Dagbók: 2002
Þriðjudagur 31. 12. 02 - gamlársdagur
Fór klukkan 14.45 í Skjáeinn en settist ekki fyrr en um 15.30 í þáttinn Silfur Egils - var þar fyrst með Stefáni Jóni Hafstein og Degi B. Eggertssyni, síðan bættist Guðni Ágútsson í hópinn, skömmu síðar véku þeir Dagur og Stefán Jón fyrir Steingrími J. Sigfússyni og Össuri Skarphéðinssyni. Lauk þættinum um 16.30.
Mánudagur 30. 12. 02
Klukkan 15.00 hittist borgarstjórnarflokkur sjálfstæðismanna á fundi í ráðhúsinu. Hafði hann verið ákveðin fyrir jól til að fara yfir stöðu mála í ljósi þess, sem gerðist 18. desember. Gekk það eftir, að niðurstaða var fengin í þá óvissu um brogarstjóraembættið, sem þá skapaðist, því að daginn áður 29. desember lá ljóst fyrir, að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir mundi hætta sem borgarstjóri.
Við ræddum málið og fórum yfir nýja stöðu innan borgarstjórnar, sem að okkar mati hefur leitt til þess, að R-listinn er úr sögunni. Er við því að búast, að flokkadrættir verið meiri innan borgarstjórnar en áður hefur verið.
Fimmtudagur 19. 12. 02
Fyrir hádegi var ég heima hjá mér að búa mig undir fund borgarstjórnar síðdegis, þar sem fjárhagsáætlun fyrir árið 2003 var til annarrar umræðu, einnig hóf ég að skrifa minn vikulega vettvang í Morgunblaðið.
Blaðamenn hringdu til að fá afstöðu mína til ákvörðunar Ingibjargar Sólrúnar, sem hún kynnti daginn áður. Ég sagðist ekki vilja segja neitt, þar sem ég vildi vita, hvað gerðist á fundi borgarfulltrúa vinstri/grænna og framsóknar, sem hafði verið boðaður þennan morgun.
Í hádegisfréttum hljóðvarps ríkisins var lesin yfirlýsing borgarfulltrúa v/g og Samfylingarinnar, strax að lestri loknum hringdi fréttamaður í mig og sagðist ég skilja yfirlýsinguna á þann veg, að gerð væri krafa um að Ingibjörg Sólrún hyrfi úr stóli borgarstjóra eða hætti við þingframboð.
Umræðurnar um fjárhagsáætlunina voru í borgarstjórn frá kl. 14.00 til rúmlega 22.00. R-listamenn forðuðust að ræða um uppnámið innan eigin raða.
Miðvikudagur 18. 12. 02
Klukkan 17.00 þennan dag kom borgarstjórnarflokkur sjálfstæðismanna saman til reglulegs fundar í Ráðhúsinu. Þennan dag birtust fréttir um það í Fréttablaðinu og DV, að Ingibjörg Sólrún hefði í huga að skipa 5. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík norður í þingkosningunum 10. maí 2003.
Inn á fund okkar barst sú frétt, að Össur Skarphéðinsson hefði staðfest að fréttir Fréttablaðsins og DV væru réttar. Vildu blaðamenn greinilega helst fá mig út af fundinum, en við létum þá ekki trufla okkur og hitti ég þá lauslega eftir fundinn.
Arnar Páll Hauksson frá hljóðvarpi ríkisins tók við mig viðtal, þótt mér þætti það ekki skynsamlegt, því að á þeim tímapunkti var ekki neitt vitað um afstöðu Ingibjargar Sólrúnar sjálfrar, enda hafði ég þann fyrirvara.
Þegar ég gekk út úr Ráðhúsinu var fundi borgarmálaráðs R-listans lokið og var Ingibjörg Sólrún umkringd blaðamönnum. Heyrði ég á svörum hennar, að hún lét sem hún hefði ekki gert upp hug sinn til þingframboðs.
Í Kastljósi um kvöldið tók hún hins vegar af skarið og sagðist ætla að bjóða sig fram til þings.
Þriðjudagur 17.12.02
Klukkan 9.00 komu fulltrúar Landsvirkjunar á fund borgarráðs og greindu frá gangi samningaviðræðna við Alcoa um álver á Reyðarfirði, forsendu þess að ráðist verði í Kárahnjúkavirkjun. Af skýrslu þeirra varð mér ljóst, að samningar lofuðu góðu um framhaldið og ekkert væri því til fyrirstöðu að Reykjavíkurborg samþykkti sem 45% eigandi Landsvirkjunar að taka á sig eigendaábyrgð vegna virkjunarinnar.
Klukkan 12.00 var efnt til fundar í Ráðhúsinu með fulltrúum vegagerðarinnar, samgönguráðherra, þingmönnum Reykvíkinga og borgarfulltrúum til að ræða þá kosti, sem við blöstu vegna Sundabrautar - en álitaefnið snýst um hvaða leið eigi að fara yfir Elliðavoginn.
Um kukkan 14.00 hófst borgarráðsfundur og stóð hann fram yfir klukkan 16.00.
Klukkan 17.00 var fundur í Þingvallanefnd með forráðamönnum Bláskógabyggðar.
Sunnudagur 15.12.02
Fór í hádeginu í Silfur Egils og ræddi við Össur Skarphéðinsson um EES-samninginn og stækkun ESB.
Klukkan 17.00 efndi Kammersveit Reykjavíkur til jólatónleika sinna sinn í Áskirkju og var ánægjulegt að sækja þá eins og endranær.
Föstudagur 13.12.02
Jólaleyfi þingmanna hófst um klukkan 16.00 í dag. Er það óvenjulega snemmt og er til marks um, hve friðsamleg þingstörfin hafa verið í haust, þótt kosingaþing sé. Hefur mikil breyting orðið að þessu leyti síðan ég settist á þing árið 1991. Þá var ég í forsætisnefnd og máttum við forsetar þingsins sitja nótt sem nýtan dag yfir endalausum umræðum og málþófi. Dugði tíminn fram að jólum ekki alltaf til að afgreiða þau mál, sem kröfðust afgreiðslu. Engin einhlít skýring er á þessari breytingu. Fjárlagafrumvarpið var afgreitt fyrir viku, sem er óvenjulega snemmt, þegar það er frá, dettur spennan úr haustþinginu. Stjórnarandstaðan telur sér greinilega ekki hag af því að standa í stórræðum síðustu daga fyrir jól. Að þessu sinni voru það helst vinstri/grænir, sem létu eitthvað að sér kveða fyrir þinghlé og sperrtu sig vegna frumvarps um að breyta orkuveitu Akureyrarbæjar í hlutafélagið Norðurorku.Klukkan 17.00 efndu sjálfstæðismenn til jólateitis í Valhöll og meðal skemmtiatriða var lestur Davíðs Oddssonar úr nýrri bók sinni við góðar undirtektir.
Miðvikudagur 11.12.02
Forseti alþingis bauð þingmönnum og starfsmönnum þingsins til hefðbundins jólahádegisverðar að Hótel Borg.Klukkan 17.00 hittumst við í borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna á hefðbundnum fundi til að ráða ráðum okkar.
Sunnudagur 8.12.02
Fór í Kastljós um kvöldið með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur undir stjórn Jóns Gunnars Grjetarssonar og ræddum við enn um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar. Vakti athygli mína hve æst hún var í þættinum og hrópaði, að ég væri ósannindamaður. Hélt hún meira að segja áfram að skammast í mér eftir þáttinn, sem ég hef ekki kynnst áður eftir slíka þætti og hef þó tekið þátt í þeim mörgum.
Fór beint úr útsendingunni í Fríkirkjuna, þar sem ég hlustaði á Gunnar Eyjólfsson flytja aðventuræðu með miklum glæsibrag í anda qi-gong og Johns Mains.
Sunnudagur 8. desember, 2002.
Tók þátt í Kastljósi með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur borgarstjóra um kvöldmatarleytið. Hún sakaði mig um ósannindi vegna þess að ég vakti máls á því, að skuldir hefðu verið fluttar frá borgarsjóði yfir á fyrirtæki eða fé úr fyrirtækjum til að bæta skuldastöðu borgarsjóðs. Var helst að skilja á henni, að ég hefði gengið fram af henni með því að segja, að þetta hafi gerst á árinu 1999. Einmitt í upphafi þess árs var mest fé flutt frá Orkuveitu Reykjavíkur til að bæta stöðu borgarsjóðs.
Laugardagur 7.12.02
Fórum síðdegis til Hveragerðis með Orra, dótturson okkar, og Sigríði Sól, móður hans, og sáum Kardimommubæinn okkur öllum til mikillar ánægju. Þau eru hér mæðginin í stuttri heimsókn fyrir jólin frá New York.
Eftir að við höfðum ekið þeim aftur til Reykjavíkur héldum við Rut aftur austur fyrir fjall og að Kvoslæk, þar sem við vorum í einstakri blíðu og góðra vina hópi fram á sunnudag.
Föstudagur 6.12.02
Fyrir hádegi var lokaatkvæðagreiðsla á alþingi um fjárlög ársins 2003.
Föstudagur 6. desember, 2002.
Fjárlög fyrir árið 2003 samþykkt á alþingi á fundi, sem hófst klukkan 10.30.
Fimmtudagur 5.12.02
Var um morgunin á Stöð 2 í þættinum Ísland í bítið með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, þar sem við ræddum um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar en hún var til umræðu á borgarstjórnarfundi síðdegis þennan sama dag.
Það hefur verið mjög gagnlegt fyrir mig undanfarnar vikur að sitja fundi í borgarráði og fara yfir starfsáætlanir einstakra stofnana og sviða borgarinnar. Hefur komið mér á óvart, hve veikur grunnur er undir mörgu og hve pólitísk stefnumörkun og forysta virðist veik, enda fer fjárhagsáætlun 2002 meira en 2 milljarði króna fram úr áætlun og stefnir í óvissu á næsta ári.
Fimmtudagur 5. desember, 2002.
Fundur í borgarstjórn hófst klukkan 14.00 og þar fór fram fyrsta umræða um fjárhagsáætlun fyrir árið 2003.
Laugardagur 30.11.02
Fórum á hátíðarsýningu á Rakaranum í Sevilla í Íslensku óperunni og skemmtum okkur mjög vel.
Fimmtudagur, 28.11.2002.
Flutti í hádeginu erindi á málþingi Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í Norræna húsinu, þar sem fjallað var um hugbúnaðarþýðingar á íslensku. Sagði ég frá samskiptum mínum við Microsoft.
Fimmtudagur 28. nóvember, 2002.
Flutti í hádeginu erindi um samskiptin við Micorsoft vegna hugbúnaðarþýðinga á málþingi í Norræna húsinu á vegum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur.
Þriðjudagur, 26.11.2002
Fór á tónleik Kammersveitar Reykjavíkur á Kjarvalsstöðum, þar sem flutt voru verk eftir Jón Ásgeirsson.
Sunnudagur 24. 11. 2002
Fórum upp úr hádeginu og tókum til á kosningaskrifstofunni í ótrúlega fallegu veðri.
Sunnudagur 24. nóvember, 2002
Fórum upp úr hádegi og tókum saman á kosningaskrifstofunni að Sæbraut 8.
Laugardagur 23. 11. 2002
Þennan dag fór prófkjör okkar sjálfstæðismanna fram og hófst það klukkan 10.00 og stóð til klukkan 18.00. Fyrstu tölur bárust strax og lá þá fyrir, að ég mundi ná því marki mínu að halda 3. sætinu á listanum.
Föstudagur 22. 11. 2002.
Tók síðdegis þátt í umræðuþætti Hallgríms Thorsteinssonar í útvarpi Sögu með þeim Stefáni Hrafni Hagalín og Eiríki Bergmann Einarssyni. Þeir höfðu á sínum tíma stofnað Kreml.is sem vettvang fyrir hægri krata, en einmitt sama daginn og við hittumst þarna í þættinum gekk Stefán Hrafn í Sjálfstæðisflokkinn á kosningaskrifstofu minni. Fékk Eiríkur Bergmann fréttina í þann mund sem þátturinn hófst og var honum greinilega nokkuð brugðið.
Föstudagur 22. nóvember, 2002.
Var síðdegis í umræðuþætti Hallgríms Thorsteinssonar í útvarpi Sögu með þeim Stefáni Hrafni Hagalín og Eiríki Bergmann Einarssyni. Fyrr þennan dag hafði Stefán Hrafn gengið í Sjálfstæðisflokkinn, en þeir Eiríkur Bergmann höfðu stofnað vefsíðuna Kreml.is til að koma á framfæri sjónarmiðum hægri-krata.
Föstudagur 22. nóvember, 2002
Fór klukkan 16.00 í þátt Hallgríms Thorsteinssonar á útvarpi Sögu og hitti þar Stefán Hrafn Hagalín, sem ákvað þennan dag að ganga í Sjálfstæðisflokkinn og Eirík Bergmann Einarsson, en þeir Stefán Hrafn stóðu að því á sínum tíma að koma á vefsíðunni Kreml.is
Föstudagur 22. nóvember
Prófkjör sjálfstæðismanna hófst klukkan 12.00 og stóð til klukkan 21.00 þennan föstudag.
Eftir hádegi var ég á kosningaskrifstofu minni en skrapp frá milli 16.00 og 17.00 til að taka þátt í umræðuþætti um fréttir vikunnar hjá Hallgrími Thorsteinssyni á útvarpi Sögu með þeim Eiríki Bergmann Einarssyni og Stefáni Hrafni Hagalín, sem ákvað að yfirgefa Sjálfstæðisflokkinn þennan dag og ganga í Sjálfstæðisflokkinn.
Þeir Eiríkur Bergmann og Stefán Hrafn höfðu verið félagar innan Samfylkingarinnar og stofnuðu meðal annars vefsíðuna Kreml.is
Laugardagur 16.11.2002
Klukkan 12.00 fór ég á fund hjá Verði í Valhöll, þar sem fjallað var um flokkstarf okkar sjálfstæðismanna í Reykjavík. Klukkan 17.00 þáði ég boð á prófkjörshátíð í skrifstofu Sigurðar Kára Kristjánssonar í Bankastræti.
Miðvikudagur 13.11.2002
Klukkan 12.00 var haldinn eigendafundur Orkuveitu Reykjavíkur vegna beiðni Garðabæjar um að selja hlut sinn í fyrirtækinu. Fundurinn var í svonefndu stöðvarstjórahúsi í Elliðaárdalnum, það er húsi, sem hefur verið breytt í fundar- og móttökuhús fyrir Orkuveituna.
Sunnudagur 10.11.2002
Eftir að hafa verið síðdegis á kosningaskrifstofunni fór ég um kvöldið og sá nýjustu kvikmynd Clints Eastwoods í Kringlubíói. Hún heitir Blood Work á ensku, en heitið er ekki íslenskað á henni frekar en alltof mörgum öðrum kvikmyndum. Ég er hissa á því, hvað gagnrýnendur höfðu litla ánægju af myndinni.
Laugardagur 9.11.2002
Opnaði prófkjörsskrifstofu mína að Sætúni 8 klukkan 16.00 og var ánægður með hve margir litu þar inn. Hafsteinn Þór Hauksson laganemi er kosningastjóri minn en auk þess annast Hrafn Þórisson mágur minn um rekstur skrifstofunnar. Pjetur Stéfánsson myndlistarmaður lánaði mér málverk og einnig setti ég þar upp vatnslitamynd, sem Karólína Lárusdóttir gerði í tilefni fyrsta prófkjörs míns 1990 og heitir Ýtt úr vör. Myndin sýnir nokkra stuðningsmenn mína ýta mér á flot.
Fimmtudagur 7.11.2002
Klukkan 13.30 hófst fjármálaráðstefna Sambands íslenskra sveitarfélaga að Hótel Sögu. Klukkan 17.00 var borgarstjórnarfundur og þar var einkum rætt um orkumál. R-listinn fer undan í flæmingi vegna þeirra og er greinilegt, að ekki líður öllum þar vel, þegar Alfreð Þorsteinsson flytur sínar sérkennilegu ræður.
Miðvikudagur 6.11.2002
Sótti klukkan 10.15 fund í utanríkismálanefnd og hitti þar fulltrúa Norður-Atlantshafsþingflokksins frá Færeyjum og Danmörku á danska þinginu. Flutti í hádeginu ræðu hjá félagi forstöðumanna ríkisstofnana um stöðu forstöðumanna gagnvart hinu pólitíska valdi. Fastir liðir eins og venjulega síðdegis: Þingflokksfundur Borgarstjórnarflokksfundur
Þriðjudagur 5.11.2002
Klukkan 09.00 var stjórnarfundur í Orkuveitu Reykjavíkur, þar sem við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins bókuðum vantraust á Alfreð Þorsteinsson stjórnarformann vegna ótrúlegra aðferða við fundarstjórn. Klukkan 11.00 hittumst við borgarráðsmenn Sjálfstæðisflokksins vegna fundar í borgarráði, sem hófst klukkan 12.00 og stóð til 16.25 en eftir hans hófst fundur í stjórnkerfisnefnd, sem stóð fram til klukkan 18.00.
Laugardagur 2.11.2002
Fyrir utan hefðbundinn fund klukkan 12.00 á þriðjudögum kom borgarráð saman í Ráðhúsinu klukkan 10.00 til að hlýða á skýrslur embættismanna vegna fjárhagsáætlunar fyrir 2003.
Föstudagur 1.11.2002
Klukkan 15.30 var athöfn á Reykjavíkurflugvelli, þar sem samgönguráðherra afhjúpaði hnitastein í tilefni af því, að lokið var endurgerð flugbrauta og öryggiskerfis á vellinum.
Miðvikudagur 30.10.2002
Var klukkan 11.00 í viðtalsþætti Arnrþrúðar Karlsdóttur á útvarpi Sögu og ræddum við einkum stjórnsýslu í Háskóla Íslands í tilefni af áliti umboðsmanns alþingis um lektorsveitingu í félagsvísindadeild.
Þriðjudagur 29.10.2002
Alþingi kom saman að nýju eftir kjördæmaviku og settist ég aftur þar eftir að hafa fengið leyfi vegna þátttöku í þingi Sameinuðu þjóðanna. Vegna fjarveru margra þingmanna á Norðurlandaráðsfundi var erfitt að hóa nógu mörgum saman til atkvæðagreiðslu, en tókst þó.
Föstudagur 25.10.2002
Var með viðtöl í skrifstofu minni í alþingi frá 10.30 fram í hádegið. Klukkan 17.00 var ég við athöfn í alþingishúsinu, þegar málverk af Ragnhildi Helgadóttur var afhjúpað.
Fimmtudagur 24.10.2002
Lagði fram framboð mitt í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík vegna þingkosninganna næsta vor.
Miðvikudagur 23.10.2002
Klukkan 17.00 var fundur í borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna, þar sem við löðgum á ráðin um afstöðu til mála og ræddum stefnumál okkar.