17.7.2012 22:30

Þriðjudagur 17. 07. 12

Við upphaf stjórnarsamstarfsins var sagt að beitt yrði gegnsæju, faglegu ferli við ráðningu starfsmanna stjórnarráðsins. Annað hefur komið í ljós. Frægt er jafnréttishneykslið undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur í forsætisráðuneytinu. Þá réð Jóhanna sjálfan upplýsingastjóra ríkisstjórnarinnar, Jóhann Hauksson, með leynd án auglýsingar. Nú segist Steingrímur J. Sigfússon ætla að ráða ráðuneytisstjóra í nýju ráðuneyti með samkomulagi stað þess að auglýsa embættið.  Hvergi er þess getið í lögum að æðstu embættismenn ríkisins séu ráðnir „með samkomulagi“. Orðalagið eitt bendir til þess eða menn komi saman í bakherbergjum og ráði ráðum sínum.

Það vakti nokkra undrun í  gær að Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra skyldi ekki efna til blaðamannafundar eða annarrar uppákomu til að fagna þriggja ára afmæli þess að alþingi samþykkti ESB-aðildarumsóknina. Slík innihaldslaus auglýsingamennska hefði verið í góðu samræmi við sýndarmennskuna sem felst í því að það sýni gífurlegan árangur að kaflar sem um hefur verið samið undir merkjum EES-samstarfsins skuli sigla án vandræða á milli manna í aðildarviðræðunum.

Eins og kunnugt er minntust sjávarútvegsráðherrar ESB-ríkjanna þriggja ára umsóknaraflmælis Íslands með því að leggja á ráðin um hvernig helst skuli refsa íslensku þjóðinni fyrir að íslensk skip stundi makrílveiðar í íslenskri lögsögu.