Dagbók: ágúst 2004

Þriðjudagur, 31. 08. 04. - 31.8.2004 0:00

Ríkisstjórnin kom saman til fundar klukkan 09.30 og stjórnaði Geir H. Haarde fundi í fjarveru Davíðs og Halldórs Ásgrímssonar. Það gerðist óviðbúið og okkur til mikillar ánægju, að Davíð birtist allt í einu á fundinum og var honum innilega fagnað - en hann tók ekki þátt í störfum okkar heldur heilsaði hverjum og einum og ræddi við okkur stutta stund.

Mánudagur, 30. 08. 04. - 30.8.2004 0:00

Þriðji fundur Evrópunefndar var haldinn klukkan 14.00 í Þjóðmenningarhúsinu.

Laugardagur, 28. 08. 04. - 28.8.2004 0:00

Klukkan 14.30 var efnt til athafnar á Þingvöllum, þar sem formlega var gengið frá skráningu þeirra á heimsminjaskrá UNESCO. Upphaflega var stefnt að þessari athöfn 27. ágúst en ákveðið var að fresta henni vegna útfarar Gylfa Þ. Gíslasonar klukkan 16.00 þann dag.

Hátíðarkór Bláskógabyggðar og Barna- og kammerkór Biskupstungna sungu, Hljómskálakvintettinn lék, Sigrún Hjálmtýsdóttir söng, Steindór Andersen kvað rímur og Gunnar Eyjólfsson flutti ljóð og texta. Auk mín töluðu Francesco Bandarin, Sigurður K. Oddsson og Margrét Hallgrímsdóttir en séra Kristján Valur Ingólfsson fór með bæn.

Tjald var sett upp við fræðslumiðstöðina en eftir ávörp og söng þar var gengið að Hakinu og þaðan niður í Almannagjá, þar sem allir sungu Ísland ögrum skorið og þjóðsönginn, áður en gengið var tjaldsins að nýju og drukkið kaffi. Lauk athöfninni um klukkan 16.30.

Fimmtudagur, 26. 08. 04. - 26.8.2004 0:00

Þar sem flugvöllurinn er ekki nema 7 km frá Kranj og EasyJet-vélin fór ekki fyrr en 16.15 höfðum við góðan tíma til að fá okkur hádegisverð á Pizzeriu í smáþorpi milli Kranj og flugvallarins, áður en ég kvaddi Rut á vellinum og hún ók áfram í rigningunni í áttina til Ungverjalands, þar sem Skálholtskvartettinn á að koma fram á tvennum tónleikum og flytja verk Haydns á hátið með nafni hans í Estherhazy-höllinni.

ÉasyJet var nú á áætlun og ég hafði góðan tíma til að ná í töskuna á Stansted og skrá hana og sjálfan mig á Iceland Express flugið klukkan 19.50, sem einnig var á áætlun, og lenti ég hér klukkan 21.40.

Miðvikudagur, 25. 08. 04. - 25.8.2004 0:00

Við hófum daginn á því að aka upp á 600 metra hátt fjall, sem gnæfir yfir Nova Gorica, þar sem er að finna kirkju og klaustur Franzisku-munka, sem heitir Seva Gora, var mikil ró og helgi yfir þeim stað.

 

Síðan héldum við í austurátt yfir fjöll og firnindi í miðri Slóveníu, eru fjalladalir þröngir og brekkur víða brattar, þegar ekið er norðan slétturnar, þar sem stærstur hluti Slóvena býr, en um helmingur lands þeirra er skógi vaxið og stór hluti auk þess fjallahryggir og tindar.

 

Síðla dags komum við í miðaldaborgina Skofja Loka en þaðan lögðum við sunnudaginn 22. ágúst upp í ferð okkar inn í Júlíönsku alpana. Skemmtilegum hring hafði verið loka. Við fórum í upplýsingamiðstöðina og spurðum um gististaði. Stúlkan hringdi til að kanna fyrir okkur bændagistingu en ekki var neina að fá, að minnsta kosti ekki fyrir eina nótt.

 

Við héldum því áfram til borgarinnar Kranj, sem er aðeins 7 km frá Brnik-flugvelli, 28 km frá Ljubljana og 29 km frá Bled.  Í Kranj hafði upplýsingamiðstöðinni verið lokað, svo að við ákváðum að fara á aðal umferðartorgið og kanna, hvort ekki væri hótel þar. Svo reyndist vera og við gátum valið milli nýuppgerðs herbergis eða herbergis í stíl kommúnistatímans – á einni upplýsingamiðstöðinni hafði okkur vinsamlega verið bent á, að hótel í þeim stíl væru ekkert skemmtileg! Þarna fengum við tækifæri til að bera þetta saman innan sama hótelsins. Við völdum nýuppgerða herbergið, þótt sími hefði ekki enn verið tengdur í það. Matsalurinn var hins vegar svo sannarlega í gamla stílnum.

 

Í upplýsingablaði hótelsins, Hotel Creina, segir, að Edvard Ravnikar, prófessor í arkitektúr, hafi teiknað það árið 1970. Hótelið sé eitt af hans best þekktu verkum og litið sé á það sem listsögulegt minnismerki. Ef hótelið á að lifa í nútímanum og þjóna gestum þarf hind vegar að endurnýja herbergi eins og verið er að gera.

 

Reynsla okkar af því að ferðast um Slóveníu og gista á meðalgóðum hótelum hefur verið ákaflega góð, alls staðar er vinsamleg þjónusta og allt er nýtt og tandurhreint.  Hvarvetna hittum við fólk, sem talar ensku, bæði á hótelum og veitingastöðum, en þar eru matseðlar yfirleitt einnig á ensku.

 

Af þessari skjótu ferð um landið er auðvelt að draga þá ályktun, að á undraskömmum tíma hafi innviðir þess, stjórnmál, mannvirki og þjónusta verið endurnýjuð og færð í nútímalegt og lýðræðislegt horf.

 

Þriðjudagur, 23. 08. 04. - 23.8.2004 0:00

Héldum af stað í áttina að Nova Gorica, sem ber þetta nafn Nova, af því að Ítalir fengu til sín borgina Gorizia eftir síðari heimsstyrjöldina, reistu þá Slóvenar nýja borg sín megin við nýju landamærin. Til að komast þangað frá Karnjska Gora er unnt að aka eftir fjalladölum Ítalíumegin við landamærin eða yfir hæsta fjallaskarð Slóveníu 1611 metra og fórum  við þá leið.

 

Eftir nokkurra klukkustunda fjallaferðalag og viðdvöl í fjallabæjum og gömlu virki ókum við inn í Nova Gorica og vissum ekki fyrr en við vorum komin að landamærastöð – þar höfðu verðir aldrei séð íslenskt vegabréf áður og veltu fyrir sér, hvort Ísland væri í Schengen.  Þarna og aftur þegar við fórum inn í Slóveníu frá Gorizia voru allir látnir sýna skilríki og sumar stöðvar á landamærunum voru aðeins fyrir gangandi vegfarendur, en alls staðar voru landamæraverðir, þótt Ítalía og Slóvenía séu í Schengen.

 

Við fórum í upplýsingamiðstöð ferðamanna í Nova Gorica og spurðum um þriggja stjörnu hótel í bænum eða nágrenni hans, þau voru tvö bæði utan Nova Gorica og völdum við hótel í smábænum Sempeter, var þar vel á móti okkur tekið og sneri herbergi okkar út að kirkjutorginu. Þetta var eina herbergið í ferðinni með loftkælingu og var hverjum gesti afhent fjarstýring við komu sína til að stjórna kælitækinu.

Mánudagur, 23. 08. 04. - 23.8.2004 0:00

 

Héldum af stað frá Bled um klukkan 11.00 og ókum  fyrst inn að öðru vatni innar í fjalladalnum, Bohinjsko jezero, en við það lokast dalurinn og snerum við þess vegna sömu leið til baka og ókum eftir sveitavegi við hliðina á hraðbrautinni, sem liggur til Austurríkis um 8 km löng göng í gegnum Alpana, en við fórum meðfram Júlíönsku ölpunum, sem eru í norðvesturhorni Slóveníu og síðan inn í fjallaþorpið Karnjska Gora, sem er þekktur skíðastaður en er auðvitað núna í sumarblóma.

 

Við fundum þar fallegt pensjónat og fengum inni fyrir eina nótt. Síðan ókum við sex kílómetra að ítölsku landamærunum og innan þeirra 11 km til bæjarins Tarvisio, þar sem við höfðum stutta viðdvöl í ítalskri þorpstemmningu, áður en við snerum aftur til Karnjska Gora.

 

Í landamærastöð þurftum við bæði að sýna passa, þegar við fórum inn og út úr Ítalíu.

Sunnudagur, 22. 08. 04. - 22.8.2004 0:00

Fórum á antik-útimarkað í Ljubljana í mjög góðu veðri og héldum síðan af stað í áttina að Bled, ókum bæði eftir hraðbraut og sveitavegum. Vorum komin til Bled rúmlega 15.00 – vegalengdir eru ekki miklar í Slóveníu. Fengum inni á Garni Hotel Jadran, að minnsta kosti eina nótt með útsýni út að vatninu.

Þegar á reyndi komst ég ekki í tölvusamband frá hótelinu, sem var ekkert vandamál í Ljubljana, var ég sendur á næsta hótel, 4 stjörnu, en þar tókst ekki heldur að ná sambandi.

 

Laugardagur, 21. 08. 04 - 21.8.2004 0:00

 

Rut fór á æfingu með Skálholts-kvartettinum í ráðhúsi Ljubljana klukkan 10.00 en þau Svava Bernharðsdóttir, víóluleikari, sem býr hér í Ljubljana, Sigurður Halldórsson, sellóleikari frá Reykjavík, og Jaap Schröder, fiðluleikari frá Hollandi, eru í kvartettinum með henni.

 

Það var svalara um morguninn en kvöldið áður – ég ætlaði að aka Rut á æfinguna en við komumst að því, að hjarta borgarinnar er lokað fyrir almennri bílaumferð, þannig að best var að geyma bílinn við hótelið.

 

Á meðan þau voru á æfingunni rölti ég um miðborgina og skoðaði markaðinn, þar sem mikið var um að vera í blíðvirðinu og unnt var að kaupa grænmeti, ávexti, blóm, fatnað og handverk. Ég stóð einnig dágóða stund fyrir framan dómkirkjuna og hlustaði á hressa tónlistarmenn flytja vel þekkt lög, sem höfðuðu vel til áheyrenda og safnaðist drjúgt í opinn fiðlukassann. Meðal þeirra, sem voru að hlusta, rakst ég á Sverri Vilhelmsson, ljósmyndara á Morgunblaðinu, og síðan hitti ég einnig Björn, bróður hans, í hópnum.

 

Eftir æfingu Skálholts-kvartettsins nutum við Rut góða veðursins í miðborginni fram eftir degi, en síðan dró ský fyrir sólu og steypiregn fylgdi að nýju þrumum og eldingum.

 

Tónleikarnir hófust í ráðhúsinu klukkan 21.00 og vegna rigningar fyrr um daginn hafði kólnað svo í lofti, að ákveðið var að hafa þá innan dyra en ekki í innigarði hússins, þau fluttu kvartett eftir Boccerini og tvo kvartetta eftir Haydn. Það var húsfyllir og var þeim mjög vel tekið. Á meðan á flutningnum stóð en hann var 60 mínútur málaði Zmago Modic, þekktur slóvenskur listmálari, af þeim olíumálverk og tókst honum undravel að vinna verk sitt.

Föstudagur, 20. 08. 04 - 20.8.2004 0:00

Við lögðum að stað rétt fyrir 09.00 og tókum National Express rútu út á Stansted-flugvöll frá St. John’s Wood biðstöðinni – ferðin út á völlinn tók álíka langa tíma og daginn áður eða um einn tíma og tuttugu mínútur. Við vildum vera tímanlega en EasyJet-vélin til Ljubljana átti að fara klukkan 12.45. Það gekk vel að skrá okkur um borð. Stúlkan spurði, hvort við hefðum pakkað sjálf, jú, hvort nokkur hefði farið höndum um töskur okkar eftir það, nei, en síðan bætti ég við óspurður, að þær hefðu reyndar verið geymdar á flugvellinum um nóttina, þá sagði hún með nokkrum þjósti, að það væri hún, sem spyrði – henni kom þetta greinilega ekkert við samkvæmt hinu staðlaða öryggiskerfi, eða hún bar fullkomið traust til þeirra, sem sáu um töskugeymsluna á vellinum.

 

Eftir að hafa litið í bóka- og blaðabúðir í flugstöðinni fórum við með lestinni út að flughliðinu. Þar tókum við að heyra tilkynningar um seinkanir hjá EasyJet vegna bilunar í tölvukerfi vallarins, við heyrðum jafnframt, að Iceland Express-vélin fór á áætlun til Keflavíkur um hádegisbilið.

 

EasyJet hvatti fólk til að sitja við flughliðin, þrátt fyrir seinkanir og biðum við þar í tvo tíma, áður en tekið var til við að hleypa fólki í vélina okkar. Sigurður Halldórsson, sellóleikari, sem hafði verið rétt á eftir okkur í innritun, varð að bíða þar í tvo tíma, því að innrita þurfti alla með penna í stað þess að nota tölvur.

 

Eftir að út í vél var komið, tók við nýr vandi. Fyrst var sagt, að það vantaði tvo farþega og yrði að losa vélina við töskur þeirra, áður en haldið yrði af stað. Brátt birtust þó þrír nýir farþegar við fögnuð flugþjóna. Þá kom í ljós, að innritunarfólkið sagði einum farþega fleira í vélinni en bókaðir höfðu verið. Sá talningarvandi leystist á einhvern óútskýranlegan hátt að sögn flugstjórans. Klukkan var orðin 15.45 þegar lagt var af stað eða þremur tímum eftir áætlun. Flugstjórinn sagði, að því miður væri þetta ekki í fyrsta sinn sem tölvukerfi vallarins gerði þeim lífið leitt, sem um hann færu.

 

Klukkan 18.25 að slóvenskum tíma lentum við Ljubljana, völlurinn er lítill og flugstöðin í samræmi við hann, svo að við þurftum hvorki að bíða lengi eftir töskunum eða að fá afgreiddan bílinn, sem við tókum á leigu en rúmlega 19.30 – fyrir myrkur, vorum við komin á hótelið í miðborginni.

 

Eftir að við höfðum snætt kvöldverð var eins og himnarnir rifnuðu með þrumum og eldingum og göturnar breyttust í ár og læki fyrir framan hótelgluggann

Fimmtudagur, 19. 08. 04. - 19.8.2004 0:00

Við flugum með Iceland Express kl 7.40 að morgni til London og tókum rútu frá Stansted-flugvelli, eftir að hafa komið ferðatöskunum okkar fyrir í geymslu á vellinum. Við höfðum ekki komið á þennan flugvöll áður og þurftum því að átta okkur á aðstæðum, finna töskugeymsluna og síðan undirgöngin að rútustæðinu. Flugstöðin er hæfileg að stærð og lítil lest flytur mann frá flugvélinni að vegabréfaskoðun og farangursafgreiðslu.

 

Sigríður Sól, Orri og Bjarki tóku á móti okkur, þar sem bílstjórinn hleypti okkur úr við St. John’s Wood um klukkan 14.00. Síðdegis fórum við í Hampstead Heath-garðinn en þá gerði mikin skúr með þrumum og eldingum. Síðan ókum við um norð-austurhluta Lodon og bárum saman hin ýmsu hverfi þar, en borgarbragurinn breytist ótrúlega fljótt eftir hverfum.

Mánudagur, 16. 08. 04. - 16.8.2004 0:00

Áður en við héldum heim að nýju frá Hólum nutum við leiðsagnar Ragnheiðar Traustadóttur, sem stýrir fornleifarannsókninni á Hólum, um rannsóknarsvæðið bæði við Hólastað og við Kolkuós. Var það eftirminnileg fræðsluför, sem veitti okkur nýja sýn á margt er tengist hinni merku sögu Hóla.

Við ókum hinn nýja, góða veg um Þverárfjall og styttir hann leiðina umtalsvert milli Sauðárkróks og Blönduóss.

Sunnudagur, 15. 08. 04. - 15.8.2004 0:00

Messað var Hólahátíð klukkan 14.00 og prédikaði séra Guðni Ólafsson frá Melstað í Miðfirði.

Klukkan 16.30 var hátíðinni síðan fram haldið með hátíðarsamkomu, þar sem ég flutti ræðu, Ragnheiður Traustadóttir fornleifafræðingur sagði frá Hólarannsókninni, Einar Jóhannesson lék á klarinett, lesin voru ljóð eftir sr. Jón Bjarman og Voces Thule sungu.

Laugardagur, 14. 08. 04. - 14.8.2004 0:00

Við vorum við morguntíðir í Hóladómkirkju klukkan 09.00.

Klukkan 13.00 fór ég í helgigöngu undir forystu vígslubiskups upp í Gvendarskál í Hólabyrðu fyrir ofan Hóla. Við vorum um 30, sem fórum í gönguna og tók það okkur um einn og hálfan tíma að ganga upp í steikjandi sól og miklum hita.

Þegar upp var komið söng séra Kristján Valur messu með aðstoð vígslubiskups og við gengum til þess altaris, sem kennt er við Guðmund góða Hólabiskup - en sagt er, að hann hafi farið daglega til bæna við altarið og gjarnan gengið berfættur.

Eftir að hafa gengið upp í Gvendarskál finnst mér ólíklegt, að biskup hafi lagt á sig slíka ferð daglega, hitt er að vísu rétt, að menn vel á sig komnir fara þangað upp á 30 til 40 mínútum.

Klukkan var um 16.30 þegar við vorum komin til byggða að nýju.

Föstudagur, 13. 08. 04. - 13.8.2004 0:00

Við Rut héldum heim að Hólum í Hjaltadal tæplega 14.30 og vorum þangað komin rétt fyrir klukkan 19.00, en þar tók Jón Aðalsteinn Baldvinsson vígslubiskup á móti okkur.

Klukkan 20.00 hófst Hólahátíð með málþingi í Auðunnarstofu um miðaldatónlist, þar sem séra Kristján Valur Ingólfssonn flutti erindi og Voces Thule flutti tóndæmi.

Miðvikudagur 11. 08. 04 - 11.8.2004 0:00

Klukkan 14.00 var annar fundur Evrópunefndar í svo miklu blíðskaparveðri, að spurt hafði verið, hvort ég ætlaði að efna til fundarins, þrátt fyrir veðrið.

Fimmtudagur, 05. 08. 04. - 5.8.2004 0:00

Í hádeginu hitti ég fráfarandi stjórn Heimdallar í svonefndu þingmannaspjalli hennar og komum við saman á Grand hotel. Var ánægjulegt að ræða við stjórnarmenn og skiptast á skoðunum við þá um viðhorfin í stjórnmálunum.

Þriðjudagur 03. 08. 04. - 3.8.2004 0:00

Héldum snemma til borgarinnar en klukkan 11.00 var ríkisstjórnarfundur. Þar skýrði Halldór Ásgrímsson frá því, að Davið Oddsson gengi undir nýjan uppskurð þennan sama morgun og að þessu sinni ætti að fjarlægja skjaldkirtil, meinvörp í eitlum og kalkkirtil.

Mánudagur, 02. 08. 04 - 2.8.2004 0:00

Sinnti bústörfum í Fljótshlíðinni og kannaði meðal annars hvernig girðingum er háttað, því að fé liggur gjarnan í landinu í stað þess að halda sig til fjalla.

Ókum síðan um Njáluslóðir.

Sunnudagur, 01. 08. 04. - 1.8.2004 0:00

Vorum um hádegisbil í Vík í Mýrdal með Kenneth og Helen og borðuðum hádegisverð á Halldórskaffi, skemmtilegum veitingastað í Bryde-búð, og skoðuðum síðan byggða- gos- og strandsýninguna í húsinu.

Héldum síðan að nýreistum minnisvarða um þýsk skip, sem hafa strandað í sandinum.

Höfðum viðdvöl í Reynishverfi á leiðinni aftur í Fljótshlíðina. Ókum þaðan upp undir Sólheimajökul.

Héldum að Skógum,  þar sem við hittum Þórð Tómasson, föður byggðasafnsins og hin einstaka safnamann, sem fór með okkur í kirkjuna, lék á orgelið og söng. Þá kom Sverrir Magnússon, framkvæmdastjóri safnsins og drakk með okkur kaffi í samgöngusafninu.

Fórum að Skógafossi og Seljalandsfossi.

Klukkan rúmlega 22.00 fór í Kirkjulækjarkot og tók þátt í þeim hluta Kotmóts hvítsasunnumanna, sem þeir kalla Kotvision, þar sem ungt fólk keppir í söng og sviðsframkomu. Var skemmtilegt að sjá, hve það fór allt vel fram og hve hæfileikamikið unga fólkið er.

Það var grenjandi riging þegar við héldum af stað en stytti upp í Vík og síðan var hið besta veður á leiðinni til baka og bjart, þegar við komumí Fljótshlíðina, þannig að veðrið varð ekki eins vont og spáin gat gefið til kynna.