Dagbók: janúar 2006

Þriðjudagur, 31. 01. 06. - 31.1.2006 21:04

Glæsilegt að sigra Rússa í handbolta. Til hamingju!

Og Þorsteinn Pálsson að verða ritstjóri Fréttablaðsins, enn hækkar risið á Baugsmiðlum. Ég hef aldrei áttað mig almennilega á því, hvernig blað menn vilja að Fréttablaðið sé. Kannski kemur einhver mynd á það núna.

Nýr ritstjóri á Fréttablaðið og nýr ritstjóri á Blaðið auk nýrra ritstjóra á DV. Þettu eru breytingatímar í fjölmiðlaheiminum. Hvað skyldu vinstrisinnar segja um þetta? Ekki vildu þeir, með forseta Íslands í fararbroddi, neinar breytingar á fjölmiðlum sumarið 2004. Ætli þetta sé ekki líka einum of mikið fyrir þá?

DV sneri sér til Stefáns Ólafssonar prófessors og spurði, hvort hann vildi eitthvað segja í tilefni pistils míns sl. sunnudag um hinn pólitíska þríhyrning. Stefán var ekki á þeim buxunum að svara heldur sagði við blaðið: „Ég hef engan áhuga á að fara í pólitískan leðjuslag við Björn Bjarnason né nokkurn annan.“ Þarna höfum við það, sé þeirri skoðun Stefáns andæft, að stjórnvöld beiti „skattalækkunarbrellu“ og segi stórkostleg ósannindi, er verið að skora á hann í „pólítískan leðjuslag“.

Stefán sagði ekki unnt að finna neinn óháðan aðila til að leggja mat á skýrslu sína, sem unninn var fyrir Öryrkjabandalag Íslands. Ekki er við hæfi fyrir prófessorinn að ræða um skoðanir sínar við stjórnmálamann, leðja stjórnmálanna kynni að slettast á hann. 

Vandræði Dana vegna skopteikninga af Múhameð magnast enn og í leiðara Berlingske Tidende í dag er þeim lýst á þennan veg: „... de politiske, ökonomiske, og diplomatiske konsekvenser for Danmark har naaet et niveau, hvor mand med fuld dækning kan tale om en regulær national krise.“ Hér er ekki lítið sagt um vanda vina okkar í Danmörku. Anders Fogh Rasmussen forsætisráðherra hvatti Dani í dag til að sýna stillingu, þeir ættu í miklum vanda vegna óvildar þjóða, sem þeir hefðu þó stutt á marga lund.

Sama dag og staða Dana er á þennan veg birtist viðtal við þýska utanríkisráðherrann Frank-Walter Steinmeier í Der Spiegel undir fyrirsögninni: Ástandið (vegna Írans) er eldfimt og hættulegt. Og fyrsta spurningin er þessi: „Ráðherra, deilan við Írani vegna kjarnorkuáætlunar þeirra harðnar. Forseti Frakklands hefur jafnvel opinberlega velt fyrir sér beitingu kjarnorkuvopna. Stendur veröldin á barmi nýrra hernaðarátaka?“

Ráðherrann svarar: „Við stöndum í miðri deilu, þar sem sumir sækja vígalegir fram. En við erum ekki á barmi hernaðarátaka. Við höldum áfram að beita diplómatískum tækjum. Enginn þeirra, sem ég er í tengslum við á þessari stundu, telur hernað við hæfi.“

Fyrir skömmu birti Der Spiegel viðtal við Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, þar sem hann sagðist treysta því, að Evrópusambandið og aðildarríki þess gætu komið vitinu fyrir Írani í kjarnorkumálum.

Mánudagur, 30. 01. 06. - 30.1.2006 19:22

Loftslagsumræður stjórnarandstöðunnar vegna hugmynda um ný álver hér á landi eru til marks um, að enn er gripið til allra ráða til að gera eflingu atvinnulífs tortryggilega. Ef bannað verður með alþjóðasamningi að nýta hreina orku hér á landi til að framleiða ál, geta ekki verið loftslagsrök að baki slíku banni. Þegar rætt er um Kýótó-samkomulagið er látið eins og það snúist aðeins um umhverfismál - að baki samkomulaginu býr einnig viðleitni til að flytja efnahagsumsvif frá iðnvæddum ríkjum til hinna, sem standa þeim ekki á sporði.

Iðnaðarráðherra Valgerður Sverrisdóttir hefur kynnt, að unnt sé að ræða hér um stækkun álversins í Straumsvík, nýtt álver Alcoa á Norðurlandi og enn eitt álverið hér suðvesturlands, án þess að farið sé út fyrir þau losunarmörk, sem Íslandi eru sett samkvæmt Kýótó-samkomulaginu, en það gildir til 2012. Samfylkingarþingmenn virðast annarrar skoðunar og Kolbrún Halldórsdóttir þingmaður vinstri/grænna verður hin versta í ræðustól alþingis, þegar hún ræðir þessi mál.

Horfði á kvöldfréttir danska sjónvarpsins, sem snerust nær allar um vandræði Dana vegna viðskiptabanns á vörur þeirra í múslímalöndum til að mótmæla skopmyndum af Múhameð spámanni, sem birtust í JyllandsPosten í nóvember 2005. Anders Fogh Rasmussen forsætisráðherra var í löngu viðtali og ítrekaði, að danska stjórnin gæti ekki rætt við sendiherra erlendra ríkja um, að hún ætlaði að höfða mál á hendur dönsku dagblaði vegna þess, sem þar birtist. Síðdegis sendi JyllandsPosten frá sér afsökunarbeiðni. Forsætisráðherrann sagði, að hann hefði aldrei getað gert sér í hugarlund, að þetta mál þróaðist á þennan veg.

Dagur B. Eggertsson, formaður skipulagsráðs Reykjavíkurborgar og frambjóðandi til forystu í prófkjöri Samfylkingarinnar, fjargviðraðist yfir því í sjónvarpi í kvöld, að Gísli Marteinn Baldursson, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hefði sagt okkur sjálfstæðismenn á móti nýrri bensínstöð í Vatnsmýrinni á milli háskólasjúkarhúss og háskóla - við hefðum áður samþykkt stöðina. Þetta er sami Dagur, sem sagði á dögunum, að eftir á að hyggja hefði ekki verið skynsamlegt að leggja Hringbrautina nýju, eins og gert var undir skipulagsstjórn R-listans. Er ekki betra að sýna forsjálni eins og Gísli Marteinn gerði, þótt skipt sé um skoðun, heldur en áskilja sér rétt til að vera vitur eftir á eins og Dagur - og skipta þá um skoðun?

Að lokum legg ég til að Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar, skrifi tvær blaðagreinar á hverjum degi um menntamál - þá mundi Samfylkingin líklega minnka enn hraðar.

 

 

Laugardagur, 28. 01. 06. - 28.1.2006 17:27

Var boðið að flytja hátíðarræðu við útskrift nemenda í Viðskiptaháskólanum á Bifröst klukkan 14.00. Það var ánægjulegt að sjá gleði þeirra, sem þarna tóku við skírteinum sínum. Háskólinn á Bifröst hefur vaxið hraðar og meira en nokkurn gat grunað. Ég ákvað að nota þetta tækifæri til að svara nokkru þeirri gagnrýni, sem haldið hefur verið fram gegn háskólastefnunni, sem mótuð var með lagabreytingunni frá 1. janúar 1998. Ég tel, að stefnan hafi heppnast prýðilega og enn er verið að festa hana í sessi með nýju frumvarpi að háskólalögum.

Föstudagur, 27. 01. 06. - 27.1.2006 22:26

Ég færi Ásgeiri Sverrissyni hamingjuóskir með að hafa verið ráðinn ritstjóri Blaðsins. Við unnum saman á erlendum fréttum Morgunblaðsins á sínum tíma og veit ég, að Ásgeir mun leggja hart að sér í hinu nýja ábyrgðarstarfi.

Rúm fjögur ár eru liðin síðan Enron risafyrirtækið bandaríska hrundi til grunna eftir ásakanir um mikil bókhaldssvik. Fyrrverandi stjórnendur fyrirtækisins hafa hins vegar ekki verið kallaðir fyrir rétt fyrr en núna eftir fjögurra ára rannóknarvinnu saksóknara. The Economist segir að nú bíði ákæruvaldsins hið erfiða lögbundna verkefni að sanna fyrir kviðdómi, að hinir ákærðu hafi vitað, að þeir voru að brjóta lögin. Í stórum dráttum byggist ákæran á því, að tveir höfuðstjórnendur Enrons hafi lagt á ráðin um víðtækt samsæri til að villa um fyrir fjárfestum og gefa þeim ranga mynd að raunverulegri stöðu Enrons.

Angar Enron málsins teygja sig víða og um suma þeirra hefur þegar verið dæmt, eins og til dæmis ábyrgð endurskoðunarfyrirtækisins Arthurs Andersens, sem leið undir lok vegna Enron hneykslisins, en var sýknað í hæstarétti Bandaríkjanna af ákæru um að hafa hindrað framgang réttvísinnar með því að eyða í tonnatali bókhaldsgögnum frá Enron. Sýkna hæstaréttar byggðist á því að dómari á lægra dómstigi hafði leiðbeint kviðdómi á vitlausan hátt.

Ég hafði ekki tök á fylgjast neitt með sjónvarpsendingum á 250. afmælisdegi Mozarts fyrr en í erlendum stöðvum í kvöld, en tónleikum Vínar-fílharmóníunnar frá Salzburg var sjónvarpað í sænska og norska sjónvarpinu.

Fimmtudagur, 26. 01. 06. - 26.1.2006 17:53

Martin Vander Weyer, sem skrifar um viðskiptamál í The Spectator, fjallar um fjárfestingar Íslendinga í Bretlandi í heftinu 21. janúar. Undir fyrirsögninni Iced lolly -. Fyrsta setningin er svona: „There's something fishy about Iceland, sem hann segir, að birtist nú sem „a new utopia of entrepreneurship.“ Umsvifin séu undarlega mikil á Bretlandi, þegar litið sé til þess, að íbúafjöldi Íslands sé álíka og í Bradford og landsframleiðslan minni en ársvelta Sainsbury-verslunarkeðjunnar. Þá segir:

„So where did all that deal-making drive and those investment billions come from? The positive spin cites a combination of favourable factors, starting with a pure Viking gene pool that has bred a nation of natural entrepreneurs, and a community where everyone knows everyone, making it particularly fertile for business networking. Eurosceptics like to point aout that Iceland's membership of the European Economic Area but not of the EU itself gives it the advantages of market access without concomitant burdens from Brussels. Add to that low taxes, exceptionally high levels of internet literacy, an urge to break away from traditional livelihood as fish stocks dwindle, and long, dark winters, with nothing much else to do, and the upshot is a generation of bright young Icelanders ready to scour horizons for new opportunities. The negative spin says that some of the money behind their deals must come from dubious sources in Russia, but no evidence has been offered to support the rumours. Either way, like the Polish plumber and the South African au pair, the modern Viking marauder is an archetype of the globalised economy.“

Ég set þetta á ensku, þótt það geti vafalaust ýtt undir þá skoðun einhverra, að ekki verði töluð hér íslenska eftir 100 ár. Ég er ósammála þeim hræðsluáróðri, en er á hinn bóginn sammála þeim, sem vilja umræður um stöðu og gildi tungunnar. Ég heyrði sjónvarpsviðtöl við ungt fólk, sem þótti fráleitt, að tungan liði undir lok. Með vísan til þeirra orða, sem oft falla um íslenskuna og ungt fólk hefði mátt ætla, að það teldi íslenskuna sér til trafala. Kunnátta í erlendu tungumáli skerpir vitund um eigin tungu. Mestu skiptir að lögð sé áhersla á lipurt, létt og gott málfar og víglínur til varnar tungunni verði dregnar af raunsæi og skynsemi.

 

Miðvikudagur 25. 01. 06. - 25.1.2006 20:32

Árni Þór Sigurðsson, oddviti vinstri/grænna í borgarstjórn Reykjavíkur, ritaði grein í Morgunblaðið 26. maí 2005 þar sem hann sagði m.a. að Orkuveita Reykjavíkur ætti ekki að taka þátt í „álæðinu“ með því að leggja í áhættusamar framkvæmdir, hvort sem það væri vegna álvers í Helguvík eða á Norðausturlandi.

Nú berast þær fréttir, að fulltrúi vinstri/grænna í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur sé því hlynntur, að fyrirtækið taki þátt í því með Landsvirkjun að útvega orku, svo að unnt sé að stækka álverið í Straumsvík. Fulltrúi vinstri/grænna í stjórn Landsvirkjunar lagðist hins vegar gegn því. að Landsvirkjun gerði ráðstafanir til að úvega þessa orku.

Greinilegt er, að einhvers konar „álæði“ er runnið á vinstri/græna, hvort sem á að túlka það með eða á móti áli. Kannski er bara um sambærilegan tvískinnung að ræða og þegar vinstri/grænir vinna að því öllum árum að vernda fugla í Þjórsárveri á sama tíma og fuglar drepast við Tjörnina og í Vatnsmýrinni vegna þess að vinstri/grænir standa ekki vaktina, þar sem þeir bera þó ótvíræða ábyrgð á stjórn umhverfismála.

Árið 1986 keypti Steve Jobs stofnandi Apple fyrirtækið Pixar á 10 milljónir dollara. Í dag var skýrt frá því, að hann hefði selt Pixar til Disney fyrir 7,4 milljarði dollara. - Geri aðrir betur með teiknimyndastofu. Ég var í New York sumarið 1999 í boði Apple og hlustaði á Jobs kynna iBook-tölvuna og ræða stöðu fyrirtækisins.  Um það má lesa hér á síðunni.

Google-fyrirtækið er orðið svo á allra vörum, að nú er orðið til nýtt sagnorð - to google. Í dag er sagt frá því, að Google hafi orðið við óskum kínverskra yfirvalda um að setja síu í leitarforrit sitt í Kína, svo að notendur þar geti ekki fundið neitt sem stjórnvöldum finnst óþægilegt fyrir sig. Sé t.d. slegið inn orðunum Falun gong koma slóðir, þar sem félagsskapnum er hallmælt af mikilli óvild. Talið er líklegt að kínverskir tölvukunnáttumenn verði ekki lengi að komast yfir eða í kringum þennan nýja Kínamúr.

Evrópunefndin kom saman til fundar í hádeginu. Starfi nefndarinnar miðar vel og stefnum við að því að gefa út skýrslu okkar í árslok.

Þriðjudagur, 24. 01. 06. - 24.1.2006 20:53

Tilkynnt var um sigur Íhaldsflokksins í Kanada í þingkosningum þar í gær. 12 ára stjórn Frjálslynda flokksins er lokið. Flokkurinn hefur stjórnað Kanada með stuttum hléum síðan í fyrri heimsstyrjöldinni. Allt stjórnkerfið er sagt svo gegnsýrt af stjórnarháttum hans og viðhorfum, að ótrúlegan styrk þurfi hjá íhaldsmönnum, ef þeim á að takast að setja sinn stimpil á stjórnarfarið.

Framtíðin segir okkur, hvernig til tekst hjá Stephen Harper, leiðtoga íhaldsmanna að stjórna Kanada. Honum tókst að leiða flokk sinn til sigurs, þótt hann styðji innrásina í Írak, sé andvígur Kyótó-samkomulaginu og kallaður handbendi George W. Bush Bandaríkjaforseta.

Hvaða skoðun sem menn hafa á innrásinni í Írak verða þeir að í horfast í augum við þá staðreynd, að George W. Bush, Tony Blair í Bretlandi, John Howard í Ástralíu og Anders Fogh Rasmussen í Danmörku héldu allir forystu meðal þjóða sinna, þótt hart væri sótt að þeim í þingkosningum vegna stuðnings við innrásina í Írak. Nú bætist Stephen Harper í hóp þeirra leiðtoga, sem hljóta traust þjóðar sinnar, þrátt fyrir háværar ganrýnisraddir um afstöðu hans til innrásarinnar í Írak.

Mánudagur, 23. 01. 06. - 23.1.2006 21:28

Í DV í dag er birtur af vefsíðu Jónasar Kristjánssonar útúrsnúningur úr ræðum, sem ég flutti á alþingi 18. janúar, þegar ég svaraði spurningum Jóhönnu Sigurðardóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, um skýrslutöku af börnum, Barnahús og fleira. Látið er eins og ég sé talsmaður einhverra sérstakra sjónarmiða við aðferðir við slíka skýrslutöku og þar með óvinveittur börnum í neyð, ef ég skil málflutninginn rétt. Lítil takmörk virðast fyrir því, hve sumir kjósa að leggjast lágt í málflutningi sínum eins og nýleg dæmi sanna.

Til að auðvelda þeim, sem áhuga hafa á skoðunum mínum á þessu máli, hef ég sett ræðurnar, sem ég flutti á alþingi um það hér inn á síðuna, en þar svara ég fyrirspurn þingmannsins og vísa til þeirra laga, sem gilda hér á landi um þessi mál.

Í Staksteinum Morgunblaðsins í dag segir, að ég hafi ekki lagt rétt út af skoðun blaðsins á stað fyrir Háskólann í Reykjavík í pistli mínum frá því í gær. Í Staksteinum segir: „Það er þess vegna ekki rétt útlegging (hjá mér) að Morgunblaðið vilji Háskólann í Reykjavík á blettinn í Vatnsmýrinni, sem Björn fjallar um (þ. e. milli Nauthólsvíkur og Öskjuhlíðar). Og sízt af öllu er Morgunblaðið á móti umhverfisumræðum um þennan stað.“

Ég bið Morgunblaðið afsökunar á að hafa misskilið afstöðu þess til staðarvals fyrir Háskólann í Reykjavík, um leið og ég viðurkenni, að það var ekki fyrr en ég las Staksteina í morgun, að ég áttaði mig á þessari afstöðu blaðsins, tel ég mig þó hafa nokkra reynslu af því að ráða í skoðanir þess og jafnvel lesa þar á milli lína. Umhverfisumræður á dulmáli eru lítils virði.

Í þingu í dag fór Sigurjón Þórðarson, þingmaður Frjálslynda flokksins, mikinn vegna þess, sem hann kallaði „fjáraustur“ í prófkjöri framsóknarmanna í Reykjavík og lagði fram fyrirspurn til forsætisráðherra af því tilefni. Engu var líkara en Sigurjón teldi Framsóknarflokkinn kosta prófkjörið. Frjálslyndir vita lítið um prófkjör eða hvernig að þeim er staðið. Þeir hafa aðrar aðferðir, þannig lýsti Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi frjálslyndra, því einn yfir, að hann yrði í fyrsta sæti á lista frjálslyndra í Reykjavík. Við skulum vona, að það verði flokknum ekki dýrkeypt.

Sunnudagur, 22. 01. 06. - 22.1.2006 17:50

Víða eru menn að búa sig undir prófkjör og er Kjartan Valgarðsson í þeim hópi en hann sækist eftir 3. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavík. Kjartan opnaði kosningaskrifstofu sína laugardaginn 21. janúar og flutti ræðu, sem sjá má á vefsíðu hans www.kjartan2006.is. Í ræðunni vitnaði hann í Monu Shalin, sem er í fremstu röð sænskra jafnaðarmanna. Þessi orð Kjartans birtast hér að neðan. Þau minna mig á orðaskipti, sem ég átti fyrir nokkrum árum við sænskan menntamálaráðherra um fjármögnun háskóla og spurninguna um skólagjöld. Hann taldi fráleitt að taka upp skólagjöld, skatta ætti frekar að hækka og stjórnmálamenn að sjálfsögðu að ákveða, hvernig þeim yrði varið til skóla, enda vissu þeir best, hvernig ætti að fara með slíkt fé.

Kjartan Valgarðsson sagði:

„Mona Sahlin sagði eitt sinn að hið opinbera væri það fallegasta sem fundið hefði verið upp. Því það væri fallegt þegar einn tekur utan um annan og hann er ekki einn.“

Enn sagði Kjartan Valgarðsson:

„Mona Sahlin sagði einnig að það væri hipp og kúl að greiða skatta. Skattar er fjárfesting en ekki nauðung, fjárfesting í mannauði og innviðum sem við njótum dag hvern og bera ávöxt. Okkar er að tryggja sem besta uppskeru.“

Rétt er að taka fram, að Kjartan var ekki að vitna í Monu til að segja sig ósammála henni heldur vegna þess að orð hennar falla að stefnu hans sjálfs, enda vill hann hækka skatta og taka að sér að ráðstafa fé fyrir hönd almennings til fleiri þátta en núna. Kjartan sagði:

„Gjaldfrjáls skóli er annað stórt verkefni næsta áratugar. Heilbrigðara og sjálfsagðara stefnumál jafnaðarmanna er eiginlega ekki til. Það þarf að hætta endalausum rukkunum fyrir mat, ferðir, mjólk, íþróttir.“

Ég sé í Morgunblaðinu, að flokksbróðir Kjartans, þingmaðurinn Valdimar Leó Friðriksson, sem settist í stól Guðmundar Árna Stefánssonar, þegar hann varð sendiherra, kallar mig „aðgerðarlausa risaeðlu“! Tilefnið, að alþingi samþykkti ekki tillögu Ágústs Ólafs Ágústssonar um að kynferðisbrot gegn börnum fyrntust ekki.

Laugardagur 21. 01. 06. - 21.1.2006 18:33

Kolbrún Bergþórsdóttir ræðir við Bubba Morthens í Blaðinu í dag. Bubbi segir: „Sem ungur maður var ég harður anarkisti en ég (svo) dag er ég hægri krati.“ Margir hægri kratar fylgja Sjálfstæðisflokknum eða mönnum innan hans að málum, enda hefur Bubbi ekki hikað við að gera það á opinberum vettvangi. Bubbi tekur upp hanskann fyrir biskup Íslands og telur, að viðbrögð við nýarsprédikun hans sýni, að samkynhneigðir séu „fullir af fordómum gagnvart biskupi.“

Bubbi segir einnig: „Um leið og þú gefst upp sigrarðu og það gefur þér gæfu. Því meira sem menn rembast við og neita að gefast upp því lengur framlengja þeir þjáningu sína og vanlíðan. Uppgjöf er stórlega vanmetið fyrirbæri.“

Ég hef áður minnst á bókina Chronicles 1 eftir Bob Dylan. Þar segist hann hafa hrifist mest af Barry Goldwater af bandarískum stjórnmálamönnum á fyrri hluta sjöunda áratugarins. Goldwater, sem tapaði í forsetakosningum árið 1964 gegn Lyndon B. Johnson, var hreinræktaður íhaldsmaður en sagt er að skoðanir hans hafi komið til framkvæmda um tveimur áratugum síðar í forsetatíð Ronalds Reagans.

Föstudagur, 20. 01. 06. - 20.1.2006 11:19

Alþingi kom saman til fundar kl. 10.30 og átti þá að ganga til atkvæðagreiðslu um kjaradómsmálið svonefnda eftir aðra umræðu þess. Í upphafi fundar kvaddi Magnús Þór Hafsteinsson, þingmaður frjálslyndra, sér hljóðs um störf þingsins og fór að ræða um að engin loðna hefði fundist og beindi máli sínu til sjávarútvegsráðherra. Umræður um störf þingsins mega standa í 20 mínútur og hafa þær þróast á þann veg, að þar virðast menn geta tekið til umræðu allt, sem þeim kemur til hugar þann daginn.

Áður en þessar 20 mínútur voru liðnar tók Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður menntamálanefndar, til máls og skýrði þingheimi frá því, að fyrr um morguninn hefði menntamálnefnd komið saman og þar hefðu verið lögð fram gögn frá ESA, eftirlitsstofnun EFTA, sem snerta frv. til laga um að breyta ríkisútvarpinu í ríkishlutafélag. Stjórnarandstaðan undir forystu Marðar Árnasonar, Samfylkingu, hafði gert rekistefnu yfir því að fá ekki þessi gögn. Sigurður Kári sagði þau hafa verið lögð fram í trúnaði í nefndinni að ósk ESA og síðan hefðu embættismenn ráðuneyta komið að skýra þau en þá hefðu nefndarmenn vinstri/grænna og Samfylkingar farið af nefndarfundi. Sagði Sigurður Kári eðlilegt, að hann skýrði frá þessu undir umræðum um störf þingsins og teldi hann þetta mál frekar falla undir þennan lið en umræður um loðnu.

Í þann mund sem Sigurður Kári var að ljúka máli sínu var mikill fyrirgangur við þær dyr þingsalarins, þar sem ég sit, það er ytri austurdyr, og inn stormaði Mörður Árnason með hendur um háls sér og var að bögglast við að hnýta á sig slifsi, hann bað höstugur um orðið en rauk síðan út úr salnum og inn í hliðarherbergi til að ljúka við að setja á sig hálstauið, áður en hann sté í ræðustól. Sagðist hann hafa verið að fylgjast með umræðunum í sjónvarpi í skrifstofu sinni handan Austurvallar, þegar hann heyrði Sigurð Kára hefja máls á fundi menntamálanefndar.  Kvartaði hann undan því og taldi óþinglegt, en Sigurður Kári sagði síðar í umræðunum, að hann hefði látið þess getið í nefndinni, að hann mundi skýra frá fundi hennar í þingsalnum.

Eftir ræðu Marðar voru 20 mínúturnar til að ræða störf þingsins liðnar og þá hófust umræður um fundarstjórn forseta, sem geta einnig staðið í 20 mínútur. Ég ætla ekki að rekja þær umræður hér en þær einkenndust mest af vörn stjórnarandstæðinga í menntamálanefnd á fjarveru þeirra, þegar embættismenn skýrðu nefndinni frá ESA-gögnunum, auk þess sem þeir kvörtuðu undan því, að gögnin hefðu verið afhent þeim í trúnaði.

Lesa meira

Fimmtudagur, 20. 01. 06. - 19.1.2006 21:13

Stefán Ólafsson prófessor fer mikinn í fjölmiðlum þessa daga, þegar hann veitist að ríkisstjórninni, okkur ráðherrunum og stjórnmálamönnum með árásum um brellur og mestu stjórnmálaósannindi um áratugaskeið. Hann ritaði grein í Morgunblaðið miðvikudaginn 18. janúar um þetta mál. Þar rær hann á sömu mið og í bókinni Hnattvæðing og þekkingarþjóðfélag, sem hann skrifaði með Kolbeini Stefánssyni og kom út fyrir jólin.

Ég skrifaði umsögn um þessa bók í tímaritið Þjóðmál, sem kom út í desember sl. Í bókinni notar hann einnig orðið „brellur“ um skattalækkanir ríkisstjórnarinnar. Í umsögn minni segi ég:

„ Hér er ástæða til að staldra við bæði niðurstöðu og orðalag. Eru það brellur, að lækkun skatthlutfalls leiði til meiri skatttekna? Kann það ekki einfaldlega að stafa af því, að efnahagsumsvifin aukast og arðsemi þeirra? Ef höfundar vísa til skatthlutfalls með orðinu „skattaálagningar“, er lækkun hlutfallsins að öðru óbreyttu engin sýndarlækkun – skattbyrðin léttist. Ýmislegt getur hins vegar breyst og á síðustu árum hafa laun hér á landi til dæmis hækkað svo ört, að miðað við óbreyttan persónuafslátt greiða margir hærri skatta þrátt fyrir lægra skatthlutfall. Það er hins vegar vegna hærri launa og þrátt fyrir lækkun skatta, en ekki vegna lækkunar skatthlutfallsins! Þetta hefur átt þátt í því hér á landi, að heildarskatttekjur hafa vaxið (líka sem hlutfall af landsframleiðslu) en það er ekki þar með sagt að efnahagur fólks hafi versnað. Ef höfundar eru að vísa til þess með orðunum „breikkun skattstofna“, að fleiri greiða hér tekjuskatt en áður, er ástæða til að gera athugasemd við þá orðnotkun. Þar er um það að ræða, að tekjur fleiri en áður hafa aukist upp fyrir skattleysismörk. Kaupmáttur - það sem menn hafa í vasann eftir skatta - hefur snarhækkað hér á landi. Ef höfundar eru að vísa til þess með orðum sínum, að hækkunin hér er að hluta vegna hækkunar sveitarfélaganna á skatthlutfalli sínu, útsvarinu, á sama tíma og ríkið hefur lækkað hlutfall sitt, hefðu þeir átt að segja það beinum orðum.“

 

Lesa meira

Miðvikudagur, 18. 01. 06. - 18.1.2006 18:46

Svaraði þremur fyrirspurnum á alþingi, um nýtt fangelsi í Reykjavík, Barnahús og kynferðisbrot gegn börnum og afleysingar presta.

Umræður urðu nokkrar um svör mín við fyrri tveimur fyrirspurnunum en fyrir utan fyrirspyrjanda geta þingmenn gert athugasemd í eina mínútu vegna hverrar fyrirspurnar eða svars við henni.

Unnið er að því að gera framkvæmda- og tímaáætlun vegna nýs fangelsis í Reykjavík. Hegningarhúsið við Skólavörðustíg er komið svo mjög til ára sinna, að það fullnægir ekki nútímakröfum, en vegna menningargildis hússins verður því ekki breytt til að koma til móts við þessar kröfur. Raunar er furðulegt til þess að hugsa, að fyrir um 40 árum voru lagðar fram og samþykktar tillögur að aðalskipulagi Reykjavíkur, sem gerði ráð fyrir breiðgötu, þar sem hegningarhúsið stendur.

Jóhanna Sigurðardóttir, Samfylkingu, spurði mig um Barnahúsið og kynferðisbrot gegn börnum. Ég er ekki sammála þeim skoðunum, sem fram koma í spurningum Jóhönnu, enda færði hún ekki afdráttarlaus rök fyrir þeim. Samkvæmt lögum er það á valdi dómara að ákveða, hvort börn séu yfirheyrð í dómshúsi eða Barnahúsi. Ég hef ekki haldbærar neinar tölur um það, hvort húsið er meira notað í þessu skyni, en víst er, að ekki er endilega skynsamlegt að flytja börn utan Reykjavíkur í Barnahús til yfirheyrslu - enda hafa dómarar utan Reykjavíkur víða búið þannig um hnúta, að auðvelda börnum að gefa skýrslu við embætti sín og hið sama er að segja um héraðsdóm Reykjavíkur.

Barnahús er gott framtak og hefur orðið ýmsum þjóðum fyrirmynd, til dæmis Svíum og Norðmönnum auk þess sem Bandaríkjamenn hafa sýnt starfseminni áhuga. Ég er viss um, að starfsemi í húsinu muni halda áfram að dafna og það að þjóna góðum tilgangi sínum, þótt á valdi dómara sé að ákveða, hvar þeir taka skýrslur af börnum.

Þriðjudagur, 17. 01. 06. - 17.1.2006 20:31

Það var dálítið skrýtið að ganga úr þinghúsinu rétt fyrir kl. 14.00 og inn á fund borgarstjórnar, þar sem Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi frjálslyndra, talaði eins og hann væri að stöðva Norðlingaölduveitu. - Skrýtið vegna þess að í þinghúsinu lýstu forsætisráðherra og umhverfisráðherra yfir því, að framkvæmdir við þessa veitu á vegum Landsvirkjunar væru ekkert á næsta leiti. Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra sagði að veitan hefði verið „sett á ís.“ Hún sagði einnig, að ekkert mælti gegn því að stækka friðlandið í Þjórsárverum.

Í ljósi þess, sem gerst hefur varðandi Norðlingaölduveitu undanfarnar vikur og síðustu daga á vettvangi ríkisstjórnar og Landsvirkjunar, var tillaga Ólafs F. í borgarstjórn hrein sýndartillaga, tilraun til að draga að sér athygli í aðdraganda kosninga. Prófkjörsframbjóðendur í Framsóknarflokki og Samfylkingu telja sér greinilega til framdráttar að láta eins og þeir séu að vinna stórvirki í náttúruvernd með því að styðja Ólaf F.

Hlutur Alfreðs Þorsteinssonar, oddvita framsóknarmanna, í þessu máli er sérstaklega einkennilegur, því að ekki þarf hann að ná í nein atkvæði í prófkjöri og þess vegna fara í þennan blekkingarleik með Ólafi F. - er þó Ólafur F. með færri atkvæði samkvæmt síðustu skoðanakönnunum í Reykjavík en jafnvel Framsóknarflokkurinn. Alfreð stjórnaði fundi, þegar greidd voru atkvæði um tillögu Ólafs F., og gerði það, sem aldrei er ella gert í borgarstjórn eða á alþingi, að hann tók fram, að sex borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hefðu setið hjá við atkvæðagreiðsluna. Vandaðir fundarstjórar segja aðeins, hvernig atkvæði féllu en kenna þau ekki við einstaka flokka - með því gengur fundarstjóri á svig við hlutleysi sitt.

Við sjálfstæðismenn sátum hjá með bókun. Við teljum að leggja eigi Norðlingaölduveitu til hliðar en viljum jafnframt, að hið lögbundna ferli vegna ákvörðunar um veituna verði gengið á enda. Undanfarin ár hafa verið samþykkt lög og settar reglur um framgang mál með vísan til umhverfismats og skipulagsreglna. Þau lög á að virða í þessu máli eins og öðrum en ekki ganga fram á þann veg, að í krafti eignarhalds á Landsvirkjun sé hlaupið einhliða frá óloknu verki. Þessir stjórnsýsluhættir eru því miður dæmigerðir fyrir R-listann í skipulagsmálum enda velkjast stórmál árum saman í óvissu.

Mánudagur, 16. 01. 06. - 16.1.2006 21:20

Þegar tími gefst geng ég hring í Fossvoginn, Nauthólsvík og yfir Öskjuhlíðina í 40 til 45 mínútur. Af þeim dögum, sem ég hef gengið í vetur, var þessi sá kaldasti - sérstaklega þegar gengið var á móti vestri eða norð-vestri upp í vindinn.

Annars sat ég fundi um nýskipan lögreglumála og almannavarnir í dag. Hér á landi eins og annars staðar eru stjórnendur almannavarna að undirbúa viðbrögð vegna hugsanlegrar fuglaflensu, en mest ábyrgð við áhættumat hvílir á einum manni, sóttvarnalækni. Telji hann ástæðu til aðgerða er nauðsynlegt að samhæfa krafta margra og til þess er almannavarnakerfið.

Hvarvetna eru stjórnvöld að velta fyrir sér aðgerðum, ef fuglaflensan skyldi breytast í faraldur. Í síðustu viku skýrði heilbrigðisráðherra Frakka frá ráðstöfunum þar í landi. Frönsk stjórnvöld telja að 9 til 21 milljón manna kunni að veikjast í faraldri og 91.00 til 212.000 að deyja. Meginstefna franskra heilbrigðisyfirvalda er að hjúkra sem flestum í heimahúsum til að ofþyngja ekki sjúkrahúsum, sem ætlað er að sinna þeim veikastir eru, og gera allt sem unnt er til að komast hjá meiriháttar upplausn í þjóðfélaginu (stöðvun samgangna, lokun skóla og fyrirtækja) og stuðla þannig að eins eðlilegu atvinnu- og þjóðlífi og frekast er unnt.

Stjórnvöld alls staðar nálgast þessi mál af mikilli alvöru en jafnframt af varúð í öllum viðbrögðum til að skapa ekki ástæðulausan ótta. Má sjá það best af því, hvernig tyrkneska ríkisstjórnin leitast við að draga úr hræðslu Tyrkja vegna dauðsfalla þar í landi. Höfuðáhersla er á að skýra mál sem best fyrir almenningi og drepa fugla, sem talið er að gætu smitað fólk. Enn hafa ekki borist neinar fréttir um, að flensan hafi smitast milli manna, heldur veikist fólk af snertingu við sýkta fugla.

Sunnudagur, 15. 01. 06. - 15.1.2006 18:35

Jóhann Hauksson, sem var áður starfsmaður RÚV, er nú stjórnmálablaðamaður Fréttablaðsins. Hann skrifar um stjórnmál í sunnudagsblaðið og segir í dag, að mér hafi vaxið ásmegin eftir að hæstréttur dæmdi mig hæfan (!) til að setja sérstakan ríkissaksónara í Baugsmálinu. Ég set (!) á eftir orðalagi blaðamannsins, því að það er litað af þeirri skoðun málsvara Baugs, að ég hafi verið vanhæfur, þar til hæstiréttur segði annað. Þetta er skrýtinn áróður, sem stenst ekki. Ég var alla tíð hæfur til að vinna þetta embættisverk.

Jóhann ræðir þetta mál til að nefna, að ég skuli hafa rætt dóm hæstaréttar hér á síðunni sama dag og hann var felldur „sem nemur heilli þéttskrifaðri síðu.“ Jóhann birtir hugleiðingu sína undir fyrirsögninni: Hvatning frá Hæstarétti og lýkur á þeim orðum, að rannsókn á vegum Gallups hafi sýnt, að ég hafi opinberlega tjáð mig mest allra manna um Baugsmálið, ef frá væru talin opinber ummæli málsaðila sjálfra.

Jóhann fer þarna í fótspor starfsbræðra sinna á DV, sem ég vitnaði til hér í dagbókinni í gær. Ég veit ekki, hvort Jóhanni finnst, að mælingar Gallups eigi að ráða því, hvort ég nefni mál hér á síðunni eða annars staðar. Málefni Baugs og Baugsmiðla mun ég ræða hér áfram, þegar mér finnst tilefni til þess.

Jóhann átti aðalfrétt Fréttablaðsins á forsíðu þennan sunnudag og var hún um, að Kjartan Gunnarsson hefði sem formaður bankaráðs Landsbanka Íslands ráðið úrslitum um eftirlaunarétt starfsmanna Seðlabanka Íslands! Seðlabankastarfsmenn hafi tapað fjórum málum fyrir hæstarétti og frétt Jóhanns var um, að Kjartan væri sökudólgurinn. Þetta er ein af þessum furðufréttum, sem aðeins geta birst á forsíðu Fréttablaðsins og tilgangur hennar virðist helst, að gagnrýna Kjartan Gunnarsson fyrir niðurstöðu annarra.

Laugardagur, 14. 01. 06. - 14.1.2006 18:39

Egill Helgason segir í dag frá samskiptum sínum við blaðamenn DV í pistli á vefsíðu sinni. Hann telur einnig, að Eiríkur Jónsson, stjörnublaðamaður DV, muni halda áfram á sömu braut, þótt ritstjóraskipti hafi orðið á blaðinu.

Ritstjórn DV gerir mér þann heiður í dag, að agnúast út í skrif mín um blaðið hér í dagbókinni síðustu daga. Í DV stendur meðal annars: „Björn Bjarnason. Telur sig nú, eftir Hæstaréttardóm um að hann sé ekki vamhæfur til að setja ríkissaksóknara vera í aðstöðu til að viðra andúð sína á Baugsmiðlum.“

Gaman að heyra fréttir af því á NFS að nábúar mínir í Fljótshlíðinni Eggert og Jóna að Kirkjulæk II eiga kýr með mestu nyt í landinu.

Í kvöld var sýndur í DR2, það er á annarri rás danska ríkissjónvarpsins, þáttur um Ísland, þar sem meðal annars var rætt við mig um álfa, qi gong og fleira. Að loknum þættinum, sem stóð í klukkustund, var sýnd mynd Friðriks Þórs Cold Fever.

Föstudagur, 13. 01. 06. - 13.1.2006 18:17

Alls skrifuðu 32.044 einstaklingar undir áskorun, þar sem skorað er á blaðamenn og ritstjóra DV að endurskoða ritstjórnarstefnu blaðsins og eigendur minntir á þeirra ábyrgð á útgáfunni. Jónas Kristjánsson og Mikael Torfason sögðu af sér sem ritstjórar DV í morgun og fóru í þagnarbindindi að sögn fréttastofu hljóðvarps ríkisins. Þeir Björgvin Guðmundsson og Páll Baldvin Baldvinsson voru ráðnir ritstjórar. Þeir ætla að fara að siðareglum Blaðamannafélags Íslands.

Þingflokkur sjálfstæðismanna kom saman í hádeginu og samþykkti meðal annars heimild til Sigurðar Kára Kristjánssonar til að flytja frumvarp til að bæta varnir á æru fólks og hækka skaðabætur til þeirra, sem verða fyrir árásum á æru sína. Herdís Þorgeirsdóttir, prófessor við Viðskiptaháskólann á Bifröst, virðist andvíg því, að lögum sé breytt á þennan veg, betra sé að setja lög um innra starf fjölmiðla.

Hafi Gunnar Smári Egilsson yfirstjórnandi Baugsmiðlanna ákveðið að láta Illuga Jökulsson víkja úr ritstjórastóli DV fyrir Jónasi Kirstjánssyni til að styrkja DV í sessi, misheppnaðist sú aðgerð hrapallega. Spurning er hvort vörumerkið DV lifir af þessar hremmingar.

 

Fimmtudagur, 12. 01. 06. - 12.1.2006 21:13

Þegar ég fletti DV í morgun undraðist ég hvers vegna Jónas Kristjánsson kaus að nota dálk á bls. 2 til að endursegja grein úr breska blaðinu The Guardian frá 16. júní 2005 um þá Björgólfsfeðga í St. Pétursborg og sölu á bjórverksmiðju þeirra og Magnúsar Þorsteinssonar þar til Heineken.

Ég sá þessa frásögn í öðru ljósi, þegar ég heyrði í kvöldfréttum, að Björgólfsfeðgar hefðu tvisvar leitast við að eignast DV til að hætta útgáfu þess í mynd Jónasar.

Skýrt var frá því í fréttum, að Guðmundur Marteinsson stjórnandi Bónus-verslananna hefði ákveðið að hætta að auglýsa forsíðu DV við eða í verslunum sínum. Ég óska Guðmundi til hamingju með þessa ákvörðun. Einnig kom fram, að stjórn Samtaka auglýsenda teldi það beinlínis skaðlegt fyrir ímynd auglýsenda að auglýsa í DV.

Í hádeginu var á www.ruv.is haft eftir Jóhannesi Jónssyni í Bónus, að DV hefði selst jafnmikið 11. janúar og venjulega, hann sagði DV ekki verða fjarlægt úr Bónus-verslunum, þótt hann hefði oft á tíðum ímugust á blaðinu. Jóhannes, sem á bæði DV og Bónus, sagði á ruv.is, að viðskiptavinurinn réði því, hvað væri til í Bónus. Orðrétt segir á vefsíðunni eftir honum: „Kúnninn drepur vöruna.“ 

Síðdegis sagði frá því á ruv.is, að 24.000 manns hefðu skráð sig á netinu gegn ritstjórnarstefnu DV. Dæmi væru um, að sölustaðir á Ísafirði hefðu hætt sölu blaðsins.

Frumkvæði Sigurðar Kára Kristjánssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, sem hann kynnti í kvöldfréttum, að lagabreytingum til að bæta réttarstöðu borgaranna gagnvart aðför að æru þeirra og til að tryggja, að þeir eigi rétt á skaðabótum, sem séu íþyngjandi fyrir hinn brotlega, er tímabært. Þótt einhverjir blaðamenn vilji hundsa siðareglur eigin félags og fara að heimasmíðuðum reglum, geta þeir ekki vikist undan landslögum.

Í hádeginu var ég með nokkrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins á kynningarfundi í Íslandsbanka, þar sem Bjarni Ármannsson forstjóri flutti fróðlega ræðu um starfsemi bankans og svaraði síðan fjölmörgum fyrirspurnum. 

Miðvikudagur 11. 01. 06. - 11.1.2006 22:51

Það var einkennilegt að heyra Jónas Kristjánsson, ritstjóra DV, tönnlast á því í Kastljósi í kvöld, að það væru sérstaklega pólitíkusar, sem hefðu ýtt undir óánægju fólks og andúð á fréttaflutningi blaðs hans, þar sem fólk er svipt ærunni á forsíðu dag eftir dag og nú með hörmulegum afleiðingum á Ísafirði, þar sem karl tekur eigið líf og skilur eftir sig bréf um að hann hafi bugast vegna frásagnar DV af honum á forsíðu vegna máls, sem blaðið segir enn í rannsókn.

Jónasi er mjög í nöp við pólitíkusa, hann kallar okkur suma gjarnan fasista til að bragðbæta órhróðurskrif sín um okkur og nú er það sem sé sérstaklega pólitíkusum að kenna, að mönnum blöskrar, hvernig hann stýrir blaði sínu.

Ástæða er til að minna á, að þessar forsíður DV eru ekki aðeins birtar á því blaði - þær eða aðrar krassandi árásarfyrirsagnir á einstaklinga birtast einnig sem auglýsingar í hinu Baugsblaðinu, Fréttablaðinu, sem borið er til fólks, hvort sem það vill fá það eða ekki - auglýsendur, áskrifendur eða kaupendur sitja uppi með DV. Þá mun algengt, að plaköt með DV-forsíðum séu hengd upp viðskiptavinum Baugsbúðanna til ánægjuauka og minna þau þar á dreifimiða um eftirlýsta við knæpur í villta vestrinu fyrr á öldum - enda skilst manni að tilgangur DV sé sá, að fullnægja réttlætinu á eigin forsendum, enda geti aðrir ekki gert það betur, þar sem blaðið láti sannleikann en ekki tillitssemi ráða ferð.

Ég vorkenni forystumönnum Blaðamannafélags Íslands að þurfa að tjá sig út og suður um þetta mál af tillitssemi við félagsmenn, sem hafa meginreglur félagsins að engu en nota það sem skálkaskjól. Trúverðugleiki blaðamanna styrkist ekki við slíkan blindingsleik.

Þriðjudagur, 10. 01. 06. - 10.1.2006 20:13

Áliti mínu á Baugsmiðlinum DV hef ég lýst oft hér á síðunni og í dag voru sagðar sorgarfréttir af afleiðingum forsíðufréttar blaðsins. Hve lengi ætla eigendur DV að láta blaðið veitast að varnarlausu fólki á sinn kostnað?

Vegna þess sem ég hef sagt um DV og aðra Baugsmiðla hér á vefsíðu minni undanfarin misseri, vildu lögmenn Baugs, að ég yrði dæmdur vanhæfur sem dómsmálaráðherra til að setja ríkissaksóknara í Baugsmálinu.

Morgunblaðið ræðir þessa kröfu og fagnar niðurstöðu dómstóla um að hafna henni í leiðara sínum í dag og segir meðal annars:

„Ráðherrum er vissulega falið stjórnsýsluvald, sem þýðir að þeir verða að gæta að hæfisreglum stjórnsýslulaga, t.d. hvað persónuleg tengsl og hagsmunatengsl varðar. Þeir verða sömuleiðis að forðast að hægt sé að efast um óhlutdrægni þeirra í einstökum ákvörðunum.

Ráðherrar eru hins vegar jafnframt stjórnmálamenn, sem eiga beinlínis að hafa skoðun á þjóðfélagsmálum. Í okkar breytta fjölmiðlaumhverfi er æ oftar kallað eftir þessum skoðunum og viðhorfum stjórnmálamanna. Og sumir hafa þeir farið þá leið að miðla skoðunum sínum beint um eigin fjölmiðil á Netinu, eins og Björn Bjarnason gerir. Það er ekki hægt að ætlast til þess að ráðherrar þegi um menn og málefni af ótta við að gera sig vanhæfa til stjórnsýsluákvarðana. Það væri ekki í þágu hinnar lýðræðislegu umræðu. “

Mér er sem sé heimilt að gagnrýna Baug og Baugsmiðla hér á síðunni án þess að ég sé vanhæfur til embættisverka.

 

 

Mánudagur, 09. 01. 06. - 9.1.2006 22:06

Hæstiréttur dæmdi í dag í Baugsmálinu, að ég hefði ekki verið vanhæfur til að setja Sigurð Tómas Magnússon ríkissaksóknara og tók undir með héraðsdómi, að málið væri hæft til efnislegrar meðferðar fyrir dómstólunum - ég fjalla um málið í pistli mínum frá því í dag.

Ég las á forsíðu vefsíðu Le Figaro í morgun, að easyJet væri að safna liði með stuðningi Goldman Sachs til að verjast fjandsamlegri yfirtöku frá Icelandair.

Sunnudagur, 08. 01. 06. - 8.1.2006 19:15

Ókum úr Fljótshlíðinni í dag - í gegnum þrjú veðurkerfi - frostbirtu, snjókomu og rigningu. Ég hef ekið víða um heim en aldrei kynnst því nema á Hellisheiði, að ökumenn telji sér sæma að aka fram úr í niðaþoku, hægramegin á vegaröxl. Það er ekki þessum ökumönnum að þakka, að ekki verði stórslys.

Sé á vefsíðu BBC, að Tony Banks eða Stratford lávarður er látinn eftir hjartaáfall á Sanibel eyju, Flórída. Tony Banks var íþróttamálaráðherra í stjórn Tonys Blairs um tíma. Hann gekkst upp í því að vera „maður litla mannsins“ í Verkamannaflokknum og á breska þinginu. Ég kynntist honum fyrir rúmum áratug, þegar við sátum saman á þingi Evrópuráðsins, þar sem hann barðist til dæmis harkalega gegn hvalveiðum. Eftir honum var haft, að þeir, sem vildu éta hval, gætu alveg eins étið hver annan.

Ragnar Arnalds, höfundur ágætrar bókar um Jörund hundadagakonung, Eldhuginn, sagði mér á dögunum, að Tony Banks hefði verið afkomandi Josephs Banks, sem stóð að baki för Jörundar til Íslands á sínum tíma og var mikils metinn hjá Bretum og víða um heim á sínum tíma.

Fórum á tónleika Tallis Scholars í troðfullri Langholtskirkju kl. 20.00.

Laugardagur, 07. 01. 06. - 8.1.2006 16:20

Veðrið var allt annað þegar við ókum til Reykjavíkur, þar sem var ættarmót afkomenda afa míns , Björns Jónssonar, og ömmu, Önnu Pálsdóttur, úr móðurætt - Ánananaustafólksins. Var það vel sótt en enn eru þrjú af 13 börnum þeirra á lífi: Auðbjörg, Haraldur og Valdimar.

Ókum síðan aftur austur í Fljótshlíð til að taka þátt í 60 ára afmæli nágranna okkar, Viðars Pálssonar að Hlíðarbóli, sem haldið var með glæsibrag.

Föstudagur, 06. 01. 06. - 6.1.2006 18:49

Hætt var við þrettándagleði hér í Fljótshlíðinni vegna veðurs í kvöld eins og víðar. Úrkoman er mikil og rokið. Ég átti ekki von á því, að hrossin yrðu vör við mig, því að þau stóðu svo fjarri girðingunni, rokið var mikið og skyggnið lítið. Ég kallaði hátt og flautaði, hrossin tóku viðbragð og síðan sprettinn til mín.

Ariel Sharon liggur banaleguna í Jerúsalem. Hann hefur borið höfuð og herðar yfir aðra ísraelska stjórnmálamenn undanfarin ár og farið sínu fram af festu og öryggi, þótt á móti hafi blásið. Mér hefur alltaf þótt einkennileg gagnrýnin á Sharon fyrir að hafa farið á Musterishæðina á sínum tíma, sem var talið ögrun við múslíma, en dugði honum til sigurs í þingkosningum í Ísrael.

Áróðurinn í vestrænum fjölmiðlum gegn Sharon hefur aldrei gefið rétta mynd af stöðu hans meðal Ísraela. Ef marka hefði mátt, hve oft Sharon væri að pólitísku falli kominn, hefði engan grunað, að hann hyrfi úr stjórnmálum á sóttarsæng.

 

Fimmtudagur, 05. 01. 06. - 5.1.2006 20:40

Til að búa mig betur undir verkefni ársins skrapp ég austur i Fljótshlíð og sinn hér ýmsum verkefnum, sem gott er að leysa í sveitakyrrðinni.

Kyrrðin var þó ekki mikil fram eftir degi, því að hann gekk á með þrumum og eldingum, þar til að fór að snjóa síðdegis. Vatnsveðrið var með ólíkindum á eftir skruggunum. Þegar dálítið hafði snjóað, stytti upp og birtan varð ævintýranleg út á Landeyjarnar og til Vestmannaeyja.

Ég skrapp út í haga til að líta eftir hrossunum og til að átta mig á því, hvort þau hefðu fælst við flugelda um áramótin - mér virtust þau eins og áður og komu hlaupandi til mín, þegar þau áttuðu sig á því, að ég var með plastpoka og kannski með einhverju nammi handa þeim. Ég læt mér nægja að ganga að girðingunni og það bregst ekki að hrossin koma til mín og elta mig síðan, þegar ég held aftur heim á leið niður með girðingunni heim að bænum.

Mér þótti einkennilegt að lesa ummæli sýslumannsins í Borgarnesi um tillögur að nýjum lögregluumdæmum og hlusta á fréttir hljóðvarps og sjónvarps ríkisins um viðbrögð sjálfstæðismanna í Mýrasýslu. Það er alls ekki verið að þrengja neitt að sýslumanninum eða íbúum Mýrasýslu með þessum tillögum fyrir utan að sýslumaðurinn á ekki frekar en aðrir sýslumenn kröfu til neins í sambandi við þessa breytingu, þótt ráða megi af þessum viðbrögðum, að verið sé að lækka á embætti hans risið - það er alls ekki.

Miðvikudagur, 04. 01. 05. - 4.1.2006 22:36

Ég hélt áfram að kynna tillögurnar um stækkun lögregluumdæma. Fór til dæmis í fyrsta sinn í höfuðstöðvar NFS við Skaftahlíð og átti þar hádegisviðtal við Sigmund Erni. Við vorum í myndveri án tökumanna, eins og í hljóðveri, þar sem tæknimenn sitja utan dyra og fylgjast með og stjórna upptöku, hér stjórnuðu þeir starfrænum myndavélum. Sigmundur Ernir sagði mér, að hann hefði heimsótt BBC World Service TV og þar væri rýmið minna en hjá fréttaþulunum hjá NFS.

Þá ræddi ég við fréttamann sjónvarps og hljóðvarps ríkisins, sem báðir komu á minn fund. Á NFS nota þeir efnið, sem þeir afla í sjónvarpi og hljóðvarpi - klippa og endurnýta. Hjá RÚV þarf maður að tala við að minnsta kosti tvo fréttamenn. Fréttirnar verða vonandi betri við að fleiri komi að því að afla þeirra í samtali við sama manninn um sama málið.

Ég skil vel, að á Seyðisfirði og í Borgarnesi verði þeir fyrir vonbrigðum, sem litu þannig á, að fyrstu tillögur um staði fyrir lykilembætti væru lokatillögur, þegar lagt er til að embættin verði í Farðarbyggð og á Akranesi. Vonbrigðin geta ekki byggst á því, að þjónusta lögreglu við þessa staði minnki, því að það gerir hún ekki, heldur hljóta þau að byggjast á metnaði fyrir byggðarlag sitt, sem ber að virða.

Eins og ég sagði í gær átti ég góðan fund með fulltrúum sveitarstjórnar Borgarbyggðar um málið í aðdraganda ákvörðunarinnar og ræddum við eflingu löggæslu í byggðarlaginu.

Þriðjudagur, 03. 01. 06. - 3.1.2006 20:08

Á fundi ríkisstjórnarinnar kl. 09.30 lagði ég fram minnisblað, þar sem ég lýsti áformum mínum varðandi nýskipan lögregluumdæma og málefni tengd henni. Var síðan send út fréttatilkynning um málið frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu.

Sagt var frá málinu á þann veg í hljóðvarpi ríkisins kl. 18.00, að rætt var við Pál Brynjarsson, sveitarstjóra í Borgarnesi, sem lýsti óánægju sinni yfir því, að lykilembætti lögreglu á Vesturlandi yrði á Akranesi en ekki Borgarnesi eins og áður hafði verið orðað og í fréttum NFS kl. 18.30 á þann veg, að bæjarstjórarnir í Kópavogi og Hafnarfirði væru óánægðir. Var rætt við Lúðvík Geirsson, bæjarstjóra í Hafnarfirði, sem sagði eitthvað á þá leið, að hann vissi, hvað hann hefði en ekki hvað við tæki. Ekki var minnst á málið í 19.00 fréttum sjónvarps ríkisins, en þar var hins vegar sagt frá því að landhelgisgæslan ætlaði að taka þátt í skipulagi átaki undir forystu Einar K. Guðfinnssonar sjávarútvegsráðherra gegn sjóræningjaveiðum á Reykjaneshrygg, en fréttamaðurinn sá ástæðu til að lýsa því frá eigin brjósti, að þetta gerði gæslan án þess að fá aukafjárveitingu og þótt hún væri illa tækjum búin. Þetta var sem sagt allt á jákvæðu nótununum!

Ástæðuna fyrir því að ég valdi Akranes skýrði ég fyrir Páli sveitarstjóra og samstarfsfólki hans á fundi í ráðuneytinu, en rök mín eru þau, að löng og góð reynsla er af rannsókn lögreglumála á Akranesi, en lykilembætti gegna einmitt lykilhlutverki á því sviði. Taldi ég, að sú efnislega ástæða ætti að vega þyngra en lega Borgarness. Með því að stofna nýtt lögregluembætti á höfuðborgarsvæðinu frekar en fella minni embætti inn í hið stærsta er komið til móts við sjónarmið, sem fram komu á kynningarferli málsins, en það hefur staðið í tæplega eitt ár. Markmið breytinganna er að efla löggæslu en ekki draga úr henni eins og mátti skilja á orðum bæjarstjórans í Hafnarfirði. Ég átta mig ekki á því með hvaða rökum hann heldur þeirri skoðun fram - hitt er síðan alþekkt, að margir óttast breytingar í stað þess að sjá tækifæri í þeim og leggja sig því ekki fram um að nýta þau - þeir sitja einnig oft eftir með sárt enni.

Björk Vilhelmsdóttir hefur ákveðið að segja skilið við vinstri/græna í borgarstjórn Reykjavíkur og fara í prófkjör Samfylkingarinnar. Hvar er hneykslunarkórinn um að hún eigi að segja af sér? Lætur hann aðeins í sér heyra, þegar einhver gengur til liðs við Sjálfstæðisflokkinn?

 

Mánudagur, 02. 01. 06. - 2.1.2006 20:35

Við upphaf árs lagði ég á ráðin um meginverkefni næstu mánaða á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.

Ég vék að því hér í dagbókinni á gamlársdag, hve fráleitt væri að segja Evrópusambandið (ESB) bannorð í íslenskum stjórnmálum, eins og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gerði í formannspistli sínum í Morgunblaðinu í tilefni áramótanna. Kannski á að skilja orð hennar á þann veg, að enginn haldi þeirri skoðun fram á stjórnmálavettvangi, að Ísland skuli ganga í ESB? Hvers vegna gerir hún aðild ekki að stefnu sinni?

Skömmu fyrir áramót sýndi skoðanakönnun í Finnlandi, að meirihluti Finna hefði snúist gegn aðild að ESB en Finnar hafa til þessa verið eindregnustu stuðningsmenn ESB-aðildar af Norðurlandaþjóðunum.

Um áramótin gerði breska ríkisútvarpið BBC könnun meðal Breta á því, hvern þeir teldu valdamesta mann Bretlands. Flestir eða 22% töldu það vera Jose Manuel Barroso, forseta framkvæmdastjórnar ESB. Rupert Murdoch fjölmiðlakóngur var í öðru sæti með 15% og breska þingið í því þriðja með 14%. Tony Blair lenti í sjöunda sæti með 7% og Gordon Brown fjármálaráðherra í níunda með 4% - einu stjórnmálamennirnir, sem komust á blað meðal hinna 10 efstu.

Nick Robinson, stjórmálaritstjóri BBC, sagði, að með vali sínu á Barroso kynnu breskir kjósendur að vera að láta í ljós þá skoðun, að Evrópusambandið hefði of mikil völd.

Umræður um kjaramál halda áfram og nú snúast þær um stjarnfræðilegar tölur í tengslum við FL Group. Þeir voru kallaðir í Kastljós til að ræða málið Jafet Ólafsson verðbréfasali og Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar. Spyrja má eftir þáttinn: Hverjum dettur í hug að kalla Ágúst Ólaf á vettvang, ef ætlunin er að halda umræðum innan skynsamlegra marka?

Sunnudagur, 01. 01. 06. - 1.1.2006 15:56

Gleðilegt ár!

Fórum í Dómkirkjuna kl. 11.00, þar sem herra Karl Sigurbjörnsson predikaði en sr. Hjálmar Jónsson og sr. Jakob Hjálmarsson þjónuðu fyrir altari. Veðrið var heldur leiðinlegt og fáir á ferli um þetta leyti að morgni nýársdags.