Dagbók: ágúst 2001

Föstudagur 31.8.2001 - 31.8.2001 0:00

Síðdegis fórum við Rut með Erlendi Sveinssyni í Krýsuvík og skoðuðum Sveinshús og kirkjuna.

Mánudagur 28.8.2001 - 28.8.2001 0:00

Héldum til Reykjavíkur frá Rauðasandi.

Laugardagur 25.8.2001 - 25.8.2001 0:00

Klukkan 08.00 héldum við Rut akandi að Reykhólum, þar sem ég ræddi um menningarmál við sveitarstjórnarmenn kl. 13.00. Síðan héldum við áfram að Saurbæ á Rauðasandi.

Föstudagur 24.8.2001 - 24.8.2001 0:00

Klukkan 07.00 var ég kominn í Stöð 2 til að taka þátt í morgunþætti vegna fyrsta dags grunnskólanema. Klukkan 16.00 var ég á Grand hóteli og tók þátt í að opna vefsíðuna leikni.is, sem hefur að geyma lífsleikniefni fyrir 8 til 12 ára eftir Herdísi Egilsdóttur kennara og studdur er af Íslandsbanka.

Fimmtudagur 23.8.2001 - 23.8.2001 0:00

Um hádegið flugum við Jóhanna María til Egilsstaða og ókum þaðan til Vopnafjarðar um Hellisheiði. Á Vopnafirði ræddi ég um menningarmál við sveitarstjórnarmenn og síðan héldum við sömu leið til baka um kvöldið.

Miðvikudagur 22.8.2001 - 22.8.2001 0:00

Fór kl. 20.00 í Smiðjuna og sá leikritið Fröken Júlíu eftir Strindberg í leikgerð Sigrúnar Sólar.

Þriðjudagur 21.8.2001 - 21.8.2001 0:00

Klukkan 15.00 var ég í Prentmeti og tók þar þátt í að setja nýja prentvél í gang og kynna umferðaröryggisefni fyrir skólabörn, sem fyrirtækið hefur unnið og gefur öllum, sem eru að hefja skólagöngu.

Mánudagur 20.8.2001 - 20.8.2001 0:00

Héldum frá Þingeyrum klukkan 11.00 og ókum að Reykholti í Borgarfirði og snæddum þar hádegisverð og héldum þaðan lokasprettinn á hringveginum til Reykjavíkur, þar sem við vorum um kl. 16.00

Sunnudagur 19.8.2001 - 19.8.2001 0:00

Héldum frá Hallormsstað kl. 8.30, fórum í Laxárvirkjun og skoðuðum listsýningu, borðuðum hádegisverð í Laugaseli hjá Laugum í Reykjadal, litum á Ljósavatnskirkju, skoðumum Safnasafnið og fórum að Þingeyrum.

Laugardagur 18.8.2001 - 18.8.2001 0:00

Ókum með þingflokknum í Skriðuklaustur kl. 10.00 og snæddum þar hádegisverð og kynntumst Gunnarsstofnun, fórum síðan upp á heiði að Eyjabökkum og þaðan í Hrafnkelsdal og að Brú í Jökuldal og síðan upp með Jökulsá að Kárahnjúkum. Vorum á Egilsstaðaflugvelli kl. 20.30 og kvöddum meginhluta þingflokksins en héldum síðan að Hallormsstað og gistum þar.

Föstudagur 17.8.2001 - 17.8.2001 0:00

Hittum þingflokk sjálfstæðismanna kl. 9.00 á Egilsstaðaflugvelli, skoðuðum fyrirtæki á Egilsstöðum, snæddum hádegisverð í Sakftfelli á Seyðisfirði og síðan var haldinn þingflokksfundur á Hallormsstað.

Fimmtudagur 16.8.2001 - 16.8.2001 0:00

Fórum í Jöklasafnið í Hornafirði kl, 10.00, þaðan Nýheima, snæddum hádegisverð í Djúpavogi, skoðuðum franska safnið á Fáskrúðsfirði og stríðsárasafnið á Reyðarfirði og komum í Hallormsstað um kvöldmatarleytið. Allan daginn var ég í símanum og svaraði spurningum blaðamanna í tilefni af skýrslu ríkisendurskoðunar um málefni Árna Johnsens.

Miðvikudagur 15.8.2001 - 15.8.2001 0:00

Klukkan 11.00 lögðum við Rut af stað í hringferð um landið ókum fyrst í Skóga, síðan til Víkur, í Skaftafell og Jökulsárlón og til Hornafjarðar. Heimsóttum vini á Prestbakka á Síðu og Kálfafellsstað

Þriðjudagur 14.8.2001 - 14.8.2001 0:00

Klukkan 18.00 fór í Gyllta salinn á Hótel Borg, þar sem Fóstbræður fögnuðu því, að 90 ára saga þeirra var að koma út á bók. Fékk ég eitt af þremur fyrstu eintökum þessarar glæsilegu bókar.

Sunnudagur 12.8.2001 - 12.8.2001 0:00

Fórum í Gerðarsafn og skoðuðum sýningu á verkum Gerðar Helgadóttur og einnig í Hafnarborg og skoðuðum sýningu Þjóðminjasafnsins á ljósmyndum Hans Malmbergs frá Íslandi 1951. Einnig sáum við málverkasýningu Margrétar Reykdal. Föstudagur 10. ágúst 2001 Fórum klukkan 20.00 í Dráttarbrautina í Keflavík og sáum gamanóperuna Gianni Schicchi eftir Puccini og hlýddum á frumflutning Sálumessu eftir Sigurð Sævarsson í uppsetningu Norðuróps.

Fimmtudagur 9.8.2001 - 9.8.2001 0:00

Flutti ávarp á málþingi í Háskóla Íslands um stöðu og framtíð íslenskra fjölmiðla.

Fimmtudagur 2.8.2001 - 2.8.2001 0:00

Fórum í Nýlistasafnið kl. 21.00 og sáum einleikinn Venjuleg kona? í flutningi Unnar Aspar Stefánsdóttur.