Dagbók: nóvember 2009

Mánudagur, 30. 11. 09. - 30.11.2009

Augljóst er, að ríkisstjórn eða forystumenn hennar hafa ekki burði til að knýja fram afgreiðslu á Icesave-málinu á alþingi. Vandræðin eru vegna hins ófagra málstaðar og óboðlegu málsmeðferðar. Hvað gerist þá? Jú, Steingrímur J. ræðst á þingmenn og sakar þá um að vera ekki starfi sínu vaxnir. Hann neitar jafnframt að láta þeim í té upplýsingar, þær séu þess eðlis, að verði að fara leynt.

Saga alþingis geymir dæmi þess, að efnt hafi verið til fundar með þingheimi fyrir luktum dyrum. Er til of mikils mælst, að það sé gert, þegar jafnmikið er í húfi og nú? Að sjálfsögðu eiga allir þingmenn rétt á að vita, hvaða leyndarmál eru svo merkileg í tengslum við Icesave. Forseta alþingis ber hér að gæta hags þingmanna og boða lokaðan fund.

Þegar ég heyrði Steingrím J. skjóta sér á bakvið leyndarmál í ræðustól alþingis, hvarflaði hugurinn til þess, hvernig þeir Steingrímur J. og Ögmundur hefðu látið í stjórnarandstöðu, ef þannig hefði verið talað til þeirra. Svo að ekki sé minnst á, ef einhver ráðherra hefði sakað þingmenn um að vera ekki starfi sínu vaxnir.

Spyrja má: Hefur Steingrímur J. ofmetnast? Sé svo, yfir hverju? Rúmlega 100 manns misstu vinnuna í dag, þar á meðal vegna kvíða yfir áhrifum skattahækkana Steingríms J.

Sunnudagur, 29. 11. 09. - 29.11.2009

Sé ekki samkomulag um störf alþingis, logar allt í deilum á þeim vettvangi, eins og annars staðar þar sem menn greinir á um úrlausn mála. Um þessar mundir er ekkert samkomulag um meðferð þingmála og endurspeglast það í þingsalnum. Ástandið batnar ekki, ef þingmenn fá ekki matarhlé og fundað er fram á laugardagskvöld. Illa ígrundaðar ákvarðanir af þessu tagi endurspegla sjónarmið Jóhönnu Sigurðardóttur í höndum Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, forseta Alþingis. Guðbjartur Hannesson var forseti Alþingis á vorþingi 2009 og var oft óttalegt að fylgjast með tilburðum hans við að framfylgja kröfu Jóhönnu um að beita okkur stjórnarandstöðuþingmenn harðræði. Að lokum gafst Jóhanna upp við að knýja fram breytingu á stjórnarskránni. Vilji hún frið um afgreiðslu mála á þingi í desember, verður hún að semja við stjórnarandstöðuna. Málið er ekki flóknara.

Ég hafði orð á því við mann, sem kom að rekstri Loftleiða á sínum tíma, að Jóhanna kynni ekki að semja um lausn mála. Láttu mig þekkja það, ég kynntist því, þegar hún var í forystu fyrir flugfreyjur, svaraði hann. 

 Jóhanna hefur átt stórundarleg samskipti við forsætisráðherra Breta og Hollendinga, eftir að alþingi samþykkti Icesave-fyrirvaranna. Vanmáttur hennar til samninga birtist þar í því, að látið er undan kröfum Breta og Hollendinga.

Hver veit, hvaða mál Jóhanna ætlar að flytja á loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn? Hvernig ætlar hún að gæta íslenskra hagsmuna á þeim vettvangi?

 

Laugardagur, 28. 11. 09. - 28.11.2009

Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra,  sendi frá sér yfirlýsingu í dag:

„Vegna frétta sem birst hafa í Viðskiptablaðinu og Morgunblaðinu í dag og í gær um afskipti undirritaðs af málefnum Haga og 1998 og afgreiðslu Arion banka á þeim skal tekið fram að þessar fréttir eru tilhæfulausar með öllu. Efnahags- og viðskiptaráðuneytið beitti sér ekki fyrir því að afgreiðslu mála Haga og 1998 yrði frestað af hálfu Arion banka og hefur engin önnur afskipti haft af þessu máli.”

Viðskiptablaðið hafði flutt frétt um, að Gylfi, hefði beitt sér fyrir frestun á uppgjöri Haga/1998, þar til Arion banki yrði kominn í hendur nýrra eigenda, það er ný-einkavæðing hans í höndum kröfuhafa væri komin til framkvæmda.

Augljóst er, að Gylfi vill þvo hendur sínar af þessu máli. Hafa ber í huga, að hann er „ópólitískur“ ráðherra og ólíklegt, að hinn vinstri-græni formaður stjórnar Arion banka snúi sér til hans. Til að leita sér pólitísks skjóls snýr formaðurinn sér því til Steingríms J. Sigfússonar en ekki til Gylfa.

Steingrímur J. og Jóhanna hafa pólitískan hag af því að Jóhannes í Bónus fari með málefni Haga í því skyni að veikja Morgunblaðið á þann hátt, sem hann leitaðist við að gera í grein í Fréttablaðinu og ég ræddi hér í gær vegna útleggingar Egils Helgasonar á henni. Egill kaus að gefa til kynna, að eigendur BYKO, Krónunnar og Nótaúns sniðgengju Fréttablaðið sem auglýsendur. Lesendur þurfa ekki annað en fletta Fréttablaðinu í dag til að sjá, hve fráleitt álit Egils er.

 

Föstudagur, 27. 11. 09. - 27.11.2009

Jóhannes í Bónus ræðst á Morgunblaðið í blaði sínu Fréttablaðinu í dag og hinn óhlutdrægi starfsmaður RÚV , Egill Helgason, segir á vefsíðu sinni:

„Jóhannes í Bónus segir að Hagar auglýsi ekki í Mogganum. Nei, þeir auglýsa í Fréttablaðinu.

Svona skiptast menn í lið á Íslandi, eftir viðskiptaklíkum.

Fyrirtæki Jóns Helga Guðmundssonar auglýsa grimmt í Morgunblaðinu þessa dagana, þar úir og grúir af auglýsingum frá Krónunni, Nóatúni, Intersport og Byko.“

Ástæða er til að spyrja Egil: Auglýsa fyrirtæki Jóns Helga ekki í miðlum Bónus/Arion-fyrirtækjanna? Hefur Egill rannsakað málið? Jón Helgi hefur ekki gefið opinbera yfirlýsingu um, að hann skipti ekki við Bónus/Arion-miðla af pólitískum ástæðum. Einnig er spurt: Telur Páll Magnússon, útvarpsstjóri, þessa rannsóknarblaðamennsku RÚV-starfsmanns samræmast hæfisreglum RÚV?

Jóhannes í Bónus veifar fleiru en auglýsingavopninu. Hann segir lausasölu á Morgunblaðinu hafa minnkað um 40%. Hvernig veit hann það? Vegna sölu í Bónus, 10/11 eða Hagkaupum, verslunum Haga/Arion? Spyrja má: Var hilluplássi Morgunblaðsins breytt? Var blaðið fært í neðstu hillu utan sjónhæðar? Eða var pantað 40% minna af blaðinu? Birgjar Bauga, Haga og Bónuss þekkja aðferðirnar.

Grein Jóhannesar í Bónus ritar hann ekki í eigin blað í þeim eina tilgangi að svara eða ögra Morgunblaðinu. Hún er skrifuð til þess að minna Jóhönnu og Steingrím J. á, að Jóhannes ráði ekki aðeins yfir Fréttablaðinu heldur hafi hann einnig líf Morgunblaðsins í hendi sér. Hún er innlegg í baráttu Bónusfeðganna fyrir yfirráðum yfir Högum. Þeir telja, að Jóhanna og Steingrímur J. eigi þar síðasta orðið.

Páll Magnússon og samstarfsmenn hans við stjórn RÚV sjá sér hag af því, að Egill Helgason dragi á þennan hátt taum Jóhannesar og Fréttablaðsins í þágu ríkisstjórnarinnar. Hver heyrir lengur kröfur frá stjórnendum 365-miðla um, að RÚV  hverfi af auglýsingamarkaði?

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Fimmtudagur, 26. 11. 09. - 26.11.2009

Óðagot Össurar Skarphéðinssonar í ESB-málum skilar ekki þeim árangri út á við, sem að var stefnt. Inn á við hefur buslugangurinn grafið undan trausti á stjórn hans á viðræðunum.

Jóhanna Sigurðardóttir og Össur lögðu ríkisstjórnina að veði til að knýja fram samþykkt á ESB-aðildarviðræðna-ályktun á alþingi 16. júlí, svo að hún kæmist fyrir ESB-utanríkisráðherrafund 27. júlí til undirbúnings afgreiðslu á fundi leiðtogaráðs ESB-ríkjanna í desember, síðasta leiðtogaráðsfundi undir stjórn Svía. Síðan skyldu viðræður hefjast í upphafi árs 2010.

Nú er ljóst, að ESB-leiðtogaráðið tekur í fyrsta lagi afstöðu til óska íslensku ríkisstjórnarinnar í mars. Þá verður Olli Rehn hættur sem stækkunarstjóri og Spánverjar teknir við pólitískri forystu innan ESB af Svíum. Ef til vill kýs nýr stækkunarstjóri lengri tíma en fram í mars til að skoða mál Íslands. Spænski forsætisráðherrann lagði enga áherslu á stækkun ESB í samtali við Der Spiegel á dögunum um áherslumál undir forystu Spánverja.

Þá er renna betur upp fyrir þeim fulltrúum ESB, sem fylgjast náið með gangi mála hér á landi, að ríkisstjórnina skortir nauðsynlegan stuðning heima fyrir við ESB-stefnu sína. Tvö nýleg atvik í sögu ESB hafa verið mælistika í þessu efni. Í fyrsta lagi samþykkt Lissabon-sáttmálans, sem vakti mikinn og almennan fögnuð í umsóknarlöndunum Króatíu og Svartfjallalandi og vonbiðlalandi eins og Albaníu. Í öðru lagi valið á fyrsta forseta ESB og fyrsta utanríkisráðherra. Hvorugt atvikið vakti neina sambærilega athygli hér og annars staðar.

Össur Skarphéðinsson var á Spáni í síðustu viku og sagðist hafa kynnt stefnu ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum með hliðsjón af ESB-aðild og leitað álits spænskra viðmælenda sinna af henni. Lét hann vel af viðtökunum. Það er til marks um fátæklega fréttamennsku vegna ESB-mála, að enginn spurði Össur, hvaða stefnu hann hefði kynnt.

Rétt norðan við landamæri Spánar við Biskajaflóa er bærinn Biarritz í Frakklandi: Þar var Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, á alþjóðlegri ráðstefnu um strandveiðar 25. nóvember og flutti ræðu. Niðurlag hennar hefur áreiðanlega komið þeim Spánverjum á óvart, sem heyrðu Össur dásama ESB nokkrum dögum áður. Jón sagði ríkisstjórnina klofna í ESB-málinu. Bændur, útgerðarmenn og sjómenn væru á móti aðild eins og hann sjálfur og flokkur hans. Íslendingar gætu bjargað sér betur utan ESB en innan.

Þegar Spánverjar leggja saman einn og einn íslenskan ráðherra í ESB-málum fá þeir núll. Hvers vegna skyldu þeir taka aðildarmál Íslands á dagskrá í ESB-forsetatíð sinni og verja til þess miklum fjármunum?

 

Miðvikudagur, 25. 11. 09. - 25.11.2009

Í dag ræddi ég við Styrmi Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóra, um bók hans Umsátrið og birtist samtal okkar klukkan 21. 30 í kvöld á sjónvarpsstöðinni ÍNN

Fyrr í kvöld sá ég umræðuþátt á ÍNN í umsjá Tryggva Þórs Herbertssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, þar sem hann ræddi við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, um skattamál. Hröktu þeir á skýran hátt áróðurinn gegn skattastefnu undanfarinna ára og sýndu veikleika í málflutningi ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.

ÍNN er sjónvarpsstöð, sem Ingvi Hrafn Jónsson stofnaði og heldur úti. Hún er einstæður og merkilegur fjölmiðill. Að unnt skuli á þessum grunni og með vaxandi áhorfi að halda úti sjónvarpsstöð, sem nær til alls landsins, sýnir, að fjölmiðlun hefur tekið á sig nýja mynd á ljósvakanum.

Vaxtarbroddur í fjölmiðlun er mestur í netheimum um þessar mundir. Þótt Morgunblaðið haldi úti mest sóttu vefsíðu landsins, mbl.is, stendur blaðið frammi fyrir sama vanda og aðrir prentmiðlar: Að finna örugga fótfestu í nýju og gjörbreyttu umhverfi. Augljóst er, að blaðið stendur Fréttablaðinu feti framar við flutning frétta og annars efnis. 

Fréttablaðið er hallt undir Samfylkingu og ríkisstjórnina. Þarf enginn að efast um, að sú staðreynd skiptir máli, þegar Jóhanna og Steingrímur J. velta fyrir sér framtíð 1998/Haga 

Þriðjudagur, 24. 11. 09. - 24.11.2009

 

Morgunblaðið birti 23. nóvember forsíðufrétt um, að Daniel Gros, sérfræðingur í alþjóðafjármálum og málefnum Evrópusambandsins, teldi Íslendinga hafa lögfræðileg rök til að krefjast jafnræðis vegna vaxta á lánum til tryggingarsjóðs innistæðueigenda í bönkum. Vaxtabyrði  á lánum vegna sjóðsins ætti ekki að vera þyngri hér en í Bretlandi og Hollandi. Dagurinn var ekki liðinn, áður en Indriði H. Þorláksson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, blés skoðun Gros út af borðinu. Ætli Indriði hafi ekki farið í smiðju til hollenskra eða breskra embættismanna til að komast að niðurstöðu? Þannig hefur hagsmunagæslu Íslands í Icesave-málinu áður verið háttað.

Eiríkur Bergmann Einarsson, sérfræðingur í ESB-málefnum, gerir lítið úr því í Morgunblaðinu í dag, að beitt sé lögfræðilegum rökum gagnvart Evrópusambandinu. Þetta sýnir vanþekkingu á því grundvallaratriði allra ákvarðana á vettvangi ESB, að lögheimildir séu fyrir þeim. Sé ekki um slíkar heimildir að ræða, dugar ekki að hefja um þær pólitískar umræður. Á vettvangi ESB komust ESB-lögfræðingar að þeirri niðurstöðu, að Íslendingar ættu að bera skaðann vegna hins veikburða regluverks um banka með starfsstöðvar í fleiri en einu landi. Þessari lögfræðilegu niðurstöðu hefur verið beitt gegn Íslandi síðan, án þess að ESB-ríki vilji láta reyna á réttmæti hennar fyrir dómstólum.

Hagkaup bjóða nú viðskiptavinum sínum að kaupa vöru fyrir vaxtalaust lánsfé  með fyrsta gjalddaga 5. mars 2010 . Kortafyrirtækjunum er þannig ögrað, gjalddagi þeirra er mánuði fyrr. Þeir, sem taka þessu kostaboði Hagkaupa, líta örugglega á fyrirtækið sem bjargvætt. Jafnframt fá Hagar meðaumkun í erfiðu samningaferli um tugmilljarðaskuld við Arion banka, sem hefur frestað fram yfir jólavertíðina að taka á málum 1998/Haga. Líklega fjármagnar bankinn þessa samkeppni Hagkaupa við kortafyrirtækin í þeirri trú, að hann fái meira en ella upp í skuldir Haga að vertíðinni lokinni.

 

 

 

Mánudagur, 23. 11. 09. - 23.11.2009

Í hádegi í dag flutti ég erindi um Ísland milli Evrópu og Bandaríkjanna í Rotaryklúbbi Garðabæjar og svaraði spurningum fundarmanna. Ég velti fyrir mér, hvort skynsamlegt væri fyrir Íslendinga að fela Evrópusambandinu að koma fram fyrir sína hönd gagnvart Bandaríkjunum eða halda áfram að rækta þau tvíhliða tengsl sjálfir. Evrópusambandið er að koma á laggirnar stærstu utanríkisþjónustu í heimi, eins og ég ræði í pistli, sem ég setti hér á síðuna í dag.

Athygli beinist eðlilega mjög að því, hvort Kaupþing/Arionbanki ætli að endurræsa Baugsveldið með samningum við 1998/Haga eða hvað þessi fyrirtæki nú heita. Fyrir þeim fer Jóhannes í Bónus, en hann sagði fyrir rétti í Baugsmálinu, að hann væri bestur í kjötfarsi. Arionbanki tekur sér frest fram í janúar til að kanna áreiðanleika viðmælenda sinna. Líklega veitir ekki af tímanum til að átta sig á milljarða, tug milljarða eða hundruð milljarða skuldum þeirra í bankakerfinu. Hitt er einnig íhugunarefni,  að 1998/Hagar hafa mikið af haldbæru fé milli handanna eftir jólavertíðina. Fyrirtækið getur notað það til að borga Arion fyrstu greiðslur og haldið síðan áfram að velta skuldabagganum á undan sér eins og áður.

Bloggarar skrifa auðvitað um þetta, þeirra á meðal Ágúst Borgþór Sverrisson á pressan.is, sem segir:

„Jón Ásgeir er skuldakóngur íslenska efnahagshrunsins og einn af helstu orsakavöldum hruns Glitnis enda fékk hann að láni gífurlegar upphæðir úr bankanum til að fjármagna fjárfestingarævintýri sín erlendis.

Ljóst er að ríkisstjórnin sér í gegnum fingur sér með þennan gjörning Arion banka. Það gerir hana jafnspillta og síðustu ríkisstjórn sem komið var frá völdum með mótmælaaðgerðum.

Fyrst ríkisstjórnin ætlar ekki að grípa í taumana er reiði almennings það eina sem getur stöðvað óhæfuna. Enn er tími þar til í janúar er Arion banki svarar formlega tilboði Baugsklíkunnar.“

Ágúst Borgþór skýrir stuðning ríkisstjórnarflokkanna við endurreisn Baugsveldisins með óvild þeirra Jóhönnu og Steingríms J. í garð Sjálfstæðisflokksins. Þarf frekari vitna við um gjaldþrot þessa fólks? Það skyldi þó ekki koma í hlut sjálfstæðismanna í setjast í skiptastjórn þrotabús þess fyrr en síðar?

Sunnudagur, 22. 11. 09. - 22.11.2009

Óratórían Cecilía eftir Áskel Másson við texta Thors Vilhjálmssonar var frumflutt í þéttsetinni Hallgrímskirkju klukkan 16.00 í dag. Fjórir einsöngvarar, Mótettukór Hallgrímskirkju, tvö orgel og hljómsveit fluttu undir stjórn Harðar Áskelssonar. Einnig var leikið á steinhörpu og vatnstrommur eftir Pál á Húsafelli. Flutningnum var mjög vel tekið enda verkið magnað að allri gerð. Mér kom trúarhitinn í texta Thors Vilhjálmssonar þægilega á óvart.

Á dögunum fór ég í Kassa Þjóðleikhússins og sá Pálínu Jónsdóttur flytja Völvu verk byggt á Völuspá, nýstárleg og spennandi sýning. Saga Cecilíu, dýrlings tónlistar og fagurra lista, lifir með okkur kristnum mönnum um heim allan og er uppspretta nýrrar sköpunar. Hið sama má segja um hinn forna menningararf okkar Íslendinga, hann er mörgum hvatning til listrænna átaka.

Norræn goðafræði er rannsökuð víða um heim og áhugi á henni vex jafnt og þétt. Markmið Pálínu er að fara með sýningu sína byggða á Völuspá út fyrir landsteinana. Hún verður örugglega til þess, að fleiri en ella taka til við að kynna sér þetta meistaraverk.

Laugardagur, 21. 11. 09. - 21.11.2009

Einkennilegt er, að ekki skuli hafa verið meira gert úr því, sem fram kom í pistli Gísla Kristjánssonar, fréttaritara RÚV í Noregi, hinn 6. nóvember sl. Þar sagði Gísli frá því, að Norðmaðurinn, sem hér var seðlabankastjóri, hefði átt milligöngu fyrir landa sinn, sem vildi gerast hluthafi í MP banka. Gísli rakti einnig tengsl stjórnmálamanna og fjármálamanna í Noregi. Varla hefðu þau verið talin til fyrirmyndar hér.

Margrét Cela, doktorsnemi í alþjóðasamskiptum við Háskólann í Lapplandi, ræddi Evrópuvæðingu utanríkis- varnar og öryggismála á rás1í dag. Hún taldi aðild Íslands að Schengen snúast um þátttöku í evrópsku öryggismálasamstarfi og gæfi  góða raun. Ég er sammála þessu. Umræður um, að Schengen-samstarfið dragi úr öryggi hér á landi eru algjörlega á röngu róli.

Föstudagur, 20. 11. 09. - 20.11.2009

Lauk við að lesa bók Styrmis Umsátrið. Hún er í senn lýsing á því, sem hefur gerst, skilgreining á stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna eftir hrun og hugmynd um skynsamlegustu leið til að takast á við innri spennu í samélaginu.

Egill Helgason hefur allt á hornum sér vegna Umsátursins. Endurspeglar það ofnæmi hans fyrir Styrmi sem ritstjóra Morgunblaðsins. Minnir helst á uppnám og reiði Egils, eftir að ég birti ljóð úr ljóðabálknum Hrunadansinn hér á síðunni og vakti athygli á litlu áliti höfundarins, Matthíasar  Johannessen, fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins, á álitsgjöfum.

Líklegt er, að Egill hafi lesið gagnrýna úttekt Styrmis í Umsátrinu á hinum talandi stéttum og réttilega tekið hana til sín. Auk þess er Styrmir eindreginn andstæðingur aðildar Íslands að Evrópusambandinu. ESB-andstæðingar eru í sérskúffu hjá Agli og ekki hátt skrifaðir, eins og sjá mátti á nýlegum óvildarskrifum hans um Ásmund Einar Daðason, þingmann vinstri-grænna og nýkjörinn formann Heimssýnar.

Á sínum tíma var starfsmanni á fréttasviði RÚV vikið til hliðar vegna orða um Baug og Bónus á vefsíðu sinni. Þegar Páll Magnússon, útvarpsstjóri, er spurður, hvort samræmist kröfum um óhlutdrægni starfsmanna RÚV, hvernig Egill vegur að mönnum og málefnum á vefsíðu sinni samhliða því að stjórna tveimur sjónvarpsþáttum, segir Páll, að ekki skipti máli, hvað útvarpsmenn segi á einkavefsíðum sínum. Jafnræði er ekki haft í hávegum, þegar æðstu stjórnendur RÚV  vega og meta starfsmenn sína.

Ólíklegt er, að Umsátrið verði kynnt í Kiljunni eða Silfri Egils. Rétt er að minna á, að Egill Helgason hefur að minnsta kosti tvisvar verið með Jón F. Thoroddsen í sjónvarpsþáttum sínum, en hann hefur skrifað lélegustu bókina um hrunið. Egill segir bókina skyldulesningu.

Meginmál

Eining

Fimmtudagur, 19. 11. 09. - 19.11.2009

Styrmir Gunnarsson er tekinn til við að kynna nýja bók sína, Umsátrið. Þóra Arnórsdóttir ræddi við Styrmi í Kastljósi kvöldsins. Hún virtist helst vilja ræða starfshætti á ritstjórn Morgunblaðsins og hið víðtæka tengslanet Styrmis, á meðan hann sat þar á ritstjórastóli. Af þeim bókum, sem ég hef lesið um fall bankanna og hrunið, er Umsátrið skrifað af mestri yfirsýn og viðleitni til að grafast fyrir um, hvað raunverulega gerðist. Styrmir verðu gestur minn í þætti á ÍNN miðvikudaginn 25. nóvember.

Á bakvið luktar dyr yfir málsverði í Brussel ákváðu leiðtogar Evrópusambandsríkjanna í kvöld, að Herman van Rompuy yrði fyrsti forseti Evrópusambandsins. Hann er Flæmingi og hefur verið forsætisráðherra Belgíu í nokkra mánuði. Van Rompuy sagði nýlega, að nauðsynlegt væri fyrir stjórnkerfi ESB að fá beint skattlagningarvald í aðildarríkjunum til að afla sér tekna. Honum er lýst sem klassískum evrópskum sambandsríkissinna, sem vilji veg Evrópufánans og ESB-þjóðsöngsins sem mestan. 

Bresk barónessa, Catherine Ashton, var valin utanríkisráðherra ESB, Hún tekur við af Javier Solana, en hefur mun skýrara umboð en hann í krafti Lissabon-sáttmálans, sem tekur gildi 1. desember nk. Ætlunin er að stórefla utanríkisþjónustu ESB og verður hún hin fjölmennasta í heimi.

Ljóst er, að smáríki máttu sín lítils við þetta val á forystumönnum Evrópusambandsins. Þjóðverjar og Frakkar ráðu í raun forsetanum og létu Bretum eftir utanríkisráðherrann, úr því að þau Angela Merkel og Nicolas Sarkozy vildu ekki Tony Blair.

Að lægsti samnefnari milli stórvelda ráði ákvörðun af þessu tagi getur vissulega reynst vel. Aðferðin er hins vegar ekki til þess fallin að auka trú lýðræðissinna á nýju stjórnkerfi Evrópusambandsins eða stjórnendum þess.

Miðvikudagur, 18. 11. 09. - 18.11.2009

Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon hafa kynnt skattahækkanir fyrir sína hönd. Nú er spurningin, hvort tillögurnar hafa hlotið náð fyrir augum þingflokka þeirra. Þau segja að svo sé. Þau töldu einnig, að Icesave-málið mundi renna ljúflega í gegnum þingið 5. júní sl. Afgreiðslu þess er ekki enn lokið.

Þau telja, að þessar hækkanir þeirra á sköttum auki tekjur ríkissjóðs um 50 milljarða króna. Frá því að Jóhanna og Steingrímur J. settust í ráðherrastólana 1. febrúar 2009, hafa útgjöld ríkissjóðs orðið 30 milljörðum króna meiri en áætlað var í ársbyrjun. Fráleitt er, að þeir, sem halda þannig á opinberum fjármálum, segi það alfarið öðrum að kenna, að hækka þurfi skatta.

Borin von er, að Jóhanna Sigurðardóttir skeri upp herör gegn aðhaldsleysi í opinberum rekstri. Í 10 mánaða stjórnartíð hennar hafa 42 menn verið ráðnir til starfa í stjórnarráðinu án auglýsingar. Árlegur útgjaldaauki vegna svo margra embættismanna er ekki undir 200 til 250 milljónum króna. Stofnað er til milljarða útgjalda vegna ESB-aðildarstefnu Samfylkingarinnar.

Þriðjudagur, 17. 11. 09. - 17.11.2009

Þessi síða mín nálgast nú 15. aldursárið og hér hefur aldrei verið neitt athugsemdakerfi, eins og tíðkast hjá sumum og kallar greinilega oft á mikinn lestur. Síðan hefur hins vegar verið farvegur fyrir þúsundir fyrirspurna til mín í áranna rás. Höfuðástæða þess, að ég hef þennan hátt á, er, að ég kæri mig ekki um að bera ritstjórnarlega ábyrgð á óhróðri, rangfærslum eða skömmum um menn og málefni, sem birtast gjarnan nafnlausar í athugasemdadálkum vefsíða.

Ég skil vel, að athugasemdir séu vel þegnar á fjölmiðlasíðum, þar sem kallað er eftir viðbrögðum við fréttum, sem eiga að vera óhlutdrægar. Þar er ekki heldur neinn vafi um ábyrgð og ritstjórn. Hitt er einnig augljóst, að sumir halda úti síðum til þess eins að espa einhvern hóp aðdáenda eða andstæðinga og gefa því fólki tækifæri til að láta ljós sitt skína. Séu athugasemdir við slíkar síður skoðaðar, er augljóst, að þetta er yfirleitt sama fólkið, sem er að karpa innbyrðis, með sama málefnið eða sömu einstaklinga á heilanum.

Ég undrast, þegar þeir, sem halda úti síðum til að miðla fróðleik um eitthvert efni eða til að halda saman efni fyrir sjálfa sig, eru að hæla sér af því að hafa lítt ígrundaðan athugasemdahala á eftir því, sem þeir setja á síður sínar.  Nýtt dæmi um þetta sá ég í dag á síðu Evrópusamtakanna, einskonar heimatrúboðs fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu (ESB). Þar er verið að agnúast út í Ásmund Einar Daðason, þingmann vinstri-grænna og nýkjörinn formann Heimssýnar, fyrir að lýsa andstöðu við ESB-aðild og fyrir að svara þeim samfylkingarmönnum, sem voru að skammast yfir því, að Ásmundur Einar hefði tekið kjöri sem formaður Heimssýnar. Evrópusamtökin telja það málefnalegt framlag til stuðnings málstað sínum, að þar geti menn gert athugasemdir á heimasíðu en ekki hjá Heimssýn. Ég sé ekki, að það veiki málstað Ásmundar Einars eða Heimssýnar, að ákafir ESB-aðildarsinnar eða félagar í Evrópusamtökunum geti ekki hnýtt í stefnu Heimssýnar á síðu hennar.  Spyrja má, hvernig í ósköpunum þetta snerti spurninguna um aðild Íslands að ESB eða formennsku Ásmundar Einars í Heimssýn. Sé þetta til marks um eitthvað, er það málefnafátækt Evrópusamtakanna.

Mánudagur, 16. 11. 09. - 16.11.2009

Dagur Jónasar Hallgrímssonar er haldinn hátíðlegur í dag og fór ég í Þjóðmenningarhúsið, þar sem Menningarfélagið Hraun í Öxnadal og Þjóðmenningarhúsið efndu til menningarvöku. Markús Örn Antonsson. forstöðumaður Þjóðmenningarhúss, setti athöfnina, Gerður Kristný, skáld, flutti erindi um spurninguna: Hvernig verður maður ástmögur þjóðarinnar? Hamrahlíðarkórinn undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur söng íslensk lög við ljóð Jónasar. Tryggvi Gíslason, formaður menningarfélagsins, stjórnaði athöfninni og kynnti sönginn með skýringu á ljóðunum. Færri komust að en vildu í bókasal Þjóðmenningarhúss og var gerður góður rómur að því, sem í boði var. Hér má kynnast rökum fyrir því, að til þessa hátíðardags var stofnað í fyrsta sinn árið 1996.

Í bílnum rétt fyrir hádegi heyrði ég auglýsingu frá Mjólkursamsölunni, sem áréttaði, að íslenska væri hennar mál. Næsta auglýsing var frá 10/11 búðunum, muni ég rétt, um, að unnt væri að nálgast nýbakað „krósant“ í þeim á morgnana. Þetta var líklega íslenskun á franska orðinu croissant, annað hvort í framburði þularins eða frá auglýsanda. Er ekki talað um horn á íslensku?

„Krósant“ fellur vissulega að íslensku beygingakerfi. Óþarfi er þó að fara til Frakklands. Heiti brauðsins er rakið til Vínarborgar. Þar tóku menn að borða Hornchen , eftir að þeir höfðu rekið Tyrki af höndum sér árið 1689. Vísaði það til hálfmánans, tákns múslíma og Tyrkja. Franska orðið croissant gerir það líka. Kannski ættum við að kalla þessi brauð hálfmána? Það væri í góðu samræmi við sögulegan uppruna og lýsir brauðinu vel.

Sunnudagur, 15. 11. 09. - 15.11.2009

Á ruv.is má lesa í dag:

„Efnahags- og skattanefnd skilar þrískiptri umsögn um Icesave reikninga til fjárlaganefndar í kvöld og á morgun. Ein umsögn kemur frá Samfylkingu, önnur frá Vinstri grænum og sú þriðja frá stjórnarandstöðunni.“

Hér er verið að lýsa væntalegri afgreiðslu alþingismanna á Icesave-frumvarpi ríkisstjórnarinnar. Fjárlaganefnd gefur að fenginni þessari umsögn efnahags- og skattanefndar þingheimi álit sitt á frumvarpinu, áður en gengið verður til atkvæða um það. Nú er sagt, að það verði að gerast fyrir mánaðamót, annars sé Bretum og Hollendingum að mæta.

Í pistli, sem ég setti hér á síðuna í dag, stikla ég á stóru um meðferð Icesave-málsins frá því að ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms J. settist að völdum 1. febrúar 2009.

Á vefsíðuna heimir.is ritaði Jón G. Hauksson 13. nóvember pistil um hin ótrúlegu vinnubrögð ríkisstjórnarinnar í Icesave-málinu og almennt. Hér má nálgast hugleiðingu Jóns.

Laugardagur, 14. 11. 09. - 14.11.2009

Miðvikudaginn 11. nóvember ræddi ég við Sigríði Björk Guðjónsdóttur, lögreglustjóra á Suðurnesjum, í þætti mínum á sjónvarpsstöðinni ÍNN, en þáttinn má sjá hér.

Fréttablaðið er nú selt fyrir 100 kr. á Hvolsvelli, ef það fæst. Blaðið hefur hvorki verið fáanlegt þar í dag né gær. Glöggur lesandi vakti athygli mína á því, að auglýsingar í blaðinu kynntu óvenjulega lágt verð í Bónus. Hann gat sér þess til, að Bónusveldið væri að beita öllum ráðum til að draga til sín viðskipti af ótta við nýju verslunina Kost í eigu Jóns Geralds Sullenbergers og fleiri, sem var opnuð í dag.

 

Föstudagur, 13. 11. 09. - 13.11.2009

Sturla Böðvarsson, fyrrverandi ráðherra og forseti alþingis, ritar skelegga og vel rökstudda grein á pressan.is í dag, þar sem hann spyr, hvort Þorsteinn Pálsson sé genginn í Samfylkinguna, úr því að hann hafi tekið skipun Össurar um að setjast í ESB-aðildarviðræðunefndina.  

Þorsteinn er ekki genginn í Samfylkinguna, þótt ýmsir ESB-skoðanabræður hans innan Sjálfstæðisflokksins hafi greitt Samfylkingunni atkvæði í síðustu kosningum. Þorsteinn er hins vegar genginn í Evrópusambandið og vill, að allir Íslendingar geri hið sama. Þess vegna tekur hann sæti í nefndinni og þess vegna var hann valinn til setu í henni.

Á bloggsíðum hafa ýmsir samferðarmenn Þorsteins inn í Evrópusambandið hneykslast á grein Sturlu með tilfinningarökum þeirra, sem skilja ekki, hvers vegna aðrir sjá ekki fyrirheitna landið og dásemdir þess.

Að Össur skuli hafa leitað til Þorsteins endurspeglar þann þátt ESB-aðildarbrölts Össurar, sem miðar að því að draga úr samheldni innan Sjálfstæðisflokksins. Ástæðulaust er að þegja um þennan þátt málsins, því að hann er líklega helsta beita Össurar til að festa vinstri-græna á ESB-öngulinn.

Fimmtudagur, 12. 11. 09. - 12.11.2009

Undarlegt er að sjá viðkvæmni stjórnarliða vegna gagnrýni sjálfstæðismanna á atferli stjórnarflokkanna í skattamálum. Bjarni Benediktsson kenndi það við brjálæði í umræðum á þingi. Varð það orð enn til að auka kveinstafi stjórnarsinna og endurspeglast þeir í forystugrein Fréttablaðsins í dag. Gaf hún mér tilefni til að rita pistil á vefsíðuna amx.is í því skyni að greina rökin í málflutningi stjórnarliða. Satt að segja sé ég ekkert annað hald í þeim en að sósíalistinn Steingrímur J. hafi viljað og vilji enn umturna skattkerfinu og auka álögur á borgarana og fyrirtæki þeirra. Hann notar bankahrunið sem skálkaskjól.

Miðvikudagur, 11. 11. 09. - 11.11.2009

Gestur minn á ÍNN í kvöld klukkan 21.30 verður Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á Suðurnesjum. Við ræðum breytingar á embættinu á Suðurnesjum, sem komu til framkvæmda 1. janúar sl. Hún greinir einnig frá baráttunni við skipulagða, alþjóðlega glæpahring, gildi Schengen-samstarfsins og greiningarstarfs á vegum lögreglunnar.

Augljóst er, að Samfylkingin ætlar að bíta í skjaldarrendurnar á alþingi og verja skattahækkanir Jóhönnu og Steingríms J., þótt enginn viti enn, hvernig þær verða. Skattaborg ríkisstjórnarinnar er mun brýnna mál en skjaldborg heimilanna, ef ályktun er dregin af látunum á þingi til varnar skattahækkanaæðinu, sem boðað hefur verið.

Gamalreyndur kaupmaður sendi mér ábendingu um, að lækkun tolla í árslok 1961 hefði leitt til hærri tolltekna ríkissjóðs á árinu 1962. Þá var tollur lækkaður úr 135% í 80%, til dæmis á nælonsokkum. Við það jukust tolltekjur ríkissjóðs af nælonsokkum.

Hið sama á við um skatta. Hækkun þeirra leiðir ekki sjálfkrafa til hærri tekna ríkissjóðs. Hækkunin eykur hins vegar íhlutun ríkisvaldsins í einkamálefni fólks og það er sjálfstætt markmið sósíalista. Þeir telja sig vita betur, hvernig fara á með fé, en hinir, sem afla fjárins. Að þessu leyti er vinstrisinnuð skattastefna hluti af ofríkisstefnu, sem miðar að því að þrengja svigrúm einstaklinga og fyrirtækja þeirra.

Þriðjudagur, 10. 11. 09. - 10.11.2009

Ég tek heilshugar undir með Ragnari Árnasyni, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, sem sagði í Kastljósi kvöldsins, að vitlausasta skattaaðgerðin núna væri að leggja á þyngri tekjuskatta. Það myndi draga úr áhuga fólks á vinnu, þegar mest þyrfti á því að halda að virkja sem flesta til arðbærra starfa. Ragnar minntist ekki á „svörtu vinnuna“, sem er ein helsta leiðin á vinnumarkaði í Danmörku og Svíþjóð til að forðast hærri skattþrepin.

Ég sakna þess, að tekinn sé saman listi yfir allar kúnstirnar, sem ríksstjórn Jóhönnu kýs að leika í stað þess að einbeita sér að meginviðfangsefninu, stjórn ríkisfjármála með endurreisn hagkerfisins að leiðarljósi.

Ástæðulaust er að gleyma því, að vinstri-grænir fóru hamförum gegn skattalækkunum undanfarinna ára. Nú er Steingrímur J. að framkvæma skattahækkunarstefnuna, sem hann hefur boðað í mörg ár. Hún á í sjálfu sér ekkert skylt við hrunið, þótt Katrín Jakobsdóttir, varaformaður vinstri-grænna, láti eins og svo sé - skattahækkanir hafa ávallt verið meðal helstu stefnumála vinstri-grænna. Samfylkingin dansar eftir skattapípu þeirra, en veit þó ekki hvernig hún á að fóta sig.

Öllum er ljóst, að hækki áfengi yfir ákveðin mörk, ýtir það undir áhuga á að brugga. Hið sama á við um hækkun skatta. Fari þeir yfir ákveðin mörk, eykst ákafinn við að losna undan þeim með öllum ráðum. Þess vegna jafngildir skattahækkun því ekki, að skatttekjur ríkis eða sveitarfélaga aukist.

 

Mánudagur, 09. 11. 09. - 9.11.2009

Samtök um vestræna samvinnu og alþjóðamál og Varðberg efndu til hádegisfundar í Norræna húsinu, þar sem Ágúst Þór Árnason, kennari við Háskólann á Akureyri, flutti fyrirlestur: Múrbrot horfinnar hugmyndafræði - 20 ár frá falli Berlínarmúrsins.

Ég setti fundinn með ávarpi. Góður rómur var gerður að máli Ágústs Þórs og spurðu fundarmenn margs að því loknu. Hann lýsti því, hve mikil áhrif dvöl sín í Berlín hefði haft á lífsviðhorf sitt. Raunar væri með ólíkindum, að nokkrum manni á Vesturlöndum hefði dottið í hug að halda uppi vörnum fyrir stjórnkerfi kommúnismans. Í Þýskalandi hefði tilraunin með hið lýðræðislega stjórnkerfi í samvinnu við markaðsöflin tekist. Þar réði mestu, að Þjóðverjar hefðu af raunsæi horfst í augu við eigin sögu að lokinni síðari heimsstyrjöldinni og nýtt sér lýðræðisreynslu og þekkingu frá Bandaríkjunum til að leggja grunn að nýjum stjónarháttum.

Sunnudagur, 08. 11. 09. - 8.11.2009

Í dag skrifaði ég pistil hér á síðuna í tilefni af hruni Berlínarmúrsins. Fyrir okkur, sem erum fædd eftir stofnun lýðveldis og í stríðslok, er hrun múrsins tákn um þann atburð í mannkynssögunni á okkar dögum, sem verður talinn sögulegastur. Stjórnkerfi, sem stefndi að heimsyfirráðum, hrundi átakalaust til grunna.

Hrun múrsins var til marks um að þætti í stjórnmálasögunni lauk, kommúnisminn leið undir lok. Bankahrunið byggist á hömluleysi þeirra, sem höfðu tækifæri til að reisa sér hurðarás um öxl með ódýru lánsfé og sáust ekki fyrir í græðgi sinni.

Laugardagur, 07. 11. 09. - 7.11.2009

Loksins komst ég austur í Fljótshlíð til að sinna ýmsum haustverkum í ótrúlega mildu og fallegu veðri. Í rokinu fyrir fáeinum vikum hafa lítil mannvirki dóttursona minna fokið út í veður og vind. Hér getur orðið mjög hvasst og tvisvar á þeim fáu árum, sem ég hef lagt leið mína reglulega hingað, hafa útihús á jörðinni orðið fyrir foktjóni. Nú hefur hins vegar verið búið svo um hnúta, að þau ættu að standast áraunina.

Um þessar mundir er þess minnst um heim allan, að hinn 9. nóvember 1989 hrundi Berlínarmúrinn. Verður það meðal annars gert í Norræna húsinu mánudaginn 9. nóvember klukkan 12 á hádegi á fundi, sem Samtök um vestræna samvinnu og alþjóðamál (SVS) og Varberg halda. Þar flytur Ágúst Þór Árnason, kennari við Háskólann á Akureyri, erindi. Hann var í Berlín við hrun múrsins.

BBC World Service hefur flutt marga þætti undanfarið um aðdraganda að hruni múrsins. Í einum þeirra var alþjóðaráðgjafi Helmuts Kohls, þáverandi kanslara V-Þýskalands, spurður, hvort þeir hefðu ekki vitað, hvað var í vændum. Hann sagði svo ekki vera, enda hefðu þeir verið í Varsjá, þegar fréttirnar bárust. Þá sagði þátttakandi í þættinum, að þetta væri ekki undarlegt, því að austur-þýska ríkisstjórnin hefði ekki heldur vitað, hvað var í vændum að kvöldi 9. nóvember.

 

 

Föstudagur, 06. 11. 09. - 6.11.2009

Vafalaust hefur fleirum en mér brugðið við að heyra í hádegisfréttum RÚV, að helsta markmið Steingríms J. Sigfússonar í skattamálum væri að lækka skatta. Fyrir fáeinum dögum var hann glaðbeittur yfir því í fréttum Stöðvar 2, að hann ætlaði að hækka skatta til að ná í skottið á Svíum og Dönum. Nú segist hann ætla að beita sér fyrir lækkun skatta frá því, sem ætla má af fjárlagafrumvarpi hans.

Hvað olli sinnaskiptum Steingríms J.? Ekki var sagt frá því í fréttinni. Raunar var þess ekki getið í hádegisfréttunum, að um sinnaskipti væri að ræða. Lýsing á þeim, svo að ekki sé talað um skýringu, hefði aukið gildi fréttarinnar.

Á allra vitorði er, að Steingrímur J. hefur tekið u-beygju í öllum helstu stórmálum, frá því að hann kynnti afstöðu sína til þeirra í kosningabaráttunni. Þetta hefur hann gert til að ná í ráðherrasæti. Hitt er nýmæli, að hann snúist á punktinum vegna stefnu, sem hann hefur sjálfur mótað og kynnt.

Fimmtudagur, 05. 11. 09. - 5.11.2009

Stöð 2 sagði í kvöld frá skoðanakönnun, sem unnin var á vegum háskólans á Bifröst og sýndi, að aðeins 29% aðspurðra voru frekar eða mjög hlynnt aðild Íslands að Evrópusambandinu en 54% frekar eða mjög á móti. Um helmingur var hlynntur aðildarviðræðum en 43% á móti þeim.

Niðurstaðan kemur mér ekki á óvart. Ríkisstjórnin hefur sýnt í sumar og haust, að henni er ekki unnt að treysta fyrir málstað Íslands gagnvart erlendum ríkjum. Þá hefur Evrópusambandið orðið holdgervingur þess ofríkis, sem við megum sæta vegna Icesave.

Lítilsvirðingin, sem birtist í því að forsætisráðherrar Breta og Hollendinga svara ekki bréfi Jóhönnu Sigurðardóttur vegna Icesave, er dæmafá. Fráleitt er að ætla, að nú sé best fyrir Íslendinga að sækja rétt sinn á hendur Brussel-valdinu.

Samfylkingin hefur haldið þannig á ESB-málinu, að til skammar er fyrir hana. Laumsuspilið, óðagotið og þröngsýni við skipan viðræðunefndar, allt ber þetta að sama brunni og á sinn þátt í þeirri niðurstöðu, sem kynnt var í kvöld á Stöð 2.

Ég undrast, að stjórnarandstaðan skuli ekki krefja utanríkisráðherra svara um einstaka þætti málsmeðferðarinnar. Vonandi er þögn hennar ekki til marks um samþykki. Því lengur, sem stjórnarandstaðan lætur hjá líða að segja sig frá ESB-vinnubrögðum stjórnvalda, þeim mun meiri blett fær hún á sig vegna þeirra.

Miðvikudagur, 04. 11. 09. - 4.11.2009

Í úttekt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) á efnahagslegri stöðu Íslands í ljósi þeirra skilyrða, sem sett voru af sjóðnum, segir, að tafir hafi orðið á endurreisnarstarfinu hér vegna veikleika innan íslenska stjórnkerfisins og stjórnsýslan ráði tæplega við viðfangsefni sín eftir hrunið. Sérfræðingar AGS orða þetta svo:

„Iceland's political crisis contributed to delays, but so did administrative bottlenecks within Iceland's small institutions. Going forward, the complex program is likely to continue to challenge Iceland's administrative capacity. In this situation determined and full political support for the program is essential.“

Sérfræðingarnir telja, að mjög reyni á íslenska stjórnsýslu áfram við þetta verkefni. Annað verkefni, Icesave-málið, hefur einnig reynst íslensku stjórnmálakerfi og stjórnsýslu þungt í skauti. Misheppnaður samningur frá 5. júní hefur leitt til togstreitu milli ríkisstjórnar og alþingis og enn hefur ekki verið unnið úr henni.

Þriðja stórmálinu hefur síðan verið ýtt úr vör, aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, kynnti í dag samninganefnd Íslands. Ber hún þess merki, að hann vogi sér varla út fyrir raðir starfsmanna utanríkisráðuneytisins, núverandi og fyrrverandi.  Undir stjórn Össurar er utanríkisráðuneytið gengið í Evrópusambandið. Viðræðurnar við Brussel-valdið munu af hálfu þessarar nefndar snúast um útfærslu á tæknilegum athugasemdum frá Brussel en ekki stefnu eða skilyrði af Íslands hálfu.

Ráði íslenska stjórnkerfið tæplega við að vinna samkvæmt umsaminni verkáætlun við AGS, er borin von, að haldið verði á hagsmunum Íslands af þeim þunga, sem þarf, af ESB-viðræðunefndinni. Ætla hefði mátt, að reynslan af Icesave-samningsklúðrinu hefði kennt ríkisstjórninni eitthvað í þessu efni. Svo er því miður ekki.

 

 

Þriðjudagur, 03. 11. 09. - 3.11.2009

Í fréttum er skýrt frá því, að Sigríður Ingvarsdóttir hafi sagt sig sem héraðsdómari frá máli, sem Guðmundur Kristjánsson hrl. hefur höfðað gegn ríkissjóði og Árna M. Mathiesen, settum dómsmálaráðherra, vegna þess að Árni skipaði hann ekki héraðsdómara. Þegar ég ætlaði að setja Guðmund sem héraðsdómara, afþakkaði hann. Mér þykir líklegt, að enginn hafi oftar sótt um embætti á verksviði dómsmálaráðherra en Guðmundur.

Af húskarlahorni Fréttablaðsins má ráða, að þar séu menn á því máli, að samgönguráðherra Kristján Möller megi ekki ákveða styrk til karlakórs. Hvort þar ræður, að kórinn er í kjördæmi ráðherrans eða ráðherrann sé ekki hæfur til að meta gæði kórsöngs, segir ekki í blaðinu. Virðist það skoðun þeirra, sem um þetta skrifa, að besta trygging fyrir því, að „skúffufé“ ráðherra sé ráðstafað á réttan hátt, sé, að settar verði nýjar reglur um ráðstöfunina.  Ég er ósammála því, að ráðherra sé ekki fær um að meta, hvort kór eða listamaður sé verðugur styrks.

Jóhanna Sigurðardóttir er hins vegar þeirrar skoðunar, að ráðherrar í ríkisstjórn hennar hafi ekki dómgreind til að taka ákvörðun um mál af þessu tagi. Þeir þurfi annað hvort að fá fyrirmæli í nýjum reglum eða ráðstöfunarféð verði tekið af þeim. Spyrja má, hvort ekki sé nær að skipta um ráðherra, ef þeim er ekki treyst til að fara með ráðstöfunarféð.

Mánudagur, 02. 11. 09. - 2.11.2009

Viðtal mitt við Ögmund Jónasson á ÍNN 28. október er komið á netið og sjá það hér.

Samkvæmt vefsíðu Nýja Kaupþings banka setti bankinn hinn 14. september,  2009, nýjar verklagsreglur um það, hvernig tekið skuli á málum eins og Haga eða 1998 ehf. Segir bankinn, að þessar reglur samræmist kröfum stjórnvalda um gagnsæ og samræmd vinnubrögð. Reglurnar eigi að tryggja gagnsæi og hlutlæga fyrirgreiðslu.

Í reglunum segir meðal annars (feitletrun mín) :

„Bankinn leggur áherslu á samstarf við eigendur og stjórnendur í vinnu við endurskipulagningu fyrirtækja. Ef afskrifa þarf skuldir eða breyta þeim í hlutafé er metin þörf fyrir breytingu á eignarhaldi og stjórnun. Áframhaldandi þátttaka eigenda og stjórnenda við rekstur fyrirtækjanna er háð því að þeir þyki mikilvægir fyrir framtíð fyrirtækjanna og að þeir njóti trausts.

Hér skal ekki leitt getum að því, hve miklu fé Kaupþing banki hefur tapað á viðskiptum við eigendur Haga. Af þeirri ráðstöfun bankans, að treysta á áframhaldandi þátttöku eigenda Haga, verður ekki dregin önnur ályktun en sú, að þeir njóti áfram trausts bankans.  Jón Ásgeir Jóhannesson hefur þó hlotið dóm, sem bannar honum setu í stjórnum fyrirtækja hér á landi fram til 2011.

Þingmenn úr öllum stjórnmálaflokkum hafa í dag krafist meira gagnsæis af stjórnendum Kaupþings banka. Þingmennirnir láta í ljós efasemdir um, að hlutlægni sé gætt í ákvörðunum bankans. Augljóst er, að þingmennirnir telja bankann ekki koma til móts við kröfur sínar um gagnsæi og hlutlægni.

Þótt þingmenn segist ekki vilja ræða afskipti bankans af einstökum fyrirtækjum, geta þeir ekki skorast undan að taka afstöðu til þess, hvort þeir fallist á þá niðurstöðu bankans, að eigendur Haga „njóti trausts“ til að koma áfram að rekstri á vegum banka, sem borinn er uppi af skattgreiðendum. Stjórnendur Kaupþings ættu að upplýsa, hvað geti valdið því að mati bankans, að eigendur og stjórnendur njóti ekki trausts.

 

Sunnudagur, 01. 11. 09. - 1.11.2009

Ég fékk bréf frá vinstri-grænum bloggara í dag, sem sagði mér að hætta að skrifa hér á síðuna. Ég væri á eftirlaunum og ætti að ekki að láta í mér heyra opinberlega. Ég svaraði, að ég mundi ekki fara að þessum ráðum. Tilmælin um, að ég haldi mér saman vegna aldurs og fyrri starfa, sýna, að hinn vinstri græni bloggari vill, að skoðanir mínar á mönnum og málefnum hætti að birtast. Í Sovétríkjunum voru menn settir á geðveikrahæli til að þagga niður í þeim. Steingrímur J. Sigfússon boðaði netlögreglu á sínum tíma. Ætli henni verði ekki beitt gegn mér?

Í fyrradag sagði ég hér á síðunni, að skilanefndir og stjórnendur banka gengju harðar fram gegn þeim, sem skulda lítið, en hinum stórskuldugu. Tap bankanna vegna fjármálagjörninga með aðild Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, beinni eða óbeinni, skiptir hundruð milljörðum. Nú berast fréttir um að ný-einkavætt Kaupþing ætli að ganga til samstarfs við Jón Ásgeir um rekstur Haga.

Enginn veit hver á hið ný-einkavædda Kaupþing. Leynd og ógagnsæi einkenna störf og ráðstafanir bankans. Steingrímur J. Sigfússon leggur blessun sína yfir þessa leynd og sömu sögu er að segja um Gylfa Magnússon, efnahags- og viðksiptaráðherra. Jóhanna Sigurðardóttir, sem í stjórnarandstöðu kallaði hæst á upplýsingar frá ráðherrum og taldi aldrei nógu langt gengið í kröfu um, að ráðherrar öxluðu ábyrgð, þegir þunnu hljóði um þetta. Hennar áhyggjur ná ekki lengra en til „skúffufjár“ eigin ráðherra og dómgreindarbrests þeirra við að ráðastafa því.

Hinn vinstri-græni bloggari, sem vill, að ég þegi, telur sig örugglega framfylgja stefnu ríkisstjórnarinnar best með því að heimta, að hætt sé miðlun upplýsinga. Steingrímur J. fór í Hóladómkirkju til að krefjast þess, að Kjartan Gunnarsson skrifaði ekki í blöð. Egill Helgason hefur sagt Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni að halda sér saman. Og læt ég þá hjá líða að minnast á uppnámið yfir því, að Davíð Oddsson ritstýrir Morgunblaðinu.