23.9.2010

Fimmtudagur, 23. 09. 10.

Í Viðskiptablaðinu er sagt, að menningarhús á landsbyggðinni hafi verið „gæluverkefni“ ríkisstjórnarinnar frá 1999. Kemur þetta fram í grein um hið glæsilega menningarhús Hof á Akureyri.

Fráleitt er að kalla þetta hús eða önnur menningarhús gæluverkefni ríkisstjórnarinnar. Hugmyndin um húsin var kynnt samhliða því, sem ákvörðun var kynnt um ráðstefnu- og tónlistarhúsið í Reykjavík. Hvorki var lögð skylda á neinn til að reisa húsin né ákveðið í hvaða mynd þau skyldu verða, Nefndir voru fimm staðir; Ísafjörður, Sauðarkrókur, Akureyri, Egilsstaðir og Vestmannaeyjar. Hver staður eða byggðarlag hefur unnið úr hugmyndinni á eigin forsendum.

Miðað við alla þá fjármuni, sem fokið hafa út i veður og vind frá því, að hugmyndir um þessar framkvæmdir í þágu menningarinnar voru kynntar, er í raun dapurlegast, að í þær skuli ekki hafa verið ráðist fyrr.