Dagbók: mars 2010
Miðvikudagur, 31. 03. 10.
Þegar við vorum í Róm í febrúar voru auglýsingar vegna héraðskosninganna víða. Í Rómarhéraði, Lazio, sáust til dæmis víða risastórarmyndir af Emmu Bonino, sem bauð sig þar fram til héraðsstjóra gegn frambjóðanda Slivios Berlusconis, forsætisráðherra. Emma Bonino hefur gegnt ráðherraembættum á Ítalíu og auk þess setið í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Henni tókst ekki að halda héraðsstjórn Lazio í höndum vinstri manna í kosningunum um síðustu helgi.
Úrslitin eru sigur flokks Berlusconis og samstarfsflokks hans, Norðurbandalagsins, sem sýndi mikinn styrk. Norðurbandalagið jók fylgi sitt úr 8% Í síðustu þingkosningum í 13% og náði undirtökunum í tveimur norðurhéruðum landsins. Umberto Bossi, foringi Norðurbandalagsins, segist ætla að berjast fyrir auknu fjárhagslegu sjálfstæði þessara héraða, Piedmont og Veneto.
Í þeim 13 héruðum, þar sem kosið var, vann flokkur Berlusconis í sex, bætti við sig fjórum á kostnað vinstri flokkanna. Tveimur vikum fyrir kjördag höfðu kannanir sýnt, að vinstri menn gætu vænst góðs sigurs. Í stað þess sitja þeir eftir með sárt enni.
Athygli vekur, að Berlusconi kemur mun sterkari frá héraðskosningum en Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseti. Flokkur hans fékk illa útreið í héraðskosningum í Frakklandi fyrir 10 dögum.
Talið er, að sigurinn verði til að herða baráttu Berlusconis gegn dómurum og saksóknurum, sem hafa í 16 ár leitast við að koma lögum yfir hann vegna meintra afbrota. Almenningur á Ítalíu þykir styðja þá skoðun Berlusconis, að réttarkerfinu sé beitt gegn honum af pólitískum andstæðingum hans.
Þriðjudagur, 30. 03. 10.
Skrifaði pistil hér á síðuna, þar sem ég túlka ræðu Jóhönnu Sigurðardóttur á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar á þann veg, að ríkisstjórnin sé komin að fótum fram og eigi að segja af sér.
Ég tók eftir því að mbl.is birti frétt um pistilinn. Þar geta bloggarar gert athugasemdir. Upphrópanir og skítkast í minn garð er þess eðlis, að ég fagna því enn og aftur að hafa aldrei hleypt slíku efni inn á síðu mína. Skyldi fólk trúa því, að það sé málstað þess til framdráttar að öskra og æpa að þeim, sem það er ósammála?
Við gerð fjárlaga 2009 ákvað ríkisstjórn og alþingi að skera niður tillögu mína um fjárveitingar til nýs fangelsis. Ég sé ekki betur en nú sé verið að dusta rykið af þeim tillögum og ætlunin sá að afla fjár til að hrinda þeim í framkvæmd. Vonandi tekst það.
Mánudagur, 29. 03. 10.
Ráðherrar frá fimm ríkjum, sem eiga land að Norður-Íshafi, Bandaríkjunum, Kanada, Danmörku (f.h. Grænlands), Noregi og Rússlandi hittust á þriggja tíma fundi í Ottawa í dag til að ræða málefni norðurskautsins. Reuters-fréttastofan sagði frá fundinum með þessari fyrirsögn
Clinton rebuke overshadows Canada's Arctic meeting
Lesa meira
Sunnudagur, 28. 03. 10.
Ein af ánum mínum bar tveimur lömbum í dag. Hún kom ekki af fjalli í leitunum en fannst nokkru eftir áramót og fór í hús hjá nágranna mínum. Í morgun, pálmasunnudag, komu tvö lítil lömb í heiminn. Ærin er ljónstygg, því að hún hefur varla komið í hús áður. Ég keypti hana í Fljótsdal, innsta bænum í Fljótshlíðinni, sem hefur verið í fréttum í tengslum við gosið. Hefur hún kunnað best við sig í fjalllendinu þar í nágrenninu síðan.
Umferðin var mikil bæði að austan og austur í dag. Stöðugur straumur bíla var eftir Fljótshlíðarveginum en þeir, sem halda upp á Fimmvörðuháls aka hins vegar austur með Eyjafjöllum að Skógum.
Laugardagur, 27. 03. 10.
Veður var frekar kalt í Fljótshlíðinni vegna norðanáttar í í 2ja stiga frosti og bjartviðri. Umferðin var mikil um hlíðarveginn, jókst hún eftir því sem á daginn leið. Í ljósaskiptunum sáust ljós uppi á Mýrdalsjökli í austri og þar virtist stöðugur straumur snjósleða fyrir austan gosstöðvarnar á Fimmvörðuhálsi.
Þyrlur og flugvélar eru á sveimi. Þyrla landhelgisgæslunnar flaug lágt í austurátt fyrir stundu, þegar hún sneri aftur, lenti hún í skamma stund á túninu fyrir vestan Hellishóla.
Nágrannar mínir í Fljótshlíðinni fyrir neðan veg voru vaktir með símhringingu og sms-boðum laugardagskvöldið fyrir viku, þegar gosið hófst. Þar sem ég er í hlíðinni fyrir ofan veg, var ekki haft samband við mig, enda ekki hætta á flóði hér. Öllum þótti sjálfsagt að fara að fyrirmælum viðbragðsaðila og láta skrá sig í miðstöðvum þeirra. Eftir á að hyggja velta þeir fyrir sér, hvort nauðsynlegt hafi verið að loka vegum í Fljótshlíðina og banna þeim að snúa til síns heima fyrr en morguninn eftir.
Strax og viðvörunin barst, taldi fólkið, að með því að kveikja á RÚV fengi það upplýsingar um, hvað væri að gerast. Svo var ekki, engar fréttir voru á RÚV, fyrr en nokkru síðar. Jók þögn RÚV á óvissu og ef til vill ótta hjá sumum.
Föstudagur, 26. 03. 10
Hér er hægt að sjá nýjasta þátt minn á ÍNN, viðtal við Ragnar Árnason, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands.
Ók inn eftir Fljótshlíðinni (fram eftir segðu menn í Skagafirði) síðdegis í dag. Ég fór ekki yfir á Einhyrningsflatir, sneri við, áður en kom að vöðunum þangað. Í sjálfu sér sást ekki mikið af gosinu, þótt auðvitað væri það nær en utar í hlíðinni. Umferðin var töluverð og hún jókst, þegar dimmdi. Í allt kvöld hefur verið stöðugur straumur bíla inn og út hlíðina.
Eldurinn blasir við úr eldhúsglugganum hjá mér. Hann minnir á teikningar úr bókum frá fyrri öldum og sannar, að þeir, sem þær gerðu, urðu vitni að slíkum náttúruhamförum. Klukkan 22.30 les ég á mbl.is:
„Gríðarlega mikil umferð er nú um Fljótshlíðina og raunar Suðurlandsveginn allt frá Reykjavík. Hjón sem voru á leið inn Fljótshlíð í kvöld mættu 300 bílum á leið út úr Fljótshlíðinni, að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli. Til stóð að loka veginum við Fljótsdal í austur nú á 11. tímanum í kvöld.“
Fljótsdalur er innsti bærinn í Fljótshlíðinni. Þaðan aka menn yfir óbrúaðar ár í austur. Þegar ég var þarna á ferð í dag, var mér einmitt á orði við ferðafélaga mína, að ég vildi ekki aka á þessum þröngu vegum í náttmyrkri.
Fimmtudagur, 25. 03. 10.
Ók austan úr Fljótshlíð í veðurblíðu. Töluverð umferð var inn hlíðina, enda áhugi á því að skoða gosið mikill og lögregla hefur opnað leiðir.
Klukkan 17.00 var ég á útvarpi Sögu og tók þar þátt í umræðum um Evrópumál í þætti, sem þeir Egill Jóhannsson og Andrés Jónsson stjórna. Þarna var einnig Ólafur Arnarson, hagfræðingur. Við Egill erum andvígir aðild Íslands að Evrópusambandinu (ESB) en þeir Andrés og Ólafur telja, að það eigi að láta á það reyna, hvort unnt sé að ná svo hagstæðum samningi við sambandið, að þeir myndu samþykkja hann í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Mér þykir einsýnt, að skynsamlegast sé fyrir ríkisstjórn Jóhönnu að kalla ESB-umsókn sína til baka, áður en hún skaðar álit lands og þjóðar meira en orðið er. Málsvarar aðildar virðast enn halda í það sjónarmið, að okkur sé hún nauðsynleg til að geta losnað við krónuna og fengið skjól undir handarjaðri Seðlabanka Evrópu.
Ég minnti á, að fyrir bankahrunið hefðu einkum fjármálajöfrar krafist nýrrar myntar, hin íslenska væri of lítil fyrir þá. Nú væru áhrif þeirra engin og þörfin fyrir nýja mynt jafnframt horfin með þeim rökum, sem þeir beittu. Fjármálakerfið hefði hrunið. Nú ættum við allt undir útflutningi. Að láta eins og ekkert hefði í skorist og halda áfram að tala illa um krónuna, eins og áður hefði verið gert, væri fráleitt.
Miðvikudagur, 24. 03. 10.
Í kvöld var sjónvarpað viðtali mínu við Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, á ÍNN . Ragnar er afdráttarlaus í skoðunum og telur ríkisstjórnina ekki fara rétta leið við stjórn efnahagsmála. Hann áréttaði skoðanir, sem birtast í grein hans í nýjasta hefti Þjóðmála.
Ók austur í Fljótshlíð í fögru veðri. Bólstrar austan við Eyjafjallajökul voru til marks um gosið á Fimmvörðuhálsi. Meiri umferð var á Fljótshlíðarveginum en venjulega og mikið um að vera á Hvolsvelli.
Klukkan 20.00 vorum við Bjarni Harðarson, bóksali, í Víkurskála í Vík í Mýrdal, þar sem Heimssýn boðaði til fundar um Evrópumál. Umræður voru góðar og málefnalegar í um tvær klukkustundir.
Á leiðinni úr Vík brann rauður loginn fyrir ofan Skóga og var það tignarleg mynd af gosinu, sem blasti við á Sólheimasandi. Annað sjónarhorn var, þegar ekið var austur Fljótshlíð frá Hvolsvelli. Þá sáust einnig hraunspýjur þeytast í loft upp. Er mun glæsilegra að sjá gosið í náttmyrkri en dagsbirtu.
Við heimkomu sá ég endursýningu á Kastljósi, þar sem rætt var um rýmingu hjá nágranna mínum á Hellishólum aðfaranótt sunnudags, þegar gosið hófst. Fjölmenni er oft mikið á Hellishólum um helgar, einkum á sumrin, þar eru tugir ef ekki hundruð húsbíla auk annarrar aðstöðu til gistingar. Að þessu sinni þurfti að rýma staðinn á laugardagskvöldi, þegar margir voru á barnum. Umræðurnar í Katljósinu snerust um, að drukkinn maður hafði ekið af stað og endað ferð sína á brúarstólpa á Kvoslækjaránni. Spurningarnar lutu að því, að í viðbragðsáætlun vegna rýmingar hefði ekki verið tekið nægilegt tillit til ástands þeirra, sem ekki voru ökufærir. Fram kom, að ráðstafanir hefðu þó verið gerðar vegna þeirra, en boð um það ekki borist. Eftir atvikið hefði verið farið yfir öll atriði í þessu efni og hér eftir ættu viðbrögð að vera markvissari. Af efnistökum í Kastljósinu mátti ráða, að af þess hálfu hefði verið leitað að einhverju gagnrýnisverðu við störf björgunarsveita og lögreglu vegna rýmingar og þetta atvik hafi komið upp í hendur stjórnenda þess. Ég velti fyrir mér, hvort málið stæði undir umfjölluninni.
Þriðjudagur, 23. 03. 10.
Að deila um veiðar á skötusel skuli leiða til þess, að Samtök atvinnulífsins (SA) fái nóg af samstarfi við ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur undir merkjum stöðugleikasáttmálans svonefnda, sýnir betur en flest annað, hve mjög ríkisstjórnin er heillum horfin.
Jóhanna hreytir ónotum í SA og segir ríkisstjórnina geta farið sínu fram, þrátt fyrir mótmæli úr þeirri átt. Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, segir, að ríkisstjórnin hafi brotið gegn því, sem segir í sáttmálanum með skötuselslögunum. Jóhanna segist ekki sjá neitt minnst á skötusel í stöðugleikasáttmálanum.
Steingrímur J. lét í hádeginu, eins og sér tækist að leiða menn saman að nýju með samtölum. Ekkert virðist að marka þau orð frekar en svo margt annað, sem Steingrímur J. lætur flakka í fjölmiðlum, án þess að fylgst sé með því, hvort hann standi við orð sín.
Meirihluti lögbundinnar nefndar, sem er kjörin af alþingi, hefur samþykkt að Magma Energy geti eignast hluta í HS Orku. Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, segist bundinn af ákvörðun nefndarinnar. Hann hefur tilkynnt Magma Energy, að kaupin séu heimil.
Unnur G. Kristjánsdóttir, samfylkingarkona af Suðurnesjum, formaður nefndarinnar, sendi frá sér yfirlýsingu í kvöld og segir, að ráðherra sé bundinn af áliti nefndar um erlenda fjárfestingu ef nefndin hafni fjárfestingunni. Ekki komi sérstaklega fram í lögunum hvort það sama eigi við þegar nefndin samþykki fjárfestinguna.
Silja Bára Ómarsdóttir, háskólakennari, situr í nefndinni fyrir vinstri-græna og var í minnihluta. Ætla vinstri-grænir að láta hér við sitja? Verður þetta að enn einu ágreiningsefni stjórnarsinna?
Athyglisvert er, að í þessari rimmu stjórnarflokkanna tekur fréttastofa RÚV afstöðu með vinstri-grænum, eins og sést af þessu orðalagi á vefsíðunni ruv.is: „Í tuttugu ár hefur verið til þingskipuð nefnd sem á að meta hvort lögunum er fylgt. Henni var falið að meta Magma Energy gæti sniðgengið vilja löggjafans og skotið sér bakdyrameginn inn í orkugeirann með því að stofna skúffufyrirtæki í Svíþjóð. “ (Feitletrun Bj. Bj.)
Mánudagur, 22. 03. 10.
1. júlí 2003 sendi dóms- og kirkjumálaráðuneytið frá sér fréttatilkynningu, þar sem sagði:
„Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun tillögu Björns Bjarnasonar dóms- og kirkjumálaráðherra um að láta fara fram hættumat og áhættugreiningu vegna eldgosa og meðfylgjandi jökulhlaupa í Mýrdalsjökli og Eyjafjallajökli.
Ástæða þessarar samþykktar er að eins og kunnugt er hefur borið talsvert á skjálftavirkni í vestanverðum Mýrdalsjökli og talið er að komið hafi endurtekin kvikuinnskot undir Eyjafjallajökul á síðustu árum. Með þessu hefur verið fylgst af hálfu almannavarnayfirvalda og viðbragðsáætlanir hafa verið gerðar, en þær fyrst og fremst miðast við hugsanleg jökulhlaup til suðurs frá Mýrdalsjökli. Nýlega hafa komið fram við jarðlagakönnun upplýsingar um að stór hlaup hafi komið í Markarfljót vegna eldgosa í vestanverðum Mýrdalsjökli, sem orðið hafa á 1000 – 2000 ára fresti frá lokum síðustu ísaldar.“
Að baki þessari samþykkt bjó „Áætlun um hættumat og áhættugreiningu vegna eldgosa og hlaupa til norðurs, vesturs og suðurs frá Eyjafjallajökli og vesturhluta Mýrdalsjökuls“, sem lesa má hér og samin var af Ágústi Gunnari Gylfasyni, Jónasi Elíassyni, Kjartani Þorkelssyni og Magnúsi Tuma Guðmundssyni fyrir Almannavarnaráð.
Eftir samþykkt ríkisstjórnarinnar var hafist handa um gerð hættumatsins og áhættugreiningarinnar í samræmi við þessa áætlun. Næsta skref var síðan gerð viðbragðsáætlana og síðan æfingar samkvæmt þeim, mest þeirra var Bergrisinn 26. mars 2006.
Þótt gosið á Fimmvörðuhálsi hafi ekki sést á skjálftamælum, þegar það varð, kom það engum þeirra, sem tekið hafa þátt í hinu mikla rannsókna- og almannavarnastarfi síðan 2003 á óvart.
Sunnudagur, 21. 03. 10.
Í morgunfréttum RÚV heyrði ég, að eldgos hefði orðið á Fimmvörðuhálsi fyrir austan Eyjafjallajökul skömmu fyrir miðnætti og 500 til 600 íbúar í nágrenninu hefðu verið fluttir á brott af ótta við flóð. Reyndist lán í óláni, að gosið varð ekki undir jökli og þess vegna flæddi ekki. Magnús Tumi Guðmundsson, jarðfræðingur, segir gosið hvorki öflugt né mikið. Páll Einarsson, jarðeðlilsfræðingur, segir gos á þessum slóðum geta verið kveikju að Kötlugosi.
Ég talaði við nágranna mína í Fljótshlíðinni í síma. Þeir höfðu verið ræstir út og farið á Hvolsvöll til að skrá sig en snúið fljótlega heim, enda yrði nokkur aðdragandi, ef flæddi á þeirra slóðum. Þeir höfðu ekki orðið varir fyrir öskufall.
Almannavarnakerfið virkar vel. Skipulagsbreytingar á því undanfarin ár skila árangri undir forystu vel þjálfaðra og agaðra stjórnenda. Sumarið 2003 samþykkti ríkisstjórnin tillögu mína um að farið yrði að óskum almannavarndanefndar undir forystu Kjartans Þorkelssonar, sýslumanns á Hvolsvelli, um áhættumat vegna hugsanlegs eldgoss í Eyjafjallajökli og/eða vestanverðum Mýrdalsjökli. Í framhaldi af matinu var síðan samþykkt að gera viðbragðsáætlanir og hafa þær verið æfðar. Virkaði kerfið allt snurðulaust sl. nótt. Þá reyndist SIF, flugvél Landhelgisgæslu Íslands, einnig einstaklega vel, en tæki hennar til hvers kyns mælinga og myndatöku úr lofti eru hin fullkomnustu.
Hér á bjorn.is má sjá með því að slá inn leitarorðið almannavarnir, hve mikið og oft ég hef rætt nauðsyn þess að standa vel að þessum málaflokki. Traustir innviðir á þessu sviði skipta sköpum, þegar mest á reynir. Við hættuástand er eðlilegt að ganga lengra en skemur við framkvæmd varúðarráðstafana. Hefði margt farið á annn veg, ef sú varúðarhugsun hefði ráðið för hjá þeim, sem fóru með stjórn í banka- og fjármálaheiminum.
Ef farið er inn á 26. mars 2006 hér á síðunni má lesa um reynslu mína af því að taka þátt í rýmingaræfingu í Fljótshlíðinni.
Laugardagur, 20. 03. 10.
Flaug heim frá Brussel í dag um Kaupmannahöfn. Lagt af stað 09.55 frá Brussel, lent í Keflavík um 15.30. Icelandair ætlar að hefja beint flug til Brussel í júní. Flugstöðvarbyggingin þar er frekar óskemmtileg vegna hinna miklu vegalengda innan hennar.
Í gær lýsti ég þeirri skoðun hér á síðunni, skynsamlegt væri að setja aðildarumsóknina að ESB á ís, enda væri hún augljóslega andvana fædd vegna skorts á pólitískum stuðningi við hana. Evrópusamtökin, heimatrúboð aðildarsinna, taka þessu illa og einnig hinu, að finna eigi málamiðlun í gjaldmiðilsmálum til að skapa víðtæka sátt um samskipti okkar við ESB. Á vefsíðu sinni segja Evrópusamtökin í tilefni af orðum mínum:
„En sem betur fer eru til aðrir flokksmenn innan Sjálfstæðisflokksins sem líta með ,,víðsýnni“ gleraugum. Björn er hinsvegar, það við hér á ES-blogginu leyfum okkur að kalla ,,kalda-stríðs-spekúlant,“ og þeir sjá heiminn gjarnan í svart-hvítu, góðu og slæmu og svo framvegis.“
Nú eru 20 ár liðin frá lyktum kalda stríðsins. ES-bloggarar eru ekki hugmyndaríkari en svo, að þeir vilja gera lítið úr skoðunum mínum með því að kenna mig við viðhorf, sem þá voru uppi. Satt að segja má efast um, að margir skilji hvað felst í því að vera „kalda-stríðs-spekúlant“, að minnsta kosti geri ég það ekki. Þegar ég nefni nauðsyn málamiðlunar í ESB-málum gefa ES-bloggarar til kynna, að ég sjái heiminn í svart-hvítu.
Rétt er að taka fram, að Evrópusamtökin hafa á stefnuskrá sinni að stuðla að málefnalegum umræðum um Evrópumál. Þegar þeirra eigin boðskapur er lesinn, þarf engan að undra, að þau hafi ekki erindi sem erfiði.
Föstudagur, 19. 03. 10.
Viðræður mínar við menn hér í Brussel í dag, hafa enn betur sannfært mig um nauðsyn þess, að tafarlaust sé mótuð ný Evrópustefna af hálfu íslenskra stjórnvalda. Ekki verður lengra haldið á þeirri braut, sem mótuð var fyrir ári. Hún ber það eitt í sér, að þjóðin hafnar aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu, eftir að hundruð milljóna króna hefur verið varið í það, sem réttilega má kalla „bjölluat“ undir forystu Samfylkingarinnar.
Á meðan aðildarbröltið er enn á dagskrá, er látið undir höfuð leggjast að meta stöðu krónunnar af raunsæi, því að enn er sú gulrót notuð af aðildarsinnum, að aðeins með aðild sé unnt að skipta um gjaldmiðli, vilji menn það. Þetta leiðir til þess að krónan heldur lífi til þess eins að deyja, nái stefna ríkisstjórnarinnar fram að ganga. Er þetta æskilegasta staðan fyrir krónuna? Þarf ekki að hugsa málið dýpra og móta skýra stefnu í málefnum krónunnar, án þess að aðild að ESB sé sett sem markmið? Ég er þeirrar skoðunar og hef verið lengi.
Brýnt er, að á vettvangi Sjálfstæðisflokksins komi menn sér saman um stefnu i þessu efni, sem taki mið af því, að meirihluti flokksmanna er andvígur aðild að ESB.
Það er ekki aðeins kostnaður og umrót í stjórnsýslu, sem veldur því, að skynsamlegt er að endurmeta stöðuna gagnvart ESB og stöðva aðildarferlið. Mjög hefur reynt á traust og trúverðugleika íslenskra stjórnvalda vegna bankahrunsins. Ríkisstjórnin varð gerð áhrifalaus í Icesave-málinu í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Starfshættir hennar eru undir smásjá erlendra aðila og þeir sjá sem er, að ríkisstjórnin er klofin í ESB-málinu. Haldi hún áfram á markaðri ESB-braut sinni verður það enn til að minnka traust til íslenska stjórnkerfisins.
Fimmtudagur, 18. 03. 10.
Var í morgun á fundi í NATO hér í Brussel. Ræddi síðdegis við sérfróðan mann um innri málefni Evrópusambandsins. Niðurstaða mín eftir þann fund er, að íslensk stjórnvöld eigi að setja aðildarumsóknina á ís, eins og Svisslendingar gerðu á sínum tíma. Alltaf er unnt að endurvekja málið síðar.
Leiðtogaráð ESB-ríkjanna finnur leiðir til að komast hjá því að taka afstöðu til álits framkvæmdastjórnar ESB, þar til Bretar og Hollendingar telja viðunandi niðurstöðu fengna í Icesave-málum. Nú er sagt, að þýskir þingmenn vilji lengri frest. Næst verður einhver önnur afsökun fyrir frestun.
Stöðvi íslensk stjórnvöld ekki aðildarferlið, malar ESB-aðildarvélin áfram og hún leikur sér að Íslendingum eins og köttur að mús vegna hinnar veiku íslensku samningsstöðu. Hrapallegur misskilningur er, að þjóðir í efnahagsvanda séu í bestri stöðu til að semja um ESB-aðild.
Miðvikudagur, 17. 03. 10.
Átti að leggja af stað kl.08.00 frá Keflavíkurflugvelli með FI 204 til Kaupmannahafnar. Flugvélin var biluð. 90 mínútum síðar var haldið af stað. Staðgengillinn var að að koma úr leiguflugi. Það tók 30 manns 50 mínútur að gera vélina klára til flugtaks.
Við náðum vélinni til Brussel. Ég er þar á Metropole.
Þriðjudagur, 16. 03. 10.
Umræður urðu á alþingi í dag um breytingar á skipulagi lögreglunnar og hvers af henni ætti að krefjast. Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra, ítrekaði þá skoðun, að stækka ætti umdæmin utan höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja og skilja að störf sýslumanna og lögreglustjórn. Þessi áform hafa verið á döfinni síðan sumarið 2008.
Nú er næstum ár liðið, án þess að niðurstaða hafi fengist í kjaraviðræðum ríkisins og lögreglumanna. Þvermóðskan í garð lögreglumanna af hálfu fjármálaráðuneytisins undir stjórn Steingríms J. Sigfússonar verður ekki skýrð á annan hátt en sem óvild af pólitískum rótum. Vinstri-grænir hafa verið með horn í síðu lögreglunnar. Þeir vilja veg hennar sem minnstan. Ekki er unnt að staðfesta það betur en með því að ljúka ekki kjaraviðræðum og stuðla að því að lögregla grípi til þess óyndisúrræðis að minna á sig með því að fjölmenna fyrir framan hjá ríkissáttasemjara eða á palla alþingis. Verða þær aðgerðir lögreglumanna notaðar sem skálkaskjól aðgerðarsinna síðar meir.
Geti ríkissáttasemjari ekki mótað miðlunartillögu í viðræðum ríkisins og lögreglumanna, hlýtur að þurfa að leita til annars þriðja aðila, til dæmis gerðardóms. Núverandi ástand í kjaramálum lögreglumanna er með öllu óviðunandi.
Mánudagur, 15. 03. 10.
Ólafur Þ. Stephensen, ritstjóri Fréttablaðsins, ritar leiðara í blaðið í dag um nauðsyn þess að tryggja lögregluyfirvöldum heimild til forvirkra rannsókna, það er rannsókna, án þess að grunur liggi fyrir um, að afbrot hafi verið framið. Með þessu tekur ritstjórinn undir orð Rögnu Árnadóttur, dómsmálaráðherra, í tilefni af umræðum um mansal og skipulagða glæpastarfsemi.
Við, sem höfum fylgst með skrifum um lögreglumál í Fréttablaðið, sjáum, að með þessum leiðara tekur blaðið u-beygju. Um árabil var ég harðlega gagnrýndur af blaðinu fyrir að leggja áherslu á greiningarstarf og samþættar aðgerðir innan lögreglunnar gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Taldi blaðið áherslu mína í þessu efni til marks um áhugaleysi mitt á þeim lögreglustörfum, sem bæri helst að sinna að mati blaðsins, það er að gæta öryggis í miðborg Reykjavíkur, þegar drykkjulæti væru þar mest um helgar.
Hinn nýi ritstjóri Fréttablaðsins er sannfærður um gildi starfs greiningardeildar lögreglunnar við að upplýsa skipulagða glæpastarfsemi en mansal er ekki unnt að stunda nema sem lið í slíkri starfsemi. Fælingarmáttur byggist á því að samþætta starf fjölmargra aðila á sviði löggæslu, félagsmála og fjármála. Hinn 30. desember 2009 samþykkti alþingi breytingar á almennum hegningarlögum, sem ég lagði upphaflega fram á sínum tíma og fjölga úrræðum gegn skipulagðri glæpastarfsemi.
Án þess að gera lítið úr áhuga á því að uppræta mansal, tel ég mestu skipta að veita lögreglu sem haldbestar almennar heimildir og mest öryggi til að sinna verkefnum sínum við nýjar og hættulegri aðstæður en áður. Í því ljósi ber að líta á óskir um forvirkar rannsóknaheimildir. Til þessa hafa þingmenn vinstri-grænna og Samfylkingar farið í baklás, þegar um slíkar heimildir er rætt. Hið sama gilti um Fréttablaðið, þar til í dag.
Sunnudagur, 14. 03. 10.
Laugardagur 13. 03. 10.
Veðrið var indælt í Skálholti, sól skein í heiði og margir lögðu leið sína á staðinn, enda sýnir könnun, að hann er þriðji mest sótti ferðamannastaður landsins.
Við qi gong fólk nutum hins vegar kyrrðardagsins í þögn við æfingar og fræðslu. Kristinn Ólason, rektor Skálholtsskóla, fræddi okkur um staðinn á milli þess við Gunnar Eyjólfsson miðluðum fróðleik um qi gong. Gunnar leiddi æfingar og séra Axel Árnason Njarðvík, héraðsprestur á Suðurlandi, sagði frá reynslu sinni af qi gong.
Föstudagur 12. 03. 10
Hér má sjá viðtalsþátt minn við Ólöfu Nordal, þingmann Sjálfstæðisflokksins, á ÍNN 10. mars.´
Síðdegis ókum við Gunnar Eyjólfsson í Skálholt, þar sem við stjórnum qi gong kyrrðardögum. Eins margir sækja dagana eins og húsrúm Skálholtsskóla leyfir.
Fimmtudagur, 11. 03. 10.
Í kvöldfréttum RÚV var sagt, að alþingi kæmi saman í kvöld til að samþykkja „bráðabirgðalög“ um bann við verkfalli flugumferðarstjóra. Þetta er rangt. Alþingi samþykkir lög, bráðabirgðalög eru sett af ráðherra, þegar alþingi er ekki að störfum. Þessi notkun fréttamanna á orðinu „bráðabirgðalög“ er álíka röng og þegar þeir tala um, að í stað ríkisstjórnarinnar komi „starfsstjórn“ til að ljúka brýnum málum. Orðið starfsstjórn á við um ríkisstjórn, sem hefur beðist lausnar en er falið að sitja, þar til ný stjórn hefur verið mynduð.
Stefan Füle, stækkunarstjóri Evrópusambandsins (ESB), sat fyrir svörum á Evrópusambandsþinginu 8. mars. Samkvæmt útskrift af því, sem hann sagði, talaði hann í tæpar fjórar mínútur um Ísland. Ég staldraði við tvennt, þegar ég las útskriftina, hve almenn lýsing Füle var á væntanlegum áhrifum Íslands innan ESB. Hann minntist í því sambandi ekki einu orði á það, sem hér er oft mest hampað, að Íslendingar verði ráðandi við mótun sjávarútvegsstefnu ESB, enda vita allir í Brussel, að svo verður ekki. Athyglisvert er, að hann gerir þá kröfu til ríkisstjórnar Íslands, að hún taki upp markvissa baráttu fyrir ESB-aðild. Eins og allir vita leggur ríkisstjórnin málið þannig fyrir á heimamarkaði, að hún sé að kanna, hvað sé í ESB-pokanum. Síðan ætli hún að athuga næsta skref. Málum er alls ekki þannig háttað frá sjónarhóli ráðamanna í Brussel. Þeir telja ríkisstjórnina í liði með sér við að koma Íslandi í ESB. Þeir skilja einfaldlega ekki, að ríkisstjórn, sem sótt hefur um aðild, hafi ekki burði til eða berjast fyrir henni á heimavelli.
Þegar Füle ræddi framlag Íslands til ESB-samstarfsins sagði hann, að Ísland væri lítið land, sem þegar væri vel tengt inn á innri markaðinn og þess vegna teldi hann, að aðild Íslands hefði takmörkuð heildaráhrif á stefnu ESB. Aðild landsins yrði hins vegar ESB gagnleg á marga lund. Með aðild sinni mundi Ísland styrkja hlutverk ESB í baráttu fyrir mannréttindum og lýðræði á heimsvísu. Vegna strategískrar hnattstöðu sinnar mundi Íslands sem ESB-aðildarríki styrkja strategíska stöðu ESB á Norður-Atlantshafi. Íslendingar byggju einnig yfir talsverðri reynslu og þekkingu á tækni til að nýta endurnýjanlega orkugjafa, til að vernda umhverfið og bregðast við loftslagsbreytingum; vegna umhyggju sinnar fyrir loftslaginu gætu Íslendingar lagt verulegan skerf af mörkum við mótun og framkvæmd stefnu ESB.
Þegar vikið var að því, að stuðningur við ESB-aðild virtist ekki mikill á Íslandi sagði Füle:
„Ég mun ganga úr skugga um, að starfsbræður okkar á Íslandi átti sig á því, að eftir lyktir þjóðaraatkvæðagreiðslumálsins [Icesave] væntum við þess af þeim, að þeir leggi sig fram um að auka stuðning við ESB-aðild, hið sama á við borgara landa okkar og ESB-löndin og stuðning þeirra við aðild Íslands.“
Miðvikudagur 10. 03. 10.
Í dag var jarðarför Þorsteins Geirssonar, ráðuneytisstjóra í dómsmálaráðuneytinu, gerð frá Dómkirkjunni. Séra Hjálmar Jónsson jarðsöng, ég var einn líkmanna og ritaði minningargrein um Þorstein í Morgunblaðið.
Klukkan 17.30 var ég í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði, þar sem nýliði, pólsk, var tekin í regluna við fjölmenna og hátíðlega athöfn. Í skrá um athöfnina segir um lok hennar:
„Nýliðinn leggst flöt á gólfið og príorinna stráir á hana blómum...Prestur stökkvir vígðu vatni á nýtliðann, sem síðan stendur á fætur og kyssir guðslíkamahúsið. Þá setur priorinna blómsveig á höfuð henni, síðan gengur hún að rimlunum. Prestur mælir síðan: Héðan í frá munt þú heita systir [hún tók sér nafnið Sara]. Að svo búnu óska prestar og gestir nýliða til hamingju.“
Í kvöld kl. 21.30 er þáttur minn á ÍNN á dagskrá. Gestur minn að þessu sinni er Ólöf Nordal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Við ræðum stöðuna í stjórnmálum að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu. Nú er reynt að slá ryki í augu almennings með tali um, að einhverju breyti, að Ögmundur Jónasson setjist aftur í ríkisstjórn. Ekki leysir það Icesave-málið?
Á mbl.is 10 mars má lesa:
„Aðspurður segir Ögmundur að væri honum boðið sæti í ríkisstjórninni, kæmi það vel til greina að þiggja slíkt boð - eins og það hafi raunar alltaf gert - en „á þeim forsendum sem allir þekkja.““
Já, á þeim forsendum sem allir þekkja. Þessi orð er ekki unnt að túlka á annan veg en þann, að Ögmundur líti á sig sem sjálfstæðan samningsaðila um stefnu ríkisstjórnarinnar. Það þurfi því að gera nýjan stjórnarsáttmála á hans forsendum, svo að hann fari aftur inn í ríkisstjórn. Í þættinum veltum við Ólöf fyrir okkur, hvaða forsendur þetta eru hjá Ögmundi.
Þriðjudagur, 09. 03. 10.
Sumir málsvarar aðildar Íslands að Evrópusambandinu (ESB) eru þeirrar skoðunar, að best sé að hlaupa undir Brusselvaldið, þar sem Íslendingar séu ekki færir um að stjórna eigin málum á líðandi stundu. Nú hefur helsti álitsgjafinn í Brussel um málefni ESB hvatt til þess, að leiðtogaráð ESB-ríkjanna stöðvi aðildarferli Íslands, þar sem íslensk stjórnvöld hafi ekki nægilegt vald á málinu. Aðild sé dæmd til að falla í þjóðaratkvæðagreiðslu, vegna þess hve illa hefur verið staðið að umsókninni hér á landi undir stjórn Samfylkingarinnar. Ég birti pistil um málið hér á síðunni í dag.
Hér hefur hver spekingurinn étið eftir öðrum, hve fráleitt var af Sjálfstæðisflokknum að óska eftir tvöfaldri þjóðaratkvæðagreiðslu til að taka af skarið um ESB-stefnuna. Nú blasir við, að til að tryggja góðan undirbúning hefði þetta verið skynsamlegri leið en að kasta hundruð milljóna ef ekki mörgum milljörðum á glæ í vonlaust aðildarferli.
Andróðurinn gegn hinni tvöföldu leið Sjálfstæðisflokksins var byggður á jafnhaldlitlum grunni og kvakið nú um, að hér sé ekkert unnt að gera í endurreisn atvinnulífs, skuldauppgjöri heimila eða endurreisn banka vegna Icesave-deilunnar. Hún er skálkaskjól duglausra ráðherra, sem geta hvorki leyst deiluna né tekist á við önnur viðfangsefni. Undarlegt er að heyra fólk, sem vill láta taka mark á sér í opinberum umræðum, endurtaka rolluna um Icesave til afsökunar fyrir dugleysi ráðherranna.
Mánudagur, 08. 03. 10.
Umræðan um, hvort þjóðaratkvæðagreiðslan hafi verið um ríkisstjórnina eða ekki, er til marks um ógöngur stjórnmálaumræðna. Kosið var um lög, sem ríkisstjórnin barðist mánuðum saman fyrir, að yrðu samþykkt á alþingi. Hún þurfti meira að segja að taka slaginn um lögin tvisvar til að lokaniðurstaða fengist í þeim anda, sem dygði ríkisstjórnum Bretlands og Hollands. Stjórnarandstaðan sætti þungum árásum fyrir að draga umræður um málið á langinn. Fjármálaráðherra lét sem um líf og dauða efnahagskerfisins væri að ræða. Annað hvort yrði frumvarp hans að lögum eða eitthvað hræðilegt myndi gerast.
Vandræði ríkisstjórnarinnar mögnuðust, eftir að seinni lög hennar komu til sögunnar. Fjármálaráðherra sá ekki við Ólafi Ragnari á ríkisráðsfundi 31. desember og lét hann komast upp með að taka lögin óafgreidd af dagskrá fundarins. Þar sýndi forsætisráðherra einnig dæmalaust þekkingar- eða dómgreindarleysi. Þrátt fyrir málafylgju á þingi og handjárn á nógu marga stjórnarþingmenn til að knýja fram samþykkt frumvarpsins, höfðu ráðherrar ekki dug í sér til að fylgja máli sínu eftir sem lögum utan þings. Ekki er undarlegt, þótt fjármálaráðherra segi nú, að hann hafi hugsað um afsögn í ársbyrjun.
Stjórnarandstaðan rétti ríkisstjórninni hjálparhönd með þjóðarhagsmuni að leiðarljósi, eftir að Ólafur Ragnar neitaði að skrifa undir lögin. Í tvo mánuði hafði ríkisstjórnin forystu um að móta leið til að losna út úr ógöngum sínum, án þess að til þjóðaratkvæðagreiðslu kæmi. Hún naut til þess hlutleysis eða beins stuðnings stjórnarandstöðunnar. Allt kom fyrir ekki. Ríkisstjórnin réð ekki við málið. Hún réð ekki einu sinni við að afnema eigin lög, þótt ráðherrar teldu þau úr sögunni. Þjóðin gerði það hins vegar með eftirminnilegum hætti. Forsætisráðherra og fjármálaráðherra sátu heima.
Atkvæðagreiðslan var um lög, sem endurspegluðu stefnu ríkisstjórnarinnar. 98% þeirra 63% þjóðarinnar, sem tók afstöðu, var á móti lögunum. Að sjálfsögðu fól atkvæðagreiðslan í sér mat á störfum og stefnu ríkisstjórnarinnar. Hún snerist hins vegar ekki um, hvort ríkisstjórnin skyldi sitja áfram. Ákvörðun um það er undir þingmönnum ríkisstjórnarinnar komið, enda er borin von til þess, að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, skilji það, sem kjósendur skrifuðu á vegginn með atkvæði sínu. Hvergi í heiminum mundi lýðræðissinnaður forsætisráðherra, sem fengi slíkt spark frá borgurum lands síns, segja eins og hún, að nú væri bara að „þétta raðirnar“ og halda áfram á sömu óheillabraut.
Sunnudagur, 07. 03. 10
Tæplega 63% kosningabærra nýttu sér rétt sinn í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave 6. mars. 93,18% sögðu nei og 1,7% sögðu já við staðfestingu laganna. 229.977 voru á kjörskrá, 144.231 kusu. 2.599 sögðu já 134.397 sögðu nei. 6.744 seðlar voru auðir en 491 atkvæði ógilt.
Jóhanna og Steingrímur J. segja, að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar komi sér ekki á óvart. Hún hlýtur þó að vera reiðarslag fyrir þau. Þjóðin hafnar á afgerandi hátt máli, sem ríkisstjórnin hefur haft efst á dagskrá sinni frá því í júní 2009.
Steingrímur J. var síðan kominn í „étt'ann sjálfur“ gírinn í Silfri Egils í dag og hótaði Bjarna Benediktssyni með væntanlegri skýrslu rannsóknarnefndar alþingis. Spurt var af þessu tilefni á vefsíðunni www.amx.is, hvort rannsóknarnefndin hefði lekið upplýsingum til ríkisstjórnarinnar. Þess er ekki að vænta, að nefndarmenn bregðist við slíkri athugasemd.
Hitt er þó líklegast, að Steingrímur J. hafi ætlað þagga niður í gagnrýni á ríkisstjórnina og nauðsyn þess, að hún hverfi með þessum hræðsluáróðri. án þess að hann hafi hugmynd um, hvað í skýrslunni segir. Innantómur áróður af þessu tagi hefur einkennt málflutning Steingríms J. í Icesave-málinu í tæpt ár, eða frá því að hann boðaði hina „glæsilegu niðurstöðu“ af samningastarfi Svavars Gestssonar.
Í kvöld var myndin Draumalandið sýnd í sjónvarpinu. Hún var brotakennd eins og bókin og ekki sannfærandi.
Laugardagur, 06. 03. 10.
Fyrstu tölur úr þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave sýna, að um 93,1% sögðu nei, en 1,6% já. Steingrími J. Sigfússyni þótti merkilegt, hvað margir hefðu sagt já, þegar rætt var við hann í sjónvarpi. Ekki hefði hann mælt með því! Önnur svör hans voru álíka mikið út í hött og þetta. Hann fór ekki á kjörstað frekar en Jóhanna Sigurðardóttir.
Bæði töluðu þau eins og ekkert hefði í skorist fyrir ríkisstjórnina. Hún barðist þó bæði á sumarþingi og á haustþingi fyrir því af öllu sínu afli, að Icesave-frumvörp yrðu að lögum. Nú hefur þeim verið hafnað á eftirminnilegan hátt. Þá segja Jóhanna og Steingrímur J., að nú þurfi að bretta upp ermar og leysa Icesave-málið. Þau ætli sér sko að gera það.
Hvorugt þeirra fór á kjörstað, þótt þau hafi sífellt verið með það á vörunum í stjórnarandstöðu, að bera þyrfti hitt eða þetta málið undir atkvæði þjóðarinnar. Nú ætla þau að gera lítið úr þjóðaratkvæðagreiðslunni. Þau láta eins og niðurstaðan breyti engu fyrir ríkisstjórnina.
Jóhanna Sigurðardóttir viðurkennir ekki pólitískar staðreyndir, af því að hún neitar að horfast í augu við þær. Henni er einnig um megn að skýra stöðu sína og ríkisstjórnar sinnar með haldgóðum rökum gagnvart íslensku þjóðinni og umheiminum eftir þessi úrslit. Hún vinnur hagsmunum þjóðarinnar áfram ógagn.
Steingrímur J. minnir nú orðið dálítið á Jóhannes í Bónus, þegar hann barmar sér. Hvor lýsir því á sinn hátt, hve mikið hann hefur lagt á sig fyrir þjóðina. Hvorugum finnst þeir metnir að verðleikum. Steingrímur J. fór enn með þá rullu í sjónvarpinu í kvöld, að hann ynni dag og nótt að því að bæta hag þjóðarinnar og nú mætti ekki láta deigan síga.
Eitt meginverkefni Steingríms J. hefur verið að vinna að lausn Icesave-málsins með vini sínum Svavari Gestssyni. Eftir úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar er auðskiljanlegt, að Steingrímur J. telji verk sín ekki metin að verðleikum. Jóhannes í Bónus brást við á svipaðan hátt, þegar 80% aðspurðra töldu best, að honum yrði haldið til hlés.
Föstudagur, 05. 03. 10.
Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon, oddvitar ríkisstjórnarinnar, gera sem minnst úr gildi þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Þar sannast enn, að þau eru ekki í takt við hagsmuni þjóðarinnar og vinna frekar gegn þeim en með, eins og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði.
Engum blöðum er um þá staðreynd að fletta, að þjóðaratkvæðagreiðslan og niðurstaða hennar skiptir máli gagnvart breskum og hollenskum stjórnvöldum. Með því að gera lítið úr henni eða sýna beina óvild, eins og Jóhanna og Steingrímur J. gera, draga þau úr gildi hennar gagnvart Bretum og Hollendingum. Sannast enn, hve ömurlega þau hafa haldið á málum gagnvart hagsmunum þjóðar sinnar.
Steingrímur J. lét á þann veg í Kastljósi kvöldsins, að bréf til hans um, að Bretar og Hollendingar ætli að ræða áfram við Íslendinga, þrátt fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna, væri stórfrétt. Þetta er ekki annað en liður í blekkingu ráðherrans. Ríkisstjórnir Breta og Holllendinga geta ekki leyst þetta mál nema með samningi, þær vita, að réttarstaða þeirra leyfir ekki sókn málsins fyrir dómstólum.
Fimmtudagur, 04. 03. 10.
Fór rúmlega 10.00 í Laugardalshöll og kaus utan kjörstaðar vegna Icesave. Nokkur hópur fólks var þá á kjörstað, sem var opnaður klukkan 10.00.
Loks nú sagði Steingrímur J. á þingi, að kosningin 6. mars yrði. Til þessa dags hafa forystumenn ríkisstjórnarinnar lifað í þeirri trú, að þeir gætu komist undan atkvæðagreiðslunni.
Skrifaði pistil um rangfærslur Þorvaldar Gylfasonar prófessors vegna sérstaks saksóknara.
Miðvikudagur, 03. 03. 10.
Á mbl.is birtist í kvöld klukkan 19.17:
„Fundi samninganefndar Íslands í Icesave-málinu með Bretum og Hollendingum er lokið. Eins og er eru ekki fleiri fundir fyrirhugaðir í kvöld, segir Guðmundur Árnason, einn þeirra sem situr í samninganefndinni. Hann segist ekkert geta sagt um útkomu fundarins.“
Jóhanna og Steingrímur J. eru hætt að tala um, að ekki verði gengið verði til atkvæðagreiðslu 6. mars. Nú er afsökun vinstri-grænna sú, þegar bent er á, að stefni í ódýrari Icesave-samninga, að „töfin“ hafi nú kostað sitt. Þetta er í besta falli hallærislegt sjónarmið, sem byggist á veikri viðleitni til að réttlæta hina hörmulegu Steingríms J.-Svavarssamninga.
Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, segir í spjalli við Sölva Tryggvason á Skjá einum í kvöld: „Ríkisstjórnin hlýtur að skoða stöðu sínu,“ þegar hún var spurð, hvað gerðist, þegar þjóðin hefði hafnað Icesave-lögunum. Í orðunum fólst, að ríkisstjórninni hefði mistekist að leysa Icesave-málið. Hefði hún enga leið út úr því, ætti hún ekki margra kosta völ.
Firring Jóhönnu Sigurðardóttur í Icesave-málinu eins og í öllum öðrum málum segir, að hún muni ekki viðurkenna, að ríkisstjórn hennar sé komin í þrot. Jóhanna yfirgefur ekki stól forsætisráðherra, nema hennar eigin þingflokkur rísi gegn henni, eða vinstri-grænir splundrist og stjórnin missi meirihluta sinn.
Klukkan 14.30 vorum við Gunnar Eyjólfsson og Ingibjörg Friðbertsdóttir frá Aflinum, félagi qi gong iðkenda, í Vogum á Vatnsleysisströnd og kynntum qi gong fyrir stjórnendum heilsuleikskóla.
Þriðjudagur, 02. 03. 10.
Augljóst er, að Jóhanna og Steingrímur J. eru komin út í horn vegna Icesave. Viðbrögðin eru ólík.
Jóhanna virðist hafa sagt skilið við pólitíska skynsemi, þegar hún segir á blaðamannafundi að loknum ríkisstjórnarfundi, að fresta megi þjóðaratakvæðagreiðslunni. Hvernig ímyndar hún sér að fá stuðning meirihluta alþingis við þá vitlausu tillögu?
Steingrímur J. lætur nú eins og ekkert sé sjálfsagðara en semja megi um mun betri kjör fyrir Íslendinga en þeir Svavar gerðu 5. júní 2009. Þá var um að ræða bestu samninga fyrir land og þjóð, sem yrði tafarlaust að afgreiða. Nú er það í samræmi við „eðlilegt“ ferli og þróun, að Steingrímur J. sé allt annarrar skoðunar og unnt sé að ná mun betri samningum en voru honum hjartans mál til 30. desember 2009.
Þau Jóhanna og Steingrímur J. komast upp með þennan leikaraskap, af því að fréttamenn á RÚV og Stöð 2 leyfa það. Þau eru alltaf spurð eins og fréttamennirnir gangi að því sem vísu, að áheyrendur hafi gullfiskaminni. Hvað hafa fréttamenn látið þau lengi segja, að eitthvað gerist á morgun eða eftir helgi, og gerist það ekki, gjaldi þjóðin þess með einhverjum ósköpum?
Einkennilegt er að fylgjast með því, hve starfsmenn RÚV leggja sig fram um að gera lítið úr þjóðarakvæðagreiðslunni og gildi hennar. Hverra hagsmuna eru þeir að gæta? Ríkisstjórnar Íslands, Bretlands og Hollands - þær eru allar jafnóttaslegnar við að samningsniðurstöðu þeirra verði hafnað.
Mánudagur, 01. 03. 10.
Mánaðarleg könnun Capacent Gallup fyrir RÚV sýnir vinstri-græna stærri (25%) en Samfylkinguna (23,2%). Sjálfstæðisflokkurinn er stærstur (32%) og Framsóknarflokkurinn (14%) minnstur fjórflokkanna. Aðrir, Borgarahreyfing, frjálslyndir og Hreyfing skipta með sér 5%.
Eftir að hafa kynnst viðkvæmni Samfylkingarinnar fyrir niðurstöðum skoðanakannanna, kemur ekki á óvart, að vaxandi taugaveiklunar gæti innan flokksins.
Í gær kynntu Bændasamtök Íslands niðurstöðu könnunar, sem sýndi, að meirihluti þjóðarinnar treystir Samfylkingunni ekki fyrir forystu gagnvart Evrópusambandinu. Nú sýnir könnun, að sá flokkur ríkisstjórnarinnar, sem er andvígur ESB-aðild, þótt hann hafi samþykkt að stíga fyrsta skrefið til hennar, er orðinn stærri en ESB-aðildarflokkurinn.
Í dag stendur Jóhanna Sigurðardóttir í þinginu og svarar spurningu frá Bjarna Benediktssyni um þjóðaratkvæðagreiðsluna 6. mars út í hött og með spurningum um til hvers sé verið að greiða atkvæði, eins og lögin, sem eru tilefni þess, séu ekki enn í gildi. Spunaliðar Samfylkingarinnar í röðum fréttamanna RÚV eru teknir til við að spinna þennan Jóhönnu-ráð, þegar könnun sýnir, að 74% segjast ætla að segja nei við lögunum en aðeins 19% að styðja þau. Markmiðið er greinilega að fá sem fæsta til að gera sér ferð á kjörstað.
Ráðleysi ríkisstjórnarinnar er af þeirri stærðargráðu, að engu er líkara, en pólitískir fréttamenn nái ekki upp í það, nema þeir vilji ekki lýsa fyrir almenningi, hve stjórnarflokkarnir eru heillum horfnir við landstjórnina.