Dagbók: apríl 2015

Fimmtudagur 30. 04. 15 - 30.4.2015 19:00

„Ég vil biðja ykk­ur um að þrýsta á fram­kvæmda­stjórn Evr­ópu­sam­bands­ins að líta áfram á Ísland sem um­sókn­ar­ríki að sam­band­inu.“ Þetta er haft eft­ir Árna Páli Árna­syni, for­manni Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, á Twitter-síðu þing­flokks Jafnaðarmanna og demó­krata á ESB-þing­inu. Árni Páll er stadd­ur í heim­sókn hjá þing­flokkn­um og ávarpaði hann í gær (29. apríl), segir á mbl.is í dag, fimmtudaginn 30. apríl.

Hinn 12. mars 2015 sendi Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra bréf til ráðherraráðs ESB og tilkynnti að Ísland væri ekki lengur ESB-umsóknarríki og óskaði eftir að ESB tæki mið af því. Ed­gars Rin­kevics, ut­an­rík­is­ráðherra Lett­lands, núverandi forseti ráðherraráðs ESB, svaraði bréfinu 26. apríl 2015 og var greint frá efni svarsins hér á síðunni þann dag og að ráðherraráð ESB ætlaði að taka mið af ósk ríkisstjórnar Íslands. Á mbl.is segir fimmtudaginn 30. apríl:

„Til­gang­ur heim­sókn­ar Árna Páls til þing­flokks Jafnaðarmanna og demó­krata var að skrifa und­ir sam­starfs­samn­ing milli Sam­fylk­ing­ar­inn­ar og þing­flokks­ins. Ekki síst á sviði Evr­ópu­mála. Haft er eft­ir Gi­anni Pittella, for­manni þing­flokks­ins, á Twitter-síðunni að þing­flokk­ur­inn styðji inn­göngu Íslands í Evr­ópu­sam­bandið. Haft er eft­ir Árna Páli að laga­lega séð séu dyrn­ar inn í sam­bandið ekki lokaðar land­inu. „Um leið og við sigr­um þing­kosn­ing­arn­ar hefj­um við inn­göngu­ferlið ... Við mun­um skipu­leggja þjóðar­at­kvæðagreiðslu um inn­göngu í Evr­ópu­sam­bandið um leið og við kom­umst til valda.““

Það er fáheyrt að formaður stjórnmálaflokks gangi þannig gegn utanríkisstefnu eigin lands á erlendum vettvangi svo að ekki sé talað um bænarorðin um að erlendir þingmenn beiti áhrifum sínum til að stefna ríkisstjórnar Íslands nái ekki fram að ganga. Samfylkingin hefur vissulega lagst lágt í ESB-málinu en hér verður niðurlæging þó meiri en áður. Framkvæmdastjórn ESB er ekki annað en umsagnaraðili í samskiptum ráðherraráðsins við umsóknarríki. Ráðherraráðið hefur þegar svarað ríkisstjórn Íslands.

Árni Páll er fyrsti flutningsmaður tillögu stjórnarandstöðunnar á alþingi um að hinn 26. september 2015 greiði þjóðin atkvæði um að ESB-viðræðunum skuli haldið áfram. Árni Páll sá ekki ástæðu til að sækja þingfund þriðjudaginn 14. apríl þegar tillagan var til fyrri umræðu. Við ESB þingmenn gefur hann til kynna að hann ætli ekki að styðja tillöguna af því að hann vilji ekki atkvæðagreiðsluna fyrr en hann hafi sigrað í þingkosningum.

Fíflalátum Samfylkingarinnar vegna ESB eru engin takmörk sett.

Miðvikudagur 29. 04. 15 - 29.4.2015 19:30

Í dag ræddi ég við Arnar Þór Jónsson, lektor í lögfræði, í þætti mínum á ÍNN og verður hann frumsýndur klukkan 20.00 í kvöld og síðan endursýndur á tveggja tíma fresti til 18.00 á morgun. Arnar Þór hefur verið beinskeyttur og rökfastur í gagnrýni sinni á ýmislegt sem snertir lögmenn og það sem sagt er um dómstólana,

Eins og sagt var frá hér í gær gagnrýndi Kolbeinn Óttarsson Proppé, blaðamaður á Fréttablaðinu, það sem Jón Ásgeir Jóhannesson, hæstráðandi á blaðinu, sagði um niðurstöðu hæstaréttar sem vísaði Aurum-málinu, þar sem Jón Ásgeir er einn sakborninga, aftur til meðferðar í héraðsdómi. Kolbeinn sagði Jón Ásgeir fara með rangt mál. Hæstiréttur hefði ekki fært þau rök fyrir niðurstöðu sinni að Sverrir Ólafsson meðdómari í Aurum-málinu væri bróðir Ólafs Ólafssonar sem sakfelldur var í Al Thani-málinu. Málinu hefði verið vísað að nýju í héraðsdóm vegna ummæla Sverris um sérstakan saksóknara. Gaf Kolbeinn til kynna að Jón Ásgeir væri haldinn vænisýki,

Jón Ásgeir svarar fyrir sig í dag með grein á vefsíðunni visir.is og má lesa hana hér. Í greininni segir Jón Ásgeir að Kolbeinn stundi „yfirborðsblaðamennsku“ hann skrifi „fréttir án þess að reyna að gægjast undir yfirborðið til að koma auga á kjarna málsins“. Þetta er harkalega sagt um Kolbein sem hvað eftir annað er höfundur forsíðufrétta Fréttablaðsins og var nýlega ráðinn þangað aftur eftir störf sem blaðafulltrúi um nokkurt skeið, meðal annars hjá Strætó.

Eftir að hafa ráðist á Kolbein heldur Jón Ásgeir fast við að sjálfur hafi hann rétt fyrir sér um túlkunina á dómi hæstaréttar. Túlkun Jóns Ásgeirs er í anda þeirra hártogana sem hann stundar jafnan til að gera eigin hlut sem bestan. Greinar hans sjálfum sér til varnar eru ótalmargar og í þeim felst jafnan megn fyrirlitning á þeim sem honum eru ósammála. Að hann skuli nú telja sér til framdráttar að deila við dómara hæstaréttar af því að hann viti betur en þeir hvers vegna dómur þeirra féll á þann veg sem hann gerði sýnir aðeins ógöngur hans.

 

Þriðjudagur 28. 04. 15 - 28.4.2015 20:30

Viðtal mitt við Óttar Guðmundsson lækni og höfund bókarinnar um Megas á ÍNN miðvikudaginn 22. apríl er komið á netið og má sjá það hér. 

Hér var í gær sagt að föstum mánudagdálki eftir Guðmund Andra Thorsson hefði verið rutt á brott úr Fréttablaðinu vegna greinar eftir hæstráðanda blaðsins, Jón Ásgeir Jóhannesson, þar sem hann kveinkaði sér undan réttarkerfinu. Í Fréttablaðinu í dag má lesa mánudagsdálk Guðmundar Andra með þessari viðbót: „Grein Guðmundar Andra átti að birtast í blaði gærdagsins. Lesendur er beðnir velvirðingar á þessu.“ Þarna er ekki orðuð nein afsökun til Guðmundar Andra. Veit ritstjórnin að honum má bjóða allt þegar Jón Ásgeir á í hlut?

Í húskarlahorni Fréttablaðsins birtist í dag klausa eftir Kolbein Óttarsson Proppé blaðamann sem sýnir að innan ritstjórnar blaðsins eru menn ekki allir á sama máli og Jón Ásgeir. Hann fari með rangt mál þegar hann segi hæstarétt hafa vísað Aurum-málinu aftur heim í hérað vegna þess að sérstakur saksóknari hafi ekki vitað að meðdómarinn Sverrir sé bróðir Ólafs Ólafssonar, hið rétta sé að málinu hafi verið vísað frá vegna ummæla Sverris eftir að héraðsdómurinn féll.

„Mögulega hentar sú mynd sem Jón Ásgeir málar upp honum og hans málstað betur en sú rétta, en hún er engu að síður röng, þótt hún sé máluð með hans eigin litum,“ segir Kolbeinn en það sé kannski skiljanlegt  „að maður [Jón Ásgeir] sem hefur verið í dómsal í þrettán ár að verja sig líti ekki hlutlausum augum á dómkerfið“. Vitnar hann síðan í enskan málshátt sem hann segir eiga við um Jón Ásgeir, málshátt sem megi „heimfæra á vænisýki“.

Vilji Jón Ásgeir finna einhvern sem leitt hafi til niðurstöðu hæstaréttar sé „Sverrir Ólafsson nærtækasti kosturinn“.  Í samtali við ríkisútvarpið hafi hann sakaðan sérstakan saksóknara um „örvæntingarfullar og jafnvel óheiðarlegar aðgerðir“ og ýmislegt fleira.

Þetta er beinskeytt árás á Jón Ásgeir í Fréttablaðinu. Hann er afhjúpaður sem væniskjúkur rangtúlkandi á dómi hæstaréttar. Sé hann samkvæmur sjálfum sér grípur hann til gagnaðgerða. Hvort þær felast í að Kolbeinn verði leystur frá störfum eða öðru kemur í ljós. Jón Ásgeir fór á sínum tíma í meiðyrðamál af því að taldi ritvillu vísvitandi ranga túlkun á dómi hæstaréttar.

 

 

Mánudagur 27. 04. 15 - 27.4.2015 19:00

Í dag var birt svarbréf frá Edgars Rinkevics, utanríkisráðherra Lettlands, til Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra. Þar er um að ræða svar við bréfi Gunnars Braga til ráðherraráðs ESB frá 12. mars 2015 um að Ísland sé ekki ESB-umsóknarríki og beri að afmá það sem slíkt af listum ESB.

Rinkevics segir að ráð ESB ætli að „take note of“ - taka mið af afstöðu íslensku ríkisstjórnarinnar og síðan í ljósi bréfsins að skoða „certain further practical adjustments to the EU Council working procedures“ það er frekari praktískar breytingar á vinnureglum ESB-ráðsins.

Í þessu felst í fyrsta lagi viðurkenning á að Ísland sé ekki lengur ESB-umsóknarríki og í öðru lagi að breyta þurfi vinnureglum ESB af því að hér standi ráðherraráðið í fyrsta sinn frami fyrir slíkri ósk.

Síðan kemur þessi setning:

„We would like to confirm the importance that the EU attaches to relations with Iceland which continues to be an important partner for the EU through its participation in the European Economic Area agreement, its membership of the Schengen area as well as through co-operation on Arctic matters.“


Í setningunni felst að ráðherraráðið lítur þannig á að samstarfið við Ísland sé ekki við „candidate“, umsækjanda, heldur við EES- og Schengen-aðildarríki auk þess eigi ESB og Ísland samstarf um norðurslóðamál.

Er unnt að búast við skýrara svari í nafni 28 ríkja að fenginni umsögn framkvæmdastjórnar ESB? Varla.


Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur hefur um árabil skrifað dálk í Fréttablaðið á mánudögum. Í gær skilaði hann, að eigin sögn, dálki sem átti að birtast í dag. Ekki birtist neitt eftir Guðmundar Andra í Fréttablaðinu í dag en á stað hans í blaðinu á mánudögum hafði verið sett grein eftir Jón Ásgeir Jóhannesson, hæstráðanda Fréttablaðsins.

Efni greinarinnar er gamalkunnugt stef Jóns Ásgeirs um að hann sé ofsóttur af íslenska réttarkerfinu. Hann segir: „En af hverju gerist þetta aftur og aftur? Fyrir mér er svarið einfalt – kerfið sér jú um sína – og ver sig með kjafti og klóm.“  Það eru sem sagt kerfislægar ástæður fyrir að Jón Ásgeir er sóttur til saka.

Spurninginn er hvort Guðmundur Andri láti sér líka að duttlungar Jóns Ásgeirs ráði birtingu dálka hans. Skilur hann kannski átroðninginn sem brottrekstur?

 

Sunnudagur 26. 04. 15 - 26.4.2015 19:00

George Stephanopoulos, fyrrverandi almannatengill fyrir Bill Clinton í Hvíta húsinu, núverandi stjórnandi hjá ABC-sjónvarpsstöðinni á þættinum ABC News´This Week átti í vök að verjast sunnudaginn 26. apríl þegar hann ræddi fjármál Clinton-sjóðsins og Clinton-hjónanna við repúblíkanann Newt Gringrich, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, í forsetatíð Bills Clintons og tvo landsþekkta blaðamenn.

Kosningaskrifstofa Hillary Clinton neitaði að senda nokkurn fulltrúa sinn í umræðuþætti helgarinnar til að verja málstað forsetaframbjóðandans gegn þeim ásökunum sem blöð hafa birt úr væntanlegri bók eftir Peter Schweizer, Clinton Cash. Í þætti Stephanopoulos, sem var mjög brugðið við að hafa fengið höfnun frá kosningastjórn Hillary, var Donna Brazile málsvari Demókratasflokksins. Hún reyndi árangurslaust að gera lítið úr væntanlegri bók án þess að hún hefði lesið hana. Lét hún eins og nú væri verið að umskrifa hana vegna leiðréttinga sem birst hefðu í fjölmiðlum.

Newt Gingrich lá ekki á skoðun sinni. Hann telur að leggja eigi fram kæru vegna þess sem fram hefur komið, að minnsta kosti verði að hefja opinbera sakamálarannsókn. Hér sé ekki um pólitískt vandamál að ræða heldur virðingu fyrir bandarísku stjórnarskránni sem banni viðtöku fjár frá erlendum ríkisstjórnum án þess að fyrir liggi skýr heimild Bandaríkjaþings.

Nú liggi fyrir að í landinu hafi setið utanríkisráðherra sem hafi stórhækkað gjaldtöku sína fyrir að flytja ræður og þá megi sjá mörg merki um fólk sem gefið hafi milljónir dollara og hafi einnig í leiðinni þurft aðstoð utanríkisráðuneytisins. Þar sem hún hafi setið í Watergate-nefndinni hafi hún vitað nákvvæmlega hvað þurfti að gera. Hún hafi þurrkað út 33.000 tölvubréf. Richard Nixon hafi aðeins þurrkað út 18 mínútur á spólunum í Hvíta húsinu. Taldi Gingrich að yrði málið lagt fyrir kviðdóm mundi hann líta á það í heild og telja að um stjórnarskrárbrot væri að ræða.

Bloomberg-blaðamennirnir Mark Halperin og John Heilemann réttu Stephanopoulos og Brazile ekki hjálparhönd heldur áréttuðu alvarleika málsins fyrir Clinton-hjónin. Halperin sagði: „.. Þetta er stóralvarlegt. Ímyndið ykkur að aðstoðar-utanríkisráðherra hefði gert sem við vitum að Hillary Clinton – sem við vitum að þau [Clinton-hjónin] gerðu. Hann hefði verið rekinn úr utanríkisráðuneytinu.“

Laugardagur 25. 04. 15 - 25.4.2015 19:00

Clinton-hjónin í Bandaríkjunum eru vön að vera á milli tanna fjölmiðlamanna í heimalandi sínu og annars staðar. Á það er bent að þau hafi á sínum snerum menn sem eru leiknir í að snúa umræðum um þau á þann veg að skaðinn verði sem minnstur fyrir þau. Það sé stundum gert með því einu að þeir koma fram í fjölmiðlum og segja: „Þetta er nú ekkert nýtt“ og við það eitt fari fjölmiðlamenn einfaldlega að tala um eitthvað annað.

Hillary Clinton stefnir nú í annað sinn að forsetaframboði fyrir Demókrataflokkinn. Hún tapaði árið 2008 prófkjöri fyrir Barack Obama. Prófkjörsbaráttan er hafin og er Hillary í raun eini frambjóðandinn innan flokks demókrata en orðspor hennar og Bills Clintons er kannski helsti andstæðingur hennar. Nú beinist athygli að Clinton-stofnuninni og sjóði á hennar vegum.

Venjulega eru blöð á borð við The New York Times (NYT) og The Washington Post demókrötum hliðholl. Fimmtudaginn 23. apríl reið NYT hins vegar á vaðið með gagnrýninni frásögn úr bók eftir Peter Schweizer sem væntanleg er á næstunni og heitir Clinton Cash og snýr að fjármálasviptingum í tengslum við Clinton-hjónin.

Fréttin í NYT snerist um Clinton-stofnunina, Clinton Foundation, og kaup Rússa á úraníumfyrirtæki. Seljendur gáfu stórfé til Clinton-stofnunarinnar án þess að hún gerði nægilega góða grein fyrir gjöfinni. Salan til Rússa gat ekki gengið eftir nema bandaríska utanríkisráðuneytið gæfi leyfi sitt. Það var gert formlega í nafni utanríkisráðherrans sem var Hillary Clinton á þeim tíma. Hillary segir að hún hafi ekki vitað um þetta málið hafi ekki komið beint til kasta hennar.

Ekki er í sjálfu sér dregið í efa að Hillary hafi ekki komið að afgreiðslu leyfisins í utanríkisráðuneytinu en hún bar pólitíska ábyrgð á henni. Fréttirnar og umræðurnar um þetta mál hafa ýtt undir þá skoðun sem er næsta almenn ef marka má kannanir að ekki sé unnt að treysta henni, hún sé ekki heiðarleg þótt litið sé á hana sem öflugan leiðtoga.

Bandarískir álitsgjafar segja að ekki sé unnt að afgreiða þetta mál með orðunum: „Þetta er nú ekkert nýtt.“

 

Föstudagur 24. 04. 14 - 24.4.2015 22:50

Í húskarlahorni Fréttablaðsins birtist í dag:

„Sú fyrsta gleymdist

Þá fékk Hanna Birna Kristjánsdóttir viðurkenningu sem fyrsta konan til að gegna embætti innanríkisráðherra. Það er einnig spaugilegt í ljósi þess að embættið er nýtt, aðeins einn hefur sinnt því áður en það var Ögmundur Jónasson. Embættið hét áður dómsmálaráðherra og því embætti hafa mýmargir karlmenn sinnt. Aðeins ein kona gegndi embætti dómsmálaráðherra. Það var Ragna Árnadóttir í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Ragna gleymdist hins vegar og fékk enga viðurkenningu.

fanney@frettabladid.is“

Höfundur textans er Fanney Birna Jónsdóttir, fastur penni Fréttablaðsins, sem meðal annars skrifar leiðaraígildi blaðsins. Hið hlálega við textann hér að ofan er að höfundurinn veit hvorki að Auður Auðuns varð dómsmálaráðherra árið 1970 né Sólveig Pétursdóttir árið 1999.

Vanþekking setur svip á þessi skrif fasta pennans en einnig óvild í garð Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og er það ekki í fyrsta sinn sem hún birtist í skrifum Fanneyjar Birnu.

Vinnubrögð á Fréttablaðinu hafa oft verið umdeilanleg. Er skemmst að minnast árásarinnar á hæstarétt vegna Aurum-málsins þar sem hagsmunir Jóns Ásgeirs Jóhannessonar eru í húfi. Útgefandi og aðalritstjóri blaðsins, Kristín Þorsteinsdóttir, hafði í hótunum færu dómarar ekki að kröfu blaðsins um að binda enda á málið. Nú hefur hið gagnstæða gerst. Hvernig skyldi aðalritstjórinn standa að framkvæmd hótunarinnar?

 

Fimmtudagur 23. 04. 15 - 23.4.2015 18:10

Í gær sagði ég hér á síðunni að Ed Miliband hefði náð forystu fyrir Verkamannaflokkinn í kosningabaráttunni í Bretlandi vegna þess hve hart hann berðist og af mikilli sannfæringu fyrir að hann ætti að verða forsætisráðherra. Í dag les ég í breska vikuritinu The Spectator, stuðningsblaði Íhaldsflokksins, að þar á bæ hafi menn verulegar áhyggjur af því hve dauft sé yfir David Cameron, flokksformanni og forsætisráðherra. „He knows that even his closest allies are worried he may lose the election if he doesn't show more passion,“ segir í viðtali sem James Forsyth, stjórnmálaritstjóri blaðsins, og Fraser Nelson ritstjóri taka við Cameron.

Þeir spyrja Cameron hvers vegna svo margir, meira að segja ráðherrar í ríkisstjórn hans, telji að hann verði að sýna raunverulegan áhuga á að vinna. „Ég veit það ekki,“ svarar hann. „Það er eitthvað við mig – mér tekst alltaf að sýna rólega mýkt eða eitthvað slíkt.“ Þetta hljómar eins og andartaks sjálfskoðun, hann brosir hins vegar og setur sig að nýju í stellingar: „En sjáið, hvar var ég í gær? Ég fór í fimm kjördæmi, flutti fimm ræður, ég hætti ekki fyrr en löngu eftir að hinir flokksleiðtogarnir voru komnir heim til að æfa sig fyrir sjónvarpsviðtöl eða eitthvað slíkt. Ég var á ferðinni og einnig í dag. Sjáið dagskrána! Ég veit ekki hvað ég get gert meira.“

Íhaldsmenn hafa ekki mátt sín neins í Skotlandi frá því að Margaret Thatcher leiddi flokkinn fyrir aldarfjórðungi, þeir hafa reist fylgi sitt á stuðningi kjósenda í Englandi. Verkamannaflokkurinn hefur litið á Skotland sem traust vígi sitt en eftir sjálfstæðiskosningarnar þar 18. september 2014 hefur fjarað undan flokknum og nú er spáð að hann tapi þar 25 þingsætum til Skoska þjóðarflokksins (SNP) í kosningunum fimmtudaginn 7. maí, eftir aðeins tvær vikur. Þrátt fyrir þetta er líklegt að Ed Miliband verði næsti forsætisráðherra Breta vegna þess styrks sem Verkamannaflokkurinn sýnir í Englandi.

Íhaldsmenn eru ráðþrota andspænis tölum í könnunum sem bera þetta með sér og spjótin beinast að Cameron – hann sýni ekki af sér næga ákefð og baráttuvilja heldur treysti á að tölur um aukna hagsæld Bretlands fleyti honum áfram inn í Downing-stræti 10. Boðskapur Camerons er að í Bretlandi hafi orðið einstæð umskipti til hins betra og það sé engin tilviljun. Vilji þjóðin halda áfram á sömu braut verði hún að kjósa Íhaldsflokkinn. Þetta er rétt en nær ekki eyrum fólks.

Miðvikudagur 22. 04. 15 - 22.4.2015 18:00

Í dag ræddi ég við Óttar Guðmundsson lækni í þætti mínum á ÍNN um nýja bók hans um Magnús Þór Jónsson, Megas, og dauðasyndirnar sjö. Bókin kom út á dögunum í tilefni af 70 ára afmæli Megasar og hefur hún mælst vel fyrir hjá bókakaupendum og gagnrýnendum. Þar er sagt frá ævi og listamannsferli umdeilds samtímamanns. Þáttinn má sjá kl. 20.00 í kvöld og á tveggja tíma fresti til 18.00 á morgun.

Síður en svo er ég stuðningsmaður Eds Milibands eða Verkamannaflokksins í Bretlandi en fari svo fram sem horfir sýnist hann verða næsti forsætisráðherra Breta með stuðningi skoskra þjóðernissinna. Traust í garð Milibands vex eftir því sem hann birtist fleirum í kosningabaráttunni – hann berst af hita og sannfæringu. David Cameron, forsætisráðherra Íhaldsflokksins, er sléttur og felldur og gætir sín á að segja lítið annað en hið fyrirsjáanlega. Litríkur persónuleiki er í námunda við Cameron innan flokksins, Boris Johnson, borgarstjóri í London, sem stefnir nú á þing að nýju.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor dregur upp skarpa og vel rökstudda mynd af því hve illa var haldið á eignum sem urðu næsta munaðarlausar eftir hrun bankanna. Seðlabanki Íslands gætti ekki hagsmuna sinna og þjóðarinnar sem skyldi vegna veðsins sem hann átti í FIH-bankanum í Danmörku. Veðið kom til sögunnar í hrunvikunni þegar menn vonuðu að bjarga mætti einum banka, Kaupþingi.

Það kom í hlut Más Guðmundssonar seðlabankastjóra að gæta hagsmuna seðlabankans þegar á reyndi vegna ráðstöfunar á FIH-banka. Fór það allt í handaskolum eins og Hannes Hólmsteinn lýsir. Hann nefnir tvö önnur dæmi um illa meðferð á eignum Íslendinga erlendis. Á Facebook-síðu sinni í dag segir Hannes Hólmsteinn:

„Tap samtals 270 milljarðar króna! En fjölmiðlar virðast flestir hafa lítinn áhuga á þessum stórmálum og eltast við einhvern tittlingaskít, sem þeir telja sig geta fundið um Illuga Gunnarsson og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Og netúlfarnir (Illugi, Egill, Guðmundur Andri) bæra ekki á sér, þótt þeir séu vanir að ýlfra af ánægju við minnsta keim af hneyksli.“

Má ég í vinsemd minna Hannes Hólmstein á að hann er ekki almannatengill, þeir eru helsta fréttalindin um þessar mundir.

 

Þriðjudagur 21. 04. 15 - 21.4.2015 18:00

Kútter Sigurfari á Akranesi og framtíð hans er áhyggjuefni þeim sem telja þetta gamla skip mikilvægan minjagrip úr sögu sjósóknar á Íslandi. Kútter Sigurfari er 86 smálesta eikarskip smíðað 1885 á Englandi. Hann var notaður á Íslandsmiðum fram til ársins 1919, fór þá til Færeyja og var gerður þaðan út til ársins 1970. Hann var gefinn Byggðasafninu í Görðum á Akranesi og hefur verið þar síðan. Árið 1974 var kútter Sigurfari fluttur frá Færeyjum til Akraness á vegum Kiwanisklúbbs Akraness að frumkvæði séra Jóns M. Guðjónssonar. 

Fyrir 40 árum var Þjóðhátíðarsjóður stofnaður en í honum var andvirði myntar sem Seðlabanki Íslands lét slá og selja í tilefni af 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar. Fé úr sjóðnum var meðal annars veitt til varðveislu menningarminja og runnu styrkir nokkrum sinnum úr sjóðnum til viðgerðar á kútter Sigurfara. Minnist ég farar okkar í sjóðsstjórninni í Byggðasafnið á Görðum til að kynnast því hvernig staðið var að verki.

Nú 40 árum síðar hafa menn árum saman velt á milli sín hugmyndum um að sjósetja kútterinn, ekki sé unnt að vernda hann á landi. Kostnaður við slíka endurgerð kúttersins, sem nú er talinn hættulegur gestum byggðasafnsins, er svo mikill að hún sýnist úr sögunni, megi marka orð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætis- og menningarminjaráðherra, á alþingi mánudaginn 20. apríl.

Ráðherrann segir að aðilar málsins sjái núna tækifæri í að haga endurgerð á kútter Sigurfara þannig að hún verði jafnframt menntunar- og þjálfunarvettvangur fyrir handverkið sjálft, fyrir gamla verkhætti og bátasmíðar. Þannig gæfist færi á að mennta hóp ungra handverksmanna með þekkingu á bátasmíð sem síðan yrði mannauðslind fyrir þjóðina alla við endurgerð gamalla báta sem bíða þess um land allt að verða gert gagn. Eigi þessi hugmynd að ganga eftir þarf að gera ýmsar ráðstafanir, svo sem að aflétta þeirri stöðu af skipinu að það teljist til fornminja því að í lögum um menningarminjar er ekki að óbreyttu gert ráð fyrir slíkri endurbyggingu að óbreyttu.

Verði sú leið farin sem þarna er kynnt yrði Sigurfari að lifandi veruleika í höndum þeirra sem fengju tækifæri til að endurgera hann á þennan hátt. Vonandi fæst niðurstaða í málið áður en ekkert stendur eftir nema hættulegar fúaspýtur.

Mánudagur 20. 04. 15 - 20.4.2015 21:00

Jón Atli Bene­dikts­son var  kjör­inn rektor Há­skóla Íslands í dag með 52,8% at­kvæða.

Á kjör­skrá voru 14.345 manns og var kosn­ingaþátt­taka 52,7%. Guðrún Nordal keppti einnig um embættið. Ég ræddi við þau bæði á ÍNN í aðdraganda kosninganna og hér má sjá viðtal mitt við Jón Atla. 

 

Nú er viðtal mitt við Pál Matthíasson, forstjóra Landspítalans, komið inn á netið og má sjá það hér. Ég virði sjónarmið þeirra sem vilja íhuga alla kosti varðandi staðarval fyrir hinn nýja spítala en er eindregið þeirrar skoðunar að þeir sem vilja hann ekki við Hringbraut eyði hugarorku sinni og tíma til einskis með skrifum eða annars konar málflutningi. Sannfærðist ég endanlega um það þegar ég ræddi við Pál.

 

Sunnudagur 19. 04. 15 - 19.4.2015 21:20

Kosið var þings í Finnlandi í dag og líklegt er að Juha Sipilä, formaður Miðflokksins, verði næsti forsætisráðherra og taki við af Alexander Stubb, formanni mið-hægriflokksins. Samlingspartiet, sem liggur við að kalla megi Samfylkinguna sé nafnið íslenskað. Forsætisráðherraefnið segist ætla að skapa 80.000 ný störf á næstu 4 árum og að Kínverjar séu mikilvægir alþjóðlegir samstarfsraðilar Finna.

Timo Soin er formaður Finnaflokksins sem eftir þingkosningar fyrir fjórum árum vildi ekki í ríkisstjórn vegna ágreinings um neyðarlán til Finna sem hann studdi ekki. 

Flokkurinn hélt nú sæti sínu sem einn finnsku fjórflokkanna. „Við höldum okkar sessi,“ sagði Soini en talið er að hann verði nú alvöru-þátttakandi í stjórnarmyndun.  Finnar fari aðra leið en þjóðir þar sem þeim er haldið frá ríkisstjórnum sem hafa horn í síðu ESB-aðildar. Í Finnlandi hafa foringjar annarra flokka reynt að fá Finnaflokkinn til samtarfs í því skyni að minnka sérstöðu hans.

Í dag skrifaði ég pistil hér á síðuna þar sem ég segi frá umræðum á alþingi um tillögu til þingsályktunar um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna við ESB. Þær sýna að Össur og Samfylkingin eru áfram strand í málinu.

 

 

Laugardagur 18. 04. 15 - 18.4.2015 17:15

Í dag var opnuð ný grunnsýning í Safnahúsinu við Hverfisgötu sem ber heitið Sjónarhorn, ferðalag um íslenskan myndheim. Markús Þór Andrésson er sýningarstjóri. Hann hefur tekið saman efni úr íslenskri listasögu og sjónrænum menningararfi. Að sýningunni standa höfuðsöfnin þrjú, Þjóðminjasafn Íslands, Listasafn Íslands og Náttúruminjasafn Íslands, ásamt Þjóðskjalasafni Íslands, Landsbókasafni- Háskólabókasafni og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Nú eru 15 ár frá því að hinu glæsilega húsi við Hverfisgötu var fengið hlutverk þjóðmenningarhúss undir forsjá forsætisráðuneytisins.  Flutti ég meðal annars ræðu af því tilefni 20. apríl árið 2000 og má lesa hana hér.

Á vefsíðu Þjóðminjasafns segir Jóhanna Bergmann:

„Þjóðmenningarhúsið var starfrækt sem sjálfstæð stofnun til 1. júní 2013 þegar Þjóðminjasafn Íslands tók við starfseminni. Á þeim rúmlega 13 árum sem Þjóðmenningarhúsið starfaði voru settar upp hátt í hundrað sýningar innan veggja þess og ótal tónleikar, ráðstefnur, fundir, móttökur og aðrir viðburðir fóru þar fram. Þúsundir skólabarna á öllum aldri lögðu leið sína í húsið í fylgd kennara sinna að kynnast nánar því fjölbreytta efni sem fjallað var um á sýningum í húsinu. Heillandi heimur handritanna, á sýningu Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum frá hausti 2002, laðaði jafnt og þétt að bæði nemendur og ferðamenn.“

Frá og með sumardegi fyrsta árið 2014 hefur húsið heitað Safnahúsið. Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður hefur verið drifkrafturinn að baki hinu mikla átaki að sameina krafta manna í sex sjálfstæðum stofnunum til að leggja efni í sýninguna sem var opnuð í dag en um hana má fræðast á vefsíðu Safnahússins hér. 

Þegar Safnahúsið gekk fyrst í endurnýjun lífdaga sem sjálfstæð stofnun undir merkjum Þjóðmenningarhússins hefði verið ógjörningur að tengja það sem þá gerðist á þann hátt sem nú hefur verið gert gripum úr hinum sex söfnum. Á undanförnum 15 árum hafa æ fleiri áttað sig á hve einstakt er að nýta húsið til að kynna listsköpun og listfengi þjóðarinnar. Tekst það á frábæran hátt á þessari sýningu auk þess sem veitingasala og verslun fá betra rými en áður var og lestrarsalurinn nýtur sín betur sem slíkur en verið hefur, meðal annars með gömlu lesborðunum.

Föstudagur 17. 04. 15 - 17.4.2015 19:30

Þegar Evrópuvaktin var enn við lýði birtust þar reglulega fréttir um að Grikkir stæðu við hengiflugið og allt benti til þess að þeir féllu í hyldýpið. Á síðustu stundu var þeim þó bjargað. Spár um yfirvofandi gjaldþrot heyrast hins vegar áfram.

Fimmtudaginn 16. apríl var haft eftir Christine Lagarde, forstjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS), að Grikkir yrðu að greiða afborgun af láni hjá sjóðnum hinn 12. maí 2015. Undan því yrði ekki vikist. Þetta er klippt og skorið: annaðhvort borga Grikkir eða gríska ríkið verður gjaldþrota.

Í Berlingske Tidende segir í dag að gríska ríkisstjórnin hafi hreyft því með aðstoð milligöngumanna hvort fresta mætti afborguninni 12. maí. Yanis Varoufakis, fjármálaráðherra Grikklands, segir þetta rangt. Bent er á að yfirlýsing Lagarde beri með sér að um sé að ræða viðbrögð við spurningu og svarið sé afdráttarlaust. Hún sagði að innan AGS hefðu menn aldrei fyrr staðið frammi fyrir ósk fulltrúa lands með þróað hagkerfi um greiðslufrest og það yrði ekki orðið við slíkum óskum.

Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, hefur tvisvar sinnum í þessari viku farið þungum orðum um Grikki.

Standard & Poor´s lækkaði lánshæfismat Grikklands úr B- í CCC+ miðvikudaginn 15. apríl – aðeins Úkraína og Venezúela standa verr í bókum matsfyrirtækisins. Viðbrögð urðu þau á mörkuðum að vextir á tveggja ára grískum ríkisskuldabréfum fóru í 26% og er það hæsta vaxtastig frá því að grísk stjórnvöld voru knúin til að grípa til efnahagsumbóta.

Yanis Varoufakis, fjármálaráðherra Grikklands, segir að úrsögn úr evru-samstarfinu sé ekki á döfinni heldur málamiðlun án þess að nokkrum séu settir afarkostir. Þrátt fyrir allar ráðstafanir í Grikklandi undanfarin ár eru skuldir Grikkja 175% af VLF og nú er hallinn á gríska ríkissjóðnum 12,2%. Hinn 12. maí eiga Grikkir að greiða AGS einn milljarð evra.

ESB er frægt fyrir að þæfa mál og velta lausnum á undan sér. Sambandið getur til dæmis ekki svarað bréfi utanríkisráðherra Íslands frá 12. mars 2015 og afmáð Ísland af lista yfir umsóknarríki. Það er þó smámál í samanburði við hrikalega stöðu Grikkja þar sem boltinn er látinn velta nema Christine Lagarde muni nú stöðva hann.

 

Fimmtudagur 16. 04. 15 - 16.4.2015 17:00

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra flutti í dag erindi á hádegisfundi Varðbergs í Norræna húsinu. Hér má lesa það í heild. Undir lok máls síns nefndi hann fimm atriði sem hann taldi sýna að varnarsamstarf Íslendinga og Bandaríkjamanna væri náið þrátt fyrir brottför varnarliðsins í september 2006. Ráðherrann sagði:

Í fyrsta lagi er varnarsamningur ríkjanna í fullu gildi. Bandarískir ráðamenn hafa staðfastlega ítrekað að skuldbindingar þeirra samkvæmt samningnum standa óhaggaðar.

Í öðru lagi er á grundvelli varnarsamningsins og samkomulagsins frá 2006 í gildi bandarísk varnaráætlun sem gerir ráð fyrir að varnir Íslands séu tryggðar með hreyfanlegum viðbúnaði og liðsafla. Þessi áætlun er endurskoðuð reglulega með hliðsjón af breyttum aðstæðum í samráði aðila í millum þótt ábyrgð á framkvæmd hennar sé í höndum Evrópuherstjórnar Bandaríkjanna í Stuttgart.

Í þriðja lagi hefur bandaríski flugherinn tekið árlega þátt í loftrýmisgæslu á Íslandi allt frá því stofnað var til þess fyrirkomulags árið 2007. Með þessu viðheldur Bandaríkjaher staðarþekkingu á Íslandi og starfslið okkar og flugþjónustuaðilar halda sterkum tengslum við bandaríska samstarfsaðila. Bandarískar gæsluvaktir eru stærri að umfangi en vaktir annarra flugherja og því meira krefjandi fyrir okkur, auk þess sem aukin tækifæri felast í sameiginlegri þjálfun og æfingum þegar loftrýmisgæslunnar nýtur við.

Í fjórða lagi hafa bandarísk stjórnvöld staðið þétt við hlið okkar innan Atlantshafsbandalagsins í mannvirkjamálum.

Í fimmta lagi fara fram reglulegar viðræður milli stjórnvalda landanna um öryggis- og varnarmál.

„Það er því staðföst skoðun mín að samstarfið gangi í alla staði vel. Það er traust og byggir á áratuga gömlum vinatengslum. Okkar verkefni er að hlúa að, viðhalda og styrkja enn frekar þessi tengsl með gagnkvæma hagsmuni ríkjanna að leiðarljósi. Þetta verður áfram eitt af mínum helstu markmiðum meðan ég gegni embætti utanríkisráðherra,“ sagði Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra.

Í umræðum um ræðu ráðherrans lét ég í ljós þá skoðun að ætti að hrinda áformunum sem fjórir varnarmálaráðherrar Norðurlanda og utanríkisráðherra Íslands kynntu hinn 10. apríl í framkvæmd á trúverðugan hátt yrðu Bandaríkjamenn að halda úti herstöð á Norðurlöndunum. Hér má lesa yfirlýsingu ráðherranna.

Miðvikudagur 15. 04. 15 - 15.4.2015 18:15

Í dag ræddi ég við Pál Matthíasson, forstjóra Landspítalans, í þætti mínum á ÍNN. Þáttinn má sjá klukkan 20.00 í kvöld og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun. Þeir sem hafa áhuga á að kynnast væntanlegum byggingum sjúkrahússins við Hringbraut ættu að horfa á þáttinn.

Þegar þetta er skrifað sýnir danska sjónvarpið gesti ganga til 75 ára afmælisveislu Margrétar II. Danadrottningar í Kristjánsborgarhöll. Danir eru sérfræðingar að sýna beint frá því þegar kóngafólk og annað fyrirfólk gengur til veislu og gestirnir kunna einnig að ganga fram hjá ljósmyndurum og blaðamönnum. Farið er orðum um ágæti gesta og klæðnað kvenna. Þarna gengu Ólafur Ragnar og Dorrit og auk þess íslensku sendiherrahjónin, Benedikt Jónsson og Aðalheiður Óskarsdóttir, og Örnólfur Thorsson forsetaritari.

Á bæjarstjórnarfundi á Akranesi síðdegis þriðjudaginn 14. apríl lögðu bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar á Akranesi, Ingibjörg Valdimarsdóttir og Valgarður Lyngdal Jónsson, fram tillögu um „að ákvörðun um framhald [ESB-]aðildarviðræðna verði sett í þjóðaratkvæðagreiðslu“.

Tillagan var felld með sex atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins og óháðra. Þrír fulltrúar Bjartrar framtíðar og Samfylkingarinnar greiddu hins vegar atkvæði með henni. Í framhaldi af þessu lögðu bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram bókun um að ESB-málið væri á forræði alþingis og ríkisstjórnar og treystu bæjarfulltrúarnir alþingismönnum „til að leiða málið til lykta þannig að sem víðtækust sátt náist um það“.

Sama dag og þessi undarlega ESB-tillaga var snarlega afgreidd í bæjarstjórn Akraness efndu alþingismenn til umræðna í 10 klukkustundir um tillögu stjórnarandstöðunnar um sama efni. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, er fyrsti flutningsmaður tillögu stjórnarandstöðunnar. Hann var hins vegar ekki í þingsalnum til að fylgja tillögunni úr hlaði og kom það í hlut Katrínar Jakobsdóttur, formanns VG.

Að Katrín skyldi standa í þessum sporum er dæmigert fyrir niðurlægingu VG í ESB-málinu – flokkurinn segist andvígur aðild en gengur þeirra erinda sem ESB-aðildarsinnar krefjast til að tryggja sér völd og áhrif - fylgi vkið flokkinn minnkar hins vegar jafnt og þétt.

 

Þriðjudagur 14. 04. 15 - 14.4.2015 19:10

Það fór vel á því að við upphaf þingfundar mánudaginn 13. apríl, fyrsta fundar eftir páskaleyfi, skyldi Einar K. Guðfinnsson þingforseti minnast þess að föstudaginn 10. apríl voru liðin 75 ár frá því að alþingi „gerði eina mikilvægustu samþykkt í sögu þjóðarinnar,“ eins og hann orðaði það og sagði síðan:

„Þá tóku Íslendingar í raun að fullu við stjórn allra málefna ríkisins. Þetta var annars vegar ályktun um meðferð æðstu stjórnar ríkisins þar sem ríkisstjórn Íslands var að svo stöddu falin meðferð konungsvalds og ályktun um að Ísland tæki meðferð utanríkismála og landhelgisgæslu að öllu leyti í sínar hendur.

Þessir atburðir komu í kjölfar innrásar Þjóðverja í Danmörku 9. apríl 1940 en þar með urðu Danir ófærir um að rækja skyldur sínar samkvæmt dönsk-íslensku sambandslögunum frá 1918. Fregnin um innrásina í Danmörku barst hingað þegar um morguninn 9. apríl. Sat ríkisstjórnin á fundum allan daginn, svo og utanríkismálanefnd, og mikið samráð var milli þingmanna og þingflokka. Miklu skipti að ríkisstjórnin hafði séð fyrir hættuna og undirbúið sig með leynd af mikill framsýni og öryggi fyrir þá atburði er þarna urðu og þannig tryggt hagsmuni íslenska ríkisins á ógnartímum í sögu mannkyns.

Á grundvelli stjórnskipulegs neyðarréttar tók Alþingi á næturfundi aðfaranótt 10. apríl 1940, með samhljóða atkvæðum allra þingmanna, ákvörðun um fullkomin yfirráð Íslendinga við þessar aðstæður á málefnum sínum. Næstu skref Íslendinga voru síðan stofnun embættis ríkisstjóra ári síðar og svo lýðveldis á Þingvöllum árið 1944. Báðir þessar ályktanir Alþingis eru til marks um veigamikið hlutverk þingsins í stjórnskipun Íslands og þátt þess í sögu þjóðarinnar. Þar skipti sköpum samheldni og örugg forusta. Það er fyllsta ástæða til að halda í heiðri sögu þessara atburða og minningu þeirra manna sem þá voru hér á vettvangi.“

Hvarvetna í Evrópu minnast menn nú viðburða úr eigin þjóðarsögu vegna síðari heimsstyrjaldarinnar. Er það til marks um litla söguþekkingu eða skort á áhuga að þessa stórviðburðar úr Íslandssögunni skuli aðeins minnst af forseta alþingis?

 

Mánudaginn 13. 04. 15 - 13.4.2015 20:30

Vefritið Andríki fékk MMR til að kanna hug landsmanna til þessarar spurningar: Vilt þú að Ísland sé umsóknarríki að Evrópusambandinu? Svörin voru birt í dag: Af þeim sem tóku afstöðu voru 50,5% andvíg því að Ísland væri umsóknarríki en 49,5% væru því fylgjandi. Miðað við vikmörk er ekki marktækur munur á milli þessara hópa.

Það er sérstakt rannsóknarefni að kynna sér spurningaflóruna í könnunum um afstöðu Íslendinga til ESB. Orðalag og efni spurninganna endurspegla það sem ber hæst í umræðum hverju sinni. Nú er spurt hvort Ísland sé umsóknarríki eða ekki!

Ríkisstjórnin hefur lýst yfir að svo sé ekki, óskað hefur verið eftir að stjórnendur ESB mái nafn landsins af lista sínum yfir umsóknarríki. Brusselmenn fara undan í flæmingi og ekki hafa borist fréttir af svörum þeirra þótt mánuður sé síðan utanríkisráðherra sjálfur afhenti það formanni ráðherraráðs ESB, utanríkisráðherra Lettlands.

Hugtakið „umsóknarríki“ er án inntaks að því er Ísland varðar þegar ríkisstjórnin hefur afmáð það og enginn stjórnmálaflokkur vill blása lífi í það nema þjóðin samþykki í sérstakri atkvæðagreiðslu að rætt skuli áfram við ESB.

Illskiljanlegt er að ráðherraráð ESB og framkvæmdastjórn virði ekki ósk ríkisstjórnarinnar í þessu efni. Það er örugglega ekki af umhyggju fyrir ESB-aðildarsinnum hér á landi heldur ráða einhverjir hagsmunir Brusselmanna sem telja sér sýnd óvirðing – var þó bréf utanríkisráðherrans samið eftir samráð hæstsettu embættismanna hans við ráðamenn ESB.

Sunnudagur 12. 04. 15 - 12.4.2015 20:30

Tilkynnt var í dag að Hillary Rodham Clinton ætlaði í annað sinn að leita eftir tilnefningu innan Demókrataflokksins til að verða forsetaframbjóðandi í kosningunum í nóvember 2016. Það var John Podesta, kosningstjóri Hillary, sem kynnti þetta í tölvubréfum til stuðningsmanna. Andstæðingar hennar minna til dæmis á að hún sé svo inngróinn hluti af bandaríska valdakerfinu að í 18 ár hafi hún ekki sest undir stýri á eigin bíl því að hún hafi í öll þessi ár nýtt sér þjónustu öryggisvarða.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra beindi athygli að ítökum kröfuhafa í opinberum umræðum hér á landi í ræðu á flokksþingi framsóknarmanna. Ábendingar ráðherrans kalla á athuganir fjölmiðlamanna og þar stendur Hörður Ægisson, viðskiptaritstjóri DV, fremstur meðal jafningja eins og til dæmis má sjá hér.

Um forvirkar athuganir eins og stundaðar eru í þágu kröfuhafanna gildir hið sama og jafnan um slíkar rannsóknir: ekki er allt sem sýnist. Leita má hins sanna með því að greina opinberar umræður og yfirlýsingar auk þess sem vitneskja um þá sem hlut eiga að máli auðvelda skilninginn.

Össur Skarphéðinsson, þingmaður og fyrrverandi ráðherra, segir á Facebook-síðu sinni í dag:

„Varla eru sálfræðilegar greiningar bestu sérfræðinga [unnar fyrir kröfuhafa] á leiðtogum íslenska ríkisins það slæmar að skaði hagsmuni ríkisins að birta þær. - 4. þm. Reykjavíkur norður - þ.e.a.s. ég -óskar því hér með eftir því að birtar verði allar sálfræðilegar greiningar sem forsætisráðherra kann að hafa undir höndum um sjálfan sig og aðra stjórnmálamenn. Varla mun úrskurðarnefnd um upplýsingamál standa gegn svo sakleysislegri beiðni. – Ég er strax farinn að hlakka til lestrarins – en geri ráð fyrir að fátt muni koma mér á óvart!“

 

Egill Helgason álitsgjafi bregst við orðum forsætisráðherra eins og áður þegar forvirk rannsóknarvinna kemur til umræðu. „En það er ekkert sérlega vænlegt að reyna að fylkja fólki á bak við eitthvað sem virkar eins og vænisýki. Það er eins og orðum forsætisráðherra sé sérstaklega beint til hóps sem er móttækilegur fyrir slíku, en hinir eru litlu nær,“ segir Egill.

Að leitast sé við að dreifa upplýsingum um 18 milljarða króna ráðgjafar- og greiningarvinnu á dreif með hótfyndni vekur spurningar um tilganginn.

 

 

Laugardagur 11. 04. 15 - 11.4.2015 19:15

Í dag skrifaði ég pistil hér á síðuna vegna þess hvernig Fréttablaðið hefur vegið að hæstarétti og sérstökum saksóknara undanfarna daga undir forystu aðalritstjóra og útgefanda blaðsins, Kristínar Þorsteinsdóttur. Á Kjarnanum birtist grein um sama efni eftir Þórð Snæ Júlíusson sem þekkir vinnubrögð á blaði undir áhrifamætti Jóns Ásgeirs Jóhannessonar af eigin raun, má lesa greinina hér.

Í raun er óskiljanlegt hvernig fjölmiðlamenn hjá 365 una þessari ofstjórn í þágu einkahagsmuna Jóns Ásgeirs.

Forystumenn Framsóknarflokksins hlutu glæsilegt endurkjör á flokksþinginu í dag: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hlaut 98,2% atkvæða í formannskjöri, Sigurður Ingi Jóhannsson 90% í varaformannskjöri og Eygló Harðardóttir 92% sem ritari. Þessi eindrægni um forystumennina ætti að auðvelda þeim að endurvekja áhuga kjósenda á flokknum, ekki veitir af því.

Setningarræða Sigmundar Davíðs vakti verðskuldaða athygli. Hann sagði í ríkisútvarpinu að þeir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra væru samstiga í mótun stefnu og aðgerða til að afnema fjármagnshöftin, skárra væri það. Nú verða stjórnvöld að láta hendur standa fram úr ermum, nógu oft og lengi hefur verið talað um að afnám hafta sé á næsta leiti. Aðdragandinn skapar sérkennilegt ástand á sem getur unnið gegn stöðugleikamarkmiðinu á lokastigum.

Hlægilegt er að sjá viðbrögð stjórnarandstöðunnar. Kafteinn stærsta stjórnarandstöðuflokksins, Birgitta Jónsdóttir, lét í hádeginu eins og þingtíminn væri of stuttur til að afnema höftin í vor – sá tími er teygjanlegur, hafi Birgitta pantað sér flug í frí, kemur varamaður fyrir hana. Össur Skarphéðinsson hefur áhyggjur af því að Bjarni Benediktsson viti ekki um áform Sigmundar Davíðs og Árni Páll Árnason segist ekki hafa fengið að sjá á spil ríkisstjórnarinnar – hvers vegna á hún að ráðgast við hann? Árni Páll telur ekki unnt að afnema höftin án þess að ganga í ESB – hefur hann skipt um skoðun?

 

 

Föstudagur 10. 04. 15 - 10.4.2015 19:10

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra var ómyrkur í máli í setningarræðu á 33. flokksþingi framsóknarmanna í dag þegar hann ræddi um kröfuhafana og sagði þá njósna og sálgreina eins og lesa má um hér. 

Forsætisráðherra sagði að umsvif kröfuhafanna hefðu verið og væru nán­ast óhugn­an­leg og ómögu­legt væri að segja til um hversu langt þau næðu, en ný­leg­ar frétt­ir hermdu að kröfu­haf­ar hefðu keypt hags­muna­gæsluþjón­ustu hér á landi fyr­ir 18 millj­arða króna á und­an­förn­um árum.

Hvað felst í orðinu „hagsmunagæsluþjónusta“? Það er þjónusta lögmanna og almannatengla og jafnvel stjórnmálamanna og fjölmiðlamanna. Þar sem ákvarðanir um hag kröfuhafanna ráðast á stjórnmálavettvangi er auðvelt að gera sér í hugarlund að sálfræðigreining sé notuð til að átta sig á hvar auðveldast er að koma ár sinni fyrir borð til að þrýstingurinn beri sem mestan árangur.

Í aðdraganda þingkosninganna sem verða eftir tæpan mánuð í Bretlandi tóku fjölmiðlamenn sig til, fóru í dulargervi og hófu viðræður við áhrifamenn í stjórnmálum í því skyni að fá þá til að sinna „hagsmunagæsluþjónustu“. Tveir gamalreyndir þingmenn og fyrrverandi ráðherrar, Sir Malcolm Rifkind úr Íhaldsflokknum og Jack Straw úr Verkamannaflokknum, féllu á prófinu og hættu pólitískum afskiptum vegna þess að þeir lýstu sig fúsa til samninga um það sem á ensku er kallað cash for access það er að þiggja greiðslur fyrir aðgang að ákvarðanaferli.

Við höfum orðið vitni að því undanfarna daga hvernig Fréttablaðinu er beitt til að hafa áhrif í þágu sakborninga. Þar eru hagsmunir eigenda blaðsins eru í húfi. Þessi tilraun til áhrifa á dómara og almenningsálitið blasir við öllum sem lesa blaðið.

Mikilvægt er að greint verði hvernig hagsmunagæsluþjónustan við kröfuhafa birtist á vettvangi stjórnmála og fjölmiðla. Þar er þjóðarhagur í húfi en ekki einstakra sakborninga.

Fimmtudagur 09. 04. 15 - 9.4.2015 19:00

Viðtal mitt við Lovísu Christiansen hjá Krýsuvíkursamtökunum er kominn á netið og má sjá hann hér.

Frakkar halda úti heimssjónvarpi TV5Monde sem sendir út efni á átta tungumálum til meira en 200 landa um heim allan að sögn stjórnenda stöðvarinnar. Að kvöldi miðvikudags 8. apríl brutust liðsmenn Íslamska ríkisins inn í netkerfi stöðvarinnar og lömuðu útsendinga hennar í 18 klukkustundir. „Þetta hefur aldrei gerst áður hjá okkur og aldrei áður í sögu sjónvarpsútsendinga,“ sagði Yves Bigiot útvarpsstjóri þegar hann lýsti árásinni.

Ráðist var á stöðina klukkan 20.00 (ísl. tíma) miðvikudaginn 8. apríl, samtímis voru settar tilkynningar á vefsíðu hennar á frönsku, ensku og arabísku með hótunum í garð Frakka. Jafnframt voru birt persónuskilríki og æviatriði ættmenna franskra hermanna sem sendir hafa verið til að berjast gegn Íslamska ríkinu. „Franskir hermenn haldið ykkur frá Íslamska ríkinu! Þið hafið tækifæri til að bjarga fjölskyldum ykkar, notfærið ykkur það!“ sagði í einni tilkynningunni og einnig „Kalífat netheima heldur áfram tölvustríði sínu við óvini Íslamska ríkisins.“

Stjórnendur TV5Monde náðu samfélagsmiðlum stöðvarinnar á sitt vald fjórum tímum eftir að inn á þá var ráðist en starfsemi stöðvarinnar komst ekki í eðlilegt horf fyrr en síðdegis fimmtudaginn 9. apríl. Frönsk yfirvöld sögðu um hryðjuverk að ræða og hvöttu stjórnendur fjölmiðla til að sýna árvekni, ekki væri unnt að útiloka frekari árásir. Sérfræðingar töldu að það hefði tekið marga menn nokkra mánuði að undirbúa árásina, þar væru ekki neinir viðvaningar á ferð. Þeir byggju þannig um hnúta að næstum ógjörningur væri að rekja slóð þeirra – hún kynni að liggja um heim allan.

Hér varð uppi fótur og fit í október 2014 þegar fréttir bárust um að í september hefði vefurinn khilafah.is verið skráður á Íslandi. Fyrir léninu var Azym Abdullah skráður en hann var sagður til heimilis á Nýja Sjálandi. Lénið var skráð hjá ISNIC og vefsíðan hýst af Thor Data Center, sem aftur var hýst af Advania. Eftir dálítið fum og fát ákvað ISNIC af afskrá þetta lén sem talið var sýna víðtæka netvirkni Íslamska ríkisins.

 

Miðvikudagur 08. 04. 15 - 8.4.2015 19:10

Í dag ræddi ég við Lovísu Christiansen, framkvæmdastjóra Krýsuvíkursamtakanna, í þætti mínum á ÍNN. Hún hefur haldið utan um starfsemi þessara merku samtaka síðan 1997. Þau reka meðferðarheimili í Krýsuvík fyrir vímuefnaneytendur. Vegna þess að reksturinn hefur verið í jafnvægi í tæp 20 ár hefur verið hljótt um hann. Nú hallar þó á ógæfuhlið og að óbreyttu þarf að fækka vistmönnum vegna fjárskorts. Sjón er sögu ríkari. Samtal okkar verður frumsýnt klukkan 20.00 og verður síðan sýnt á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.

Uppátæki Eyglóar Harðardóttur félagsmálaráðherra að senda einhverja orkubita í fjármálaráðuneytið með kröfu um að embættismenn þar hraði mati á fjárskuldbindingum vegna tillagna hennar í húsnæðismálum er fáheyrt. Þetta er enn eitt dæmið um að framsóknarráðherrar grípi til furðuráða til að vekja á sér athygli.

Dagana 10. til 12. apríl verður 33. flokksþing framsóknarmanna haldið. Þrír ráðherrar skipa æðstu trúnaðarstöður innan flokksins: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er formaður, Sigurður Ingi Jóhannsson varaformaður og Eygló Harðardóttir ritari. Sigmundur Davíð dró að sér athygli yfir páskahelgina með nýstárlegum hugmyndum um opinberar byggingar og staðarval fyrir Landspítala, Sigurður Ingi segir að Fiskistofa verði ekki flutt til Akureyrar í ár og Eygló sendir orkubita til að fá umtal á kostnað fjármálaráðuneytisins.

Allt verður þetta væntanlega til að styrkja ráðherrana í sessi í forystu flokks síns hvað sem öðrum finnst. Umræðurnar á flokksþinginu verða þó að rista dýpra vilji framsóknarmenn rétta hlut flokks síns og styrkja stöðu hans miðað við niðurstöður skoðanakannanna. Flokkurinn sló sér upp á Icesave-afstöðu sinni á sínum tíma. Hann hefur hins vegar ekki fengið byr í seglin vegna skuldaleiðréttingarinnar þrátt fyrir að framkvæmd hennar hafi verið snurðulaus, megi marka fréttir.

Vegna þess hve Framsóknarflokkurinn mælist með lítið fylgi er ólíklegt að háværar raddir verði á flokksþinginu um að hann slíti stjórnarsamstarfinu. Til hins er að líta að sögu innlendra ríkisstjórna í tæp 100 ár, frá 1917, hefur aðeins ein samsteypustjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks undir forsæti framsóknarmanns setið í heilt kjörtímabil – ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar 1983 til 1987. Stólaskipti voru tíð meðal sjálfstæðismanna í stjórninni, endurspegluðu þau spennu innan Sjálfstæðisflokksins eftir klofninginn innan hans vegna ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsens 1980 til 1983.

Þriðjudagur 07. 04. 15 - 7.4.2015 19:00

Nýlega lét Sigurjón Magnús Egilsson af störfum sem ritstjóri og helsti leiðarahöfundur Fréttablaðsins. Hann sagðist þurfa tóm til að undirbúa vikulegan útvarpsþátt á Bylgjunni. Kristín Þorsteinsdóttir, fyrrv. blaðafulltrúi Baugs, hefur tekið til við að rita leiðara í Fréttablaðið. Hún varð útgefandi þess í júlí 2014. Hafa að minnsta kosti þrír ritstjórar hætt síðan á blaðinu.

Kristín ritaði leiðara í Fréttablaðið laugardaginn 4. apríl, framlag til varnar sakborningum í Aurum-málinu svonefnda. Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrv. forstjóri Baugs, og valdamaður að baki Fréttablaðinu er í hópi þeirra. Í leiðaranum er áréttaður málstaður sakborninga vegna þess að málið er fyrir hæstarétti. Fer útgefandi blaðsins þá óvenjulegu leið að vitna í samskipti stjórnenda Fréttblaðsins við Guðjón St. Marteinsson héraðsdómara sem sendi Fréttablaðinu grein hinn 10. júní 2014 en afturkallaði hana. Þá er einnig birt úr tölvubréfi héraðsdómarans. Í leiðaranum segir:

„Kunnugir segja það einsdæmi að dómari hafi haldið því fram opinberlega að saksóknari hafi logið um atriði er varðar meðferðina. Hæstiréttur hefur hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að ekki séu ástæður til að leiða frekar í ljós hver segi satt og hver ósatt. Varla getur það verið boðleg niðurstaða út frá sanngirnis- og réttaröryggissjónarmiðum? […]

Það er nauðsynlegt að upplýsa hvort sérstakur saksóknari laug þegar hann sagðist ekki hafa vitað um tengsl Sverris og Ólafs Ólafssona. Niðurstaða Hæstaréttar er óboðleg, og má ekki verða endahnútur þessa máls. Nú taka fjölmiðlar við.“

Hér er Fréttablaðinu beitt af útgefanda þess til að vega að trúverðugleika sérstaks saksóknara og vanvirða hæstarétt til að bæta málstað sakborninga, þeirra á meðal Jóns Ásgeirs Jóhannessonar.

Tveir bræður koma við þessa sögu og situr annar þeirra, Ólafur, nú fangi á Kvíabryggju vegna dóms í Al Thani-málinu svonefnda. Eiginkona Ólafs vegur að hæstarétti í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag og er tilvitnun úr henni slegið upp yfir þvera forsíðu blaðsins.

Skyldi Sigurjón Magnús Egilsson hafa verið látinn víkja af því að honum var ekki treyst til að beita Fréttblaðinu í þágu Jóns Ásgeirs og félaga í hópi sakborninga? Dagskipun útgefandans er skýr: „Nú taka fjölmiðlar við.“ Jón Ásgeir og liðsmenn hans beittu þeim í Baugsmálinu – nú skal saksóknara og dómurum sýnt í tvo heimana.

 

Mánudagur 06. 04. 15 - 6.4.2015 19:20

Ég birti í dag pistil hér á síðunni og má lesa hann hér.

Í skýrslunni sem KPMG vann fyrir ASÍ, Samtök atvinnulífsins o. fl. og geymir sviðsmyndir um leiðir úr gjaldeyrishöftunum segir Svanbjörn Thoroddsen í aðfararorðum:

„Alþýðusamband Íslands, Samtök atvinnulífsins, Félag atvinnurekenda og Viðskiptaráð Íslands óskuðu sameiginlega eftir því að KPMG stýrði […] vinnu við sviðsmyndagreiningu á losun hafta, en þó með þeirri grunnforsendu að ákveðið hefði verið að ganga í Evrópusambandið (ESB) og taka upp evru. Sviðsmyndagreiningin fjallar um líkleg áhrif af losun fjármagnshafta á atvinnu- og efnahagslíf frá ákvörðun um inngöngu í ESB með upptöku evru fram að upptöku. […]

Tekið skal skýrt fram að sviðsmyndagreiningin felur á engan hátt í sér afstöðu þátttakenda eða aðstandenda þessarar vinnu til ESB eða inngöngu Íslands í ESB“

Gott og vel. Þetta sýnir að skýrslan er í raun algjörlega í lausu lofti. Engin ákvörðun liggur fyrir hvorki um inngöngu í ESB né upptöku evru. Til að ákvörðun um inngöngu sé tekin þarf tvær þjóðaratkvæðagreiðslur og breytingu á stjórnarskránni.

Það er miklu nærtækara að velta fyrir sér hvað þeir sem báðu um þessa skýrslu ætla að gera í kjaraviðræðum á líðandi stundu til að auðvelda leiðina úr höftum.

Í fjögur ár, 2009 til 2013, var ríkisstjórn sem vildi ekki losa um höftin: Samfylkingin vildi nota þau til að knýja á um ESB aðild og VG til að ráðskast með stjórnfyrirtækja.

Núverandi ríkisstjórn vill ekki inn í ESB en hún vill úr höftum – ákvörðunar hennar er beðið.

Sunnudagur 05. 04. 15 - páskadagur - 5.4.2015 18:00

Það varð mikil breyting á veðrinu í Fljótshlíðinni yfir páskanna.  Á myndinni lengst til hægri er Eyjafjallajökull bakaður í sól miðvikudaginn 1. apríl. Þá var einnig þungfært upp heimtröðina. Á páskadag 5. apríl, hafði snjóinn tekið upp og heimtröðin var auð. Aðafaranótt 1. apríl var 11 stiga frost í Fljótshlíðinni, 17 stig á Hellu. Á páskadag var um 8,5 stiga hiti í Fljótshlíðinni – raunar sýndi mælirinn í bílnum 10 stig þegar komið var úr messu hjá séra Önundi Björnssyni í Hlíðarendakirkju um klukkan 14.00 á páskadag.

Í fyrsta sinn sá ég tjald við bæinn en bændur sögðust hafa séð hann fyrst nokkrum dögum fyrr. Þeir segja lítið frost í jörðu og því muni gróður fljótur að taka við sér nái að hlýna – frosti er spáð næstu daga. 

Laugardagur 04. o4. 15 - 4.4.2015 22:10

Undarlegt er ef forsætisráðherra hefur í huga að nýtt hús rísi þar sem Valhöll stóð á Þingvöllum. Líkur eru á að þarna sigi land enn frekar og erfiðleikum hefur verið háð að búa þannig um rotþær að ekki verði skaði á vatninu. Eitt er að reisa nýtt hús í stað Valhallar, annað að velja því stað.

Nýlega var sagt frá ákvörðun Þingvallanefndar um að ráðast í frekari mannvirkjagerð á Hakinu þar sem fræðslumiðstöð var opnuð árið 2002. Síðan hefur fjöldi ferðamanna margfaldast og allt álag á Þingvelli stóraukist. Við þessu þarf að bregðast en ekki með því að stuðla að aukinni umferð bifreiða inn í þinghelgina eins og yrði með því að reisa nýja Valhöll á sama stað og hin gamla stóð.

Ég man ekki hvað KPMG sagði í aðdraganda hrunsins um stöðu og framtíð bankanna. Nú hafa sérfræðingar á vegum KPMG setið yfir „sviðsmyndum“ um losun gjaldeyrishafta. Niðurstaðan er að ákvörðun um inngöngu í Evrópusambandið með upptöku evru síðar feli í sér heppilegra umhverfi til losunar gjaldeyrishafta heldur en afnám hafta við núverandi aðstæður með krónu.

Forsendur KPMG eru mér ókunnar. Fyrirtækið kynnir sig á þennan hátt á vefsíðu sinni:

„Megintilgangur KPMG á Íslandi veitir fyrirtækjum og einstaklingum á Íslandi sérhæfða þjónustu á sviði endurskoðunar og ráðgjafar sem grundvallast á áreiðanleika, ítrustu fagmennsku og öryggi. Vel þjálfað starfsfólk er opið fyrir innlendum og erlendum straumum nýrrar þekkingar og byggir allt sitt starf á að viðskiptavinurinn sé í fyrirrúmi.“

Spurning er hvort KPMG hafi lagt mat á hvenær skuli hefja viðræður við ESB að nýju og á hvaða grunni miðað við slit þeirra sem hófust sumarið 2009. Var það hluti af sviðsmyndinni að falla þyrfti frá ráðum yfir 200 sjómílunum og fela ESB að ákveða aflamark og veiðiheimildir flökkustofna (síld, loðna og makríll).

 

 

Föstudagur 03. 04. 15 - 3.4.2015 21:00

Samtal mitt við Véstein Ólason, prófessor emeritus, á ÍNN miðvikudaginn 1. apríl má nú sjá hér á netinu. Við ræðum saman um útgáfu Vésteins og Jónasar heitins Kristjánssonar á Eddukvæðinum hjá Fornritafélaginu undir lok síðasta árs.

Umræður um eitthvað sem skiptir engu máli halda áfram þegar ESB-spurningin er annars vegar. Nú hefur verið birt niðurstaða í skoðanakönnun sem sýnir að meirihluti þeirra sem svara er andvígur afturköllun umsóknar um aðild að ESB. Hverjum dettur í hug að verja fé og kröftum til að spyrja um þetta? Umsóknin hefur verið afturkölluð og verður ekki virk að nýju nema þjóðin samþykki í atkvæðagreiðslu að viðræðum við ESB verði fram haldið. Þeim var hætt í janúar 2013 vegna ágreinings um sjávarútvegsmál.

Vilji menn leita svara við spurningum sem skipta máli þegar samskiptin við ESB eru til athugunar eiga þeir að spyrja hvort þjóðin vilji afsala sér ráðum yfir 200 sjómílunum til að geta hafið viðræður að nýju við ESB. Eða hvort þjóðin vilji að ESB ákveði aflaheimildir á makríl fyrir íslensk skip. Á þennan hátt yrði kallað eftir viðhorfi þjóðarinnar til raunverulegra álitamála.

Það „kostar ekkert“ að segjast andvígur því að ónýt umsókn sé kölluð heim frá Brussel eða að segjast vilja fá að „kíkja í pakkann“. Unnt er að segja já eða nei án þess að það breyti nokkru. Þegar kemur að samningsmarkmiðum um raunveruleg hagsmunamál skiptir máli hvað fólk segir. Hinar marklausu spurningar í skoðanakönnunum vegna ESB-málanna smita frá sér til annarra spurninga eins og sést á miklu fylgi Pírata í könnunum. Gerviumræður kalla á gervisvör.

Framsóknarflokkurinn er frægur fyrir að setja mál þannig á oddinn vegna kosninga að hann dregur að sér fylgi úr ólíklegustu áttum – þetta hefur magnast eftir kosningarnar árið 2007. Ástæða er til að velta fyrir sér hvort flokkurinn færist nú í þennan búning og búi sig undir kosningar.

 

 

Fimmtudagur 02. 04. 15 - 2.4.2015 19:00

Björn Þorláksson, blaðamaður og rithöfundur, skrifar pistil á netið fimmtudaginn 2. apríl undir fyrirsögninni: Fæðuöryggisráðið næst dagskrá. Þar er boðað að bestu viðbrögð við hugsanlegri ógn sé að gera ekki neitt heldur vona hið besta auk þess megi færa rök fyrir að Bandaríkin séu uppspretta alls ills í veröldinni.

Þetta er hvorki frumlegt né vel ígrundað. Í upphafi greinar sinnar segir Björn Þorláksson:

„Á tíunda áratug síðustu aldar var Guðjón Petersen, þáverandi forstjóri Almannavarna, sem dæmi nokkuð hrifinn af hugmynd um íslenskan her og ræddi þær í fjölmiðlum. Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, hefur einnig oft talað fyrir svipaðri hugmynd.“

Guðjón Petersen lét af störfum hjá Almannavörnum ríkisins árið 1995 sama árið og ég flutti erindi á alþjóðlegri ráðstefnu í Reykjavík og varpaði fram spurningum um hvað Íslendingar hefðu burði til að takast á hendur til varnar eigin landi þegar Bandaríkjaher drægi saman seglin – það gerðist 11 árum síðar.

Árið 2006 sat ég í embætti dómsmálaráðherra og stóð að tillögum um viðbrögð stjórnvalda við brottför Bandaríkjahers án þess að leggja fram tillögu um að koma á fót íslenskum her. Færði ég þess í stað rök fyrir að efla ætti borgaralega varðstöðu með því að styrkja lögreglu og landhelgisgæslu. Að ég hafi oft talað fyrir þeirri hugmynd að koma á fót íslenskum her er rangt hjá Birni Þorlákssyni, getur hann bent á eitt dæmi um það?

Að öðrum þræði má skilja hugleiðingu Björns Þorlákssonar á þann veg að hann sé talsmaður öflugra fjölmiðla og skoðanaskipta. Á hinn bóginn vill hann gera lítið úr skoðunum sem hann er ósammála. Hann segir til dæmis:

„Ef stofnun Þjóðaröryggisráðs Íslands er eitt af brýnustu verkum samtímans má spyrja hvort næsta skref verði ekki að stofna Fæðuöryggisráð Íslands? Fæðuöryggi hefur verið nefnt sem ein rökin gegn ESB. Forsætisráðherra er smeykur við að snæða erlendan mat þegar hann fer út fyrir landsteinana. Er hann góður vegvísir?“

Þetta er frekar aulafyndni en markvert framlag til rökræðna.

Miðvikudagur 01. 04. 15 - 1.4.2015 21:50

Í dag ræði ég á ÍNN við Véstein Ólason, prófessor emeritus og fyrrverandi forstöðumann Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, um  tveggja binda verk, Eddukvæði, sem hið Íslenska fornritafélag gaf út á síðasta ári. Vésteinn og Jónas heitinn Kristjánsson sem einnig var forstöðumaður Árnastofununar önnuðust útgáfuna, Vésteinn ritaði um 400 bls. formála en Jónas annaðist frágang á kvæðum og orðskýringar. Næst má sjá þáttinn klukkan 22.00 og síðan á tveggja tíma fresti til kl. 18.00 á morgun.

Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur skilað skýrslu á ensku sem samin er að fyrirlagi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra. Hún snýst um að þrengt skuli að heimild viðskiptabanka til að auka peningamagn í umferð, það er stemma stigu við því sem á íslensku er nefnt brotaforðakerfi, á ensku heitir þetta fractional reserve banking  og er skammstafað FRB.

Hugtakið er til umræðu um þessar mundir vegna bankakreppunnar í Andorra. Þar eru bankar 17 til 20 sinnum stærri en verg landsframleiða (VLF) en voru 10 sinnum stærri hér árið 2008.

Á vefsíðu tímaritsins Forbes er grein eftir Tim Worstall  þar sem hann segir að áhugamenn um brotaforðakerfi ættu að fylgjast náið með framvindu mála í Andorra til að átta sig á afleiðingum brotaforðakerfsins og hvernig tekið er á hruni banka í landi án seðlabanka – sjá hér.