Dagbók: maí 2006

Miðvikudagur, 31. 05. 06. - 31.5.2006 21:29

Í Morgunblaðinu í dag birtist á þingfréttasíðu mynd af Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra, þar sem hún situr að því er virðist frekar döpur í bragði í ráðherrastól sínum á þingi og við borðið fyrir framan hana stendur Birgir Ármannsson alþingismaður fremur þungbrýnn. Með myndinni er þessi fyrirsögn:

Sátu undir harðri gagnrýni

og síðan texti, sem hófst á þessum orðum:

„Stjórnarandstaðan gagnrýndi framgöngu ríkisstjórnarflokkanna harðlega í gær og sökuðu þá um hrossakaup. Á myndinni hlusta Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og flokksbróðir hennar Birgir Ármannsson á ræður...“

Ég sat undir þessum ræðum stjórnarandstöðunnar, á meðan henni var heitast í hamsi, en ég varð ekki var við, að hún veittist sérstaklega að þeim Þorgerði Katrínu og Birgi eins og myndin, fyrirsögnin og textinn gáfu til kynna. Mér þótti með öðrum orðum gefin af þeim óverðskulduð mynd á þingfréttasíðunni.

Ég svaraði í dag fyrirspurn Björgvins G. Sigurðssonar. þingmanns Samfylkingarinnar, um hugverkastuld og vék ég þar sérstaklega að hugbúnaðarstuldi og nýlegri alþjóðlegri samanburðarskýrslu um hann og lét ég þess getið, að  íslenskir fulltrúar þeirra, sem stóðu að skýrslunni, hlytu að birta niðurstöður varðandi Ísland og var það gert, eftir að umræðunum lauk. Þar kemur enn fram, að hugbúnaðarþjófnaður er hér meiri en í nágrannalöndunum og erum við líkari Asíuþjóðum en Norðurlandabúum í þessu efni. Alþingi samþykkir vonandi núna frumvarp frá mér, sem á að auðvelda eigendum höfundarréttar á þessu sviði að gæta þessa réttar síns.

Glöggur vefsíðulesandi vakti athygli mína á því, að Össur Skarphéðinsson hefði ekki sagt eitt aukatekið orð um sveitarstjórnarkosningarnar, eftir að úrslitin lágu fyrir. Þögn hans á vefsíðunni ossur.is er líklega virðingarvottur við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og formannstíð hennar. Nema honum hafi brugðið svona mikið við úrslitin, að hann treysti sér alls ekki til að tjá sig um þau - kallar Össur þó ekki allt ömmu sína í þeim efnum.

 

 

Þriðjudagur, 30. 05. 06. - 30.5.2006 9:27

Þing kom saman að nýju kl. 13. 30 í dag og hófst fundurinn á löngum umræðum um störf þingsins og fundarstjórn forseta eins og þeir liðir heita í þingsköpum, sem notaðir eru til að leyfa stjórnarandstöðunni að blása, þegar henni liggur mikið á hjarta. Nú snerust umræður hennar um svonefnt nýsköpunarfrumvarp Valgerðar Sverrisdóttur og mátti ætla, að afgreiðsla þess úr iðnaðarnefnd mánudaginn 29. maí hefði verið eitthvert voðaverk. Stjórnarandstöðunni þótti það stappa nærri pólitísku hneyksli, að ráðherrar skyldu hafa rætt saman um frumvarpið, eftir að það var komið til iðnaðarnefndar og komið sér saman um breytingar á því til að styrkja stuðning við það meðal stjórnarliða. Taldi Steingrímur J. Sigfússon þetta mikla niðurlægingu fyrir alþingi og móðgun af hálfu framkvæmdavaldsins - honum þótti það hins vegar líklega ekki móðgun við þingheim, þegar hann sagði, að við afgreiðslu málsins úr iðnaðarnefnd hefðu „atkvæðavélar“ verið kallaðar á vettvang en með orðinu vísaði hann til samþingmanna sinna.

Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sá tengsl á milli afgreiðslu málsins úr iðnaðarnefnd og að sjálfstæðismenn og framsóknarmenn hefðu myndað meirihluta í borgarstjórn sama daginn. Varð henni tíðrætt um „helmingaskiptakló“ flokkanna af þessu tilefni og talaði um það fyrirbrigði af nokkrum ótta. Í kvöld var Katrín síðan komin í Kastljósið til að ræða kenningu sína um þessi ógurlegu tengsl við Gísla Martein Baldursson, borgarfulltrúa sjálfstæðismanna, sem kom augsýnilega af fjöllum, þegar þessi mikla samsæriskenning var undir hann borinn - hann hefði tekið þátt í viðræðum um myndun nýr meirihluta í borgarstjórn og þetta mál hefði bara alls ekki borið neitt á góma - kenning Katrínar væri algjörlega úr lausu lofti gripinn.

Stjórnandi umræðna þeirra Katrínar og Gísla Marteins, Sigmar Guðmundsson, nálgaðist viðfangsefnið eins og þarna væri verið að ræða stórpólitískar uppljóstranir - þetta hefði jú gerst sama daginn! Gísli Marteinn sagði réttilega, að margt hefði gerst þennan dag, án þess að það tengdist myndun meirihluta í borgarstjórn og afgreiðsla iðnaðarnefndar væri eitt af því.

Ég sat þingflokksfund sjálfstæðismanna í gær, þar sem rætt var um afgreiðslu nýsköpunarfrumvarpsins og væntanlega iðnaðarnefndarfund, sem ákveðinn hafði verið mörgum vikum fyrir borgarstjórnarkosningar. Hefði einhver á þingflokksfundinum nálgast viðfangsefnið á þann veg, að afgreiða yrði málið úr nefnd til að unnt væri að mynda meirihluta í Reykjavík, er ég viss um, að það hefðu verið talin fjarstæðukennd rök, enda vissi þingflokkurinn ekki annað en viðræður stæðu yfir milli sjálfstæðismanna og frjálslyndra.

Lesa meira

Mánudagur, 29. 05. 06. - 29.5.2006 21:16

Þingflokkur sjálfstæðismanna hittist klukkan 12.00 og ræddi komandi þingfundi.

Miðstjórn Sjálfstæðisflokksins kom saman kl. rúmlega 15.00 og í upphafi fundar skýrði Geir H. Haarde frá því, að náðst hefði samkomulag milli sjálfstæðismanna og framsóknarmanna um meirihlutasamstarf í Reykjavík. Í bílnum á leiðinni á fundinn heyrði ég Ólaf F. Magnússon, leiðtoga frjálslyndra, barma sér yfir því. að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson hefði slitið við sig meirihlutaviðræðum þá skömmu áður og síðan hefur mátt heyra Ólaf F. lýsa því í smáatriðum, hvernig tímasetningum á fundum þeirra Vilhjálms var háttað, þau Margrét Sverrisdóttir hefðu meira að segja orðið að bíða vansvefta og vannærð í tvo tíma á heimili Ólafs F. að kvöldi sunnudagsins 28. maí, en þá hefði Vilhjálmur Þ. lofað að hitta sig eftir að þeir luku þátttöku í Kastljósi sjónvarpsins. Var helst að skilja, að þau Margrét hefðu, og væru þau ekkert rugluð, eins og Ólafur F. margítrekaði, verið aðframkomin, þegar Vilhjálmur Þ. loksins birtist. Hjá Vilhjálmi Þ. hefur komið fram, að á heimili Ólafs F. hefðu jafnan verið blaðaljósmyndarar ef ekki sjónvarpsmenn, þegar hann hefði komið þangað  Ólafur F. var á fundi með vinstri flokkunum í borgarstjórn fyrir hádegi sunnudaginn 28. maí og segja þau Björn Ingi Hrafnsson, Framsóknarflokki, og Svandís Svavarsdóttir, vinstri/græn, að um hádegi hafi Ólafur F. beðið um matarhlé og samkvæmt orðum þeirra í kvöld mátti helst ætla, að þau teldu Ólaf F. enn í mat, en Ólafur F. sagði hins vegar að Dagur B. Eggertsson Samfylkingu vissi betur, enda færi þar heiðursmaður - annað yrði að segja um Vilhjálm Þ. og gæti hann, Ólafur F., ekki óskað Vilhjálmi Þ. til hamingju með að verða orðinn borgarstjóri, þótt þeir hefðu þekkst af góðu einu í 16 ár, hefðu atburðir dagsins orðið til að strika yfir öll þau góðu kynni.

Enginn lesenda síðu minnar ætti að undrast, að ég hafi haft efasemdir um tilgang þess að ræða við Ólaf F. um meirihlutasamstarf í borgarstjórn - helst kemur mér á óvart, að viðræðurnar stóðu þó þetta lengi, áður en ákvörðun var tekin um að slíta þeim.

Ég óska Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni og mínu góða samstarfsfólki í borgarstjórnarflokknum, sem ég er að kveðja, til hamingju með að hafa náð þessum áfanga. Ég er viss um, að þess sjást fljótt merki, að nýtt og stórhuga  fólk fer með stjórn borgarinnar.

Lesa meira

Laugardagur, 27. 05. 06. - 27.5.2006 1:00

Þegar hlustað er á spyrla í ljósavakamiðlum á kosningakvöldi, mætti ætla, að kosningar snerust um, hvort flokkum tækist að ná meira fylgi í kosningum en þeim er spáð samkvæmt könnunum. Að nálgast úrslit á þennan veg gefur alls ekki rétta mynd af hinni raunverulegri niðurstöðu. Stjórnmálamenn starfa samkvæmt því umboði, sem þeir fá í kosningum en tölur í könnunum eru aðeins vísbendingar um fylgi á þeim tíma, þegar kannað er.

Hvernig sem á málið er litið, er ekki unnt að líta á kosningaúrslitin í dag, laugardaginn 27. maí, á annan veg en þann, að Sjálfstæðisflokkurinn geti mjög vel við þau unað með hliðsjón af því, að hann hefur verið kjölfesta í ríkisstjórn síðan 1991. Sú skýring, að verið sé að refsa ríkisstjórninni og refsingin bitni á Framsóknarflokknum, segir jafnframt, að stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, Samfylkingin, sé ekki að styrkjast að sama skapi, hún er að tapa. Á landsvísu geta hvorki Framsóknarflokkur né Samfylking fagnað neinu eftir þessar kosningar, þótt flokkarnir geti á einstökum stöðum hampað viðunandi niðurstöðu.

Vinstri/græn styrkja stöðu sína. Nú reynir á, hvort þau eru til þess fallin að eiga raunhæft samstarf við aðra flokka, þar á meðal Sjáfstæðisflokkinn. Styrkur vinstri/grænna sýnir, að markmiðið með sameiningu vinstri manna í einn flokk hefur ekki náðst. Reynt hefur á vinstri/græn í meirihluta í ýmsum sveitarstjórnum, þar á meðal í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn í Skagafirði. Hvergi hefur hins vegar reynt á það, hvernig frjálslyndir reynast við stjórn sveitarstjórna – reynsla mín af framgöngu Ólafs F. Magnússonar í borgarstjórn Reykjavíkur hefur oftar en einu sinni orðið tilefni þungrar gagnrýni af minni hálfu.

Samfylkingarfólk talar um niðurstöðuna í Reykjavík á þann veg, að það haldi fjórum borgarfulltrúum í Reykjavík. Þetta er mikil ósvífni við fyrrverandi samstarfsmenn í R-listanum og lýsir aðeins þeim blekkingarleik, sem þar tíðkaðist, þegar rætt var um Ingibjörgu Sólrúnu og Dag B. sem hlutlaus,

Ég kveð borgarstjórn Reykjavíkur sáttur við niðurstöðuna í kosningunum í dag. Markmið mitt með framboði til borgarstjórnar árið 2002 var að fella meirihluta R-listans – hann er splundraður og úr sögunni og Samfylkingunni hefur mistekist að ná 30% markinu í Reykjavík til staðfestingar á því, að flokkurinn sé kominn í meistaradeildina. Ég kveð borgarstjórn sáttur í fullvissu þess, að sjálfstæðismenn eigi eftir að leiða meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Við sjálfstæðismenn erum enn að glíma við þann vanda, sem myndaðist með því að Ólafur F. Magússon klauf Sjálfstæðisflokkinn fyrir kosningarnar 2002 – þar er að finna skýringuna á því, hvers vegna við erum að berjast við að halda fylginu yfir 40% mörkin.

 

 

Föstudagur, 26. 05. 06. - 26.5.2006 23:10

Kosningabaráttunni lauk í kvöld með því að efstu menn listanna í Reykjavík sátu fyrir svörum í Kastljósi. Eftir allar skoðanakannanirnar og talið í kringum þær, var ég að velta fyrir mér, hvort ég ætti að sitja áfram fyrir framan sjónvarpið, þegar helst virtist sem umræðurnar ættu að snúast um kannanirnar - það er engu líkara stundum en kosningabaráttan sé um það, hver komi best út í könnunum og síðan eru úrslitin metin eftir því, hvernig atkvæði falla miðað við kannanir. Ég held, að hvergi annars staðar séu stjórnmálaumræður einfaldaðar á þennan hátt í fjölmiðlum. Alls staðar leitast fréttamenn við að leggja eitthvað annað til grundvallar en kannanir, þegar þeir ræða við stjórnmálamenn.

Þátturinn tók sem betur fer aðra stefnu og rætt var um málefni. Enn og aftur kom í ljós, að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson hefur mesta reynslu og þekkingu á málefnum Reykjavíkurborgar af þessum frambjóðendum og veit einnig um hvað hann er að tala, þegar hann ræðir einstök málefni. Megi honum og D-listanum ganga allt í haginn!

Fimmtudagur, 25. 05. 06. - 25.5.2006 21:53

Fórum og skoðuðum útskriftarsýningu nemenda í Listaháskóla Íslands í Listasafni Reykjavíkur í Hafnarhúsinu.

Ég heimsótti nokkrar kosningaskrifstofur Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og kynntist góðum baráttuanda þar.

Af því, hvernig samherjar Dags B. Eggertssonar rita um hann í Morgunblaðinu þessa síðustu daga fyrir kjördag, má draga þá ályktun, að þeir telji hann hafa farið halloka í kosningabaráttunni. Mér sýndist hann ekki heldur ná sér neitt á strik á kosningafundi NFS í Gyllta salnum á hótel Borg í kvöld. Tilraunir Dags B. til að gera lítið úr skoðunum Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar eða sjálfstæðismanna og láta eins og þeir séu marklitlir, vegna þess að þeir séu í of hlutlausum gír, finnst mér grátbroslegar, þegar ég hugsa til þess, hvernig Dagur B. talaði í kosningabaráttunni 2002 og taldi sér það helst til ágætis, að vera ekki í neinum stjórnmálaflokki heldur óháður og hlutlaus.

Til marks um veikleikamerki í baráttunni til að auka vinsældir Dags B. má nefna innrammaða stuðningsyfirlýsingu Þórólfs Árnasonar í Morgunblaðinu í dag. Menn þurfa ekki að hafa tekið oft þátt í kosningabaráttu til að átta sig á því, að ekki er óskað eftir yfirlýsingu af þessu tagi, nema fokið sé í flest skjól. Þá var skrýtið lesendabréfið í Morgunblaðinu þar sem óskað var eftir endursýningu á þættinum Sjálfstætt fólk með Degi B. á Stöð 2I, af því að Dagur B. hefði staðið sig svo afburðavel í þættinum. Bréfritari ritar bréfið í trausti þess, að þátturinn verði aldrei endursýndur, enda er það ekki hið raunverulega markmið hans, heldur hitt að koma því að hjá lesendanum, að Dagur B. hafi staðið sig vel, en sú skoðun gengur þvert á umræður meðal almennings um þáttinn.

Þetta er sérkennileg kosningataktík, svo að ekki sé meira sagt.

Björn Ingi Hrafnsson var kampakátur í NFS í kvöld, enda sýndi Gallup könnun, að hann væri að skríða inn í borgarstjórn á kostnað 8. manns Sjálfstæðisflokksins - svo segja framsóknamenn, að sjálfstæðismenn séu að hafa af þeim fylgið og bera sig aumlega! Í Reykjavík er vandi framsóknarmanna sá, að enginn veit almennilega fyrir hvað þeir standa í borgarmálum, þegar Alfreð Þorsteinsson er ekki lengur hið gamalkunna andlit þeirra.

Miðvikudagur, 24. 05. 07. - 24.5.2006 22:21

Fylgi flokkanna í Reykjavík breytist lítið samkvæmt Gallup í dag - hagur framsóknar vænkast þó aðeins.

Evrópunefnd kom saman í hádeginu.

Við Rut fórum klukkan 16.30 í Borgarleikhúsið og vorum þar við slit Listaháskóla Íslands (LHÍ) í boði Hjálmars H. Ragnassonar rektors en undir forystu hans hefur skólinn vaxið og dafnað hraðar en ég held, að nokkur hafi vænst, þegar hann tók til starfa árið 1999. Bar skólaslitaathöfnin þess merki af hve miklum metnaði allt er gert innan veggja hans - nú útskrifuðust kennarar í listgreinum, tónlistarmenn, myndlistarmenn, hönnuður og þar á meðal arkitektar, listdansarar og leikarar. Við athöfnina voru rektorar norrænu arkitektaskólanna.

Brýnt er að tekið verði af skarið um framtíðarsamstað LHÍ, svo að það markmið náist, sem býr að baki hugmyndinni um sameinaðan háskóla allra listgreina, að hinn dýnamiski sameinaði kraftur þeirra allri auki enn á sköpunarþróttinn í einstökum greinum. Ég kann vel við skólann í nágrenni dómsmálaráðuneytisins og menntamálaráðuneytisins við Sölvhólsgötu og þar er raunar kjörinn staður fyrir hann allan, ef vilji er til að hafa hann í nágrenni miðborgarinnar.

Þegar ég hugsa um lóðamál LHÍ minnist ég fundar í menntamálaráðuneytinu, þegar mér var sagt frá því, að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þáverandi borgarstjóri, hefði boðið skólanum lóð á Miklatúni. Ég sagði viðmælendum mínum, að við þetta boð yrði aldrei staðið - LHÍ myndi aldrei rísa á þessum stað. Raunar skil ég ekki enn þann dag í dag, hvernig borgarstjóra datt í hug að blekkja stjórnendur LHÍ með svona gylliboði, án þess að í raun nokkuð stæði á bak við það. Þannig hefur Reykjavíkurborg því miður verið stjórnað í 12 ár undir R-listanum - einhverju er slegið fram, án þess að fyrir því sé nokkur önnur innistæða en viðleitni til að klóra í bakkann.

Þriðjudagur, 23. 05. 06. - 23.5.2006 22:31

Var klukkan 14.00 í Njarðvík, þar sem við Jón Eysteinsson sýslumaður opnuðum nýja framleiðslustofu vegabréfa með örgjörva og ég afhenti fyrsta vegabréfið. Ég heyrði, að í fréttum hljóðvarps ríkisins kl. 18.00 hefði Guðrún Ögmundsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, talið lög ekki standa til útgáfu nýju vegabréfanna, af því að frumvarp um vegabréf hefði ekki verið afgreitt á alþingi.

Meginnýmæli frumvarpsins er að veita heimild til að skrá fingraför í vegabréf en það verður ekki gert fyrr en 2009, svo að það kemur ekki að sök, að heimildin hafi ekki enn verið samþykkt. Þá er í lögunum gert ráð fyrir að útgáfa vegabréfanna færist frá útlendingastofnun til þjóðskrár og hefur það verið leyst með samningi, þar til lög mæla fyrir um flutninginn.

Mér þótti skrýtið, að misskilningur Guðrúnar um lögheimildir var endurtekinn í fréttum kl. 22.00, þótt fréttamaður hefði hringt í mig og fengið vitneskju um lögheimildir fyrir þann fréttatíma. Hitt er  raunar einnig skrýtið, að fréttastofan skyldi ekki leita skýringa dómsmálaráðuneytis á orðum Guðrúnar, áður en þau voru flutt.

Össur Skarphéðinsson ritaði grein í Morgunblaðið 22. maí til að hræða fólk frá því að kjósa vinstri/græna, af því að þeir ætluðu að starfa með sjálfstæðismönnum í borgarstjórn. Síðan hefur fylgi v/g og sjálfstæðismanna vaxið dag frá degi samkvæmt könnunum og í dag segir Gallup að Samfylking fái ekki nema 25% og 4 menn í Reykjavík. Össur ætti að rita nýja grein um málið í Morgunblaðið.

Mánudagur, 22. 05. 06. - 22.5.2006 20:09

Fréttir af erindi Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings um símahleranir í kalda stríðinu hljóma eins og aldrei hafi heyrst um, að símar hafi verið hleraðir á þessum árum. Sérstaklega er skrýtið að hlusta á hina gömlu sósíalista og alþýðubandalagsmenn tala eins og símahleranir komi þeim algjörlega í opna skjöldu. Þeir hömruðu þó á því sýknt og heilagt á þessum árum, að stjórnvöld væru að alltaf að hlera síma. Hafi eitthvað komið þeim á óvart í erindinu væri það líklega, að skiptin eru sex og nákvæmlega tilgreind auk þess sem dómsúrskurður  er að sjálfsögðu að baki hverri heimild.

Ég svaraði fyrirspurnum Morgunblaðsins, Fréttablaðsins og fréttastofu hljóðvarps ríkisins um hlerunar-málið í dag. Ég heyrði í NFS-fréttum, að Kristinn Hrafnsson fréttamaður sagðist hafa sent mér tölvuskeyti um málið - hvaða netfang ætli hann hafi notað? Ég fékk skeytið að minnsta kosti ekki.

Hallgrímur Helgason rithöfundur segir frá því í Fréttablaðinu í dag, að hann hafi kosið D-listann í borgarstjórnarkosningunum 2002 og veltir því síðan fyrir sér, hvernig ég hefði orðið sem borgarstjóri. Ég færi Hallgrími síðbúnar þakkir fyrir stuðninginn - hugmyndir hans um breytingar á Reykjavíkurborg undir minni stjórn eru svo fráleitar, að ekki dygðu einu sinni 12 ár til að hrinda þeim í framkvæmd, hefði einhver vilja til þess, sem ég efa stórlega. Í grein Hallgríms kemur enn fram, að öll sýn hans á stjórnmál og stjórnmálamenn tók stakkaskiptum með Baugsmálinu svonefnda. Vona ég svo sannarlega, að hann taki gleði sína á ný, þótt síðar verði.

Sunnudagur, 21. 05. 06. - 21.5.2006 23:01

RÚV sagði frá nýrri Gallup-könnun í Reykjavík:

Sjálfstæðisflokkurinn 43,4% 7 menn
Samfylkingin 32,1% 6 menn
Vinstri-grænir 10,7% 1 mann
Frjálslyndi flokkurinn 10,0% 1 mann
Framsóknarflokkurinn 3,9% engan mann.

Ég lýsi eins og áður undrun yfir, að Ólafur F. skuli vera að fá svona mikið fylgi - störf hans í borgarstjórn undanfarin fjögur ár réttlæta það alls ekki. Hætta er á því, að hið sama endurtaki sig nú og árið 2002, að framboð Ólafs F. verði til þess að reita fylgi af Sjálfstæðisflokknum á lokasprettinum.

Fór í kvöld á tónleika Kammersveitar Reykjavíkur á listahátið en þeir voru helgaðir 250 ára afmæli Mozarts og voru þau Una Sveinbjarnardóttir fiðluleikari, Einar Jóhannesson klarínettuleikari og Víkingur Ólafsson píanóleikari einleikarar auk þess sem þau stjórnuðu hvert um sig „sínu“ verkiþ Langholtskirkja var þéttsetin og ríkti mikil hrifning meðal áheyrenda.

Laugardagur, 20. 05. 06. - 20.5.2006 19:26

Björn Ingi Hrafnsson, frambjóðandi Framsóknarflokksins í Reykjavík, kýs að gera farsælt ríkisstjórnarsamstarf að umræðuefni  í borgarstjórnarkosningabaráttunni, væntanlega til að ná í atkvæði, sem ella mundu renna til Sjálfstæðisflokksins. Framsóknarflokkurinn eigi einnig að njóta þess, sem ríkisstjórnin hafi áorkað. - ekki aðeins Sjálfstæðisflokkurinn.

Vandinn við þennan málflutning er, að kjósendur í Reykjavík eru að taka afstöðu til setu Framsóknarflokksins í borgarstjórn eftir 12 ára samstarf hans innan R-listans, það er við Samfylkinguna og vinstri/græna síðan þeir flokkar komu til sögunnar. Það sýnir ekki mikla trú á afrek undir merkjum R-listans, að grípa til þess ráðs viku fyrir kjördag, að biðla til kjósenda í nafni ríkisstjórnarsamstarfsins.

Ef framsóknarmenn vilja finna blóraböggul í tilefni af skoðanakönnunum um fylgi flokkanna í borgarstjórnarkosningunum, ættu þeir að snúa sér að samstarfsflokkum sínum í borgarstjórn undir merkjum R-listans.

Föstudagur, 19. 05. 06. - 19.5.2006 22:39

Skondið er að fylgjast með viðbrögðum samfylkingarfólksins Dags B. Eggertssonar og Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur borgarstjóra við samgöngustefnunni, sem R-listinn samþykkti í borgarstjórn sl þriðjudag, en meginmarkið stefnunnar er að sporna gegn notkun fjölskyldubílsins.

Mér þótti undarlegt, að þessi tillaga væri tekin til umræðu og afgreiðslu á síðasta borgarstjórnarfundi fyrir kosningar. Þar munu hagsmunir vinstri/grænna líklega hafa ráðið, því að þeir hafa í 12 ár háð heilagt stríð gegn fjölskyldubílnum í borgarstjórn og nú hafa þeir vafalaust viljað nýta síðasta tækifæri sitt í borgarstjórn til að hafa frumkvæði að enn einni umræðunni um málið. Auðvitað hefði verið unnt að stöðva þá innan R-listans sáluga, ef vilji hefði verið til þess.

Spyrja má vegna viðbragða samfylkingarfólksins, eftir að það samþykkti tillögu vinstri/grænna, hvers vegna þau Dagur og Steinunn Valdís tóku ekki af skarið um gjaldskyldu eða ekki á bílastæðum stofnana borgarinnar og við framhaldsskóla og háskóla, áður en tillagan kom til atkvæða. Bæði Björk Vilhelmsdóttir, samfylkingarkona, og Árni Þór Sigurðsson, vinstri/grænn, túlka samþykktina á þann veg, að í henni felist skref til gjaldskyldu starfsmanna borgarinnar og skólanema.

Dagur B. Eggertsson var ekki á fundi borgarstjórnar, þegar samgöngustefnan var þar til umræðu og afgreiðslu. Mörg ummæli hans um stefnuna og framkvæmdaáætlunina á grundvelli hennar bera þess merki, að hann viti ekki um, hvað málið snýst. Þrátt fyrir fjarveru sína hefur Dagur B. verið iðinn við að segja fjölmiðlum frá því, hvað gerðist á borgarstjórnarfundinum.

Ný skoðanakönnun Fréttablaðsins, sem birtist í dag sýnir enn á ný sterka stöðu Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Framsóknarflokksfylgið minnkar á nýjan leik en frjálslyndir fá meira fylgi en áður. Eftir að hafa fylgst með málflutningi frjálslyndra í borgarstjórn í fjögur ár, er mér hulin ráðgáta, hvers vegna fylgi þeirra mælist nú um 7% í skoðanakönnun.  Óvild Ólafs F. Magnússonar í garð fyrrverandi flokksfélaga sinna innan Sjálfstæðisflokksins er ekki jafnáberandi nú og fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar eða oft á kjörtímabilin. Líklega gerir Ólafur F. sér von um einhvers konar samstarf við Sjálfstæðisflokkinn að kosningum loknum. Hann veit sem er, að fyrir smáflokk er ekkert upp úr því að hafa að friðmælast við þá, sem mælast með álíka mikið fylgi og hann eða Samfylkingin.

Fimmtudagur, 18. 05. 06. - 18.5.2006 22:06

Silvía Nótt komst ekki áfram í Evróvisjón á Aþenu í kvöld. Egill Helgason, sem þekkir Grikki, telur, að hún hafi gengið fram af þeim. RÚV hefur eftir BBC í fréttum klukkan 22.00, að Silvía Nótt hafi átt skilið baulið, sem hún fékk, þegar hún gekk fram á sviðið og yfirgaf það. Var spaugið henni of dýrkeypt?

Flutti klukkan 18.00 ræðu á Selfossi við upphaf 12. norrænu ráðstefnunnar um menntun í fangelsum.

Samfylkingarfólkið í framboði til borgarstjórnar heldur áfram að stökkva upp á nef sér vegna þess, að á það er bent, að R-listinn sé að velta fyrir sér gjaldtöku af nemendum og starfsmönnum Reykjavíkurborgar fyrir afnot af bílastæðum - gjaldtöku, sem virðist eiga annars vegar að fæla fólk frá því að nota einkabílinn og hins vegar að skapa meiri hreyfanleika á bílastæðum.

Hvað sem Steinunn Valdís og Dagur B. segja, er ljóst, að flokkssystir þeirra og meðframbjóðandi, Björk Vilhelmsdóttir, er málsvari þessarar gjaldtöku og sömu sögu er að segja um Árna Þór Sigurðsson, vinstri/grænum, sem flutti tillöguna um stefnu í samgöngumálum, sem R-listinn samþykkti í borgarstjórn sl. þriðjudag - en þar er gert ráð fyrir þessari gjaldtöku.

Í framkvæmdaáætlun þessarar samgöngustefnu segir: „Reykjavíkurborg sýni fordæmi um gjaldskyld bílastæði við vinnustaði sína.“ Hvað þýðir stefna af þessu tagi, þegar hún er hluti af því markmiði „að draga úr hlutdeild einkabílsins“ eins og þessi kafli framkvæmdaáætlunarinnar heitir? Hér er ekki um fáein þúsund krónur á ári að ræða heldur þröskuld, sem knýr fólk til að hætta að nota fjölskyldubílinn. Markmiðið er einnig þetta: „Starfsmenn borgarinnar skulu virkjaðir sem fyrirmyndir á ferðum sínum um borgina.“ Undir fyrirsögn um átak gegn einkabílnum stendur einnig: „Skoða skal möguleikann á að taka upp gjaldtöku á bílkastæðum við framhaldsskóla og háskóla.“ Af orðum Árna Þórs má álykta, að hann ætli að nota tekjur af þessari gjaldtöku til að greiða niður leikskólagjöld.

Í framkvæmdaáætluninni má lesa þessa gullvægu setningu: „Göngustígar skulu lagðir með hag gangandi vegfarenda í huga.“ Það er hughreystandi fyrir okkur göngumenn, að þetta skuli áréttað.

Miðvikudagur, 17. 05. 06. - 17.5.2006 23:13

Hlustaði í hádeginu á dr. Guðrúnu Þórhallsdóttur í hugvísindadeild Háskóla Íslands flytja erindi í Rótraý-klúbbi Reykjavíkur um það, sem kallað er jafnrétti í tungumálinu og snýst um feminískar kröfur, sem byggjast á því, að stundum geti verið óljóst, hvort átt sé við karlmenn eingöngu eða bæði kynin, þar sem karlkyn hafi hlutleysishlutverk, það er karlkynsmyndir fornafna séu notaðar, þegar kynferði einstaklinga er ekki tilgreint: hlær best sem síðast hlær.

Þetta er forvitnilegt íhugunarefni, en viðleitni til að gera orð hlutlaus leiðir oft til sérkennilegrar niðurstöðu eins og þegar í ensku er hætt að tala um chairman - fundarstjóra - á fundum og þess í stað gjarnan notað orðið chair - stóll - í staðinn. Ég hef verið á fundum erlendis, þar sem enskumælandi fólk lýsir því við upphaf ræðu sinnar, að það mótmæli breytingum af þessu tagi og vilji frekar ávarpa mann en stól - þá grípa sumir til orðsins chairperson.

Ég man eftir því, að Eiður Guðnason sendiherra, fyrrverandi ráðherra, þingmaður og fréttamaður, ritaði um það vel rökstudda grein eða flutti um það ræðu, að sér þætti fráleitt að tala um þingkonu - orðið þingmaður næði jafnt til karla og kvenna á þingi. Við sjáum, að orðið þingmaður er nú á hröðu undanhaldi sem samheiti, því að orðið þingkona er æ oftar notað um konur í hópi þingmanna.

Á Rótarý-fundinum var vakið máls á því, að sérstaklega væri bagalegt, að ekki væru notuð önnur orð en ráðherra og sendiherra um konur í þeim stöðum. Ólafur Þ. Þórðarson alþingismaður ávarpaði Salóme Þorkelsdóttur forseta alþingis aldrei öðru vísi en herra forseti á sinni tíð og var ekki gerð athugasemd við það - nú hnussar í þingmönnum, ef einhver leyfir sér að segja annað en frú forseti, virðulegi forseti eða hæstvirtur forseti, ef kona situr í forsetastóli á þingi - gott ef ekki er slegið í forsetabjöllu, verði einhverjum á að segja herra forseti við konu á forsetastóli. Hvað yrði sagt, ef einhver tæki upp á því að segja: Herra/frú stóll?

Fór klukkan 20.00 í Grafarvogskirkju, þar sem Lögreglukór Reykjavíkur efndi til glæsilegra og skemmtilegra tónleika með þátttöku góðra gesta. Kirkjan var þéttsetinn og var kórnum og gestum hans fagnað vel og innilega.

 

Þriðjudagur, 16. 05. 06. - 16.5.2006 9:04

Var á borgarstjórnarfundi til 16.30, þegar ég fór í Lögregluskóla ríkisins, þar sem Hafsteinn Gunnar Hafsteinsson hafði skipulagt námskeið með erlendum sérfræðingum í sáttamiðlun fyrir lögreglumenn og var það fjölsótt.  Unnið hefur verið að þessu verkefni í um það bil þrjú ár og nú er það að komast á framkvæmdastig meðal lögreglumanna og síðan almennings.

Á meðan ég sat borgarstjórnarfundinum var einkum rætt um stefnu í samgöngumálum, sem af hálfu R-listans einkennist af andúð á fjölskyldubílnum og óskum um að borgarbúar gangi, hjóli eða fari í strætó. Ein hugmyndin er sú, að borgarbúar fari inn á vefsíðuna www.samferda.is og skoði, hvort einhver nágranni þeirra er að fara í sömu átt og þeir og biðji um far - með þessu verði dregið úr umferð fjölskyldubíla í borginni. Þá vöktu R-listamenn máls á því, að erlendis væri fólki greitt fyrir að nota ekki bíl. Auk þess vilja þeir, að  borgarstarfsmenn greiði undir á stæðum við vinnustaði þeirra og nemendur í framhaldsskólum og háskólum greiði undir bíla sína, komi þeir á þeim í skólana. Helst er að skilja, að þessi gjöld verði innheimt í því skyni að aftra fólki frá því að nota bíla eða til að tryggja hreyfanleika á stæðunum.

Í stefnunni kemur fram, að sóknarfæri felist í því fyrir Strætó bs., að fólki gefist kostur á því að taka reiðhjólið með sér í vagninn - en um það bil 4% ferða höfuðborgarbúa eru með almenningssamgöngum og hlutdeild hjólreiða er 2% - ætlunin er að strætónotkun aukist í 8% á næstu 20 árum og hjólreiða í 6% á næstu 20 árum.

Strætónotkun hefgur dregist jafnt og þétt saman á þeim 12 árum, sem R-listinn hefur verið að berjast gegn fjölskyldubílnum - en nú á sem sé að snúa vörn í sókn með hinni nýju stefnu. Í stefnuskjalinu segir: „Benda skal fólki á að það getur verið sannkallaður gæðatími að ferðast streitulaust með börnum sínum í strætó.“ Þar segir einnig: „Lífið milli húsanna er borgarbúum mikilvægt þar sem göngustígar og gangstéttir stuðla að lifandi umhverfi og auka félagsleg tengsl.“ Ég vek athygli á hinum feitletruðu orðum, sem eru til staðfestingar á vilja R-listans til kynna nýjan lífsstíl.

Þegar kostir hinnar nýju stefnu hafa verið kynntir segir með nokkrum trega í skjali R-listans: „Einkabíllinn er þó (feitlr. mín Bj. Bj.) nauðsynlegur mörgum heimilum....“ Og síðan: „Gjaldfrjáls bílastæði hvetja auk þess til notkunar einkabíla og eru beinir styrkir til starfsmanna sem koma til vinnu sinnar á bíl.“ Hvað skyldi gjald á bílastæðum þurfa að verða hátt að mati R-listans til að ekki sé um styrk til starfsmanna að ræða, ef þeir leggja bíl á lóð vinnuveitanda síns?

Lesa meira

Mánudagur, 15. 05. 06. - 15.5.2006 18:40

Vegna utanferðar í síðustu viku las ég ekki blöðin sem skyldi en eftir að mér hafði verið bent á, að Þorsteinn Pálsson hefði skrifað góðan leiðara í Fréttablaðið föstudaginn 12. maí til að setja ofan í við Berlingske Tidende vegna skrifa blaðsins um Árna M. Mathiesen fjármálaráðherra, fletti ég blaðinu. Leiðarinn var ágætur.

Þegar ég hafði lesið hann sá ég til mín vísað í ritstjórnarhorni á skoðanasíðu Fréttablaðsins og þar sagði einhver með netfangið bjorn@frettabladid.is: „Hitt vekur athygli að í færslu á netsíðu sinni á miðvikudag (10. maí) segist Björn vita að Blaðið hafi rætt við Gísla (Helgason varaborgarfulltrúa frjálslyndra). Er það degi áður en viðtalið birtist. Strengurinn milli Björns og Blaðsins virðist því stuttur.“

Þarna sá ég sem sagt, að fimmtudaginn 11. maí hefði Blaðið birt viðtal við Gísla Helgason og spurt hann um þá tillögu hans að flytja Reykjavíkurflugvöll á Álftanes, forsetann í Viðey og íbúa Álftaness í viðlegubúðir á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Ég hafði vakið máls á þessari tillögu Gísla hér á síðunni 5. maí, sama daginn og grein hans birtist í Fréttablaðinu, og síðan undrast ég 8. maí, að enginn fjölmiðill skuli hafa vakið máls á tillögu Gísla sem fréttaefni. Mér barst síðan ábending um, að Blaðið hefði sagt frá tillögu Gísla og sagði ég frá því hinn 10. maí. Þau orð túlkar blaðamaður Fréttablaðsins á þann furðulega hátt, að ég hafi vitað um óbirt viðtal Blaðsins við Gísla og dregur síðan af því ályktun um stuttan streng á milli mín og Blaðsins. Þessi barnalega blaðamennska dæmir sig sjálf.

En hvað segir Gísli Helgason í viðtali við Blaðið? Hann staðfestir, að hann telji flugvöll eiga heima á Álftanesi - þrátt fyrir þessa skoðun sína segist hann sammála stefnu flokks síns í flugvallarmálinu, það er að flugvöllurinn verði í Vatnsmýrinni! Hann hafi skrifað grein sína í Fréttablaðið „meira í gríni en alvöru" og hún sé alls ekki „tákn um kofning innan F-listans.“ Með grein sinni „hafi hann viljað gagnrýna þá mikl(u) áherslu sem umræðan um flugvöllinn hafi fengið í aðdraganda kosninga.“ Greinin sé „háðsádeila á alla þessa umræðu. Mér finnst umræðan orðin svo yfirgengileg að hún er byrjuð að skyggja á mikilvægari málaflokka.“

Spyrja má, hvort viðtalið við Gísla sé eins og grein hans meira grín en alvara, því að í hverju orði ræðst hann í raun að Ólafi F. Magnússyni, efsta manni F-listans, sem lítur á flugvöllinn í Vatnsmýrinni sem sitt helsta haldreipi í kosningabaráttunni - umræður um flugvöllinn séu einmitt til þess fallnar að styrkja stöðu sína og F-listans.

 

Sunnudagur, 14. 05. 06. - 14.5.2006 21:59

Gleðilegt var að heyra féttina um, að Þjóðminjasafnið sé eitt þriggja safna, sem Evrópuráð safna heiðrar í ár fyrir framsúrskarandi sýningu. Viðurkenningin staðfestir enn, hve vel tókst til við endurreisn safnsins. Það var eitt helsta árásarefni pólitískra andstæðinga minna á mig sem menntamálaráðherra, að safninu skyldi lokað í nokkur ár, svo að húsakostur þess yrði gerður sem best úr garði auk þess sem sérstaklega skyldi vandað til nýrrar sýningar safnsins og allir munir þess skráðir og forvarðir.

Ég óska Margréti Hallgrímsdóttur þjóðminjaverði og samstarfsfólki hennar innilega til hamingju.

Laugardagur, 13. 05. 06. - 13.5.2006 19:18

Flaug frá Helsinki kl. 12.30 til Stokkhólms og þaðan með Icelandair á áætlun klukkan 14.10 en lent var 15. 15 á Keflavíkurflugvelli - hafði þá farið í sex flugferðir síðan ég hélt utan á fimmtudag.

Ég keypti mér frönsk blöð á flugvöllunum til að kynna mér stöðuna í Clearstream-málinu. Það sýnist versna fyrir þá Jacques Chirac forseta og Dominique de Villepin forsætisráðherra eftir því sem meiri upplýsingar berast um afskipti þeirra. Upplýsingarnar bera þess merki, séu þær sannar, að þeir hafi beint rannsókninni að Nicolas Sarkozy innanríkisráðherra og líklegum forsetaframbjóðanda á næsta ári. Sarkozy er sagður hafa velt fyrir sér að segja af sér ráðherrembætti en í dag bárust fréttir um, að hann ætlaði að sitja áfram.

Fréttir í ljósvakamiðlunum hér heima bera þess merki, að hiti sé að færast í kosningabaráttuna til sveitarstjórna. Ég fagna því, hve sjálfstæðismenn hér í Reykjavík og annars staðar halda vel á málum.

Mér barst tölvupóstur úr Fljótshlíðinni, sem ég las á Arlanda flugvelli við Stokkhólm, þar sagði, að gimbrin mín væri borin og nú ætti ég svartan, hyrndan hrút.

Séra Toshiki Toma, prestur innflytjenda, sem ég nefndi hér á síðunni 6. maí sendi mér tölvubréf í dag og segir, að það hafi verið kæruleysi hjá sér að titla sig sem prest, þegar hann var að finna að stefnu Samfylkingarinnar gagnvart innflytjendum, enda væri hann orðinn vinsuti/grænn. Ábending mín um þetta efni hafi verið rétt.

Föstudagur, 12. 05. 06. - 12.5.2006 22:07

Sat fund dómsmálaráðherra Eystrasaltslandanna í Kóli í Finnlandi en þar var rætt um lögreglusamstarf.

Varð að gista í Helsinki á heimleið og notaði tímann til að fara í stærsta kvikmyndasal Finnlands og horfa þar á Mission Impossible III á stærsta tjaldi, sem ég hef séð. Myndin stóð undir væntingum sem spennandi sumarsmellur.

Fimmtudagur, 11. 05. 06. - 11.5.2006 22:05

Flaug til Ósló með Icelandair, vélinni seinkaði um klukkustund, sem varð til þess, að ég missti af framhaldsflugi til Helsinki og þaðan í áttina að Kolí í Finnlandi. Seinkaði komu minni þangað um sex tíma.

Miðvikudagur, 10. 05. 06. - 10.5.2006 22:29

Lærdómsríkt er að fylgjast með því af hvílíku offorsi ráðist er að starfsmönnum Kastljóss af Baugsmönnum og málsvörum þeirra. Öll fjölmiðlahlið Baugsmálsins er sérstakt rannsóknarefni, sem ekki kemur til kasta löglærðra dómara. Væntanlega taka einhverjir fjölmiðlalærðir hana til skoðunar og halda þeim þætti málsins saman.

Nú er þau komin í hár saman Ólafur F. Magnússon frambjóðandi frjálslyndra, og Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður og kosningastjóri vinstri/grænna í Reykjavík, á síðum Morgunblaðsins. Þau eru að metast um umhyggju sína fyrir umhverfinu. Eftir að þessir sjálfskipuðu umhverfissinnar neituðu að styðja þá tillögu okkar sjálfstæðismanna, að áformin um flutning Háskólans í Reykjavík á svæðið milli Nauthólsvíkur og Öskjuhlíðar færu í umhverfismat, hætti ég að hlusta eftir því, sem frjálslyndir og vinstri/grænir höfðu að segja um umhverfismál í borgarstjórn Reykjavíkur.

Ég skil ekki, hvernig sú stefna Ólafs F. Magnússonar að hafa flugvöllinn í Vatnsmýrinni þykir trúverðug, þegar litið er til þess, að hann vill Háskólann í Reykjavík við austurenda flugvallarins og í raun ofan í flugvallarsvæðið, sé til dæmis litið til athafnasvæðis flugdeildar Landshelgisgæslu Íslands. Mér heyrist ein af röksemdum Ólafs F. vera, að hann vilji flugvöllinn áfram á sínum stað vegna öryggismála og sjúkraflugs. Hvernig fer sú skoðun saman við það, að Háskólinn í Reykjavík ryðjist inn á athafnasvæði þyrlusveitar landhelgisgæslunnar?

Mér var bent á, að Blaðið hefði rætt um þá undarlegu kröfu varamanns Ólafs F. í borgarstjórn, að flugvöllurinn yrði fluttur á Álftanes og fólkið þaðan í viðlagabúðir á Keflavíkurflugvelli og forsetinn til Viðeyjar. Hvers vegna skyldi Ólafur F. hvergi spurður um þessa skoðun varamanns síns? Eða hvernig hann ætlar bæði að hafa Háskólann í Reykjavík og flugvöllinn á sama stað?

Þriðjudagur, 09. 05. 06. - 9.5.2006 22:04

Andmæli Baugsmanna vegna þess að sagt er frá Baugsmálinu í Kastljósi, eins og gert var í gær og að nýju í kvöld, koma mér ekki á óvart í ljósi þess, hve þeim hefur verið mikið kappsmál að hindra, að ég geti skrifað um Baugsmiðlana eða sagt skoðun mína á mönnum og málefnum, þar á meðal Baugsmönnum. Ákærur og málaferli vegna þeirra, sem ég hef ekki rætt á neinn hátt efnislega, áttu að leiða til þess að mati málsvara Baugs, að ég mætti ekki ræða um neitt, sem snertir þetta risavaxna fyrirtæki.

Það sem kemur á óvart er, að fjölmiðlaumræður af hálfu Baugsmanna séu svo miklar, því að fyrir ekki svo löngu virtist sú lína hafa verið lögð af forstjóra Baugs, að málið skyldi ekki rekið í fjölmiðlum.

 

Mánudagur, 08. 05. 06. - 8.5.2006 20:35

Blaðið birti í dag pistil minn um spennuna í frönskum stjórnmálum. Clearstream-málið heldur áfram þar í landi, því að dómararnir, sem eru að rannsaka það, hafa ekki lokið störfum og eru að leita sannleikans um það, hver það var, sem kom þeim söguburði af stað, að Nicolas Sarkozy innaríkisráðherra væri með leynireikning og féð á honum tengdist sölu á sex herskipum til Tævans.

Mig undrar, að enginn fjölmiðill skuli gera neitt með þá tillögu Gísla Helgasonar, varaborgarfulltrúa F-listans, sem birtist í grein í Fréttablaðinu, að flytja skuli flugvöllinn úr Vatnsmýrinni á Álftanes en forseti Íslands skuli fluttur í Viðey og íbúar á Álftanesi í viðleguhús á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli, þar til þeir geti sest að í Vatnsmýrinni. Af fálæti fjölmiðla má ráða, að þeir vilji ekki koma F-listanum illa, en hann segir það sér helst til ágætis, að flugvöllurinn eigi að vera áfram í Vatnsmýrinni. Spyrja má, hvort fjölmiðlar hefðu þagað þessu þunna hljóði, ef framsóknarmenn ættu í hlut, en í fjölmiðlum er því mjög hampað, að ágreiningur er milli framsóknarmanna um, hvort flytja eigi flugvöllinn út á Löngusker.

 

Sunnudagur, 07. 05. 06. - 7.5.2006 21:54

Jónmundur Guðmarsson, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi, sagði í útvarpsfréttum í dag, að í umræðum Reykvíkinga um framtíðarflugvöll á Lönguskerjum hefði gleymst eitt mikilvægt atriði, að skerin væru hluti af Seltjarnarnesi en ekki Reykjavík. Og þessi flugvöllur, sem er aðalkosningamál Björns Inga Hrafnssonar og Framsóknarflokksins í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík - sjálft þjóðarsáttarmálið - hvernig má þetta vera?

Jakob Björnsson, fyrrverandi orkumálastjóri, var í Silfri Egils í dag og fór á kostum, þegar hann ræddi um metsölubókina Draumalandið eftir Andra Snæ Magnason, en að sögn Egils er Jakob höfuðhugmyndafræðingur þess, sem Andri Snær andmælir. Mér finnst, að það þurfi mjög sterk rök til að hrekja það, sem Jakob sagði í þættinum og ég er honum innilega sammála, þegar hann leggur áherslu á, að í þessu efni er ekki unnt að ræða um annaðhvort/eða - það er nýtingu raforku til álframleiðslu/eða eitthvað annað. Miklu nær sé að ræða um bæði/og.

 

Laugardagur, 06. 05. 06. - 6.5.2006 22:03

Vorum klukkan 14.00 í Björkinni á Hvolsvelli með fjölda annarra, sem tóku þátt í að opna kosningaskrifstofu sjálfstæðismanna í Rangárþingi eystra, en mér var boðið þangað sem heiðursgesti og sagði ég nokkur orð af því tilefni - lét ég þess getið, hve vel hefði verið tekið á móti okkur Rut í Fljótshlíðinni og hve spennandi hlyti að vera að sitja í sveitarstjórn í sveitarfélagi, sem væri að breytast jafnört og Rangárþing eystra - ef áfram yrði jafnvel stjórnað á næsta kjörtímabili með þátttöku Sjálfstæðisflokksins og gert hefði verið á því, sem nú væri að líða, þyrfti engu að kvíða.

Á þeim fjórum árum, sem við höfum átt okkar annað heimili hér fyrir austan, hafa breytingar orðið mjög örar og nú má segja, að nýjum húsum fjölgi vikulega.

Ég nefndi einnig, hve mikilvægt væri að leggja rækt við menningarlegan arf til að styrkja okkur í samtímanum og hann væri vissulega ríkulegur í Rangárþingi - hvort heldur litið væri til Njálssögu eða Fjölnismanna, en á næstu ári yrðu 200 ár liðin frá fæðingu sr. Tómasar Sæmundssonar og færi vel á því að minnast hans og Fjölnismanna með vísan til prestsþjónustu sr. Tómasar á Breiðabólstað en þaðan ritstýrði hann Fjölni.

Kosningahátiðin var ánægjuleg og veitingar glæsilegar. Frambjóðendur á lista sjálfstæðismanna eru nýir og í forustu er Unnur Brá Konráðsdóttir lögfræðingur, sem flutti góða ræðu í Björkinni eins og þau sr. Halldór Gunnarsson í Holti og Drífa Hjartardóttir, alþingismaður. Þá ar kynnt glæsilegt kosninga- og stefnublað sjálfstæðismanna, sem frambjóðendur ætla að bera í hvert hús.

Veðurblíðan var svo mikil í morgun, að við gátum borðað morgunverðinn utan dyra í sólinni.

Föstudagur, 05. 05. 06. - 5.5.2006 9:38

Var kl. 14.30 á hótel Nordica og tók við fyrsta hefti af blaðí Félags ábyrgra feðra.

Tvær blaðagreinar vöktu sérstaka athygli mína í dag.

Sagt hefur verið, að nú sé lag fyrir kjósendur í Reykjavík, til að gera upp hug sinn til flugvallar í Vatnsmýrinni, vegna þess að F-listinn og Ólafur F. Magnússon bjóði þann skýra kost, að flugvöllurinn verði þar áfram, fái listinn einhverju ráðið eftir kosningar.

Björn Ingi Hrafnsson, frambjóðandi Framsóknarflokksins, mun hafa vegið nærri Ólafi F. í Kastljósi á dögunum, þegar hann sagði Ólaf F. ekki hafa verið fráhverfan flugvelli á Lönguskerjum - þjóðarsáttarflugvelli framsóknar, þar til í gær að Hjálmar Árnason, þingflokksformaður framsóknar, rauf sáttina. Við orð Björns Inga reiddis Ólafur F. og sagði framsóknarmanninn lygara og það oftar en einu sinni.

Gísli Helgason, formaður Blindrafélagsins, hefur verið varamaður Ólafs F. í borgarstjórn á þessu kjörtímabili og setið nokkra borgarstjórnarfundi. Hann ritar grein í Fréttablaðið í dag undir fyrirsögninni: Flugvöllinn burt. Og það er ekki nóg með, að Gísli vilji flugvöllinn burt úr Vatnsmýrinni, hann vill einnig alla íbúa á Álftanesi á bak og burt, svo að leggja megi flugvöll á nesinu, það ætti að leggja fram áætlun um að rýma nesið og síðan segir Gísli: „Fólkið sem þar býr (á Álftanesi) gæti fengið viðleguíbúðir í yfirgefnum byggingum hersins á Keflavíkurflugvelli. Landið þar sem Reykjavíkurflugvöllur er nú ætti að láta Álftanesbúa hafa og þannig væri byggðin þétt verulega í höfuðborginni. “ Gísli vill jafna Bessastaði við jörðu í þágu nýs flugvallar og flytja forseta Íslands út í Viðey. Hann segir: „Bessastaðir eru því miður tákn kúgunar og yfirgangs til margra alda.“

Gísli vill taka nýjan flugvöll á Álftanesi í gagnið árið 2011 og jafnfram flytja þá forsetasetrið í Viðey og rökstyður ártalið þannig: „Það væri verðugt áð sýna 300 ára minningu Skúla Magnússonar landfógeta virðingu með þessum hætti.“

Lesa meira

Fimmtudagur, 04. 05. 06. - 4.5.2006 20:47

Vegna þess að varamaður er fyrir mig á þingi, hef ég ekki þurft að vera þar í dag, þegar verið er að búa sig undir að fresta fundum þess fram yfir 27. maí, eða sveitarstjórna-kjördag.

Helsta slagorð Björns Inga Hrafnssonar, frambjóðanda Framsóknarflokksins til borgarstjórnar, er, að þjóðarsátt sé um Löngusker - auglýsir hann þetta grimmt. Auglýsingin hefur þó ekki sannfært Hjálmar Árnason, þingflokksformann framsóknar, sem ekki er sama sinnis og Björn Ingi og rauf þannig þjóðarsáttina. Raunar skil ég ekki, hvernig Birni Inga dettur í hug að kenna þetta stefnumál sitt við þjóðarsátt.

Rætt var við Dag B. Eggertsson í fjölmiðlum fram eftir degi um þá hugmynd Þyrpingar, fasteignafélags, og Minjaverndar, fasteignafélags, að flytja húsin í Árbæjarsafni út í Viðey til að Minjavernd gæti sinnt endurreisn þeirra þar og Þyrping reist sérbýlishús á Árbæjarlandinu. Hefði mátt ætla, að engum hefði áður dottið í hug að nýta Viðey undir gömul hús - en hugmynd um það er síður en svo ný á nálinni. Dagur talaði um málið eins og það væri til þess fallið að afla honum atkvæða - ég held, að það sé borin von, hvað sem hugmyndinni sjálfri líður.

Miðvikudagur, 03. 05. 06. - 4.5.2006 0:46

Hlaut í dag þann heiður að vera sæmdur gullmerki Landssambands lögreglumanna nr. 8 „fyrir frábær störf í þágu lögreglumanna“ fyrstur manna utan raða lögreglunnar. Þykir mér þetta góð og mikil viðurkenning. Þetta gerðist á þingi Landssambands lögreglumanna, sem haldið var í Munaðarnesi. Þar flutti ég ræðu klukkan 18.00 og sat síðan kvöldverð þingfulltrúa, þar sem okkur Óskari Bjartmarz, yfirlögregluþjóni og fyrrverandi formanni landssambandsins voru veitt gullmerkin auk þess sem félagsmenn voru heiðraðir með brons og silfurmerkjum.

Klukkan 09.00 flutti ég setningarræðu á norrænni björgunarráðstefnu á hótel Loftleiðum.

Í hádegi var 30. fundur Evrópunefndar.

Þriðjudagur, 03. 05. 06. - 2.5.2006 21:48

Ingvi Hrafn Óskarsson settist sem varamaður fyrir mig á þing, þegar ég fór til Frakklands, svo að ég þarf ekki að hafa hugann við atkvæðagreiðslur á þinginu.

Það var stuttur borgarstjórnarfundur í dag - þar sem gengið var frá reikningum borgarinnar. Þeir eru brenndir sama merki og öll fjármálastjórn R-listans - skuldirnar hækka og útgjöldin.

Öll meginstefnumál okkar sjálfstæðismanna fyrir kosningarnar 27. maí hafa verið kynnt og bera þau þess merki, hve vel hefur verið vandað til allra verka undanfarin ár af einhuga borgarstjórnarflokki, þar sem allir leggja sig fram sem þeir mega til að ná sem bestum árangri. Hefur verið einstaklega ánægjulegt að hafa fengið tækifæri til að starfa í þessum samhenta hópi síðustu fjögur ár og á hann svo sannarlega skilið að fá góðan hljómgrunn í komandi kosningum.

Ég bætti nokkrum myndum úr Frakklandsferðinni inn á myndasíðuna hér á vefsíðunni - bæði þar sem um er að ræða opinberar myndir og úr einkalífinu.

Mánudagur, 01. 05. 06. - 1.5.2006 18:26

Ókum af stað frá Les Murs í bílaleigubíl um kl. 08.30 og vorum komin á Charles de Gaulle flugvöll við París um kl. 11.00. Vélin fór á loft um 14.30 og lenti á Keflavíkurflugvelli þremur tímum síðar eða 15.30 á íslenskan tíma.