Dagbók: maí 2005

Þriðjudagur, 31. 05. 05. - 31.5.2005 6:56

Hófum daginn í íslenska sendiráðinu klukkan 08.30, þar sem við hittum danska Evrópuþingmanninn Jens Peter Bonde, sem var lengi á móti ESB en hefur nú í nokkur ár barist gegn umbótum í þágu lýðræðis innan þess. Hann fagnaði sigri nei-liðsins í Frakklandi.

Klukkan 10.00 vorum við Berlyamont, höfuðstöðvum framkvæmdastjórnar ESB, og hittum Olli Rehn, framkvæmdastjóra stækkunar ESB, en hann er finnskur.

Klukkan 11.15 vorum við í Centre for European Policy Studies, þar sem við hittum sérfræðinga í Evrópumálefnum og síðan flutti ég þar fyrirlestur og svaraði spurningum fundarmanna.

Klukkan 16.00 hittum við Claus Gruber, sendiherra Dana gagnvart ESB, og ræddi hann við okkur um reynslu sína, meðal annars af mótun sjávarútvegsstefnu ESB.

Mánudagur, 30. 05. 05. - 30.5.2005 6:49

Lagði af stað til Brussel klukkan 07.35 um Ósló með Evrópunefnd. Vélin var sem betur fer á áætlun en aðiens 40 mínútur eru á milli fluga í Gardemoen og þar er ekki stutt leið á milli flugvéla, þegar skipt er í alþjóðaflugi - sérkennilega hannaður flugvöllur eða þjónustan á honum. Við fórum í gegnum Ósló vegna þess að gangi allt samkvæmt áætlun er unnt að ná fundum síðdegis sama dag í Brussel og tókst okkur það, því að við hittum Grétu Gunnarsdóttur og Högna Kristjánsson í íslenska sendiráðinu og fræddumst um samstarf þess við ESB um framkvæmd EES-samningsins.

Föstudagur, 27. 05. 05. - 27.5.2005 17:43

Var klukkan 08.30 á Grand hotel á fundi aðgerðahóps gegn kynbundnu ofbeldi, þar sem ég kynnti áform dóms- og kirkjumálaráðuneytisins í þessum málaflokki við góðar undirtektir.

Var í samtali við Bylgjuna síðdegis um þau mál, sem rædd voru á morgunverðarfundinum.

Fór klukkan 17.00 í Lýsi en fyrirtækið var að opna nýjar höfuðstöðvar í Reykjavík.

Síðan fór ég á vorhátíð sjálfstæðismanna í Reykjavík í Valhöll.

Fimmtudagur, 26. 05. 05. - 26.5.2005 17:37

Var klukkan 14.00 á hótel Nordica, þar sem borgarstjórnarflokkur sjálfstæðismanna kynnti hugmyndir að nýju skipulagi borgarinnar við Sundin og eyjarnar.

Þriðjudagur 24. 05. 05. - 24.5.2005 20:35

Var í hádeginu í Valhöll til að taka við farandbikar frá Sambandi ungra sjálfstæðismanna. Kynnti SUS málið meðal annars á þennan veg:

„Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra er sigurvegari Frelsisdeildar SUS veturinn 2004-2005 og hlaut hann að launum veglegan farandbikar í hádegisverði sem Samband ungra sjálfstæðismanna efndi til í Valhöll í dag. Mikil spenna var á lokakafla þingsins og skaust Björn í toppsætið í lokaumferð Frelsisdeildarinnar, en Pétur H. Blöndal hafði lengst af setið á toppnum. Pétur lenti í öðru sæti, einungis tveimur stigum á eftir Birni.

Björn er sá þingmaður sem tókst að gera flest jákvæð frumvörp að lögum, en Birgir Ármannsson og Sigurður Kári Kristjánsson lögðu fram flest góð frumvörp, eða átta hvor. Ekkert þeirra varð að lögum. “

Mánudagur, 23. 05. 05. - 23.5.2005 20:25

Sótti í hádeginu fund í Norræna húsinu, þar sem kynnt var rit um jarðskjálftana miklu á Suðurlandi 17. og 21. júní 2000. Ritið heitir Þá varð landskjálpti mikill og fjallar um samfélagsleg áhrif Suðurlandsskjálftanna í júní árið 2000 og þróun þeirra áhrifa næstu árin á eftir. Höfundar ritsins eru Jón Börkur Ákason, félagsvísindamaður hjá Rannsóknarmiðstöðvar Háskóla Íslands í jarðskjálftaverkfræði á Selfossi, Stefán Ólafsson, prófessor við félagsvísindadeild Háskóla Íslands og forstöðumaður Borgarfræðaseturs, og Ragnar Sigbjörnsson, prófessor við verkfræðideild og forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvarinnar.  Ég skrifaði aðfaraorð að ritinu. Töluðum við allir á fundinum en Jónas Elíasson prófessor stjórnaði honum.


 

Laugardagur, 21. 05. 05. - 21.5.2005 19:28

Fór um Akureyri fyrir hádegi og fylgdist með björgunarleikum í tengslum við landsþing Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Fór rétt fyrir 13.00 út á flugvöll og um borð í gæsluþyrluna Líf, flaug með henni yfir Pollinn og seig í vað úr þyrlunni um borð í varðskipið Tý, sem tók þátt í æfingu með björgunarskipum SL. Sigldi síðan með bs Gunnbjörgu frá Raufarhöfn til lands,

Flaug til Reykjavíkur klukkan 15.10.

Föstudagur, 20. 05. 05. - 20.5.2005 19:24

Flaug klukkan 11.00 til Akureyrar. Snæddi hádegisverð með stjórn Slysavarnafélagsins Landsbjargar, á meðan við vorum að borða rétt rúmlega 12. 30 píptu símboðar allra björgunarsveitarmanna við borðið og fengu þeir rautt boðunarmerki frá Neyðarlínunni.  Þeir brugðust skjótt við og fengu frétt um, að borist hefði neyðarkall norður af Raufarhöfn. Daginn eftir var þessi frétt í Morgunblaðinu:

MANNBJÖRG varð í gær þegar Hildur ÞH sökk 7 mílur austur af Raufarhöfn. Báturinn varð vélarvana kl. 12:30 og komst mikill sjór í vélarrúm hans. Skömmu síðar lagðist hann á hliðina og byrjaði að sökkva. Tveir skipverjar voru um borð og tókst þeim að forða sér í gúmmíbát. Kl. 12:55 var björgunarsveitin Pólstjarnan á Raufarhöfn kölluð út vegna neyðarkalls og fór björgunarsveitin á bs Gunnbjörgu á slysstað. Tókst að bjarga skipverjunum heilum á húfi og voru þeir komnir í skip kl. 13.40. Komið var með skipbrotsmenn til Raufarhafnar kl. 14.20 og voru þeir í skýrslutökum hjá lögreglunni fram á kvöld.

Ég hitti áhöfnina á Gunnbjörgu á Akureyri 21. maí og sögðu þeir mér, að það hefði tekið 16 mínútur að manna bátinn, frá því að kallið kom. Sannaði þetta enn einu sinni, hve mikilvægar og öflugar þessar ágætu sveitir eru.

Ávarpaði klukkan 14.00 5. landsþing Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Heimsótti síðan rannsóknahúsið við Háskólann á Akureyri og Lund, nýjan nemendagarð fyrir MA og VMA.

Fimmtudagur, 19. 05. 05. - 19.5.2005 19:21

Starfsfólk dóms- og kirkjumálaráðuneytisins hittist á dagsfundi að hótel Rangá.

Miðvikudagur, 18. 05. 05. - 18.5.2005 19:19

Sló fyrsta slátt við heimili mitt í Reykjavík.

Var með viðtöl fyrir hádegi, en klukkan 14.00 hitti ég forystumenn þeirra, sem unnið hafa að áhættumati vegna hugsanlegs eldgoss í vesturhluta Mýrdalsjökuls og Eyjafjallajökli.

Þriðjudagur, 17. 05. 05. - 17.5.2005 19:18

Ókum úr Fljósthlíðinni og ég sótti ríkisstjórnarfund kl. 10. 30, sat blaðamannafund borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna klukkan 13.00 og síðan fund borgarstjórnar klukkan 14.00 til 17.00.

Laugardagur, 14. 05. 05. - 14.5.2005 22:46

Fór í heyskap fyrsta sinn á þessu vori, sló og hirti. Veðrið var einstaklega bjart og fallegt. Tugir manna virtust vera í golfi á vellinum á Hellishólum og var þetta í fyrsta sinn, sem ég sé svo marga þar.

Kom inn í sjónvarpsdagskrána undir lok beinnar útsendingar frá setningu listahátíðar og var þá forseti Íslands í viðtali við Kristján Kristjánsson og vildi forseti ekki fallast á þá skilgreiningu Kristjáns á hljómsveitinni Trabant, að hún væri fulltrúi lágmenningar, taldi foseti hana þvert á móti hirðhljómsveit Habsburgara auk þess sem á honum mátti skilja, að þarna í Hafnarhúsinu væri rjóminn af menningarelítu Evrópu ef ekki heimsins alls saman kominn - hvorki meira né minna.

Föstudagur, 13. 05. 05. - 13.5.2005 21:48

Var á fundum í ráðuneytinu fram eftir degi en hélt þá, sem leið liggur í Fljótshlíðina.

Fimmtudagur 12. 05. 05. - 12.5.2005 20:32

Klukkan 13.30 til 17.00 efndi dóms- og kirkjumálaráðuneytið til lokaðrar ráðstefnu á hótel Sögu um úrræði til refsingar á ungum brotamönnum.

Miðvikudagur 11. 05. 05. - 11.5.2005 20:30

Þingfundur hófst klukkan 10.30 og lauk um klukkan 23.00 og þar með þingi þessa vetrar eins og mælt var fyrir um í starfsáætlun. Öll mál, sem ég flutti og vildi að næðu fram fyrir þinglok gerðu það í sátt og samlyndi.

Þriðjudagur 10. 05. 05. - 10.5.2005 20:27

Flaug norður til Akureyrar og efndi þar til blaðamannafundar í lögreglustöðinni klukkan 14.30 með Haraldi Johannessen rikislögreglustjóra og Birni Jósepi Arnviðarsyni til að kynna breytingar á skipan sérsveitar lögreglunnar á Akureyri og fjölgun almennra lögreglumanna þar um fjóra.

Um kvöldið voru eldhúsdagsumræður á alþingi.

Laugardagur 07. 05. 05. - 7.5.2005 20:23

Fundur í alþingi fyrir hádegi og ríkisstjórnarfundur klukkan 13.00, haldinn í þinghúsinu, hinn fyrsti, sem ég sit þar í fundarherbergi ríkisstjórnarinnar, sem kom til sögunnar sl. sumar við breytingar á fyrstu hæð hússins. Á þessum sama stað í vesturenda norðurhliðar hússins var á sínum tíma skrifstofa forseta Íslands, þá mötuneyti alþingismanna, loks þingflokksherbergi Samfylkingar og nú fundaraðstaða ríkisstjórnar.

Miðvikudagur, 04. 05. 05. - 4.5.2005 22:53

Sat 12. fund Evrópunefndar í hádeginu.

Fór klukkan 13.30 á formannafund Landssambands lögreglumanna og ræddi þar um málefni efst á baugi, þar á meðal stækkun lögregluumdæma og næstu skref í því efni.

Þriðjudagur, 03. 05. 05. - 3.5.2005 22:50

Var klukkan 11.30 í flugskýli Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli og ritaði undir samning með Jóni Kristjánssyni heilbrigðis- og tryggingaráðherra um samstarf gæslunnar og Landspítala Ísllands-háskólasjúkrahúss um lækna um borð í þyrlum gæslunnar.

Fór á borgarstjórnarfund klukkan 14.00 og tók þátt í umræðum um framtíð Vatnsmýrarinnar.

Mánudagur, 02. 05. 05. - 2.5.2005 22:47

Fór klukkan 14.00 til Akureyrar og hitti þar sýslumann, stjórnendur lögreglu og lögreglumenn á fundum og var kominn heim aftur um 21.30.

Sunnudagur, 01. 05. 05. - 1.5.2005 14:27

Var klukkan tólf í Silfri Egils á Stöð 2.

Í fyrsta hluta ræddum við Steingrímur J. Sigfússon, Margrét Frímannsdóttir og Hjálmar Árnason um þinghaldið í vetur. Ég sagði hæst hafa borið tilraunir stjórnarandstöðu til að veikja trúverðugleika nýs forsætisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar, og hefði stjórnarandstaðan ekki haft erindi sem erfiði.

Í öðrum hlutanum ræddi ég við Dag B. Eggertsson um skipulag í Vatnsmýrinni og áréttaði ég þar þá skoðun mína, að mér væri óskiljanlegt, hvers vegna Háskólinn í Reykjavík vildi dragast inn í deilur um þetta svæði og sagði, að auðvitað yrði að fara fram umhverfismat um framkvæmdina. Dagur var með barnaleg skot á mig í máli sínu og tel ég þau stafa af reynsluleysi hans í umræðum af þessum toga auk þess var sérkennilegt að hlusta á hann víkja sér undan spurningum Egils um það, hvað eiginlega hefði verið ákveðið varðandi Vantsmýrina.

Í þriðja hlutanum ræddi ég við þá Össur Skarphéðinsson og Ásgeir Friðgeirsson um væntanlegar þingkosningar í Bretlandi. Sagðist ég sama sinnis og The Economist, að Tony Blair ætti stuðning skilinn fyrir innrásina í Írak og álagningu skólagjalda í breskum háskólum.

Klukkan var um 13.00 þegar ég yfirgaf stólinn við hlið Egils Helgasonar.