Dagbók: apríl 2004

Föstudagur, 30. 04. 04. - 30.4.2004 0:00

Útlendingalagafrumvarpið varð að lögum eftir að alþingi samþykkti það um klukkan 14.30.

Fimmtudagur, 29. 04. 04. - 29.4.2004 0:00

Útlendingafrumvarp til 2. umræðu á alþingi frá um klukkan 11.00 til klukkan 17.00.

Fór klukkan 16.00 í upptöku hjá Sigmundi Ern vegna þáttarins Maður á mann.

Klukkan 22.30 var atkvæðagreiðsla um útlendingalagafrv. á alþingi.

Miðvikudagur 28. 04. 04. - 28.4.2004 0:00

Síðdegis tók ég þátt í umræðum um fjölmiðlaskýrsluna á alþingi.

Þriðjudagur, 27. 04. 04. - 27.4.2004 0:00

Klukkan 14.00 flutti ég ávarp við upphaf prestastefnu í Grafarvogskirkju.

Eftir setningu prestastefnu fór ég að vinna með Sigmundi Erni sjónvarpsmanni á Skjá 1 að gerð þáttarins Maður og mann en hann verður sýndur sunnudaginn 2. maí. Voru atriði utan myndvers tekin þetta síðdegi.

Sunnudagur, 25. 04. 04. - 25.4.2004 0:00

Klukkan 10.30 hittumst við ráðherra Sjálfstæðisflokksins í stjórnarráðshúsinu og ræddum fjölmiðlafrumvarpið.

Klukkan 11.30 kom ríkisstjórnin saman til fundar um fjölmiðlafrumvarpið og lauk fundinum um klukkan 12.00.

Laugardagur 24. 04. 04 - 24.4.2004 0:00

Fór klukkan 10.00 í Valsheimilið og tók þátt í alþjóðlega qi gong deginum undir leiðsögn Gunnars Eyjólfssonar.

(Ég hafði lofað að vera í Vestmannaeyjum þennan dag vegna málþings yfirlögregluþjóna en vegna fyrirhugaðs ríkisstjórnarfundar um fjölmiðlafrumvarp varð ég að aflýsa förinni þangað, auk þess var ekki flogið þennan dag til Eyja.)

Miðvikudagur 21. 04. 04. - 21.4.2004 0:00

Fór klukkan 17.00 á fund Varðar um jafnréttismál, sem haldinn var í Valhöll.

Þriðjudagur, 20. 04. 04. - 20.4.2004 0:00

Fór um kvöldið í Iðnó og fylgdist þar með því, hve glæsilega Pálína Jónsdóttir leikkona flutti á ensku leikrit eftir Elísabetu Jökulsdóttur.

Sunnudagur, 18. 04. 04. - 18.4.2004 0:00

Fór klukkan 20.00 í Kristskirkju, þar sem flutt var dagskráin Líkfylgd Jóns Arasonar í tali og tónum.

Laugardagur 17. 04. 04. - 17.4.2004 0:00

Þingvallanefnd kom saman til fundar klukkan 10.00 með helstu starfsmönnum sínum og sérfræðingum til að ræða stefnumótun til næstu 20 ára, en unnið hefur verið að henni undanfarna mánuði.

Föstudagur, 16. 04. 04. - 16.4.2004 0:00

Klukkan 10.30 var umræðna utan dagskrár á alþingi vegna álits kærunefndar jafnréttismála á skipan hæstaréttardómara. Jóhanna Sigurðardóttir hóf umræðuna með dæmalausum og innihaldslausum fúkyrðum. Einkennilegust var ræða Gunnars Örlygssonar þingmanns Frjálslynda flokksins, sem virtist telja, að með vísan til álits kærunefndarinnar ætti ég að fara í fangelsi eins og hann mátti sæta vegna lögbrota sinna. Er líklega einsdæmi, að ræða af þessum toga hafi verið flutt á alþingi.

Að loknum umræðunum flutti ég framsöguræður fyrir þremur málum.

Fimmtudagur, 15. 04. 04. - 15.4.2004 0:00

Heimsótti í hádeginu heilsgæslustöð Hlíðanna við Drápuhlíð og fræddist um starfsemi hennar.

Var klukkan 14.00 í þætti Ingva Hrafns Jónssonar á útvarpi Sögu og ræddum við einkum jafnréttismál.

Fór klukkan 16.00 í Öskju, hið nýja náttúrufræðahús Háskóla Íslands, þegar það var formlega opnað.

Miðvikudagur, 14. 04. 04. - 14.4.2004 0:00

Fór síðdegis til Hellu og tók þar þátt í fundi almannavarnaráðs með almannavarnanefnd Rangárvallasýslu.

Klukkan 19.00 var ég í þættinum Íslandi í dag á Stöð 2 og ræddi jafnréttismál og skipun hæstaréttardómara.

Klukkan 19.30 var ég í Kastljósi sjónvarpsins og ræddi sama mál og á Stöð 2.

Þriðjudagur, 13. 04. 04. - 13.4.2004 0:00

Ræddi fyrir hádegi í síma við Kristófer, sem annast síðdegisþáttinn á Bylgjunni um jafnréttismál og fleira.

Fór síðdegis í Munaðarnes og ávarpaði þing Landssambands lögreglumanna.

Það vakti sérstaka athygli mína í fréttaflutningi páskahelgarinnar, þegar ég fór yfir hana, hve Baugsmiðlunum er orðið uppsigað við mig. Þeir líta greinilega á vefsíðu mína sem sérstaka ögrun við sig fyrir utan að gera lítið úr mér og skoðunum mínum.

Sunnudagur, 11. 04. 04. - 11.4.2004 0:00

Sneri aftur til Reykjavíkur með viðdvöl að Keldum, þar sem ég tók þátt í páskamessu.

Föstudagur 09. 04. 04. - 9.4.2004 0:00

Þótt þetta væri föstudagurinn langi var ekki stundlegur friður fyrir Rut að svara fjölmiðlamönnum, sem vildu ræða við mig um álit kærunefndar. Hún sagði þeim, að ég væri utan bæjar.

Miðvikudagur, 07. 04. 04. - 7.4.2004 0:00

Flutti síðdegis erindi í stjórnunarnámi Lögregluskóla ríkisins og svaraði fyrirspurnum um ný viðhorf í löggæslu - og öryggismálum. Var þetta tveggja tíma törn og var skemmtilegt að fá tækifæri til að taka þátt í lokasennu þessa námskeiðs, sem er hið fyrsta sinnar tegundar.

Um kvöldmatarleyti hélt ég austur í Fljótshlíð til að vera þar í páskaleyfinu.

Þriðjudagur 06. 04. 04. - 6.4.2004 0:00

Í upphafi þingfundar gaf ég yfirlýsingu um, að ríkisstjórnin hefði þá um morguninn samþykkt tillögu mína um að endurskoða ákvæði almennra hegningalaga um reynslulausn.

Þennan dag birtist álit kærunefndar jafnréttisráðs um skipan mína á Ólafi Berki Þorvaldssyni í embætti hæstaréttardómara og mótmælti ég því strax í samtölum við fjölmiðla.

Mánudagur 05. 04. 04. - 4.4.2004 0:00

Tók þátt í þingumræðum síðdegis um frumvarp forsætisráðherra um þjóðgarðinn á Þingvöllum.

Fimmtudagur 01. 04. 04. - 1.4.2004 0:00

Sat borgarstjórnarfund frá klukkan 14.00 fram á kvöld.