Dagbók: maí 1998
Sunnudagur 31.5.1998
Klukkan 16 fórum við í Árnastofnun, þar sem opnuð var fróðleg sýning á handritum og sérstök kynning á Þorlákstíðum. Klukkan 18.00 fórum við í Kristskirkju og hlýddum á Voces Thules flytja Þorlákstíðir.
Laugardagur 30.5.1998
Síðdegis kom það í minn hlut að opna sýninguna Trú og tónlist í íslenskum handritum í Þjóðarbókhlöðunni.
Föstudagur 29.5.1998
Síðdegis fór ég upp á Akranes og ritaði þar undir skólasamning milli ráðuneytisins og Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi (FVA) og einnig samning við sveitarfélaög um nýbyggingu við skólann. Var þetta liður í skólaslitaathöfn skólans og ávarpaði ég samkomuna. Við fengum leyfi til að aka í gegnum göngin undir Hvalfjörð. Eru göngin ótrúlega mikil samgöngubót og líklega ógjörningur að gera sér ljóst, hvaða áhrif þau hafa, þegar fram líða stundir.
Fimmtudagur 28.5.1998
Um kvöldið fórum við á sýningu Nederlands Dans Theater í Borgarleikhúsinu. Ríkti þar mikil hrifning.
Miðvikudagur 27.5.1998
Klukkan 14.00 ritaði ég undir samning við ÍSÍ um aðild ríkisins að Afreksmannasjóði með 10 m. kr. framlagi á ári næstu fimm ár. Þar með var farsæll endir fundinn á gömlu og miklu baráttumáli ÍSÍ. Er ég viss um, að þessi samningur á eftir að nýtast íslenskum afreksmönnum í íþróttum vel. Klukkan 16.00 ritaði ég undir samning samning við Bandalag kvenna í Reykjavík um að það taki við rekstri Hússtjórnarskólans í Reykjavík. Jafnframt var formlega lokið samningsgerð um að fjórir aðilar á Austurlandi taki að sér að reka Hússtjórnarskólans á Hallormsstað. Eru þetta þar með orðnir einkaskólar, sem starfa á grundvelli samnings við ríkissjóð. Klukkan 17.00 fór ég í Háteigsskóla og flutti ræðu um nýja skólastefnu á aðalfundi SAMFOKS, það er samtaka foreldrafélaga við skóla í Reykjavík. Um kvöldið fórum við á tónleika Chillingirian strengjakvartettsins í Íslensku óperunni en Einar Jóhannesson lék einnig með kvartettinum á klarinett í kvintett eftir Mozart. Þetta voru einnig sannkallaðir Listahátíðartónleikar.
Mánudagur 25.5.1998
Um kvöldið fórum við á tónleika Listahátíðar í Hallgrímskirkju, þar sem Jordi Savall, Montserrat Figueras og Rolf Lislevand léku og sungu. Tek ég undir með gagnrýnandanum, sem taldi þetta þetta sannkallaða LIstahátíðartónleika.
Laugardagur 23.5.1998
Eftir að hafa kosið hófumst við handa við lokaundirbúning vegna veislu fyrir Bjarna Benedikt son okkar, sem varð stúdent frá Menntaskólanum við Hamrahlíð þennan dag. Eftir hátíðlega athöfn í skólanum buðum við fjölda gesta heim til okkar.
Fimmtudagur 21.5.1998
Klukkan 20 fórum við í Menntaskólann við Hamrahlíð, þar sem kór skólans og Hamrahlíðakórinn héldu upp á 30 ára afmæli skólakórsins. Er í raun einstakt, að Þorgerði Ingólfsdóttur, mágkonu minni, skuli hafa tekist að halda út með jafnmiklum ágætum jafnlengi. Á hverju hausti hefst hún handa við að smíða þetta hljóðfæri með nýjum röddum, en hún slær aldrei af kröfunum og árangurinn er alltaf í samræmi við það.
Miðvikudagur 20.5.1998
Klukkan 15.00 fór ég Íslandsbanka og tók þar þátt í árlegri athöfn, þegar bankinn afhendir námsstyrki. Á heimleið kom ég við í Einholtsskóla, sem hélt upp á 10 ára afmæli sitt. Var fróðlegt að kynnast þessum skóla, sem gegnir mjög mikilvægu hlutverki í grunnskólakerfinu.
Þriðjudagur 19.5.1998
Klukkan 16.00 var fundur í Ársal Hótel Sögu, þar sem saman komu fulltrúar í 7 starfsgreinaráðum, sem eru að taka til starfa. Starfsgreinaráð gegna lykilhlutverki við skipulag á starfsnámi í framhaldsskólum. Eru alls 14 slík ráð nú tekin til starfa. Er þessum þætti við nýskipan starfsnámsins þar með lokið. Markar þetta þáttaskil í þróun starfsnáms og verður mjög spennandi að sjá hvaða áhrif þessi nýskipan hefur. Menntamálaráðuneytið boðaði til þessa fundar og flutti ég þar ræðu auk embættismanna. Klukkan 20 fórum við Rut í Þjóðleikhúsið og horfðum á Le Cercle Invisible, það er ósýnilega sirkusinn. Var það skemmtileg kvöldstund og gott framlag til Listahátíðar, sérstaklega var gaman að fylgjast með því, hve börnin í salnum lifðu sig inn í það, sem gerðist á sviðinu.
Mánudagur 18.5.1998
Klukkan 9 um morgunin fórum við Rut út á Reykjavíkurflugvöll og kvöddum Margréti Danadrottningu og Henrik prins. Atkvæðagreiðsla var á Alþingi fram yfir hádegi og var þá húsnæðisfrumvarpið afgreitt til 3. umræðu. Síðdegis héldum við Árni Johnsen til Víkur í Mýrdal, þar sem við efndum til fundar um kvöldið í Víkurskálanum og ræddum skólamál og stjórnmál almennt. Vorum við komnir heim milli eitt og tvö um nóttina.
Sunnudagur 17.5.1998
Fórum klukkan 10.30 í dansk-íslenska messu í Dómkirkjunni. Klukkan 15.00 kom það í minn hlut að opna sýningu á verkum Max Ernst og um listamanninn í Listasafni Íslands. Síðan fórum við í kosningakaffi sjálfstæðismanna í Valhöll. Klukkan 20 voru síðan hátíðartónleikar til heiðurs Danadrottningu á vegum Listahátíðar í Þjóðleikhúsinu.
Sunnudagur 17.5.1998
Fórum klukkan 10.30 í dansk-íslenska messu í Dómkirkjunni. Klukkan 15.00 kom það í minn hlut að opna sýningu á verkum Max Ernst og um listamanninn í Listasafni Íslands. Síðan fórum við í kosningakaffi sjálfstæðismanna í Valhöll. Klukkan 20 voru síðan hátíðartónleikar til heiðurs Danadrottningu á vegum Listahátíðar í Þjóðleikhúsinu.
Laugardagur 16.5.1998
Klukkan 9.30 fórum við í Kringluna og opnaði ég þar nýtt sýningarsvæði á vegum Foldu og Kringlunnar. Hófu félagar í Leirlistarfélaginu að nýta þessa aðstöðu, sem er þannig að segja má, að gestir Kringluna gangi á milli listaverkanna. Klukkan 12.00 þáðum við hádegisverðarboð Margrétar Danadrottningar í snekkju hennar, Dannebrog, við Faxagarð í Reykjavíkurhöfn. Var þar allt með einstökum glæsibrag. Að loknum málsverði gengum við með drottningunni, eiginmanni hennar og forsetahjónunum að Hafnarhúsinu. Var mikill fjöldi fólks á hafnarbakkanum að fagna drottningunni. Var uppstytta og sól, þegar við gengum þessa leið. Listahátíð var sett í porti Hafnarhússins. Þar stigu afrískir listamenn frá Togo, sögðu einhverjir, að þetta hefði verið regndans. Þegar borgarstjóri flutti seinni ræðu sína við athöfnina og var að opna sýningu á verkum Erró í Hafnarhúsinu, skall mikið hagél á gestum í portinu. Kom hjálpsamur maður hlaupandi með regnhlíf til okkar Rutar. borgarstjóri hélt áfram að tala, þótt varla heyrðist til hennar, þegar haglið skall á regnhlífum og stéttinni. Líklega hafa gestirnir frá Togo orðið mest undrandi, þar sem þeir stóðu léttklæddir og horfðu á hvítu kornin, sem komu af himni. Síðan flýttu allir sér inn í húsið og skoðuðu myndir Errós. Við Rut höfðum þar stutta viðdvöl en skruppum heim og þegar við komum upp að Snorrabraut virtist ekki nein úrkoma hafa orðið þar. Klukkan 16.00 var sýning Margrétar drottningar á kirkjuklæðum opnuð í Bogasal Þjóðminjasafnsins. Kom það í minn hlut að flytja þar ræðu ásamt herra Karli Sigurbjörnssyni biskupi. Drottning bauð síðan gestum að skoða sýningu sína, sem er mjög fallleg. Klukkan 19.30 var síðan kvöldverður fyrir drottningu og fylgdarlið hennar á Bessastöðum í boði forsetahjónanna.
Fimmtudagur 14.5.1998
Klukkan 12.00 vorum við Rut á Reykjavíkurflugvelli til að taka á móti Margréti Danadrottningu og Henrik prins. Það gekk á með skúrum í hvassviðrinu. Pappírsflöggin sem blessuð leikskólabörnin héldu á úti við rauða dregilinn blotnuðu svo fljótt, að sum héldu bara á prikinu, þegar drottningin birtist. Klukkan 13.30 var Menningarnet Íslands opnað við hátíðlega athöfn í Listasafni Íslands. Stefna ráðuneytisins um að opna þetta net var mótuð í ársbyrjun 1996 og síðan hafa margir lagt hönd á plóginn. Vefsíðan er í vörslu Skímu og dr. Gunnar Harðarson er formaður stjórnar Menningarnets Íslands. Hér er um merk þáttaskil í menningarsögunni að ræða, því að netið á eftir að vaxa og dafna. Verður það ómetanlegur vettvangur til að kynna íslenska menningu og stuðla að auknum samskiptum milli stofnana.
Miðvikudagur 13.5.1998
Að venju var almennur viðtalstími minn í ráðuneytinu um morguninn og tók ég á móti mörgum viðmælendum. Tekst mér enn að halda listanum yfir þá, sem vilja ræða við mig innan hóflegra marka. Nokkur röskun hefur þó orðið undanfarið vegna utanferða og óvissu um þingstörfin. Til dæmis þurfti ég að rjúka úr viðtalstímanum þessa morgunstund vegna þess að boðað var til atkvæðagreiðslu á Alþingi, af henni varð þó ekki á boðuðum tíma vegna athugasemda stjórnarandstöðunnar. Tek ég undir það með Pétri Blöndal, að Alþingi er sá vinnustaður, þar sem minnst virðing er borin fyrir tíma manna, er hann þó ein dýrmætasta eign hvers og eins. Þessari eign er sóað á þessum vinnustað. Um kvöldið fórum við í Iðnó, sem opnað var endurgert að nýju. Eru þar hin glæsilegustu húsakynni.
Þriðjudagur 12.5.1998
Rikisstjórnin samþykkti á fundi sínum tillögu mína varðandi skipun stjórnar Listaháskóla Íslands. Var skýrt frá þeirri niðurstöðu þennan dag og jafnframt hélt Félag um listaháskóla aðalfund sinn og kaus þrjá menn í stjórn. Er stjórn skólans nú fullskipuð. Verður Stefán P. Eggertsson verkfræðingur formaður hennar. Klukkan 15.00 fór ég í Kvikmyndasafnið í Hafnarfirði. Þar hefur nú verið búið vel um það í gamla frystihúsi Bæjarútgerðarinnar. Einnig er unnið að því að breyta Bæjarbíói í sitt upprunalega horf eftir því sem kostur er. Verður þarna mjög góð aðstaða til að sinna þessum þætti kvikmyndasögunnar og kynna hana fyrir þeim, sem vilja afla sér þess fróðleiks. Klukkan 21 fór ég á fund hjá foreldrafélagi í Hofsstaðaskóla í Garðabæ og ræddi þar um nýja skólastefnu og svaraði spurningum á skemmtilegum fundi.
Sunnudagur 10.5.1998
Klukkan 15.00 fór ég í Borgartún 6 og opnaði þar heimasíðu Ríkisútvarpsins og Ljósmyndasafns Reykjavíkur um hernámsárin.
Laugardagur 9.5.1998
Klukkan 14.00 var hátíð í Borgarleikhúsinu, þar sem ég afhenti nýsköpunarverðlaun til grunnskólanemenda og bauð síðan í kökur og kaffi og djús. Klukkan 16.00 fórum við á tónleika Karlakórs Reykjavíkur í Langholtskirkju, Maísönginn, og hylltum jafnframt Pál Pamplicher Pálsson tónskáld sjötugan.
Föstudagur 8.5.1998
Klukkan 9 um morgunin sótti ég fund Samiðnar á Grand hótel og ræddi um menntamál og starfsnám. Þennan dag kom aftur dálítill skriður á gang mála á Alþingi, þegar 2. umræðu um sveitarstjórnalögin lauk, greidd voru atkvæði um málið og því vísað til 3. umræðu. Stjórnarandstaðan hafði haldið uppi málþófi alla vikuna. Er málatilbúnaður hennar ósannfærandi, þegar litið er á forsögu sveitarstjórnalaganna og áformin um hálendið. Held ég, að þeir, sem hafa snúist af þessari hörku gegn sveitarstjórnalögunum, séu á villigötum, þegar litið er á efni málsins. Hafi ætlunin verið að koma höggi á stjórnarflokkana með þessum löngu ræðum, misheppnaðist það gjörsamlega. Um kvöldmatarleytið varð frumvarp um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum að lögum.
Fimmtudagur 7.5.1998
Um kvöldmatarleytið fór ég í Rotary-klúbbinn í Árbæ og ræddi nýju skólastefnuna.
Sunnudagur 4.5.1998
Svaraði fyrirspurn á Alþingi um menntun kennara.
Sunnudagur 3.5.1998
Síðdegis fórum við Rut í Háskólabíó, þar sem tónlistarskólar kynntu starfsemi sína með tónleikum nemenda úr þeim.
Laugardagur 2.5.1998
Klukkan 13.00 setti ég Íslandsmót í samkvæmisdansi í íþróttahúsinu við Strandgötu í Hafnarfirði. Síðan fórum við í Hafnarborg, þar sem Jónína Guðnadóttir var að opna sýningu á innsetningum og lágmyndum. Klukkan 17.00 vorum við aftur komin í Hafnarfjörð til að taka þátt í barnakóramóti bæjarins, sem fór fram í Víðistaðakirkju.