31.1.2011

Mánudagur 31. 01. 11.

Ástráður Haraldsson, fráfarandi formaður landskjörstjórnar, var ekki sannfærandi í gagnrýni sinni á hæstarétt í Kastljósi kvöldsins. Í þessu máli er það þannig að annað hvort var löglega staðið að framkvæmd stjórnlagaþingkosninganna eða ekki. Hafi ekki verið löglega að kosningunum staðið hlýtur hæstiréttur að ógilda þær þegar leitað er álits hans.

Á ensku er talað um „creeping jurisdicton“ það er þegar lögmætt ástand breytist án þess að nokkur ákveði breytinguna á formbundinn hátt heldur gerist hún vegna þess að eitthvað er látið átölulaust þar til ekki verður til baka snúið.

Svo virðist sem gagnrýnendur dóms hæstaréttar telji eðlilegt að slegið sé af kröfum við framkvæmd kosninga, þar eigi að beita einhverjum öðrum reglum en þeim sem eru lögbundnar.  Spyrja má: Hvar á þá að draga mörkin? Í rökræðum um það lenda menn í ógöngum og taka til við að ræða málin á sama hátt og Ástráður Haraldsson þegar hann sagði að börn gætu opnað læstan kjörkassa með skrúfjárni! Á að skilja orð hans þannig að þess vegna sé í lagi að þeir séu opnir?

Örugg framkvæmd lýðræðislegra kosninga er hornsteinn lýðræðis. Að Ögmundur Jónasson telji duga að slá úr og í þegar spurt er um ábyrgð hans á þessu klúðri er fráleitt.  Ég er sammála Þorsteini Pálssyni, fyrrverandi dómsmálaráðherra, þegar hann segir að Ögmundur eigi að segja af sér embætti vegna þessa. Ef slíkur atburður hefði gerst á minni vakt í dómsmálaráðuneytinu, hefði ég tekið pokann minn. Ég tala nú ekki um ef ég hefði setið í ríkisstjórn sem strengdi þess heit eftir að rannsóknarskýrslan um bankahrunið birtist að hún ætlaði gera bragarbót við framkvæmd á lögum og stjórnsýslureglum.