Dagbók: september 2010

Fimmtudagur, 30. 09. 10. - 30.9.2010

Mér sýnast fleiri og fleiri hreyfa þeirri skoðun opinberlega, að óhjákvæmilegt sé að rjúfa þing og efna til kosninga. Ég sagði þetta í pistli hér á síðunni sl. laugardag, áður en þau ósköp urðu á alþingi, að samþykkt var að ákæra Geir H. Haarde. Þar réðu nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar úrslitum. Óburðugar eru röksemdir Skúla Helgasonar og Marðar Árnasonar, þingmanna Samfylkingarinnar, fyrir því, hvernig þeir greiddu atkvæði.

Skúli Helgason hefur rætt við fjölmiðla til að skýra mál sitt og fékk hátíðarviðtal í upphafi 8 frétta RÚV að morgni 29. september í því skyni. Þeim mun meira, sem hann talar, því óskiljanlegri verður afstaða hans. Hann segist hafa viljað ákæra Geir, af því að hann hafði aðgang að upplýsingum, stöðu og vald til að gera eitthvað, sem átti að draga úr áhrifum hörmunga vegna atvika, sem enginn sá fyrir hvers eðlis yrðu, fyrr en þau gerðust og bankar hrundu. Hann lét hins vegar undir höfuð leggjast að ákæra Björgvin G. Sigurðsson, ráðherra bankamála, eða Árna M. Mathiesen, ráðherra fjármála. Hvaða aðgang að upplýsingum, stöðu og völd höfðu þessir ráðherrar ekki, sem veldur þessari aðgreiningu af hálfu Skúla Helgasonar?

Samfylkingarfólkið, sem ákærði eftir því hvaða einstaklingur átti hlut að máli, lætur síðan eins og það hafi látið sannfæringu og samvisku ráða, aðrir þingmenn hafi látið eitthvað annað, flokkslínu, ráða. Sjálfstæðisþingmönnum er af sumum legið á hálsi fyrir að hafa ekki setið hjá, eftir að Geir var ákærður, þar með hefðu fleiri hlotið ákæru. Þingmennirnir voru hins vegar sammála um þá sannfæringu, að ekki ætti að ákæra neinn og fóru ekki í manngreinarálit með þá skoðun sína. Þetta er málefnalega skýr afstaða en ekki hentistefna eins og hjá hinu reikula samfylkingarfólki.

Í Staksteinum Morgunblaðsins er í dag rifjað upp atvikið síðdegis 24. nóvember, 2008, þegar Steingrímur J. trylltist í þingsalnum, gerði hróp að mér, óð að ræðustólnum og stillti sér ógnandi fyrir framan mig, gekk síðan að Geir H. Haarde og lagði hendur á hann. Hér má lesa samtímafrásögn mína af atvikinu.  Hér er einnig krækja á ræðu mína, en upphlaup Steingríms J. er í lok ræðunar efti 14.40 mínútu. Þá segi ég einnig frá þessu atviki hér.

Miðvikudagur, 29. 09. 10. - 29.9.2010

Kvikmyndin Wall Street:Money never sleeps með Michael Douglas í leikstjórn Olivers Stones er framhald myndarinnar Wall Street með Michael Douglas í hlutverki Gordons Grekkos, sem var frumsýnd 1987. Með nýju myndinni leikstýrir Oliver Stone í fyrsta sinn framhaldsmynd. Að þessu sinni er Grekko einskonar andhetja miðað við fyrri myndina, enda hefur hann setið af sér dóminn eftir innherjasvindlið í henni. Þungamiðja fjármálasviptinga í myndinni er bankahrunið haustið 2008. Heimsfumsýning myndarinnar var 24. september og að sjálfsögðu er unnt að sjá hana hér sér til ágætrar skemmtunar.

Þriðjudagur, 28. 09. 10. - 28.9.2010

Ég skrifaði pistil hér á síðuna um þá niðurstöðu 33 þingmanna að ákæra Geir H. Haarde og draga hann fyrir landsdóm. Þingmennirnir leggjast lágt með því að stefna stjórnmálaandstæðingi fyrir refsidóm. Það er rétt, sem Geir sagði á Stöð 2, að Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri-grænna, stendur að baki þessum ofsóknum. Hann er mesti óþurftarmaður íslenskra stjórnmála um þessar mundir.

Steingrímur J. stóð að því með Árna Þór Sigurðssyni, formanni vinstri-grænna í utanríkismálanefnd alþingis, að senda ESB-aðildarumsókn Íslands til Brussel.

Steingrímur J. stóð að því með Svavari Gestssyni að semja um Icesave á hinn versta hátt fyrir þjóðina.

Steingrímur J. stóð að því með Indriða H. Þorlákssyni að breyta skattkerfinu til verri vegar og grafa undan sparnaði og atvinnustarfsemi.

Steingrímur J. stóð að því með Atla Gíslasyni að breyta pólitískum andstæðingi í sakamann.

 


Mánudagur, 27. 09. 10. - 27.9.2010

Á Evrópuvaktinni er sagt frá því, að ísþekjan á Norður-Íshafi hafi verið hin þriðja minnsta sumarið 2010 frá því að mælingar hófust.

Í dag hittust sjávarútvegsráðherrar ESB-ríkjanna í Brussel og ræddu meðal annars makríldeiluna við Íslendinga og Færeyinga. Þeir veittu Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra ESB, umboð til að semja. Hún sagðist ekki ætla að ná samkomulagi fyrir hvaða verð sem væri. Frá blaðamannafundi hennar, sem sjá má á netinu, er sagt á Evrópuvaktinni. Ég tel þá frásögn gefa betri mynd af stöðu mála en fréttir um, að ESB ætli sér í stríð við Færeyinga og Íslendinga á þessari stundu. Damanaki treystir því, að samkomulag takist um málið á fundi í London 12. október nk.

Embættismenn ESB hafa nýlega hitt starfsbræður sína í Færeyjum og hér á landi. Eftir þá fundi hefur samkomulag legið í loftinu. Víst er, að Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, hefur ekki lagt hart að sér á pólitískum vettvangi vegna makríldeilunnar. Hann vill hana örugglega úr sögunni til að hún trufli ekki ESB-aðlögunarviðræðurnar. Um það eru hann og Maria Damanaki sammála.


Sunnudagur, 26. 09. 10. - 26.9.2010

Fór í dag í Selið við Stokkalæk í Rangárþingi ytra, þar sem Rut hélt tónleika ásamt Richard Simm í þéttsetnum sal. Þau Inga Ásta og Pétur Hafstein hafa búið þarna frábæra aðstöðu til tónleikahalds.

Veðrið hér í Rangárþingi hefur verið slæmt og má þakka fyrir, að smalað var og réttað í góðviðrinu um síðustu helgi. Fréttir berast af miklum vatnavöxtum hér fyrir austan okkur og rúmlega 100 manns eru veðurtepptir í Þórsmörk.

RÚV birti niðurstöður skoðanakönnunar í dag, þar sem lagt er út af því, hvaða stjórnmálaskoðanir þeir hafa, sem vilja kalla fyrrverandi ráðherra fyrir landsdóm. Segir það í raun ekki allt, sem segja þarf um það, sem hefur verið að gerast undir formennsku Atla Gíslasonar?

Laugardagur, 25. 09. 10. - 25.9.2010

Í morgun setti ég pistil hér á síðuna, leiðara, sem ég skrifaði á Evrópuvaktina. Eyjan birti frétt upp úr pistli mínum, eins og hér má sjá. Hún var ekki fyrr komin á Eyjuna en Egill Helgason, hinn óhlutdrægi þáttastjórnandi RÚV fann að því. Hann spurði fullur vandlætingar, hvað ritstjóra Eyjunnar hefði þótt fréttnæmt við það, sem ég skrifaði. Síðan tóku lesendur síðunnar að blogga með og á móti.

Ég ætla ekki að blanda mér í það, sem menn segja um þá skoðun mína, að í núverandi stöðu sé skynsamlegast að rjúfa þing og efna til kosninga. Eðlilega eru ekki allir sammála um það. Að ég telji, að þess vegna beri að fresta kosningum til stjórnlagaþings 27. nóvember, jafngildir því ekki, að ég sé andvígur stjórnlagaþingi, eftir að kosið hefur veri til þess. Ég tel hins vegar, að ekki sé rétti tíminn nú að forgangsraða í þágu þess, heldur skuli kosið til alþingis. Stjórn landsmála er í molum. Ekki verður úr bætt nema með því að rjúfa þingi og gefa kjósendum tækifæri til að velja nýjan hóp fólks til að standa að landstjórninni.

Að Egill Helgason sé andvígur því, að vakin sé athygli á nauðsyn þess að rjúfa þing og efna til kosninga, þykir mér undarlegt. Athugasemd hans við skrif mín byggist líklega frekar á óvild en málefnalegri afstöðu. Hann brást einnig illa við frétt um, að ég væri að taka saman efni í bók um Baugsmálið. Egill talar um ábyrgðarfælni og segir meðal annars:

„Og nú virðist manni að sé í uppsiglingu stórsókn í Davíðsarmi Sjálfstæðisflokksins til að sannfæra fólk um að Davíð Oddsson og félagar hafi í raun ekki verið við völd í landinu, heldur hafi Baugur í raun verið búinn að ræna völdunum. Þetta má lesa í nýju hefti tímaritsins Þjóðmála og í bók sem er væntanleg frá Birni Bjarnasyni og er kynnt í ritinu.

Baugur var vissulega til mikillar óþurftar í íslensku samfélagi með verslunareinokun sinni og ítökum í fjármálakerfinu, en samsæriskenningarnar sem er veifað til að komast undan ábyrgð eru orðnar ansi trylltar.“

Fleirum en mér finnst vafalaust merkilegt, að Egill viti, hvað stendur í bók, sem ég er að skrifa og hver er tilgangur hennar. Eitt er víst. Hún snýst ekki um að skjóta mér eða öðrum undan ábyrgð. Hvernig væri, að Egill biði þess, að bók birtist, áður enn hann tekur til við að dæma hana? Ætli hann þurfi ekki að lesa bækur til að dæma þær? Er hann ekki líka með bókmenntaþátt í sjónvarpinu?Föstudagur, 24. 09. 10 - 24.9.2010

Í dag var sagt frá grein minni í Þjóðmálum um ris og fall Baugsmiðlanna. Þar kemur einnig fram, að ég er að skrifa bók um Baugsmálið. Viðbrögðin voru á þann veg, sem við var að búast. Reynir Traustason tók kipp á dv.is. Hann skrifaði um mig í svipuðum dúr og hann gerði á tíma Baugsmálsins. Hann gat ekki heldur látið ógert að  veitast á svipaðan hátt að Matthíasi Johannessen, en grein birtist eftir hann í Þjóðmálum, þar sem hann fjallar um Baugsmálið og Baugsmiðla. Henta viðbrögð Reynis vel í eftirmála bókar minnar, sem framhald af því, hvernig Reynir skrifaði til varnar Baugsmönnum á árunum 2003 til 2008. 

Blaðamennskusaga Reynis er órjúfanlegur þáttur Baugsmálsins. Nokkrir fleiri fjölmiðlamenn koma við sögu. Er ég viss um, að mörgum mun þykja forvitnilegt að kynnast hlut þeirra, þegar þar að kemur.
Fimmtudagur, 23. 09. 10. - 23.9.2010

Í Viðskiptablaðinu er sagt, að menningarhús á landsbyggðinni hafi verið „gæluverkefni“ ríkisstjórnarinnar frá 1999. Kemur þetta fram í grein um hið glæsilega menningarhús Hof á Akureyri.

Fráleitt er að kalla þetta hús eða önnur menningarhús gæluverkefni ríkisstjórnarinnar. Hugmyndin um húsin var kynnt samhliða því, sem ákvörðun var kynnt um ráðstefnu- og tónlistarhúsið í Reykjavík. Hvorki var lögð skylda á neinn til að reisa húsin né ákveðið í hvaða mynd þau skyldu verða, Nefndir voru fimm staðir; Ísafjörður, Sauðarkrókur, Akureyri, Egilsstaðir og Vestmannaeyjar. Hver staður eða byggðarlag hefur unnið úr hugmyndinni á eigin forsendum.

Miðað við alla þá fjármuni, sem fokið hafa út i veður og vind frá því, að hugmyndir um þessar framkvæmdir í þágu menningarinnar voru kynntar, er í raun dapurlegast, að í þær skuli ekki hafa verið ráðist fyrr.


Miðvikudagur, 22. 09. 10. - 22.9.2010

Í dag ræddi ég við Ólöfu Nordal, varaformann Sjálfstæðisflokksins, í þætti mínum á sjónvarpsstöðinni ÍNN. Við ræddum um stöðu mála á alþingi og málflutning Atla Gíslasonar og vinstri-grænna. Þeir vilja breyta stjórnmálaágreiningi í sakamál. Ólöf sagði mér það, sem ég vissi ekki, að Lilja Mósesdóttir, þingmaður vinstri-grænna, hefði sagt, að álit Atla og félaga, sem felur í sér ákæru á hendur fjórum fyrrverandi ráðherrum, snerist um uppgjör við pólitíska hugmyndafræði.

Ég skrifaði pistil á dögunum um vinstri villu við túlkun á stjórnarskránni. Atli Gíslason misnotar ákvæði um landsdóm til að ná sér niðri á pólitískum andstæðingum. Hann hefur fengið nytsama sakleysingja í lið með sér. Samfylkingarfólkið er að vísu orðið hikandi. Framsóknarmenn láta stjórnast af pólitískri óvild. Sigmundur Davíð, flokksformaður, hefur að vísu ekki flutt neina bitastæða ræðu um málil á þingi. Undir hans forystu minnir þingflokkur framsóknarmanna því miður á höfuðlausan her.

Atli Gíslason hélt skammarlega illa á málum í nefnd sinni. Eftir 54 fundi liggur fyrir álit um aðgerðir, sem snerta ekki bankahrunið á neinn hátt, og eru endurtekning á ýmsu, sem fram kom í skýrslu rannsóknarnefndar alþingis. Kynjagreiningarkafli álitsins er furðusmíð í anda þess feminisma, sem einkennt hefur margt af því, sem Atli hefur haft fram að færa á þingi til að friða feminískan arm vinstri-grænna.

Atli lætur eins og bréf, sem hann skrifaði ráðherrum jafngildi því, að þeir hefðu fengið tækifæri til að skýra mál sitt fyrir nefndinni á þann hátt, sem verið hefði, ef hann hefði kallað menn fyrir hana til að svara spurningum. Hafi nefnd þingmanna einhvern tíma átt að starfa fyrir opnum tjöldum er það þessi nefnd Atla Gíslasonar. Hann hafði hins vegar ekki þrek til að standa þannig að störfum nefndarinnar.

Þriðjudagur, 21. 09. 10. - 21.9.2010

Nýtt hefti Þjóðmála kom út í dag, 3. hefti 6. árgangs undir ritstjórn Jakobs F. Ásgeirssonar. Meðal þess, sem ég skrifa í heftið, er grein um ris og fall Baugsmiðlanna. Augljóst er, að fjölmiðlaveldi Baugs hefur frá fyrsta degi staðið á brauðfótum og ekki getað þrifist nema með aðstoð banka og fyrir auglýsingar frá Baugsfyrirtækjum. Á þennan hátt hefur verið grafið undan heilbrigðum viðskiptaháttum á fjölmiðlamarkaði.

Nú má sjá á netinu síðasta þátt minn á sjónvarpsstöðinni ÍNN, þar sem ég ræddi við Stefán Einar Stefánsson, guðfræðing og framkvæmdastjóra Hins íslenska biblíufélags. Við ræddum stöðu mála innan kirkjunnar og kristni í landinu.

Ástæða er til að velta fyrir sér, hve lengi Jón Gnarr endist til að gegna embætti borgarstjóra. Augljóst er, að honum líður bölvanlega við þessar aðstæður. Að sjá hann standa með borða á Austurvelli með fáeinum öðrum til að mótmæla því við forseta Slóvakiu, að Sígaunabörn í landi hans fái sérkennslu en séu ekki í almennum bekkjardeildum, var brjóstumkennanlegt. Þá fékk Jón Gnarr ekki að flytja ræðu um þetta efni í Höfða, af því að ákveðið var að fella niður ræðuhöld þar, vegna þess hve mikil seinkun var á ferð slóvakíska forsetans. Viðdvölin í Höfða var stytt til að vinna upp tíma. Skyldi það hafa verið gert vegna óska forsetans?

Fréttir berast af því, að biðlistar lengist stöðugt hjá Jóni Gnarr, af því að hann veiti fólki ekki skipulega viðtöl. Þá kvartar Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi vinstri grænna, undan því, að Jón Gnarr svari ekki spurningum á borgarstjórnarfundi.

Á visir.is má lesa að kvöldi 21. sept haft eftir vefsíðu Jóns Gnarr:

„Hann segist vera kominn heim og sé sorgmæddur og hugsi. „Hvað er að starfsháttum í stjórnmálum á Íslandi? Þrætur, klækir og rifrildi," segir Jón í færslu sinni. Hann spyr hvort að það sé ekki hægt að breyta þessu. „Er þetta svona allsstaðar? Skilst að Alþingi sé í svipuðum gír. Er hægt að breyta þessu?"“

Jón Gnarr breytir engum starfsháttum stjórnmálamanna til betri vegar með framgöngu sinni í embætti borgarstjóra. Undarlegt er, hve mikið langlundargeð honum er sýnt. Ef stjórnmálamaður sæti í embætti borgarstjóra og hagaði sér á sama hátt og Jón Gnarr, yrði hann fyrir aðkasti. Fjölmiðlamenn leggja annan og mildari kvarða á verk og framgöngu Jóns Gnarr en stjórnmálamanna.Mánudagur, 20. 09. 10. - 20.9.2010

Skrifaði pistil um misbeitingu á stjórnarskránni. Nú er stjórnarliðið að splundrast vegna landsdómsákæru Atla Gíslasonar. Honum væri mestur sómi af því eftir harða gagnrýni Jóhönnu Sigurðardóttur á störf hans að segja af sér formennsku í nefndinni.

Atli nýtur einskis trausts hjá öðrum en nokkrum meðnefndarmönnum sínum, vinstri-grænum og Þór Saari. Hinn síðast nefndi bauð sig fram til þings í því skyni að leggja öll spil á borð kjósenda. Þór Saari hefur hins vegar gengið í þagnarbindindi með Atla, þegar kemur að því að upplýsa almenning um þau gögn, sem liggja að baki kröfunni um ákæru á hendur fjórum fyrrverndi ráðherrum.

Vinstri-grænir ganga á eftir Samfylkingunn inn í ESB, þótt þeir segist vera andvígir aðild. Nú láta þeir svo sjálfan forsætisráðherra sparka í sig vegna máls, sem þeim er kærast, að breyta andstæðingum sínum í sakamenn. Hvernig skyldi Steingrímur J. tala sig út úr þessari nýjustu kreppu stjórnarinnar?

Jóhönnu og Steingrími J. hefur verið hugleikið að þétta raðirnar á bakvið ríkisstjórnina, því að þá yrði þjóðinni best borgið. Jóhanna lagði sig einmitt fram um það á þingi í dag - eða hvað?

Spyrja má: Hvers á þjóðin að gjalda að hafa þessi ósköp yfir sér?
Sunnudagur, 19. 09. 10. - 19.9.2010

Réttardagurinn í Fljótshlíðarrétt var bjartur og fagur. Réttarstörfin gengu vel, þótt engin af mínum ám skilaði sér. Þær fara sínar eigin leiðir.

Flestir nágranna minna þekkja söguna um þá, sem gekk austan úr Þórólfsfelli fram að Hlíðarenda undan öskunni. Þar komst hún undir manna hendur.

Hún hljóp síðan til fjalla á ný úr túninu á Hlíðarbóli, þegar hún sá, að gosinu var lokið. Fór hún upp Lambalækjarlandið og sást til hennar, þegar hún stökk yfir girðingu norður úr því. Lambið fylgdi henni ekki og stökk hún þá yfir að nýju til þess. Að nýju stökk hún norður yfir. Þegar hún sá, að lambið fylgdi ekki, hélt hún ein til fjalla. Hún hefur að öllum líkindum haldið að nýju austur að Fljótsdal og í Þórólfsfellið.


Laugardagur, 18. 09. 10. - 18.9.2010

Fljótshlíðingar smöluðu í dag í góðu veðri. Ég var ekki við smölun allan daginn heldur gekk úr byggð upp undir Þríhyrning til fyrirstöðu og rak niður heimalandið. Lömbin eru væn.

Fljótshlíðingar óku ekki fé á afréttinn í vor vegna ösku. Í samráði við Landgræðslu ríkisins voru rúmlega 3o tonn af áburði borin á afréttinn. Önnuðust 11 bændur verkið í sjálfboðavinnu með tækjum sínum. Mikil aska hafði fallið á svæðin en nú eru þau iðjagræn og segja bændur, að gróður virðist ætla að ná sér að fullu. Síst er ástandið sagt í Þórólfsfelli.

Þótt ekkert fé hafi verið flutt á afréttinn er lögskylt að smala hann. Að þessu sinni ákváðu Fljótshlíðingar að fara ekki í nokkurra daga leitir heldur senda menn að morgni, sem sneru heim að kvöldi. Var mönnum ekki skylt að fara.

Þessar leitir eru venjulega nokkrum dögum fyrir eins dags smalið, eins og þeir segja hér, þar sem ég hef verið þátttakandi. Þá er farið norður fyrir Þríhyrning að vestan og komið niður með safnið austan við hann. Lagt er af stað í birtingu og komið niður milli 18.00 og 19.00.

Föstudagur, 16. 09. 10. - 17.9.2010

Atli Gíslason, formaður hrunnefndar alþingis, var ekki sannfærandi, þegar hann flutti þann boðskap í Kastljósi kvöldsins, að ákæra bæri fjóra fyrrverandi ráðherra vegna bankahrunsins. Furðulegt er, að Atli leggi málið þannig fyrir, að ekki sé um annað að ræða en ákæra ráðherrana fyrrverandi. Efnisleg rök hans voru fátækleg og tilraun hans til að skýra lögfræðina á þann hátt, að áhorfendur áttuðu sig á því, að ákæra væri óhjákvæmileg, misheppnaðist.

Nefnd Atla Gíslasonar flytur mál fyrir þingið á sama hátt og framkvæmdavaldið kemur þangað með mál. Mál ráðherra eru undirbúin utan þings og lögð fyrir það. Eftir fyrstu umræðu taka nefndir til við að skoða málin, leggja mat á þau með sérfræðingum sínum. Síðan ræða þingmenn þau að nýju fyrir opnum tjöldum í þingsalnum.

Í upphafsræðu Atla fyrir tillögum nefndar sinnar vakti sérstaka athygli, að hann lagði áherslu á sjálfstæði alþingis, rétt þingmanna til að skoða mál án fyrirmæla frá framkvæmdavaldinu. Nú bregður svo við, þegar rætt er um, að fastanefnd alþingis, allsherjarnefnd, fjalli um tillögur nefndar Atla Gíslasonar, bregst Atli við á þann hátt, að í því felist vantraust á hann og nefnd hans. Þá fjúka orð hans um sjálfstæði þingsins út í veður og vind. Nú ber þingmönnum að lúta forræði hans og ekki leggja sjálfstætt mat með nefndarvinnu á tillögur hans.

Fróðlegt verður að fylgjast með því, hvort þingmenn beygi sig undir kröfu Atla um, að fastanefnd þingsins fái ekki að falla um tillögur nefndar hans. Atli lét ekki undan kröfu þingmanna um aðgang að gögnum nefndar hans, fyrr en sjálfstæðismenn hótuðu að stöðva umræður um málið.

Fimmtudagur, 16. 09. 10. - 16.9.2010

Þegar ég fór út rúmlega sex í morgun til að fara í sundið þurfti ég að skafa hrím af framrúðu bílsins.

Ég minni lesendur síðu minnar á Evrópuvaktina. Hiklaust fullyrði ég, að þar eru íyarlegri fréttir um erlend málefni, sem varða okkur Íslendinga, en birtast í öðrum fjölmiðlum. Rými þeirra undir erlendar fréttir verður sífellt minna og lítið sem ekkert er gert af því að setja þróun erlendis í íslenskt samhengi. Talið um ESB-aðild hefur stórlega þrengt sjónarhorn okkar á alþjóðamál.

Eins og málum er hátta má líta þannig á, að Kína og ESB keppist um að draga athygli Íslendinga að sér. ESB hefur uppi áform um að hlutast hér um innanríkismál. Kínverjum er það ekki fjarri skapi.

Hið einkennilega er, hve Bandaríkjamenn halda að sér höndum.

Miðvikudagur, 15. 09. 10. - 15.9.2010

Nú eru fréttir í Stöð 2 um að ráðist hafi verið í niðurrif byggingar við hlið gamla flugturnsins á Reykjavíkurflugvelli, án þess að samráð hafi verið haft rétt við yfirvöld. Þessi framganga kemur mér ekki á óvart. Engu er líkara en yfirvöld í Reykjavík telji sig geta farið fram að eigin vilja og án samráðs við kóng eða prest, þegar ráðist er í framkvæmdir austan við flugvöllinn.

Þegar ákveðið var að reisa stórbyggingu Háskólans í Reykjavík í Vatnsmýrinni á milli Nauthólsvíkur og Öskjuhlíðar, spáði ég, að ekki liði á löngu, þar til talið yrði nauðsynlegt að leggja akveg frá skólanum á strönd Fossvogsins að Kringlumýrarbraut. Nú er unnið að þeirri vegagerð.

Ég minnist þess ekki að hafa heyrt neitt um nýja veginn í fjölmiðlum. Fyrsta skrefið er einfaldur vegur. Næsta skref verður að leggja þarna breiða braut og eyðileggja

þetta óspillta strandsvæði um aldur og ævi. Hér fyrir neðan eru tvær myndir, sem ég tók af nýja veginum. Hann liggur neðan við núverandi göngu- og hjólabraut.

       
       
       
       Stígur í Öskjjuhlíð IIStígur í Öskjuhlíð I
       
       
       
     Ps athygli mín hefur verið vakin á því að auglýst var breyting á deiluskipulagi í Öskjuhlíðinni og má sjá hana hér.

Þriðjudagur, 14. 09. 10. - 14.9.2010

Ég hef rennt yfir tillögur Atlanefndarinnar, sem byggðar eru á tillögum hrunnefndarinnar, um endurbætur innan stjórnsýslunnar og á störfum alþingis. Satt að segja finnst mér ekki mikið til þessa koma, því að þarna er endurtekið margt af því, sem sagt hefur verið áður og ekki komist til framkvæmda.

Ég nefni til dæmis umbætur á meðferð EES/ESB-mála í ríkisstjórn og á þngi. Um þetta voru settar reglur, þegar Ísland gerðist aðili að EES fyrir 15 árum. Þingmenn hættu einfaldlega að halda þær í heiðri. Bjarni Benediktsson vakti máls á nauðsyn þess að dusta rykið af þessum reglum í utanríkisnefnd fyrir nokkrum misserum. Þá er að finna ítarlegar tillögur um þetta efni í skýrslu Evrópunefndar frá því í mars 2007.

Umbætur á þessu sviði eiga ekkert skylt við bankahrunið. Staðið var rétt að innleiðingu allra EES-reglna um fjármálakerfið. Umbæturnar snerta hins vegar almenna starfshætti og nýtingu þeirra tækifæra, sem EES-samstarfið veitir til áhrifa á EES-löggjöfina á öllum stigum hennar. Ég er þeirrar skoðunar, að ástæðan fyrir því, að ekki hafi nú þegar verið gripið til umbóta á þessu sviði, sé einfaldlega sú, að þeir hafi ráðið of miklu við mótun samskiptanna við ESB, sem vilja Ísland inn í ESB og telja sér hagstætt að gera sem minnst úr EES-samstarfinu.

Raunsætt mat á því, sem lagt er til í úrbótatillögum Atlanefndarinnar, er, að tillögurnar rykfalli fljótt, enda bera umræðurnar á þingi með sér, að þær séu í raun tímaskekkja eins og reglurnar um landsdóm frá 1963. Umræðurnar eru úr tengslum við það, sem eru brýnustu stjórnmálaverkefni líðandi stundar. Ekki verða þær ferskari við, að menn sameinist um að setja af stað enn eina rannsóknina, nú á einkavæðingvu bankanna árið 2002.

Mánudagur, 13. 09. 10. - 13.9.2010

Í hádeginu stýrði ég fundi SVS, Varðbergs og Alþjóðamálastofnunar HÍ í Norræna húsinu, þar sem Klaus Naumann flutti fyrirlestur fyrir fullum sal um framtíð NATO og svaraði fyrirspurnum.

Sunnudagur, 12. 09. 10. - 12.9.2010

Ók með Klaus Naumann og Barböru, konu hans, í Skálholt, þar sem Kristinn Ólason, rektor, sagði okkur sögu staðarins. Síðan ætluðum við að Geysi og Gullfossi. Rigndi svo mikið, að við snerum við á Geysi. Það stytti hins vegar upp á Þingvöllum, á meðan við dvöldumst þar.

Eftir heimkomu skrifaði ég pistil í tilefni af ákæru fyrir landsdóm.

Laugardagur, 11. 09.10 - 11.9.2010

Klaus Naumann, fyrrverandi yfirhershöfðingi Þýskalands og formaður hermálanefndar NATO, kom hingað til lands í morgun. Tók ég á móti honum og konu hans á Keflavíkurflugvelli og ókum við austur að Eyjafjallajökli. Það birti eftir því sem austar dró og sást verulegur hluti jökulsins, þó ekki toppurinn. Naumann flytur fyrirlestur í Norræna húsinu klukkan 12.00 mánudaginn 13. september um framtíð NATO. Hann er einstaklega vel að sér um alla þætti öryggismála og stjórnmála.

Þingmannanefnd Atla Gíslasonar um hrunskýrsluna skilaði skýrslu sinni og tillögum í dag. Nú hef ég ekki lesið skýrsluna heldur aðeins heyrt fréttir. Vinstri-grænir, framsóknarmenn og Hreyfingin ætla að reyna að slá pólitískar keilur með ákæruskjali á hendur fjórum ráðherrum í ríkisstjórn Geirs H. Haarde. Að saka þetta fólk um að haf framið refsiverðan verknað er út í hött.

Þegar dæmt hafði verið í Baugsmálinu 5. júní 2008, þar sem þrír voru sakfelldir, sagðist Atli Gíslason, alþingismaður, hafa orðið fyrir vonbrigðum vegna dómsins. Réttarvörslukerfið hefði verið á villigötum í málinu. Upphafið hefði verið pólitískt og persónulegt og eftirleikurinn eftir því. Hann væri ósáttur við niðurstöðuna í málinu – menn uppskæru eins og þeir sáðu. Málið væri aðför frá upphafi til enda. Þetta væri áfall fyrir réttarvörslukerfið.

Ég tel, að þessi orð Atla um Baugsmálið eigi við um málatilbúnað hans sjálfs, þegar hann beitir sér fyrir því, að fjórir ráðherrar skuli dregnir sem sakborningar fyrir landsdóm vegna bankahrunsins. Markmið Atla og vinstri-grænna hefur frá upphafi verið að skella allri skuld, sem þeir mega, vegna bankahrunsins á Sjálfstæðisflokkinn. Að Framsóknarflokkurinn spili með þeim sýnir enn og aftur hentistefnu flokksins. Afstaða Samfylkingarinnar að ákæra þrjá í stað fjögurra sýnir pólitískt eðli málsins í hnotskurn. Afstaða Sjálfstæðisflokksins  gegn ákæru er skýrð með málefnalegum rökum.

Að mínu áliti hefur enginn stjórnmálamaður gert meiri aðför að opinberri stjórnsýslu og stjórnarráðinu í seinni tíð en Jóhanna Sigurðardóttir. Að telja hana dómbæra um, hvað best sé til þess fallið að bæta stjórnsýsluna er ekki aðeins grín heldur lýsir ótrúlegri vanþekkingu þeirra fjölmiðlamanna, sem ræða við Jóhönnu og láta eins og hún hafi lög að mæla um endurbætur á stjórnarháttum í landinu.


Föstudagur, 10. 09. 10. - 10.9.2010

Steingrímur J. Sigfússon og Svavar Gestsson vildu semja um Icesave, hvað sem það kostaði, strax eftir að ríkisstjórn Jóhönnu var mynduð 1. febrúar 2009 til þess að geta skellt skuldinni á Sjálfstæðisflokkinn. Þeir réðu ekki við málið. Þjóðin hafnaði brölti þeirra endanlega í þjóðaratkvæðagreiðslunni 6. mars sl.

Atli Gíslason, vinstri-grænn formaður nefndar þingmanna um hrunskýrsluna, vill ákæra ráðherra í ríkisstjórn Geirs H. Haarde til að fylgja eftir árásum Steingríms J. á Geir og Sjálfstæðisflokkinn. Heiftin í garð Sjálfstæðisflokksins heldur flokki vinstri-grænna saman og tryggir hollustu þeirra við ríkisstjórnina. Landsdóms-ákæra af hálfu Atla er póiitísk ákæra í þágu vinstri-grænna.

Að morgni laugardags 11. september er óformlegur fundur utanríkisráðherra ESB-ríkja með utanríkisráðherrum umsóknarríkja. Skyldi Össur sækja fundinn? Þegar þetta er skrifað seint að kvöldi 10. september hefur engin tilkynning borist um það.

Fimmtudagur, 09. 09. 10. - 9.9.2010

AlÞingi samþykkti í dag breytingar á stjórnarráðslögunum, sem leiðir til þess, að dómsmálaráðuneytið verður hluti af innanríkisráðuneyti með samgöngumálum, sveitarstjórnarmálum og fleiri málaflokkum. Ég tel þetta mjög misráðið og lýsa mikilli vanþekkingu á þeim skyldum, sem hvíla á dómsmálaráðuneytinu. Þar eru verkefni, sem eru annars eðlis en almennt er að finna innan stjórnarráðsins, því að fjallað er um persónuleg málefni og réttindi. Þeim er best sinnt af sérfræðingum, sem starfa í ráðuneyti, sem sérhæfir sig í þessum málaflokkum. Það er engin tilviljun, að í öllum löndum starfa ráðuneyti, sem sérhæfa sig í þeim málum, sem eru á verksviði dómsmálaráðuneyta.

Jóhanna Sigurðardóttir fór með rangt mál í fjölmiðlum 2. september, þegar hún sagði, að rannsóknarnefnd alþingis hefði talið nauðsynlegt að sameina ráðuneyti og stækka þau. Ekkert slíkt stendur í skýrslu nefndarinnar. Jóhanna skipaði hins vegar nefnd, til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Í fljótræðislegu áliti hennar er gefið til kynna, að stærri ráðuneyti kunni að skila betra verki en minni og við stækkun ráðuneyta verði sparnaður. Í áliti nefndarinnar er þessu slegið fram án nokkurra útreikninga eða tillagna um útfærslu. Því síður liggur fyrir úttekt á verkefnum ráðuneyta til að unnt sé að meta með hliðsjón af þeim, hvernig þau falla saman.

Vinnubrögðin við þessa breytingu á stjórnarráðin eru forkastanleg.

Miðvikudagur, 08. 09. 10. - 8.9.2010

Í dag ræddi ég við Stefán Einar Stefánsson, guðfræðing, í þætti mínum á ÍNN . Er viðtalið sýnt á tveggja tíma fresti frá klukkan 20.00 í kvöld í einn sólarhring. Við ræðum stöðu þjóðkirkjunnar, þagnarskyldu presta og annað í þeim dúr.

Nú dregur að því, að þingnefnd undir formennsku Atla Gíslasonar, þingmanns vinstri-grænna, um viðbrögð alþingis við rannsóknarskýrslunni um bankahrunið. Nefndin sendi fyrir nokkrum mánuðum ríkissaksóknara erindi, sem gaf til kynna, að hún teldi, að hugsanlega hefðu seðlabankastjórar gerst sekir um saknæmt athæfi í embættisfærslu í tengslum við bankahrunið. Ríkissaksóknari sá ekki ástæðu til að hafast að í málinu. Það tók hann ekki langan tíma að komast að þeirri niðurstöðu og raunar sérkennilegt, að nefndin hefði ekki sjálf geta komist að henni.

Af þessu málskoti nefndarinnar má draga þá ályktun, að innan hennar eigi það sjónarmið hljómgrunn, að ákæra beri frekar en komast að efnislegri niðurstöðu innan nefndarinnar. Hlutverk hennar er tviþætt. Í fyrsta lagi að segja álit sitt á skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Í öðru lagi að leggja fram á alþingi tillögu um að draga eigi einhverja ráðherra í ríkisstjórn Geirs H. Haarde fyrir landsdóm, telji nefndin efnislegar ástæður til þess.

Hvað sem öðru líður er ekki heppilegt, að þingmenn verði á einu máli um niðurstöðu nefndar Atla Gíslasonar. Samhljóða afstaða þingmanna byggist gjarnan á því, að sammælst er um lægsta samnefnara, oft í því skyni að komast hjá umræðum í þingi um erfið og viðkvæm mál. Að virkja landsdóm og stefna fyrrverandi ráðherrum fyrir hann er svo mikilvæg ákvörðun, að hana ber að ræða ítarlega og í þaula fyrir opnum tjöldum, áður en alþingi kemst að niðurstöðu í málinu.

Þriðjudagur, 07. 09. 10. - 7.9.2010

Ríkisstjórnin er ósamstiga í atvinnumálum. Samfylkingin og vinstri-grænir deila um öll nauðsynleg úrræði til að hjól atvinnulífsins fari að snúast hraðar.

Atvinnusköpun fjármálaráðherra felst í því að ráða skatteftirlitsmenn til að herða enn frekar tökin á skattgreiðendum, um leið og seilst er dýpra í vasa þeirra með hærri álögum.

Hvert prósent í atvinnuleysi kostar skattgreiðendur 3,1 milljað króna og á bakvið það standa 1460 einstaklingar. Því lengur sem ríkisstjórnin þrefar um, hvort leyfa beri stóriðju eða banna, þeim mun meiri líkur eru á að atvinnuleysi aukist.

Málflutningur samfylkingarfólks er ómerkilegur, þegar það segir, að Icesave eða krónan standi í vegi fyrir, að ríkisstjórnin geti hrundið atvinnustefnu í framkvæmd. Þetta sjónarmið einkennist af flótta frá hinum raunverulegu viðfangsefnum.

Mánudagur, 06. 09. 10. - 6.9.2010

Vetrardagskrá okkar qi gong fólks hófst í morgun, þegar við hittumst á fyrsta stefnumóti við orkuna í Efstaleiti klukkan 08.10.

Ég skrifaði pistil hér á síðuna um skammarleg vinnubrögð Jóhönnu Sigurðardóttur við breytingar á stjórnarráðinu. Um það mál segir hún ósatt, þegar hún heldur því fram, að rannsóknarnefnd alþingis um bankahrunið hafi lagt til að ráðuneyti yrði stækkuð.

Sunnudagur, 05. 09. 10. - 5.9.2010

Kristrún Heimisdóttir, lögfræðingur, sem sat á þingi fyrir Samfylkinguna, eftir að ríkisstjórn hennar og vinstri-grænna var mynduð 1. febrúar 2009, sagði á fundi á Hótel Borg 4. september, að Svavari Gestssyni hefði verið falið að leiða Icesave-samningaviðræðurnar, af því að hann hefði næstum orðið aðalsamningamaður Íslands í aðildarviðræðum við ESB.  Á visir.is er þetta haft eftir Kristrúnu:

„Ég held, að ástæðan fyrir því, að Svavar Gestsson var formaður samninganefndar um Icesave-málið sé sú, að þeir sem sömdu stjórnarsáttmálann fyrir okkur í vinstri stjórninni í ársbyrjun 2009 voru nánast búnir að samþykkja að hann yrði aðalsamningamaður um Evrópusambandið.“

Á Evrópuvaktinni er vakin athygli á því, að þessi ummæli Kristrúnar benda til þess, að ESB-aðildarmálin hafi verið mun lengra komin fyrir kosningar 25. apríl 2009, en áður hefur fram komið.

Vinstri-grænir gengu til kosninganna sem andstæðingar ESB og hafa síðan látið þannig, að þeim hafi verið nauðugur einn kostur fyrir myndun ríkisstjórnar 10. maí 2009 að semja um, að alþingi afgreiddi aðildarumsóknina að ESB.

Orð Kristrúnar lýsa enn meira baktjaldamakki við myndun minnihlutastjórnarinnar 1. febrúar 2009 en áður var vitað.

Laugardagur, 04. 09. 10. - 4.9.2010

Samtök iðnaðarins (SI) hafa um nokkurt árabil verið fremst meðal þeirra, sem litið hafa á aðild að ESB og brotthvarf krónunnar fyrir evru sem lausn á öllum vanda íslensks efnahagslífs. Nú kveður hins vegar við annan tón hjá Bjarna Má Gylfasyni, hagfræðingi SI, í tilefni af nýjum tölum um landsframleiðslu á öðrum ársfjórðungi þessa árs. Hann bendir á, að allir undirliðir landsframleiðslunnar séu að dragast saman fyrir utan samneysluna, það er umsvif opinberra aðila. Um sé að ræða mesta samdrátt einkaneyslu og landsframleiðslu milli ársfjórðunga frá bankahruni. Þetta gerist þvert á skilaboð Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar um að „botninum sé náð og betri tíð framundan.“ Hagtölur bendi því miður til annars.

Á vefsíðu SI er Bjarni Már spurður, hvað þurfi að gera til að snúa þróun efnahagsmála til betri áttar. Hann svarar, að fyrst þurfi að leggja til hliðar allar hugmyndir um frekari skattahækkanir, frekar ætti að lækka skatta. Þá segir hann orðrétt:

 „Einkaneyslan er drifkraftur efnahagsstarfseminnar og skattheimtan dregur allan mátt úr henni. Þá er nauðsynlegt að lækka vexti enn frekar og raunar óskiljanlegt að það hafi ekki verið gert með kröftugri hætti enda lítil hætta á veikingu krónunnar með gjaldeyrishöftin. Þá þarf að koma stórframkvæmdum í gang og leggja áherslu á arðbærar vegaframkvæmdir. Þetta er hægt en ekki með aðgerðaleysi og aukinni skattheimtu.“

Eftir að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur var mynduð með ESB-aðildarumsókn á stefnuskrá sinni fögnuðu Samtök iðnaðarins því og töldu aðild og evru bestu leiðina til að bjarga íslenskum efnahag. Nú minnist hagfræðingur SI ekki einu orði á evru eða ESB-aðild, þegar hann nefnir úrræðin, sem nauðsynleg eru til að snúa vörn í sókn.

Ekkert af því, sem hann nefnir, gerist í tíð þessarar ríkisstjórnar. Hún verður að víkja til að horfið verði frá aðgerðaleysi og aukinni skattheimtu.

Föstudagur, 03. 09. 10. - 3.9.2010

Mikið öskurok var hér í Fljótshlíðinni í morgun og er enn, þegar þetta er skrifað á þriðja tímanum. Vindur er sterkur að austan og ekki hefur rignt enn eins og spáð var. Stundum sést móta fyrir jöklinum, þegar aðeins lægir en annars hverfur hann í öskumökkinn. Ég sló í gær, þegar ég rakaði snemma í morgun, rauk aska úr heyinu, þannig að fíngert efni leggst í svörðinn.

Þegar ég skrifaði um ráðherrakapalinn í gær, hafði ég ekki séð viðtalið við Álfheiði Ingadóttur, fráfarandi heilbrigðisráðherra, á tröppum Bessastaða um hádegisbilið í gær, sem birtist á mbl.is og sjá má hér. Athygli mín beindist ekki að því, fyrr en ég hafði lesið pistil á vefsíðu Einars Kr. Guðfinnssonar, þar sem hann segir réttilega, að vinstri-grænir hafi tryggt stuðning við fjárlagafrumvarpið með því að taka Ögmund Jónasson í stjórnina. Einar segir:

„Álfheiður Ingadóttir fyrrverandi heilbrigðisráðherra sagði frá því..., að markmiðið með þessum tilfæringum hefði einfaldlega verið að tryggja stuðning meirihluta Alþingis við samþykkt fjárlaga. Þetta eru ekki lítil tíðindi. Hvað er ráðherrann fyrrverandi að segja okkur?

Jú. Að í fyrsta lagi hafi ekki verið meirihluti fyrir því fjárlagafrumvarpi sem nú er í prófarkalestri og verður lagt fyrir Alþingi eftir tæpan mánuð. Ríkisstjórn sem ekki hefur meirihluta fyrir fjárlagafrumvarpinu sínu á bara eitt eftir; að segja af sér. Það er það sem beið hennar, samkvæmt þessu að öllu óbreyttu, eftir næstu mánaðarmót.

En við þessu var séð. Hrókeringarnar höfðu þann tilgang að koma í veg fyrir slíkt. Með því að skipa Ögmundi Jónassyni til sætis við ráðherraborðið í húsi Stjórnarráðsins við Lækjatorg, var stuðningurinn tryggður. Flóknara var það ekki.

Stjórnmálaskýring Álfheiðar Ingadóttur segir alla söguna, alla sólarsöguna. Það er búið að smeygja múlnum á órólegu deildina í VG. Og þannig mýld mun hún ganga í takt, með samræmdu göngulagi fornu !“


Fimmtudagur, 02. 09. 10. - 2.9.2010

Fjórir ráðherrar létu af störfum í dag og tveir nýir komu í þeirra stað. Þessi breyting á ríkisstjórninni skiptir engu efnislega. Ástæða er til að efast um, að hún styrki innviði stjórnarsamstarfsins.

Jóhönnu Sigurðardóttur hefur ekki þótt mikið til Kristjáns L. Möllers koma. Hún hefur nú losað sig við hann. Þar með missir Össur Skarphéðinsson helsta samherja sinn innan ríkisstjórnarinnar. Í 20 áhersluatriðum um stefnu við ráðherrabreytingarnar er ekki minnst einu orði á hjartans mál Össurar, ESB-aðildina.

Guðbjartur Hannesson reyndist Jóhönnu betri en enginn sem forseti alþingis frá því í byrjun febrúar 2009 til þingkosninga 25. apríl, 2009. Hann tók að sér að þrjóskast við í hennar nafni í stjórnarskrárumræðunum á þingi. Þau héldu hins vegar svo illa á málinu, að afgreiðslu þess lauk ekki. Mér þótti mikið til Guðbjarts koma á forsetastóli þingsins. Nú er talað um, að hann sé að fikra sig upp í formannsstól Samfylkingarinnar í skjóli Jóhönnu. Össuri mislíkar það um leið og hann saknar Kristjáns, vinar síns, úr ríkisstjórninni.

Valdahlutföll hafa breyst innan Samfylkingar vegna ráðherraskiptanna. Armur Jóhönnu hefur treyst stöðu sína gagnvart Össuri.

Steingrímur J. varð að taka Ögmund í ríkisstjórnina í von um að þingflokkurinn yrði starfhæfur, af því að armar hans teldu jafnvægi ríkja í ráðherrahópnum. Hafi Jóhanna styrkt stöðu sína innan Samfylkingar með uppstokkun ráðherra, hefur staða Steingríms J. veikst innan eigin flokks vegna breytinga í ráðherraliði. Hann hafði alla VG-ráðherra nema Jón Bjarnason á sínu bandi nú standa þeir Ögmundur og Jón saman innan ríkisstjórnarinnar og gegn Steingrími J. ef svo ber undir.

Ríkisstjórnin veikist ekki við, að Gylfi Magnússon hverfi úr henni, enda hefur hann glatað trausti gagnvart þjóð og þingi. Hins vegar er verulegt áfall fyrir ríkisstjórnina, að Ragna Árnadóttir lætur af ráðherrastörfum. Brottför hennar sýnir, að skynsemi ræður ekki þessari uppstokkun heldur innri spenna í stjórnarflokkunum og milli þeirra.

Miðvikudagur, 01. 09. 10. - 1.9.2010

Hér má sjá viðtalsþátt

minn við Ólaf Örn Haraldsson, þjóðgarðsvörð á Þingvöllum, sem sendur var á sjónvarpsstöðinni ÍNN 25. ágúst.

Hrókeringar í ríkisstjórninni náðu ekki fram að ganga í dag, eins og að var stefnt. Í fréttum klukkan 22.00 í sjónvarpi var sagt, að Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon hefðu hitt Ögmund Jónasson, ráðherraefni, og Jón Bjarnason, ráðherra, í kvöld til að brýna fyrir þeim, að þeir yrðu að beygja sig undir ESB-stefnu ríkisstjórnarinnar og önnur áhugamál flokksformannanna, ef þeir vildu sitja í ríkisstjórninni.

Fyrr í dag var sagt frá því, að í þingflokki Samfylkingarinnar vildu menn ekki, að Ögmundur og Jón yrðu báðir ráðherrar. Er fáheyrt, að samstarfsflokkur skipti sér af ráðherravali innan hins flokksins í samsteypustjórn. Málamiðlun milli Jóhönnu og Steingríms J. byggist vafalaust á því, að reyna að þagga niður í Ögmundi og Jóni og knýja þá til að halda sér saman um ágreiningsmál.

Spurning er, hvers vegna vinstri-grænir heimtuðu ekki, að Össur yrði einnig kallaður á teppið. Hann er tekinn til við að rífast um innfluttar, frystar kjúklingabringur við Jón Bjarnason. Fetar hann þar í fótspor Jóns Baldvins Hannibalssonar, sem var sífellt að jagast í landbúnaðarráðherra, vegna frystra kjúklingabringa.