Sunnudagur, 22. 01. 06.
Víða eru menn að búa sig undir prófkjör og er Kjartan Valgarðsson í þeim hópi en hann sækist eftir 3. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavík. Kjartan opnaði kosningaskrifstofu sína laugardaginn 21. janúar og flutti ræðu, sem sjá má á vefsíðu hans www.kjartan2006.is. Í ræðunni vitnaði hann í Monu Shalin, sem er í fremstu röð sænskra jafnaðarmanna. Þessi orð Kjartans birtast hér að neðan. Þau minna mig á orðaskipti, sem ég átti fyrir nokkrum árum við sænskan menntamálaráðherra um fjármögnun háskóla og spurninguna um skólagjöld. Hann taldi fráleitt að taka upp skólagjöld, skatta ætti frekar að hækka og stjórnmálamenn að sjálfsögðu að ákveða, hvernig þeim yrði varið til skóla, enda vissu þeir best, hvernig ætti að fara með slíkt fé.
Kjartan Valgarðsson sagði:
„Mona Sahlin sagði eitt sinn að hið opinbera væri það fallegasta sem fundið hefði verið upp. Því það væri fallegt þegar einn tekur utan um annan og hann er ekki einn.“
Enn sagði Kjartan Valgarðsson:
„Mona Sahlin sagði einnig að það væri hipp og kúl að greiða skatta. Skattar er fjárfesting en ekki nauðung, fjárfesting í mannauði og innviðum sem við njótum dag hvern og bera ávöxt. Okkar er að tryggja sem besta uppskeru.“
Rétt er að taka fram, að Kjartan var ekki að vitna í Monu til að segja sig ósammála henni heldur vegna þess að orð hennar falla að stefnu hans sjálfs, enda vill hann hækka skatta og taka að sér að ráðstafa fé fyrir hönd almennings til fleiri þátta en núna. Kjartan sagði:
„Gjaldfrjáls skóli er annað stórt verkefni næsta áratugar. Heilbrigðara og sjálfsagðara stefnumál jafnaðarmanna er eiginlega ekki til. Það þarf að hætta endalausum rukkunum fyrir mat, ferðir, mjólk, íþróttir.“
Ég sé í Morgunblaðinu, að flokksbróðir Kjartans, þingmaðurinn Valdimar Leó Friðriksson, sem settist í stól Guðmundar Árna Stefánssonar, þegar hann varð sendiherra, kallar mig „aðgerðarlausa risaeðlu“! Tilefnið, að alþingi samþykkti ekki tillögu Ágústs Ólafs Ágústssonar um að kynferðisbrot gegn börnum fyrntust ekki.