Dagbók: apríl 2008

Miðvikudagur, 30. 04. 08. - 30.4.2008 14:21

Við minntumst þess í dag, að 100 ár eru liðin frá fæðingu föður míns.

Klukkan 14.00 var ég með systrum mínum, Guðrúnu og Valgerði, í Höfða, þar sem við rituðum undir samkomulag um afhendingu á skjalasafni föður okkar til Borgarskjalasafns en þau Ólafur F. Magnússon borgarstjóri og Svanhildur Bogadóttir rituðu undir fyrir hönd borgarinnar.

Klukkan 16.00 hófst athöfn í Þjóðmenningarhúsi sem um 160 manns sóttu en þar voru fyrstu rannsóknarstyrkir Bjarna Benediktssonar veittir í lögfræði og sagnfræði. Jónas H. Haralz, dr. Þór Whitehead og Ragna Árnadóttir fluttu ræður en Ragnhildur Helgadóttir, fyrrverandi ráðherra, stýrði athöfninni með glæsibrag.

Ólafur F. Magnússon borgarstjóri opnaði vefsíðuna www.bjarnibenediktsson.is en starfsmenn borgarskjalasafns hafa annast gerð hennar.

Ég varð ekki var við annað en öllum hafi þótt dagsins minnst á verðugan hátt.

Mánudagur, 28. 04. 08. - 28.4.2008 22:22

Flutti tvö mál á þingi í dag. Annars vegar um norrænan samning varðandi fjármál hjóna og hins vegar um breytingar á ættleiðingarlögum til að lengja fresti vegna þess að lengri tíma tekur en áður að fá börn til ættleiðingar erlendis.

Óli Björn Kárason hefur opnað vefsíðu http://t24.is/ þar sem hann nálgast málefni viðakiptalífs og stjórnmála af skarpskyggni og þekkingu.

 

Sunnudagur, 27. 04. 08. - 27.4.2008 21:31

Í pistli í vikunni sagði ég frá erindi í Rótarýklúbbi Reykjavíkur um trúverðugleika seðlabanka. Í erindinu var sagt frá því, að Paul Volcker hefði verið sá seðlabankastjóri Bandaríkjanna, sem ávann bankanum traust og trúverðugleika með staðfestu sinni á níunda áratugnum. Í nýjasta hefti The Economist er rætt um Seðlabanka Íslands og stefnu hans um þessar mundir undir forustu Davíðs Oddssonar og sagt:

„Traditionally, Iceland has staved off inflation through high interest rates. Mr. Oddsson has taken to interest-rate rises with a zeal not seen since Paul Volcker ran America's fed in the 1980s.“

Þegar Volcker leiddi bandaríska seðlabankann til trúverðugleika, var ráðist hart að honum úr öllum áttum og hann talinn alltof ósveigjanlegur. Kannski verður samlíkingin í The Economist til þess, að einhverjir íslenskir fjölmiðlar rifji upp fyrir okkur baráttu Volckers og árangur hans.

Eftirskrift: Vegna þess, sem að ofan segir, barst mér ábending um, að Örn Arnarson, blaðamaður á Viðskiptablaðinu, hefði skrifað í síðasta helgarblað þess um verðbólgubaráttu Volckers. Örn hefur raunar lagt á það áherslu í fréttaskýringum sínum, að það leysir ekki nein vandamál að slaka á peningamálastefnunni til þess að eyða verðbólguvanda og hefur þá vísað til aðgerða Volckers.

Laugardagur, 26. 04. 08. - 26.4.2008 21:59

Það var heldur vetrarlegt, þegar við skruppum frá Húsavík í Ásbyrgi í morgun.

Klukkan 14.00 flutti ég ræðu og sat fyrir svörum á málþingi yfirlögregluþjóna í hótelinu á Húsavík. Ræddi ég einkum tillögur í nýrri áfangaskýrsu, sem hefur að geyma úttekt á breytingunum á skipan lögreglumála 1. janúar 2007. Í máli fundarmanna kom fram eindreginn vilji til að halda áfram að stækka lögregluumdæmin.

Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarstjóri á Akureyri, sýndi mér þá vinsemd að leiða okkur um hið nýja og stórglæsilega menningarhús á Akureyri, áður en við héldum fljúgandi til Reykjavíkur kl. 18. 40.

Föstudagur, 25. 04. 08. - 25.4.2008 19:38

Klukkan 08.40 að lokinni qi gong hugleiðslu afhenti ég Ara Matthíassyni, forstöðumanni í Von, húsi SÁÁ við Efstaleiti, 250.000 króna styrk til æskulýðsstarfs sem þakklætisvott frá Aflinum, félagi qi gong iðkenda, fyrir aðstöðuna, sem við höfum til stefnumóts við orkuna í Von þrjá morgna í viku.

Hélt fljúgandi til Akureyrar fyrir hádegi og ók þaðan til Húsavíkur, þar sem ég þáði hádegisverð í Gamla Bauk í boði sveitarstjórnar. Síðan hitti ég Halldór Kristinsson sýslumann, Sigurð Brynjúlfsson, yfirlögregluþjón, og samstarfsfólk þeirra við embætti sýslumanns.

Síðan skoðuðum við fallegar og vandaðar sýningar í Safnahúsinu og einstaka og fróðlega sýningu í Hvalasafninu.

Fimmtudagur, 24. 04. 08. - 24.4.2008 22:31

Gleðilegt sumar!

Ég þakka þeim fjölmörgu, sem hafa skrifað mér í dag og lýst stuðningi við málstað laga réttar í landinu. Ég ætla ekki að birta hér fleiri bréf frá hinum, sem telja málstað sínum sæma að vera með skítkast í minn garð eða lögreglunnar. Svo eru það hinir, sem hóta leynt og ljóst, að meira valdi verði beitt til að knýja fram afstöðu stjórnvalda sér í vil.

Árásin á lögreglumanninn í dag við hliðið að geymslusvæði flutningabílanna, sem teknir voru í gær, sýnir við hverju lögregla má búast af þeim, sem ekki hafa stjórn á skapi sínu, þegar rætt er um verð á eldsneyti eða hvíldartíma bifreiðastjóra.

Í leiðurum allra dagblaðanna, sem út koma í dag, er lýst stuðningi við framgöngu lögreglunnar í gær. Víða á bloggsíðum er framganga forystumanna bílstjóra gagnrýnd eins og til dæmis hér. Þessi ágæti bloggari fer ekki heldur leynt með skoðun sína. Er það í samræmi við þá meginreglu í lýðræðisþjóðfélagi, að menn ræði saman og leiði mál til lykta án hótana um valdbeitingu. Á meðan menn átta sig ekki á gildi þeirrar reglu, er ekki eftir henni farið.

Ég ritaði í dag pistil hér á síðuna í tilefni af ritstjóraskiptunum á Árvakursmiðlunum.

Miðvikudagur, 23. 04. 08. - 23.4.2008 9:27

Í kvöld birtist þessi frásögn á vefsíðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu:

„21 handtekinn og lagt hald á 16 ökutæki

Tuttugu og einn maður var handtekinn í aðgerðum lögreglu á Suðurlandsvegi við Norðlingaholt í dag og lagt var hald á sextán ökutæki. Aðdragandi málsins var sá að vöruflutningabílstjórar lögðu bílum sínum á fyrrnefndum stað í morgun og lokuðu fyrir umferð. Kom til átaka og þurfti lögreglan m.a. að beita varnarúða en áður höfðu bílstjórarnir hunsað ítrekuð fyrirmæli lögreglu um að færa bílana úr stað. Einn lögreglumaður slasaðist í átökunum en sá fékk grjót í höfuðið og var fluttur á slysadeild. Hann er ekki alvarlega slasaður.

Í hópi hinna handteknu voru umráðamenn ökutækja sem neituðu að hlýða ítrekuðum fyrirmælum lögreglu. Til rannsóknar eru ætluð brot þeirra gegn 168. gr. almennra hegningarlaga og 1. mgr. 27. gr. umferðarlaga, röskun á umferðaröryggi á alfaraleiðum og að hafa lagt ökutæki á þeim stað að valdið geti hættu eða óþarfa óþægindum fyrir umferðina.

Mannfjöldastjórnunarhópar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu stjórnuðu og sáu um aðgerðir á vettvangi. Þeim til aðstoðar voru nokkrir sérsveitarmenn frá embætti ríkislögreglustjóra.“

Þetta hefur að sjálfsögðu verið helsta fréttaefni í dag og var rætt við mig um það í hljóðvarpi ríkisins, Stöð 2 og sjónvarpi ríkisins.

Ég hef einnig fengið tölvubréf um málið og meðal annars þetta frá Arnóri Jónssyni, en hann þakkar fyrir orðrétta birtingu þess:

„Góðan dagin björn gerðu þjóðini greiða og skjótu þig svo við hin getum lifað lifinu þu ert ein stæðst hálfiti Islands “

Þá fékk ég þetta bréf:

„Þú sem dómsmálaráðherra berð ótakmarkaða 'ABYRGÐ á lögregluaðgerum á suðurlandsvegi um klukkan 11 í morgun sjáðu sóma þinn i því að reka þessa lögreglumenn sem gáfu skipun um þessar aðgerðir.

EINIG SKALT ÞÚ SEGJA AF ÞÉR EMBÆTTI NÚ ÞEGAR!!!

Hilmar Bjarnason 050459-2179“


Lesa meira

Þriðjudagur, 22. 04. 08. - 22.4.2008 18:52

John Vinocur ritar um samskiptin við Rússland í The International Herald Tribune og ræðir þar meðal annars um ferðir rússneskra sprengiflugvéla í nágrenni Íslands.

Var í hádegisviðtali á Stöð 2 og ræddi um áfangaskýrslu um stöðu lögreglumála, sem kynnt var föstudaginn 18. apríl.

Nú berast fréttir um, að Ísland sé kjörinn vettvangur fyrir friðarviðræður Palestínumanna og Ísraela. Málsvarar þess framtaks ættu að flýta sér að samþykkja tillögu mína um varalið lögreglu. Hugmyndin á bakvið liðið er meðal annars, að lögreglan geti samkvæmt ótvíræðum heimildum í lögum kallað lið sér til aðstoðar við viðburði af þessu tagi. Ætti þingflokkur Samfylkingarinnar að afla sér fræðslu um nauðsynlegar löggæsluaðgerðir í tilefni slíkra funda, svo að hann geti gengið í takt við þá, sem vilja stuðla að því, að Ísland verði alþjóðlegur fundarstaður fyrir stríðandi fylkingar í útlöndum.

Mánudagur, 21. 04. 08. - 21.4.2008 22:02

Enn einu sinni stökkva sömu menn og áður upp á nef sér, þegar minnst er á, að ég telji nauðsynlegt, að í lögum sé heimild fyrir lögreglu til að kalla út varalið við sérstakar aðstæður. Ég er nú ekki frumlegri í þessari tillögugerð minni en svo, að hún byggist á samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 26. september 2006, þegar varnarliðið hvarf úr landi.

Að varaliðs skyldi hafa verið getið í þeirri samþykkt verður greinilega til þess, að einhverjum rennur kalt vatn milli skinns og hörunds og ímyndar sér, að með varaliði sé í raun verið að tala um herlið.

Alþingi hefur nú samþykkt frumvarp Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, utanríkisráðherra, um varnarmálastofnun. Þar er lögð rík áhersla á aðskilnað hernaðarlegrar og borgaralegrar starfsemi. Allt, sem snertir hernað, heyrir undir utanríkisráðherra. Varalið lögreglu hefur engu hernaðarlegu hlutverki að gegna, væri svo, ætti utanríkisráðherra að flytja frumvarp um málið.

Ég hef nú boðað, að ég sé fallinn frá að flytja sérstakt frumvarp um varalið lögreglu, tekið verði á málinu við endurskoðun lögreglulaga. Ætla mætti, að þessi ákvörðun róaði hina órólegustu vegna varaliðshugmyndanna. Sumum þeirra virðist að vísu vera svo uppsigað við lögreglu, að ekki má minnast á hana eða neitt í sambandi við hana, án þess að kalla þurfi á varalið til að róa þá. 

Fór klukkan 18.00 í Skálann á hótel Sögu, þar sem Samtök um vestræna samvinnu efndu til fundar með forseta þings ÖSE, Göran Lennmaker frá Svíþjóð.

Sunnudagur, 20. 04. 08. - 20.4.2008 17:41

Framsóknarmenn efndu fimmtudaginn 17. apríl til fundar í Reykjanesbæ um embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum. Sagt er frá fundinumn í Fréttablaðinu. Fyrirsögnin er höfð eftir Guðna Ágústssyni, sjálfum formanni Framsóknarflokksins, og er hún svona: Segir deiluna persónulega.

Í fréttinni er hvergi að finna rök fyrir þessari fullyrðingu, enda er hún úr lausu lofti gripinn. Í megnitexta fréttarinnar er sagt frá ræðu Guðna á fundinum og þessum orðum hans: „Það botnar enginn í því um hvað deilan snýst.“ Af þessum orðum má ráða, að Guðni hafi ekki orðið neins vísari af þessum fundi sínum, enda var ekki efnt til hans til að leysa vanda embættisins heldur til að magna ómálefnalegar árásir á mig vegna einhvers, sem framsóknarmenn skilja ekki.

Engan þarf að undra, að illa sé fyrir stjórnmálaflokki komið, sem grípur mál eins og þetta og efnir til fundar um það, án þess að sjálfur formaðurinn skilji um hvað málið snýst. Ef Guðni gæfi sér tíma til að kynna sér vanda lögreglustjóraembættisins á Suðurnesjum, kæmist hann örugglega að sömu niðurstöðu og ég, að best fari á því, að hver verkþáttur embættisins sé á forræði þess ráðuneytis, sem á honum ber ábyrgð. Um þetta snýst málið en ekki persónur.

Setti í dag pistil á síðuna um ógöngur Orkuveitu Reykjavíkur.

Furðuleg frétt var sögð á Stöð 2 í kvöld um varalið lögreglu, án þess að nokkurrar heimildar væri getið. Þetta mál hefur verið á döfinni og hið nýjasta í því er, að úttektarnefnd um nýskipan lögreglu leggur til, að tekið verði á spurningunni um varalið við heildarendurskoðun lögreglulaga. Ég hef tekið undir tillöguna um endurskoðun lögreglulaganna.

Tríó Reykjavíkur minntist 20 ára afmælis síns með fjölsóttum tónleikum í Hafnarborg og vorum við þar klukkan 20.00

Laugardagur, 19. 04. 08. - 19.4.2008 13:19

Birgir Guðmundsson, stjórnmálafræðingur, er jafnan kallaður til skrafs og ráðagerða hjá fréttastofu hljóðvarps ríkisins, þegar henni finnst tímabært að gefa Sjálfstæðisflokknum ráð um, hvernig hann skuli haga stefnu sinni og störfum. Þetta gerðist enn og aftur í hádegisfréttum dagsins og snerist ráðgjöfin um REI-málið.

Birgir þekkir ekkert til innan veggja Sjálfstæðisflokksins og oft virðist hann ekki einu sinni hafa fyrir því að kynna sér stöðu mála innan flokksins, áður en segir álit sitt á henni.

Ég hef skrifað ítarlega um OR/REI/GGE málið og undrast, hvernig á því er haldið. Hef ég fært rök fyrir þeirri skoðun, að slík leyndarhyggja sé innbyggð í stjórnarhætti Orkuveitu Reykjavíkur, að borin von sé að óbreyttu, að tekið sé á málefnum fyrirtækisins eða undirfyrirtækja þess á þann veg, að sæmi fyrirtæki í opinberri eign.

Skörin er farin að færast upp í bekkinn, þegar Óskar Bergsson og aðrir framsóknarmenn kvarta undan því, að ekki séu lagðar fram nægilega miklar upplýsingar um skuldbindingar OR. Enginn stóð fastar gegn því en Alfreð Þorsteinsson, borgarfulltrúi framsóknarmanna, að miðla upplýsingum um OR til kjörinna fulltrúa, jafnvel stjórnarmanna í OR. Talaði hann eins og slík upplýsingagjöf væri hrein fásinna með hagsmuni OR að leiðarljósi.

Vandi OR og REI er ekki vandi sjálfstæðismanna einna í borgarstjórn heldur er þetta vandi allrar borgarstjórnarinnar. 100 daga stjórnin undir forystu Dags B. Eggertssonar, Svandísar Svavarsdóttur og Björns Inga Hrafnssonar skaut sér undan OR/REI málinu með því að setjast í þagnarbindindi, á meðan það væri til skoðunar. 100 daga skoðunin leiddi ekki til neinnar niðurstöðu.

Af því að meiri kröfur er unnt að gera til sjálfstæðismanna en annarra borgarfulltrúa er eðlilegt, að litið sé til þeirra um forystu til að leysa OR/REI málið með hagsmuni borgarbúa að leiðarljósi.  Sjálfstæðismenn skortir hins vegar afl í borgarstjórn til að standa einir að lausn málsins. Þeir hafa ekki heldur borið gæfu til að halda á málinu á nægilega traustvekjandi hátt. Lausnin er ekki á færi neins eins flokks í borgarstjórn. Á meðan borgarfulltrúar hafa ekki dug til að mynda neinn meiihluta um að sigla OR úr þessari villu er haldið áfram á ógæfubraut fyrir sjálfstæðismenn og alla aðra í borgarstjórn. 

Fórum klukkan 14.00 á tónleika kórs Menntaskólans við Hamrahlíð í félagsheimilinu Hvoli á Hvolsvelli.

Föstudagur, 18. 04. 08. - 18.4.2008 20:21

Á fundi ríkisstjórnarinnar lagði ég fram áfangaskýrslu, sem hefur að geyma úttekt á nýskipan lögreglumála.

Síðdegis flutti ég ávarp við brautskráningu nemenda úr Lögregluskóla ríkisins.

Þá skipaði ég Guðgeir Eyjólfsson sýslumann í Kópavogi frá 1. júní nk.

Fimmtudagur, 17. 04. 08. - 17.4.2008 18:47

Sá lóu í fyrsta sinn á þessu vori í Öskjuhlíðinni.

Diana Wallis, þingmaður á ESB-þinginu, var enn með erindi í dag um, að EES-samningurinn væri í hættu. ESS-samningurinn stendur eins lengi og aðilar hans vilja, hvað sem breytingum á Evrópusambandinu líður.

Í fréttum Stöðvar 2 var sagt í kvöld, að löggæsla og tollgæsla hefðu verið sameinaðar á Suðurnesjum á síðasta ári. Löggæsla og tollgæsla hafa verið undir einum hatti á Keflavíkurflugvelli í marga áratugi. Það, sem gerðist á síðasta ári, var, að öll löggæsla á Suðurnesjum var sameinuð undir einum hatti. Ég tel, að halli á löggæsluna við þessar aðstæður og vil, að hver verkþáttur embættisins lúti yfirstjórn síns ráðuneytis.

Miðvikudagur, 16. 04. 08. - 16.4.2008 21:58

Franco Frattini, sem farið hefur með dómsmál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, og þar með Schengen-málefni, verður væntanlega utanríkisráðherra í nýrri ríkisstjórn Ítalíu. Hann hefur komið tvisvar til Íslands sem ferðamaður og þekkir til dæmis vel til Vatnajökuls, þar sem hann hefur farið á skíðum.

Þegar ég hitti hann síðast á einkafundi, barst talið að áformum hans um framboð í þingkosningunum nú um síðustu helgi. Hann var sigurviss. Ég sagði, að það yrði ekki hagur okkar Íslendinga, að svo góður vinur hyrfi úr framkvæmdastjórninni. Þá sagði hann, að ekki yrði verra að eiga vin í ríkisstjórn Ítalíu!

 

 

Þriðjudagur, 15. 04. 08. - 15.4.2008 20:48

Fjölmiðlamenn vildu ræða um framsalsmál við mig í dag vegna Pólverjans, sem var handtekinn í gær. Viðtalið var lengst í Kastljósi en þar létu stjórnendur í það skína, að einhver munur væri á viðhorfi mínu í framsalsmálum og Stefáns Eiríkssonar, lögreglustjóra, eða Hildar Dungal, forstjóra útlendingastofnunar. Þessi ályktun fjölmiðlafólksins stenst ekki gagnrýni, enda á hún ekki við nein rök að styðjast.

Klukkan 11.30 hitti ég Michal Sikorksi, ræðismann Pólverja á Íslandi, með búsetu í Osló. Við ræddum leiðir til að efla samstarf milli lögreglu í Póllandi og á Íslandi og aukin skipti á upplýsingum milli yfirvalda á sviði réttargæslu.

Í morgun efndi ég til fundar með starfsmönnum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og skýrði frá því, að Þorsteinn Geirsson, ráðuneytisstjóri, hefði óskað eftir að fá veikindaleyfi. Ákvað ég að setja Rögnu Árnadóttur, skrifstofustjóra, ráðuneytisstjóra til 1. ágúst 2008 og Þórunni J. Hafstein, skrifstofustjóra, staðgengil ráðuneytisstjóra til sama tíma.

Ríkisendurskoðun birti í dag skýrslu um framkvæmd fjárlaga árið 2007 og áætlanir fyrir árið 2008. Þar segir á blaðsíðu 27:

„Tímamörk vegna skila áætlana miðast við lok desember ár hvert. Dæmi eru um ráðuneyti, svo sem dóms- og kirkjumálaráðuneytið, sem gera í raun enn stífari kröfur um skil. Aðeins 3 stofnanir ráðuneytisins, af þeim 36 sem eiga að skila áætlunum, höfðu ekki skilað 10. desember 2007. Í nokkrum öðrum ráðuneytum höfðu engar áætlanir borist fyrir lok desember 2007. Ljóst er því að það verklag sem ráðuneytin hafa tamið sér er afar ólíkt. Þó ætti að vera mögulegt að flýta verulega skilum og afgreiðslu áætlana, sbr. dóms- og kirkjumálaráðuneytið.“

Ein þeirra þriggja stofnana dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, sem skilaði ekki áætlun fyrir árið 2008 fyrir lok desember 2007 var embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum. Áætlun þess fyrir 2008 hefur ekki enn verið samþykkt af ráðuneytinu. Nokkrir þingmenn hafa snúist öndverðir gegn tillögu ráðuneytisins um leið út úr krónískum fjárhagsvanda embættisins. Þar er Lúðvík Bergvinsson, þingflokksformaður Samfylkingar, fremstur í flokki. Þingmennirnir bera m. a. fyrir sig, að þeir vilji vita um afstöðu ríkisendurskoðunar. Þeir ættu að lesa þessa nýju skýrslu stofnunarinnar. Þá sæju þeir, að ráðuneytið hefur ekki dregið upp rauða spjaldið að ástæðulausu miðað við leikreglurnar. Þá er þess einnig að vænta, að Gunnar Svavarsson, formaður fjárlaganefndar, hvetji samflokksmenn sína á þingi til þess að láta ekki undan kröfum þeirra, sem vilja hafa fjárlög að engu.

Mánudagur 14. 04. 08. - 14.4.2008 20:50

Í fyrsta sinn veitti ég í dag sjónvarpsviðtal við mbl.is og var spurður um framsalsreglur í tilefni af dagbókarfærslu hér á síðunni í gær og umræðum um framsal á pólskum manni.

Viðtalið var tekið um 16.50 í skrifstofu minni. Þar sagði ég frá því, að handtökubeiðni hefði, að mér skildist, borist til íslenskra stjórnvalda vegna Pólverjans á síðustu klukkustundum fyrir viðtalið. Þarna taldi ég mig vera að segja nokkra frétt, án þess að undirstrika það sérstaklega, en þessa var einskis getið í frásögn mbl.is af viðtalinu.

Ég lét svipuð ummæli falla í samtali við Reykjavík síðdegis á Bylgjunni um kl. 17.30. Ég varð þess ekki var, að þau vektu neina sérstaka athygli viðmælenda minna. Raunar hélt ég ekki fréttinni sérstaklega að þeim.

Það var síðan ekki fyrr en í kvöldfréttatíma sjónvarpsins að frá því var sagt í innskoti, að handtökubeiðnin hefði borist síðdegis og Pólverjinn hefði verið handtekinn.

Kastljósið náði í Stefán Eiríksson, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, í viðtal, eftir að fréttin um handtökuna barst og skýrði hann vel og skilmerkilega frá gangi framsalsmála.

Nú er unnið að því að semja ný lög um framsal með vísan til nýs norræns samnings um framsalsmál og samnings um aðild okkar að evrópsku handtökutilskipuninni. Vænti ég þess, að frumvarpið verði lagt fram á þingi næsta haust.

Ég hélt, að fjölmiðlar teldu fréttnæmast, hvort óskað yrði eftir handtöku og síðan væntanlega framsali á Pólverjanum. Í samtölum við mig var áhuginn mestur á væntanlegum lagabreytingum vegna framsals.

Sunnudagur, 13. 04. 08. - 13.4.2008 22:21

Eðlilega vekja fréttir um dvöl erlendra afbrotamanna hér á landi óhug. Sagt er, að skjól þeirra sé meira hér en annars staðar innan EES-svæðisins. Þessi fullyrðing byggist væntanlega á því, að hér gilda aðrar og flóknari reglur um framsal sakamanna en innan Evrópusambandsins.

ESB-ríkin senda sakamenn á milli landa á grundvelli evrópskrar handtökutilskipunar. Hún einfaldar handtöku og framsal sakamanna. Tekur ákvarðanir úr höndum ráðuneyta og færir í hendur lögreglustjóra. Pólsk stjórnvöld verða að óska eftir framsali manna á formlegan hátt en geta ekki treyst á orðsendingaskipti milli lögregluyfirvalda.

Ísland hefur samið við ESB um aðild að evrópsku handtökutilskipuninni og er verið að semja frumvarp um nauðsynlegar lagabreytingar í samræmi við samninginn. Við svo búið verður hann lagður fram til fullgildingar. Öll ESB-ríkin verða einnig að fullgilda hann.

Íslensk stjórnvöld hafa skapað sér nokkra sérstöðu í framsalsmálum, meðal annars innan Norðurlanda, og hér hefur ekki verið vilji til að auðvelda framsal með vísan til hagsmuna íslenskra ríkisborgara. Alþjóðavæðingin er líklega að grafa undan þessari sérstöðu eins og svo mörgu öðru. 

Sæki erlendir sakamenn hingað til lands vegna strangra skilyrða fyrir framsali, sannar það enn, hve miklu skiptir, að íslensk löggjöf sé í takt við það, sem er í öðrum ríkjum, svo að hér skapist ekki neitt lagaskjól fyrir afbrotamenn.

Í umræðum um hina pólsku sakamenn kemur glöggt fram, að lögregla hefur vitneskju um dvöl þeirra í landinu. Hún er hins vegar bundin af lögum, niðurstöðum dómstóla og alþjóðasamningum um framsal, þegar kemur að því að taka ákvarðanir um aðgerðir.

Laugardagur, 12. 04. 08. - 12.4.2008 22:08

Fyrir þá, sem sættu ámæli, þegar þeir hallmæltu viðskiptum við Sovétríkin vegna stjórnarhátta þar, mannréttindabrota og heimsyfirráðastefnu, er sérkennilegt að sjá sama eða svipað fólk og þá hélt fram málstað Sovétríkjanna, hrópa hæst um, að í því felist samþykki við mannréttindabrotum að fara á Ólympíuleika í Kína.

Baldur Þórhallsson, prófessor, staddur er í Kína, segir, að stjórnmálamenn eigi að fara á Ólympíuleikana í Peking, annars sárni heimamönnum. Sá munur er á Ólympiuleikum undir forræði einræðisríkja og lýðræðisríkja, að hin fyrrnefndu líta á leikana öðrum þræði sem viðurkenningu á stjórnarháttum sínum, en í hin síðarnefndu láta sér slíkt í léttu rúmi liggja. Einmitt þess vegna er litið öðrum augum á ferð stjórnmálamanna á leikana í einræðisríki - hún er túlkuð sem póltísk viðurkenning ekki síður en stuðningur við íþróttamenn. Þetta verða stjórnmálamenn að hafa hugfast.

Ég fór tvisvar sem menntamálaráðherra á Ólympíuleika: í Atlanta 1996 og Sydney 2000, eins og sjá má hér á síðunum. Í hvorugt skipti datt nokkrum í hug að leggja pólitíska merkingu í ferðina, enda um lýðræðisríki að ræða. Nú er þátttaka stjórnmálamanna hins vegar litin pólitískum augum vegna stjórnarhátta í Kína, hvort sem þeim líkar betur eða verr. Þeir verða þess vegna að verja hana með pólitískum rökum.

 

Föstudagur, 11. 04. 08. - 11.4.2008 21:29

Í dag er rétt ár liðið, frá því að Bjarni Torfason skar mig og læknaði í mér lungun. Þau hafa ekki brugðist mér síðan. Skurðurinn greri eðlilega, en farið var í gegnum bringubeinið. Enn finn ég stundum fiðring á skurðsvæðinu, einkum verði ég þreyttur.

Ég lét þess getið, eftir að ég hafði náð mér á strik, að viðgerðin á lungunum myndi auka mér orku. Þetta hefur gengið eftir. Ég er sannfærður um, að hægra lungað, sem tók að leka, hafi um nokkurt skeið, kannski árabil, legið ofan á þindinni í stað þess, að hún stækkaði það með togi við innöndun. Qi gong æfingarnar auðvelda mér að skynja breytinguna, sem hefur orðið að þessu leyti.

Við Gunnar Eyjólfsson ræddum í dag aðdraganda þess, að við tókum að iðka qi gong saman og ákváðum síðan að bjóða fleirum að slást í hópinn. Við hittumst seinni hluta níunda áratugarins á framsagnarnámskeiði, sem Gunnar leiddi en skipulagt var að frumkvæði Ingimundar Sigfússonar. Í lok eins tímans spurði ég Gunnar, hvort hann kynni qi gong. Hann játaði því, hafði kynnst því í leikarnámi sínu í London á fimmta áratugnum. Ég hafði þá kynnst qi gong á heilsubúgarði í Frakklandi.

Nokkrum árum síðar tókum við upp þráðinn með sameiginlegum æfingum. Þær hafa auðveldað mér að ná bata eftir uppskurðinn. Við Gunnar vitum, að qi gong hefur stuðlað að heilsubót hjá mörgum. Á hinn bóginn höfum við aldrei kynnt æfingarnar undir þeim formerkjum.

 

Fimmtudagur, 10. 04. 08. - 10.4.2008 22:45

Hóf daginn í Lögregluskóla ríkisins með því að flytja setningarávarp á ráðstefnu að frumkvæði fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, þar sem meðal annars var rætt um alþjóðlega glæpastarfsemi.

Furðulegt er, að haldið sé áfram að ræða um embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum, eins og komið hafi þruma úr heiðskíru lofti og klofið embættið í þrjá hluta. Staðreynd er, að um árabil hefur embættið verið rekið með halla. Í ár keyrir um þverbak og embættinu er stefnt í þrot, ef marka má áætlun lögreglustjórans. Vilja málsvarar óbreytts ástands slíka stjórn á fjármálum opinbers embættis? Ég er ekki talsmaður þess og samþykkti ekki heldur tillögur lögreglustjórans um uppsagnir starfsmanna, þegar allt stefnir í óefni. Ég hef lagt til betri framtíðarleið út úr krónískum fjárhagsvanda embættisins.

Gunnar Svavarsson, formaður fjárlaganefnar og þingmaður Samfylkingar, var ómyrkur í máli síðsumars 2007 um nauðsyn þess, að stjórnendum embætta yrði haldið við efni fjárlaga. Nú má skilja Lúðvík Bergvinsson, formann þingflokks Samfylkingar, á annan veg. Hafa beri fjárlög að engu og ráðuneyti samþykki rekstraráætlanir, sem taki ekkert mið af fjárlögum.

Ég velti fyrir mér, hvort starfsmenn vilji í raun frekar leið lögreglustjórans um uppsagnir, en leiðina, sem ég hef kynnt um, að hver starfsþáttur innan embættisins falli undir ráðuneyti, sem ber ábyrgð á honum og þannig verði þeim tryggt starfsöryggi. Þessir tveir kostir eru í boði.

 

 

Miðvikudagur, 09. 04. 08 - 9.4.2008 10:07

Helsta frétt á forsíðu Fréttablaðsins er um, að þingflokkur Samfylkingar hafni breytingum á embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum. Í Morgunblaðinu má hins vegar lesa, að þingflokkurinn telji sig þurfa meiri tíma og upplýsingar um málið.

Í Fréttablaðinu segir:

„Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins telja þingmenn Samfylkingarinnar breytingarnar óskynsamlegar og ekki í takt við tilmæli sem komið hafa frá Ríkisendurskoðun í skýrslu um ráðstafanir gegn innflutningi ólöglegra fíkniefna. Í henni segir meðal annars að móta eigi heildarstefnu til nokkurra ára í tollamálum fyrir landið allt.“

Í skýrslu ríkisendurskoðunar, sem þarna er nefnd, er einmitt hreyft hugmyndum um, að öll tollgæsla í landinu verði sameinuð undir einn hatt á forræði fjármálaráðuneytis. Tillagan um breytingar á Suðurnesjum er skref í þá átt. Má skilja fréttina þannig, að þingmenn Samfylkingar geti felt sig við breytingar á Suðurnesjum, ef sama gildi um tollgæslu í landinu öllu? Hefur einhvers staðar komið fram, að það sé ekki langtímamarkmið fjármálaráðuneytis?

Frétt Fréttablaðsins er í senn misvísandi og segir ekki söguna alla. Tilefni breytinga á embættinu á Suðurnesjum nú er, að lögreglustjóri telur ekki unnt að reka embættið innan fjárheimilda. Lögreglustjóri lagði fyrir dóms- og kirkjumálaráðuneytið tillögu um uppsagnir og uppbrot embættisins til að mæta þessum vanda. Með þær tillögur í farteskinu tel ég skynsamlegra að fara þá leið, sem nú hefur verið kynnt.

Þingmennirnir Lúðvík Bergvinsson, Gretar Mar Jónsson, Kristinn H. Gunnarsson og Árni Johnsen lýsa mestum efasemdum um ágæti þess, að einstakir starfsþættir innan embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum falli undir rétt ráðuneyti. Kristinn H. hefur myndað sér skoðun, þótt hann segi í hinu orðinu, að hann þurfi að heyra álit ríkisendurskoðunar. Þeir telja sig allir tala máli lögreglustjórans á Suðurnesjum og samstarfsmanna hans. Sumir þeirra segja, að viðleitni til að koma embættinu út úr krónískum fjárhagsvanda byggist á persónulegri óvild í garð lögreglustjórans!

Þriðjudagur, 08. 04. 08. - 8.4.2008 19:43

Góðar fréttir berast um, að tollverðir hafi fundið fíkniefni á Keflavíkurflugvelli. Samstarf tollvarða og lögreglumanna er hvarvetna mikilvægt og þar skiptir greiningarstarf ekki síst máli. Er ánægjulegt að fylgjast með því, hve samstarf hefur eflst milli toll- og löggæslu undanfarið. Fráleitt er að gera því skóna, að fyrir nokkrum stjórnmálamanni vaki að reka fleyg í þetta nána samstarf.

Árvekni við landamæravörslu er ekki síður mikilvæg en tollgæsla. Öflug varsla við landamærin byggist meðal annars á því að nýta sér gagnagrunna við greiningu og áhættumat. Áhersla á upplýsingaöflun í þágu slíkrar greiningarvinnu er sífellt að aukast.

Samhliða því sem tollverðir hafa auga með ferðamönnum og farangri þeirra hafa landamæraverðir auga með því, hverjir koma til landsins. Þessa starfsemi þarf að tengja í samræmi við lög og reglur.

Mánudagur, 07. 04. 08. - 7.4.2008 21:47

Í Noregi skammast vinstrisinnar yfir niðurstöðu NATO-fundarins í Búkarest. Á alþingi hrópa þeir hneykslunarorð, vegna þess að þeim líkar ekki flugvél ráðherranna. Hvort ætli skipti meira máli, þegar frá líður?

Farartæki ráðherra hafa löngum verið vinsælt gagnrýnisefni. Nú er hneykslast á notkun flugvéla í stað bíla áður.

Ólympíueldurinn var slökktur á götum Parísar í dag vegna mótmæla. Borgarstjórinn sýndi honum ekki virðingu við ráðhúsið. Kínversk yfirvöld halda ekki loga í kyndlinum með hópi harðskeyttra öryggisvarða. Viðbúnaður Parísarlögreglunnar var jafnmikill og við heimsókn George W. Bush, Bandaríkjaforseta.

Kínversk yfirvöld hafa tapað andlitinu vegna vandræðanna í kringum kyndilinn. Hann er tákn sigurs og gleði en sýnir nú niðurlægingu þeirra, sem ekki unna öðrum frelsis. Hringjum Ólympíufánans hefur verið breytt í handjárn. Spurningar vakna um styrk Ólympíuhugsjónarinnar andspænis þessari áraun.

 

Sunnudagur, 06. 04. 08. - 6.4.2008 18:09

Þátturinn Sjálfstætt fólk um Ólöfu Pétursdóttur í kvöld á Stöð 2 var einstaklega vel gerður af Jóni Ársæli og samstarfsfólki hans. Þar var brugðið upp ógleymanlegri mynd af Ólöfu, æðruleysi hennar og hugprýði auk allra, sem henni voru næstir. Blessuð sé minning Ólafar.

Nokkrar umræður hafa orðið í Noregi vegna stuðnings leiðtogafundar NATO í Búkarest við eldflaugavarnir Bandaríkjanna í Póllandi og Tékklandi. Velta fjölmiðlar fyrir sér, hvort stuðningurinn samrýmist stefnu SV, það er eins ríkisstjórnarflokksins, en hann er systurflokkur vinstri/grænna.

Leiðtogafundur NATO næsta ár, á 60 ára afmæli bandalagsins, verður í Strassborg (Frakklandi) og Kehl (Þýskalandi), það er sitt hvoru megin við Rínarfljót. Þar er ætlunin að ræða frekari útfærslu á eldflaugavarnakerfinu og tryggja að það nái til NATO-ríkja í suðri.

Snemma vetrar ritaði Lothar Rühl, fyrrverandi vara-varnarmálaráðherra Þýskalands, um eldflaugavarnarkerfið í Frankfurter Algemeine Zeitung og nefndi Ísland til sögunnar auk Bretlands. Þar mun vísað til umræðna um slíkt kerfi, væri því ætlað að tryggja varnir gegn eldlaugum Rússa. Kerfinu í Póllandi og Tékklandi er beint gegn Íran og ríkjum þar um slóðir.

Laugardagur, 05. 04. 08. - 5.4.2008 22:40

Nú eru æ fleiri að átta sig á því, að lausnin á vandanum í miðborg Reykjavíkur byggist ekki á því einu að efla þar löggæslu. Lögrergla glímir við einkennin en ekki sjúkdóminn sjálfan. Hann á sér félagslegar og skipulagslegar rætur. Borgaryfirvöld fara þar með úrslitavald. Er fagnaðarefni, að Ólafur F. Magnússon borgarstjóri hefur greinilega góðan skilning á forystuhlutverki Reykjavíkurborgar í þessu efni. Þá hefur Hanna Birna Kristjánsdóttir, formaður skipulagsráðs, látið verulega að sér kveða til að snúa vörn í sókn.

Nú hef ég séð enn eina Óskarsverðlaunamynd ársins La Vie en Rose um ævi Edith Piaf og mæli eindregið með henni. Marion Cotillard, fædd í Frakklandi 1975, hefur unnið Óskarsverðlaun, BAFTA-verðlaun, Golden Globe-verðlaun, Tékkneska ljónið og César-verðlaun fyrir leik sinn sem Edith Piaf.

Setti nýjan pistil á síðuna í dag.

Föstudagur, 04. 04. 08. - 4.4.2008 21:35

Hinn 4. apríl 1949 var ritað undir Atlantshafssáttmálann, stofnsáttmála NATO, í Washington. Enginn gat þar á þeim tíma séð fyrir, að í dag, 59 árum síðar, yrði á leiðtogafundi NATO í Búkarest, mótuð leið fyrir Georgíu og Úkraínu inn í NATO. 

Á fundinum var einnig samþykkt áætlun Bandaríkjastjórnar um eldflaugavarnir með búnaði í Póllandi og Tékklandi, þrátt fyrir harðorð mótmæli Rússa. Þau eru illskiljanleg, því að í raun snertir þetta Rússa ekki neitt.  Ef ætlun NATO væri að verjast eldflaugum Rússa, yrðu varnarvirki líklega  á Bretlandi og hér á Íslandi.

Ronald Reagan hafnaði samkomulagi við Mikhaíl Gorbatsjov um fækkun kjarnorkuvopna á fundinum í Höfða árið 1986. þegar Gorbatsjov neitaði að fallast á ákvörðun Reagans um eldflaugavarnir. Nú hefur NATO fallist á að slíkur varnarviðúnaður verði í Póllandi og Tékklandi, en hann beinist ekki gegn Rússlandi heldur Íran.

Eitt er að líta á viðbúnaðinn. Annað er að huga að stað fyrir hann. Tékkar telja, að búnaðurinn, þótt honum sé ekki beint gegn Rússum, sé trygging þeirra gegn enduríhlutun Rússa í innri málefni Tékklands - Bandaríkjamenn veiti þeim tvíhliða tryggingu með því að reka ratsjárstöðvar í landi þeirra.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, stóðu að hinum sögulegu ákvörðunum í Búkarest fyrir hönd Íslands.

Í enskri útgáfu þýska vikuritsins Der Spiegel segir meðal annars um leiðtogafundinn í Búkarest:

„There are completely different conceptions of who is protecting whom against whom and by what means. The alliance is militarily bigger and more powerful than ever -- yet politically weaker than it has ever been. There is a deep rift when it comes to all the important questions: On the one side the Americans and their friends in Eastern Europe, on the other the Germans, the French and their neighbors -- "Old Europe," in other words. And in the vain attempt to prevent these differences coming to the fore, the members in Bucharest preferred to postpone all important questions until the next summit. “

Þegar þessi orð eru lesin, má huga að því, sem sagt var um leiðtogafund Reagans og Gorbatsjovs strax að honum loknum og síðan hvaða dóm sagan hefur fellt um hann.

Fimmtudagur, 03. 04. 08. - 3.4.2008 21:22

Fór síðdegis á fund lögfræðinga með Alan M. Dershowitz, prófessor frá Harvard. Fyrirlesturinn snerist um það, sem hann kallaði ný lögfræðileg viðmið.  Hvernig skal haga löggjöf til að unnt sé að takast á við eitthvað, sem ekki hefur gerst en er talið yfirvofandi? Hættan af hryðjuverkum kallar á slíka löggjöf að mati Dershowitz. Hann er öflugur málflytjandi og styður málstað sinn skýrum rökum.

Miðvikudagur, 02. 04. 08. - 2.4.2008 21:46

Því var haldið fram í kvöldfréttum hljóðvarps ríkisins, að ég mundi flytja lagafrumvarp vegna skipulagsbreytinga á embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum. Ég veit ekki eftir hvaða heimildarmönnum fréttastofan hefur þetta. Þeir eru ekki traustir, því að ég mun ekki flytja neitt slíkt frumvarp. Á hinn bóginn er líklegt, að fjármálaráðherra flytji frumvarp vegna þessa og verður það væntanlega í samræmi við tillögur frá ríkisendurskoðun í stjórnsýsluúttekt hennar frá því nóvember 2007 um aðgerðir gegn innflutningi fíknefna.

Forsætisnefnd alþingis hefur óskað eftir skýrslu frá ríkisendurskoðun um málefni embættisins á Suðurnesjum. Stofnunin hefur þegar sent frá sér stjórnsýsluúttekt, sem lýtur að skipulagi tollamála á landsvísu. Þá hefur hún einnig birt álit á fjárhagsstöðu embættisins í skýrslu um framkvæmd fjárlaga. Er þeim þingmönnum, sem telja ekki nægileg rök komin fram af minni hálfu vegna fyrirhugaðra breytinga, í vinsemd bent á þessar skýrslur ríkisendurskoðunar.

Sömu frétt má skilja á þann veg, að við Jóhann hefðum hist í síðustu viku. Svo var ekki, hann hitti Einar K. Guðfinnsson, staðgengil minn. Eftir að ég kom heim frá útlöndum sl. mánudag hef ég átt tvo góða fundi með Jóhanni og farið yfir alla þætti málsins með honum. Fráleitt er að halda því fram, að samskipti okkar séu stirð, svo er alls ekki.

Glæpasagnahöfundurinn Þráinn Bertelsson ræðir um O. J. Simpson málið í tilefni af dagbókarfærslu minni hér í gær. Þráinn er ekki betur að sér en svo, að hann ruglar saman hanska og sokki, þegar hann ræðir um sönnunargagnið, sem leiddi til sýknu Simpsons. Alan M. Dershowitz, verjanda hans tókst að sýna kviðdóminum, að lögreglan hafði falsað „sönnunargagn“ með því að láta blóð leka í sokk. Á því féll málatilbúnaður ákæruvaldsins.

Áhugamönnum um afstöðu Dershowitz til Simpson-málsins má benda á þessa vefslóð.

Þriðjudagur, 01. 04. 08. - 1.4.2008 22:46

Tók þátt í aprílgabbi með fréttastofu hljóðvarps ríkisins og ræddi um gildi þess að varðveita stríðsminjar við Reykjavíkurflugvöll, sem fundist hefðu við framkvæmdir við Háskólann í Reykjavík í Vatnsmýrinni. (Ég er viss um, að væru þessar framkvæmdir á hálendinu væru vikulega ef ekki daglega myndir af þeim í fjölmiðlum í tengslum við áhuga á umhverfisvernd.)

Einkennilegt er að heyra sjónarmið þingmanna um skort á rökum túlkuð á þann veg, að þeir séu á móti breytingum, sem taka mið af verkaskiptingu innan stjórnarráðsins. Hvers vegna er ekki beðið eftir rökunum, ef þau skortir? Eða spurt um þau?

Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, og Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, voru ráðherrar, þegar ríkisstjórnin mótaði þá stefnu við brottför varnarliðsins, að laga ætti stjórnkerfi á Keflavíkurflugvelli að stjórnarrráðsreglugerðinni. Þau hreyfðu þá engum fyrirvörum varðandi löggæslu og tollgæslu. Hvers vegna nú?

Siv fer með rangt mál, þegar hún segir mig hafa kynnt breytingar á embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum fyrst á vefsíðu minni. Hvers vegna?

Mörgum hefur þótt Framsóknarflokkurinn liggja of vel við höggi,  til að tæki því að slá til hans. Vilji hann stilla sér upp til orrustu, er sjálfsagt að taka slaginn.

Hitti Alan M. Dershowitz, lagarprófessor við Harvard, sem hér er á fyrirlestraferð. Hann er ekki aðeins þekktur sem prófessor og höfundur margra bóka, heldur einnig sem verjandi, t.d. O. J. Simpsons.