Þriðjudagur, 02. 03. 10.
Augljóst er, að Jóhanna og Steingrímur J. eru komin út í horn vegna Icesave. Viðbrögðin eru ólík.
Jóhanna virðist hafa sagt skilið við pólitíska skynsemi, þegar hún segir á blaðamannafundi að loknum ríkisstjórnarfundi, að fresta megi þjóðaratakvæðagreiðslunni. Hvernig ímyndar hún sér að fá stuðning meirihluta alþingis við þá vitlausu tillögu?
Steingrímur J. lætur nú eins og ekkert sé sjálfsagðara en semja megi um mun betri kjör fyrir Íslendinga en þeir Svavar gerðu 5. júní 2009. Þá var um að ræða bestu samninga fyrir land og þjóð, sem yrði tafarlaust að afgreiða. Nú er það í samræmi við „eðlilegt“ ferli og þróun, að Steingrímur J. sé allt annarrar skoðunar og unnt sé að ná mun betri samningum en voru honum hjartans mál til 30. desember 2009.
Þau Jóhanna og Steingrímur J. komast upp með þennan leikaraskap, af því að fréttamenn á RÚV og Stöð 2 leyfa það. Þau eru alltaf spurð eins og fréttamennirnir gangi að því sem vísu, að áheyrendur hafi gullfiskaminni. Hvað hafa fréttamenn látið þau lengi segja, að eitthvað gerist á morgun eða eftir helgi, og gerist það ekki, gjaldi þjóðin þess með einhverjum ósköpum?
Einkennilegt er að fylgjast með því, hve starfsmenn RÚV leggja sig fram um að gera lítið úr þjóðarakvæðagreiðslunni og gildi hennar. Hverra hagsmuna eru þeir að gæta? Ríkisstjórnar Íslands, Bretlands og Hollands - þær eru allar jafnóttaslegnar við að samningsniðurstöðu þeirra verði hafnað.