Dagbók: október 2014
Föstudagur 31. 10. 14
Sat í dag nokkra fundi á ráðstefnunni Arctic Circle – Hringborð norðursins – í Hörpu meðal annars til að sjá hvernig húsið er notað til ráðstefnuhalds og auðvitað til að fræðast af ræðumönnum. Skrifaði ég um sumt af því á Evrópuvaktina eins og sjá má hér og hér.
Þetta er mjög viðamikil ráðstefna og hefur kostað mikla yfirlegu að ná öllum þráðum saman og síðan skipuleggja fundina með tilliti til tíma og húsnæðis. Salurinn í Silfurbergi er vel tækjum búinn og sviðið rúmar ræðumenn og stjórnanda umræðna vel. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sat á fremsta bekk og hlaut lof ræðumanna fyrir framtak sitt að baki ráðstefnunni. Eitt sinn þegar ræðumaður kvartaði undan að myndirnar sem hann var með birtust ekki á skjánum stóð forsetinn upp og hnippti í tæknimanninn.
Það var eins gott að myndirnar birtust því að erindið snerist um notkun gervitungla við töku ljósmynda og hefur sú tækni þróast mjög á undanförnum árum. Undrun vekur hve tunglin eru lítil sem notuð eru.
Eins og áður sagði er þetta fyrsta ráðstefnan sem ég sæki í Hörpu enda hefur áhugi minn á þátttöku í slíkum mannamótum minnkað ár frá ári. Líklega hef ég setið of margar ráðstefnur á starfsferli mínum.
Ég rifjaði einmitt upp í huganum í dag að nú um þessar mundir eru 25 ár liðin frá því að Berlínarmúrinn hrundi en á tíma kalda stríðsins sat ég ófáa alþjóðafundina með helstu sérfræðingum Vesturlanda í málefnum Sovétríkjanna og varnar- og öryggismálum. Að einhver þeirra segði fyrir um hrun Sovétríkjanna er af og frá. Skömmu fyrir hrun múrsins sat ég meira að segja ráðstefnu þar sem menn töldu ekki óhugsandi að austur-þýsk stjórnvöld myndu festa sig í sessi.
Vissulega var erfitt að ráða í það sem gerðist á bakvið tjöldin í einræðisríkjum kommúnista. Spurning er hvort nokkuð auðveldara er að geta sér til um hvernig ís og veðurfar þróast á Norður-Íshafi. Á þeim fundum sem ég sat í Hörpu í dag voru menn frekar að leita að svörum en slá einhverju föstu. Áhuginn á að setjast að hringborði norðursins hér sýnir einmitt að margir telja að eitthvað spennandi kunni að finnast við leitina.
Ég var undrandi þegar ég heyrði þingmann Íhaldsflokksins sem á sæti í varnarmálanefnd breska þingsins segja að hann teldi lausn öryggismála á Norður-Íshafi felast í friðlýsingu þess – ætli fréttir af hervæðingu Rússa í íshafinu hafi ekki borist til Westminster? Skyldi talið um kjarnorkuvopnalaus svæði nú hefjast að nýju?
Fimmtudagur 30. 10. 14
Miðaldastofa boðaði í dag til fyrirlestrar um leitina að klaustrunum og flutti dr. Steinunn J. Kristjánsdóttir prófessor hann. Eftir að hún gróf upp Skriðuklaustur í Fljótsdal hefur hún fengið styrk til að leita að hinum klaustrunum 13. Leitin hófst í sumar og skýrði Steinunn frá því sem fundist hefur. Hún telur að vitað sé um rústir nunnuklaustursins á Reynistað (1295-1551). Þrátt fyrir fjölda ferða að Helgafelli (1172-1550) hafa hún og samstarfsmenn hennar ekki fundið neinar minjar um klaustur þar.
Lengst var klaustur á Þingeyrum í Húnaþingi, 1106 til 1551. Í máli Steinunnar kom fram að henni er bannað að stunda þar rannsóknir vegna friðlýsinga á svonefndum dómhring í nágrenni núverandi bæjarstæðis á Þingeyrum og einnig á Trumbsvölum sem standa í nokkurri fjarlægð norðvestur af bæjarhúsunum.
Undir eftirliti fulltrúa Minjastofnunar fékk hún þó leyfi til að grafa tvo rannsóknarskurði á Trumbsvölum og sagði hún að þar hefðu fundist minjar sem gætu bent til þess að klaustrið hefði staðið þar.
Tvennt vekur sérstaka undrun eftir að hafa hlýtt á hið fróðlega erindi Steinunnar:
- Að hvergi skuli hafa fundist nein rituð samtímaheimild um húsakipan og skipulag klausturstaða: Hvort klaustrið hafi staðið sér og híbýli klausturbónda á öðrum stað, hvort tvær kirkjur hafi verið á staðnum o. s. frv. Slík skjöl hafa örugglega verið til en skemmdaræðið við siðaskiptin orðið til þess að allt var eyðilagt sem haldið gat lífi í minningu um klaustrin eða stuðlað að endurreisn þeirra eftir að vargar fóru um þau höndum. Fréttir úr samtímanum af framgöngu IS-manna í Sýrlandi og Írak minna á tryllinginn við uppgjör trúarlegs eðlis.
- Að Minjastofnun skuli banna fornleifarannsókn á Þingeyrum með vísan til friðlýsingar þótt í reglum sé heimild til undanþágu. Að heimildin nái ekki til vísindalegrar rannsóknar á borð við þessa er óskiljanlegt. Að túlka friðlýsingu á þann veg að ekki sé unnt að rannsaka hvort hún eigi við rök að styðjast og þá við hvaða rök, stangast á við það sem skynsamlegt getur talist. Varla hefur löggjafinn litið svo að banna skyldi rannsóknir í þágu friðlýsingarinnar?
Fyrirlestrarsalur 101 í Odda var þéttskipaður þegar Steinunn flutti erindi sitt og komust líklega færri að en vildu.
Miðvikudagur 29. 10. 14
Í dag ræddi ég við Þórhall Ólafsson, forstjóra Neyðarlínunnar, í þætti mínum á ÍNN og snýst samtal okkar um Tetra-kerfið, það er sérstakt fjarskiptakerfi sem ákveðið var að næði til landsins alls á árinu 2004 og er nú undirstaðan í samskiptum allra viðbragðsaðila á landinu með alls um 6.700 skráða notendur. Næst má sjá samtal okkar Þórhalls klukkan 22.00 og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.
Í þætti mínum fyrir viku ræddi ég við Aðalheiði Héðinsdóttur, forstjóra Kaffitárs, um þróun fyrirtækisins og þá ákvörðun ISAVIA að úthýsa því úr flugstöð Leifs Eiríkssonar án viðhlítandi skýringar. Hér má sjá samtal okkar Aðalheiðar.
Þriðjudagur 28. 10. 14
Nýtt starfsheiti er kynnt í fréttum ríkisútvarpsins um þessar mundir það er mannréttindalögfræðingur. Líklega finnst fréttamönnum að meiri þungi fylgi orðum lögfræðingsins þegar hann er kynntur á þennan hátt og gagnrýnir lögregluna á höfuðborgarsvæðinu fyrir að hafa ekki staðið rétt að birtingu skýrslu eftir Geir Jón Þórisson, fyrrv. yfirlögregluþjón, um mótmæli á árunum 2008 til 2011.
Vissulega er klaufalegt að þannig sé búið um hnúta við birtingu skýrslunnar að unnt sé að lesa nöfn fólks sem skyldu fara leynt. Hvort strika átti yfir sum nöfn eða öll er mér ekki ljóst. Lögregla beindi því hins vegar til fjölmiðla þegar hún afsakaði mistökin að þeir gættu nafnleyndar í frásögnum sínum.
Ekki hafa allir orðið við tilmælunum um nafnleynd eins og sjá má af þessari frásögn sem birtist á Eyjunni í dag, 28. október. Ég hef oftar en einu sinni vakið máls á því hér á síðunni að Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG, hafi orðið sér til skammar með framkomu sinni þegar árás var gerð á Alþingishúsið. Réttmæti þeirrar skoðunar er staðfest í skýrslu Geirs Jóns.
Í umræðunum um byssueign landhelgisgæslunnar verður sumum fréttamönnum tíðrætt um þjálfun þeirra sem með þau eiga að fara. Umræðurnar hafa leitt í ljós að ekki væri vanþörf á að þjálfa fjölmiðlamenn í að ræða mál af þessum toga.
Í leiðara sem Fanney Birna Jónsdóttir ritaði um byssumálið í Fréttablaðið mánudaginn 27. október sagði meðal annars:
„Hver tók eiginlega þessa ákvörðun? Ef það er rétt að hún hafi verið tekin án aðkomu ráðherra þá vakna upp áleitnar spurningar um hvort undirstofnunum dómsmálaráðuneytisins sé virkilega í sjálfsvald sett að kaupa til landsins það magn af vopnum sem því [svo!] hentar án nokkurrar stefnumarkandi aðkomu ráðherra eða Alþingis. Hversu langt nær sú heimild? Getur gæslan keypt hingað árásarþyrlu án umræðu í þinginu? Getur lögreglan komið sér upp brynvörðum skriðdrekum með þeim innihaldslausu rökum að það sé ekkert mál af því búnaðurinn fékkst gefins einhvers staðar frá? Hvar endar þetta?“
Já, það er vissulega ástæða til að spyrja: Hvar endar þessi fjölmiðlafarsi? Veit leiðarahöfundurinn ekkert um allar umræðurnar sem fram hafa farið á alþingi um kaup eða leigu á þyrlum? Veit hann ekki að í janúar 2009 var tekin ákvörðun af dómsmálaráðherra um að hingað kæmu ekki brynvarðar bifreiðar frá Danmörku? Löggæslumenn eru þjálfaðir í meðferð skotvopna, fjölmiðlamenn þyrfti að þjálfa til að ræða um þau.
Mánudaginn 27. 10. 14
Hér var laugardaginn 25. október sagt frá samkomulagi Ögmundar Jónassonar, þáv. innanríkisráðherra, og Jóns Gnarrs, þáv. borgarstjóra, dags. 19. apríl 2013 varðandi Vatnsmýrina og Reykjavíkurflugvöll. Samkomulagið var undirritað „með fyrirvara um samþykki borgarráðs“, og gert meðan þáverandi formaður borgarráðs, Dagur B. Eggertsson, núverandi borgarstjóri, var staddur erlendis. Skjalið var aldrei kynnt borgarráði, og þaðan af síður samþykkt af því. Það er því með öllu gildislaust.
Þessari staðreynd hefur ekki mikið verið hampað enda ríkir sérkennileg pólitísk samtrygging um flugvallarmálið á vettvangi borgarstjórnar. Er ekki vafi á því að Sjálfstæðisflokknum hefði vegnað mun betur í borgarstjórnarkosningunum vorið 2014 hefði hann haft dug í sér til að taka af skarið gegn meðferð Jóns Gnarrs og félaga á flugvallarmálinu.
Nú er látið eins og nefnd undir formennsku Rögnu Árnadóttur sem á að benda á framtíðarflugvallarstæði í eða við Reykjavík hafi eitthvað um það að segja hvort grafið verði undan Reykjavíkurflugvelli með því að leggja af norðaustur/suðvestur flugbrautina. Þessi flugbraut fellur ekkert undir verksvið nefndarinnar.
Önnur nefnd, áhættumatsnefnd, skoðar gildi brautarinnar fyrir völlinn. Séð hefur verið til þess af yfirvöldum að nefndin fundar ekki. Þá er sagt að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hafi fullyrt að það verði ekki niðurstaða áhættumatsins að öryggi vallarins skerðist. Dagur B. situr í nefnd Rögnu Árnadóttur. Er það þess vegna sem látið er eins og sú nefnd hafi eitthvað um þessa flugbraut að segja?
Furðulegt er að ISAVIA hafi enga skoðun á framtíð Reykjavíkurflugvallar. Engu er líkara en þessi rekstraraðili flugvalla í landinu sé aðeins áhorfandi að því þegar vegið er að öryggi Reykjavíkurflugvallar. Nærtæk skýring er að Þórólfur Árnason, fyrrv. borgarstjóri, var stjórnarformaður ISAVIA í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Þórólfur hefur sem borgarstjóri tekið þátt í hinni laumulegu aðför að Reykjavíkurflugvelli, hann er nú forstjóri Samgöngustofu sem er yfirfrakki ISAVIA.
Það sem af er þessari öld, 21. öldinni, hefur hópur fólks leynt og ljóst unnið að því að grafa undan tilvist Reykjavíkurflugvallar. Þessi iðja er illa þokkuð af meirihluta þjóðarinnar og þess vegna er reynt að ná markmiðum hennar með pólitískum leikbrögðum á borð við samkomulagið sem Ögmundur og Jón Gnarr rituðu undir 19. apríl 2013. Nú er nafn virðulegs og vinsæls íþróttafélags notað í von um að það auki vinsældir málstaðarins.
Sunnudagur 26. 10. 14
Þættir Egils Helgasonar, Vesturfarar, eru vel heppnað og tímabært sjónvarpsefni. Tíundi og síðasti þátturinn var sýndur í kvöld. Egill var staddur á vesturströndinni í Vancouver og Victoriu-eyju.
Fróðlegt var að heyra hve margir eru fróðir um landnema sem fyrstir Íslendinga settust að á hinum ólíku stöðum sem Egill heimsótti. Þá er glæsilegt og gleðilegt að sjá hve mikil rækt er lögð við margt og marga sem tengjast sögu Íslendinga á þessum slóðum.
Í júní á þessu ári voru rétt 50 ár liðin frá því að ég fór í fyrstu ferð mína á þessar slóðir. Var það opinber ferð foreldra minna um Íslendingabyggðirnar, á sömu staði og Egill heimsótti. Þá var víða öðru vísi umhorfs og nokkur ótti um að ekki tækist að varðveita það sem íslenskt var á þessum slóðum. Þættir Egils sýna að íslenski arfurinn mun ekki gleymast og meira er gert fyrir hann núna en líklega nokkru sinni fyrr.
Laugardagur 25. 10. 14
Ögmundur Jónasson innanríksiráðherra sagðist hlynntur framtíð Reykjavíkurflugvallar. Skömmu fyrir þingkosningar í apríl 2013 ritaði hann undir samkomulag við Jón Gnarr borgarstjóra sem átti að bæta aðstöðu fyrir farþega og þjónustuaðila á Reykjavíkurflugvelli. Í samkomulaginu fólst meðal annars að fallið var frá fyrri áformum um byggingu samgöngumiðstöðvar í Vatnsmýri og að norðaustur/suðvestur flugbrautin yrði lögð af og landið sem losnaði sunnan vallarins skipulagt undir blandaða byggð.
Mánudaginn 21. október efndu samtökin Hjartað í Vatnsmýrinni til fundar þar um framtíð flugvallarins. Þau hvöttu Reykjavíkurborg til að fresta útgáfu framkvæmdaleyfis vegna byggingaáforma á Hlíðarendasvæðinu enda ógnuðu þau norðaustur/suðvestur brautinni. Borgaryfirvöld ætluðu með leyfinu að hunsa athugasemdir fólks í flugrekstri, sjúkraflutningum og flugöryggismálum.
Hjálmar Sveinsson úr Samfylkingunni er formaður skipulagsráðs Reykjavíkurborgar. Hann hefur einstakt lag á að búa ákvarðanir ráðsins í næsta óskiljanlegan búning. Hann sagði á ruv.is 22. október í tilefni af áhyggjum vegna byggingaráformanna:
„Það er einhver misskilningur í gangi því að þetta framkvæmdaleyfi snýst ekki um byggingarleyfi heldur snýst þetta um að leggja þarna veg sem á að aðskilja íþróttasvæðið frá tilvonandi íbúðabyggð. Þannig að framkvæmdaleyfið fyrir þessu getur vel farið af stað án þess að það hafi nokkuð með norðaustur-suðvestur brautina eða flugvöllinn að gera yfirleitt.“
Þetta er gegnsær útúrsnúningur.
Í Morgunblaðinu í dag birtist opið bréf frá Þorkeli Á. Jóhannssyni flugmanni og Vali Stefánssyni, formanni Félags flugmanna og flugvélaeigenda, til ISAVIA og borgarstjóra með harðri ádeilu á hvernig staðið hefur verið að stjórnsýslu vegna áhættumats á áhrifum brotthvarfs norðaustur/suðvestur flugbrautarinnar. Eftir að fyrir lágu niðurstöður í matinu sem sýndu að brotthvarf brautarinnar skerti öryggi flugvallarins á óviðunandi hátt hefur framgangur málsins á opinberum vettvangi verið frystur. Auk þess segja bréfritarar að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hafi fullyrt að það verði ekki niðurstaða áhættumatsins að öryggi vallarins skerðist á þennan hátt. Telja bréfritarar að borgarstjóri eigi að skýra frá sérfræðilegri vitneskju sinni um málið. Það kunni að leysa þann rembihnút sem málið virðist ratað í innan ISAVIA.
Við blasir að flugvallarmálið er enn í hnút vegna tvöfeldni þeirra ráðamanna sem bera ábyrgð á lausn þess.
Föstudagur 24. 10. 14
Þegar rætt er um byssurnar sem embætti ríkislögreglustjóra hefur verið boðið fyrir milligöngu landhelgisgæslunnar gagnvart norska hernum ber að hafa í huga að frá því að varnarlið Bandaríkjamanna hvarf af Keflavíkurflugvelli árið 2006 hefur landhelgisgæslan orðið æ umsvifameiri þar án þess að sinna hernaðarlegum verkefnum. Hefur þessi nýja vídd í starfsemi gæslunnar þróast undir handarjaðri tveggja ráðuneyta, utanríkisráðuneytisins, tengiliðar stjórnarráðsins gagnvart hernaðaryfirvöldum annarra ríkja og NATO, og innanríkisráðuneytisins sem ber stjórnsýslulega ábyrgð á starfsemi gæslunnar.
Hinn 3. apríl 2014 efndi Varðberg, samtök um vestræna samvinnu og alþjóðamál, til fundar þar sem gerð var grein fyrir því að Landhelgisgæsla Íslands hefur frá 1. janúar 2011 annast daglega framkvæmd öryggis- og varnartengdra verkefna hér á landi. Verkefnið felst annars vegar í daglegum rekstri varnar- öryggis- og upplýsingakerfa Atlantshafsbandalagsins (NATO), rekstri öryggissvæða- og mannvirkja og samskiptum við stofnanir NATO, aðildarþjóðirnar og Norðurlandaþjóðirnar og hins vegar samskiptum við þá aðila hér á landi sem að verkefninu koma.
Starfsmenn Landhelgisgæslunnar annast rekstur íslenska loftvarnakerfisins sem er hluti af samþættu loftvarnakerfi NATO og mannvirkja Atlantshafsbandalagsins, þar með ratsjár- og fjarskiptastöðva hérlendis. Sá rekstur er eitt veigamesta framlag Íslands til sameiginlegra varna ríkja NATO.
Embætti ríkislögreglustjóra kemur fram gagnvart lögregluyfirvöldum annarra ríkja og alþjóðlegum lögregluyfirvöldum eins og Interpol og Europol undir forsjá innanríkisráðuneytisins.
Á sínum tíma ritaði ég undir samstarfssamning landhelgisgæslunnar og danska flotans og kom Sören Gade, þáverandi varnarmálaráðherra Danmerkur, hingað til lands af því tilefni.+
Ekkert af þessu hefur farið leynt. Að landhelgisgæslan annist umsýslu vopna inna ramma þessa verkefnis er eðlilegur þáttur í framkvæmd þess. Nú liggur fyrir að vopn frá Norðmönnum eru í vörslu gæslunnar og ranglega hefur verið skýrt frá afhendingu þeirra til ríkislögreglustjóra.
DV er upphafsfjölmiðill þessa ranga fréttaflutnings og á ríkisútvarpinu eru sporgöngumenn auk þingmanna stjórnarandstöðunnar með Pírata í broddi fylkingar, trúir nafni sínu vilja þeir löggæslu sem minnsta. Í dag gekk síðan Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, fyrir lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu og baðst undan því að borgarbúar nytu verndar nýrra vopna tæki lögreglan þau í notkun!
ps. vegns tæknilegra mistaka rataði þetta nafn þingmanns VG Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir inn á síðuna og er hún beðin velvirðingar á því.
Fimmtudagur 23. 10. 14
Unnt er að reyna á innviði þjóðríkja á ýmsan hátt.
Þung rök hníga að því að Huang Nubo hafi fengið leyfi kínverskra stjórnvalda til að láta á það reyna hve langt hann kæmist með ósk um að eignast 300 ferkílómetra land Grímsstaða á Fjöllum. Þegar ríkisvaldið sagði nei reyndi hann að vefja sveitarstjórnum á norðausturlandi um fingur sér. Þau stofnuðu hlutafélagið GáF til að þjóna Huang og situr það nú uppi með 10 milljóna króna skuld en Huang hefur fest sér 100 ha land skammt frá Tromsö í Noregi þótt kaupin séu ekki formlega um garð gengin.
Kínverjum hefur tekist að kortleggja ýmislegt um innviði íslenska stjórnkerfisins og átta sig betur en áður á hvar helst sé að leita stuðnings við óskir þeirra.
Skömmu eftir að vinstri stjórn tók við völdum í Svíþjóð bárust fréttir um að rússneskur kafbátur væri á sveimi í sænskri lögsögu úti fyrir Stokkhólmi. Hans hefur nú verið leitað án árangurs í eina viku. Hvort sem kafbátur hefur verið eða er þarna á ferð eða ekki hefur Rússum tekist að kalla fram viðbrögð sænskra stjórnvalda sem sýnir styrk þeirra og veikleika.
Einhver lak frétt í DV um að nýjar byssur hefðu verið kynntar til sögunnar hjá ríkislögreglustjóra. Upphaflega fréttin var röng og reist á getgátum. Að íslenska lögreglan hafi aðgang að vopnum er ekki nýtt. Miðað við fjölda lögreglumanna eru vopnin líklega hlutfallslega færri nú en nokkru sinni fyrr. Að sjálfsögðu á að stuðla að því að lögreglan ráði yfir sem bestum tækjabúnaði og geti notað hann innan lögmætra marka.
Framvinda umræðnanna um þetta vopnamál leiðir í ljós fávisku margra fjölmiðla- og þingmanna auk algjörs skilningsleysis á hlutverki og ábyrgð þeirra sem láta að sér kveða í umræðum um öryggismál. Þá kemur einnig í ljós, eins og vitað var, að innan stjórnsýslunnar er grátt svæði þegar kemur að öryggis- og varnarmálum þar sem annars vegar eiga í hlut stofnanir á vegum innanríkisráðuneytisins og hins vegar utanríkisráðuneytið sem fer með varnarmál og hefur samskipti við stjórnvöld annarra ríkja á því sviði.
Var tilgangur þess sem lak fréttinni í DV að draga fram þennan veikleika innan stjórnsýslunnar eða að leggja stein í götu þess að lögreglumenn hefðu aðgang að viðunandi vopnum? Skyldi einhver kæra þennan leka til ríkissaksóknara?
Miðvikudagur 22. 10. 14
Í dag ræddi ég við Aðalheiði Héðinsdóttur, forstjóra Kaffitárs, í þætti mínum á ÍNN. Kaffitár var stofnað fyrir 24 árum og hefur áunnið sér góðan sess á höfuðborgarsvæðinu. Það hefur rekið tvær kaffistofur í flugstöð Leifs Eiríkssonar (FLE) á Keflavíkurflugvelli en hefur nú verið gert að loka þeim án þess að fylgt hafi verið viðunandi leikreglum að mati Aðalheiðar.
ISAVIA er rekstraraðili Keflavíkurflugvallar og annarra flugvalla í landinu og reksturinn í FLE er undir handarjaðri ISAVIA, opinbers hlutafélags. Hið einkennilega við ákvarðanir um nýja leigutaka í FLE er leyndarhyggjan sem einkennir viðhorf stjórnenda ISAVIA. Lýsingar á henni minna mig á viðhorf stjórnenda Orkuveitu Reykjavíkur fyrir einum áratug.
Vegna þess hve stjórnendur opinberra fyrirtækja hafa verið tregir til að skýra frá einstökum þáttum varðandi rekstur þeirra var lögum breytt fyrir fáeinum árum til að auka upplýsingaskyldu þeirra. ISAVIA vildi þá sérstöðu sem ekki var samþykkt. Nú neitar fyrirtækið að upplýsa þá sem vildu fá að starfa í FLE og ætlar ekki að verða að óskum þeirra nema hæstiréttur gefi fyrirmæli um það.
Þátturinn með Aðalheiði verður næst á dagskrá klukkan 22.00 og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.
Hér má sjá þátt minn á ÍNN sem sýndur var í síðustu viku þar sem ég ræddi við Árna Larsson skáld.
Þriðjudagur 21. 10. 14
Ramakveinið sem heyrist þegar minnst er á vopnabúnað lögreglunnar er almennt viðbúnað til að tryggja öryggis landsmanna er með nokkrum ólíkindum. Látið er eins og einhver nýlunda felist í því að íslenska lögreglan hafi aðgang að skotvopnum. Svo er auðvitað ekki eins og sagan segir þeim sem vilja kynna sér hana.
Um langt árabil hafði lögreglan til dæmis aðstöðu til æfinga í húsi úti á Seltjarnarnesi þar sem nú er hús golfklúbbsins á nesinu. Á stríðsárunum var efnt til vopnaðra æfinga lögreglumanna á Laugarvatni undir stjórn Agnars Kofoed-Hansens lögreglustjóra.
Fyrir um áratug var ákveðið að breyta skipulagi sérsveitar lögreglunnar til að tryggja að liðsmenn hennar yrðu ávallt til taks með vopn sín á höfuborgarsvæðinu og á Akureyri. Þetta var ekki síst gert til að tryggja öryggi hins almenna lögreglumanns og auka svigrúm hans til að takast á við erfið og hættuleg viðfangsefni. Öryggisleysi lögreglumanna minnkar öryggi hins almenna borgara.
Jón H. Bjartmarz vitnar á mbl.is í dag í skýrslur um stöðu lögreglunnar frá 2012, í ráðherratíð Ögmundar Jónassonar, um að öll embætti lögreglunnar hafi skammbyssur til umráða, nokkur þeirra rifla og haglabyssur. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi haft 28 skammbyssur til umráða á árinu 2012 og fimm haglabyssur. Lögreglan á Suðurnesjum hafi einnig haft yfir sjálfvirkum vopnum að ráða.
Í illa unnum fréttum og upphrópunum á alþingi og vefsíðum er látið eins og vopn verði látin í alla lögreglubíla. Þetta er ekki rétt. Vopn verða áfram geymd í lögreglustöðvum. Jón H. Bjartmarz segir að einstakir lögreglustjórar í stórum umdæmum á landsbyggðinni hafi á undanförnum árum tekið sjálfstæða ákvörðun um að hafa vopn í bílum. Til skoðunar sé hjá umræddum lögreglustjórum hvort þeir setji MP5 byssur í bílana til viðbótar við skammbyssur. Þar sé um að ræða einstaka bíla við sérstakar aðstæður.
Þegar rykið fellur til jarðar núna kemur í ljós að um það er að ræða hvort vopn lögreglunnar falli að eðlilegum nútímakröfum eða ekki.
Þegar varðskipið Óðinn kom hingað nýsmíðað til landsins árið 1960 var um borð í því fallbyssa með þessari áletrun: „Artillerimaterielværkstæderne Köbenhavn 1896“. Engum datt í hug að setja slíkt vopn um borð í Þór árið 2011. Fallbyssan í Þór er af gerðinni Bofors 40 MM L60 MK 3, sömu tegundar og fallbyssan um borð í Ægi.
Upphrópanir einstakra álitsgjafa og þingmanna í dag sannar aðeins enn hve frumstæðar umræður þessir menn telja sér sæma að stunda um öryggismál þjóðarinnar. Er tilvijun að þetta upphlaup eigi upptök í DV?
Mánudagur 20. 10. 14
Margar kenningar eru um hvers vegna eitthvað sé á sveimi í sænska skerjagarðinum fyrir utan Stokkhólm. Sænsk yfirvöld leita þar að einhverju neðansjávar, flestir telja að um rússneskan kafbát sé að ræða. Hafi Rússar ákveðið að ögra Svíum á þennan hátt svo skömmu eftir að ný ríkisstjórn vinstri flokkanna var mynduð í landinu má ætla að þeir vilji reyna á þolrif hennar og sjá hvernig hún bregst við vegna þess sem líkja má við pólitískt/hernaðarlegt hættuástand.
Á Evrópuvaktinni er birt viðtal (sjá hér) við sænskan herfræðing, Peter Mattsson, sem bendir á að þessum kafbáti sé ekki beint gegn hernaðarlegu skotmarki heldur borgaralegu og pólitísku. Það sé í samræmi við stefnu í hermálum sem rússnesk stjórnvöld hafi mótað síðan 2008.
Stefnan sé meðal annars reist á að nýta allar leiðir til að koma alls kyns upplýsingum á framfæri í gegnum hraðvirka netmiðla til að skilgreina viðbrögð við þeim. Netmiðlar leggi meiri áherslu á tafarlausa birtingu en ígrundun og könnun heimilda. Fréttin sem barst frá Rússlandi í dag um að Hollendingar ættu kafbát í felum í sænska skerjagarðinum er dæmi um nýtingu á fjölmiðlum til að rugla fólk í ríminu.
Dramatískust er sú skoðun annars herfræðings í Svíþjóð, Finnans Tomasar Ries, að sé kafbáturinn rússneskur og komist hann ekki undan sænska hernum bíði aðeins dauðinn áhafnarinnar, henni beri að sökkva eða sprengja kafbátinn til að hann hafni ekki í höndum Svía.
Furðulegust er kenningin um að með því að senda kafbátinn vilji Rússar ögra Svíum á þann veg að þeir þori ekki að halda áfram vangaveltum um aðild að NATO. Auðveldara er að rökstyðja að einmitt grár leikur af þessu tagi auki fylgi við NATO-aðild Svía. Í krafti hennar gætu þeir kallað bandamenn til samstarfs við sig í leitinni að kafbátnum.
Frá Danmörku og Noregi berast fréttir um að þar í landi ráði menn ekki yfir sambærilegum búnaði og Svíar eiga til kafbátaleitar. Danir hafi raunar afskrifað þátttöku sína í öllum kafbátahernaði með því að leggja sínum kafbátum fyrir fullt og allt.
Norðmenn eiga sex kafbáta og hafa mikla reynslu í leit af kafbátum í norskum fjörðum á tíma kalda stríðsins. Á árunum 1960 til 1994 eru skráð 154 tilvik aðeins í Norður-Noregi þar sem talið var að ókunnir kafbátar væru á ferð. Það tókst aldrei að slá því föstu hvaðan þeir komu. Undanfarin ár hafa norskar F-16 orrustuþotur flogið um 40 sinnum ár hvert í veg fyrir rússneskar hervélar.
Sunnudagur 19. 10. 14
Daginn eftir glæsilegan sigur Íslendinga á Hollendingum í knattspyrnu flutti Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, íslenska liðinu heillaóskir – upp úr eins manns hljóði á fundi með evrópskum fjárfestum og kaupsýslumönnum í Moskvu.
Utanríkisráðherrann flutti þriðjudaginn 14. október ræðu hjá Samtökum evrópskra fyrirtækja (Association of European Businesses) í Moskvu. Ræddi hann þar um viðskiptaþvinganir og áhrif þeirra og svaraði síðan fyrirspurnum. Síðasta spurningin til ráðherrans á fundinum snerist um hina svonefndu Norðurvídd, hvort nota mætti hana til að bæta samskipti Rússa við ESB.
Svar utanríkisráðherrans má finna hér á vefsíðu rússneska utanríkisráðuneytisins. Það birtist hér í lauslegri þýðingu:
„Norðurvíddin sem er gott dæmi á sína sögu. Áður en hún varð að góðri einingu var erfitt að setja henni mörk. Norðurvíddin varð til sem ESB-verkefni fyrir norræn lönd utan ESB – Rússland, Noreg og Ísland. (Og ég vil óska knattspyrnuliði Íslendinga til hamingju með frábæran leik þess.) Öll ríkin þrjú lýstu vilja til að vinna saman innan ramma hugmyndarinnar en vildu að hún fengi sameiginlegt efnislegt inntak. Þau vildu ekki fá sérgreindar tilskipanir frá ESB. Við úrlausn málsins gegndi Tarja Halonen Finnlandsforseti lykilhlutverki en henni var Norðurvíddin kappsmál. Viðræður hófust, skipst var á textum og inntakið samræmt sameiginlega af ESB, Rússlandi, Noregi og Íslandi. Þetta er helsta leyndarmálið að baki velgengni Norðurvíddarinnar. Ólíkt því sem á við um stefnu ESB á Svartahafi og Eystrasalti vinna menn saman að þessu verkefni í almennt góðri sátt um efni þess. Um þessar mundir vinnur ESB að mótun stefnu um norðurskautið, Mið-Asíu og Austursamstarf. ESB mótar stefnuna eitt varðandi þetta allt og hún er síðan lögð fyrir hugsanlega samstarfsaðila. Þessi aðferð er dáilítið hrokafull og ekki mjög opin. Ég held að vel færi á því að koma fram við ESB-samstarfsaðila sem jafningja innan ramma svæðisbundins samstarfs.“
Að Sergei Lavrov hugsaði til leiks Íslands og Hollands á Laugardalsvellinum mánudaginn 13. október á þessum fundi sýnir hve mikla athygli sigur íslenska liðsins vakti auk þess sem ráðherrann var kannski enn miður sín yfir að Rússa gerðu 1:1 jafntefli gegn Moldóvum sunnudaginn 12. október og vildi minna fundarmenn á að fleiri smáþjóðir en Moldóvar gætu boðið sér stærri þjóðum byrginn á knattspyrnuvellinum.
Íslendingur á ferðalagi um Moskvu sótti þennan fund af tilviljun, þótti honum merkilegt að heyra orðin um Ísland falla og sagði mér frá þeim – allt má síðan finna í netheimum!
Laugardagur 18. 10. 14
Frumsýningin á Don Carlo hjá Íslensku óperunni í Eldborg Hörpu í kvöld var glæsileg. Uppfærsla Þórhildar Þorleifsdóttur var trú sögunni og tímanum, engin tilraun til að færa dramað inn í samtímann, átökin eru tímalaus hvort heldur þau snúast um ást, grimmd, stjórnmál eða trúarbrögð. Af sýningum Íslensku óperunnar í Eldborg er þessi ef til vill hin best heppnaða.
Fyrir nokkrum árum sá ég Don Carlo í Bastillu-óperunni í París og þar var Kristinn Sigmundsson í hlutverki yfirdómara rannsóknarréttarins en í kvöld var hann Filippus II. Spánarkonungur. Mér þótti sagan betur sögð í kvöld en í París, bæði var nálægðin meiri auk þess sem íslensku textarnir auðvelduðu skilning á efninu.
Einvala lið söngvara flutti verkið á dramatískan hátt og hver einasta rödd var íslensk, sumar hafa ekki heyrst áður í sýningum Íslensku óperunnar. Sannaðist þar enn breiddin í hæfileikaríkum hópi íslenskra söngvara.
Hljómsveit íslensku óperunnar lék mjög vel undir stjórn Guðmundar Óla Gunnarssonar, var gott jafnvægi milli hennar og söngvaranna. Leikmynd og lýsing báru þess merki að hönnuðir Íslensku óperunnar ná sífellt betri tökum á hinum glæsilega tónleikasal, nú féll litur sviðsmyndarinnar að lit salarins.
Stefán Baldursson óperustjóri tók áhættu með flutningi á Don Carlo. Frumsýningin sýnir að hún var réttmæt og vonandi nýta sér sem flestir þetta einstæða tækifæri til að kynnast einu af meistaraverkum óperusögunnar.
Verdi samdi óperuna að hvatningu Parísaróperunnar og var hún frumsýnd þar árið 1867. Er ekki að efa að það hefur glatt Frakka hve ljúflega og lofsamlega er sungið um Frakkland sem björtustu vonina andspænis harðstjórn Filippusar.
Föstudagur 17. 10. 14
Björn Karlsson, dósent við umhverfis- og byggingaverkfræðideild Háskóla Íslands, sagði í fyrirlestri við upphaf björgunarráðstefnu Landsbjargar, Björgun 2014, í dag, Íslendingar hefðu „eiginlega varla nokkurn einasta möguleika á því bjarga“ mörg hundruð manneskjum eða jafnvel þúsund, til dæmis skemmtiferðaskipi einhvers staðar við Grænlandstrendur.
Þetta eru ekki ný sannindi heldur lýsing á vanda sem leitar- og björgunarstofnanir allra ríkja við Norður-Atlantshaf hafa rætt um árabil. Að því er Grænland varðar hefur danska flotastjórnin lengi hugað að leiðum til að takast á við slys af þeim toga sem Björn Karlsson nefnir. Ein tillagan er að aldrei verði eitt skemmtiferðaskip á ferð við Grænland heldur tiltölulega skammt á milli tveggja skipa. Með því mætti auka öryggi beggja.
Hinn 19. september 2013 flutti Knud Bartels, hershöfðingi, formaður hermálanefndar NATO og fyrrverandi yfirmaður danska hersins, flutti erindi um stöðu NATO og framtíðarverkefni í Norræna húsinu í Vatnsmýrinni.,
Hann sagðist sem fyrrverandi yfirmaður danska hersins fylgjast náið með framvindu mála á norðurslóðum og ástæðulaust væri að ætla annað en hún yrði áfram friðsamleg. Hann vék að auknum ferðum risaskipa með ferðamenn um þessar slóðir og mátti skilja á orðum hans að þar kynni að vera hætta á ferðum ef dæma mætti af því sem gerðist í skemmtaferðaskipum annars staðar á heimshöfunum. Hann sagði að yrði sjóslys nþar sem skemmtiferðaskip kæmi við sögu yrði óhjákvæmilegt að kalla á alla til hjálpar þar á meðal herskipeða flugvélar á vegum herafla.
Spurning er hvort sviðsmyndin sem lýst var í fyrirlestri Björns Karlssonar eigi ekki við um öll skemmtiferðaskip sem sigla í nágrenni Íslands. Sagt er að þau verði 100 á næsta ári.
Hið furðulega er hve lítil umræða hefur verið um þessa hlið siglinga stórskipa í nágrenni Íslands.
Þessi þróun öll mælir með að alþjóðleg stjórnstöð leitar- og björgunar verði starfrækt hér á landi og reglulega verði efnt til samhæfingaræfinga.
Fimmtudagur 16. 10. 14
Varðberg efndi til hádegisfundar í dag þar sem Birgir Ármannsson, formaður utanríkismálanefndar alþingis, flutti erindi um NATO og nýjar hættur. Fundurinn átti að vera í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins en fyrir mistök var salurinn tvíbókaður og fluttum við okkur því upp á sjöttu hæð í húsi Þjóðminjasafnsins þaðan sem útsýnið er einstakt til austurs og vesturs.
Birgi mæltist vel og tími gafst til umræðna. Af orðum Birgis mátti ráða að Bandaríkjastjórn sýndi öryggismálum norðurslóða og þar með Íslands meiri áhuga en áður. Hann tók undir með Árna Gunnarssyni, fyrrv. þingmanni Alþýðuflokksins, sem vitnaði í fyrrv. foringja í Bandaríkjaher sem hefði sagt að í hernum gerðu menn sér grein fyrir að mistök hefðu verið gerð með brottför varnarliðsins frá Íslandi.
Einkennilegt var að heyra efasemdarraddir meðal fundarmanna um aðild Íslands að refsiaðgerðum gegn Rússum vegna atlögu þeirra að Úkraínumönnum og innlimunar Krímskaga. Fulltrúi rússneska sendiráðsins var á fundinum og gat ekki gefið neina aðra skýringu á að Ísland væri ekki á rússneskum bannlista en að ríkisstjórn Rússlands hefði ákveðið að svo yrði.
Síðdegis fórum við í Listasafn Íslands þar sem 130 ára afmælis safnsins var minnst með því að opna VASULKA-stofu, gagnasafn Steinu & Woody Vasulka, miðstöð íslenskrar vídeó- og margmiðlunarlista.
Það er einkennilegt hve miklar umræður geta farið fram vegna skoðana Bryndísar Loftsdóttur, varaþingmanns Sjálfstæðisflokksins, á matarreikningnum. Hefði þetta verið stórmál áður en hún lýsti skoðun sinni hefðu pólitískir andstæðingar sjálfstæðismanna reynt að bæta stöðu sína með því að flagga tölunum. Talnadeilurnar núna eru aðeins til marks um að stjórnarandstaðan er í molum og fer úr einu vígi í annað eftir því hvernig vindur blæs í fjölmiðlum í stað þess að leiða ígrundaða stefnu gegn ríkisstjórninni.
Miðvikudagur 15. 10. 14
Í þætti mínum á ÍNN í kvöld ræði ég við Árna Larsson skáld sem gaf út sína fyrstu bók Uppreisnina í grasinu hjá Almenna bókafélaginu árið 1972 en hefur síðan gefið út á eigin vegum 11 ljóðabækur. Þátturinn er sýndur klukkan 20.00 og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.
Í Staksteinum Morgunblaðsins er í dag sagt frá ótrúlega illa unninni frétt á ríkisútvarpinu vegna flókins máls sem snertir aðild Íslands að evrópska efnahagssvæðinu og hið tevvgja stoða kerfi milli EFTA og ESB sem myndar efnahagssvæðið. Málið snýst um hvort þetta tveggja stoða kerfi haldi gagnvart hertum reglum ESB um fjármálaeftirlit og fleira.
Á fundi fjármálaráðherra EES-ríkjanna þriðjudaginn 14. október var frá því gengið að tevvgja stoða kerfið gilti áfram – að sjálfsögðu enda er EES-samningurinn í fullu gildi. Um þetta má lesa hér.
Í fréttum ríkisútvarpsins um þetta mál sagði:
„Samkomulag hefur náðst um innleiðingu reglna um samevrópskt fjármálaeftirlit í EFTA-ríkjunum þremur, Íslandi, Noregi og Lúxemborg. Með því verður tryggt að Evrópulöggjöf sem byggir á viðbrögðum við alþjóðlegu fjármálakreppunni taki gildi í ríkjunum þremur, þar á meðal löggjöf um þrjár evrópskar eftirlitsstofnanir á fjármálamarkaði.
Þar sem stofnanirnar hafa meðal annars vald til að grípa inn í rekstur fjármálafyrirtækja fela reglurnar í sér framsal framkvæmdavalds sem stjórnarskrá Íslands heimilar ekki.
Fjármálaþjónusta er mikilvæg fyrir efnahag Lúxemborgar sem þar af leiðandi hefur þrýst mjög á um að reglurnar verði innleiddar. Samkomulagið felur í sér að Eftirlitsstofnun EFTA tekur allar bindandi ákvarðanir gagnvart EFTA-ríkjunum og hægt verður að bera þær undir EFTA-dómstólinn. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra staðfesti samkomulagið fyrir Íslands hönd en reglurnar verða lögfestar hér á landi á næstunni.“
Það er rétt hjá höfundi Staksteina að þessi frétt er stórmerkileg. Þarna er ruglast á Lúexmborg og Liechtenstein og því slegið föstu að Bjarni Benediktsson hafi gerst brotlegur við stjórnarskrána þegar samkomulagið er einmitt á þá leið að tryggja að ekki sé farið gegn stjórnarskránni.
Þriðjudagur 14. 10. 14
Lárus H. Bjarnason rektor Menntaskólans við Hamrahlíð (MH) tilkynnti í dag að ákveðið hefði verið að leggja öldungadeild skólans niður um áramótin 2014 – 2015. Aðsókn væri sífellt þverrandi og yfirvöld hefðu ákveðið í tengslum við fjárlagagerð næsta árs að leggja af fjárveitingar til þeirra sem stunduðu nám til stúdentsprófs og hefðu náð 25 ára aldri. Rekstrargrundvöllur kvöldnámsins í MH væri þar með algerlega brostinn og skólanum nauðugur einn kostur að hætta þeirri starfsemi.
Öldungadeild MH kom til sögunnar í janúar 1972 og hófst kennslan 17. janúar það ár. Frumkvæðið átti Guðmundur Arnlaugsson, þáverandi rektor MH, sem fékk heimild ráðherra og ráðuneytisstjóra menntamála til þess að gerð yrði tilraun með, eins og sagði í gamalli auglýsingu, … námskeið fyrir fólk sem hefur áhuga á að ljúka stúdentsprófi án setu í menntaskóla…. Guðmundur sagðist sjálfur hafa gert ráð fyrir 50-60 manns en reyndin varð sú að hátt á þriðja hundrað brugðust við auglýsingum skólans.
Þegar fjölmennast var í öldungadeildinni á 9. áratugunum komst nemendafjöldi yfir 700. Á árunum kringum aldamótin voru nálægt 500 nemendur í deildinni hverju sinni en fljótlega eftir það fækkaði nemendum smám saman og voru t.d. liðlega 200 á árunum 2006 – 2011. Nú undir lokin, haustið 2014, eru nemendur aðeins taldir í tugum í stað hundraða áður segir Lárus H. Bjarnason og telur nærtækt að ætla að ýmsir möguleikar á fjarnámi innan framhaldsskólakerfisins, háskólabrýr með námslánamöguleika og stóraukið framboð ýmiss konar námskeiða hafi dregið verulega úr aðsókninni síðustu ár.
Með brotthvarfi öldungadeildar MH verða þáttaskil í skólasögunni. Þar með lýkur 42 ára kafla hennar. Öldungadeildin opnaði mörgum leið og hefur verið til marks um sveigjanleika í skólakerfinu en sá þáttur þess verður sífellt mikilvægari vegna örra breytinga.
Á ungum aldri ber að leggja megináherslu á að menn læri altækar aðferðir sem duga þeim til að takast á við ný og síbreytileg viðfagsefni. Sá sem ekki hefur tækifæri eða áhuga til að laga sig að breytingum og tileinka sér nýjungar staðnar og getur þar sem auðveldlega einangrast á vinnumarkaði og í samfélaginu.
Mánudagur 13. 10. 14
Í pistli á Eyjunni segir í dag:
„Robert Fisk, pistlahöfundur hjá The Independent og einn virtasti blaðamaðurinn um málefni Miðausturlanda, telur að í þessari umræðu [um Íslamska ríkið] verði að gefa því sem fer fram á netinu meiri gaum. Vefsíður, blogg og YouTube hafi í hugum margra tekið yfir hlutverk raunveruleikans. Hann veltir meðal annars fyrir sér hvort IS séu ekki raunverulegri á netinu en í hinu áþreifanlega lífi á jörðu niðri. Þetta eigi að sjálfsögðu ekki við um Kúrdana í Kobani eða Yazidis fólkið eða þá sem hafa verið afhöfðaðir af liðsmönnum IS. Hann veltir fyrir sér hvort ekki sé kominn tími til að við áttum okkur á þeirri staðreynd netfíkn í pólitík og stríð sé jafnvel hættulegri en hörð fíkniefni.“
Eðlilegt er að hafa skoðanir sem þessar í huga þegar litið er til þeirrar ákvörðunar að loka á fulltrúa IS (Islamic State) þegar þeir ætla að nota lénið .is – íslenska lénið í netheimum. Eins og hér hefur verið sagt áður er háð stríð í netheimi samhliða átökum í Sýrlandi og Írak. Ísland var dregið inn í það stríð og varnirnar eru í íslenskum höndum.
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður pírata, segir á FB-síðu sinni 12. október að sér hefði þótt viðundandi að ISNIC hefði lokað á síðu IS með vísan til þess að Íslamska ríkið ætlaði að eigna sér lénið .is til þess hafi hins vegar skort heimild og því hafi ekki átt að loka á síðuna af því að almenningur verði „að hafa rétt og færi á því að rannsaka og ræða opinskátt ljótustu hugmyndirnar sem finnast í mannlegu samfélagi, sérstaklega þegar um er að ræða hrylling á borð við Ríki Islams“.
Þetta er skrýtileg og þversagnarkennd afstaða sem Helgi Hrafn rökstyður meðal annars á þennan hátt:
„Allt tal um að þessari síðu verði að loka vegna þess að hún breiði út hatur er í grundvallaratriðum byggt á þeirri skelfilegu hugmynd að hluti verksviðs yfirvalda sé að hafa hemil á því hvað almenningur hugsi og hvað honum finnist. Almenningur verður að hafa traust til að móta eigin skoðanir. Grundvallarforsenda þess er hin akreinin á vegi tjáningarfrelsisins, þ.e. rétturinn til heyra í öðrum.“
Ætla má af þessum orðum að Helgi Hrafn hafi gott af að kynna sér það sem Robert Fisk hefur til þessara mála að leggja. Efni þessarar síðu var ekki sett á lénið .is til að uppfræða Íslendinga eða almenning heldur til að réttlæta stríð og kveikja áhuga væntanlegra stríðsmanna.
Sunnudagur 12. 10. 14
Frá því er sagt á ruv.is að kvöldi sunnudags 12. október að ISNIC hafi lokað léni samtakanna Íslamskt ríki. Um fordæmalausa aðgerð sé að ræða þar sem ISNIC hafi aldrei fyrr lokað léni vegna innihalds vefjar.
Erla Árnadóttir hæstaréttarlögmaður, sérfróð um hugverkarétt, telur ekki augljóst að efni síðunnar falli undir íslenska refsilösögu, henni virðist efni á síðunni „ekki vera beint sérstaklega til íslenskra þegna“ og ekki sé „að finna þar neitt efni sem er á íslensku“. Erla segir einnig hæpið að yrðu sett lög um bann við vistun slíks efnis undir .is yrðu þau afturvirk „þar sem slíkt gæti jafngilt eignarnámi“
Hér er tilkynning ISNIC:
„ISNIC hefur lokað lénum sem notuð voru fyrir aðalvefsíðu yfirlýstra hryðjuverkasamtaka. Meirihluti stjórnar ákvað þetta nú síðdegis. Ákvörðunin er reist á grundvelli 2. tl. 9. gr. reglna ISNIC um lénaskráningu, þar sem fram kemur að rétthafa léns beri að ábyrgjast að notkun léns sé í samræmi við íslensk lög. Lénunum var lokað kl. 18:40, en nokkrir klukkutímar kunna að líða þar til vefir undir lénunum verða óaðgengilegir um allan heim. Um fordæmalausa aðgerð er að ræða, þar sem ISNIC hefur aldrei fyrr lokað léni vegna innihalds vefjar.“
Afstaða Erlu Árnadóttur kemur á óvart. Það þarf nokkurt hugmyndaflug til að segja að huga beri að þeim atriðum sem hún nefnir og láta þau ráða um nethernað og þess vegna samrýmist íslenskum lögum að stríðsmenn íslamska ríkisins noti íslenskt yfirráðasvæði til hernaðar – efninu sé ekki beint til Íslendinga og sé ekki á íslensku!
Hefði ekki verið lokað fyrir þessa síðu á íslensku léni hefði legið ljóst fyrir að netvarnir Íslands væru einfaldlega í molum.
Laugardagur 11. 10. 14
Í hádegisfréttum ríkisútvarpsins var látið eins og það þyrfti sérstaka lagasetningu eða ákvörðun dómara til að loka vefsíðu í þágu hryðjuverksamtakanna Íslamska ríkið sem skráð er á íslenskt lén.
Í kvöldfréttum ríkisútvarpsins sagði að fyrirtækið Advania hefði lokað vefsíðunni, hýsing hennar bryti í bága við viðskiptaskilmála Thor Data Center, í eigu Advania, og því hefði henni verið lokað.
Þetta ætlaði Advania að gera þrátt fyrir að það kynni þar með að eiga yfir höfði sér lögsókn vegna brots á tjáningafrelsi. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson dómsmálaráðherra vildi ekki tjá sig um málið að svo stöddu, en málið var sagt til athugunar hjá dómsmálaráðuneytinu.
Á ruv.is segir laugardaginn 11. október:
„Vefurinn nefnist khilafah.is og var skráður á Íslandi í september. Sá sem skráður [er] fyrir léninu kallar sig Azym Abdullah en hann er til heimilis á Nýja Sjálandi. Lénið er skráð hjá ISNIC og vefsíðan hýst af Thor Data Center, sem aftur er hýst af Advania. ISNIC annast skráningu, rekstur og stjórnun landslénsins .is. Framkvæmdastjóri ISNIC sagði í hádegisfréttum að eina leiðin til þess að loka léninu væri ef stjórnvöld krefðust þess eða þá að dómsúrskurður lægi fyrir.“
Hér má lesa það sem sagt er um þetta mál á Evrópuvaktinni.
Í dag sagði Ögmundur Jónasson að alþingi hefði ekki samþykkt tillögu frá sér sem ráðherra árið 2011. Hún hefði komið í veg fyrir að Azym Abdullah hefði getað skráð lén á Íslandi. Þar hefði verið sett sem skilyrði fyrir að unnt væri að nota .is að viðkomandi hefði tengsl við Ísland. Hagsmunaaðilar, þar á meðal ISNIC, og drjúgur hluti þingmanna hefði lagst gegn frumvarpinu.
Allt er þetta ruglingslegt og ber með sér að verk sé óunnið til að marka og framkvæma skýra stefnu í netvörnum hér á landi og kynna hana á viðunandi hátt. Margar fyrirmyndir eru til frá útlöndum um hvernig standa beri að slíkum vörnum, þær eru hins vegar á ábyrgð íslenskra stjórnvalda.
Föstudagur 10. 10. 14
Tveir nýlegir þættir mínir á ÍNN komu inn á netið í dag.
Í fyrsta lagi þáttur frá 1. október þar sem ég ræði við Ólaf H. Johnson, skólastjóra og stofnanda Hraðbrautar, og má sjá hann hér.
Í öðru lagi þáttur frá 8. október þar sem ég ræði við Margeir Pétursson kaupsýslumann um stöðu mála í Úkraínu og má sjá hann hér.
Þetta er skrifað í Fljótshlíðinni og liggur dularfull móða yfir öllu. Vegna frétta má ætla að hér sé um eiturgufur frá gosinu í Holuhrauni að ræða. Sólin er eins og rauður vígahnöttur í vestri en rétt má greina í Eyjafjallajökul í austri.
Næsti staður þar sem umhverfisstofnun heldur úti mæli til að fylgjast með loftmengun er í Þjórsárdal og í fréttum ríkisútvarpsins klukkan 18.00 sagði að mikil brennisteinsmengun hefði mælst þar síðdegis í dag. Í Þjórsárdal mældist styrkur brennisteinstvíildis nær 2.500. Mælist brennisteinsmengun yfir 2.000, er fólk hvatt til að halda sig innandyra.
Af þessu dreg ég þá ályktun að mér sé fyrir bestu að sitja inni en þegar ég skoða þetta nánar á vefsíðu umhverfisstofnunar sést að hámarkið var um stuttan tíma um klukkan 16.00 en nú eru skilyrði sögð góð í Þjórsárdal. Frá 12.00 til rúmlega 17.00 áttu viðkvæmir að fara varlega.
Veðurstofan spáir ákveðnari norðan- og norðaustanátt á morgun. Gasmengunar gæti orðið vart á mestöllu Suðurlandi, frá höfuðborgarsvæðinu og austur að Höfn í Hornafirði.
Því má velta fyrir sér hvort viðvaranir um hættuna af brennisteinsmenguninni séu nógu markvissar. Er það aðeins í stuttan tíma á dag best er að sitja inni? Hvað með áhrifin á skepnur? Eða rafeindatæki? Tölvur og tölvuvædda bíla?
Fimmtudagur 09. 10. 14
Fjölmenni var síðdegis í dag í útgáfuteiti sem Almenna bókafélagið efndi til í Eymundsson í Kringlunni í tilefni af útgáfu bókar Jóns Steinars Gunnlaugssonar, lögmanns og fyrrverandi hæstaréttardómara, Í krafti sannfæringar. Í bókinni kemur meðal annars fram að Jón Steinar Gunnlaugsson er höfundur Einnota bréfsins svonefnda sem kom við sögu í Baugsmálinu. Hann segir í bókinni að hann hafi sem hæstaréttardómari, en vanhæfur í málinu, fylgst með framvindu mála tengd Baugi og dómum Hæstaréttar. Hlutlaus lagaframkvæmd hafi ekki ráðið ferðinni. Enginn gagnrýndi samt dómana.
Varð þetta tilefni þess að Jón Steinar skrifaði bréfið sem meðal annars kemur við sögu í bók minniRosabaugur yfir Íslandi þar sem ég rek Baugsmálið frá mínum sjónarhóli án þess að vita fyrr en nú í tilefni útkomu bókar Jóns Steinars að hann var höfundur bréfsins.
Ádeila verjenda í Baugsmálinu gekk mjög út á það að ég sem dómsmálaráðherra væri með puttana í málinu og til dæmis voru öll afskipti sem verjendur töldu að dómsmálaráðuneytið hefði af málinu sögð til þess fallin að eyðileggja málatilbúnað ákæruvaldsins í því. Ragnar H. Hall hrl. var meðal þeirra lögfræðinga sem lögðu verjendum í Baugsmálinu lið. Árið 2010 gagnrýndi hann harðlega að Eva Joly veitti sérstökum saksóknara ráð og kallaði hana „yfirsaksóknara“ og sagðist hafa ritað forsætis-, dómsmála- og fjármálaráðherra bréf þar sem hann krefðist meðal annars afrita af öllum samningum við Joly um samvinnu hennar við íslensk stjórnvöld.
Í Fréttablaðinu í dag er sagt frá því Ragnar H. Hall og Helgi Sigurðsson hrl. hafi fundað með Ragnhildi Hjaltadóttur, ráðuneytisstjóra í innanríkisráðuneytinu, og tveimur skrifstofustjórum ráðuneytisins af því að lögmennirnir teldu að við rannsóknir á umboðssvikum í efnahagsbrotamálum hefði sérstakur saksóknari vikið frá hefðbundnum sjónarmiðum um skýrleika refsiheimilda. Má skilja fréttina á þann veg að kvörtunum lögmannanna hefði verið vísað til réttarfarsnefndar að ósk ráðherra.
Ástæða er til að velta fyrir sér í tilefni þessarar fréttar hvort dómsmálaráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) og ráðuneytismenn telji sér fært að svipta saksóknara sjálfstæði sínu vegna kvartana lögmanna. Þá má spyrja: Hvað varð um afstöðuna sem verjendurnir í Baugsmálinu höfðu? Telja hæstaréttarlögmenn í raun og veru að dómsmálaráðherra grípi eða eigi að grípa fram fyrir hendur saksóknara?
Miðvikudagur 08. 10. 14
Á ÍNN má nú sjá samtal mitt við Margeir Pétursson kaupsýslumann um stöðu mála í Úkraínu. Margeir rekur banka í borginni Lviv í vesturhluta Úkraínu og hefur fylgst náið með gangi mála í landinu í um einn áratug. Næst verður samtalið sýnt klukkan 22.00 og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.
Í dag var fundur í hátíðarsal Háskóla Ísalands þar sem þess var minnst að Jónas H. Haralz hefði orðið 95 ára 6. október hefði hann lifað. Fjallað var um leiðir til að losna við höftin sem sett voru fyrir sex árum og hafa þau frekar verið hert síðan í stað þess að aflétta þeim eins og sagt var að ætti að gera 10 til 24 mánuðum eftir setningu þeirra.
Jónas H. Haralz lagði sitt af mörkum til að losna við höftin sem sett voru á fjórða áratugnum og voru hér við lýði í rúm 60 ár. Hann var eindreginn talsmaður þess að Íslendingar gerðust þátttakendur í alþjóðlegu samstarfi um efnahags- og viðskiptamál. Hann studdi aðild að OECD, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, EFTA og EES auk þess að mæla með aðild að ESB eins og hann gerði eftir bankahrunið 2008. Taldi hann þá nauðsynlegt að taka upp evru.
Þriðjudagur 07. 10. 14
Í dag var efnt til samkomu í Borgarskjalasafninu í tilefni af 60 ára afmæli þess. Sex ár eru nú liðin frá því að við systkinin ákváðum að afhenda safninu skjöl föður okkar og í Morgunblaðinu í dag segir Svanhildur Bogadóttir borgarskjalavörður að 30 þúsund þeirra hafi verið skráð á vefsíðu safnsins eins og má sjá hér.
Í safninu voru í dag til sýnis skjöl sem það hefur nýlega fengið frá aðstandendum Björns Þórðarsonar sem var forsætisráðherra í utanþingsstjórninni 1942 til 1944. Hann er þriðji forsætisráðherrann sem tengist Borgarskjalasafninu vegna þess að safnið hýsir einkaskjalasafn hans. Hinir tveir eru Ólafur Thors og Bjarni Benediktsson.
Björn Þórðarson er hinn eini þessara þriggja sem hélt dagbók þegar hann var ráðherra. Vitnað var til dagbókar hans í Morgunblaðinu um helgina og sagði þar frá því að hann hefði séð föður minn gretta sig (!) í þingsalnum í desember 1942 þegar Björn kynnti sig og stjórn sína fyrir þingheimi.
Þessi lýsing á reiðilegum viðbrögðum föður míns falla að þeirri skoðun sem ég heyrði hann oft lýsa, að það hefði verið vansæmd fyrir stjórnmálamenn að koma sér ekki saman um myndun ríkisstjórnar og verða að una því að utanþingsstjórn sæti þegar Ísland varð sjálfstætt lýðveldi.
Orðalagið í dagbók Björns Þórðarsonar bendir til þess að hann hafi einnig verið reiður þegar hann trúði henni fyrir þessari skoðun sinni. Þetta voru miklir spennutímar í stjórnmálum. Heimsstyrjöld háð og tekist á um rétt Íslendinga til að segja skilið við Dani.
Gögnin í söfnum forsætisráðherranna þriggja í Borgarskjalasafninu gefa sagnfræðingum nýtt og áður óþekkt tækifæri til að rýna í atburðina sem tengdust stofnun lýðveldisins nú 70 árum síðar. Raunar er merkilegt að þessi saga hafi ekki enn verið skráð.
Mánudagur 06. 10. 14
Fyrir nokkrum vikum ræddi ég við Brynjar Níelsson alþingismann í þætti mínum á ÍNN. Ég spurði hann meðal annars um störf undirnefndar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins sem fjallar um erindi sem Víglundur Þorsteinsson lögfræðingur sendi nefndinni með ósk um athugun á stjórnarháttum í tíð Steingríms J. Sigfússonar sem fjármálaráðherra og samskiptum við kröfuhafa bankanna eftir hrun þeirra fyrir réttum sex árum.
Brynjar sagðist stefna að því að skila stjórnskipunar- og eftirlitsnefndinni skýrslu fyrir lok september. Engar fréttir hafa birst um það en nú þegar þing kemur saman að nýju að lokinni kjördæmaviku heyrist ef til vill eitthvað um málið.
Hér er um stórmál að ræða. Svo virðist sem skömmu eftir að Steingrímur J. varð fjármálaráðherra hafi hann lagt á ráðin um að farið yrði á svig við neyðarlögin sem sett voru fyrir sex árum til að vernda almenning gegn skuldbindingum vegna falls bankanna.
Þegar atburðanna í byrjun október 2008 er minnst skiptir mestu að beina athygli að viðbrögðum við hættunni þegar hún varð. Neyðarlögin eru augljóst dæmi um rétta ákvörðun og einnig samþykkt laganna um sérstakan saksóknara. Þessir gjörningar hafa reynst happadrjúgir.
Óhjákvæmilegt var að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og setja gjaldeyrishöft. Afskipti sjóðsins hafa ekki alltaf reynst heilladrjúg. Gjaldeyrishöftin áttu að vera í 10 mánuði en eru enn í gildi og enginn veit enn hvernig á að losna við þau.
Í nýjasta hefti Þjóðmála skrifa ég umsögn um bókina Hamskiptin eftir Inga Frey Vilhjálmsson, blaðamann á DV, og vek máls á þeirri miklu brotalöm í bók hans að hann minnist ekki einu orði á EES-samninginn og gildistöku hans árið 1994 þegar hann lýsir stefnubreytingunni við lagasetningu frá árinu 1995. Að blaðamaðurinn skuli líta framhjá áhrifum EES-samningsins gerir bók hans næsta marklitla.
Sunnudagur 05. 10. 14
Ríkisútvarpið stendur ekki undir eigin yfirbyggingu, það hefur einfaldlega reist sér hurðarás um öxl.
Vera Illugadóttir tilkynnti hlustendum Leðurblökunnar í dag að þáttur hennar yrði ekki lengur á dagskrá rásar 1. Enn ein hreinsunin í anda aðfararinnar að síðasta lagi fyrir fréttir hefur verið kynnt í ríkisútvarpinu. Leðurblakan víkur líklega fyrir þættinum sem dagskrárstjórinn lofaði þegar hann sat undir gagnrýni fyrir aðförina að morgunbæninni og orði kvöldsins. Helst má skilja að í boði verði afhelgaður þáttur um heimspeki og trúarbrögð.
Nú hefur rás 2 verið töluð niður sem verðlaus. Hún sé lítið annað en einn maður og nokkrir hljómdiskar. Sérkenni hennar við sölu auglýsinga hafa verið afmáð með flutningi leikinna auglýsinga á undan öllum fréttum ríkisútvarpsins. Þá hafa morgunþættir rásanna tveggja verið sameinaðir. Allt bendir til að rás 2 verði einfaldlega felld inn í rás 1.
Þátturinn Orð af orði er enn fluttur á rás 1 síðdegis á sunnudögum. Hann snýst um íslenskt mál. Í dag tóku stjórnendur þáttarins sér fyrir hendur að kenna Elliða Vignissyni, bæjarstjóra í Vestmannaeyjum, mannasiði vegna orðalags í netpistli hans til varnar Sjálfstæðisflokknum. Hann hefði vegið þar of nærri tilfinningum fólks og ætti að sýna syrgjendum meiri nærgætni.
Miðað við greiningu þáttarstjórnanda sem íslenskufræðings væri forvitnilegt ef stjórnmálafræðingur eða fjölmiðlafræðingur tæki að sér að greina efnistökin til að upplýsa hlustendur um hvort þau hafi verið innan þeirra marka sem eðlileg séu miðað við umgjörð og tilgang þáttar um íslenskt mál.
Segja má að það hefði staðið stjórnanda þessa þáttar nær að fjalla til dæmis um þá orðnotkun í fréttum ríkisútvarpsins að tala um viðræðuslit við ESB í fréttum laugardaginn 4. október en ekki afturköllun aðildarumsóknar. Viðræðum milli fulltrúa ESB hefur þegar verið slitið. Hér má lesa um þennan fréttaflutning.
Laugardagur 04. 10. 14
Nú er hér á landi dr. Yang, Jwing-Ming qi gong meistari og heldur tveggja daga námskeið og kennir undirstöðuatriði í Tajstjí qi gong. Þetta er í annað skipti sem dr. Yang kemur til landsins og efnir til námskeiðs en hann er nú á leið til fimm Evrópulanda. Fyrir skömmu ræddi ég við Þóru Halldórsdóttur um qi gong og dr. Yang í þætti mínum á ÍNN og má sjá hann hér.
Þetta er fjórða námskeiðið sem ég sæki hjá dr. Yang. Æfingarnar sem hann kennir nú sameina vel hugleiðslu og qi gong enda er tajstjí annað kínverskt orð yfir taó, tómið eða veginn. Hugurinn er tækið sem við notum til að fara þennan veg og qi gong kerfið sem beitt er til að njóta ferðarinnar sem best.
Föstudagur 03. 10. 14
Ég hef hér í tvo daga sagt frá viðskiptum mínum við Póstinn. Allt er þegar þrennt er. Forstöðumaður þjónustumála hjá Póstinum sendi mér tölvubréf í morgun og ég sendi gögn málsins til skoðunar hjá honum. Málið er leyst á farsælan hátt án frekari eftirmála.
Vissulega eru ekki allir sem halda úti síðum sem þessari þar sem þeir geta lýst reynslu sinni þegar þeir verða undrandi yfir viðskiptaháttum. Hvað sem því líður eru margar leiðir til að koma sjónarmiðum á framfæri. Sagan af konunni sem lenti í því að talningarvél Arion-banka gleypti næstum allan sjóð hennar er sláandi dæmi um atvik sem dregur að sér mikla athygli. Af hálfu bankans hefur nú verið gripið til ráðstafana sem eiga að útiloka svipuð tilvik í framtíðinni.
Nokkrar umræður eru áfram um ríkisútvarpið og fjárhagsvandræði þess. Vigdís Hauksdóttir og Karl Garðarsson, þingmenn Framsóknarflokksins, hafa nefnt þá leið til að lækka skuldir ríkisútvarpsins að selja rás 2. Viðbrögðin láta ekki á sér standa.
Egill Helgason, álitsgjafi og starfsmaður ríkisútvarpsins, segir á vefsíðu sinni fimmtudaginn 2. október:
„Nú kemur fram sú hugmynd að selja Rás 2 til að afla fjár.
Maður spyr hvað eigi að selja? Óla Palla? Geisladiska? Nokkrar tölvur sem innihalda tónlist? Einhvern tækjabúnað? Svosem eitt stúdíó? Nafnið? Það er satt að segja ekki eftir miklu að slægjast og arðurinn af útvarpsrekstri er ekki mikill. En Rás 2 hefur haft það menningarhlutverk að sinna nýrri tónlist, ekki síst þeirri íslensku – ég held varla að einkaaðilar séu að keppast um að komast í það.“
Við erum sem sagt upplýst um að annaðhvort verði rás 2 ekki metin til fjár eða hún sé í raun einskis virði. Óli Palli sem Egill nefnir svo stendur að sjálfsögðu vörð um rásina og upplýsir gjörsamlega miður sín að hann hafi kosið Framsóknarflokkinn í síðustu kosningum! Varla er það þess vegna sem Egill gefur til kynna að rás 2 sé í raun einskis virði vilji menn nota andvirði hennar til að létta skuldum af ríkisútvarpinu.
Stærsta skrefið sem stigið hefur verið til að lækka risið á rás 2 er ekki hugmyndin um að selja hana heldur hitt að fella hana og sérkenni hennar sem auglýsingastöðvar inn í rás 1, hlustendum þeirrar rásar til mikils ama.
Fimmtudagur 02. 10. 14
Frétt um að hlutafélag í eigu ríkisins geti ekki staðið í skilum er nýmæli. Hún barst þó í dag af því að miðvikudaginn 1. október hafði ríkisútvarpið ekki bolmagn til að greiða 190 milljón króna afborgun af skuldabréfi í eigu Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins vegna lífeyrissjóðsskuldbindinga stofnunarinnar. Samkomulag hefur náðst við eiganda skuldabréfsins um frest á greiðslu gjalddaga til áramóta. Lengi hefur legið fyrir að ríkisútvarpið aflaði ekki nægilegs fjár til að standa undir greiðslum afborgana og vaxtagreiðslna. Fyrirtækinu ber að minnka skuldir og auka veltufé til að tryggja að það sé rekstrarhæft að mati sérfróðra.
Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri sagði í tilkynningu vegna greiðslufallsins:
„Það er ljóst að við erum ekki að enn laus við þann fortíðarvanda sem RÚV [ríkisútvarpið] hefur lengi glímt við. Sjálfstæð fjárhagsleg úttekt staðfestir að skuldsetning RÚV er of mikil og það eru vonbrigði að sjá að rekstur RÚV var ekki kominn í jafnvægi eftir niðurskurðaraðgerðir fyrri framkvæmdastjórnar.“
Útvarpsstjóri vonar að „menn vinni sameiginlega“ að því að „skapa viðundandi aðstæður fyrir“ stofnunina svo að hún geti sinnt lögbundnum verkefnum og því sem þjóðin væntir af henni. „Ríkisútvarpið er ein mikilvægasta lýðræðis- og menningarstofnun þjóðarinnar og við viljum tryggja að það standi undir nafni sem útvarp allra landsmanna,“ segir útvarpsstjóri sem undanfarið hefur staðið í brúnni á hinni hripleku skútu með áhöfn sem ögrar þeim sem nú eru kallaðir til bjargar – meira að segja hollvinafélagi ríkisútvarpsins er nóg boðið.
Það er næsta sérkennilegt að stjórnendur ríkisútvarpsins vísa helst til lagalegra skuldbindinga þegar þeir rökstyðja óskir sínar um auknar fjárveitingar. Þegar þeir sem hlusta og borga benda á lagaskyldur ríkisútvarpsins er annað hljóð í strokknum. Þá er gjarnan látið eins og um ögrun eða óvináttu í garð stofnunarinnar sé að ræða.
Í gær var sagt frá aðferð Póstsins til að innheimta ofurgjald af þeim sem verða fyrir því að gleymist að setja frímerki á bréf til þeirra.
Í dag er á Evrópuvaktinni sagt frá hvernig ISAVIA stendur að vali á fyrirtækjum til starfa í flugstöð Leifs Eiríkssonar auk þess sem Fríhöfnin er blóðmjólkuð.
Ríkisútvarpið, Pósturinn og ISAVIA eru hlutafélög í eigu ríkisins. Eitthvað er brenglað í viðmóti þeirra allra.
Miðvikudagur 01. 10. 14
Í dag ræddi ég við Ólaf H. Johnson, skólastjóra og stofnanda Hraðbrautar, í þætti mínum á ÍNN. Að stofna Hraðbraut, tveggja ára nám til stúdentsprófs, var merkilegt framtak á sínum tíma. Vinstrimenn, andstæðir einkarekstri skóla, höfðu alltaf horn í síðu skólans og í tíð Katrínar Jakobsdóttur sem menntamálaráðherra var látið til skarar skríða gegn skólanum og Ólafi á dapurlegan hátt. Hann hefur nú kært Katrínu vegna leka úr ráðuneytinu til DV . Lögregla rannsakar málið. Samtal okkar Ólafs verður fyrst sýnt kl. 20.00 í kvöld og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.
Nú er ÍNN-samtal mitt við Anítu Margréti Aradóttur frá fyrri viku komið inn á netið og má sjá það hér. Hin 1.000 km kappreið hennar um sléttur Mongólíu var mikil þrekraun eins og hún lýsir í samtali okkar.
Í gær fór ég í pósthús. Ég hafði fengið spjald inn um lúguna um að ég ætti þar sendingu. Það reyndist rétt, hvítt millistórt umslag beið mín. Á það hafði verið límdur áberandi gulur miði með rauðri áletrun: Burðargjald á að greiðast af viðtakanda.
Afgreiðslustúlkan lagði umslagið á vigt og sagði: Burðargjaldið undir þetta bréf er 185 kr. – þú sérð að þetta hefði verið borið út til þín, það kemst í gegnum bréfalúgu.
Ég játti því og bjó mig undir að greiða upphæðina með stöðumælakrónum en þá sagði stúlkan: Nei, þú verður að greiða meira. Úr því að burðargjaldið lendir á þér sem viðtakanda þarftu að greiða fyrir þetta sem pakka, enda kemur þú hingað til að sækja sendinguna – þetta kostar þig 1.196 kr.
Ég innti greiðsluna undrandi af hendi. Síðan minntist ég þess að Pósturinn hefði kvartað undan minnkandi tekjum og taldi víst að sá sem sendi mér bréfið hefði gert það á þennan hátt í því skyni að bæta fjárhag Póstsins.
Sendandinn sagði mér hins vegar í tölvubréfi að hann hefði bara gleymt að setja frímerki á umslagið og baðst innilega afsökunar á athugunarleysi sínu, hann myndi greiða útlagðan kostnað minn. Ég þakkaði honum hugulsemina en styrkurinn til Póstsins kæmi frá mér enda hefði ég verið kallaður á vettvang til að inna hann af hendi.