmni í að mynda klasa bygginga. Landsbankinn kann að hugsa sér til hreyfings í nýtt fjármálahverfi í Kópavogi verði hann neyddur til að búa við erfiðar aðstæður í miðborg Reykjavíkur.

 

Föstudagur 15. 04. 16 - 15.4.2016 19:00

Samtal mitt við Sigríði Á. Andersen, þingmann Sjálfstæðisflokksins, á ÍNN miðvikudaginn 13. apríl er komið á netið og má sjá það hér.

Hún staðfestir það sem augljóst er að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (SDG) var ekki að leita eftir vopni til að verja Bjarna Benediktsson í innanflokksátökum með því að óska eftir staðfestingu ákvörðunar um þingrof. Miðað við viðbrögð Ólafs Ragnars Grímssonar má alveg eins ætla að SDG hafi verið að sækja sér vopn til að verjast þeirri hugmynd sem var á sveimi að mynda ætti utanþingsstjórn. Hugmynd um slíka stjórn getur varla hafa komið frá öðrum en Ólafi Ragnari sjálfum.

Ólafur Ragnar dramatíseraði heimkomu sína frá Bandaríkjunum þar sem hann var í fríi.

Hann ætlaði að hitta SDG klukkan 13.00 til að ræða landsins gagn og nauðsynjar en SDG bað um að fundinum yrði flýtt til kl. 11.00 og kom Ólafi Ragnari í opna skjöldu með því að hafa með sér embættismenn og sjálfa ríkisráðstöskuna.

Samhliða því sem stjórnarflokkarnir lögðu á ráðin um að starfa áfram saman án SDG mátti lesa vangaveltur í leiðurum Fréttablaðsins um að mynda yrði það sem leiðarahöfundar kölluðu ranglega „starfsstjórn“ þegar þeir áttu við utanþingsstjórn, það er stjórn sem forseti skipar af því að ekki er samstaða um meirihluta að baki ríkisstjórn í krafti þingræðis á alþingi. Var tilviljun að á þessu var klaufalega hamrað af tveimur leiðarahöfundum? Þeir skyldu þó ekki hafa fengið vísbendingu frá einhverjum nærri forseta Íslands?

Hafi Ólafur Ragnar verið með vangaveltur um þetta hefði hann jafnframt þurft að eiga innhlaup á hinn pólitíska vettvang til að fá þar fótfestu fyrir hugmyndina. Í hans huga lá beinast við að ræða málið á þeim nótum við forsætisráðherra. Í lok janúar 2009 fékk hann SDG, nýkjörinn formann Framsóknarflokksins, til að styðja minnihlutastjórnina sem Ólafur Ragnar myndaði fríhendis undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar. Eftir kosningar 2013 þegar Jóhanna og Steingrímur J. lágu í valnum fól Ólafur Ragnar SDG umboð til stjórnarmyndunar með Sjálfstæðisflokknum. Hugsanlega leit forseti á það sem einhvern örlætisgjörning af sinni hálfu og taldi nú brostnar forsendur fyrir honum – þær voru það gagnvart SDG sem naut ekki lengur stuðnings eigin þingflokks en ekki gagnvart meirihluta á þingi. Hafi utanþingsstjórn verið í spilunum runnu öll áform um hana út í sandinn vegna samstöðu þingmanna.

 

 

Fimmtudagur 14. 04. 16 - 14.4.2016 15:15

Í dag hélt G. Jökull Gíslason lögregluþjónn fróðlegan fyrirlestur á vegum Varðbergs um jarðveg óeirða og byltinga. Hann brá í senn ljósi á það sem gerst hefur í fortíð og það við blasir í nútíð. Þótt okkur finnist nóg um fréttir af átökum sýna rannsóknir að við lifum friðsama og blómlega tíma í sögulegu ljósi. Eins og ávallt eru þó váboðar. Stóra spurningin er hvort loftslagsbreytingar raska svo jafnvægi að breyting verði á lífsviðurværi milljóna manna. Matarskortur skapar besta jarðveginn fyrir óeirðir og byltingar.

Nokkra athygli vakti á dögunum þegar Birgitta Jónssdóttir, leiðtogi pírata, sagði hlutverk formanns framkvæmdaráðs pírata vera að sjá til þess að flokksskrifstofan væri þrifin. Um umhirðu skriifstofunnar urðu nokkrar umræður í framkvæmdaráðinu 24. mars 2016 og segir í fundargerðinni sem birt er á netinu að til sögunnar komi innanhúsnefnd sem hafi þetta hlutverk:

 „Tortuga er í senn samkomu- og fundarstaður fjölda Pírata og þess vegna mikilvægt að húsnæðið sé ávalt snyrtilegt og í góðu ásigkomulagi. Nauðsynlegt þykir að stofna formlegan hóp sem mun hafa það markmið að gera Tortuga betra fyrir þá sem koma þangað, og viðhalda ástandi þess sem og útliti. Hópurinn mun koma að útliti, stíl, hreinlætismálum og hafa eftirlit með almennum rekstri með umboði frá Framkvæmdaráði. Útlit rýmisins og stöðlun verkferla verður í sérstökum brennidepli.“

Þessa samþykkt notar Birgitta síðan til að koma höggi á formann framkvæmdaráðsins. Það er sama hvar borið er niður, píratar bera alls staðar nafn með rentu. Hvergi er friðsamlegt í kringum þá.

 

Miðvikudagur 13. 04. 16 - 13.4.2016 15:00

Í dag ræddi ég við Sigríði Á. Andersen, þingmann Sjálfstæðisflokksins, í þætti mínum á ÍNN. Þátturinn verður frumsýndur kl. 20.00 í kvöld. Við fjöllum um atburði síðustu viku og stöðu mála nú.

Fyrir viku lýstu Sigurður Ingi Jóhannsson og Bjarni Benediktsson yfir vilja til að koma til móts við kröfuna um að rjúfa þing og boða til kosninga haustið 2016 enda tækist ríkisstjórninni að ljúka brýnustu málum sínum. Forsætisráðherra hefur fundað með forystumönnum stjórnarandstöðuflokkanna í leit að sameiginlegri niðurstöðu.

Í gær hófu þingmenn stjórnarandstöðunnar hins vegar ræðuflutning á alþingi undir liðnum fundarstjórn forseta – ræðurnar snerust ekki um dagskrárliðinn heldur kröfðust þeir svara um kjördag!

Á sínum tíma var afstöðu Sovétmanna gagnvart vestrænum ríkisstjórnum lýst á þann veg að þeir segðu, við höldum öllu okkar en semjum um það sem er í ykkar höndum. Þetta er afstaða stjórnarandstöðunnar núna: Við höldum því sem við teljum okkar, það er að kosið verði í haust, en ákveðum líka það sem þið teljið ykkar, það er hvaða mál meirihlutinn afgreiðir.

Það var ekki látið undan kröfum Sovétmanna og veldi þeirra hrundi. Vilji stjórnarandstaðan stöðva framgang mála meirihlutans á þingi brestur forsendan fyrir kosningum í haust. Þetta er ekki flókið og hlýtur stjórnarandstaðan að skilja það.

Frekust er Birgitta Jónsdóttir, leiðtogi pírata, sem telur að formaður framkvæmdaráðs í flokki sínum hafi það hlutverk að sjá um þrifnað á flokksskrifstofunni. Í þingræðu þriðjudaginn 12. apríl sagði Birgitta:

„Þetta er óboðlegt ástand. Að ætla okkur að fara í hefðbundin þingstörf og láta eins og ekkert hafi gerst á landinu er ekki í boði. Það er bara ekki í boði. 

Látið okkur fá dagsetningu. Það kom mjög skýrt fram, forseti, á fundi forseta að þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar krefjast þess að fá dagsetningu. Hér verða engin hefðbundin þingstörf fyrr en það verður gert, forseti.“

Að láta undan yfirgangi af þessu tagi er einfaldlega misþyrming á fulltrúalýðræðinu. Stjórnarsinnar á þingi verða að taka höndum saman gegn þessum hótunum um aðför að heilbrigðum stjórnarháttum.

 

 

Þriðjudagur 12. 04. 16 - 12.4.2016 18:40

Stjórnarandstæðingar á þingi og í fjölmiðlum grípa gjarnan til þeirra raka þegar allt um þrýtur að eitthvað yrði ekki liðið erlendis. Heitar umræður urðu í neðri deild breska þingsins í gær vegna Panama-skjalanna og stöðu Davids Camerons forsætisráðherra.

Meðal þingmanna Verkamannaflokksins sem tóku til máls var Dennis Skinner, 84 ára sem setið hefur 46 ár á þingi. Hann var harðorður í garð Camerons og sagði hann dodgy sem íslenskað er með orðunum brögðóttur; slóttugur í orðabókinni. Forseta þingsins þótti þetta ekki við hæfi og bað þingmanninn að draga orðið til baka sem hann gerði ekki heldur endurtók og sagði dodgy Dave sem íslenska má sem Dabbi bragðarefur. Við svo búið vísaði forseti þingmanninum úr salnum það sem eftir var þessa fundar.

James Kirkup, dálkahöfundur The Daily Telegraph, segir að viðbrögð forseta þingsins hafi verið rétt vegna þess að þingsköp banni þingmönnum að draga í efa markmið og heiður honour annarra þingmanna, þeir séu allir taldir honourable, háttvirtir, heiðarlegir. „Margt í þingsköpunum er dálítið galið og úrelt, þessi regla er þó ekki unnt að flokka sem gamaldags helgisiði. Í henni felst fullkomlega eðlileg aðferð til að stjórna umræðum.“

Á alþingi skulu ræðumenn jafnan víkja ræðu sinni til forseta eða fundarins en eigi ávarpa nokkurn einstakan þingmann. Kenna skal þingmann við kjördæmi hans eða nefna hann fullu nafni. Í handbók fyrir þingmenn segir: „Það er föst þingvenja að alþingismenn eru ávarpaðir á þingfundum „háttvirtur þingmaður“ („háttvirtur 11. þingmaður Suðurkjördæmis“, „háttvirtur þingmaður Jóna Jónsdóttir“) og hafa forsetar jafnan gert athugasemdir ef út af er brugðið. Á 22 sama hátt er föst venja að ávarpa ráðherra „hæstvirtur ráðherra“ („hæstvirtur forsætisráðherra“).“ Í 93. grein þingskapalaga segir:

Ef þingmaður talar óvirðulega um forseta Íslands eða ber þingið eða ráðherra eða einhvern þingmann brigslyrðum eða víkur með öllu frá umtalsefninu skal forseti kalla til hans: „Þetta er vítavert“, og nefna þau ummæli sem hann vítir. Nú er þingmaður víttur tvisvar á sama fundi og má þá forseti, með samþykki fundarins, svipta þingmanninn málfrelsi á þeim fundi.

Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, sagði Sigmund Davíð Gunnlaugsson, fráfarandi forsætisráðherra, „frægasta fjárglæframann heimsbyggðarinnar“ í þingræðu 4. apríl. Í þingtíðindum stendur: „(Forseti (EKG): Forseti biður hv. þingmann að gæta orða sinna.)“ Dæmið frá London sýnir hvernig tekið hefði verið á Guðmundi í þinginu þar.

Mánudagur 11. 04. 16 - 11.4.2016 17:00

Nú liggur fyrir að Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, veit ekki hver á húsnæði höfuðstöðva Samfylkingarinnar. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í morgun þar sem segir að sjálfseignarfélögin Fjalar og Fjöln­ir, eigi tæp 82% í Alþýðuhús­inu ehf., sem aft­ur sé eig­andi skrif­stofu­hús­næðis Sam­fylk­ing­ar­inn­ar að Hall­veig­ar­stíg 1 í Reykja­vík ásamt þrem­ur einka­hluta­fé­lög­um og Sig­fús­ar­sjóði. Félögin Fjalar og Fjölnir séu skráð með erlendar kennitölur.

Kristján Guy Burgess er framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar. Hann hefur minnt á fortíð sína sem rannsóknarblaðamaður í tilefni umræðna um Panama-skjölin og telur sig fyrstan blaðamanna hafa rannsakað mál tengd Panama-lögfræðingnum alræmda á DV árið 2004 en fengið boð „að ofan“ innan blaðsins að hætta rannsókninni. Gunnar Smári Egilsson var útgefandi, Mikael Torfason og Illugi Jökulsson ritstjórar.

Nú ætti Árni Páll að fela framkvæmdastjóra Samfylkingarinnar að beita hæfni sinni sem rannsóknarblaðamaður til að finna eiganda höfuðstöðva flokksins, þó ekki nema í nafni gegnsæis.

Þrátt fyrir aðkomu sálfræðings logar enn allt í deilum milli Birgittu Jónsdóttur, þingleiðtoga pírata, og Ernu Ýrar Öldudóttur, formanns framkvæmdaráðs pírata. Birgitta sakar Ernu Ýr um að tala niður stefnu sína og þar með pírata.

Gunnar Ingiberg Guðmundsson fer með fjármál í framkvæmdaráði pírata sem kom saman til fundar fimmtudaginn 7. apríl eins og segir í fundargerð á netinu. Þar gerði Gunnar grein fyrir fjármálunum. Um það er fært eitt orð í fundargerðina: Trúnaðarmál. Píratar eru flokkur gegnsæis, ekki síst í fjármálum stjórnmálamanna. Gegnsæi pírata nær ekki til eigin stjórnmálaflokks.

Sunnudagur 10. 04. 16 - 10.4.2016 14:00

Á vefsíðunni andriki.is birtist þriðjudaginn 5. apríl:

„Gamla góða.

Við bankahrunið og atlögu ofbeldismanna að alþingi stóð hún eins og klettur í hafinu.

Hún opnaði leið þegar ítrekað stóð til að leggja Icesave klyfjarnar á landsmenn.

Hún girðir fyrir að í óðagoti sé mögulegt að leggja lýðveldið inn í ríkjasamband eins og hvern annan grip í sláturhús.

Þetta gerir hún meðfram því að tryggja mönnum friðhelgi einkalífs, eignarrétt, atvinnufrelsi og önnur helstu mannréttindi í farsælasta lýðræðisríki sögunnar.

Hún hefur sjálf varist verstu tilraunum til að þynna þessi mannréttindi og kollvarpa stjórnskipan landsins.

Í dag bauð hún svo upp á hæfilegt orðalag sem reyndur forseti gat nýtt til að fipa forsætisráðherra sem ætlaði einn og óstuddur að sækja sér þingrofsskjöl eins og hvert annað barefli til að lemja á 37 þingmönnum í eigin stjórnarmeirihluta.

Gamla góða stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.“

Þetta er vel saminn og réttur texti. Laugardaginn 9. apríl sýnast Andríkismenn taka undir þá skoðun Skúla Magnússonar héraðsdómara sem hann reifaði í grein í Morgunblaðinu þennan sama dag að þingmenn ættu að sitja að öllu óbreyttu fram í apríl 2017. Skúli segir:

„Auðvitað getur komið til þess að sitjandi ríkisstjórn biðjist lausnar og óski þess við forseta lýðveldisins að hann rjúfi þing og boði til þingkosninga. Einkum á þetta við þegar ekki reynist unnt að mynda eða viðhalda starfhæfri ríkisstjórn, svo sem dæmin sýna. Slík staða er ekki uppi í dag.

Hver geta þá verið rökin fyrir kröfunni um að boðað sé til kosninga áður en stjórnarskráin gerir ráð fyrir því að svo sé gert? Frá sjónarhóli stjórnarskrárinnar og stjórnskipulegs lýðræðis eru slík rök vandfundin.“

Hér er staðan sú að fráfarandi forsætisráðherra vildi opna þingrofsheimild, að eigin sögn til að hindra upplausn í samstarfsflokknum. Hann fékk ekki heimildina. Forsætisráðherrann vék, ný ríkisstjórn kom til sögunnar og stjórnarflokkarnir ætla að verja hana falli við úrlausn brýnna mála, að minnsta kosti á meðan þetta þing situr. Þetta er pólitískur veruleiki sem rúmast innan hinnar „gömlu góðu“ en brýtur ekki gegn henni.

Flokkurinn sem nú nýtur mests fylgis, píratar, vilja semja við aðra flokka fyrir næstu kosningar um að næsta kjörtímabil verði aðeins níu mánuðir. Boða þeir stjórnarsáttmála um stjórnarskrárbrot? Píratar segjast hafa mestan áhuga allra flokka á góðum stjórnarháttum og ákvæðum í stjórnarskrá.

 

 

 

 

Laugardagur 09. 04. 16 - 9.4.2016 19:30

Skýring Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar á tillögu sinni um þingrof til forseta Íslands eins og hann birtir hana í Morgunblaðinu í dag hljómar sérkennilega svo að ekki sé meira sagt. Ég tók saman fjóra punkta sem tengjast afsögn Sigmundar Davíðs og setti sem pistil hér á síðuna.

Þetta varð lengra mál en ég ætlaði og hætti samantektinni áður en lengra var haldið. Fréttir ríkisútvarpsins í tengslum við þetta eru núna ótrúlega óspennandi, útlistanir á einhverjum skoðanakönnunum og frásagnir af því hvað margir leggja leið sína á Austurvöll til að mótmæla. Þetta er einhvers konar fleyting á yfirborðinu og tog um kjördag fyrr eða síðar.

Stjórnarflokkarnir sýndu mun meiri samstöðu og innri styrk þegar þeir stóðu í storminum en ætla hefði mátt miðað við að tætingsbragur hefur verið að færast yfir samstarf þeirra undanfarnar vikur. Þar ræður mestu öryggið sem Sigurður Ingi Jóhannsson og Bjarni Benediktsson sýndu á þessari úrslitastundu.

Það er allt annað svipmót á stjórnarflokkunum en stjórnarandstöðuflokkunum. Sighvatur Björgvinsson, fyrrv. formaður Alþýðuflokksins, líkir Samfylkingunni við „sökkvandi fley“ sem stjórnendur hennar hafi gert „bæði vélarvana og hriplekt“ í grein í Morgunblaðinu í dag. Hann lýkur grein sinni á þessum viðvörunarorðum:

„Ef áfram verður haldið í undirbúningi undir ykkar eigin átök við ykkar eigin félaga með það eitt að markmiði að koma sem allra fyrst frá formanni, sem síðast var kosinn fyrir atbeina allra flokksmanna til þess eins að fá svo sjálf að setjast undir stýrissveifina á sökkvandi skipi, þá munuð þið gera það án stuðnings mjög margra þeirra, sem skópu þennan flokk. Þar á meðal án stuðnings þess, sem þetta ritar. Þá verðum við, þeir sem eftir eru, að leita að öðrum og betri kosti.

Er þetta nógu skýrt? Er ykkur þetta skiljanlegt?“

Við hlið þessa flokks, Samfylkingarinnar, sem talinn hefur verið forystuflokkur stjórnarandstöðunnar eru tveir stærri flokkar nú samkvæmt mælingum: píratar án stefnu og vinstri grænir, innbyrðis sundurþykkir vegna svika við stefnumálin á síðasta kjörtímabili – þar er flokkur án uppgjörs sem margklofnaði þegar hann átti aðild að ríkisstjórn.

 

Föstudagur 08. 04. 16 - 8.4.2016 19:30

Samtal mitt við Svein Runólfsson landgræðslustjóra á ÍNN er komið á netið og má sjá það hér.

Stjórnarandstaðan fór sneypuför gegn ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar á alþingi í dag. Tillaga hennar um vantraust var felld með 38 atkvæðum gegn 25. Niðurstaðan varð nákvæmlega sú sem Bjarni Benediktsson sagði að hún yrði þegar þeir Sigurður Ingi kynntu nýju ríkisstjórnina að kvöldi miðvikudags 6. apríl.

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður pírata, hafði í hótunum um að staðið yrði gegn framgangi mála ríkisstjórnarinnar á þinginu sem sitja mun í sumar. Hann boðaði andstöðu í krafti þeirrar reiði sem flokkur hans og aðrir stjórnarandstæðingar hafa leitast við að magna í vikunni sögulegu sem nú er að ljúka.

Flótti pírata frá umræðum um málefni þjóðinni til heilla kemur ekki á óvart. Þingmenn pírata hafa ekki neitt málefnalegt umboð nema kannski í stjórnarskrármálinu og meira að segja þar er það óljóst. Helga Hrafni verður tíðrætt um það sem hann kallar „siðrof“, hæfilega óljóst hugtak fyrir þá sem vilja ekki festa hönd á neinu.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, var fyrsti flutningsmaður vantraustsins en af ræðu hans mátti ráða að hann væri að þrotum kominn: „Ég get ekki meir,“ sagði hann í stað hefðbundinnar framsöguræðu og einnig:

 „Ég hef setið og heyrt þúsundir mótmæla stefnu minni og þeirrar ríkisstjórnar sem ég var hluti af [ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms J.] og ég hef varist af hörku og verið algjörlega sannfærður um að ég vissi best og að leiðin sem við höfum valið væri sú eina rétta. Allir hlytu á endanum að sjá að ég hefði rétt fyrir mér. En ég get ekki horft framhjá því að afleiðingin af þeirri afstöðu var stærsta pólitíska tap Íslandssögunnar.“

Þarna vísar Árni Páll til afhroðsins sem Samfylkingin galt í þingkosningunum vorið 2013. Hann lætur þess ógetið að Jóhönnu Sigurðardóttur misheppnaðist að ná þeim fjórum markmiðum sem hún setti sér: að slá skjaldborg um heimilin, að uppræta kvótakerfið, að koma Íslandi í ESB og að breyta stjórnarskránni.

Staða núverandi ríkisstjórnar er allt önnur og miklu betri með vísan til framgangs stefnumála.

Þegar ummæli Árna Páls eru lesin ber einnig að hafa í huga að mikið hefur verið rætt við hann í fjölmiðlum undanfarið og minnkar fylgi Samfylkingarinnar og álit á Árna Páli í réttu hlutfalli við það ef marka má kannanir.

 

Fimmtudagur 07. 04. 16 - 7.4.2016 15:45

Greiðst hefur á farsælan hátt úr því sem virtist illleysanlegur pólitískur hnútur að kvöldi sunnudags 3. apríl þegar landsmenn sátu agndofa eftir aðförina að Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni (SDG) forsætisráðherra í aukaþætti af Kastljósi sjónvarpsins. Ríkisstjórn Framsóknarlokks og Sjálfstæðisflokks tók á sig nýja mynd í dag þegar Sigurður Ingi Jóhannsson (SIJ) tók við af SDG sem forsætisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson varð sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra en Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra í stað Gunnars Braga.

Lilja er óskrifað blað á stjórnmálavettvangi enda á hún ekki sæti á alþingi. Henni er hins vegar hælt fyrir störf hennar að efnahags- og bankamálum hér á landi og erlendis. Er ekki að efa að hún leggur sinn skerf af mörkum við framkvæmd meginmáls endurnýjaðrar ríkisstjórnar, afnáms fjármagnshaftanna.

Mánudagurinn 4. apríl var dagur biðleikja enda var Bjarni Benediktsson erlendis og Ólafur Ragnar Grímsson. SDG taldi þá að hann væri ekki á förum. Innan ráða flokks hans og meðal þingmanna Sjálfstæðisflokksins gætti hins vegar mikillar og vaxandi ólgu. Efnt var til fjöldamótmæla á Austurvelli í mikilli veðurblíðu og segja skipuleggjendur að 23.000 manns hafi tekið þátt í mótmælunum þar sem SDG var helsti skotspónninn.

Úrslitadagurinn fyrir SDG var þriðjudagurinn 5. apríl og hefur atburðum hans þegar verið lýst hér í dagbókinni. Miðvikudagurinn 6. apríl var dagur ákvarðana í ljósi afsagnar SDG. Um klukkan 22.00 þann dag lá niðurstaða beggja stjórnarflokkanna fyrir og kynntu SIJ og Bjarni hana fyrir fréttamönnum í þinghúsinu.

Klukkan 15.20 í dag gekk SDG út á tröppur Bessastaða og ræddi í nokkrar mínútur við fréttamenn en lítill hópur öskrandi fólks sem flutti óhróður í garð SDG.

Sjónvarp ríkisins hefur haldið úti beinum útsendingum tímunum saman án þess í raun að hafa nægilegt magn af áhugaverðu efni til að halda athyglinni vakandi. Spjall og getgátur hafa sett mikinn svip á þessar útsendingar. 

Spaugilegt atvik varð síðdegis 6. apríl þegar Höskuldur Þórhallsson, þingmaður framsóknar, ræddi grandalaus og af hreinskilni við fréttamenn í beinni útsendingu á leið sinni niður stiga í skálanum við þinghúsið og skýrði þeim frá ákvörðunum þingflokksins í þeirri trú að forystumenn stjórnarflokkanna hefðu þegar sagt frá þessum tíðindum.

Atvikið minnir á að óviðunandi aðstaða er fyrir fréttamenn í þinghúsinu auk þess sem óviðunandi er að þingmenn geti ekki gengið um húsið án þess að setið sé fyrir þeim.

Ekki verður annað sagt en stjórnarflokkarnir hafi haldið skipulega og af festu á málum frá því klukkan 19.00 sunnudaginn 3. apríl til 15.20 fimmtudaginn 7. apríl þegar SDG kvaddi Bessastaði.

 

Miðvikudagur 06. 04. 16 - 6.4.2016 17:00

Í dag ræddi ég við Svein Runólfsson landgræðslustjóra á ÍNN. Frumsýnt kl. 20.00 í kvöld.

Eitthvað vefst fyrir Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, fráfarandi forsætisráðherra, að segja skilið við ráðuneyti sitt og ríkisstjórnina. Á fundi þingflokks framsóknarmanna í gær var eindreginn stuðningur við ákvörðun hans um að biðjast lausnar og gengu menn af fundinum í fullvissu þeirrar niðurstöðu. Flaug fréttin um heimsbyggðina og breytti umtali um Ísland vegna Panama-skjalanna.

Á tíunda tímanum að kvöldi þriðjudags 5. apríl, sama dags og menn töldu forsætisráðherra hafa sagt af sér, sendi upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar frá sér tilkynningu á ensku þar sem stóð: „The Prime Minister has not resigned“ – forsætisráðherra hefur ekki sagt af sér. Hins vegar kom fram að varaformaður Framsóknarflokksins yrði forsætisráðherra „for an unspecific amount of time“, það er um óákveðinn tíma.

Þessi tilkynning vakti forundran blaðamanna enda óskiljanleg í ljósi fyrri frétta sem þeir höfðu skrifað um afsögn ráðherrans. Hér er ekkert grátt svæði, ráðherrann er eða fer.

Embættismenn í forsætisráðuneytinu neita að svara fyrir þessa tilkynningu, hún hafi ekki verið borin undir þá fyrir dreifingu hennar og vísað er á Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmann fráfarandi forsætisráðherra.

Sigmundur Davíð hefur á þennan hátt viljað koma á framfæri því sem hann hefur áorkað sem forsætisráðherra, meginefni tilkynningarinnar er um það, án þess þó að horfast í augu við eigin afsögn.

Fyrr um daginn hafði Sigmundur Davíð notað FB-síðu sína til þess meðal annars að hóta að hann mundi fá þingrofsheimild undirritaða af forseta Íslands ef sjálfstæðismenn settu sig gegn sér á einhvern hátt. Boðskapinn setti hann á netið áður en hann hitti forseta.

Með forsætisráðherra voru embættismenn úr ráðuneyti hans, Ragnhildur Arnljótsdóttir ráðuneytisstjóri og Ásgeir Geir Ágústsson, skrifstofustjóri yfirstjórnar ráðuneytisins, og ríkisráðstaskan eins og forseti orðaði það þegar hann lýsti því að hann hefði áttað sig á því þegar tilkynnt var um komu embættismannanna að ekki var um upplýsingafund hans og ráðherrans að ræða heldur embættisfund vegna þingrofs.

Forseti kallaði blaðamenn á sinn fund strax eftir brottför forsætisráðherra. Honum var greinilega brugðið og vildi skýra sína hlið – kannski vegna þess að forsætisráðherra hafði birt frásögn af fundi sínum með Bjarna Benediktssyni á netinu án vitundar og samþykkis Bjarna.

Síðdegis andmælti forsætisráðherra skilningi forseta á fundinum í sérstakri fréttatilkynningu.

Í dag hafa þeir setið fundi með forsætisráðherra varaformaður Framsóknarflokksins og þingflokksformaður. Fundur verður í þingflokknum kl. 18.00.

 

 

 

Þriðjudagur 05. 04. 16 - 5.4.2016 20:15

 

Sögulegur dagur er á enda. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (SDG) segir af sér á þingflokksfundi framsóknarmanna. Stjórnmálaskýrendur höfðu sagt að framtíð hans og stjórnarinnar væri undir sjálfstæðismönnum komin. Hún reyndist ráðast í hans eigin þingflokki eftir fundi hans með Bjarna Benediktssyni og Ólafi Ragnari Grímssyni (ÓRG) fyrr um daginn.

Eftir fundinn með Bjarna sem haldinn var í morgun eftir heimkomu Bjarna frá Bandaríkjunum sagði SDG á FB-síðu sinni:

„Jafnframt fór ég yfir það með formanni Sjálfstæðisflokksins að ef þingmenn flokksins treystu sér ekki til að styðja ríkisstjórnina við að ljúka sameiginlegum verkefnum okkar myndi ég rjúfa þing og boða til kosninga hið fyrsta.“

Þetta birtist áður en SDG fór á Bessastaði. Eftir fundinn þar sagði ÓRG „að er­indi Sig­mund­ar Davíðs hefði verið að kanna af­stöðu hans og óska eft­ir því að hann veitti hon­um heim­ild til að rjúfa þing nú eða síðar,“ eins og segir á mbl.is og einnig: 

„Með Sig­mundi Davíð voru emb­ætt­is­menn for­sæt­is­ráðuneyt­is­ins sem höfðu bréf meðferðis sem óskað var eft­ir að for­seti und­ir­ritaði. 

Ólaf­ur Ragn­ar sagði að þeir Sig­mund­ur hefðu rætt málið nokkuð lengi og að hann hefði út­skýrt af­stöðu sína. „For­seti hlýt­ur að meta hvort stuðning­ur sé við þá ósk hjá rík­is­stjórn­ar­flokk­un­um og hvort lík­legt sé að þingrof leiði til far­sæll­ar­ar niður­stöðu, bæði fyr­ir þjóðina og stjórn­ar­farið í land­inu,“ sagði Ólaf­ur Ragn­ar.“

Á meðan SDG var í þessum leiðangri létu þingmenn Framsóknarflokksins í ljós óánægju með að hann hefði ekki kynnt þeim hugmyndina um þingrof. Á þingflokksfundinum sagði SDG sig síðan frá forsætisráðherraembættinu.

Þeir deila síðan ÓRG og SDG um hvort SDG hafi lagt fram tilögu um þingrof. ÓRG segir það ótvírætt vegna embættismannanna sem fylgdu SDG sem hafi auk þess verið með „ríkisráðstöskuna“ eins og ÓRG sagði í kvöldfréttum sjónvarps. Þarna er kominn nýr gerandi í stórpólitíkinni, ríkisráðstakan.

Fyrir SDG vakti greinilega að fá ÓRG til að samþykkja skjal sem SDG gæti síðan notað sem svipu á Sjálfstæðisflokkinn, ógnarhótun um þingrof og kosningar eða í samningum við aðra flokka sem hafa meiri ástæðu til að óttast kosningar en Sjálfstæðisflokkurinn.

Nú eru hafnar viðræður milli Sigurðar Inga Jóhannssonar, varaformanns Framsóknarflokksins, og Bjarna Benediktssonar um myndun nýs ráðuneytis. Stjórnarandstaðan situr eftir með sárt enni og stóryrðaflaum, einkum Árni Páll sem berst fyrir eigin pólitísku lífi í Samfylkingunni,

 

Mánudagur 04. 04. 16 - 4.4.2016 18:00

Af erlendum fjölmiðlum má ráða að sjónvarpsviðtalið sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra veitti í Ráðherrabústaðnum 11. mars veldur honum álitshnekki víðar en á  Íslandi. Hann hefur beðist afsökunar á framgöngu sinni. Kann það að róa stuðningsmenn hans á heimavelli en breytir litlu ef nokkru út á við. Er þetta mjög miður ekki síst í ljósi þess að Sigmundur Davíð hefur gengið fram sem stjórnmálamaður með heiður lands og þjóðar að leiðarljósi á alþjóðavettvangi. Eftir einn sjónvarpsþátt snýst það í andhverfu sína. Ótrúlegt en satt.

Ég vakti máls á þessu á FB-síðu minni og meðal þeirra sem sögðu álit sitt var Sveinn Eldon, háskólakennari í Helsinki sem taldi að blaðafulltrúi stjórnarráðsins hefði „ átt að ráða forsætisráðherra frá að ræða við blaðamenn sænska ríkissjónvarpsins“. Þeir hefðu verið frá þættinum Uppdrag granskning og hefðu sérhæft sig í að spyrja viðmælendur spurninga sem kæmu þeim í opna skjöldu. „Málið er engan veginn eins alvarlegt og af er látið. Stormur í vatnsglasi,“ segir Sveinn Eldon á FB-síðunni.

Ég hef aldrei horft á þennan þátt sem Sveinn nefnir. Hvað sem orðspori þáttarins líður eru viðbrögðin alvarleg fyrir Sigmund Davíð og íslensk stjórnvöld.

Undarlegt var í Kastljós-þættinum hvernig spurningum til forsætisráðherra var beint að honum persónulega og enn undarlegra að óvæntur spyrjandi eins og laumaði sér inn í þáttinn.

Eiður Svanberg Guðnason, fyrrv. sendiherra og ráðherra, var fréttamaður á sjónvarpinu. Hann lætur verulega að sér kveða á FB og spurði ég hvort hann myndi eftir að stofnað hefði verið til sjónvarpsviðtals á ákveðnum forsendum og í miðju samtalinu birtist nýr spyrjandi úr felum og beindi samtalinu inn á nýjar brautir. Eiður Svanberg mundi ekki eftir því. Hann myndi eftir einu dæmi þess að sjónvarpinu hefði verið neitað um leyfi til að taka myndir á fundi í gamla Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll. Hann minntist þess heldur aldrei að nokkur forsætisráðherra, - þau ár sem hann starfaði í sjónvarpsfréttum - 1967 til 1977 hefði neitað að tala við þá, eða svara spurningum.

Nú hafa þúsundir manna komið saman á Austurvelli til að mótmæla Sigmundi Davíð. Að láta eins og ekkert hafi í skorist og að nóg sé að biðjast afsökunar á misheppnaðri framgöngu í sjónvarpsþætti er mikill misskilningur.

 

 

 

 

Sunnudagur 03. 04. 16 - 3.4.2016 15:30

Kerfið er eitthvað bilað. Þó má láta þess getið að í gær sá ég tjaldinn í fyrsta sinn í Fljótshlíðinni á þessu ári. Nú fer að vora. í dag var 10 stiga hiti.

Laugardagur 02. 04. 16 - 2.4.2016 15:00

Fimmtudag 31. mars boðaði ríkisútvarpið aukaþátt Katsljóss á morgun í samvinnu við fyrirtækið Reykjavík Media sem hefur greint gögn alþjóðlegra samtaka rannsóknarblaðamanna (ICIJ) um aflandsfé, jafnframt er gefið til kynna að þýska blaðið Süddeutsche Zeitung eigi aðild að málinu.

Í tíu daga fyrir páska reyndi fréttastofa ríkisútvarpsins árangurslaust að ná í Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra vegna fyrirframgreidds föðurarfs konu hans. Hér á síðunni hefur verið greint frá viðbrögðum Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og Ólafar Nordal innanríkisráðherra vegna upplýsinga sem tengjast efninu sem til umræðu verður í Kastljósi.

Vilhjálmur Þorsteinsson hefur sagt af sér sem gjaldkeri Samfylkingarinnar en hann á fjölda reikninga erlendis ef marka má fréttir. Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segist hafa fyrir nokkrum árum stofnað í gegnum svissneskan banka persónulegan eftirlaunasjóð, sem honum hefði verið ráðlagt að skrá í Panama. Hrólfur Ölvisson, framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins, er sagður hafa tengst tveimur félögum á Bresku-Jómfrúareyjum.

Allt er þetta tíundað hvað eftir annað í fréttum ríkisútvarpsins öðrum þræði sem einskonar upphitun fyrir aukaþátt Kastljóss.

Sé farið inn á vefsíðu ICIJ má sjá að 16. júní 2013 hafa samtökin sett inn á vefsíðu sína það sem þau kalla Offshore Leak Database, gagnarunn sem nær til ársins 2010. Er þetta gagnagrunnurinn sem Jóhannes Kr. Kristjánsson rannsóknarblaðamaður, eigandi Reykajvik Media notar?

Á vefsíðu ICIJ segir að Jóhannes Kr. sé meðstofnandi og stjórnarmaður í Icelandic Center for Investigative Journalism, Miðstöð rannsóknarblaðamennsku á Íslandi sem kom til sögunnar á vordögum 2011. Að henni standa meistaranám í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands og hópur rannsóknarblaðamanna og hún hefur aðsetur við Félagsvísindastofnun HÍ.

Á vefsíðu Süddeutsche Zeitung sést ekki að þar sé nú á döfinni afhjúpun á einstaklingum í skattaskjólum. Blaðið er fjarri því að vera eitthvert upphrópanablað, telst til virðulegri blaða Þýskalands. Að nefna það til sögunnar í tengslum við listaafhjúpunina í Kastljósi þjónar greinilega þeim tilgangi að ná í einhvers konar gæðastimpil.

Er ekki að efa að stjórnendur Kastljóss og Jóhannes Kr. skýri nákvæmlega frá aðferðafræði sinni, í hverju samvinnan við hina erlendu aðila fólst og hvers vegna hefur dregist svo lengi birta þessar upplýsingar hér á landi. Lúta þær einkarétti Reykjavik Media? Kaupir Kastljós upplýsingarnar? Fyrir hvaða verð?

Föstudagur 01. 04. 16 - 1.4.2016 18:15

Það renna nú tvær grímur á forystumenn stjórnarandstöðuflokkanna um hvernig þeir ætla að taka á aflandsreikningamálinu á alþingi. Fyrr í vikunni rauk Birgitta Jónsdóttir pírati út af fundi stjórnarandstöðuleiðtoganna til að verða fyrst með þá frétt að þeir vildu að alþingi ákvæði að rjúfa sjálft sig og efnt yrði til kosninga. Í dag komu leiðtogarnir aftur saman til fundar og eftir hann birtist þessi fyrirsögn á mbl.is:

Allt opið varðandi þings­álykt­un­ar­til­lögu um þingrof eða van­traust

og síðan:

„Aðspurður hvort stjórn­ar­andstaðan áformi enn að leggja fram þings­álykt­un­ar­til­lögu um þingrof í stað van­traust­stil­lögu seg­ir Árni [Páll Árnsason samfylkingarformaður] að allt sé opið í þeim efn­um. „Við mun­um ákveða á mánu­dag­inn hvernig við hátt­um því,“ seg­ir hann og  bæt­ir við að niðurstaðan muni fara eft­ir rann­sókn­um og sér­fræðiráðgjöf síðustu daga og um helg­ina. […] „Við mun­um velta hverj­um steini við, málið er það al­var­legt,“ seg­ir Árni að lok­um.

Á ruv.is segir í dag:

„Birgitta [leiðtogi pírata] segir stjórnarandstöðuna einhuga um að þetta mál megi ekki falla í gleymskunnar dá. „Það má ekki gleyma því hversu alvarlegt þetta mál er - forsætisráðherra kýs að láta ekki vita af því að hann sat beggja vegna borðsins.““

Flytji stjórnarandstaða vantraust á ríkisstjórn lætur hún gjarnan fylgja í tillögunni að verði húni samþykkt skuli rjúfa þing og boða til kosninga ákveðinn dag. Þetta er hin rétta þingræðislega aðferð. Þá má einnig flytja tillögu um að skora á forsætisráðherra að rjúfa þing eða lýsa yfir vilja alþingis um að það verði gert en að þingið rjúfi sig sjálfs stenst ekki.

Augljóst er af orðum Árna Páls að hann áttar sig á að frumhlaup Birgittu um þingrofið er engum til framdráttar. Henni er nú efst í huga að enginn gleymi alvarleika málsins.

Fréttastofa ríkisútvarpsins leggur sitt af mörkum til að ekkert gleymist og hefur nú boðað sérstakan sunnudagsþátt af Kastljósi. Boðun hans þjónar meðal annars þeim tilgangi að geta í tíma og ótíma tönnlast á að nöfn þriggja ráðherra séu á lista sem gefið er til kynna að tengist lögbrotum eða óeðlilegri meðferð á fjármunum. Á sama tíma og þetta kynningarstarf er stundað helgar Kastljósið sig hatursumræðu til varnar frambjóðanda til varaformennsku í Samfylkingunni.