Föstudagur 31. 10. 14
Sat í dag nokkra fundi á ráðstefnunni Arctic Circle – Hringborð norðursins – í Hörpu meðal annars til að sjá hvernig húsið er notað til ráðstefnuhalds og auðvitað til að fræðast af ræðumönnum. Skrifaði ég um sumt af því á Evrópuvaktina eins og sjá má hér og hér.
Þetta er mjög viðamikil ráðstefna og hefur kostað mikla yfirlegu að ná öllum þráðum saman og síðan skipuleggja fundina með tilliti til tíma og húsnæðis. Salurinn í Silfurbergi er vel tækjum búinn og sviðið rúmar ræðumenn og stjórnanda umræðna vel. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sat á fremsta bekk og hlaut lof ræðumanna fyrir framtak sitt að baki ráðstefnunni. Eitt sinn þegar ræðumaður kvartaði undan að myndirnar sem hann var með birtust ekki á skjánum stóð forsetinn upp og hnippti í tæknimanninn.
Það var eins gott að myndirnar birtust því að erindið snerist um notkun gervitungla við töku ljósmynda og hefur sú tækni þróast mjög á undanförnum árum. Undrun vekur hve tunglin eru lítil sem notuð eru.
Eins og áður sagði er þetta fyrsta ráðstefnan sem ég sæki í Hörpu enda hefur áhugi minn á þátttöku í slíkum mannamótum minnkað ár frá ári. Líklega hef ég setið of margar ráðstefnur á starfsferli mínum.
Ég rifjaði einmitt upp í huganum í dag að nú um þessar mundir eru 25 ár liðin frá því að Berlínarmúrinn hrundi en á tíma kalda stríðsins sat ég ófáa alþjóðafundina með helstu sérfræðingum Vesturlanda í málefnum Sovétríkjanna og varnar- og öryggismálum. Að einhver þeirra segði fyrir um hrun Sovétríkjanna er af og frá. Skömmu fyrir hrun múrsins sat ég meira að segja ráðstefnu þar sem menn töldu ekki óhugsandi að austur-þýsk stjórnvöld myndu festa sig í sessi.
Vissulega var erfitt að ráða í það sem gerðist á bakvið tjöldin í einræðisríkjum kommúnista. Spurning er hvort nokkuð auðveldara er að geta sér til um hvernig ís og veðurfar þróast á Norður-Íshafi. Á þeim fundum sem ég sat í Hörpu í dag voru menn frekar að leita að svörum en slá einhverju föstu. Áhuginn á að setjast að hringborði norðursins hér sýnir einmitt að margir telja að eitthvað spennandi kunni að finnast við leitina.
Ég var undrandi þegar ég heyrði þingmann Íhaldsflokksins sem á sæti í varnarmálanefnd breska þingsins segja að hann teldi lausn öryggismála á Norður-Íshafi felast í friðlýsingu þess – ætli fréttir af hervæðingu Rússa í íshafinu hafi ekki borist til Westminster? Skyldi talið um kjarnorkuvopnalaus svæði nú hefjast að nýju?