6.4.2008 18:09

Sunnudagur, 06. 04. 08.

Þátturinn Sjálfstætt fólk um Ólöfu Pétursdóttur í kvöld á Stöð 2 var einstaklega vel gerður af Jóni Ársæli og samstarfsfólki hans. Þar var brugðið upp ógleymanlegri mynd af Ólöfu, æðruleysi hennar og hugprýði auk allra, sem henni voru næstir. Blessuð sé minning Ólafar.

Nokkrar umræður hafa orðið í Noregi vegna stuðnings leiðtogafundar NATO í Búkarest við eldflaugavarnir Bandaríkjanna í Póllandi og Tékklandi. Velta fjölmiðlar fyrir sér, hvort stuðningurinn samrýmist stefnu SV, það er eins ríkisstjórnarflokksins, en hann er systurflokkur vinstri/grænna.

Leiðtogafundur NATO næsta ár, á 60 ára afmæli bandalagsins, verður í Strassborg (Frakklandi) og Kehl (Þýskalandi), það er sitt hvoru megin við Rínarfljót. Þar er ætlunin að ræða frekari útfærslu á eldflaugavarnakerfinu og tryggja að það nái til NATO-ríkja í suðri.

Snemma vetrar ritaði Lothar Rühl, fyrrverandi vara-varnarmálaráðherra Þýskalands, um eldflaugavarnarkerfið í Frankfurter Algemeine Zeitung og nefndi Ísland til sögunnar auk Bretlands. Þar mun vísað til umræðna um slíkt kerfi, væri því ætlað að tryggja varnir gegn eldlaugum Rússa. Kerfinu í Póllandi og Tékklandi er beint gegn Íran og ríkjum þar um slóðir.