Dagbók: janúar 2011

Mánudagur 31. 01. 11. - 31.1.2011

Ástráður Haraldsson, fráfarandi formaður landskjörstjórnar, var ekki sannfærandi í gagnrýni sinni á hæstarétt í Kastljósi kvöldsins. Í þessu máli er það þannig að annað hvort var löglega staðið að framkvæmd stjórnlagaþingkosninganna eða ekki. Hafi ekki verið löglega að kosningunum staðið hlýtur hæstiréttur að ógilda þær þegar leitað er álits hans.

Á ensku er talað um „creeping jurisdicton“ það er þegar lögmætt ástand breytist án þess að nokkur ákveði breytinguna á formbundinn hátt heldur gerist hún vegna þess að eitthvað er látið átölulaust þar til ekki verður til baka snúið.

Svo virðist sem gagnrýnendur dóms hæstaréttar telji eðlilegt að slegið sé af kröfum við framkvæmd kosninga, þar eigi að beita einhverjum öðrum reglum en þeim sem eru lögbundnar.  Spyrja má: Hvar á þá að draga mörkin? Í rökræðum um það lenda menn í ógöngum og taka til við að ræða málin á sama hátt og Ástráður Haraldsson þegar hann sagði að börn gætu opnað læstan kjörkassa með skrúfjárni! Á að skilja orð hans þannig að þess vegna sé í lagi að þeir séu opnir?

Örugg framkvæmd lýðræðislegra kosninga er hornsteinn lýðræðis. Að Ögmundur Jónasson telji duga að slá úr og í þegar spurt er um ábyrgð hans á þessu klúðri er fráleitt.  Ég er sammála Þorsteini Pálssyni, fyrrverandi dómsmálaráðherra, þegar hann segir að Ögmundur eigi að segja af sér embætti vegna þessa. Ef slíkur atburður hefði gerst á minni vakt í dómsmálaráðuneytinu, hefði ég tekið pokann minn. Ég tala nú ekki um ef ég hefði setið í ríkisstjórn sem strengdi þess heit eftir að rannsóknarskýrslan um bankahrunið birtist að hún ætlaði gera bragarbót við framkvæmd á lögum og stjórnsýslureglum.

Sunnudagur 30. 01. 11. - 30.1.2011

Í gærkvöldi var þorrablót Fljótshlíðinga í Goðlandi. Hvert sæti var skipað en salurinn tekur 220 manns í sæti. Var gerður góður rómur að skemmtiatriðum sem að þessu sinni voru undirbúin af íbúum á innstu bæjunum í hlíðinni. Anna Runólfsdóttir í Fljótsdal, innsta bænum, var kynnir og brá einnig um myndum og sagði frá. Hún nefndi meðal annars fjallakind sem ekki hefði náðst til byggða árum saman og gall þá í einhverjum: Er þetta ekki rollan hans Bjössa?

Þeir sem fylgst hafa með sögum af sauðfé mínu hér á síðunni minnast þess kannski að í sumar sagði ég frá því að ein kinda minna hefði ekki náðst af fjalli árum saman, í þrjá vetur ef ég veit rétt. Hún brá sér hins vegar til byggða undan öskunni í sumar og dvaldist í góðu yfirlæti hjá Viðari, nágranna mínum á Hlíðarbóli. Var hún með öðrum ám í hólfi í kringum fjárhús við bæinn, fór í hús þegar hún vildi og var hin gæfasta, þar til hún tók allt í einu á rás til fjalla og ekkert fékk stöðvað hana. Hún skildi meira að segja lambið sitt eftir þegar hún stökk yfir síðustu girðinguna í byggð.

Í haust sást hún í fjöllunum fyrir norðan Þórólfsfell og Fljótsdal en hljóp frá mönnum þegar þeir reyndu að ná henni. Í morgun þegar Anna í Fljótsdal fór að vitja að fé sínu í húsum og við hús rétt við bæinn sá hún ána sem hún hafði nefnd í þorrablótinu kvöldið áður. Nú lagði hún ekki til fjalla við mannaferðir heldur hljóp inn í fjárhús, þegar Anna opnaði hlið á girðingunni.

Ókum við Viðar Pálsson í Hlíðarbóli og Ásgeir Tómasson í Kollabæ síðdegis inn að Fjalla til byggðaFljótsdal og náðum í kindina. Þau sögðu okkur að í Fljótsdal væri forystufé og mín væri af þeim stofni, enda keypti ég hana sem lamb af Runólfi bónda á sínum tíma. Nú settum við hana í bíl og ókum sem leið lá að fjárhúsinu á Hlíðarbóli, þar sem ærin er nú í góðu yfirlæti. Vakti hún sérstakan áhuga hrútsins þegar hún birtist. Á myndinni heldur Viðar bóndi í hornið á gripnum. Ég þarf að finna á hana gott nafn en hún var tiltölulega vel á sig komin.

Okkur var öllum létt yfir því að loksins tókst að handsama kindina og koma henni undir mannahendur. Við fréttir af því að kindin er komin í hús ætti einnig fleirum að vera létt, því að margir vaskir menn hafa í áranna rás lagt á sig mikið erfiði í viðleitni við að ná ánni. Hvort hennar verður oftar minnst á þorrablóti á eftir að koma í ljós. Við skulum vona að koma hennar til byggða sé ekki fyrirboði nýrra eldsumbrota.

Í kvöld klukkan 20.00 fór ég á tónleika Kammersveitar Reykjavíkur í Listasafni Íslands.Laugardagur 29. 01. 11. - 29.1.2011

Fyrir áhugamenn um samskipti Íslands og ESB hafa birtst þrjár forvitnilegar fréttir á www.evropuvaktin.is í dag:

1. Upp úr viðtali við Jean-Claude Piris í Fréttablaðinu í dag þar sem hann slær á ýmsar goðsagnir varðandi Ísland og ESB. Hann segir ESB ekki hafa neinn hag af aðild Íslands, norðurslóðir skipti ESB í raun engu. Íslendingar hafi ekki góða samningsstöðu gagnvart ESB vegna áhuga sumra ESB-ríkja á að tengja Ísland og Balkanlönd.

2. Jóhanna Sigurðardóttir minnist ekki á efnisatriði ESB-aðildar þegar hún ræðir framtíðarstefnu ríkisstjórnarinnar. Samfylkingin muni gera fólki kleift að kjósa um málið. Hvers virði er það ef ríkisstjórn situr sem hefur ekki burði til að tryggja lögmæti kosninga?

3. Stefán Haukur Jóhannesson, formaður ESB-viðræðurnefndar Íslands, segir við ESB-þingmenn í Brussel að aðildarviðræðurnar séu á beinu brautinni og skoðanakönnun Fréttablaðsins sem birt var 24. janúar lofi góðu um áhuga Íslendinga á aðild. Þessi könnun byggðist að vísu á aðferðafræðilegum mistökum og er því marklaus. Hvað sem því líður þurfa viðmælendur Íslendinga ekki að óttast áhugaleysi formanns íslensku nefndarinnar á aðild.

Föstudagur 28. 01. 11. - 28.1.2011

Hér má sjá samtalsþátt okkar Ólafs Þ. Harðarsonar á ÍNN miðvikudaginn 26. janúar. Í fyrri hluta þáttarins ræddum við um ákvörðun hæstaréttar um að ógilda kosningarnar til stjórnlagaþings. Í seinni hlutanum fræddist ég um embætti Ólafs sem forseta félagsvísindasviðs Háskóla Íslands. Skipulagi háskólans var gjörbreyttt á árinu 2008.

Lokaspurning mín snerist um þátttöku háskólamanna í opinberum umræðum og hvort þeir kæmu fram sem óháðir eða málsvarar ákveðinna flokka eða hagsmunahópa. Ólafur svaraði skilmerkilega eins og hans var von og vísa en tíminn leyfði ekki viðbrögð mín við svari hans.

Réttilega sagði Ólafur að prófessorar við Háskóla Íslands hefðu verið í framboði fyrir stjórnmálaflokka samhliða kennslustörfum. Þetta hefur til dæmis verið hefð við lagadeild Háskóla Íslands fram til þess að Gunnar G. Schram var þar prófessor og þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Ég sé ekkert athugavert við að prófessorar eða kennarar háskólans séu virkir þátttakendur í starfi stjórnmálaflokka, tel það raunar æskilegt, hafi þeir tök og tíma til þess. Hitt er fráleitt að til þeirra sé leitað í fjölmiðlum sem óhlutdrægra fræðimanna um þau efni sem snerta hin pólitísku baráttumál sem þeir hafa helgað sér.

Fimmtudagur 27. 01. 11. - 27.1.2011

Tilraunir þeirra sem vilja skýra álit hæstaréttar og ógildingu stjórnlagaþingkosninganna sem pólitíska aðför að þinginu og ríkisstjórn vegna afstöðu dómara til kvótalaganna eru fráleitar. Hið merkilega við þetta er að Jóhanna Sigurðardóttir ýtti undir þennan fráleita málflutning þegar hún stóð öskrandi í ræðustól alþingis undir kvöldmat á þriðjudag.

Gagnrýnendur kvótalaganna gleyma því að þau voru sett á sínum tíma þegar Framsóknarflokkurinn, Alþýðubandalagið og Alþýðuflokkurinn voru við völd. Þau Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon sátu meira að segja í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar sem beitti sér fyrir setningu laganna.

Að þessari staðreynd sé ekki haldið á loft er aðeins til marks um lélegt samhengi í íslenskri fjölmiðlun og hve auðvelt er að blekkja fjölmiðlamenn með upphrópunum og spuna.

Enn er rætt um ábyrgð á kosningaklúðrinu. Þarf að leita langt? Það má til dæmis fara í greinasafn Morgunblaðsins. Þá kemur þetta til dæmis í ljós frá 23. nóvember 2010:

„Framkvæmd og eftirlit með kosningum til stjórnlagaþings um næstu helgi verður fyrst og fremst á ábyrgð landskjörstjórnar að sögn Ástráðar Haraldssonar, formanns hennar.

Hann segir ljóst að við þær aðstæður þar sem um er að ræða 522 framboð verði umboðsmannakerfi ekki viðkomið....

Aðspurður hvort landskjörstjórn hafi þannig í raun ekki ein eftirlit með eigin verkum segir hann: „Jú, og svo kemur náttúrlega sú umfjöllun sem getur orðið ef menn una ekki niðurstöðunni og telja hana ranga."“

Þarna fer ekkert á milli mála um ábyrgðina. „Umfjöllunin“ sem Ástráður nefnir þarna varð örugglega örlagaríkari en hann vænti.

 


Miðvikudagur 26. 01. 11. - 26.1.2011

Í dag ræddi ég við Ólaf Þ. Harðarson, prófessor og forseta félagsvísindasviðs Háskóla Íslands, í þætti mínum á ÍNN. Við ræddum í fyrri hluta þáttarins um hinn ótrúlega atburð að kosningar á landsvísu skyldu ógiltar hér á landi eftir kæru til hæstaréttar. Í seinni hluta þáttarins fræddist ég af Ólafi um hlutverk forseta fræðasviðs innan háskólans en til sviðanna var stofnað árið 2008.

Þegar rætt er um hlutverk ríkisins er jafnan litið fyrst til þess að það tryggi borgurum sínum öryggi í víðum skilningi. Í vestrænum lýðræðisríkjum er jafnframt litið á það sem grunnverkefni ríkisvaldsins að tryggja borgunum rétt til að njóta lýðræðislegra réttinda sinna og þar gegna kosningar lykilhlutverki. Að löggjafinn og framkvæmdavaldið ráði ekki við að efna til kosninga að mati þriðja aðila, hér á landi hæstaréttar, er slíkt áfall fyrir þá sem hafa forystu fyrir þing og ríkisstjórn að ekki er unnt að benda á  neitt sem er meira til marks um óhæf stjórnvöld.

Enginn hefur hrópað oftar og hærra á það á þingi undanfarin ár en Jóhanna Sigurðardóttir að ráðherrar axli ábyrgð. Þegar stjórnsýsluklúður, sem áður var talið óhugsandi, gerist á hennar vakt segir hún í raun engan hafa verið á vaktinni, því að enginn þurfi að axla ábyrgð. Enn og aftur er ástæða til að spyrja hve lengi þingflokkur Samfylkingarinnar ætlar að líða Jóhönnu þessa stjórnarhætti. Hvað sem öðru líður eru þeir í hróplegri andstöðu við heitstrengingar um að fara að ábendingum rannsóknarnefndar alþingis um umbætur í stjórnsýslunni.

Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor, hefur aðstoðað forsætisráðherra og ráðuneyti hennar við að hrinda  breytingum í anda rannsóknarskýrslunnar í framkvæmd. Í stað þess að fylgja tillögum sínum eftir í ljósi hinna ógildu kosninga gengur hann fram fyrir skjöldu og leggur til að þeir sem hlutu ógilda kosningu á stjórnlagaþing verði skipaðir í stjórnlaganefnd. Í samtali okkar Ólafs Þ. Harðarsonar sagði hann þá aðferð „afar óheppilega“.

Þriðjudagur 25. 01. 11. - 25.1.2011

Málsvörn ráðherranna Ögmundar Jónassonar og Jóhönnu Sigurðardóttur sem bera pólitíska ábyrgð á því að í fyrsta sinn í Íslandssögunni eru kosningar á landsvísu ógiltar af hæstarétti stenst ekki gagnrýni.

Ögmundur segir í öðru orðinu að ekki sé unnt að brjóta lög nema valda öðrum skaða og hinu að þrátt það fallist hann á ógildingu hæstaréttar. Hann bendi bara á þetta til að stofna til umræðna! Skafti Harðarson sem kærði framkvæmd stjórnlagaþingskosninganna til hæstaréttar velti fyrir sér í Kastljósi hvort Ögmundi þætti óþarfi að sekta menn fyrir að aka á rauðu ljósi af því að það skaðaði engan. Hvað með hraðamyndavélar? Eða að láta fólk blása í blöðru? Niðurstaða hæstaréttar hefur varnaðaráhrif.  Hún minnkar líkur á því að sýnt verði sífellt meira kæruleysi við framkvæmd kosninga.

Jóhanna öskraði í þingsalnum á íhaldið eins og það hefði stjórnað niðurstöðu sex hæstaréttardómara í þágu kvótaeigenda af ótta við þjóðareign á auðlindum. Í Kastljósi hafði hún breytt um tón. Nú vill hún að „fólkið fái það sem það er að kalla eftir“  hún sagði að stjórnlagaþingið væri „helsta krafa fólksins“   og loks sagði hún „fólkið verður að fá sitt stjórnlagaþing“.

Þetta er dæmalaust lýðskrum. Lítil þátttaka í stjórnlagaþingskosningunum sýndi að „fólkið“ hafði lítinn áhuga á þinginu. Stjórnlagaþingið hefur verið gæluverkefni Jóhönnu árum saman. Henni mistókst hrapallega að stofna til þess sem forsætisráðherra. Helsta krafa þeirra sem þrá stjórnlagaþing  hlýtur að vera afsögn Jóhönnu. Henni mistókst þetta ætlunarverk sitt eins og annað.

Mánudagur 24. 01. 11. - 24.1.2011

Þegar ég átti samstarf við Eirík Jónsson, þáverandi formann Kennarasambands Íslands, sem menntamálaráðherra á árunum 1995 til 2002 kunni ég því ágætlega. Þótt oft bæri nokkuð á milli tókst að lokum að finna lausn í sátt. Þetta átti meðal annars við um flutning grunnskólans til sveitarfélaganna og fjárhagsleg álitaefni í því sambandi.

Sameiginleg nefnd vann að því að grandskoða alla kostnaðarþætti við skólastarfið og síðan var lagt mat á tekjuþörfina áður en frá öllu var gengið í fullri sátt. Eftir að reynsla hafði komist á framkvæmd flutningsins og skólarekstur á vegum sveitarfélaganna gerðu óhlutdrægir aðilar úttekt á stöðunni og var staðfest að allt hefði staðist eins og um var rætt.

Með þetta í huga er mér óskiljanlegt hvers vegna Eiríkur stígur fram í Fréttablaðinu í dag og heldur því fram að árið 1996 hafi sveitarfélögin tekið grunnskólana yfir „fyrir tekjustofna sem ljóst var að gátu aldrei staðið undir kostnaði“ við rekstur skólanna. Hann sakar meira að segja sveitarfélögin fyrir að vilja ekki meira fé en um var samið, þótt kennarasambandið hafi hvatt þau til þess. Telur hann niðurstöðuna 1996 ástæðuna fyrir því að síðan hafi mörg sveitarfélög „átt í erfiðleikum með að reka skólana.“ Nú bitni þetta líka á leik- og tónlistarskólum þar sem sveitarsjóðir séu hvorki  hólfaðir niður eftir skólastigum né öðru.

Þessi skrif Eiríks eru hrein óvirðing við þá sem unnu samviskusamlega og skipulega að flutningi grunnskólans til sveitarfélaganna. Þeir eiga annað skilið frá þáverandi formanni Kennarasambands Íslands en ávirðingar af þessum toga. Raunar er óskiljanlegt hvað fyrir Eiríki vakir með þessum rangfærslum annað en koma illu af stað. Sé það gert vegna kjaradeilu kennara við sveitarfélögin er óhætt að segja að Eiríkur leggi ekki gott til hennar.


Sunnudagur 23. 01. 11. - 23.1.2011

Furðu vekur hve Birgittu Jónsdóttur, þingmanni Hreyfingarinnar, hefur tekist að þvæla sér inn í vandræðamál sem teygja sig víða um lönd. Hún átti hlut að því að kalla hingað til lands hóp aðgerðasinna í umhverfismálum til að mótmæla Kárahnjúkavirkjun og álveri á Austurlandi. Í hópnum reyndist vera flugumaður á vegum bresku lögreglunnar sem fylgdi þessum hópi land úr landi. Hann hefur nú snúið baki við lögreglunni og leitast við að koma sér í mjúkinn hjá Birgittu með því að ala á grunsemdum í garð lögregluyfirvalda þeirra landa, sem hann sótti heim.

Þegar í óefni er komið velur Birgitta þann kost að gera aðra tortryggilega vegna  þessara erlendu samstarfsmanna sinna. Nú vill hún klína því á íslensku lögregluna að flugumaður var í hópnum sem hún dró til landsins og heimtar opinbera rannsókn á málinu!

Staðreynt er að Birgitta og þingmenn Hreyfingarinnar höfðu hér á sínum vegum í desember 2009 nokkra einstaklinga tengdum WikiLeaks sem sérhæfir sig í að safna opinberu efni og miðla því á vefsíðu sinni. Í herbergi sem þingmennirnir gátu nýtt var sett ómerkt og órekjanleg fartölva sem tengd var inn í tölvukerfi alþingis. Þegar bent var á að hugsanlega mætti rekja þessa tölvu til erlendra vina Birgittu las hún sér til málsvarnar ljóð í ræðustól alþingis. Hún gat ekki neitað tengslum við WikiLeaks-mennina.

Vegna þessara WikiLeaks-tengsla hefur Bandaríkjastjórn óskað eftir persónuupplýsingum um Birgittu frá Twitter-samskiptasíðunni.  Þegar Birgitta frétti af rannsókninni í Bandaríkjunum sneri hún sér til íslenskra ráðherra með upphrópunum og heimtaði afskipti Alþjóðaþingmannasambandsins.

Að breyta þessum vandræðagangi í íslenskt vandamál af því að Birgitta var kjörin hér á þing og skuli þess vegna njóta sérréttinda stangast á við allt mótmælastand þingsmannsins. Af hverju tekur hún ekki sjálf slaginn við þá sem hún telur beita sig rangindum? Væri hún utan þings er víst að hún úthrópaði þá sem nýttu sér friðhelgi þingmanna.

Framkoma Birgittu eykur ekki virðingu fyrir þingmönnum og síst af öllu að hún hafi kallað hingað til starfa með þingflokki Hreyfingarinnar forráðamenn WikiLeaks í því skyni að undirbúa löggjöf til að veita þessum sömu mönnum skjól og svigrúm til að athafna sig hér á landi.

Er ekki tímabært að þingmenn taki sig saman og segi hingað og ekki lengra?

Laugardagur 22. 01. 11. - 22.1.2011

Kvikmyndin Hereafter sem Clint Eastwood framleiðir og leikstýrir með Matt Damon í aðalhlutverki snertir viðfangsefni sem Íslendingum hefur löngum verið hugstætt, spurningu um líf eftir dauðann.

Ég kann vel við hin einfalda og skýra stíl Eastwoods. Hann heldur vel utan um þræði sögunnar og tengir þá saman á sniðugan hátt.

Í dag skrifaði ég pistil hér á síðuna í tilefni af ævisögu Gunnars Thoroddsens.

Föstudagur 21. 01. 11. - 21.1.2011

Á Evrópuvaktinni er sagt frá fundi í Ráðherrabústaðnum í dag þar sem þrír ráðuneytisstjórar kynntu fyrir hagsmunaaðilum áform um að stofna atvinnuvegaráðuneyti og færa svonefnd nýtingarmál frá þeim til umhverfisráðuneytisins.

Augljóst er af frásögninni að Steingrímur J. Sigfússon vill að gengið verði á hlut Jóns Bjarnasonar og honum bolað úr ríkisstjórn. Niðurlagning á ráðuneyti Jóns væri aldrei komið á þetta stig án samþykkis Steingríms J. Þetta er önnur frétt Evrópuvaktarinnar um þessa hlið á ágreiningi vinstri-grænna. Það sýnir furðulegt áhugaleysi ljósvakamiðla um meginstrauma stjórnmálaþróunarinnar að fylgjast hvorki með umræðum um breytingar á stjórnarráðinu né um samskipti Íslands og ESB á sviði landbúnaðarmálum sem knýr á um brottför Jóns úr ríkisstjórninni að mati Samfylkingarinnar.

Fimmtudagur 20. 01. 11. - 20.1.2011

Henry Kissinger var gestur Charlie Rose á Bloomberg-stöðinni og ræddi samskipti Bandaríkjanna og Kína. Ég hlustaði oft á hann hugsa upphátt á fundum á áttunda og níunda áratugnum. Hann verður 88 ára í maí og hugsun hans er jafnskýr og áður. Rök hans eru skýr og köld. Þegar Charlie spurði hann um hvernig ætti að ræða um mannréttindamál við Kínverja, sagði hann að það færi eftir því hver talaði við hvern. Bandarískir stjórnmálamenn sætu undir miklum þrýstingi heima fyrir til að beita sér í mannréttindamálum gagnvart kínverskum ráðamönnum. Eftir því sem ofar menn færu í valdastiganum yrðu menn að sýna meiri varkárni vildu þeir ekki slíta sambandi við viðmælanda sinn. Bandaríkjaforseti yrði þannig alltaf að hafa á bakvið eyrað tvö sjónarmið: hvert vil ég samand Bandaríkjanna og Kína verði; hvernig vil taka á málum með tilliti til baráttu á heimavelli. Hann hlyti að leggja áherslu á að sambandið rofnaði ekki við Kínverja.

Hann segir að Kínverjar þrái ekki að ráða heiminum. Þeir vilji hins vegar njóta virðingar í heiminum.

Frönsk kvikmyndavika hófst í kvöld með sýningu á myndinni Potiche með stórleikurunum Catherine Deneuve og Gérard Depardieau í stórum hlutverkum. Góð kvöldskemmtun.

Miðvikudagur 19. 01. 11. - 19.1.2011

Furðulegar fréttir berast af vettvangi ríkisstjórnarinnar þar sem offors Össurar Skarphéðinssonar er svo mikið við að laga sig að kröfum ESB að hann heimtar að Jón Bjarnason sé rekinn úr ráðherraembætti svo að unnt sé að hefja viðræður við ESB um landbúnaðarmál.

Eitt er þó að Össur setji fram þessar kröfur annað að Jóhanna og Steingrímur J. kalli Jón á sinn fund og tilkynni honum að hann verði að víkja sæti í þágu ESB-málstaðarins. Þess verður ekki vart lengur að Steingrímur J. taki upp hanskann fyrir Jón Bjarnason, þrátt fyrir samþykkt vinstri-grænna gegn samruna ráðuneyta og brotthvarfi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þetta sýnir fyrst og fremst hve djúpstæður klofningur er orðinn innan vinstri-grænna.

Hverfi Jón Bjarnason úr ríkisstjórn aukast líkur á því að kallað verði á ESB-sinnaða framsóknarmenn til að aðstoða ríkisstjórnina í atkvæðagreiðslum á þingi. Þar beinist athygli að Siv Friðleifsdóttur, Guðmundi Steingrímssyni og Birki Jóni Jónssyni.

Á bakvið tjöldin gæla stjórnmálamenn við að leið út úr núverandi stjórnarkreppu í landinu sé myndun þjóðstjórnar. Stjórnarflokkarnir meina ekkert með því tali forsytumenn þeirra vita hins vegar að með þeim spuna draga þeir úr slagkrafti stjórnarandstöðunnar. Það virðist skila árangri.

Þriðjudagur 18. 01. 11. - 18.1.2011

Steingrímur J. Sigfússon var spurður um það í dag hvort hugmyndir hans um að ríkið næði aftur eignarhaldi á HS Orku yrðu ekki til þess að fæla erlenda fjárfesta frá því að koma til landsins. Hann hélt nú ekki. Þeir biðu í röðum og létu ekki svona nokkuð hafa áhrif á sig.

Fyrir skömmu ritaði Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, grein þar sem hann sagði að óhjákvæmilegt væri að ganga í ESB og losna við krónuna til að erlendir fjárfestar hefðu áhuga á að binda fé sitt hér á landi.

Áður en Árni Páll skrifaði grein sína sagði Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, í viðtali við Ingva Hrafn Jónsson á ÍNN að að erlendir fjárfestar hikuðu ekki af efnahagslegum ástæðum heldur vegna pólitískrar óvissu í landinu.

Hið undarlega er að það er ekkert samhengi í íslenskum fjölmiðlum í lýsingu á því sem er að gerast í efnahags- og fjármálastjórn landsins. Það er eins og engin prinsipp þurfi að vera skýr. Eftir að hafa fylgst mánuðum saman með þróun mála á evru-svæðinu um vanda þess og ESB er augljóst að þar er þráður í framvindunni. Menn takast á við skýr viðfangsefni og fjölmiðlar ná utan um hver þau eru.

Hér er ógjörningur að halda utan um mál í umræðum því að ríkisstjórnin segir eitt í dag og annað á morgun eða ráðherrar lýsa ólíkum sjónarmiðum sama daginn um þau mál sem eru á döfinni. Hið versta er að þeir segja ekki alltaf satt heldur tala eins og þeir halda að einhverjir hópar vilja heyra. Fjölmiðlar halda þeim ekki skipulega við efnið og enn þykja fréttir frá því sem gerðist 2007 eða 2008 meira spennandi en af óstjórn samtímans.

Þessi staða mála er til marks um vaxandi stjórnleysi enda hefur Jóhanna Sigurðardóttir fyrir löngu misst þráðinn í landsstjórninni. Nú reynir hún að draga að sér athygli sem fésbókarfærslum sem gera illt verra eða sýna ótrúlegt dómgreindarleysi eins og þegar hún reynir að skrifa sig í mjúkinn hjá þeim sem sitja undir ákæru fyrir að ráðast á Alþingishúsið.

Mánudagur 17. 01. 11. - 17.1.2011

Furðulegt er að fylgjast með því í sjónvarpi þegar syngjandi fólk undir forystu Bjarkar Guðmundsóttur afhendir Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrími J. Sigfússyni mótmæli gegn sölunni á HS Orku að Jóhanna segist vera sammála því sem í mótmælunum segir. Hún sat þó sem forsætisráðherra þegar gengið var frá sölunni. Spyrja má: Hreyfði hún legg eða lið til að stöðva hana? Gerði Jóhanna annað en setja á laggir eina nefnd eða fleiri til að dreifa athygli frá eigin ábyrgð og ríkisstjórnarinnar? Síðan heldur Jóhanna í þingið og segir að betra sé að ræða við erlendan kaupanda á HS Orku en setja lög um að ríkið taki fyrirtækið eignarnámi.

Hve lengi ætla þingmenn Samfylkingarinnar að bjóða þjóðinni þennan skrípaleik? Þeir bera höfuðábyrgð á því að Jóhanna situr hér sem forsætisráðherra. Ætla þeir að styðja frumvarp til laga um eignarnám á HS Orku? Samfylkingarliðið hefur unnið að því með vinstri-grænum að færa þjóðfélagið áratugi aftur í tímann með hækkun skatta.

Nú ganga þingmenn Samfylkingar fram í anda Árna Páls Árnasonar, efnahags- og viðskiptaráðherra, og boða hér eilíf gjaldeyrishöft nema gengið sé í ESB og undir ok miðstýringar frá Brussel í ríkisfjármálum og efnahagsmálum.

Rit Seðlabanka Íslands um úttekt á peningastefnu Íslands er lagt til grundvallar í þessum afarkostaboðskap Samfylkingarinnar. Úttektin er gerð af sömu starfsmönnum seðlabankans og mótuðu peningastefnuna fyrir hrun. Hvað hefðu menn sagt ef stjórnendum bankanna fyrir hrun hefði verið falið að gera úttekt á aðdraganda hrunsins? Hver hefði lagt slíka skýrslu til grundvallar við mótun nýrrar stefnu í bankamálum?

Sunnudagur 16. 01. 11. - 16.1.2011

Paul Krugmann, prófessor, Nóbelsverðlaunahafi og dálkahöfundur hjá The New York Times lýsir í langri grein í tímariti blaðsins í dag tilurð evrunnar og vandræðum á evru-svæðinu. Greinin er jafnframt lýsing hans á ólíkum viðhorfum hagfræðinga til myntsamstarfs og gengismála. Sjálfur segist hann fylgjandi sveigjanleika og hefur greinilega ekki mikla trú á því að tekist hafi að tryggja örugga framtíð evrunnar.

Krugmann nefnir Ísland tvisvar til sögunnar í grein sinni. Hann segist annars vegar taka sjálfstæða mynt Íslands sem dæmi þegar hann skýrir hvers vegna engum detti í hug að Brooklyn-hverfi í New York eignist eigin mynt. Þá ber hann saman ísland og Írland eftir hrun og telur Íslendinga nokkuð betur setta en Íra, þar sem við höfum tekið höggið með gengisfellingu en Írar þurfi að leita annarra erfiðari leiða til að draga úr kaupmætti.

Laugardagur 15. 01. 11. - 15.1.2011

Eins og ég hef áður sagt ræddi ég við Kristínu Ingólfsdóttur, rektor Háskóla Íslands, í þætti mínu á ÍNN sl. miðvikudag. Hér má sjá þáttinn.

Ég sé á mbl.is að Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, dregur í efa að fulltrúi ESB hafi lýst yfir því á fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar föstudaginn 14. janúar að ESB ætlaði að setja makríl-löndunarbann á íslensk skip. Engin ákvörðun hafi verið tekin.

Hinn 21. desember 2010 lýsti Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri ESB, yfir því að hún hefði óskað eftir fundi í sameiginlegu EES-nefndinni 14. janúar 2011 til að kynna ákvörðun sína um löndunarbannið í samræmi við EES-samninginn. Blaðafulltrúi Damanaki sendi fréttatilkynningu um hádegisbil 14. janúar og sagði frá því að EES-fundurinn hefði verið haldið, tilkynningunni um löndunarbann hefði verið lýst og framkvæmd bannsins yrði hrundið í framkvæmd.

Tómas Heiðar Hauksson, þjóðréttarfræðingur, sagði málið ekki breyta neinu fyrir Íslendinga og Bjarni Harðarson, blaðafulltrúi Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tók í sama streng. Við svo búið kemur síðan Össur og segir ESB ekki hafa tekið neina ákvörðun!

Ég skrifaði leiðara um málið á Evrópuvaktina sem lesa má hér án þess að minnast á þessa furðulegu afstöðu Össurar. Hún minnir á frásögn Stefáns Hauks Jóhannessonar, sendiherra gagnvart ESB, sem sagði eftir fund með Damanaki þegar hún hafði kynnt áform sín um refsiaðgerðir gagnvart Íslendingum að hún hefði verið hin viðræðubesta á fundi þeirra. Hún hefði skilning á málstað Íslendinga.
 

Föstudagur 14. 01. 11. - 14.1.2011

Í dag tilkynnti fulltrúi ESB refsiaðgerðir gegn Íslendingum vegna lögmætra ákvarðana íslenskra stjórnvalda um veiðar á makríl innan íslenskrar fiskveiðilögsögu. Ríkisstjórn Íslands hreyfir hvorki legg né lið.

Þjóðréttafræðingur utanríkisráðuneytisins sem fer með formennsku í viðræðunefnd Íslands um makríl við strandríkin við N-Atlantshaf segir ástæðulaust að hreyfa andmælum  við ESB af því að Norðmenn banni líka löndun hjá sér.

Íslensk stjórnvöld eru ekki í viðræðum um inngöngu í Noreg. Þau ræða hins vegar um aðild að ESB. Með þeirri aðild afsala íslendingar sér ákvörðunarvaldi um makrílkvóta innan íslenskrar lögsögu.  Réttu viðbrögðin við refsiaðgerðum ESB er að sjálfsögðu að hætta aðildarviðræðum við ESB.

Fimmtudagur 13. 01. 11. - 13.1.2011

Lene Espersen sem ég kynntist í tíð minni sem dómsmálaráðherra sagði í dag af sér sem formaður danska Íhaldsflokksins eftir að hafa sætt mikilli gagnrýni í fjölmiðlum vegna framgöngu sinnar sem utanríkisráðherra auk þess sem fylgi flokksins hefur minnkað jafnt og þétt síðan 2008 þegar hún varð flokksformaður.

Þegar ég hitti Lene á fundum dómsmálaráðherra Norðurlanda og endranær var hún vinsælasti stjórnmálamaður Danmerkur. Þess vegna hefur verið sérkennilegt að fylgjast með því hvernig fylgið hefur fallið af henni og flokki hennar, eftir að hún hlaut hinn mesta frama innan flokks síns. Að sumu leyti líktust fréttir um hana sem utanríkisráðherra og fjarveru frá fundum erlendis  einelti fjölmiðla. Að minnsta kosti var hún mæld með öðrum kvarða en til dæmis er notaður hér um Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra.

Ég skrifaði í dag leiðara á Evrópuvaktina um þá kröfu ESB til allra umsóknarríkja að þau lagi sig að reglum ESB áður en aðildarviðræðum lýkur.

Miðvikudagur 12. 01. 11. - 12.1.2011

Í dag ræddi ég við Kristínu Ingólfsdóttur, rektor Háskóla Íslands, í þætti mínum á ÍNN. Við ræddum um stöðu Háskóla Íslands á 100 ára afmæli hans og metnaðarfull markmið sem skólinn hefur sett sér á afmælisárinu. Þáttinn má sjá á tveggja tíma fresti þar til klukkan 18.00 13. janúar.

Þriðjudagur 11. 01. 11. - 11.1.2011

Ríkisstjórnin er ekki síður á barmi upplausnar en þingflokkur vinstri-grænna, þegar umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra deila opinberlega um ákvörðun Landsvirkjunar um að gæta réttar síns til rannsókna í Gjástykki verði niðurstaðan sú að hugsanleg nýting verði leyfð að loknu umhverfismati.

Hvar er forsætisráðherra? Er Jóhanna með öllu ófær um að halda liði sínu saman? Eru kettirnir komnir að ríkisstjórnaborðinu? Var ekki ríkisstjórnarfundur í morgun, þriðjudag? Vissi hvorugur ráðherrann um að Orkustofnun heimilaði Landsvirkjun að viðhalda rétti sínum? Er ekki miðlað neinum upplýsingum á ráðherrafundum? Hvar eru leikreglurnar um gegnsæi og miðlun upplýsinga sem ríkisstjórninni hafa verið settar af embættismönnum Jóhönnu?  Eru þær hundsaðar af ráðherranum eins og Ólafur Ragnar ætlar að hundsa óskir Jóhönnu um að hann setji sér siðareglur?

Kínverjar eru að öðlast fótfestu í stóriðju á Íslandi með kaupum á Elkem, norska fyrirtækinu, sem á járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga. Norðmenn hafa áhyggjur af þessari þróun en hér er henni fagnað ef marka má fyrstu fréttir. Þessi frétt ætti að minna enn og aftur á þá staðreynd að allir stærstu erlendu fjárfestar hér á landi eiga heima utan Evrópusambandsins. Aðild Íslands að ESB mun veikja samkeppnisstöðu álfyrirtækja hér vegna hærri gjalda.

Þegar kínversk stjórnvöld áttuðu sig á því að hér hefðu þeir náð undirtökum sem vildu aðild Íslands að ESB hættu þau tvíhliða viðræðum við íslenska embættismenn um fríverslunarsamning. Þau hafa hins vegar búið sig undir að styrkja aðstöðu sína hér á landi með nýrri byggingu undir sendiráð.

Mánudagur 10. 01. 11. - 10.1.2011

Þingflokkur vinstri-grænna kom á ný saman til fundar í dag í leit að öðrum samnefnara en þeim að verja ríkisstjórnina vantrausti. Ríkisstjórnin var mynduð sem meirihlutastjórn. Nú ræða stjórnmálafræðingar gjarnan  um hana sem minnihlutastjórn og bæta síðan við henni til málsbóta að minnihlutastjórnir sitji oft annars staðar á Norðurlöndum. Þessir spekingar ættu að fræða okkur um hvernig þessar norrænu minnihlutastjórnir fæðast. Er það ekki í umboði þjóðhöfðingjans sem felur einhverjum stjórnmálamanni að mynda ríkisstjórn?

Ólafur Ragnar veitti Jóhönnu Sigurðardóttur umboð til að mynda minnihlutastjórn 1. febrúar 2009. Framsóknarmenn lofuðu þá að verja stjórnina vantrausti. Eftir kosningar 25. apríl 2009 fékk Jóhanna umboð til að mynda meirihlutastjórn. Miðað við íhlutun Ólafs Ragnars í stjórnarmálefni, sem hann segir stundum nauðsynlega til að gæta heiðurs forsetaembættisins, er merkilegt ef hann lætur eins og ekkert sé þegar meirihlutastjórn breytist í minnihlutastjórn.

Ekkert af því sem nú gerist á vettvangi ríkisstjórnar eða fyrir tilstuðlan hennar ber þess merki að forsætisráðherra eða einstakir ráðherrar séu með hugann við ábendingar rannsóknarnefndar alþingis, þar sem lögð var áhersla á skýra ábyrgð og gegnsæja stjórnsýslu.

Sunnudagur 09. 01. 11. - 9.1.2011

Á Evrópuvaktinni hafa í dag birst tvær frásagnir í tilefni af hinum sérkennilegu tengslum Íslendinga við WikiLeaks síðuna, þar sem birst hafa bandarísk leyndarskjöl.

Annars vegar er endursögð löng fréttagrein úr The New York Times þar sem sagt er frá því að bandarískur dómari sé að safna upplýsingum um fimm einstaklinga sem tengjast WikiLeaks og hafi af því tilefni snúið sér til Twitter sem heldur úti samskiptasíðu. Twitter hafði síðan samband við Birgittu Jónsdóttur, alþingismann, sem er ein fimmenningana. Birgitta brást við bréfinu frá Twitter á þann veg að klaga Bandaríkjastjórn í Ögmund Jónasson, innanríkisráðherra, og Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra. Af fjölmiðlum laugardaginn 8. janúar mátti ætla að alvarleg milliríkjadeila Íslands og Bandaríkjanna væri að hefjast. Sé frásögnin í The New York Times lesin sýnist með öllu ástæðulaust fyrir íslensk stjórnvöld að blanda sér í þetta mál, jafnvel þótt Birgitta Jónsdóttir, alþingismaður, eigi í hlut. Leyfi Birgitta Twitter ekki að láta umbeðnar upplýsingar í té er það mál milli hennar og Twitter, en lögfræðingar Twitter hljóta að gæta hagsmuna þeirra sem láta vefþjónustunni í té upplýsingar.

Athyglisvert er að í The New York Times er Birgittu lýst sem fyrrverandi aðgerðasinna innan WikiLeaks-samtakanna. Að hún sé fyrrverandi skýrist ef til vill við lestur hinnar frásagnarinnar á Evrópuvaktinni . Þar er vitnað í grein í bandaríska tímaritinu Commentary um WikiLeaks. Í greininni er sagt frá stjórnsemi og hroka Julians Assange innan WikiLeaks-samtakanna og hann hafi sagt ónafngreindum Íslendingi að „piss off“ - fara til fjandans - þegar honum mislíkaði gagnrýni hans. Það skyldi þó aldrei hafa verið Birgitta sem fékk þessar trakteringar hjá leiðtoganum?

Laugardagur 08. 01. 11. - 8.1.2011

Eins og áður sagði sat ég 6. janúar fyrir svörum í þætti um ESB-málefni, ESB nei eða já, hjá þeim Jóni Baldri L'Orange og Elvar Örn Arason hér má hlusta á þáttinn.

Elvar Örn er framkvæmdastjóri samtakanna Sterkara Ísland, sem vilja Ísland í ESB. Í einni spurningu hans birtist það sjónarmið að án aðildar að ESB stæðu Íslendingar í erfiðum sporum á alþjóðavettvangi. Hvað ég vildi gera í því máli? Ég minnti á að við hefðum gott samband við ESB á grundvelli EES-samningsins og Schengen-samkomulagsins. ESB hefði ekki óskað eftir neinni breytingu á þessu samstarfi. Frumkvæðið kæmi frá Samfylkingunni sem meðal annars vildi ýta undir úlfúð innan annarra stjórnmálaflokka hér á landi með stefnu sinni.

Við blasir hvernig Samfylkingin hefur rekið fleyg í þingflokk vinstri-grænna, þar sem allt leikur á reiðiskjálfi vegna ESB-stefnu ríkisstjórnarinnar. Nú magnast ESB-órói innan Framsóknarflokksins eins ég lýsi hér.

Í þættinum spurði Jón Baldur, sem er andvígur ESB-aðild, mig um stefnu Sjálfstæðisflokksins með þeim formerkjum að um hana ríkti einhver óvissa. Ég sagði mikinn misskilning að stefna flokksins væri óskýr, hún væri þvert á mót afdráttarlaus eins og samþykkt hefði verið á landsfundi sjálfstæðismanna. Á hinn bóginn teldu aðildarsinnar sér henta að láta eins og einhver óvissa ríkti um stefnu Sjálfstæðisflokksins.

Þessi áróður um óljósa ESB-stefnu Sjálfstæðisflokksins helgast af viðleitninni til að nota ESB-málið í .því skyni að kljúfa stjórnmálaflokka í þágu Samfylkingarinnar. Hin situr ein föst í ESB-farinu og vill fá annarra flokka fólk til að ýta sér upp úr því.

Föstudagur 07. 01. 11. - 7.1.2011

Ég hélt að norðanrokið mundi feykja mér um koll um hádegisbilið í dag á Kalkofnsveginum.


Fimmtudagur 06. 01. 11. - 6.1.2011

Í dag klukkan 17.00 sat ég  fyrir svörum á útvarpi Sögu og í þætti um Ísland og ESB undir stjórn þeirra Jóns L'Orange og Elvars Arnars Arasonar. Þema þáttarins var skýrsla Evrópunefndar frá mars 2007. Hvað eftir annað hitti ég þá sem vinna að Evrópumálum hrósa skýrslunni og hve mikið er af upplýsingum í henni.

Efni og niðurstaða skýrslunnar hefur aldrei valdið deilum á pólitískum vettvangi. Vandinn er sá að ekki féll í kramið hjá ESB-aðildarsinnum að nefndin komst að þeirri niðurstöðu að EES-samningurinn stæðist tímans tönn. Fyrir daga skýrslunnar létu aðildarsinnar gjarnan í veðri vaka að EES-samningurinn væri rykfallinn ef ekki ónýtur í skúffum skriffinna í Brussel. Þvi fer fjarri.

Tvennt ætti að rannsaka betur en gert er í skýrslunni: hin nýju aðlögunarskilyrði ESB gagnvart umsóknarríkjum og leiðir Íslands til að taka upp evru án ESB-aðildar. Ég nefndi þetta tvennt í þættinum með Jóni og Elvari.

Miðvikudagur 05. 01. 11. - 5.1.2011

Eins og spáð var hér á síðunni í gær tókst að búa þannig um hnúta á þingflokksfundi vinstri-grænna í dag að ríkisstjórnin lifir áfram með stuðningi flokksins. Ágreiningsefni eru hins vegar ekki úr sögunni og með öllu óvíst um stuðning við einstök mál á þingi, svo að ekki sé minnst á meginágreininginn við Samfylkinguna um aðildina að ESB.

Steingrímur J. sagði að fjölmiðlar hefðu gert of mikið úr ágreiningi meðal vinstri-grænna og vandræðum ríkisstjórnarinnar. Hann lét þess ógetið að Jóhanna Sigurðardóttir sýndi þremenningunum sem greiddu ekki atkvæði með fjárlagafrumvarpinu þann sóma að segjast ekki líta á þá sem stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar. Hvaða yfirbót þurfa þau að gera til að verða aftur gjaldgeng sem stjórnarþingmenn að mati forsætisráðherra?

Stundum heyrist því fleygt að Steingrímur J. segist ráða öllu í ríkisstjórninni. Jóhanna geti ekkert án sín. Sé þetta rétt beitir Steingrímur J. ofurvaldi sínum aðeins bakvið luktar dyr. Út á við skelfur hann í hnjáliðum andspænis Jóhönnu og gagnvart kröfu Samfylkingarinnar um skilyrðislausa hlýðni í ESB-málinu. Skyldi þetta breytast eftir þingflokksfund vinstri-grænna í dag?

Nú hefst Samfylkingin ótrauð handa við að bola Jóni Bjarnasyni úr ráðherrastóli. Þingflokkur hennar telur ekki neitt að óttast þótt vinstri-grænir láti eins og þeim standi ekki á sama. Vinstri-grænir hafa hrópað svo oft: Úlfur! Úlfur! án þess að nokkur hætta sé á ferðum að neyðaróp þeirra hafa ekki lengur neitt gildi.

Þriðjudagur 04. 01. 11. - 4.1.2011

Fyrsti stórpólitíski fundur ársins verður haldinn á morgun, þegar þingflokkur vinstri-grænna kemur saman til að ræða innbyrðis ágreining þingmanna flokksins sem birtist við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2011. Árni Þór Sigurðsson, starfandi þingflokksformaður, segir þingmennina hafa komið „ódrengilega“ fram. Jóhanna Sigurðardóttir segist ekki geta litið á þá sem stjórnarþingmenn. Össur Skarphéðinsson líkir tveimur þeirra við strokgjarna meri og folald hennar.

Líklegt er að leitast verði við að breiða yfir ágreininginn. Hann snýst öðrum þræði um afstöðuna til ESB-aðildarumsóknina og fjalla ég um þann þátt í leiðara á Evrópuvaktinni í dag en hann má lesa hér.

Mánudagur 03. 01. 12. - 3.1.2011

Fallegur vetrardagur í Fljótshlíðinni. Hitastigið féll að skömmum tíma niður fyrir frostmark þegar leið á daginn. Við höfum ekki orðið vör við neinar drunur úr Eyjafjallajökli þótt fréttir hermi að aðrir nágrannar jökulsins hafi heyrt þær.

Sunnudagur 02. 01. 11. - 2.1.2011

Miðvikudaginn 29. desember ræddi ég  við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, í þætti mínum á ÍNN og má sjá hann hér.


Nýársdagur, laugardagur 01. 01. 11. - 1.1.2011

Gleðilegt ár!

Í dag skrifaði ég nýárspistil hér á síðuna eins og lesa má hér.