10.1.2001 0:00

Miðvikudagur 10.1.2001

Ríkisstjórnarfundi var frestað frá þriðjudegi til miðvikudags vegna þess að lengri tíma þurfti en ráðgert var til að ganga frá frumvarpi vegna dóms hæstaréttar í öryrkjamálinu svonefnda. Var fundurinn haldinn kl. 9.30. Klukkan 11.30 hitti ég nefnd, sem starfað hafði á mínum vegum og litið til þess, hvernig stækka mætti Þjóðarbókhlöðuna og reisa hús yfir stofnanir á sviði íslenskra fræða. Skilaði nefndin tillögum sínum. Klukkan 12.00 var þingflokksfundur sjálfstæðismanna til að ræða frumvarpið, sem ríkisstjórnin samþykkti fyrr um daginn um málefni öryrkja. Klukkan 14.00 var fundur með skólameisturum framhaldsskólanna eða fulltrúa þeirra haldinn í menntamálaráðuneytinu, þar sem við fórum yfir nýgerðan kjarasamning og gang samningaviðræðna frá okkar bæjardyrum í ráðuneytinu.