30.4.2016 12:00

Laugardagur 30. 04. 16

 

Finnar hafa tengst NATO á ýmsan hátt undanfarin ár og þar hafa verið umræður um aðild að bandalaginu. Til að meta áhrif hugsanlegrar aðildar kallaði finnska  ríkisstjórnin til hóp fjögurra manna, tveggja Finna og tveggja útlendinga. Hann skilaði skýrslu í gær og má lesa hana hér. Einnig er frétt um hana hér.

Í niðurstöðum hópsins er í fáum orðum minnt á hve mjög þarf að vanda umsóknar- og aðildarferli þegar um er að ræða ákvarðanir sem hafa áhrif á framtíðarstöðu þjóða á alþjóðavettvangi. Ekki beri að hrapa að slíkum ákvörðunum. Sé aðildarferli hafið verði tvíhliða skilningur að ríkja um að þar sé um langtíma skuldbindingu að ræða og að ákvörðun um aðildarumsókn kynni að verða erfið vegna ágreinings um málið.

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra hennar, hefðu tekið mark á slíkum ráðum og farið eftir þeim þegar ákveðið var að sækja um aðild að Evrópusambandinu á vormánuðum 2009. Þeim gefið þetta ráð af landsfundi sjálfstæðismanna í mars 2009 þar sem samþykkt var að ekki skyldi sótt um aðild að ESB nema fyrst hefði verið efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.

Á þetta ráð var ekki hlustað heldur hrapað að umsókn með stuðningi VG sem sagðist andvígt aðild! Aðildarferlið hófst án tvíhliða skilnings ríkisstjórnarinnar og ESB á eðli þess. Logið var til um eðli ferlisins og jafnvel látið eins og um formsatriði væri að ræða sem tæki skamman tíma að kasta aftur fyrir sig. Hvorki fyrr né síðar hefur verið vegið jafnskipulega að trúverðugleika Íslands í alþjóðasamstarfi.

Það er grátbroslegt þegar þeir sem stóðu að sneypuförinni til Brussel og töldu sig geta bæði blekkt Íslendinga og Brusselmenn þykjast nú sérstakir málsvarar orðspors Íslands á alþjóðavettvangi. Þetta eru að meginstofni sömu mennirnir sem töldu að orðsporið mundi glatast ef ekki yrði gengið að Icesave-afarkostum Breta og Hollendinga.

Í gær birti ég grein í Morgunblaðinu þar sem ég ræddi um orðsporið. Má lesa hana hér.