Sérstaða Íslands í efnahagslegum árangri
Morgunblaðsgrein 29. apríl
Tvennt bar hæst sem áhyggjuefni í þessu sambandi: Þá staðreynd að eiginkona forsætisráðherra ætti reikning á Bresku jómfrúareyjum og að forsætisráðherrann hefði komist illa frá sjónvarpssamtali í Ráðherrabústaðnum 11. mars. Fór myndskeið af ráðherranum sem eldur í sinu um fjölmiðla heimsins.
Með afsögn sinni fjarlægði Sigmundur Davíð sig frá öðrum stjórnmálamönnum sem nefndir eru til sögunnar í Panama-skjölunum og vakti þar með einnig heimsathygli.
Fæstir í öðrum löndum vita nokkuð um Ísland og fagna því að geta vakið máls á einhverju frá Íslandi þegar þeir hitta Íslendinga. Þetta verður síðan til þess að Íslendingum bregður í brún þegar rætt er við þá um annað en eldgos, Vigdísi eða Björk. Sé umræðuefnið neikvætt er orðsporið talið í hættu. Neikvæðar fréttir fara illa í allar þjóðir, stórar sem smáar.
Víða pottur brotinn
Vladimír Pútín Rússlandsforseti valdi þá leið að banna umræður um Panama-skjölin og segja þau lið í tilraunum Bandaríkjamanna til að grafa undan sér og Rússlandi. Þá hafa Rússar nefnt bandaríska auðmanninn George Soros sem skaðvald í þessu sambandi enda hafi rússnesk yfirvöld bannað starfsemi stofnana á hans vegum sem áttu að stuðla að opnum umræðum og umbótum í lýðræðisátt.
Að því er orðspor Íslands varðar mátti helst ætla að menn óttuðust að umræður um vandræðagang við stjórn landsins færu varanlega fyrir brjóstið á annarra þjóða mönnum og hefðu jafnvel áhrif á ferðaþjónustuna. Hér skal dregið í efa að slíkur ótti sé á rökum reistur. Stutt yfirlit nægir til að sýna að víða kemur til tímabundins ímyndarvanda út á við vegna stjórnmála.
Litið til nálægra landa
Írar eiga í vök að verjast vegna þess að þar hefur ríkt stjórnarkreppa í 60 daga. Á Spáni misheppnaðist stjórnarmyndun eftir 120 daga þref og verður að kjósa að nýju til þings. Minnt er á að ástandið hafi þó verið verra í Írak árið 2010 þegar tók 249 daga að mynda ríkisstjórn. Heimsmetið er þó sagt í höndum Belga, þar tók um árið 451 dag að mynda ríkisstjórn.
Þegar Framfaraflokkurinn gerðist aðili að ríkisstjórn Noregs með Hægriflokknum eftir kosningarnar árið 2013 þótti ýmsum að Noregur setti ofan. Þykir nokkrum nú að stefnan sem Framfaraflokkurinn boðaði í útlendingamálum sé of hörð?
Í Svíþjóð situr minnihlutastjórn í skjóli þess að hefðbundnir valdaflokkar í landinu þora ekki að rjúfa þing og boða til kosninga af ótta við að stefna þeirra í útlendingamálum (sem þeir hafa að mestu kastað fyrir róða) leiði til enn meira fylgis við Svíþjóðardemókratana sem lagst hefur gegn straumi flótta- og farandfólks til Svíþjóðar.
Í Finnlandi fékk Finnaflokkurinn utanríkisráðherraembættið eftir kosningarnar í apríl 2015 enda annar stærsti flokkur landsins. Hann hefur lýst efasemdum um ágæti ESB-aðildar og upptöku evrunnar í Finnlandi en hallast til vinstri í félagsmálum. Út á við er hann stimplaður sem hægri lýðskrumsflokkur.
Í Danmörku nýtur ríkisstjórnin stuðnings Danska þjóðarflokksins sem oft er úthrópaður erlendis sem öfgaflokkur vegna stefnu sinnar í útlendingamálum, stefnu sem nú fellur vel að sjónarmiðum sem njóta víðtæks stuðnings almennings í Evrópu. Danski þjóðarflokkurinn beitti sér gegn því í þjóðaratkvæðagreiðslu í desember 2015 að Danir felldu úr gildi fyrirvara á ESB-aðild sinni. Danir sögðu nei við tillögunni þrátt fyrir stuðning gömlu stóru flokkanna við hana og hræðsluáróður um blett á ímynd Danmerkur.
Íhaldsflokkurinn, stjórnarflokkur Bretlands, logar stafna á milli vegna ágreinings um hvort Bretar eigi að vera áfram í ESB. Átökin harðna til 23. júní þegar greidd verða atkvæði um ESB-aðildina. Íhlutun Baracks Obama Bandaríkjaforseta í málið kallaði fram harða gagnrýni á hann sem talsmann afsals fullveldis annarra þótt Bandaríkjaþing neiti meira að segja að fullgilda hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna vegna andstöðu við fullveldisframsal.
Í Hollandi veit ríkisstjórnin ekki sitt rjúkandi ráð eftir að skýr meirihluti ákvað í þjóðaratkvæðagreiðslu að hafna aðild Hollands að samstarfs- og viðskiptasamningi ESB við Úkraínu. Niðurstaðan mótast af andstöðu Hollendinga við of mikið framsal á valdi til ESB þar sem lýðræði sé fótum troðið.
Í Austurríki sigraði frambjóðandi Frelsisflokksins í fyrri umferð forsetakosninga. Flokknum var lýst sem „öfgahægriflokki“ á mbl.is, stofnandi hans hefði verið „SS-dýrkandi“ og sigurvegarinn nú gengi með „Glock skammbyssu sína á almannafæri“.
François Hollande Frakklandsforseti nýtur trausts innan við 20% þjóðarinnar og stjórn hans á undir högg að sækja á öllum sviðum. Neyðarlög gilda í Frakklandi en til sögunnar hefur komið ný hreyfing sem kennir sig við næturstöðu og mótmælir sérstaklega tillögum um nýja vinnulöggjöf.
Sérstaða Íslands
Hér hefur aðeins verið drepið á stjórnmálástandið í nokkrum löndum sem við notum gjarnan sem mælistiku á eigin stjórnmálastöðu. Hver hefur sinn pólitíska drösul að draga. Hvergi í þessum löndum eru efnahagshorfur hins vegar eins góðar og hér landi.
„Hagkerfið stendur í blóma, kaupmáttur vex hröðum skrefum og verðbólga hefur í meira en tvö ár verið undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Mikill afgangur er á ríkissjóði, skuldir ríkisins lækka hratt og erlend staða þjóðarbúsins hefur aldrei verið betri. Aldrei,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra á alþingi 8. apríl þegar hann kynnti stefnu ríkisstjórnarinnar.
Kaupmáttur hefur aukist um 11,6% undanfarna 12 mánuði. Erlendar skuldir nema aðeins um 14% af landsframleiðslu miðað við 130% þegar verst lét. Skráð atvinnuleysi var 2,7% í mars. Taka má undir með forsætisráðherra sem sagði: „Þetta er fáheyrður árangur í alþjóðlegu samhengi.“