18.5.2006 22:06

Fimmtudagur, 18. 05. 06.

Silvía Nótt komst ekki áfram í Evróvisjón á Aþenu í kvöld. Egill Helgason, sem þekkir Grikki, telur, að hún hafi gengið fram af þeim. RÚV hefur eftir BBC í fréttum klukkan 22.00, að Silvía Nótt hafi átt skilið baulið, sem hún fékk, þegar hún gekk fram á sviðið og yfirgaf það. Var spaugið henni of dýrkeypt?

Flutti klukkan 18.00 ræðu á Selfossi við upphaf 12. norrænu ráðstefnunnar um menntun í fangelsum.

Samfylkingarfólkið í framboði til borgarstjórnar heldur áfram að stökkva upp á nef sér vegna þess, að á það er bent, að R-listinn sé að velta fyrir sér gjaldtöku af nemendum og starfsmönnum Reykjavíkurborgar fyrir afnot af bílastæðum - gjaldtöku, sem virðist eiga annars vegar að fæla fólk frá því að nota einkabílinn og hins vegar að skapa meiri hreyfanleika á bílastæðum.

Hvað sem Steinunn Valdís og Dagur B. segja, er ljóst, að flokkssystir þeirra og meðframbjóðandi, Björk Vilhelmsdóttir, er málsvari þessarar gjaldtöku og sömu sögu er að segja um Árna Þór Sigurðsson, vinstri/grænum, sem flutti tillöguna um stefnu í samgöngumálum, sem R-listinn samþykkti í borgarstjórn sl. þriðjudag - en þar er gert ráð fyrir þessari gjaldtöku.

Í framkvæmdaáætlun þessarar samgöngustefnu segir: „Reykjavíkurborg sýni fordæmi um gjaldskyld bílastæði við vinnustaði sína.“ Hvað þýðir stefna af þessu tagi, þegar hún er hluti af því markmiði „að draga úr hlutdeild einkabílsins“ eins og þessi kafli framkvæmdaáætlunarinnar heitir? Hér er ekki um fáein þúsund krónur á ári að ræða heldur þröskuld, sem knýr fólk til að hætta að nota fjölskyldubílinn. Markmiðið er einnig þetta: „Starfsmenn borgarinnar skulu virkjaðir sem fyrirmyndir á ferðum sínum um borgina.“ Undir fyrirsögn um átak gegn einkabílnum stendur einnig: „Skoða skal möguleikann á að taka upp gjaldtöku á bílkastæðum við framhaldsskóla og háskóla.“ Af orðum Árna Þórs má álykta, að hann ætli að nota tekjur af þessari gjaldtöku til að greiða niður leikskólagjöld.

Í framkvæmdaáætluninni má lesa þessa gullvægu setningu: „Göngustígar skulu lagðir með hag gangandi vegfarenda í huga.“ Það er hughreystandi fyrir okkur göngumenn, að þetta skuli áréttað.