28.4.2015 20:30

Þriðjudagur 28. 04. 15

Viðtal mitt við Óttar Guðmundsson lækni og höfund bókarinnar um Megas á ÍNN miðvikudaginn 22. apríl er komið á netið og má sjá það hér. 

Hér var í gær sagt að föstum mánudagdálki eftir Guðmund Andra Thorsson hefði verið rutt á brott úr Fréttablaðinu vegna greinar eftir hæstráðanda blaðsins, Jón Ásgeir Jóhannesson, þar sem hann kveinkaði sér undan réttarkerfinu. Í Fréttablaðinu í dag má lesa mánudagsdálk Guðmundar Andra með þessari viðbót: „Grein Guðmundar Andra átti að birtast í blaði gærdagsins. Lesendur er beðnir velvirðingar á þessu.“ Þarna er ekki orðuð nein afsökun til Guðmundar Andra. Veit ritstjórnin að honum má bjóða allt þegar Jón Ásgeir á í hlut?

Í húskarlahorni Fréttablaðsins birtist í dag klausa eftir Kolbein Óttarsson Proppé blaðamann sem sýnir að innan ritstjórnar blaðsins eru menn ekki allir á sama máli og Jón Ásgeir. Hann fari með rangt mál þegar hann segi hæstarétt hafa vísað Aurum-málinu aftur heim í hérað vegna þess að sérstakur saksóknari hafi ekki vitað að meðdómarinn Sverrir sé bróðir Ólafs Ólafssonar, hið rétta sé að málinu hafi verið vísað frá vegna ummæla Sverris eftir að héraðsdómurinn féll.

„Mögulega hentar sú mynd sem Jón Ásgeir málar upp honum og hans málstað betur en sú rétta, en hún er engu að síður röng, þótt hún sé máluð með hans eigin litum,“ segir Kolbeinn en það sé kannski skiljanlegt  „að maður [Jón Ásgeir] sem hefur verið í dómsal í þrettán ár að verja sig líti ekki hlutlausum augum á dómkerfið“. Vitnar hann síðan í enskan málshátt sem hann segir eiga við um Jón Ásgeir, málshátt sem megi „heimfæra á vænisýki“.

Vilji Jón Ásgeir finna einhvern sem leitt hafi til niðurstöðu hæstaréttar sé „Sverrir Ólafsson nærtækasti kosturinn“.  Í samtali við ríkisútvarpið hafi hann sakaðan sérstakan saksóknara um „örvæntingarfullar og jafnvel óheiðarlegar aðgerðir“ og ýmislegt fleira.

Þetta er beinskeytt árás á Jón Ásgeir í Fréttablaðinu. Hann er afhjúpaður sem væniskjúkur rangtúlkandi á dómi hæstaréttar. Sé hann samkvæmur sjálfum sér grípur hann til gagnaðgerða. Hvort þær felast í að Kolbeinn verði leystur frá störfum eða öðru kemur í ljós. Jón Ásgeir fór á sínum tíma í meiðyrðamál af því að taldi ritvillu vísvitandi ranga túlkun á dómi hæstaréttar.