Dagbók: febrúar 2015
Laugardagur 28. 02. 15
Eftir að fjölmiðlamenn kynntu sér efni úrskurðar persónuverndar vegna sendingar frá embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum til innanríkisráðuneytisins vegna hælisleitendans Tonys Omos hafa stjórnendur þeirra áttað sig á að þeir fóru offari í gær þegar þeir fetuðu í fótspor Kjarnans með yfirlýsingum um að Sigríður Björk Guðjónsdóttir hefði gerst sek um lögbrot. Allt annar tónn er í fjölmiðlum um málið í dag enda dettur líklega engum í hug að víkja eigi lögreglustjóra úr embætti vegna þess að mál sem hann sinnti að ósk aðstoðarmanns ráðherra var ekki skráð í málaskrá innanríkisráðuneytisins.
Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins segir í dag:
„Íslensk Persónuvernd tók í undarlegheitum að skipta sér af málum, sem hún taldi, að uppsprottin nýtíska í furstadæmum eftirlitanna krefðist að hún gerði. Verndin hefur nú skilað áliti, sem engu breytir til eða frá, frekar en frumhlaup Umboðsmanns Alþingis, sem einnig álpaðist á þennan kattarstíg nýtískunnar fyrir skömmu.
Persónuvernd virðist byggja á þeirri túlkun að sé eitthvað ekki beinlínis leyft þá sé það þar með bannað. Það stendur þó hvergi í stjórnarskránni, sem ein gæti skipað fyrir um þvílíka reglu, svo gilt væri. Ef Persónuvernd hefur þetta leiðarljós upp í framtíðinni hefur hún tryggt sér ærin verkefni.
Það er sumt sem mælir með því, að embætti eins og Umboðsmaður Alþingis og Persónuvernd gætu stöku sinnum fremur verið til gagns en hitt. En verði sjálfhverf athyglisþrá, í bland við óskiljanlega feimni við heilbrigða skynsemi, helsti drifkrafturinn verður gagnsemin sjaldgæf.“
Við þetta er engu að bæta nema því að opinberar eftirlitsstofnanir sem telja sig þurfa að eyða viti, kröftum og fé til að rannsaka það mál sem hér um ræðir á þann hátt sem umboðsmaður og persónuvernd hafa gert geta ekki kvartað undan að biðlistar myndist vegna fjárskorts eða ónógs mannafla.
Föstudagur 27. 02. 15
Vefblaðið Kjarninn hefur haft horn í síðu Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur síðan hún var skipuð lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu og hafa verið gefnar skýringar á því sem ég ætla ekki að tíunda hér. Einhver lak í dag úrskurði Persónuverndar um málefni sem varða embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum í tíð Sigríðar Bjarkar til Kjarnans líklega í sama mund og hún fékk hann sjálf og innanríkisráðuneytið sem ætlar að taka sér tíma til að grandskoða skjalið sem er 12 bls. Á Kjarnanum tók menn ekki langan tíma að hrapa að niðurstöðu. Ákveðið var að Sigríður Björk væri lögbrótur og hið einkennilega er að aðrir fjölmiðlar átu þetta eftir Kjarnanum að því virðist án þess að kynna sér málið. Á mbl.is voru svo tíundaðar lagagreinar og mátti ætla að Sigríður Björk hefði brotið þær í embættisfærslu sinni þótt í úrskurðinum sé bent á þær sem viðmið.
Í úrskurðinum er farið orðum um heimild lögreglustjórans til að bregðast við ósk aðstoðarmannsins og má skilja ummælin á þann veg að lögreglustjórinn hefði átt að kanna hvort aðstoðarmaðurinn hefði haft heimild til að biðja um gögnin vegna afgreiðslu máls í ráðuneytinu. Ekki eru gefnar leiðbeiningar um hvernig lögreglustjórinn átti að snúa sér við þá athugun.
Þá er fjallað um að stjórnvöld skuli miðla upplýsingum eftir dulkóðuðum leiðum. Varla er það lögbrot hjá lögreglustjóra á Suðurnesjum að slíkar boðleiðir hafi ekki verið fyrir hendi á milli embættis hans og innanríkisráðuneytisins? Ábending Persónuverndar um þetta er til þeirra sem sjá um tæknilegan umbúnað þessara boðleiða.
Embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum og innanríkisráðuneytið eiga sameiginleg ámæli fyrir að skrá ekki þessi samskipti í málaskrá og leiðbeinir persónuvernd í hvaða tilvikum beri að gæta slíkrar skráningar.
Athyglisvert er að sjá þann mun sem gerður er á miðlun upplýsinga frá útlendingastofnun annars vegar og lögreglustjóraembættinu hins vegar til innanríkisráðuneytisins um þetta mál. Er sá kafli úrskurðarins sérstakt athugunarefni.
Sigríður Björk svaraði spurningum fréttamanns sjónvarps og sagðist ekki telja ástæðu til að hún viki úr embætti lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu vegna þessa úrskurðar. Undir þá skoðun hennar skal tekið.
Fimmtudagur 26. 02. 15
Danska ríkisstjórnin leggst gegn hugmyndum um að afmá ákvæði gegn guðlasti úr hegningarlögum og styðst þar við túlkun danska refsiréttarráðsins sem segir að ákvæðið útiloki ekki gagnrýni á trúarbrögð og trúarkenningar. Á hinn bóginn kunni það að kalla til dæmis á að menn brenni Biblíuna eða Kóraninn verði ákvæðið um guðlast afmáð og yfirvöld hafi engin ráð til að snúast gegn framferði af slíku tagi.
Eftir að álit ráðsins birtist sagði Mette Frederiksen, dómsmálaráðherra úr Jafnaðarmannaflokknum: „Mér er óljóst hvernig samfélagið styrkist eða hvernig það getur auðgað opinberar umræður að það verði löglegt að brenna heilög rit.“ Ráðherrann ætlar ekki að beita sér fyrir að ákvæðið verði þurrkað úr danska lagasafninu.
Það var laganefnd danska þingsins sem hvatti til þess á sínum tíma að dómsmálaráðherrann fengi álit refsréttarráðsins á lögfræðilegum afleiðingum þess að ákvæðið um guðlast yrði afmáð. Síðasti dómur vegna þess féll í Danmörku árið 1946 en þá hafði par farið í hempu og skírt dúkku á karnivali.
Nokkrar umræður hafa orðið hér um ákvæði um guðlast í almennum hegningarlögum eftir að hryðjuverkamorðin voru framin í París 7. janúar. Hafa þrír þingmenn pírata flutt frumvarp til laga um að afmá 125 gr. alm. hegningarlaga þar sem guðlast er lýst refisvert. Kalla þingmennirnir ákvæðið „augljósasta smánarblettinn“ á hegningarlögunum. Virðast þeir skilja lagagreinina á þann veg að hún setji tjáningarfreslinu íþyngjandi skorður. Það sé „með öllu óraunhæft að ætla mannlegum hugsunum, tilfinningum og skoðunum að rúmast alltaf innan ramma svokallaðs almenns velsæmis“. Þeir segja meðal annars í rökstuðningi sínum: „Í þriðja lagi geta ráðamenn Íslands ekki fordæmt beitingu sambærilegra lagagreina í ófrjálsari löndum meðan þær er einnig að finna í refsilöggjöf hérlendis.“
Þess má geta að biskupinn yfir Íslandi og forsætisráðherra Íslands hafa tekið undir með pírötum. Komist frumvarp þeirra til þingnefndar kallar hún vonandi eftir áliti refsiréttarnefndar svo að misskilningur eða óðagot ráði ekki í þessu máli.
Miðvikudagur 25. 02. 15
Í dag ræddi ég við Hjalta Pálsson frá Hofi í Hjaltadal í þætti mínum á ÍNN en hann er ritstjóri Byggðasögu Skagafjarðar. Sjöunda bindi byggðasögunnar kom út á síðasta ári og fjallar það um Hofshrepp. Ritun og útgáfa byggðasögunnar er mikið stórvirki með sveitarfélagið Skagafjörð og Akrahrepp sem bakhjarla en Sögufélag Skagfirðinga er útgefandi. Samtal okkar má sjá kl. 20.00 í kvöld og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.
Ég hafði ekki fyrr lokið við að skrifa færslu hér í dagbókina í gær en sagt var frá nýju hættumati greiningardeildar ríkislögreglustjóra þar sem talið er að líkur á hryðjuverkum hér á landi fari vaxandi.
Þá er einnig vakið máls á nauðsyn þess að lögregla fái frekari heimildir til rannsókna, til að stunda forvirkar rannsóknir, að grunsemdir um að einhver kunni að fremja voðaverk geti leitt til þess að lögregla grípi til aðgerða.
Sigmar Guðmundsson lagði út af ummælum um forvirkar rannsóknarheimildir í Kastljósi með því að vísa til hinna ströngu laga sem Bandaríkjamenn settu eftir 11. september 2001. Dregin er upp sú mynd af því sem þar er til hræða fólk við aukin völd til lögreglu. Sambærilegar umræður hafa staðið í Frakklandi eftir hryðjuverkaárásirnar 7. til 9. janúar.
Sigmar spurði Ásgeir Karlsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra hvers vegna tilmæli hennar um auknar hefðu ekki náð fram að ganga. Ásgeir gat að sjálfsögðu ekki svarað fyrir stjórnmálamenn en þeir ræða gjarnan málið án þess að setja fram fastmótaðar tillögur.
Þriðjudagur 24. 02. 15
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður pírata, viðraði skoðanir sínar gegn forvirkum rannsóknarheimildum lögreglu á alþingi þriðjudaginn 24. febrúar og spurði Gunnar Braga Sveinsson utanríkisráðherra hvort hann hefði einhverjar skoðanir á því hvort veita ætti slíkar heimildir. Utanríkisráðherra svaraði:
„Ég ætla ekki að kveða upp úr um það hvort lögregluyfirvöld eða aðrir eigi að hafa þessar heimildir eða aðrar. Ég verð hins vegar að segja að það er mín skoðun, og kemur því ekki við hvort ég er utanríkisráðherra eða ekki, að ég tel að lögreglan eigi að hafa nauðsynlegar heimildir til að geta sinnt því að verja okkur borgarana en hún þarf að fara að vel með þær heimildir.“
Ólöf Nordal innanríkisráðherra ræddi um þessi mál á fundi Varðbergs 5. febrúar og talaði á svipaðan hátt og utanríkisráðherra. Þessir tveir ráðherrar hafa öryggismál þjóðarinnar á sinni könnu. Ef þeir taka ekki af skarið á pólitískum vettvangi um hvað gera skuli til að lögreglan geti sinnt hlutverki sínu er þess ekki að vænta að nokkur geri það.
Utanríkisráðherra boðaði að á næstunni mundi hann leggja fram tillögu til þingsályktunar um þjóðaröryggi sem yrði reist á tillögum nefndar allra flokka sem lauk störfum á síðasta ári.
Er ekki að efa að tillagan verði reist á nýju hættumati. Á vegum innanríkisráðuneytisins starfar greiningardeild ríkislögreglustjóra sem birtir reglulega mat sitt. Engin sambærileg starfsemi er rekin á vegum utanríkisráðuneytisins svo að vitað sé.
Hið opinbera áhættumat sem snertir hernaðarlega þátt öryggismálanna er frá 2009 og því varla haldbært lengur. Verður forvitnilegt að sjá hvort nýtt mat á hernaðarlega þættinum fylgir tillögu utanríkisráðherra þegar hún verður kynnt.
Að því er varðar heimildir lögreglunnar til forvirkra rannsókna er ekki líklegt að umræður verði um þær nema ríkisstjórnin leggi fram tillögu til að ræða. Vilji hvorki innanríkisráðherra né utanríkisráðherra taka af skarið liggur málið áfram í þagnargildi.
Mánudagur 23. 02. 15
Í ræðu sem Ólöf Nordal innanríkisráðherra flutti á fundi Varðbergs hinn 5. febrúar varaði hún við því að Ísland yrði veiki hlekkurinn í viðbrögðum vegna hættunnar á hryðjuverkum. Rifjaði hún upp umræður um nauðsyn forvirkra rannsóknarheimilda í höndum lögreglu án þess að taka sjálf afstöðu til þess hvort nauðsynlegt væri að innleiða þær. Fleira ber að hafa í huga þegar lagt er mat á hvort landið sé veikasti hlekkurinn í þessu tilliti.
Nú eru hér á landi tveir hælisleitendur eftirlýstir á Norðurlöndunum og hefur verið óskað eftir framsali þeirra. Á mbl.is má lesa í dag:
„Annar þeirra sagðist við skýrslutöku hjá lögreglu styðja íslamska ríkið og vilja taka þátt í stríði fyrir guð. Auk þess sækist hann í myndefni á internetinu sem tengist ógnarverkum hryðjuverkasamtaka bókstafstrúarmanna.“
Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði fyrir helgi kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að mennirnir tveir yrðu hafðir í gæsluvarðhaldi og í dag staðfesti hæstiréttur þá niðurstöðu. Þegar dómarnir eru lesnir vakna spurningar hvað dómarar telja sig þurfa að hafa í höndum til að farið sé að óskum lögreglu sem miða ekki aðeins að því að tryggja öryggi samborgaranna heldur einnig að því að draga ekki upp mynd af Íslandi sem veikasta hlekknum.
Í héraðsdóminum sagði að ekki hefði „nægjanlega [verið] í ljós leitt að ástand varnaraðila eða hegðun hans að undanförnu hafi verið með þeim hætti að það réttlæti svo íþyngjandi ráðstöfun sem felst í varðhaldi.“ Eru þó lýsingar í dóminum á þann veg að augljóst er að mennirnir sýna af sér dónaskap og illsku. Hæstiréttur telur að lögregla hafi ekki gripið til þess úrræðis að leggja fyrir hælisleitendurna „að dvelja á ákveðnu afmörkuðu svæði áður en látið yrði reyna á gæsluvarðhald“. Þess vegna er úrskurður héraðsdóms staðfestur.
„Það er auðvitað óheppilegt fyrir samfélagið að þar sé einhver sem enginn veit hver er, hvað hann heitir, hvaðan hann kemur eða hvers megi vænta af honum,“ sagði Jón H.B. Snorrason, saksóknari og aðstoðarlögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, þegar rætt var við hann á mbl.is eftir að niðurstaða hæstaréttar hafði verið kynnt.
Sunnudagur 22. 02. 15
Þegar ég ók úr Fljótshlíðinni síðdegis í dag var merkilegt að sjá hve mikill munur var á veðri þar og þegar komið var rúma 10 km til Hvolsvallar. Það var glórulaust síðdegis í dag að ætla að leita að týndri göngukonu við Mýrdalsjökul fyrir austan Fljótshlíðina. Rok, ofankoma og skafrenningur gerði öllum ókleift að sinna öðru en eigin öryggi við þessar aðstæður. Á leiðinni milli Hvolsvallar og Hellu mætti ég stórum bíl með tvo snjóbíla á pallinum. Var ferðinni heitið nær leitarsvæðinu sem yrði kembt eftir að veðrinu slotaði.
Færðin var góð, auður vegur að Þingborg fyrir austan Selfoss en þaðan að Selfossi var mikill skafrenningur og blinda á veginum. Þegar komið var að hringtorginu við Hveragerði var leiðin upp á Hellisheiði lokuð með varúðarhliði og var björgunarsveitarbíll við það. Lá þá leiðin í átt að Þrengslavegi en þar voru einnig björgunarsveitarmenn sem sögðu Þrengslin ófær, fara mætti Suðurstrandaveg til Reykjavíkur, þar kynni þó að verða blinda vegna skafrennings og hálkublettir.
Það var erfitt að aka í skafrenningnum sem náði nokkuð vestur fyrir Strandarkirkju, rúma 20 km. Vegalengdin frá Hveragerði til Reykjavíkur um Suðurstrandarveg er rúmir 100 km en það kemur sér vel fyrir þá sem koma að lokun yfir Hellisheiði eða um Þrengsli að geta farið þessa leið um Grindavík á mjög góðum og vel lögðum vegi. Baráttan fyrir Suðurstrandarvegi stóð í mörg ár og fagnaði ég því í dag að hún bar góðan árangur.
Laugardagur 21. 02. 15
Tryggvi Aðalbjörnsson, fréttamaður ríkisútvarpsins, flytur fréttir af Davíð Oddssyni og láninu til Kaupþings sem var veitt 6. október 2008 í þeirri von að bjarga mætti einum íslenskum viðskiptabanka í hruninu. Það er vel til fundið hjá fréttastofunni að gefa einum og sama fréttamanninum tækifæri til að fylgja einu máli. Vandinn í þessu tilviki er hins vegar sá að umgjörðin sem Tryggvi velur fréttum sínum er skakkur.
Tryggvi virðir ekki höfuðatriði málsins. Hann hefur til dæmis að engu að Davíð Oddsson seðlabankastjóri taldi nauðsynlegt að hringja í Geir H. Haarde forsætisráðherra vegna lánveitingarinnar með skýrum og skiljanlegum rökum sem fram koma í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins í dag.
Í Reykjavíkurbréfinu segir:
„En þar sem beðið var um aðstoð í erlendum gjaldeyri vildi S.Í. [seðlabankinn] ekki taka lokaákvörðun í málinu. Stór hluti gjaldeyrisforðans var þannig tilkominn, að íslenska ríkið hafði selt skuldabréf fyrir 1 milljarð evra. S.Í. hafði varðveitt andvirðið og það hafði tekist svo vel að lánið var sjálfbært og ríkissjóður hafði af því engan kostnað.
En þar sem forðinn var þannig til kominn litu bankastjórar S.Í. svo á, að vilji ríkisstjórnarinnar, en ekki bankans, yrði að ráða niðurstöðunni.
Þeir sem báðu um aðstoðina héldu því fram, að ríkisstjórnin vildi að þessi fyrirgreiðsla yrði veitt. Þess vegna fór símtalið við forsætisráðherrann fram.“
Tryggvi fréttamaður lætur eins og þessi skýring sé röng og vitnar í seðlabankann sem segir að lánveitingin hafi ekki verið háð samráði við ráðherra. Þá telur Tryggvi að „fölsk hughrif“ vegna „sýndarviðskipta“ Kaupþingsmanna við Al Thani hafi villt um fyrir stjórnvöldum og haft áhrif á lánveitinguna enda hafi saksóknari í málinu sagt það. Í Reykjavíkurbréfinu er umgjörð Tryggva réttilega kennd við „undarlegheit“ og sagt:
„Var bent á [í frétt Tryggva af Al Thani-dóminum 12. febrúar] að einhverju sinni í langri meðferð málsins hefði verið nefnt eins og í framhjáhlaupi að byrinn sem „kaup sjeiksins“ hefði veitt Kaupþingi kynni að hafa haft áhrif á þetta með gjaldeyrisforðann. Þarna var ótrúlega langt seilst í þráhyggju sinni og andúð. Því í einum af lengstu dómum í sögu Hæstaréttar Íslands er ekki minnst á þetta mál.“
Föstudagur 20. 02. 15
Í dag kom viðtal mitt við Eyjólf Pálsson í Epal inn á netið en það birtist á ÍNN miðvikudaginn 11. febrúar. Má sjá það hér.
Nokkrar umræður eru um það hér á landi hvort atvinnurekendur eigi að hafa aðgang að símtalaskrám starfsmanna sem tala í síma sem vinnuveitandi þeirra greiðir. Einhverjir telja þetta aðför að friðhelgi þeirra sem eiga í hlut og hefur verið leitað álits hjá persónuvernd.
Fyrir nokkru kvað Hæstiréttur Frakklands upp þann dóm að hver sá sem fær farsíma frá vinnuveitanda sínum verði að sætta sig við að vinnuveitandinn geti lesið smáskilaboð símnotandans. Dómararnir veita vinnuveitanda rétt til að lesa smáskilaboð starfsmanns sem send eru úr farsíma sem fylgir starfinu. Dómararnir segja að telja verði að skilaboð sem send séu úr slíkum síma eða tekið á móti þar séu „starfstengd“.
Vinnuveitendur hafa „rétt til að kynna sér efni skilaboða í síma vegna starfs að viðstöddum starfsmanninum nema skilaboðin beri greinilega með sér að þau snerti einkamálefni,“ segir í dóminum.
Áður hafa svipaðir dómar fallið varðandi tölvur vegna starfs og bréf send úr starfsstöð.
Við skýringu á dóminum hefur komið fram að starfsmenn geti komið í veg fyrir að rýnt sé í einkagögn með því að merkja þau rækilega sem einkamál með orðunum personnel, perso eða privé.
Af þessu má sjá að í Frakklandi getur vinnuveitandi sem greiðir síma starfsmanns gengið mun nær notkun hans á símanum heldur en að fá lista yfir símtöl og við hverja er talað úr honum. Þeim rétti að greitt sé fyrir og af síma fyrir einhvern vegna starfa hans hefur einnig skyldur í för með sér. Enginn er neyddur til þess að tala öll símtöl í tæki sem vinnuveitandi hans á og kostar.
Fimmtudagur 19. 02. 15
Þáttur minn á ÍNN frá miðvikudeginum 18. febrúar þar sem ég ræddi við Ernu Bjarnadóttur, aðstoðarframkvæmdastjóra Bændasamtaka Íslands, er kominn á netið og má sjá hann hér.
Erna segir meðal annars frá því að það hafi skapað vandræði í samskipti við norðurskautsríki utan ESB, Bandaríkin, Kanada og Rússland, að Ísland sé umsóknarríki. Viðmælendur frá þessum löndum líta á skrár sem segja Ísland í umsóknarferli gagnvart ESB en vita ekki að umsóknin er dauð og hvorugur aðili hefur neinn áhuga á að ræða hana.
Það er fráleitt að losna ekki við þetta lík úr lestinni. Það er dæmigert fyrir málefnafátækt stjórnarandstöðunnar að hún haldi dauðahaldi í þetta dauða mál og Össur Skarphéðinsson segi að það rigni eldi og brennisteini verði málið sett á dagskrá alþingis. Aumlegri stjórnarandstaða hefur ekki verið hér á landi um langan aldur.
Þá er stórundarlegt að þeir sem kenna sig við öfugmælið Já Ísland vilji halda lífi í þessari umsóknardruslu í stað þess að berjast fyrir nýrri umsókn sem reist er á réttum skilningi á aðlögunarkröfum ESB og stutt samningsmarkmiðum sem kunna að leiða til sameiginlegrar niðurstöðu ESB og Íslands.
Að ESB-aðildarsinnar bindi trúss sitt við hið dauða plagg og geri sér vonir um að unnt sé að blása lífi í það er ekki til marks um neitt annað en fráleitan málatilbúnað þeirra frá upphafi þessa máls alls árið 2009.
Ein af röksemdafærslum sumra ESB-aðildarsinna hefur verið að Ísland sé hætt að skipta máli hernaðarlega vegna friðsemdar Rússa á N-Atlantshafi, þar með skipti NATO ekki lengur sama máli og áður og þess vegna verði að ganga í ESB til að forðast einangrun. Meira að segja þessi röksemd dugar ekki lengur.
Miðvikudagur 18. 02. 15
Í dag ræddi ég við Ernu Bjarnadóttur, aðstoðarframkvæmdastjóra Bændasamtaka Íslands, í þætti mínum á ÍNN. Við ræddum innflutning á matvælum og þróun eftirspurnar frá árinu 2010 þegar ferðamannastraumur tók að aukast af miklum þunga. Þá fórum við einnig orðum um viðræðurnar við ESB um landbúnaðarmál vegna aðildarumsóknarinnar. Þær viðræður komust aldrei á neitt flug og algjör óvissa ríkti um stöðu þeirra þegar Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sló viðræðunum á frest fyrir rúmum tveimur árum. Erna færir sterk rök fyrir nauðsyn þess að afturkalla ESB-umsóknina. Samtalið verður frumsýnt kl. 20.00 í kvöld.
Í dag hefjast útsendingar hjá sjónvarpsstöðinni Hringbraut sem virðist komið á laggirnar til að halda fram sjónarmiðum ESB-viðræðu- eða aðildarsinna. Hugmyndin er í raun tekin frá Ingva Hrafni Jónssyni sem hefur af áræði og dugnaði haldið úti ÍNN síðan 2. október 2007 þegar fyrsta dagskráin var sýnd. Á ÍNN hafa sjónarmið ESB-aðildarsinna ekki endilega átt upp á pallborðið þótt þau komi að sjálfsögðu fram í orðum viðmælenda og þáttarstjórnenda. Ingvi Hrafn hefur margáréttað þá skoðun sína að hann vilji sjá innihaldið í ESB-pakkanum. Ég tel hins vegar að það sé þjóðinni of dýrkeypt að láta stjórnast af þeirri forvitni því að hún leiði meðal annars til þess að slá verði af kröfunni um full ráð yfir 200 mílna fiskveiðilögsögunni.
Mér finnst ekki líklegt að ÍNN líði fyrir komu Hringbrautar inn á þennan markað. Aðstöðumunur er þó að sjálfsögðu nokkur miðað við fjármunina sem eru að baki nýju stöðinni og fjársterka aðila sem að henni standa til að verja sérhagsmuni sína í þágu ESB-aðildar. Skoði menn málið ofan í kjölinn sést að þeir sem hæst tala um nauðsyn þess að halda í hina dauðu aðildarumsókn eru þeir sem tala fyrir hönd einstakra fyrirtækja eða fjárfesta í þeim. Þessi sérhagsmunagæsla er svo rík að krafist er að öllum öðrum hagsmunum sé ýtt til hliðar, meðal annars því sem felst í fullveldi þjóðarinnar yfir sjávarauðlindinni.
Fjölgun innlendra sjónvarpsstöða leiðir almennt til meira áhorfs. Dreifingin mill stöðva er breytileg eftir því hvaða efni er sýnt þótt það breytist einnig þegar menn geta búið til sína eigin dagskrá á þeim tíma sem þeir kjósa eins og gera má í gegnum myndlykla Símans sem ég þekki. Þetta er í raun byltingarkennd breyting á þjónustu við áskrifendur og hún minnir á þörf fyrir sjónvarpsefni sem vekur áhuga er ótæmandi.
Þriðjudagur 17. 02. 15
Samskipti stjórnvalda Grikklands og annarra evru-ríkja versnuðu mánudaginn 16. febrúar þegar fundur evru-ráðherrahópsins reyndist árangurslaus. Fjármálaráðherra Grikkja er sagður bera sökina. Hann hafi komið á fundinn án þess að hafa nokkuð haldfast fram að færa. Hér má lesa hvernig þýskur fréttaskýrandi lítur á málið.
Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands og leiðtogi Syriza, róttæka vinstri flokksins sem sigraði í þingkosningunum 25. janúar, sagði við þingflokk sinn að ekki yrði látið undan þrýstingi, Grikkir sætti sig ekki lengur við að land þeirra sé talið nýlenda úrhraka Evrópu. Hann sakaði „ákveðna hópa“ á evru-svæðinu um að vilja grafa undan stjórn sinni og sagði að Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, hefði misst stjórn á sér og látið niðrandi ummæli falla um Grikkland.
Á fundi evru-ráðherrahópsins mun Schäuble hvað eftir annað hafa sagt að Grikkir yrðu að hrökkva eða stökkva, hann hefði auk þess spurt í hæðnistón hvort Tsipras og hinn „frægi hagfræðingur“ í stóli fjármálaráðherra hans vissu hvað þeir vildu eða hvort þeir væru að gera hið rétta í þágu grísku þjóðarinnar.
Þessi skarpi tónn er í andstöðu við hið mjúka diplómatíska yfirbragð sem menn vilja að setji svip á samskiptin innan ESB, að minnsta kosti út á við. Íslendingar hafa kynnst þessu yfirbragði. Á tíma ESB-ríkisstjórnarinnar hér á landi tóku ráðherrar og embættismenn þátt í þessum leik. Með sífelldri sjálfumgleði um hve viðræðurnar gengju vel var breitt yfir ágreining í sjávarútvegsmálum sem frysti viðræðurnar í raun. Leiddi það að lokum til þess að Össur Skarphéðinsson, ESB-umsóknarráðherra, sló viðræðunum á frest í janúar 2013. Þær hefjast ekki að nýju nema íslensk stjórnvöld slái af kröfum sínum í sjávarútvegsmálum. Vill einhver stjórnmálaflokkur gera það?
Mánudagur 16. 02. 15
Hinn 14. febrúar ræddi Egill Helgason við mig í Laugardagsviðtalinu og má hlusta á það hér.
Skrifuð hefur verið mörg þúsund blaðsíðna skýrsla um það sem gerðist hér í bankahruninu. Fyrir liggur rúmlega 400 bls. síðna dómur landsdóms í máli gegn Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. Ljóst er að bankastjórn Seðlabanka Íslands undir formennsku Davíðs Oddssonar hratt af stað rannsókn á máli sem leiddi hinn 12. febrúar til þungrar sakfellingar yfir fjórum stjórnendum Kaupþings í hæstarétti fyrir brot sem voru „þaulskipulögð, drýgð af einbeittum ásetningi og eindæma ófyrirleitni og skeytingarleysi“ segir í dómi réttarins.
Þing kom saman í dag eftir kjördæmaviku og Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, lætur eins og nú skipti sköpum að upplýsa um símtal milli Davíðs Oddssonar og Geirs H. Haarde hinn 6. október sem þingmaðurinn telur að hafi snúist um 500 milljón evru lán sem veitt var Kaupþingi þann sama dag.
Meirihluti vinstristjórnarinnar sem Guðmundur studdi beitti sér fyrir rannsókn á þessari lánveitingu til Kaupþings í fjárlaganefnd alþingis á síðasta kjörtímabili. Allt hefur verið gert sem vinstri flokkarnir megnuðu til að koma einhverri sök á Geir. Þar ber landsdómsmálið að sjálfsögðu hæst. Málflutningur Guðmundar Steingrímssonar í dag sýnir enn að símtal Geirs við Davíð er þráhyggjumál andstæðinga Sjálfstæðisflokksins, eitt af málunum sem falla vel í kramið hjá fréttastofu útvarpsins og fá meira rými þar en góðu hófi gegnir.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra brást við dóminum yfir Kaupþingsmönnum af meiri skynsemi en formaður Bjartrar framtíðar þegar hann sagði á alþingi í dag að taka ætti til skoðunar hvort ríkissjóður ætti bótakröfu á hendur slitabúi Kaupþings.
Sunnudagur 15. 02. 15
Frakkar sýna Dönum mikla samúð vegna hryðjuverkanna í Kaupmannahöfn þegar byssumaður gekk þar um götur laugardaginn 14. febrúar og drap kvikmyndaleikstjóra á fundi um tjáningarfrelsið og vaktmann við bænahús gyðinga. François Hollande Frakklandsforseti fór í danska sendiráðið í París í dag og ræddi við sendiherrann í fimmtán mínútur og flutti samúðarkveðjur fyrir hönd frönsku þjóðarinnar.
Forsetinn sagði að tengsl væru milli hryðjuverkaárásanna í París fyrir fimm vikum og þess sem gerðist í Kaupmannahöfn:
„Það sem gerðist í gær hafði þegar gerst í Frakklandi fyrir rúmum mánuði, skotmörkin voru hin sömu. […] Það er ekki um nein samtakatengsl að ræða heldur um sama ásetning hryðjuverkamanns til að ráðast gegn því sem við erum. Gildum okkar.“
Hann lauk yfirlýsingu sinni fyrir framan sendiráðið með þeim orðum að hjá Frökkum og Dönum væri „sami vilji til að snúast til varnar, berjast“.
Atburðirnir í París og Kaupmannahöfn sýna að óeðlið sem býr að baki voðaverkunum getur dafnað í suðri og norðri í Evrópu. Hvarvetna verða greinendur og gæslumenn öryggis hins almenna borgara að auka aðgæslu sína. Þótt erfitt sé að hafa hendur í hári einfara sem láta einungis stjórnast af eigin heift og ranghugmyndum hafa yfirvöld ekki leyfi til að láta deigan síga og þess vegna er líklegt að hvers kyns eftirlit sem einnig bitnar á almennum, friðsömum borgurum muni halda áfram að aukast.
Laugardagur 14. 02. 15
Í dag var útvarpað Laugardagsviðtalinu á rás 1 þar sem Egill Helgason ræddi við mig í klukkustund um hernaðarátökin í Úkraínu og áhrif þeirra. Þátturinn verður aftur á dagskrá klukkan 23.00 í kvöld. Viðbrögðin hafa verið á þann veg að meira er hlustað á þennan þátt en ég vænti.
Þess var minnst í Seltjarnarneskirkju klukkan 15.00 í dag að tónlistarskóli bæjarins var stofnaður fyrir 40 árum, Kári Húnfjörð Einarsson skólastjóri og kennarar við skólann höfðu undirbúið tæplega klukkustundar dagskrá þar sem 210 nemendur skólans komu fram. Var skipulag allt til fyrirmyndar ekki síður en tónlistarflutningur nemendanna fyrir troðfullu húsi. Var þetta vel heppnuð og ánægjuleg stund.
Í dag féll einn maður í skotárás í Kaupmannahöfn og þrír lögreglumenn særðust. Helle Thorning-Schmidt forsætisráðherra segir allt benda til að um „pólitískt morð og þar með hryðjuverk“ hafi verið að ræða. Lögreglan í Kaupmannahöfn leitaði árásarmanna þegar þetta er skrifað. Þeir voru með hríðskotabyssur og skutu allt að 40 skotum á þátttakendur í umræðufundi í menningarhúsinu Krudttønden á Østerbro.
Talið er að ætlunin hafi verið að myrða sænska teiknarann Lars Vilks sem teiknaði á sínum tíma skopmynd af Múhameð spámanni. Lars Erslev Andersen, fræðimaður við Dansk Institut for Internationale Studier, segir við Berlingske Tidende að árásin minni að nokkru á árásina á ritstjórnarskrifstofur Charlie Hebdo í París hinn 7. janúar þar sem 12 manns féllu.
Hryðjuverkaárásin í Kaupamannahöfn er, sé ofangreint rétt, enn ein aðförin að málfrelsi og sýnir að í því efni virða menn engin landamæri heldur reyna að hafa uppi á þeim sem taldir eru réttdræpir að mati íslamista.
Það er sérkennilegt að þeir sem sakfelldir eru í Al Thani-málinu skuli eltir af fréttamönnum með spurngingum um hvort þeir ætli að skjóta dómi hæstaréttar þegar fyrir liggur að það breytir engu um refsingu þeirra eða fullnustu hennar.
Föstudagur 13. 02. 15
Í dag birtist í Fréttablaðinu viðtal um atvik frá árinu 2008 hjá embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum. Jóhann Benediktsson, þáverandi lögreglustjóri, segir í samtalinu að mánuði eftir að hann greip til víðtækrar lögregluaðgerðar hafi ég farið „öfugur fram úr rúminu“ án þess að hann viti hvað gerðist en hann hafi síðan gefist upp sem lögreglustjóri „af því að hann naut ekki stuðnings lengur“.
Í stuttu máli má rifja upp hvað gerðist: Skipulag lögreglustjóraembættisins á Suðurnesjum var leifar frá tíma varnarliðsins og vildi ég skilja milli löggæslu og tollgæslu – tollgæslan ætti að falla undir fjármálaráðuneytið. Um þetta urðu harðar deilur. Breytingin gekk fram og var eðlilegt að auglýsa embætti lögreglustjóra vegna hennar. Jóhann sótti ekki um og var Sigríður Björk Guðjónsdóttir skipuð í embættið. Ákvarðanir mínar áttu ekkert skylt við lögregluaðgerð sem Jóhann segir frá í viðtalinu.
Þá segir Jóhann:
„Það er ekki hægt að vera í þessu starfi án þess að vera með stuðning dómsmálaráðherra. Stefán Eiríksson kynntist þessu og við vitum alveg af hverju hann gafst upp.“
Þetta er ný skýring hjá Jóhanni á ákvörðun Stefáns Eiríkssonar um að hverfa úr embætti lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu. Sé álíka mikill fótur fyrir skýringu hans og lýsingunni á eigin brottför gef ég ekki mikið fyrir hana.
Þráhyggja nokkurra blaðamanna sem hurfu af DV eftir eigendaskipti fylgir þeim yfir á nýtt mánaðarblað Stundina sem sá dagsins ljós í dag. Á forsíðu er veður gert út af flutningi lögregluforingja á milli embætta eða herbergja innan húsakynna lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Á forsíðunni segir einnig: „Þeir sem rannsökuðu lekamálið hafa orðið undir. Nýr lögreglustjóri í skoðun vegna aðkomu að því.“
Hafi einhverjir sem skoðuðu lekamálið orðið undir í þeim skilningi sem þarna er lýst eru það blaðamennirnir á DV sem sáu sér þann kost vænstan að yfirgefa blaðið. Þá er rangt að nýr lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu sé „í skoðun“ vegna aðkomu að lekamálinu. Athugun persónuverndar snýr að svari lögreglustjórans við ósk aðstoðarmanns ráðherra eftir að umdeildu skjali hafði verið lekið úr ráðuneytinu. Stundin verður ekki spennandi sé þessi forsíða vísbending um framhaldið.
Fimmtudagur 12. 02. 15
Þriðjudaginn 10. febrúar birtist grein í Morgunblaðinu þar sem velt var fyrir sér hlutverki embættis sérstaks saksóknara og það meðal annars nefnt til sögunnar að ég hafi sagt sem dómsmálaráðherra að hlutverk embættisins væri að sefa reiði borgaranna og þessi orð komi fram í athugasemdum við frumvarp til laga um embættið. Greinarhöfundur spyr hvort „búið sé að sefa reiðina eða þurfum við fleiri ár og milljarða til þess?“ Hann spyr einnig: „Hvernig samrýmist það réttarríkinu að rannsaka mál og saksækja menn með reiðina að grundvelli?“ Vill greinarhöfundur ekki að embættið fái auknar fjárveitingar til að ljúka málum sem þar eru til rannsóknar.
Ræðuna sem þarna er vitnað til flutti ég í Háskóla Íslands 17. október 2008 og má lesa hana í heild hér á síðunni. Þar sagði ég meðal annars:
„Rannsókn flókinna efnahagsbrota, saksókn og dómsmeðferð er tímafrek og kostnaðarsöm í samanburði við önnur sakamál. Alrangt er hins vegar, að slíkar rannsóknir auki aðeins kostnað ríkissjóðs. Uppljóstrun skatta- og efnahagsbrota leiðir oft til þess, að skatttekjur ríkissjóðs aukast mikið, auk þess sem ólöglegur ávinningur efnahagsbrota getur sætt upptöku. Skilvirk og árangursrík rannsókn og dómsmeðferð brota, sem kunna að koma í ljós við fall bankanna, ætti að sefa reiði, efla réttlætiskennd og auka trú borgaranna á réttarríkið auk þess að gegna varnaðar- og uppeldishlutverki til framtíðar. Þá er skilvirk og réttlát meðferð slíkra mála til þess fallin að efla lífsnauðsynlegt traust umheimsins í garð íslensks fjármálakerfis. Á þessari stundu er ekki unnt að fullyrða neitt um það, hvort og hvernig fall bankanna kemur inn á borð þeirra, sem gæta laga og réttar.“
Í dag felldi hæstiréttur dóm í Al Thani-málinu svonefnda. Ég veit ekki hvort dómurinn sefi reiði en dómararnir fimm segja:
„Þessi brot voru stórum alvarlegri en nokkur dæmi verða fundin um í íslenskri dómaframkvæmd varðandi efnahagsbrot. Kjarninn í háttsemi ákærðu fólst í þeim brotum, sem III. kafli ákærunnar snýr að, en þau voru þaulskipulögð, drýgð af einbeittum ásetningi og eindæma ófyrirleitni og skeytingarleysi. Öll voru brotin framin í samverknaði og beindust að mikilvægum hagsmunum.“
Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, segir dóminn leggja línur í öðrum málum hjá embættinu. Að sjálfsögðu ber að gera því kleift að ljúka þeim málum.
Miðvikudagur 11. 02. 15
Í dag ræddi ég við Eyjólf Pálsson í Epal í þætti mínum á ÍNN og má sjá hann klukkan 20.00 í kvöld og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun. Á þessu ári eru 40 ár frá því að Epal kom til sögunnar en heiti verslunarinnar er myndað úr upphafsstöfum í nafni Eyjólfs sem hefur allt frá upphafi átt og rekið hönnunarvöru-verslunina eða hugsjónaverslunina, eins og hún var nefnd á sínum tíma. Frá árinu 2006 hefur Epal verið í flugstöð Leifs Eiríkssonar en frá og með næsta sunnudegi, 15. febrúar, er henni úthýst þaðan og þar með tugum íslenskra hönnuða sem eiga verk sín og varning í búðinni.
ISAVIA, opinbert hlutafélag í ríkiseign, bauð út rými í flugstöð Leifs Eiríkssonar með því fororði að þar skyldi yfirbragð þannig að ferðamenn áttuðu sig á því strax og þeir stigu í húsið að þeir væru á Íslandi. Þegar upp er staðið réðu peningasjónarmið ISAVIA sem leigusala alfarið niðurstöðunni en ekki þjóðhagsleg peningasjónarmið eins og sést af brottrekstri Epals og Kaffitárs úr flugstöðvarbyggingunni. Þegar litið er til Epals leiðir lokun verslunarinnar í flugstöðinni til þess að hagur margra hönnuða þrengist og þeir verða að fækka aðstoðarfólki sínu.
Á sínum tíma studdi ég hugmyndir um ohf-væðingu ýmissa opinberra stofnana. Mér finnst hins vegar reynslan af breytingum í þá veru víða hafa misheppnast og til hafi orðið fyrirtæki sem umgangast birgja og viðskiptavini á óviðunandi hátt. Nefni ég þar sérstaklega ISAVIA og ríkisútvarpið.
Leyndarhyggja einkennir meðal annars þessi fyrirtæki eins og birtist í tregðu ISAVIA til að skýra frá hvaða sjónarmið réðu að lokum við mat á þeim sem buðu í rými í flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Nú hefur verið ákveðið að verja 150 milljónum króna til að kaupa upplýsingar sem eiga að nýtast til að leggja mat á hvort Íslendingar hafi skotið undan skatti erlendis. Að lokum var sótt að Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra á ómaklegan hátt með ásökunum um að hann drægi lappir til að hylma yfir með einhverjum. Þessari aðför hefði getað verið stjórnað af almannatengli á vegum seljandans, að minnsta kosti mátti greina handbragð sem áður hefur dugað til að blása mál upp í fjölmiðlum. Við skulum vona að skattgreiðendur kaupi ekki köttinn í sekknum.
Þriðjudagur 10. 02. 15
Viðtal mitt við Halldór Benóný Nellett skipherra sem birtist á ÍNN hinn 4. febrúar 2015 er komið á netið og má sjá það hér. Við ræddum þátttöku landhelgisgæslunnar í starfi FRONTEX, Landamærastofnunar Evrópu, og björgunarstörf vs Týs á Miðjarðarhafi.
Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, segir að rigna muni „eldi og brennisteini“ á alþingi leggi utanríkisráðherra fram tillögu um að draga hina dauðu ESB-umsókn til baka. Þá er ljóst að Össur ætlar að gera allt sem í hans valdi stendur til að ala á sundrungu innan Sjálfstæðisflokksins flytji utanríkisráðherra tillöguna.
Þetta eru óvenjulegar hótanir ráðherrans sem stóð fyrir ESB-umsókninni og forklúðraði síðan málinu á þann veg að í ársbyrjun 2013 lagði hann til að viðræðum við ESB yrði slegið á frest. Össur hafði þá síðan í mars 2011 árangurslaust reynt að blása lífi í viðræðurnar. Á árinu 2012 gekk hann fyrir hvern erlenda stórhöfðingjann eftir annan til að knýja á um framhald viðræðna um sjávarútvegsmál innan ramma aðildarviðræðnanna. Allt kom fyrir ekki og háðuglegast fór Alain Juppé, þáverandi utanríkisráðherra Frakka, með íslenska ráðherrann.
ESB-viðræðunum verður ekki fram haldið nema utanríkismálanefnd alþingis breyti umboðinu sem þáverandi meirihluti utanríkismálanefndar veitti í áliti sínum vegna umsóknarinnar sumarið 2009. Það verður að slá af kröfum í sjávarútvegsmálum, vegna þeirra stöðvaði ESB viðræðurnar. Í meirihlutaálitinu um sjávarútvegsmál sá ESB ekki neina aðlögunarglufu. Að Íslendingar breyti sáttmálum eða sameiginlegri sjávarútvegsstefnu ESB verður ekki – tímabundin aðlögun er hið eina sem kemur til greina. Hún er ekki einu sinni í boði nema Íslendingar breyti samningsumboðinu.
Þetta veit Össur. Í stað þess að flytja tillögu um nýtt samningsumboð í sjávarútvegsmálum hellir hann úr skálum reiði sinnar vegna tillögu sem hann vill koma í veg fyrir að utanríkisráðherra flytji. Utanríkisráðherrann er ekki bundinn af því að alþingi samþykki afturköllun umsóknarinnar, hann getur kallað hana aftur með einföldu bréfi til ESB. Hvers vegna velur ráðherrann ekki þann kost í stað þess að kalla „eld og brennistein“ yfir alþingi?
Mánudagur 09. 02. 15
Að halda því fram að Krímverjar hafi samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu að land þeirra yrði hluti af Rússlandi hinn 16. mars 2014 felur í sér svo gagnrýnislaut mat á hvernig standa beri að slíkum atkvæðagreiðslum að furðu sætir. Einu erlendu alþjóðlegu „eftirlitsmennirnir“ á svæðinu voru fulltrúar nokkurra öfgasinnaðra hægriflokka í Evrópu. Til atkvæðagreiðslunnar þar sem 96,6% sögðu já við innlimun í Rússland var efnt eftir innrás manna án einkennismerkja á Krímskaga. Tveimur mánuðum síðar viðurkenndi sjálfur Vladimír Pútín að þarna hefðu rússneskir hermenn verið á ferð.
Þá er bent á Kósóvó til afsökunar á framgöngu Rússa gagnvart Úkraínumönnum. Hafi Kósóvó átt rétt á sjálfstæði frá Serbíu sé ekki unnt að neita Krím um að segja skilið við Úkraínu og gerast hluti Rússlands. Gagnvart þessari röksemd er bent á að alls ekki sé unnt að bera þetta tvennt saman. Stríð hafi verið háð áður en Kósóvó rauf sambandið við Serbíu og höfðu 10.000 manns fallið í átökunum. NATO hafði látið að sér kveða og Kósóvó, gamalt hérað í Serbíu var sett undir Sameinuðu þjóðirnar árið 1999. Það var ekki fyrr en í febrúar 2008, eftir níu ára undirbúning sem Kósóvó lýsti yfir sjálfstæði sínu. Ekkert sambærilegt gerðist á Krím, Rússavinir sættu engum ofsóknum. Málið var leitt til lykta á einum mánuði.
Um leið og á þetta er bent skal vakin athygli á því sem ég tók sem saman úr Frankfurter Allgemeine Zeitung í dag og lesa má á Evrópuvaktinni. Þetta minnir mig á umræður um áróðursstríðið í kalda stríðinu þegar tekist var á um stýriflaugarnar í Evrópu á fyrri hluta níunda áratugarins. Þá töldu margir að NATO og Bandaríkjamenn væru að tapa áróðursstríðinu við Sovétmenn og Varsjárbandalagið sem höfðu friðarhreyfingar á sínum snærum í Vestur-Evrópu, ekki síst Vestur-Þýskalandi
Caspar Weinberger, varnarmálaráðherra í ríkisstjórn Ronalds Reagans forseta, sendi þá frá sér bækling með nákvæmum upplýsingum um sovéskan vígbúnað og reyndust þær mjög gagnlegar fyrir þá sem vildu halda fram hinum vestræna málstað sem sigraði að lokum. Þá var sá mikli munur á stöðunni frá því að er í dag að Rússland var lokað. Nú geta annarra þjóða menn hins vegar miðlað upplýsingum þangað og háð áróðursstríð innan landamæra Rússlands sé vilji til þess.
Sunnudagur 08. 02. 15
Fimmtudaginn 5. febrúar birtist þessi frétt á vefsíðu vinstri grænna vg.is:
„Rétt í þessu óskaði Katrín Jakobsdóttir [formaður VG] eftir því að utanríkismálanefnd [alþingis] ræddi TISA-viðræðurnar [viðræður um þjónustuviðskipti, Tyrkir hafa kynnt viðauka um heilbrigðisþjónustu] sbr. eftirfarandi: ,,Sæl veriði, ég vil óska eftir því að utanríkismálanefnd fái utanríkisráðuneytið á fund um TISA viðræðurnar og vinnulag ráðuneytisis í kringum þær í ljósi þess að heilbrigðisráðherra vissi hvorki um tillögur tengdar viðskiptum með heilbrigðisþjónustu né afstöðu Íslands í því máli.”
Þessi brýna krafa um fund í utanríkismálanefnd alþingis var sett fram sama dag og Angela Merkel Þýskalandskanslari og François Hollande Frakklandsforseti héldu til Kænugarðs í von um að geta stuðlað að friði milli Úkraínumanna og Rússa. Daginn eftir fóru þau síðan til Moskvu í sömu erindagjörðum.
Þess hefur ekki orðið vart að formaður VG eða nokkur annar alþingismaður hafi vakið máls á nauðsyn þess að hér á landi eins og hvarvetna annars staðar í Evrópu ræði stjórnmálamenn áhrif þess sem gerist í austurhluta Úkraínu á hagsmuni þjóða sinna.
Almennt mat hnígur að því að vatnaskil séu að verða í Evrópu og samskiptum Rússa við vestrænar þjóðir. Í stað sameiginlegrar viðleitni til að stuðla að stöðugleika og jafnvægi ríki nú sundurlyndi og óvild.
Hér skal ekki gert lítið úr nauðsyn þess að bregðast við sjónarmiðum Tyrkja um heilbrigðismál í TISA-viðræðunum. Enn nauðsynlegra er þó fyrir landsmenn að vita hver er afstaða Íslands í fastraráði NATO þar sem menn takast nú á um hvort senda eigi herbúnað til Kænugarðs eða ekki og hvers kyns búnaður það skuli vera.
Laugardagur 07. 02. 15
Meðal þess sem mikið var rætt eftir uppgjörið við fjármálakerfið haustið 2008 var að efla yrði lýðræðislegar umræður í samfélaginu. Það yrði til dæmis gert með því að opna umræður meira en áður um umdeild mál. Þrjú slík mál eru nú á döfinni. Í fyrsta lagi frumvarp um náttúrupassa, í öðru lagi frumvarp um kvótakerfið og loks spurningin um forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu.
Í öllum þessum málum hafa ráðherrar kynnt ákveðin sjónarmið en jafnframt sagt að þeir séu reiðbúnir að taka þátt í opinberum umræðum um málin og hlusta á önnur sjónarmið. Þá ber svo við að fréttastofa ríkisútvarpsins kýs að setja frumvörpin tvö inn í þann „fréttaramma“ að ráðherrarnir eigi undir högg að sækja af því að innan þeirra eigin flokka eða í röðum stjórnarliða á alþingi séu ekki allir á sama máli og ráðherrarnir.
Auðvelt er að færa fyrir því rök að það sé frekar „fréttaramminn“ sem móti umræðurnar en efni málsins. Þessi fréttatök vinna beinlínis gegn áhuga ráðherra og annarra á að leggja mál fram með því fororði að þeir sætti sig við að þau taki breytingum eftir þinglega meðferð. Mönnum er að sjálfsögðu illa við að opin málsmeðferð af þessu tagi sé lögð út á þann veg að sá sem stuðlar að henni sé að verða undir ef einhver er honum ósammála. Í þessu efni eru þeir sem smíða „fréttarammann“ að vinna gegn þróun sem er í takt við áhuga á að virkja sem flesta við töku mikilvægra ákvarðana í opnu, lýðræðislegu samfélagi.
Innanríkisráðherra hefur sett forvirkar rannsóknarheimildir á dagskrá án þess að leggja fram frumvarp eða hafa mótað sér ákveðna skoðun. Ráðherrann gerir þetta í von um að umræður um málið skili breiðri samstöðu um það. Hér er mál á ferðinni sem snertir öryggi borgaranna og vilji þeir ekki að til sögunnar komi tæki sem hvarvetna er talið auka þetta öryggi er það niðurstaða á ábyrgð þeirra sem að henni komast.
Meðferð stjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur á ESB-málinu og stjórnarskrármálinu var andstæð öllum hugmyndum um að virkja almenning án tillits til þröngra flokkssjónarmiða. Ríkisstjórnin klúðraði báðum málunum.
Föstudagur 06. 02. 14
Á Varðbergsfundinum með Ólöfu Nordal innanríkisráðherra komu fram sterkar efasemdaraddir um aðild Íslands að Schengen-samstarfinu. Þeir sem þannig töluðu eru þeirrar skoðunar að með úrsögn úr samstarfinu megi stórefla öyggi landsmanna og hindra skipulagða glæpastarfsemi eða hryðjuverk. Ólöf tók ekki undir þessa skoðun frekar en forverar hennar í embætti dóms- eða innanríkisráðherra frá því að Ísland varð eitt Schengen-ríkjanna árið 1999.
Ólöf Nordal færði skýr rök fyrir afstöðu sinni. Ólíklegt er að þau hríni á gagnrýnendur, óvildin í garð Schengen-aðildarinnar er fremur reist á tilfinningu en þekkingu. Vissulega mátti deila um inngönguna í Schengen en eftir hana er óskynsamlegt að bíta úrsögn í sig og halda hana stórauka öryggi landsmanna. Það er hreinn misskilningur eins og sú fullyrðing Halldórs Jónssonar, verkfræðings í Kópavogi, að ég hafi barist fyrir Schengen-aðild árið 1999 með Halldóri Ásgrímssyni utanríkisráðherra. Þá var ég menntamálaráðherra og lét mér Schengen-málið í tiltölulega léttu rúmi liggja en leyfði þeim Halldóri, Þorsteini Pálssyni dómsmálaráðherra og Davíð Oddssyni forsætisráðherra að leiða málið.
Eftir að ég varð dómsmálaráðherra árið 2003 kom það í minn hlut að gæta hagsmuna Íslands innan Schengen-samstarfsins. Lagði ég mig fram um að átta mig sem best á öllum þáttum málsins og skrifaði meðal annars fræðilega ritgerð um það í bók sem kom út á vegum Háskólans á Bifröst. Ritgerðin er einnig fylgiskjal með skýrslu um tengsl Íslands og Evrópusambandsins sem kom út í mars árið 2007. Síðan ritaði ég greinaflokk um Schengen-aðildina á Evrópuvaktina. Greinarnar fimm má lesa hér á síðunni, sjá september 2012 í flokknum Ræður og greinar. Þessar athugunar mínar leiddu til eindregins stuðnings míns við aðild Íslands að Schengen-samstarfinu.
Ég tel mig hafa fullgild rök fyrir Schengen-afstöðu minni. Mér þykir miður að lesa málflutning á borð við þann sem Halldór Jónsson flytur. Hann er innistæðulaus.
Birgitta Jónsdóttir alþingismaður hefur lýst andstöðu sinni við að hér á landi verði veitt heimild til forvirkra rannsóknaraðgerða í sérstökum tilvikum með leyfi dómara og undir eftirliti nefndar á vegum alþingis. Það kemur ekki á óvart. Þingmaðurinn vann með Julian Assange að gera Ísland að griðastað í tölvuheiminum. Áformin voru vanhugsuð frá grunni og koma aldrei til framkvæmda. Flest önnur pólitísk áhugamál hennar eru sama marki brennd.
Fimmtudagur 05. 02. 15
Fjölmenni var á fundi Varðbergs í hádeginu í dag þar sem Ólöf Nordal innanríkisráðherra flutti fyrsta opinbera erindi sitt um löggæslu og öryggismál í alþjóðlegu samhengi.
Meðal þess sem hún gat um í yfirgripsmikilli ræðu sinni var skýrsla sem tveir sérfræðingar Evrópusambandsins unnu í tíð minni sem dómsmálaráðherra og kynnt var sumarið 2006. Skýrslan sem má sjá hér vakti miklar umræður og í framhaldi af henni var margvísleg vinna unnin í ljósi hennar. Ég fór til dæmis með fulltrúum allra þingflokka á þessum tíma í kynnisferð til Danmerkur þar sem við hittum stjórnmálamenn og embættismenn sem fjalla um þjóðaröryggismál.
Hér er um málefni að ræða sem æskilegt er að um ríki víðtæk pólitísk sátt og trúnaður eins og er að jafnaði í nágrannalöndunum. Þar sem ég taldi ekki líkur á að ná mætti slíkri samstöðu hér á þeim tíma sem ég hafði til umráða lét ég málið niður falla. Ég fagna því að Ólöf Nordal taki þráðinn upp að nýju með þeim formerkjum sem hún gerir. Reynir nú á hvort málið hafi „þroskast“ á þann veg á tæpum áratug að unnt sé að ræða það á þann opna hátt sem ráðherrann vill að gert verði. Það kemur í ljós.
Á vefsíðunni ruv.is segir um fundinn:
„Ólöf Nordal, innanríkisráðherra, vill að umræða fari fram um hvort nauðsynlegt sé að stofna þjóðaröryggisdeild. Þetta kemur fram í viðtali við hana í Speglinum í kvöld.
Í skýrslu sem erlendir sérfræðingar unnu fyrir dómsmálaráðuneytið 2006 var gert ráð fyrir allt að 30 manna starfsliði og að deildin hefði forvirkar rannsóknarheimildir eins og til dæmis heimild til hlerana. Ráðherra vill ekkert segja um hvort að slík deild þurfi á forvirkum heimildum að halda. Það þurfi bara að ræða.“
Nú kemur í ljós hvort unnt er að ræða þetta mál án upphrópana eða útúrsnúninga. Þetta getur snúist um dauðans alvöru.
Miðvikudagur 04. 02. 15
Í dag ræddi ég við Halldór Benóný Nellett skipherra í þætti mínum á ÍNN um störf Landhelgisgæslu Íslands fyrir Frontex, Landamærastofnun Evrópu, og ferð hans með varðskipinu Tý þar í ársbyrjun. Þáttinn má sjá kl. 20.00 í kvöld og síðan á tveggja tíma fresti til kl. 18.00 á morgun.
Hér má sjá viðtal mitt við dr. Janus Guðlaugsson, lektor við Háskóla Íslands, á ÍNN miðvikudaginn 28. janúar.
Umboðsmaður alþingis skilaði áliti föstudaginn 23. janúar vegna athugunar sem hann hóf á samskiptum Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra og Stefáns Eiríkssonar lögreglustjóra vegna rannsóknar lögreglu á lekamálinu svonefnda. Daginn eftir ræddi fréttastofa ríkisútvarpsins við Stefaníu Óskarsdóttur, dósent í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, sem fór mikinn og taldi Hönnu Birnu öllu trausti rúna.
Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, birtist í fréttatíma sjónvarps ríkisins sunnudaginn 25. janúar og á ruv.is segir:
„Álit umboðsmanns Alþingis á samskiptum Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrrverandi innanríkisráðherra, og Stefáns Eiríkssonar, fyrrverandi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, er mjög alvarlegt. Þetta segir Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði.
Trúverðugleiki hennar sem þingmanns hafi beðið hnekki. Umboðsmaður slái því föstu að hún hafi ítrekað harkalega gagnrýnt rannsókn lögreglunnar á lekamálinu og það brjóti í bága við lög og reglur.“
Mánudaginn 2. febrúar birti innanríkisráðuneytið minnisblað eftir Hafstein Þór Hauksson, lektor í lögfræði við Háskóla Íslands. Hann hafði rýnt álit umboðsmanns og greint hvort þar kæmu fram athugasemdir sem sneru að innanríkisráðuneytinu og stjórnsýslu þess.
Hafsteinn Þór segir að athugasemdir umboðsmanns við starfshætti stjórnvalda geti í megindráttum beinst að þremur atriðum: Í fyrsta lagi að lög eða stjórnvaldsfyrurmæli hafi verið brotin. Í öðru lagi að brotið hafi verið gegn vönduðum stjórnsýsluháttum eða siðareglum. Í þriðja lagi að meinbugir séu á gildandi lögum. Lektorinn segir að umboðsmaður beini engum sérstökum tilmælum til innanríkisráðuneytisins, þó séu gerðar athugasemdir við ákveðin atriði í starfsemi ráðuneytisins, t.d. skráningu funda og stöðu aðstoðarmanns. Athugasemdirnar snúist „fyrst og fremst að hinum pólitíska hluta ráðuneytisins“.
Við lestur greinargerðar Hafsteins Þórs vaknar spurning hvaða mælikvarða stjórnmálafræðimennirnir hafi notað til að fella þunga dóma sína í tilefni af áliti umboðsmanns.
Þriðjudagur 03. 02. 15
Ólöf Nordal innanríkisráðherra bað Hafstein Þór Hauksson, lektor við lagadeild Háskóla Íslands, að rýna hið langa álit sem Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður alþingis, skrifaði til að réttlæta frumkvæðisathugun sem hann ákvað eftir að hafa lesið um lekamálið í DV í lok júlí 2014.
Í stuttu máli má segja að lektorinn hafi ekki fundið neitt bitastætt í álitinu. Þar sé ekki að finna neinar ábendingar til innanríkisráðuneytisins um það sem betur megi fara, almennum orðum sé farið um að leiðbeina eigi aðstoðarmönnum ráðherra um verklag þeirra og þá sendi umboðsmaður ábendingar um almenn atriði til forsætisráðherra.
Umsögn lektorsins er í hróplegri andstöðu við stóryrði ýmissa í fjölmiðlum og á alþingi strax eftir að álit umboðsmanns birtist og líklega í einhverjum tilvikum áður en álitsgjafar höfðu lesið það.
Hér hefur því verið haldið fram að bréfið sem Hanna Birna Kristjánsdóttir ritaði umboðsmanni alþingis 8. janúar 2015 hafi gert honum kleift að fóta sig í málinu. Hann sá samt ástræðu til að fetta fingur út í orðalag í bréfinu.
Ritæfingarnar um lögfræðileg álitamál í texta umboðsmanns eru innihaldslitlar eins og rýniskýrsla Hafsteins Þórs Haukssonar sýnir. Ætli frumhlaup umboðsmanns hafi ekki helst framtíðargildi sem áminning um að rétt sé að hugsa sig um tvisvar áður en lagst er í opinberar rannsóknarvinnu eftir lestur á DV, að minnsta kosti sé blaðið undir ritstjórn Reynis Traustasonar.
Persónuvernd hefur ekki birt niðurstöðu sína í rannsókn á viðbrögðum þáv. lögreglustjóra á Suðurnesjum við ósk aðstoðarmanns innanríkisráðherra um gögn í útlendingamáli sem var til ákvörðunar í ráðuneytinu. Tvennt ber að hafa í huga þegar rætt er um þessi viðbrögð: Í fyrsta lagi hafði skjalinu sem er þungamiðja lekamálsins verið lekið þegar lögreglustjórinn brást við ósk aðstoðarmannsins. Í öðru lagi var ekki um gögn í sakamáli að ræða heldur útlendingamáli sem ráðuneytið hafði til meðferðar.
Þeir sem hæst hafa talað um rannsókn í nafni persónuverndar horfa fram hjá þeim tveimur lykilstaðreyndum málsins sem hér eru nefndar.
Mánudaginn 02. 02. 15
Steingrímur J. Sigfússon, fyrrv. fjármálaráðherra, grípur til fúkyrða þegar rætt er við hann un skjölin sem Víglundur Þorsteinsson lögfræðingur hefur dregið út úr möppum opinberra aðila og sýna vinnubrögðin sem stunduð voru undir pólitískri forystu Steingríms J. á útmánuðum 2009 þegar hann bjó um sig í fjármálaráðuneytinu. Hann lagðist þar flatur fyrir erlendum kröfuhöfum og talaði um „glæsilega niðurstöðu“ Svavars félaga síns Gestssonar í Icesave-málinu þegar allt annað var á döfinni sé tekið mið af íslenskum hagsmunum.
Meðal þeirra sem hafa tekið að sér skjalda Steingrím J. í þessu máli eru ritstjórar vefblaðsins Kjarnans. Þeir hafa birt nafnlausa dálka til að gera lítið úr málatilbúnaði Víglundar og veltu fyrir sér sunnudaginn 1. febrúar hvort Sigmundur Davíð ætlaði að „láta rannsaka Ásmund Einar, þingmann, aðstoðarmann og trúnaðarmann sinn, fyrir að hafa afhent, í samfloti við vonda vinstraliðið, kröfuhöfum banka fulla af peningum sem með réttu ættu að vera eign íslenskra heimilia og fyrirtækja?“
Rökin að baki þessari spurningu eru þau að Ásmundur Einar Daðason þingmaður hafi í desember 2009, þegar hann var enn í flokki með Steingrími J., verið í meirihluta fjárlaganefndar sem studdi frumvarp sem heimilaði Steingrími J. að „ staðfesta breytingar á eignarhlut ríkisins í bönkunum þremur með samningum við kröfuhafanna“.
Í hinni nafnlausu hugleiðingu Kjarnans segir:
„Ef til stendur að rannsaka tilfærslu á eignarhlutum í nýju bönkunum til kröfuhafa þá hlýtur sú rannsókn að ná til þeirra þingmanna sem lögðu fram frumvarpið sem heimilaði tilfærsluna, ekki bara til ráðherrans sem framkvæmdi hana.“
Þetta er sérkennilega veik málsvörn fyrir Steingrím J.. Hún felst í því að aðrir eigi á hættu að lenda í svaðinu með honum. Sá er hins vegar munurinn að Steingrímur J. bar ráðherraábyrgð á þessum tíma og hvort sem það er gert með „sorg í hjarta“ eða ekki verður stundum að láta menn horfast í augu við þá ábyrgð. Ásmundur Einar axlar hana ekki með Steingrími J. hvað sem spunaliðar Kjarnans segja.
Sunnudagur 01. 02. 15
Á vefsíðu MMR segir 30. janúar um niðurstöður nýrrar könnunar:
„Flestir töldu að Samfylkingin væri best til þess fallin að leiða samninga um aðild að Evrópusambandinu. Af þeim sem tóku afstöðu töldu 39,0% töldu að Samfylkingin væri best til þess fallin að leiða samninga um aðilda að Evrópusambandinu.“
Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, hreykir sér af þessu á Facebook-síðu sinni laugardaginn 31. janúar. Össur beitti sér hins vegar fyrir því í janúar 2013 að viðræðunum við ESB var hætt enda lá fyrir ágreiningur í sjávarútvegsmálum af því að fulltrúar ESB neituðu að láta íslensk stjórnvöld hafa nauðsynleg svör um álit þeirra á stefnu Íslands og skilyrðum.
Það er dæmigert um þennan þátt ESB-umræðnanna, viðræður eða ekki viðræður, að forðast er að ræða efni málsins og aðeins litið á umbúðirnar. Spurningin sem MMR lagði fyrir er í raun marklaus. Áður en viðræðum yrði fram haldið væri óhjákvæmilegt að brjóta ágreininginn við ESB í sjávarútvegsmálum til mergjar og upplýsa þjóðina um á hverju strandaði hjá kappanum Össuri. Látið var í veðri vaka að þar hefði deila um makríl ráðið úrslitum en í hinu orðinu sagt að makríldeilan og viðræðurnar væru tvö aðskilin mál. Að sjálfsögðu brotnaði á kröfu alþingis um að ráðin yfir 200 mílunum yrðu í íslenskum höndum. Eigi að skapa brú til ESB þarf nýja umsókn með nýjum skilyrðum.
Á Facebook-síðu sinni spáir Össur að afturköllun ESB-umsóknarinnar muni „kljúfa Sjálfstæðisflokkinn“. Hvar hefur maðurinn verið? Hefur hann ekki fylgst með Viðreisnar-bröltinu? Varla gera þeir sem fyrir því standa kröfu til að teljast sjálfstæðismenn? Þá segir Össur:
„Stjórnin sem við tekur [að loknum kosningum] mun láta þjóðina kjósa um framhald viðræðna innan 4 mánaða frá kosningum, og síðan aftur um fullgerðan samning.“
Merkilegt er að Össur tekur ekki undir sjónarmið þeirra sem vilja að afturköllun umsóknar sé borin undir þjóðina. Orð hans má hins vegar skilja sem svo að fjóra mánuði þurfi að lokinni stjórnarmyndun til að undirbúa nýja umsókn og leggja hana fyrir þjóðina. Hann er nú talsmaður þess að kosið sé tvisvar fyrst um umsókn og viðræður og síðan um lyktir viðræðna. Hann hefur fallist á sjónarmið Sjálfstæðisflokksins frá landsfundi hans snemma árs 2009. Skyldi hann búa sig undir stjórn með Sjálfstæðisflokknum að loknum kosningum?