16.11.2009

Mánudagur, 16. 11. 09.

Dagur Jónasar Hallgrímssonar er haldinn hátíðlegur í dag og fór ég í Þjóðmenningarhúsið, þar sem Menningarfélagið Hraun í Öxnadal og Þjóðmenningarhúsið efndu til menningarvöku. Markús Örn Antonsson. forstöðumaður Þjóðmenningarhúss, setti athöfnina, Gerður Kristný, skáld, flutti erindi um spurninguna: Hvernig verður maður ástmögur þjóðarinnar? Hamrahlíðarkórinn undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur söng íslensk lög við ljóð Jónasar. Tryggvi Gíslason, formaður menningarfélagsins, stjórnaði athöfninni og kynnti sönginn með skýringu á ljóðunum. Færri komust að en vildu í bókasal Þjóðmenningarhúss og var gerður góður rómur að því, sem í boði var. Hér má kynnast rökum fyrir því, að til þessa hátíðardags var stofnað í fyrsta sinn árið 1996.

Í bílnum rétt fyrir hádegi heyrði ég auglýsingu frá Mjólkursamsölunni, sem áréttaði, að íslenska væri hennar mál. Næsta auglýsing var frá 10/11 búðunum, muni ég rétt, um, að unnt væri að nálgast nýbakað „krósant“ í þeim á morgnana. Þetta var líklega íslenskun á franska orðinu croissant, annað hvort í framburði þularins eða frá auglýsanda. Er ekki talað um horn á íslensku?

„Krósant“ fellur vissulega að íslensku beygingakerfi. Óþarfi er þó að fara til Frakklands. Heiti brauðsins er rakið til Vínarborgar. Þar tóku menn að borða Hornchen , eftir að þeir höfðu rekið Tyrki af höndum sér árið 1689. Vísaði það til hálfmánans, tákns múslíma og Tyrkja. Franska orðið croissant gerir það líka. Kannski ættum við að kalla þessi brauð hálfmána? Það væri í góðu samræmi við sögulegan uppruna og lýsir brauðinu vel.