13.2.2015 19:00

Föstudagur 13. 02. 15

Í dag birtist í Fréttablaðinu viðtal um atvik frá árinu 2008 hjá embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum. Jóhann Benediktsson, þáverandi lögreglustjóri, segir í samtalinu að mánuði eftir að hann greip til víðtækrar lögregluaðgerðar hafi ég farið „öfugur fram úr rúminu“ án þess að hann viti hvað gerðist en hann hafi síðan gefist upp sem lögreglustjóri „af því að hann naut ekki stuðnings lengur“.

Í stuttu máli má rifja upp hvað gerðist: Skipulag lögreglustjóraembættisins á Suðurnesjum var leifar frá tíma varnarliðsins og vildi ég skilja milli löggæslu og tollgæslu – tollgæslan ætti að falla undir fjármálaráðuneytið. Um þetta urðu harðar deilur. Breytingin gekk fram og var eðlilegt að auglýsa embætti lögreglustjóra vegna hennar. Jóhann sótti ekki um og var Sigríður Björk Guðjónsdóttir skipuð í embættið. Ákvarðanir mínar áttu ekkert skylt við lögregluaðgerð sem Jóhann segir frá í viðtalinu.

Þá segir Jóhann:

„Það er ekki hægt að vera í þessu starfi án þess að vera með stuðning dómsmálaráðherra. Stefán Eiríksson kynntist þessu og við vitum alveg af hverju hann gafst upp.“

Þetta er ný skýring hjá Jóhanni á ákvörðun Stefáns Eiríkssonar um að hverfa úr embætti lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu. Sé álíka mikill fótur fyrir skýringu hans og lýsingunni á eigin brottför gef ég ekki mikið fyrir hana.

Þráhyggja nokkurra blaðamanna sem hurfu af DV eftir eigendaskipti fylgir þeim yfir á nýtt mánaðarblað Stundina sem sá dagsins ljós í dag. Á forsíðu er veður gert út af flutningi lögregluforingja á milli embætta eða herbergja innan húsakynna lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Á forsíðunni segir einnig: „Þeir sem rannsökuðu lekamálið hafa orðið undir. Nýr lögreglustjóri í skoðun vegna aðkomu að því.“

Hafi einhverjir sem skoðuðu lekamálið orðið undir í þeim skilningi sem þarna er lýst eru það blaðamennirnir á DV sem sáu sér þann kost vænstan að yfirgefa blaðið. Þá er rangt að nýr lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu sé „í skoðun“ vegna aðkomu að lekamálinu. Athugun persónuverndar snýr að svari lögreglustjórans við ósk aðstoðarmanns ráðherra eftir að umdeildu skjali hafði verið lekið úr ráðuneytinu. Stundin verður ekki spennandi sé þessi forsíða vísbending um framhaldið.