14.8.2004 0:00

Laugardagur, 14. 08. 04.

Við vorum við morguntíðir í Hóladómkirkju klukkan 09.00.

Klukkan 13.00 fór ég í helgigöngu undir forystu vígslubiskups upp í Gvendarskál í Hólabyrðu fyrir ofan Hóla. Við vorum um 30, sem fórum í gönguna og tók það okkur um einn og hálfan tíma að ganga upp í steikjandi sól og miklum hita.

Þegar upp var komið söng séra Kristján Valur messu með aðstoð vígslubiskups og við gengum til þess altaris, sem kennt er við Guðmund góða Hólabiskup - en sagt er, að hann hafi farið daglega til bæna við altarið og gjarnan gengið berfættur.

Eftir að hafa gengið upp í Gvendarskál finnst mér ólíklegt, að biskup hafi lagt á sig slíka ferð daglega, hitt er að vísu rétt, að menn vel á sig komnir fara þangað upp á 30 til 40 mínútum.

Klukkan var um 16.30 þegar við vorum komin til byggða að nýju.