Föstudagur, 20. 05. 05.
Flaug klukkan 11.00 til Akureyrar. Snæddi hádegisverð með stjórn Slysavarnafélagsins Landsbjargar, á meðan við vorum að borða rétt rúmlega 12. 30 píptu símboðar allra björgunarsveitarmanna við borðið og fengu þeir rautt boðunarmerki frá Neyðarlínunni. Þeir brugðust skjótt við og fengu frétt um, að borist hefði neyðarkall norður af Raufarhöfn. Daginn eftir var þessi frétt í Morgunblaðinu:
MANNBJÖRG varð í gær þegar Hildur ÞH sökk 7 mílur austur af Raufarhöfn. Báturinn varð vélarvana kl. 12:30 og komst mikill sjór í vélarrúm hans. Skömmu síðar lagðist hann á hliðina og byrjaði að sökkva. Tveir skipverjar voru um borð og tókst þeim að forða sér í gúmmíbát. Kl. 12:55 var björgunarsveitin Pólstjarnan á Raufarhöfn kölluð út vegna neyðarkalls og fór björgunarsveitin á bs Gunnbjörgu á slysstað. Tókst að bjarga skipverjunum heilum á húfi og voru þeir komnir í skip kl. 13.40. Komið var með skipbrotsmenn til Raufarhafnar kl. 14.20 og voru þeir í skýrslutökum hjá lögreglunni fram á kvöld.
Ég hitti áhöfnina á Gunnbjörgu á Akureyri 21. maí og sögðu þeir mér, að það hefði tekið 16 mínútur að manna bátinn, frá því að kallið kom. Sannaði þetta enn einu sinni, hve mikilvægar og öflugar þessar ágætu sveitir eru.
Ávarpaði klukkan 14.00 5. landsþing Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Heimsótti síðan rannsóknahúsið við Háskólann á Akureyri og Lund, nýjan nemendagarð fyrir MA og VMA.