Dagbók: janúar 2001
Miðvikudagur 31.1.2001
Klukkan 17.00 tók ég þátt í að opna Baugsskólann að Skútuvogi 6 í Reykjavík en hlutverk hans er að mennta starfsmenn Baugs samkvæmt námskrá, sem fyrirtækið hefur gert.
Þriðjudagur 30.1.2001
Klukkan 14.00 fórum við Jóhanna María aðstoðarmaður minn í heimsókn í Nýja tðlvu- og viðskiptaskólann (NTV) í Kópavogi og Hafnarfirði.
Laugardagur 27.1.2001
Síðdegis voru þrír góðir starfsmenn á skrifstofu Sjálfstæðisflokksins í Valhöll kvaddir við hátíðlega athöfn. Már Jóhannsson hafði starfað lengst þeirra eða í 56 ár.
Föstudagur 26.1.2001
Fórum á frumsýningu á verkinu Já, hamingjan eftir Kristján Þórð Hrafnsson á Litla sviði Þjóðleikhússins.
Fimmtudagur 25.1.2001
Fór að Bifröst og ritaði þar undir þriggja ára samning um kennslu í viðskiptaháskólanum og tók þátt í málþingi um framtíð skólans. Á leiðinni hafði ég viðdvöl í Reykholti og skoðaði umbætur á gamla skólahúsinu þar.
Þriðjudagur 23.1.2001
Þingfundur allan daginn og upp úr miðnætti kom öryrkjafrumvarpið til lokaafgreiðslu.
Mánudagur 22.1.2001
Umræður voru um öryrkjamál á alþingi fram á kvöld og málinu vísað til 3ju umræðu.
Sunnudagur 21.1.2001
Fór klukkan 14.00 á frumsýningu á Blá hnettinum eftir Andra Snæ Magnason í Þjóðleikhúsinu og var gerður góður rómur að sýningunni. Um kvöldið voru tónleikar Kammersveitar Reykjavíkur í Listasafni Íslands.
Laugardagur 20.1.2001
Klukkan 13.15 var aðalfundur Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík. Klukkan 14.15 vorum við Rut í Ásmundarsafni, þar sem Páll Guðmundsson frá Húsafelli opnaði sýningu. Klukkan 15.00 vorum við í Listasafni Íslands, þar sem þýski sendiherrann opnaði sýningu á verkum Gerhards Richters og auk þess var opnuð sýning á verkum Jóns Stefánssonar og innsetningu eftir Rúrí. Um kvöldið var ég á þorrablóti sjálfstæðismanna í Reykjavík.
Föstudagur 19.1.2001
Klukkan 15.00 efndi ég til árlegs samráðsfundar við stjórn Bandalags íslenskra listamanna ásamt með starfsmönnum menntamálaráðuneytisins. Um kvöldið var ég heiðursgestur á herrakvöldi Lions-klúbbsins Njarðar.
Fimmtudagur 18.1.2001
Klukkan 15.30 tók ég skóflustungu að nýbyggingu við Kennaraháskóla Íslands við Stakkahlíð. Klukkan 17.00 var ég á Bessastöðum, þegar afhent voru nýsköpunarverðlaun forseta Íslands. Klukkan 20.15 voru greidd atkvæði um að vísa frumvarpinu vegna öryrkjadómsins til 2. umræðu og náði ég eftir það á seinni hluta tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands undir stjórn Vladimirs Ashkenazys.
Miðvikudagur 17.1.2001
Hitti um kvöldið Þórunni og Vladimir Ashkenazy og kynnti meðal annars fyrir honum stöðu tónlistarhússins, en hann er mikill áhugamaður um að það rísi og ráðlagði mér á sínum tíma, að við skyldum leita til Artec-fyrirtækisins í New York um ráðgjöf vegna hljómburðar og verða kröfur þeirra hafðar að leiðarljósi.
Þriðjudagur 16.1.2001
Svaraði síðdegis fyrirspurn á alþingi frá Þorgerði K. Gunnarsdóttur um skil á forngripum frá Danmörku. Sá kínversku kvikmyndina Skríðandi tígur, falinn dreki og stóð hún undir væntingum ekki síst vegna þess að ég setti hana í samhengi við qigong-æfingarnar sem undirstöðu kínverskrar bardagalistar auk boðskaparins um baráttu góðs og ills.
Mánudagur 15.1.2001
Klukkan 12.30 var þingflokksfundur sjálfstæðismanna en klukkan 13.30 hófst sögulegur þingfundur, þegar stjórnarandstaðan hafnaði afbrigðum svo að unnt væri að flýta afgreiðslu frumvarpsins vegna öryrkjadómsins.
Föstudagur 12.1.2001
Klukkan 17.00 efndi Námsgagnastofnun til árlegrar móttöku sinnar fyrir þá, sem unnið hafa að verkefnum fyrir hana á liðnu ári.
Miðvikudagur 10.1.2001
Ríkisstjórnarfundi var frestað frá þriðjudegi til miðvikudags vegna þess að lengri tíma þurfti en ráðgert var til að ganga frá frumvarpi vegna dóms hæstaréttar í öryrkjamálinu svonefnda. Var fundurinn haldinn kl. 9.30. Klukkan 11.30 hitti ég nefnd, sem starfað hafði á mínum vegum og litið til þess, hvernig stækka mætti Þjóðarbókhlöðuna og reisa hús yfir stofnanir á sviði íslenskra fræða. Skilaði nefndin tillögum sínum. Klukkan 12.00 var þingflokksfundur sjálfstæðismanna til að ræða frumvarpið, sem ríkisstjórnin samþykkti fyrr um daginn um málefni öryrkja. Klukkan 14.00 var fundur með skólameisturum framhaldsskólanna eða fulltrúa þeirra haldinn í menntamálaráðuneytinu, þar sem við fórum yfir nýgerðan kjarasamning og gang samningaviðræðna frá okkar bæjardyrum í ráðuneytinu.
Þriðjudagur 9.1.2001
Klukkan 14.00 flaug ég til Akureyrar en klukkan 15.00 ritaði ég undir samning við Þorstein Gunnarsson rektor Háskólans á Akureyri um árangurssstjórnun í skólanum næstu þrjú ár og fjárveitingar vegna hennar. Klukkan 15.30 var efnt til kynningarfundar í Háskólanum á Akureyri á rannsókna- og nýsköpunarhúsi við skólann, sem ætlunin er að reisa í einkaframkvæmd. Kom aftur til Reykjavíkur kl. 19.00 en klukkan 20.00 var ég í Laugardalshöll á landsleik Íslendinga og Frakka í handknattleik, sem við töpuðum með tveggja marka mun.
Mánudagur 8.1.2001
Framhaldsskólarnir komu aftur til starfa eftir verkfall frá 7. nóvember. Ritað var undir samninga um kvölmatarleytið 7. janúar. Klukkan 19.30 var ég í Kastljósi í sjónvarpinu með Elnu Katrínu Jónsdóttur, formanni Félags framhaldsskólakennara, þar sem við ræddum stöðuna að loknu verkfalli.
Föstudagur 5.1.2001
Klukkan 16.30 var athöfn í Höfða til að ljúka menningarborgarverkefninu með formlegum hætti og því til staðfestingar rituðum við Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri undir samkomulag um Menningarborgarsjóð, sem starfa mun í tengslum við Listahátíð í Reykjavík. Klukkan 17.00 var ég í húsi Háskóla Íslands, Odda, þar sem var að ljúka ráðstefnu lækna og fleiri um rannsóknir. Kom það í minn hlut að slíta henni og veita ungum vísindamanni, Haavard Jakobsen verðlaun.
Miðvikudagur 3.1.2001
Klukkan 18.00 efndi Karlakór Reykjavíkur til 75 ára afmælishátíðar í tónlistarhúsi sínu Ými og kom það meðal annars í minn hlut að flytja þar ávarp.
Mánudagur 1.1.2001
Klukkan 15.00 var hin hefðbundna móttaka forseta Íslands að Bessastöðum, en þaðan fórum við Davíð Oddsson í heimsókn til Karmelsystra í Hafnarfirði. Var það í fyrsta sinn sem Davíð heimsótti klaustrið en þangað hef ég farið öðru hverju í meira en áratug með Gunnari Eyjólfssyni leikara.