Dagbók: júlí 2012

Þriðjudagur 31. 07. 12 - 31.7.2012 23:20

Ársskýrsla lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir 2011 er komin út. Þar segir meðal annars:

„Frá upphafi hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu unnið að því að auka öryggi og öryggistilfinningu þeirra sem búa, starfa og dvelja í umdæminu. Hér er um grundvallarmarkmið að ræða og því má aldrei sofna á verðinum. Árangurinn hverju sinni er mældur í árlegri viðhorfskönnun, sem embættið lætur framkvæma. Sumarið 2011 var slík könnun lögð fyrir íbúa á höfuðborgarsvæðinu, er yfirgnæfandi meirihluti svarenda taldi sig vera örugga (mjög eða frekar) eina á gangi að næturlagi í sínu hverfi eða byggðarlagi. Þá töldu tæplega 85% þátttakenda lögregluna skila mjög eða nokkuð góðu starfi í sínu hverfi.“

Stefán Eiríksson lögreglustjóri lýsir árangri samstarfsmanna sinna réttilega sem „afreki“ í inngangi skýrslunnar þegar að því er hugað að árangurinn hefur náðst á sama tíma og krafist hefur verið niðurskurðar og mikils aðhalds í rekstrinum. Lögreglustjórinn segir:

 „Þessi góði árangur er ekki síst áhugaverður í ljós þess mikla niðurskurðar sem embættið hefur staðið frammi fyrir á undanförnum árum. Niðurskurðarkröfunni hefur verið mætt með margvíslegum hætti, starfsfólki hefur fækkað verulega, breytingar hafa verið gerðar á skipulagi og vaktakerfum, verkefnum hefur verið hætt og allra leiða leitað til að hagræða og spara í rekstri svo fátt eitt sé nefnt. Gætt hefur verið að því að þessar aðgerðir hafi sem minnst áhrif á möguleika lögreglunnar til að sinna grunnþjónustu og bráðatilvikum. Með hliðsjón af öllu þessu er ekki hægt að lýsa þeim árangri sem starfsfólk lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur náð á undanförnum árum öðruvísi en svo að kalla það afrek.“

Stefán telur að „allt of langt“ hafi verið gengið í niðurskurði til löggæslu á höfuðborgarsvæðinu. Afleiðingarnar komi óhjákvæmilega í ljós.

Um þessar mundir leggur ríkisstjórnin lokahönd á fjárlagafrumvarp fyrir árið 2013. Þar forðast hún áfram að takast á við vanda með uppskurði á kerfum, þess í stað beitt hinni óskynsamlegu aðferð að þrengja að á öllum sviðum og fleyta sér áfram á lánum.

Árið 2011 var fjármagnskostnaður ríkissjóðs hærri en öll útgjöld til menntamála. Síðan hefur lántaka aukist. Hinn mikli fjármagnskostnaður þrengir að öllum öðrum útgjaldaliðum.

 

Mánudagur 30. 07 12 - 30.7.2012 23:12

Fréttir af evru-svæðinu bera nú með sér að ætlunin sé að hanna hjáleið framhjá stjórnmálamönnum og fela Mario Draghi, forseta bankastjórnar Seðlabanka Evrópu, að bera hita og þunga evru-björgunarstarfsins. Hann þarf ekki að standa neinum kjósendum reikningsskil og stjórnmálamenn geta sagt hið sama og Jean-Claude Juncker, formaður evruhópsins, sagði í viðtali við Le Figaro sem birt var í dag: Stjórnmálamönnum dettur ekki í hug að hlutast til um málefni seðlabankans.

Þá hefur Timothy Geithner, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, verið á hraðferð í Þýskalandi. Tilgangur ferðar hans er hið sama og jafnan á örlagatímum Evrópu undanfarin 100 ár, að lýsa stuðningi við þá sem vinna að sama markmiði og Bandaríkjastjórn. Mikið er í húfi fyrir Barack Obama. Versni efnahagur Bandaríkjanna enn frekar vegna evru-vandans bitnar það á Obama í forsetakosningunum. Það vegur þyngra gagnvart kjósendum en vandræðalegar fréttir af Mitt Romney og ferðalagi hans til London, Ísraels og Póllands.

Mér finnst nokkuð langsótt að sú ályktun sé dregin af því sem ég hef sagt hér um hælisleitendur jafngildi því að málið setji svip á komandi kosningabaráttu. Ég hef ekki gert  mál hælisleitenda að flokkspólitísku máli. Vinstri-grænir hafa hins vegar gert það og ætla að gera enn betur. Það hentar greinilega ekki þeim sem telja voðaverk að ræða málefni hælisleitenda á pólitískum vettvangi að beina athygli að stefnu VG.

Sunnudagur 29. 07. 12 - 29.7.2012 20:53

 

 

Árleg hátíð var haldin í Reykholti í Borgarfirði í dag. Vígður var nýr kross við kirkjuna og séra Geir Waage söng messu. Þá lauk tónlistarhátíðinni á staðnum. Í kjallara kirkjunnar hefur verið opnuð ný sýning um Snorra Sturluson, samtíð hans og sögu Reykholts. Sífellt fleiri ferðamenn sækja Reykholt heim og kynnast framlagi Snorra til heimsmenningarinnar og mikilvægum þætti í Íslandssögunni.

Lýsing mín á reglum sem gilda á Schengen-svæðinu um málefni hælisleitenda og leiðir til að herða eftirlit á landamærum hafa meðal annars vakið þau viðbrögð að þar sé lýst „fasískum“ skoðunum. Þá er sagt að stuðningur við „hælisleitendur“ á Íslandi, þá sem leggja allt kapp á að komast héðan sé „mannúð“. Loks er varað við því að tekist verði á um þessi mál í komandi þingkosningum.

Þessi viðbrögð eru ekki annað en sjúkdómseinkenni brenglaðrar umræðuhefðar.

Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG, sagði 3. júlí 2012 á vefsíðu: „Þegar ný ríkisstjórn tók við 2009 varð sannarlega alger viðsnúningur í málefnum hælisleitenda en enn er þó langt í land.“ Hvers vegna eru menn andvígir því að tekist sé á um þetta mál í þingkosningum? Á ekki að ræða öllu stefnumál fyrir kosningar? Hvers vegna má ekki ræða stefnubreytinguna sem varð 2009? „Alger viðsnúningur“ að mati Álfheiðar – á hann að liggja í þagnargildi? Kannski af mannúðarástæðum? Álfheiður segir að enn sé „þó langt í land“. Mega kjósendur ekki vita fyrir kosningar hvað felst í þessum orðum?

Rétthugsun í þessum málaflokki er að ekki má ræða „algjöran viðsnúning í málefnum hælisleitenda“ af því að hann snýst um „mannúð“ í þágu manna sem talið er að gerist hvað eftir annað sekir um lögbrot við tilraunir til að komast úr landi. Er ekki betra að halda sig við heilbrigða skynsemi en rétthugsunina?

Laugardagur 28. 07. 12 - 28.7.2012 23:05

Nú hefur verið upplýst að fimm þingmenn VG styðji ekki landabraskið í sambandi við Huang Nubo. Þá segist Þór Saari, málsvari Hreyfingarinnar, ekki styðja braskið. Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, talar eins og hann kunni að styðja málstað vina Huangs. Magnús Orri Schram, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, segir flokkinn ætla að taka málefnalega afstöðu (!).

Spurning hvað þetta þýði allt saman? Ákvörðun um viðskipti við Huang Nubo er ekki á valdi alþingis heldur framkvæmdavaldsins. Ætla þingmennirnir að lýsa vantrausti á ráðherra sem beitir sér fyrir jákvæðri afgreiðslu að máli Huangs?

Þegar fréttir bárust af áhuga Huangs á að kaupa Grímsstaði á Fjöllum bar samfylkingarfólk hann á höndum sér. Össur Skarphéðinsson gaf sendiherra Íslands í Peking fyrirmæli um að sitja blaðamannafund með Huang og fagna Íslandsáhuga hans. Eftir að Ögmundur Jónasson hafnaði ósk Huangs sagði Katrín Júlíusdóttir að hún mundi sem iðnaðarráðherra sjá til þess að unnt yrði að koma til móts við óskir Huangs,

Samfylkingin tók Huang upp á arma sína eftir að hann hafði fundið stað á Íslandi meðal annars með aðstoð Ragnars Baldurssonar, starfsmanns sendiráðs Íslands í Peking.

Hvað gerir Samfylkingin í stöðunni núna? Magnús Orri segir hana ætla að taka málefnalega afstöðu. Hefur hún ekki gert það til þessa? Í pólitísku skjóli hennar hefur mál Huangs þróast á þann veg sem við blasir. Hvað gerir Jóhanna Sigurðardóttir við Ögmund á ríkisstjórnarfundi þriðjudaginn 31. júlí?

 

Föstudagur 27. 07. 12 - 27.7.2012 23:55

Setningarathöfn Ólympíuleikanna í London var glæsileg og einkenndist af því að efla þjóðarstolt Breta með því að sýna framlag þeirra til mannkynssögunnar og heimsmenningarinnar. Churchill var komið að með því að láta styttu af honum við þinghúsið í London veifa til Elísabetar II. drottningar sem átti að sitja í þyrlu á leið til setningarathafnarinnar með Daniel Craig sem nú leikur James Bond. Sjálfboðaliðar sem dönsuðu á leikvellinum mótuðu athöfnina sem var skreytt með stórum nöfnum úr breskri samtímasögu. Paul McCartney (70 ára) lauk hátíðinni með því að sameina alla í að syngja lag sitt Hey Jude.

Fimmtudagur 26. 07. 12 - 26.7.2012 22:50

Besti flokkurinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að besta leiðin til að auka viðskipti í miðborginni sé að stórhækka stöðumælagjöld. Það muni auka umferð um miðborgina af því að menn dveljist þar skemur vegna kostnaðar við dvölina.

Þetta eru ekki sannfærandi rök. Almennt er ekki erfitt að finna bílastæði í miðborginni. Það er helst ef fjölmennar jarðarfarir eru samtímis í Fríkirkjunni og Dómkirkjunni að aka þarf í hring í leit að stæði. Hækkun gjaldanna breytir engu í því efni.

Besti flokkurinn og Samfylkingin glíma við mikinn skipulagsvanda við suðurenda Ingólfstorgs vegna krafna húseiganda þar um að fá að nýta byggingarrétt sinn. Meirihluti borgarstjórnar er sakaður um að vega þar að borgarmyndinni. Nú situr hann líka undir ásökunum um að vega að verslunar- og þjónustustarfsemi í miðborginni vegna hækkunar á stöðumælagjöldum.

Athyglisvert er að í hvorugu málinu tekur Jón Gnarr borgarstjóri til máls og skýrir málstað meirihlutans fyrir borgarbúum. Leitin að honum sem málsvara borgarbúa ber engan árangur.  

Miðvikudagur 25. 07. 12 - 25.7.2012 23:12

Í dag ræddi ég við Birgi Ármannsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, í þætti mínum á ÍNN. Við ræddum breytingar á stjórnarskránni sem hafa verið á döfinni frá því að Jóhanna Sigurðardóttir varð forsætisráðherra 1. febrúar 2009.

Spurning er hvort þetta stjórnarskrárbrölt Jóhönnu og þeirra sem henni fylgja verði neðanmálsgrein í sögu stjórnarskrármálsins eða leiði til einhverra breytinga. Bröltið hefur kostað þjóðina stórfé en líkur á að það skili einhverri efnislegri niðurstöðu eru litlar. Tillögur stjórnlagaráðs eru ósamstæðar og alls ekki nein samstaða um þær utan ráðsins. Meirihluti alþingis hefur forðast að ræða tillögurnar efnislega. Hver er skoðun sjálfrar Jóhönnu á þeim? Það veit enginn – líklega ekki einu sinni hún sjálf.

Að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um sex spurningar er skrípaleikur sem kostar 250 milljónir króna. Til að stjórnarskránni verði breytt þarf þrjár umræður um frumvarp til stjórnskipunarlaga með atkvæðagreiðslu í lokin fyrir kosningar í apríl á næsta ári og síðan verður nýtt þing, sem kosið verður þá, að samþykkja lögin. Þetta markmið næst ekki nema víðtæk samstaða verði á alþingi. Jóhanna er andvíg slíkri samtöðu. Hún vill nota stjórnarskrána eins og annað til að berja á Sjálfstæðisflokknum.

Áhugamenn um að þjóðin hafi skoðun á þessu máli og láti hana í ljós verða að leggja hart að sér til að kosningaþátttaka verði viðunandi. Í hinum ógildu stjórnlagaþingkosningum í nóvember 2010 var þátttakan  36,77%  en frambjóðendur voru 523 og hvöttu að minnsta kosti sína nánustu til að kjósa sig.

Hverjir munu nú hafa hag af því að hvetja til þátttöku í þjóðarskoðanakönnuninni? Svo virðist sem það séu helst þeir 25 sem sátu í stjórnlagaráði eða hluti þeirra. Ég heyri ekki betur en í þeim hópi búi menn sig undir dræma þátttöku og tali nú um að hún ráði engum úrslitum um gildi könnunarinnar. Er það svo? Ég held ekki.

Það yrði eftir öðru í þessu máli að þeir sem sömdu tillögur að nýrri stjórnarskrá eftir að hafa verið valdir í ógildri kosningu hefðu hæst um nauðsyn þess að þjóðin segði álit sitt á sköpunarverki þeirra í kosningu þar sem kjördagur er ákveðinn með því að fara á svig við lög um þjóðaratkvæðagreiðslur.

Þriðjudagur 24. 07. 12 - 24.7.2012 22:50

Morgunblaðið  segir frá því í dag að Halldór Jóhannsson, umboðsmaður Huangs Nubos, hafi unnið að því að skipuleggja stórskipahöfn við Langanes. Það var tímabært að þessi frétt birtist á áberandi stað í víðlesnu blaði. Í nýjasta hefti af Þjóðmálum er vitnað til samantektar Láru Hönnu Einarsdóttur sem hefur tekið saman mikið efni um Huang Nubo og birt á bloggi sínu á eyjan.is. Hún fjallaði um Halldór Jóhannsson á síðu sinni 10. maí eins og sjá má hér.

Lára Hanna segir einnig frá því í nýjum pistli á síðu sinni hvernig Steingrímur J. Sigfússon hefur látið undan öllum óskum vegna Huangs og lýsir þeim hafsjó af kennitölum sem út hafa verið gefnar til að gera honum kleift að laga sig að íslenskum kröfum.

Þeir sem lesa úttektir Þjóðmála um Huang Nubo hljóta að sannfærast um að hann hagar seglum eftir vindi í öllu sem hann segir um Ísland og honum er það auðvelt því að hann hefur aldrei lagt fram neitt sem er skuldbindandi fyrir hann. Þetta er allt í nösunum á honum til þess að láta reyna á hve eftirgefanleg íslensk stjórnvöld eru þegar rætt er við einhverja fulltrúa þeirra um gull og græna skóga.

Huang hreiðraði fyrst um sig meðal samfylkingarfólks og naut stuðnings sendiráðs Íslands í Peking. Nú hefur hann málsvara meðal sveitarstjórnarmanna í sex sveitarfélögum á norðausturhorni landsins auk þess sem Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar vinnur fyrir hann og Halldór Jóhannsson sem á sínum tíma stóð að misheppnaðri lakkrísverksmiðju í Kína.

Guðmundur Vilhjálmsson, eigandi jarðarinnar Syðra-Lóns, í nágrenni Þórshafnar hefur í tvö ár átt í málaferlum við sveitarstjórn Langanesbyggðar og lýsir þeim á þennan hátt í Morgunblaðinu í dag:

 „Ef sveitarstjórnirnar hefðu borið gæfu til að vaða ekki yfir eignarrétt landeigenda og ef þær hefðu ekki beitt leiðinlegum starfsaðferðum, eins og að gera mönnum ekki fyllilega ljóst hvaða réttarstöðu þeir hefðu, væri málið ef til vill ekki í jafnslæmum farvegi. Eins og staðan er í dag munu landeigendur á svæðinu ekki vilja láta land sitt undir stóriðjustarfsemi,« segir Guðmundur og gagnrýnir vinnubrögð Halldórs Jóhannssonar, talsmanns Huang Nubo og skipulagsráðgjafa Langanesbyggðar. »Skipulagning og markaðssetning, þ.m.t. erlendis, hefur verið í óþökk landeigenda. Það hlýtur að vera sérstakt að eignir fólks skuli vera markaðssettar að því forspurðu. Kínverjarnir eru að leita að athafnasvæðum.“

Hve lengi á þessi stjórnsýsla í þágu Huangs Nubos að líðast? Ber sveitarfélögum ekki að virða eignarrétt við gerð skipulags? Er leyfilagt að hafa hann almennt að engu eða aðeins þegar Kínverjar eiga í hlut?

 

Mánudagur 23. 07. 12 - 23.7.2012 22:00

Á ruv.is má lesa í dag:

„Laumufarþegi fannst nýlega um borð í rannsóknarskipinu Knorr sem hafði viðkomu á Íslandi um miðjan júlí. Laumufarþeginn er nú í haldi um borð í skipinu eftir því sem best er vitað og óvíst er hvað verður um hann.

Ekki er heldur vitað hver laumufarþeginn er eða hvort hann hafi verið hælisleitandi á Íslandi.

Talið var að hann hefði komið um borð í skipið þegar það tók olíu í Örfirisey en nú hefur komið í ljós að hann komst um borð í skipið þegar það lá við Miðbakka.“

Föstudaginn 20. júlí mátti lesa á visir.is samtal við mennina tvo sem reyndu að smygla sér úr landi í Icelandair-flugvél. Þeir sögðust reyna allt sem þeir gætu til þess að laumast úr landi með skipi:

 „Það er bara ein hugsun sem kemst að hjá okkur. Við þurfum að komast burt. Hér erum við í búri. Alveg eins og páfagaukur í búri," sagði annar piltanna við visir.is og þeir sögðu að félaga sínum hefði tekist að lauma sér um borð í skip. „Núna er vinur okkar á leið til Ameríku í skipi,“ sögðu þeir.

Knorr er bandarískt rannsóknarskip.

Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskips, segir í Morgunblaðinu í dag:

,,Þetta hefur ekkert með þá innflytjendur sem sækja um pólitískt hæli að gera. Þetta eru menn sem nota landið sem stökkpall til þess að komast til annarra landa. Það er orðið brandari hvernig yfirvöld taka á þeim. Þeir hafa jafnvel sótt um hæli og fá greidda framfærslupeninga frá íslenskum skattgreiðendum. Þessa peninga nota þeir svo til þess að brjóta alþjóðalög og reyna að komast úr landi. Svo er ekkert gert til þess að reyna að hindra þetta.“

Hér er lýst afleiðingum stefnu sem vinstri-grænir telja rós í hnappi sínum og innanríkisráðherrans.

 

 

Sunnudagur 22. 07. 12 - 22.7.2012 21:50

Þess er minnst í dag er eitt ár frá voðaverki Breiviks í Útey. Þáttur í sjónvarpinu í kvöld sýndi hve djúpstæð áhrif hörmungarnar hafa haft á norsku þjóðarsálina og raunar langt úr fyrir Noreg. Frásagnir af Breivik-málaferlunum hafa fengið mikið rými í öllum helstu fjölmiðlum heims og hvarvetna eru menn þrumu lostnir yfir að slíkur atburður skuli hafa gerst í hinum friðsama Noregi, fyrirmyndarríki.

Fleiri fréttir berast frá Noregi og eru tvær birtar á Evrópuvaktinni í dag: önnur um að norska krónan sé hærri gagnvart evrunni en hún hefur verið í 10 ár; hin um að 75% Norðmanna eru andvígir ESB-aðild.

Fylgismenn ESB-aðildar í Noregi segja að hina miklu andstöðu megi rekja til efnahagsástandsins innan ESB. Fréttir af því eru svartari nú um helgina en áður. Allt er í uppnámi vegna Grikklands og vandræði Spánverja virðast rétt að byrja. Ég ræði þetta í pistli sem ég skrifaði hér á síðuna í dag.

Norska krónan styrkist vegna þess að menn leita skjóls fyrir peninga sína utan evru-svæðisins, þar á meðal í Noregi, Svíþjóð og Danmörku.

Í viðtali mínu við Erlend Magnússon á ÍNN sl. miðvikudag sagði hann að nú væri ef til vill rétti tíminn til að aflétta gjaldeyrishöftunum óttuðust menn að afnám þeirra leiddi til mikils fjárstreymis úr landi. Nú er staðan sem sé þannig að margir vilja líklega frekar eiga íslenskar krónur en evrur.

Afnám gjaldeyrishaftanna ræðst af pólitískri ákvörðun sem ríkisstjórnin vill ekki taka. Steingrímur J. vill hafa höftin til að ráðskast með fjármuni fyrirtækja og almennings. Jóhanna vill halda í þau í þeim tilgangi að halda í þann áróður að aðeins sé unnt að afnema þau með aðild að ESB. Bæði láta þau stjórnast af annarlegum sjónarmiðum sem ekki styðjast við nein skynsamleg rök.

Laugardagur 21. 07. 12 - 21.7.2012 22:30

Ekki rigndi mikið fyrir vestan Eyjafjallajökul í Fljótshlíðinni í dag miðað við það sem spáð hafði verið. Skúraleiðingar voru með jöklinum. Góð demba kom þó síðdegis. Nú rýkur þurr mold í rokinu. Það mætti rigna meira til að binda hana. Rokið er minna en vænta hefði mátt miðað við viðvaranir. Húsbílar í Fljótshlíðinni eru færri en oft áður í sumar.

Þáttur minn á ÍNN með Erlendi Magnússyni framkvæmdastjóri er kominn á vefinn og má sjá hann hér.

Við ræðum gjaldmiðlamál, þróunina á evru-svæðinu og úrræðaleysi stjórnvalda gagnvart gjaldeyrishöftunum.

Verði forsetakosningarnar ógiltar af hæstarétti lendir Ólafur Ragnar Grímsson í sömu stöðu og stjórnlagaþingmennirnir sem urðu aldrei þingmenn heldur stjórnlagaráðsliðar eftir að kjör þeirra var ógilt. Skyldi Jóhanna fela Ólafi Ragnari að starfa engu að síður sem forseti? Hún hafði ákvörðun hæstaréttar um stjórnlagaþingkosningarnar að engu og meirihluti alþingis tók undir með henni. Það ætti að benda sósíalistunum í Rúmeníu sem nú eiga í stríði  við framkvæmdastjórn ESB vegna óvirðingar þeirra í garð stjórnlagadómstóls landsins á að framkvæmdastjórnin hefur ekki gert neina athugasemd við að sósíalistar í ríkisstjórn Íslands fóru í kringum ákvörðun hæstaréttar við endurskoðun sjálfrar stjórnarskrárinnar.

Föstudagur 20. 07. 12 - 20.7.2012 22:05

Álfheiður Ingadóttir, þingmaður vinstri-grænna, skrifaði á vefsíðu 3. júlí 2012:

„Þegar ný ríkisstjórn tók við 2009 varð sannarlega alger viðsnúningur í málefnum hælisleitenda en enn er þó langt í land.“ Það sem felst í lokaorðum Álfheiðar er að ekki sé nóg að gert til að auðvelda hælisleitendum að koma til Íslands og fá hér hraða og jákvæða afgreiðslu á málum sínum. Greinina skrifaði hún í tilefni af því að Mohammad Askarpour, flóttamaður frá Íran sem hér hefur verið með einu hléi síðan 2009, var lagður inn á sjúkrahús í júní 2012 „þungt haldinn á líkama og geði,“ sagði á ruv.is 21. júní 2012 og lögmaður hans, Katrín Oddsdóttir,  sagði að hann mundi aldrei ná sér „að fullu og því verði höfðað mál gegn íslenska ríkinu vegna þess tjóns sem ómannleg og vanvirðandi meðferð hafi valdið, sem jafnist á við pyntingar“.

Á ruv.is má lesa í dag að aðstandandi Mohammads Askarpours segi að meðferðin sem hann hljóti hér á landi líkist pyntingum. Sífellt dragist að svara beiðni mannsins um hæli og heilsu hans hraki á meðan. Fréttin birtist í tilefni af því að fjögurra vikna frestur sem útlendingastofnun sagðist þurfa til afgreiðslu á máli Askarpours rann út í gær án þess að niðurstaða lægi fyrir en útlendingastofnun segist enn þurfa að vinna úr gögnum sem til hennar bárust.

Hér skal ekki fjallað efnislega um þetta mál. Hins vegar skal ítrekað sem ég hef áður sagt að afgreiðsluhraði mála af þessu tagi ræðst ekki síst af samstarfsvilja hælisleitandans. Sé hann ekki samstarfsfús og leggi hann ekki fram nógu haldgóð gögn ósk sinni um hælisvist til stuðnings tefur það óhjákvæmilega afgreiðslu málsins hjá útlendingastofnun.  Hitt er síðan ljóst að Askarpour nýtur stuðnings áhrifafólks í röðum VG, flokks Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra, eins og grein Álfheiðar Ingadóttur sýnir. Að halda því fram að hælisleitandi með slíka bakvarðasveit sé illa settur er öfugmæli.

Sama dag og ruv.is birti fréttina um Askarpour mátti lesa á visir.is samtal við mennina tvo sem reyndu að smygla sér úr landi í Icelandair-flugvél. Þeir reyna nú allt sem þeir geta til þess að laumast úr landi með skipi:

 „Það er bara ein hugsun sem kemst að hjá okkur. Við þurfum að komast burt. Hér erum við í búri. Alveg eins og páfagaukur í búri," segir annar piltanna við visir.is

Þess skal getið að starfsmenn útlendingastofnunar vinna baki brotnu að því að leggja mat á hælisbeiðni þessara tveggja manna. Ísland er ekki upphafsland þeirra félaga á Schengen-svæðinu. Hvers vegna er ekki reglum innan svæðisins beitt og þessir ungu menn fluttir til upphafslandsins svo að stjórnvöld þar geti úrskurðað um beiðni þeirra?

Fimmtudagur 19. 07. 12 - 19.7.2012 23:20

Hér á landi eru átök milli ríkisstjórnar og forseta um setningu laga eins og Icesave-málið sannar. Forseti og ríkisstjórn deila einnig um stjórnarskrána og hvernig standa skuli að breytingu á henni. Ríkisstjórnin hafði niðurstöðu hæstaréttar um ógildingu stjórnlagaþingkosningar að engu. Skipaði þá sem fengu flest atkvæði í stjórnlagaráð. Ríkisstjórnin ætlar að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur þessa stjórnlagaráðs og er markmið hennar meðal annars að þrengja svigrúm forseta Íslands og annarra til að gagnrýna efni tillagna sem eru ríkisstjórninni að skapi. Þjóðaratkvæðagreiðslan er í raun skoðanakönnun þar sem beðið er um svör við sex spurningum. Deilt er um hvort löglega sé staðið að ákvörðun um kjördag atkvæðagreiðslunnar.

Ríkisstjórnin sem kemur fram á þennan hátt við forseta Íslands og þjóðina alla við endurskoðun stjórnarskrárinnar hefur sótt um aðild að Evrópusambandinu. Innan þess ríkir nokkur spenna vegna stjórnarhátta í Ungverjalandi og Rúmeníu. Hér má lesa um það sem er að gerast í Rúmeníu og hvernig brugðist er við af framkvæmdastjórn ESB.

Það er undarlegt að stjórnarandstaðan á alþingi skuli ekki hafa kvartað til framkvæmdastjórnar ESB vegna framgöngu ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur í stjórnarskrármálinu og aðfarar hennar að forseta Íslands. Það á að krefjast úttektar af hálfu ESB á stjórnarháttum Jóhönnu Sigurðardóttur. Þá er ástæða til að vekja athygli Cristian dan Preda, trúnaðarmanns ESB-þingsins gagnvart Íslandi, á þróun mála hér. Hann er ESB-þingmaður frá Rúmeníu og stuðningsmaður forsetans sem nú er níðst á þar.

Fimmtudagur 26. 07. 12 - 19.7.2012 22:41

Besti flokkurinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að besta leiðin til að auka viðskipti í miðborginni sé að stórhækka stöðumælagjöld. Það muni auka umferð um miðborgina af því að menn dveljist þar skemur vegna kostnaðar við dvölina. Kaupmenn telja á hinn bóginn að þetta þrengi enn frekar að almennri verslunarþjónustu í miðborginni.

Besti flokkurinn og Samfylkingin glíma við mikinn skipulagsvanda við suðurenda Ingólfstorgs vegna krafna húseiganda þar um að fá að nýta byggingarrétt sinn. Meirihluti borgarstjórnar er sakaður um að vega þar að borgarmyndinni. Nú situr hann undir ásökunum um að vega að verslunar- og þjónustustarfsemi í miðborginni.

Athyglisvert er að í hvorugu málinu tekur Jón Gnarr borgarstjóri til máls og skýrir málstað meirihlutans fyrir borgarbúum. Leitin að honum sem málsvara borgarbúa ber engan árangur.  

Miðvikudagur 18. 07. 12 - 18.7.2012 16:30

Í dag ræddi ég við Erlend Magnússon framkvæmdastjóra í þætti mínum á ÍNN. Hann ritaði grein um gjaldmiðlamál í nýjasta hefti Þjóðmála auk þess sem hann er vel að sér um þróun mála innan Evrópusambandsins. Þáttinn má sjá klukkan 20.00 og 22.00. Hann verður sýndur á tveggja tíma fresti fram til 18.00 á morgun.

Þáttur minn á ÍNN frá því í síðustu viku þegar ég ræddi við Skafta Harðarson, formann Samtaka skattgreiðenda, er kominn á netið eins og sjá má hér.

Hið virta þýska viðskiptablað, Handelsblatt, birtir í dag frásögn af andstöðu íslensks almennings og annarra stjórnmálaflokka en Samfylkingarinnar við ESB-aðild. Blaðið vitnar í Þóru Arnórsdóttur sem segir Íslendinga eðlilega ekki hafa áhuga á að setjast að í „brennandi hóteli“ ESB. Segir blaðið að Þóra og Ólafur Ragnar hafi samtals fengið stuðning 85% kjósenda í nýlegum forsetakosningum og bæði séu andvíg ESB-aðild. Enginn sé til að halda uppi vörnum fyrir aðild nema einmana þingmenn Samfylkingarinnar. Lesa má þýðingu á frásögninni í Handelsblatt hér.


Þriðjudagur 17. 07. 12 - 17.7.2012 22:30

Við upphaf stjórnarsamstarfsins var sagt að beitt yrði gegnsæju, faglegu ferli við ráðningu starfsmanna stjórnarráðsins. Annað hefur komið í ljós. Frægt er jafnréttishneykslið undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur í forsætisráðuneytinu. Þá réð Jóhanna sjálfan upplýsingastjóra ríkisstjórnarinnar, Jóhann Hauksson, með leynd án auglýsingar. Nú segist Steingrímur J. Sigfússon ætla að ráða ráðuneytisstjóra í nýju ráðuneyti með samkomulagi stað þess að auglýsa embættið.  Hvergi er þess getið í lögum að æðstu embættismenn ríkisins séu ráðnir „með samkomulagi“. Orðalagið eitt bendir til þess eða menn komi saman í bakherbergjum og ráði ráðum sínum.

Það vakti nokkra undrun í  gær að Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra skyldi ekki efna til blaðamannafundar eða annarrar uppákomu til að fagna þriggja ára afmæli þess að alþingi samþykkti ESB-aðildarumsóknina. Slík innihaldslaus auglýsingamennska hefði verið í góðu samræmi við sýndarmennskuna sem felst í því að það sýni gífurlegan árangur að kaflar sem um hefur verið samið undir merkjum EES-samstarfsins skuli sigla án vandræða á milli manna í aðildarviðræðunum.

Eins og kunnugt er minntust sjávarútvegsráðherrar ESB-ríkjanna þriggja ára umsóknaraflmælis Íslands með því að leggja á ráðin um hvernig helst skuli refsa íslensku þjóðinni fyrir að íslensk skip stundi makrílveiðar í íslenskri lögsögu.

Mánudagur 16. 07. 12 - 16.7.2012 22:41

Á vefsíðunni Wordsmith wsmith@wordsmith.org er í dag kynnt enska orðið

fey

Það er skýrt sem lýsingaorð og sagt merkja:

1. Strange; unconventional; otherwordly.

2. Doomed.

3. Able to see the future.

Uppruninn er sagður faege (fated to die) í fornensku. Fyrst skráð fyrir tólftu öld.

Hér er orðið feigur að sjálfsögðu á ferð.


Sunnudagur 15. 07. 12 - 15.7.2012 22:05

Á ruv.is má lesa í dag:

„Nýverið fundu starfsmenn Eimskips bækistöðvar flóttamanna sem reyna að komast um borð í skip, þeir fundu mann undir hlera á hafnarsvæðinu sem var með talstöð og stjórnaði aðgerðum á meðan aðrir fjórir reyndu að komast um borð. Ólafur [William Hand upplýsingafulltrúi hjá Eimskip] segir að þetta hafi líkst hernaðaraðgerð.  „Við höfum sjö sinnum þurft að stöðva menn inni á svæðinu frá því apríl eða maí, samtals sautján einstaklinga.“


Ólafur telur að sumir af þessum mönnum hafi reynt að smygla sér um borð í tvö til þrjú ár. „Við höfum jafnvel fundið ummerki um að menn hafi beðið færis í tvo til þrjá daga inni á hafnarsvæðinu.““

Hið furðulega við þetta mál er að þeir sem hér eru að verki neita að upplýsa íslensk yfirvöld um hverjir þeir eru í raun og veru, eyðileggja vegabréf sín áður en þeir koma til landsins, segja rangt til um aldur og beita öðrum blekkingum um leið og þeir biðja um hæli sem pólitískir flóttamenn. Vegna þess hve illa gengur að sannreyna orð þeirra dveljast þeir lengur en góðu hófi gegnir í búðum fyrir hælisleitendur. Það vinna þeir greinilega að því að skipuleggja för til annars lands. Ásetningur þeirra hefur heldur aldrei verið að setjast að hér á landi.

Um er að ræða tilraunir til að misnota útlendingalöggjöfina og reglur um hælisleitendur til að fá nýtt vegabréf í þeim tilgangi einum að komast eitthvert annað. Í anda stefnu vinstri-grænna hefur verið látið eins og of harkalega hafi verið tekið á málum hælisleitenda áður en vinstri-grænir tóku við stjórn útlendingamála. Yfirlýsingar í þá veru hafa aðeins orðið til þess að fjölga þeim sem koma hingað til lands og misnota reglur sem settar eru til að koma til móts við fólk í raunverulegri neyð.

Innanríkisráðuneytið vinnur annars vegar að því undir stjórn Ögmundar Jónassonar að framfylgja stefnu hans um að taka á móti fleiri hælisleitendum og hins vegar að því að auka öryggisreglur til að sporna við afbrotum þeirra. Á visir.is mátti lesa í dag:

„Jóhannes Tómasson upplýsingafulltrúi innanríkisráðuneytisins sagði í samtali við fréttastofu að verið sé að fara yfir flug- og siglingaverndarmál vegna þessara atvika [lögbrota hælisleitenda vegna tilrauna til að komast úr landi] . Fundað verði með viðeigandi aðilum sem fyrst meðal annars í kjölfar þess þegar Flugmálastjórn skilar skýrslu um atvikið á Keflavíkurflugvelli.“

Hvernig væri að byrja á réttum enda á þessu máli? Leggja áherslu á að bægja hælisleitendum frá landinu?

Laugardagur 14. 07. 12 - 14.7.2012 22:10

Skrifaði í dag pistil hér á síðuna um gjaldmiðilsmálið, ESB og stjórnarskrármálið. Hrakfarir Jóhönnu í stjórnarskrármálinu eru með ólíkindum. Henni dettur þó ekki í hug að hætta. Forvitnilegt verður að sjá hvernig hún klórar sig út úr því að innanríkisráðherra í ríkisstjórn hennar telur ekki ljóst hvenær þjóðaratkvæðagreiðslan um tillögur stjórnlagaráðs skuli verða og óskar eftir ákvörðun alþingis um það. Þingið verður að ákveða kjördag með þriggja mánaða fyrirfara og það kemur ekki saman fyrr en í september. Nú hefur þingsalurinn auk þess verið tæmdur til að búa hann undir fimmtu embættistöku Ólafs Ragnars.

Jóhanna ætlaði að láta greiða atkvæði um stjórnarskrána um leið og forseti var kjörinn 30. júní. Hún réð ekki við það. Vilji hún að kosið verði 20. október, innan frestsins sem alþingi ákvað verður þing að koma saman fimmtudaginn 19. júlí til að ákveða það.

Einfalda leiðin fyrir alþingi er að ákveða að þetta sé alls ekki þjóðaratkvæðagreiðsla heldur skoðanakönnun eins og spurningar í þingsályktunartillögunni gefa  til kynna – þetta getur þingið gert þegar það kemur saman í september og haldið sig við 20. október. Að til þessa ráðs verði gripið er ólíklegt því að Jóhanna vill þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur sem hafa ekkert verið ræddar efnislega af öðrum en stjórnlagaráðsliðum völdum í ólöglegri kosningu.

Ég tel að leita eigi leiða til að vísa þessari meðferð á íslensku stjórnarskránni til Evrópuráðsins og Öryggissamvinnustofnunar Evrópu (ÖSE), stofnana sem láta sig lýðræði, kosningar og stjórnarskrár varða. Þá hlýtur Evrópusambandið að láta sig málið varða. Það leggur mat á íslenska stjórnarhætti og þeir verða að fullnægja kröfum þess. Skrípaleikur með stjórnarskrár fellur ekki að aðlögunarkröfum ESB.

Föstudagur 13. 07. 12 - 13.7.2012 23:50

Umferðin um Hvolsvöll eykst í réttu hlutfalli við fjöldann sem fer með Herjólfi til og frá Vestmannaeyjum. Þá geyma margir bílana sína á Hvolsvelli og fara með rútu inn í Þórsmörk. Umsvifin í Kjarvali margaldast yfir sumarmánuðina og biðraðir eru við kassana. Fjöldi fólks dvelst í húsbílum eða tjaldvögnum við Langbrók eða á Hellishólum í Fljótshlíðinni.

Nú hef ég sett greinar mínar um makríldeiluna hér inn á síðuna. Þær eru fjórar og má sjá þær hér, /greinar//nr/6375, hér /greinar//nr/6376 , hér /greinar//nr/6377 og hér /greinar//nr/6378 .

Fimmtudagur 12. 07. 12 - 12.7.2012 23:50

Í dag birti ég síðasta pistil af fjórum sem ég hef skrifað á Evrópuvaktina í þessari viku um makríldeiluna. Ég set þá inn á síðuna hér fyrir helgi. Að nokkrum manni skuli detta í hug að þessi deila komi ekki við sögu í ESB-aðildarviðræðum okkar Íslendinga sýnir best í hvaða tómarúm mönnum dettur í hug að setja viðræðurnar. Allir þættir utanríkissamskipta Íslands koma við sögu í ESB-viðræðunum. Vegna makríls munu ESB-ríki beita neitunarvaldi gegn Íslandi.

Fór í kvöld í Skálholt og hlustaði á Bach-sveitina á skemmtilegum tónleikum. Þeir verða endurteknir á laugardag fyrir þá sem áhuga hafa.

Miðvikudagur 11. 07. 12 - 11.7.2012 22:17

Í dag ræddi ég við Skafta Harðarson, formann Samtaka skattgreiðenda, í þætti mínum á ÍNN . Skafti lýsti áformum félagsins sem mun láta að sér kveða í sumarlok og beita sér í prófkjörum stjórnmálaflokkanna og í komandi þingkosningum. Við minntumst meðal annars þá kenningu sem málsvarar ríkisstjórnarinnar spinna núna um að skattastefna hennar veki aðdáun annarra sem leið úr kreppunni. Vafalaust trúa spunaliðarnir þessu sjálfir.

Í dag barst hins vegar enn ein staðfestingin á því að ákvarðanir sem ríkisstjórn Geirs H.Haarde tók haustið 2008 um björgunaraðgerðir í bankahruninu samrýmdust EES-samningnum. Þessi niðurstaða Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) var kynnt í dag.

ESA felldi í dag tvo úrskurði sem snúa að bankahruninu. Annar snýr að aðstoð sem Arion banki og Landsbankinn fengu þá ríkinu þegar bankakerfið var endurreist. Báðir bankarnir fengu eiginfjárframlag frá ríkinu, en Arion banki fékk auk þess víkjandi lán og lausafjárfyrirgreiðslu. 

Hinn úrskurðurinn fjallar um slit peningamarkaðssjóða Glitnis, Landsbankans og Kaupþings. Vegna mikils taps og áhlaups á sjóðina haustið 2008 gaf Fjármálaeftirlitið út tilmæli um að sjóðirnir skyldu gerðir upp. Því keyptu bankarnir skuldabréf af sjóðunum og greiddu þeim sem höfðu fjárfest í þeim út á milli 60 og 85 prósent af virði eignar sinnar.

Í báðum tilvikum telur stofnunin að aðgerðir stjórnvalda feli í sér ríkisaðstoð. Þrátt fyrir það samræmist þær EES-samningnum, enda falli þær undir sérstaka undanþágu sem heimili að samþykkja megi slíka aðstoð til að ráða bót á alvarlegri röskun á efnahagslífi EES-ríkis.

Þessar aðgerðir ríkisstjórnar Geirs H. Haarde skipta miklu meira máli þegar rætt er um leið Íslendinga úr hruninu en skattahækkanir Jóhönnu og Steingríms J.

Það er grátbroslegt að rætt skuli við Steingrím J. Sigfússon um niðurstöðu ESA eins og hann hafi átt hlut að ákvörðunum sem fengu hinn jákvæða dóm. Sjálfumgleði Steingríms J. kemur hins vegar ekki á óvart.

Þriðjudagur 10. 07. 12 - 10.7.2012 23:12

Skrapp til Þingvalla í sumarblíðunni í kvöld og hlustaði á Voces Thules syngja í kirkjunni sem var þéttsetin. Skrapp einnig upp á Hakið og skoðaði framkvæmdir í Almannagjá. Þær eru meiri en ég vænti og er gjáin í raun yfirbyggð þar sem hún er þrengst. Mér kom á óvart að sjá allar öryggisgrindurnar sem settar hafa verið á klettana á Hakinu auk þess sem þar er stórt hættumerki. Velti ég fyrir mér hvort orðið hafi slys sem síðan kallaði á allan þennan viðbúnað. Kafarar voru á ferð við Silfru þrátt fyrir gjaldtökuna. Hún tíðkaðist fyrir nokkrum árum en var hætt vegna skorts á lagaheimild. Síðan hafa verið sett ný lög um þjóðgarðinn á Þingvöllum með gjaldtökuheimild.

Í Fréttablaðinu er sagt frá því í dag að sveitarstjórnarmenn fyrir austan Þingvallavatn séu undrandi á því að vöruflutningabílum sé bannað að aka um þjóðgarðinn úr því að nýr vegur hafi verið lagður yfir Lyngdalsheiði. Undarlegt er ef þetta bann kemur á óvart. Allt frá því umræður hófust um endurgerð vegarins yfir Lyngdalsheiði hefur verið sagt að nýr vegur þar ætti ekki að auka þungaumferð um þjóðgarðinn, það sé skylda Þingvallanefndar að koma í veg fyrir það.

Ég lenti sem formaður Þingvallanefndar í útistöðum við sveitarstjórn Bláskógabyggðar vegna vegalagningarinnar og svaraði gagnrýni hennar með löngu bréfi sem ég birti hér á síðunni á sínum tíma. Þar má finna lýsingu á afstöðu Þingvallanefndar í málinu.

Pétur M. Jónasson, prófessor í Kaupmannahöfn, gerði marga atlögu að veginum yfir Lyngdalsheiði sem hann taldi ógna lífríki Þingvallavatns. Hafði hann ekki erindi sem erfiði. Hitt er ljóst að nýi vegurinn yfir Lyngdalsheiði átti aldrei að leiða til aukinna þungaflutninga um þjóðgarðinn. Hefur vegagerðin nú sett mikil skilti rétt sunnan við Vinaskóg sem banna  umferð sem ekki er talin hæfa þjóðgarðinum. Líklegt er að innan fárra ára verði settar enn strangari reglur um ferðir ökutækja innan þjóðgarðsins.

Mánudagur 09. 07. 12 - 9.7.2012 19:40

Nú má sjá viðtal sem ég tók við Guðna Th. Jóhannesson sagnfræðing á ÍNN um úrslit forsetakosninganna og þróun forsetaembættisins á netinu. Hér er unnt að sjá viðtalið.

Isavia sendi frá sér tilkynningu í dag um það sem fór úrskeiðis þegar tveimur hælisleitendum tókst að smygla sér inn á Keflavíkurflugvöll og inn í flugvél Icelandair til Kaupmannahafnar þar sem flugliðar fundu þá á salerni.

„Við skoðun á verklagi öryggisstarfsmanna Isavia á þeim tíma er viðkomandi atvik átti sér stað kemur ekkert athugavert í ljós við störf þeirra. Hælisleitendurnir hafa greinilega verið vel skipulagðir.“ Þetta segir í tilkynningu frá Isavia um atvikið sem kom upp á Keflavíkurflugvelli um helgina aðfaranótt sunnudags 8. júlí.

Þessi setning vekur þá spurningu hvort viðbúnaður á flugvellinum eigi ekki að duga til að koma í veg fyrir að menn komist óséðir inn í flugvél þótt þeir séu „vel skipulagðir“. Í þessu tilviki er um hælisleitendur að ræða sem lugu til um aldur sinn við komu til landsins og dvöldust í félagslegu skjóli í Reykjanesbæ.

 „Ljóst er að mennirnir fóru ekki í gegnum öryggishlið inn á flugvallarsvæðið né í gegnum Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Fóru þeir yfir girðingu inn á svæðið og þaðan inn á flughlaðið við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Öryggisdeild Isavia, sem fer með öryggis- og flugverndarmál á Keflavíkurflugvelli, starfar eftir mjög ströngu verklagi sem samþykkt er af Flugmálastjórn Íslands,“ segir einnig í tilkynningu Isavia og má spyrja hvort orðin eigi að skilja á þann veg að flugmálastjórn geri ekki nægilega strangar kröfur.

Í fréttum kom fram að útlendingastofnun mundi halda áfram vinnu við mat á því hvort taka skuli beiðni hælisleitendanna til greina og veita þeim hæli hér á landi sem pólitískum flóttamönnum.

Ef öryggiskerfi Keflavíkurflugvallar virkar þótt tveimur hælisleitendum takist að smygla sér inn í flugvél með því að laumast yfir girðingu er eitthvað bogið við kerfið. Ef haldið er áfram að rannsaka hvort veita eigi þeim sem stunda lögbrot til að komast úr landi hæli hér sem pólitískum flóttamönnum er eitthvað bogið við kerfið.

 

Sunnudagur 08. 07. 10 - 8.7.2012 21:10

Þá má telja á fingrum annarrar handar sem taka upp hanskann fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur, formann Samfylkingarinnar og forsætisráðherra, opinberlega. Einn þeirra er Stefán Ólafsson. Hann kynnir sig á þennan hátt á vefsíðu sinni: „Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.“

Stefán heldur ekki aðeins fram málstað Jóhönnu heldur einnig Samfylkingarinnar og Evrópusambandsins. Þá er honum í nöp við nokkrar vefsíður, meðal annars Evrópuvaktina sem við Styrmir Gunnarsson höfum haldið úti síðan í apríl 2010. Um hana segir hann í bloggi sínu á Eyjunni í dag:

„Styrmir Gunnarsson og Björn Bjarnason skrifa reglulega á vefsíðu sem kallast Evrópuvaktin. Meginverkefni þeirra virðist vera að segja eitthvað niðrandi og hrollvekjandi um Evrópusambandið, minnst tvisvar á dag.“

Tvisvar á dag og raunar miklu oftar birtum við Styrmir fréttir af því sem er á döfinni í ríkjum Evrópusambandsins og á vettvangi þess. Þá snúast fréttirnar mjög um leiðir til að bjarga kjarna ESB: samstarfinu um evruna. Þetta er meginefni síðunnar þá ritum við leiðara undir nafni og þrjá skoðanadálka sem heita: Stjórnmálavaktin, Viðskiptavaktin og Í pottinum. Auk þess birtast pistlar af og til á síðunni eftir okkur Styrmi eða þá sem senda okkur greinar.

Af orðum Stefáns mætti ætla að „eitthvað niðrandi og hrollvekjandi um Evrópusambandið“ væri frumsmíð Evrópuvaktarinnar. Ekkert er fjær sanni. Um er að ræða fréttir úr virtum fjölmiðlum fjölda landa þar sem lýst er framvindu mála innan ESB. Vissulega er rétt hjá Stefáni að þróunin er „hrollvekjandi“ fyrir þá sem stjórna ESB og aðildarríkjum þess svo að ekki sé minnst á ESB-þjóðirnar. Væri um hugarsmíð Evrópuvaktarinnar að ræða mætti taka fréttunum á þann veg sem Stefán kýs að gera. Málum er því miður ekki þannig háttað. Lúsarleit í bestu blöðum Evrópu sýnir að þeir eru jafnvel færri þar sem styðja störf og stefnu evru-ríkjanna opinberlega en lýsa yfir opinberum stuðningi við Jóhönnu Sigurðardóttur hér á landi. Að draga fram þá staðreynd kann Stefáni að þykja „niðrandi“. Hún breytist þó ekki við það.

Stefán lýsir sér sem óflokksbundnum og óháðum. Hann kemur því fram á opinberan vettvang undir sama gunnfána og ríkisútvarpið. Víglínan sem hann dregur er hin sama og gert er í Efstaleiti og handan hennar sjá Stefán og stjórnendur ríkisútvarpsins sömu ófreskjurnar. Góðvinur þeirra í Efstaleiti og samkennari Stefáns kallaði þetta „skrímsladeild“ Sjálfstæðisflokksins að loknum margra ára rannsóknum.

Laugardagur 07. 07. 12 - 7.7.2012 23:40

Mikil barátta er nú háð á bakvið tjöldin um valdastöður á evru-svæðinu eins og sjá má hér.  Vaxandi óvissa er um styrk og framtíð ervunnar eins og ég lýsi hér.

Föstudagur 06. 07. 12 - 6.7.2012 23:20

Mikil umferð var um Selfoss í dag og alla leið austur að Hvolsvelli. Selfoss er tappi á leiðinni en um langt árabil hefur verið rætt um að færa brúna yfir Ölfusá austur fyrir meginbyggðina á Selfossi. Þá hefur verið kynnt ný verslanamiðstöð fyrir norðan Ölfusá þar sem nýir vegir mætast við breytingarnar með flutningi brúarinnar. Selfoss er nú slík miðstöð fyrir Suðurland og þar hafa allar helstu verslanakeðjur aðsetur – Hagkaup og Bónus hafa nýlega komið sér fyrir í nýju stórhýsi í austurhluta bæjarins, þar skammt frá er Byko í tiltölulega nýrri stórbyggingu.

Óli Björn Kárason hefur lengi haldið úti vefsíðu og verið naskur á fréttir og ritað góða pistla. Nú hefur hann breytt vefsíðu sinni eins og sjá má hér.

Fimmtudagur 05. 07. 12 - 5.7.2012 22:30

Skrif breskra blaða um vaxtasvindlið í Barclays banka og ástæður þess minna ekki á neitt annað en það sem sagt var hér á landi eftir að skýrsla rannsóknarnefndar alþingis birtist. Annars vegar eiga menn ekki nægilega sterk orð til að lýsa hneykslan sinni á framgöngu bankamanna sem hafi látið stjórnast af hreinni græðgi. Hins vegar er velt fyrir sér tengslum bankamanna við breska embættismenn. Vangaveltur eru um að vaxtasvindlið hafi verið stundað með vitund manna í breska stjórnarráðinu eða breska seðlabankanum. Athyglin beinist í fyrstu atrennu að bankamönnunum en mun færast yfir á embættis- og stjórnmálamenn.

Verkamannaflokkurinn var við völd í Bretlandi þegar bankamenn fiktuðu við millibankavexti og skiptust á tölvubréfum um að þeir yrðu að þakka viðmælendum sínum eða viðsemjendum og bjóða þeim að skála í Bollinger kampavíni fyrir greiðan. George Osborne, núverandi fjármálaráðherra Íhaldsflokksins, hefur látið svo þung orð falla vegna málsins í garð Verkamannaflokksins að vikublaðið The Spectator sem stendur með Íhaldsflokknum telur að hann hafi jafnvel gert formann þingmannanefndarinnar sem stjórnar opnum yfirheyrslum vegna vaxtasvindlisins vanhæfan; það verði svo auðvelt að sýna að hann stjórnist meira af flokkspólitískum sjónarmiðum en vilja til að upplýsa málið á hlutlægan hátt.

Hér hefur ríkisstjórn lifað og lafað í krafti óvildar í garð þeirra sem sátu við stjórnvölinn haustið 2008. Alltaf þegar í harðbakka slær hefst reiðilesturinn um að duglausir stjórnarherrarnir nú séu betri en  þeir sem stjórnuðu og tóku réttar ákvarðanir þegar fjármálakerfi heimsins féll  og þrír stærstu bankar þjóðarinnar sungu sitt síðasta. Í þessum anda var Geir H. Haarde að ósekju dreginn fyrir landsdóm vegna ákæru pólitískra andstæðinga sinna. Í Bretlandi hefði slík ákæra þótt marklaus þyki formaður í rannsóknarnefnd sem starfar fyrir opnum tjöldum innan vébanda breska þingsins vanhæfur vegna pólitískra ummæla flokksbróður hans, fjármálaráðherrans.

Miðvikudagur 04. 07. 12 - 4.7.2012 21:54

Í dag ræddi ég við Guðna Th. Jóhannesson sagnfræðing í þætti mínum á ÍNN. Samtalið snerist um forsetaembættið og þróun þess í ljósi kosninganna. Við vorum sammála um að hér þyrfti að gera hið sama og Finnar gerðu eftir langan feril Kekkonens. Hann færði sig meira upp á skaftið sem Finnlandsforseti eftir því sem hann sat lengur. Eftir hans dag settu Finnar þröng og skýr stjórnarskrárákvæði um valdsvið forsetans. Starfssvið forseta Íslands á ekki að ráðast af geðþótta þess sem gegnir embættinu þótt hann setji óhjákvæmilega svip sinn á hvernig að verki er staðið.

Ólafur Ragnar færði sér fljótt í nyt að utanríkisráðherrar settu honum ekki skorður sem forseta. Hann telur sig hafa nægilegt svigrúm og hafa náð sínu fram í utanríkismálum. Nú gerir hann atlögu að embætti forsætisráðherra og leitast við að færa vald hans í eigin hendur. Jóhanna Sigurðardóttir stenst honum ekki snúning. Hvernig þrengir hann að embætti forsætisráðherra á síðasta kjörtímabili sínu?

Þáttinn með Guðna Th. má sjá klukkan 22.00 í kvöld og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun, fimmtudag.

Þriðjudagur 03. 07. 12 - 3.7.2012 22:41

Í dag hitti ég nokkra forráðamenn ungra sjálfstæðismanna. Ég spurði hvort þeir hefðu efnt til kosningavöku í Valhöll fyrir Ólaf Ragnar Grímsson eins og fram hefði komið í ríkisútvarpinu og vakið nokkra athygli. Þeir sögðu það af og frá. Menn hefðu komið saman í öðrum tilgangi í Valhöll en síðan fylgst með úrslitum kosninganna eins og aðrir hefðu víða gert. Það hefði verið sagt við starfsmann ríkisútvarpsins að til hófsins í Valhöll væri ekki stofnað til að fagna sigri Ólafs Ragnars þótt í hópnum væru kjósendur hans.

Óskiljanlegt er að ríkisútvarpið hafi  kynnt þessa samkomu á þann hátt sem það gerði um kosninganóttina og enn óskiljanlegra að hún yrði Eiríki Guðmundssyni tilefni hins dæmalausa pistils sem hann flutti í upphafi þáttarins Víðsjár  mánudaginn 2. júlí. Sannaði sá samsetningur enn einu sinni á hvern hátt Eiríkur misnotar þáttinn og aðstöðu sína sem einn stjórnenda hans til að flytja áróður gegn þeim sem hann hefur ekki í hávegum. Hefði Eiríkur birt texta sinn á prenti gætu þeir sem urðu fyrir barðinu á honum borið hönd fyrir höfuð sér á sama stað. Að hann flutti hann í Víðsjá gerir öðrum en þeim sem hann eða aðrir stjórnendur þáttarins bjóða í hann ókleift að svara á sama stað.

Ríkisútvarpið hefur farið illa út úr forsetakosningunum, líklega verst opinberra stofnana. Ef forráðamenn stofnunarinnar telja að hún rétti hlut sinn á einhvern hátt með því að mikla fyrir sér  að sjálfstæðismenn hafi kosið Ólaf Ragnar er það mikill misskilningur og breytir heldur engu um úrslit kosninganna.

Í dag sannaðist að allt tal íslenskra ráðherra um að engin tengsl séu á milli makríldeilunnar og ESB-aðildarviðræðnanna er úr lausu lofti gripið. Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri ESB, kom í fyrsta sinn í embættisnafni til Íslands og sagði á diplómatískan hátt að fyrst yrði að leysa deiluna um makríl á þann veg sem ESB líkaði síðan mætti huga að sjávarútvegsviðræðum við Íslendinga, Steingrímur J. Sigfússon ber ábyrgð á varðstöðunni um makríl gagnvart ESB. Varðstaða hans í Icesave-málinu brást. Skyldi hann standa sig betur í makrílnum? Þar eru tugir milljarða króna í húfi eins og í Icesave.

Mánudagur 02. 07. 12 - 2.7.2012 23:00

Íslendingar voru ekki eina EES/EFTA-þjóðin sem veitti þjóðhöfðingja sínum stuðning um helgina. Í gær greiddu íbúar í furstadæminu Liechtenstein atkvæði um hvort takamarka ætti völd prinsins,  þjóðhöfðingja landsins.  Alls voru 76,1% þeirra á móti því. Alois krónprins sem var skipaður þjóðhöfðingi af föður sínum Hans-Adam II árið 2004 hafði hótað að segja af sér völdum ef kjósendur hefðu ákveðið að svipta hann neitunarvaldinu sem mælt er fyrir um í stjórnarskránni. Forbes metur eignir fjölskyldu furstans á 5 milljarða dollara. Hún hefur farið með völd í landinu í 300 ár. Alls greiddu 82,9% atkvæði. Krafan um að takmarka völd prinsins fékk byr undir báða vængi þegar Alois (43 ára) hótaði að beita neitunarvaldi gegn lögum sem heimila fóstureyðingu. Íbúar í Liechtenstein sem er landræma við Rín milli Sviss og Austurríkis eru 36.000. Lífskjör eru með þeim bestu í heimi í landinu.

Ýmsum þykir nóg um það hér á landi að veita þjóðhöfðingja umboð til 20 ára. Í Liechtenstein sjá menn ekkert að því að sama fjölskyldan eigi úrslitavald í málefnum þeirra í 300 ár.

Athyglisvert er að í upphafi kosningabaráttunnar hér töldu andstæðingar Ólafs Ragnars að 16 ára seta hans í embætti væri snöggur blettur á honum. Að lokinni baráttunni segir Þóra Arnórsdóttir að hún sé sæl með að hafa fengið rúmlega 30% atkvæða í baráttu gegn manni með 16 ára forsetareynslu að baki. Henni finnst greinilega ekki á allra færi að ná slíkum árangri.

Ólafur Ragnar áréttar andstöðu sína við ESB aðild að kosningum loknum eins og sagt er frá hér á Evrópuvaktinni.

Sunnudagur 01. 07. 12 - 1.7.2012 23:40

Fór í dag í Skálholt og hlýddi á Skálholtskvartettinn flytja verk eftir Schübert og Haydn, Þegar ég ók til baka sá ég par með bakpoka biðja um far rétt sunnan við brúna yfir Iðu. Þar sem ég var einn á ferð stöðvaði ég og spurði hvert þau ætluðu, þau sögðust vera á leið til Hellu. Það var í leiðinni fyrir mig svo að ég bauð þeim far. Þau eru frá Tékklandi. Ég spurði ekki um skýringu á því hvernig þeim datt í hug að standa þarna til að fá far til Hellu, þau höfðu hins vegar heppnina með sér.

Hér má sjá viðtal mitt við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur sem sýnt var á ÍNN 27. júní.

Á Evrópuvaktinni birtist í dag frétt af vefsíðu Le Monde um forsetakosningarnar hér á landi. Blaðið hefur sýnt þeim áhuga og birti fyrir helgi áberandi frétt um þær með stórri mynd af Þóru Arnórsdóttur. Í fréttinni segir meðal annars:

---

„Niðurstaða kosninganna er þó einstæð í landi þar sem venjan er að enginn bjóði sig fram gegn sitjandi forseta óski hann endurkjörs. Með því að tryggja sér um þriðjung atkvæða sýnir Þóra (á Íslandi er venjan að nota fornafnið) „breikkandi gjá sem myndast hefur í íslensku þjóðfélagi milli almennings og menntamannaelítunnar“ segir Rósa Erlingsdóttir, kennari í stjórnmálafræðum við háskóla í Reykjavík.“

---

Þegar Ólafur Ragnar Grímsson bauð sig fram til forseta í fyrsta sinn 1996 stóðu fyrrverandi samstarfsmenn hans í Háskóla Íslands þétt að baki honum. Ólafur Þ. Harðarson, forseti félagsvísindasviðs Háskóla Íslands, lagði sig í líma við eftir að Ólafur Ragnar flutti nýársávarp sitt 1. janúar 2012 að túlka orð hans á þann veg að hann hefði ekki aftekið að bjóða sig fram í fimmta sinn.

Í hinum tilvitnuðu orðum Rósu Erlingsdóttur hér að ofan felst hins vegar sú greining hennar að háskólamenn og aðrir sem gera tilkall til að vera í „menntamannaelítunni“ standi ekki lengur að baki Ólafi Ragnari. Hann höfði svo sterkt til alþýðunnar að bilið milli hennar og elítunnar breikki. Þetta er forvitnilegt viðhorf sem á ekki síður erindi til Íslendinga en lesenda Le Monde í Frakklandi sem almennt teljast til elítunnar þar. Eðlilegt er að spyrja hvenær hið nána samband Ólafs Ragnars við elítu menntamanna á Íslandi rofnaði og hvers vegna.