12.5.1998 0:00

Þriðjudagur 12.5.1998

Rikisstjórnin samþykkti á fundi sínum tillögu mína varðandi skipun stjórnar Listaháskóla Íslands. Var skýrt frá þeirri niðurstöðu þennan dag og jafnframt hélt Félag um listaháskóla aðalfund sinn og kaus þrjá menn í stjórn. Er stjórn skólans nú fullskipuð. Verður Stefán P. Eggertsson verkfræðingur formaður hennar. Klukkan 15.00 fór ég í Kvikmyndasafnið í Hafnarfirði. Þar hefur nú verið búið vel um það í gamla frystihúsi Bæjarútgerðarinnar. Einnig er unnið að því að breyta Bæjarbíói í sitt upprunalega horf eftir því sem kostur er. Verður þarna mjög góð aðstaða til að sinna þessum þætti kvikmyndasögunnar og kynna hana fyrir þeim, sem vilja afla sér þess fróðleiks. Klukkan 21 fór ég á fund hjá foreldrafélagi í Hofsstaðaskóla í Garðabæ og ræddi þar um nýja skólastefnu og svaraði spurningum á skemmtilegum fundi.