Dagbók: nóvember 2005

Miðvikudagur, 30. 11. 05. - 30.11.2005 10:05

Var með viðtöl fyrir hádegi eins og venjulega á miðvikudögum en um hádegisbli hélt ég út á Keflavíkurflugvöll og hélt þaðan klukkan 14.15 með Icelandair til Kaupmannahafnar, vélin lenti þar á áætlun kl. 18. 15 og 19.40 tók ég SAS-vél áfram til Brussel - þar þarf maður að ganga lengstar vegalengdir á öllum flugvöllum - því miður var taskan mín ekki með vélinni, sem mér þótti skrýtið, þar sem hingað til hefur mátt ganga að því sem vísu, að þjónusta á Kastrup að þessi leyti sé örugg - þegar ég var að skrá töskuna sem týnda var nokkur hópur manna úr sömu vél sömu erinda, þar á meðal annar ferðalangur frá Íslandi.

Í Berlingske Tidende las ég frásögn af deilum tveggja Pakistana í nýrri borgarstjórn Kaupmannahafnar, sem blaðið segir, að eigi upptök  í flokkadráttum í Pakistan, en meirihluti Ritt Bjerregaard og félaga í borgarstjórninni byggist á því, að Pakistani sagði skilið við Venstre-flokkinn til stuðnings við Ritt og stóð til. að hann fengi háa túnaðarstöðu, en þá reis 19 ára Pakistani í flokki Ritt til mótmæla og var þá hinn sviptur tignarstöðunni, án þess að hann félli frá stuðningi sínum við Ritt og félaga, þannig að meirihluti hefur verið myndaður í borgarstjórn Kaupmannahafnar.

Þriðjudagur, 29. 11. 05. - 29.11.2005 20:51

Flutti framsöguræður fyrir þremur frumvörpum á þingi 1) um réttarvernd hugverkaréttinda, 2) um nýskipan vegna kosninga til kirkjuþings og 3) um breytingar á ákvæðum almennra hegningarlaga til að herða ákvæði þeirra gegn heimilisofbeldi.

Frumvörpin hlutu almennt góðar viðtökur þingmanna og voru síðan afgreidd til allsherjarnefndar í atkvæðagreiðslu undir klukkan 20.00. Hér ég þá komið öllum frumvörpum, sem ég ætla að flytja á haustþinginu, til nefndar.

Var klukkan rúmlega 17.00 í Iðnó við afhendingu Íslensku vefverðlaunanna 2005 en síðan mín hafði verið tilnefnd til verðlauna sem besti einstaklingsvefurinn. Úr hópi þeirra fimm, sem þá tilnefningu hlutu, fékk http://arni.hamstur.is/ fyrstu verðlaun og óska ég eigandanum til hamingju, um leið og ég þakka þeim, sem tilnefndu síðuna mína, sem hlaut þessi verðlaun árið 2003.

Horfði á Ólaf Ragnar Grímsson ræða bókina um Kristján Eldjárn Völundarhús valdsins í Kastljósi í gærkvöldi við Kristján Kristjánsson. Ólafur Ragnar lagði allt öðru vísu út af bókinni en Guðni Th. Jóhannesson, höfundur hennar, sem einnig var í þættinum og áréttaði enn, að Kristján Eldjárn hefði forðast það eins og heitan eldinn að blanda sér í stjórnmálaátök. Var engu líkara en Ólafi Ragnari væri mest í mun að túlka bókina sem svo, að ekkert væri sjálfsagðara en forseti Íslands léti að sér kveða á stjórnmálavettvangi -  þá túlkun tel ég alls ekki vera í anda Kristjáns Eldjárns, eins og ég kynntist honum á sínum tíma, en samtöl okkar um þessi mál ber aðeins á góma í bókinni.

Mánudagur, 27. 11. 05. - 28.11.2005 20:39

Flugum heim frá París í dag - á Charles de Gaulle flugvelli hitti ég Margeir St. Ingólfsson, sem setti síðuna mína inn í Eplica-kerfið og hefur aðstoðað mig á alla lund við þróun hennar. Hann sagði mér, að síðan hefði hlotið tilnefningu í annað sinn til Íslensku vefverðlaunina, en hún hlaut fyrstu verðlaun sem besti einstaklingsvefurinn 29. október 2003 og er nú tilnefnd í annað sinn í þeim flokki. Verðlaunin er kynnt á þennan hátt á vefsíðunni http://www.vefverdlaun.is/

Íslensku vefverðlaunin eru árlega veitt vefum sem taldir eru skara fram úr á sínu sviði. Tekið er á móti tilnefningum almennings á vefnum og dómnefnd skipuð fimm fulltrúum, Vefakademían, fer yfir tilnefningarnar og velur úr þá vefi sem hún telur besta.

Verðlaunin hafa undanfarin ár verið veitt í samstarfi Vefsýnar og ÍMARK en nú verður sú breyting á að verðlaunin eru veitt af ÍMARK og nokkrum aðilum í grasrót vefiðnaðarins, væntanlegum vísi að samtökum vefiðnaðarins. Þetta er í fimmta skipti sem verðlaunin eru veitt og í ár eru það ISNIC, Íslandsbanki, KB Banki og Landsbankinn sem styðja verðlaunin með glæsilegum framlögum.

Söfnun tilnefninga til Íslensku vefverðlaunanna fór fram á þessum vef frá 9. til 16. nóvember og verðlaunin verða svo afhent á lokaðri hátíð í IÐNÓ þriðjudaginn 29. nóvember að viðstaddri Valgerði Sverrisdóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Líkt og áður eru verðlaun veitt í fimm flokkum:

  • Besti íslenski vefurinn
  • Besti fyrirtækisvefurinn
  • Besti afþreyingarvefurinn
  • Besta útlits- og viðmótshönnunin
  • Besti einstaklingsvefurinn
  • Til verðlauna fyrir besta einstaklingsvefinn hafa þessir verið tilnefndir:
  • Við sjáum hvernig fer á morgun, en ég sé, að Margeir St. Ingólfsson hefur einnig komið að gerð vefjarins www.sigurjon.com.

Laugardagur, 26. 11. 05. - 26.11.2005 19:12

Hafi snjókornin í París í gær flokkast sem snjókoma, væri líklega unnt að kalla úrkomuna hér í morgun fannfergi. Það var þó lítið, sem festist á götunum, ég sá aðeins snjóföl, þegar ég ók með strætisvagni í gegnum garðinn fyrir framan Louvre-safnið á leiðinni af hægri bakkanum yfir á þann vinstri.

Síðdegis vorum við á málþingi um Sturlungu í sendiráðsbústaðnum, en hún hófst með ræðu Tómasar Inga Olrichs sendiherra, en þar lofaði hann sérstaklega hve mjög Regis Boyer prófessor hefði lagt sig fram um að kynna íslenskar bókmenntir með þýðingum sínum á frönsku, en hann hefur nýlokið við að þýða Sturlungu. Regis Boyer flutti erindi um Sturlungu, þá ræddi Patrick Guelpa, prófessor í Lille, um Guðmund biskup góða, en prófessorinn hefur nýlokið við að þýða Lilju á frönsku, loks flutti Einar Már Jónsson prófessor erindi um Þórð kakala.

Rúmlega 100 manns sátu málþingið og þágu veitingar sendiherrahjónanna að því loknu, en þá gafst tækifæri til hitta marga, sem vinna að því að kynna íslenska menningu í Frakklandi.

Föstudagur, 25. 11. 05. - 25.11.2005 9:00

Flugum til Parísar, sé í fréttum, að rætt er um snjókomu í borginni, en það féllu nokkur korn síðdegis. Mér finnst þægilegra að ganga í þessum kulda um götur borgarinnar en í 30 stiga sumarhita.

Þegar ég fór í með jarðlestinni, fékk ég ekki þá tilfinningu, að öryggisgæsla eða eftirlit væri meira en áður. Fréttir eru hættar að berast af úthverfaupphlaupum og ástandið talið komið í eðlilegt horf, úr því að ekki er kveikt í fleiri bílum en um 100 á nóttu.

Föstudagur, 24. 11. 05. - 25.11.2005 8:58

Fimmtudagur, 24. 11. 05. - 24.11.2005 21:48

Önnur umræða um fjárlagafrumvarpið fer fram í dag og er henni ekki lokið, þegar þetta er skrifað. Ég hef bæði fylgst með henni í þingsalnum og einnig utan hans, en nú er hægt að hlusta á umræður á þingi, hvar sem maður hefur aðgang að tölvu og mjög víða í sjónvarpi. Er það mikil breyting frá því, að ég settist á þing árið 1991 og rætt var um, hvort verja ætti mörg hundruð milljónum króna, ef ég man rétt, í að setja á stofn sérstakt útvarp frá alþingi. Nú er í senn unnt að hlusta á og sjá allt, sem gerist í ræðustól alþingis, hvar sem maður er staddur við tölvu, þess vegna er þess gjarnan látið getið í ræðustólnum, að sá, sem þar stendur, vænti þess, að á sig sé hlustað af öðrum þingmönnum en þeim, sem einmitt eru í þingsalnum þá stundina.

Í umræðum gerist það stundum, að ræðumaður taki smá rispu, þegar hann sér ráðherra eða þingmann birtast í salnum og beini orðum sínum sérstaklega til hans, þótt það falli ekki endilega að því, sem hann var að segja, þegar hann kom auga á þann, sem í salinn gekk. Hitt er þó algengara, að í ræðum stjórnarandstæðinga sé fundið að því, að þessi eða hinn ráðherrann sé ekki í þingsalnum eða þinghúsinu og oft gera menn hlé á ræðu sinni á meðan úr er bætt fyrir tilstilli forseta.

Í upphafi umræðnanna um fjárlögin kvörtuðu stjórnarandstæðingar undan því, að ráðherrar væru ekki nógu margir viðstaddir til að hlusta á umræður eða taka þátt í þeim. Pétur H. Blöndal vakti hins vegar máls á því, að í þessu tali um viðveru ráðherra fælist alltof mikil undirgefni við framkvæmdavaldið, ríkisstjórnin hefði lagt fram og kynnt frumvarp sitt, nú væri verið að ræða álit þingnefndar og skoðanir þingmanna á þessum tillögum ríkisstjórnarinnar og það gæti vel gerst, án þess að kallað væri á ráðherra.

Miðvikudagur, 23. 11. 05. - 23.11.2005 21:37

Svaraði tveimur fyrirspurnum á alþingi um athugasemdir mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna og um löggæslu á vegum sérsveitar lögreglunnar á tveimur skemmtunum í Skagafirði. Síðari fyrirspurnin, frá Sigurjóni Þórðarsyni frjálslyndum, virtist byggjast á því, að einhverjir lögregluþjónar í Skagafirði hefðu orðið af yfirvinnugreiðslum vegna þess að sérsveitarmenn voru kallaðir frá Akureyri til að aðstoða við löggæslu í Skagafirði. Tilgangur Sigurjóns var að leitast við að sýna fram á, að dýrara hefði verið að kalla á menn frá Akureyri en að notast við heimamenn. Svar mitt leiddi það ekki í ljós. Þá þótti Jóni Bjarnasyni þinmanni vinstri/grænna það of ógnvekjandi, að sérsveitarmenn væru að sinna slíku verkefni. Ég velti því fyrir, hver hefði áttað sig á því, að þeir væru þarna vettvangi, nema vegna þess að einhver kaus að gera veður út af því.

Fréttastofa hljóðvarps ríkisins sá ástæðu til þess í dag að hringja í Svan Kristjánsson, prófessor í stjórnmálafræði, til að hann gæti borið blak af athugasemd Ólafs Ragnars Grímssonar í Morgunblaðinu í dag, þar sem hann svarar Staksteinum og skýrir lesendum blaðsins frá því hvers vegna íslensku forsetahjónin áttu brýnt erindi til Mónakó, þegar Albert varð fursti af Mónakó, og Ólafur Ragnar var þar einn þjóðhöfðingja. Svanur setur athugasemd Ólafs Ragnars í sögulegt samhengi með því meðal annars að segja frá því að fyrsti forsetinn, Sveinn Björnsson, hafi gagnrýnt Þjóðviljann á ríkisráðsfundi. Auk þess hafi Kristján Eldjárn hringt í ritstjóra Morgunblaðsins til að láta í ljós óánægju með skrif blaðsins. Ætli prófessorinn sé raunverulega þeirrar skoðunar, að þessi tvö dæmi eða afstaða Ásgeirs Ásgeirssonar á móti varnarleysi þjóðarinnar séu sambærileg við athugasemd Ólafs Ragnars? Eða rennur honum blóðið til skyldunnar vegna sérkennilegra viðhorfa sinna til hlutverks forseta Íslands, viðhorfa, sem hann leitast við að rökstyðja með dæmum á borð við þessi?

Þriðjudagur, 22. 11. 05 - 22.11.2005 22:07

Var á vel sóttum fundi Heimdallar í kvöld og ræddi varnarmálin. Að lokinni stuttri framsöguræðu svaraði ég spurningum fundarmanna í um það bil eina klukkustund og bar þar margt á góma.

Ég lýsti þeirri skoðun, að mér þætti undarlegt, að þessa daga væri rætt um varnarmálin eins og eitthvað stórmerkilegt væri að gerast, því að í raun væru menn í sömu stöðu og verið hefði síðan kalda stríðinu lauk, það er að ræða samstarfið við Bandaríkjamenn með það í huga, að hér yrðu sýnilegar varnir í ljósi breyttra aðstæðna og  þess, að við værum tilbúnir til að taka meiri kostnað vegna reksturs Keflavíkurflugvallar á okkar herðar.

Ég gæti ekki tekið undir með þeim, sem teldu, að um einhver þáttaskil væri að ræða í samskiptum Íslands og Bandaríkjanna, vandinn væri sá, að vegna mismunandi sjónarmiða ólíkra ráðuneyta og stofnana í Washington gætu menn ekki leitt málið til lykta - ég teldi óbreytt ástand hins vegar ekki til vandræða fyrir okkur nema vegna þess, að óvissa ríkti um nokkra þætti í starfseminni á Keflavíkurflugvelli og væri brýnt að binda enda á hana.

 Í leiðara Morgunblaðsins í dag segir meðal annars:

„Morgunblaðið hefur marglýst þeirri skoðun sinni, að við Íslendingar eigum að stórauka pólitísk samskipti okkar við Þjóðverja. Það er augljóst, að fjarlægðin á milli okkar og Bandaríkjamanna er að aukast. Við eigum jafnvel í vissum erfiðleikum með að fá Bandaríkjamenn til þess að standa við skuldbindingar sínar við okkur í öryggismálum.“

Ég er ekki andvígur góðum samskiptum við Þjóðverja nema síður sé en að láta eins og þau geti á einhvern hátt komið í stað samstarfs við Bandaríkin í varnarmálum er fráleitt. Hvernig er unnt að rökstyðja það, að fjarlægð okkar og Bandaríkjamanna sé að aukast? Fjarlægðin hefur aldrei verið minni, hvað sem líður varnarsamstarfinu. Bandarísk fjárfesting hefur aldrei verið meiri hér eða umsvif í efnahagslífinu auk þess sem bandarískum ferðamönnum hefur fjölgað, svo að ekki sé minnst á bandarísk menningaráhrif - Morgunblaðsmenn þurfa ekki annað en lesa kvikmyndaauglýsingar, sjónvarpsdagskrá, kvikmyndaumsagnir og slúðurdálka eigin blaðs til að sjá, að þetta með aukna fjarlægð er fásinna. Bandaríkjamenn vilja halda áfram varnarsamsamstarfinu við okkur.  Sú vitleysa var gerð fyrir um það bil tíu árum að setja tímamörk í fyrirkomulagsbókanir um umsvifin á Keflavíkurflugvelli í stað þess að halda samstarfinu áfram á sama hátt og áður, að taka sameiginlega mið af breyttum aðstæðum í öryggismálum og laga sig að þeim - við höfum oft staðið frammi fyrir því áður að þurfa að rökræða við Bandaríkjamenn um varnarmál og skipan mála á Keflavíkurflugvelli.

 

Mánudagur, 21. 11. 05. - 21.11.2005 21:06

Dagskrárliður þingsins - óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra, sem var á dagskrá í upphafi þings í dag - var að ég held hugsaður til að unnt yrði að koma ráðherrum í opna skjöldu með spurningum um málefni líðandi stundar. Þessi liður er á dagskránni á 2ja vikna fresti og stendur í 30 mínútur. Hann er hins vegar orðinn heldur máttlaus vegna þess að í upphafi næstum hvers þingfundar er verið að ræða einhver málefni líðandi stundar annað hvort utan dagskrár eða undir dagskrárheitum eins og stjórn þingisins eða fundarstjórn forseta, en undir þessum liðum hefur tíðkast að fara um víðan völl og ræða hvaðeina, sem á þingmönnum hvílir, með ósk um að einhver ráðherranna bregðist við og svari eða láti í ljós skoðun sína.

Oft er talað um að framkvæmdarvaldið, það er ríkisstjórnin eða einstakir ráðherrar séu of fyrirferðarmiklir á þingi og frumvörp þeirra eða jafnvel duttlungar setji of mikinn svip á þingstörfin. Ef einhverjir ýta undir þessa mynd af þingstörfum eru það einmitt stjórnarandstöðuþingmenn, sem helst vilja ekki halda ræðu í þinginu nema einhver ráðherra sitji og hlusti á hana, eða finnst þeir ekki geta gengið til almennra þingstarfa, án þess að hafa gert atlögu að einhverjum ráðherranna og leyft honum að láta ljós sitt skína í upphafi þingfundar. 

Þá gerist það alltaf reglulega að einhver forystumaður úr stjórnarandstöðunni, að þessu sinni Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, stendur upp til að ræða störf þingsins og kvartar undan skorti á stjórnarfrumvörpum og telur það jafnvel til marks um óeiningu á stjórnarheimilinu, ef frumvörp ríkisstjórnarinnar hvolfast ekki yfir þingheim á fyrstu vikum þinghaldsins, sem almennt eru helgaðar úrvinnslu fjárlagafrumvarpsins.

Ráðherrar svara einnig fyrirspurnum þingmanna, sem eru undirbúnar á þingskjölum og er annað hvort beðið um munnlegt eða skriflegt svar ráðherra. Á haustþinginu hafa hrannast upp fyrirspurnir en samkvæmt starfsáætlun þingsins á að svara þeim síðdegis á miðvikudögum. Nú hefur orðið að lengja fundartíma á miðvikudögum og halda aukafund á föstudögum til að grynnka á spurningalistanum. Ég ætlaði að svara fjórum fyrirspurnum sl. miðvikudag en gat aðeins svarað tveimur, því að annar fyrirspyrjanda var ekki í þingsalnum, þegar röðin kom að spurningu hennar, og hinn fyrirspyrjandinn hafði gleymt spurningu sinni í skrifstofu sinni handan Austurvallar!

Sunnudagur, 20. 11. 05. - 20.11.2005 22:30

Fékk í dag í hendur nýja bók Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings Völundarhús valdsins, sem byggist á dagbókum og minnisblöðum Kristjáns Eldjárns forseta Íslands og segir frá afskiptum hans af stjórnarmyndunum á árunum 1968 til 1980. Þessi bók á vonandi eftir að beina athygli manna að öðrum þáttum í störfum forseta Íslands en þeim, sem snerta synjunarvald hans samkvæmt 26. gr. stjórnarskrárinnar og leiða mönnum fyrir sjónir, að embætti forseta Íslands stendur hvorki né fellur með þeirri grein stjórnarskrárinnar, sem Kristján taldi raunar fráleitt, að forsetinn beitti nokkru sinni. Í forsetatíð Ólafs Ragnar Grímssonar, sem ekki hefur komið að neinni stjórnarmyndun, hefur verið látið eins og án synjunarvaldsins væri forsetaembættið einskis virði. Þetta er reginfirra og í 60 ár gátu forsetar setið og notið virðingar þjóðarinnar, án þess að ganga gegn vilja alþingis og í berhögg við þingræðisregluna. 

Las viðtal við Ólaf Börk Þorvaldsson hæstaréttardómara í Morgunblaðinu í dag og fagna því, að honum hafi gefist tækifæri til að segja sína hlið á því mikla þrætuefni, sem skipan hans í hæstarétt hefur orðið. Það er með ólíkindum, hvernig vegið hefur verið að þessu vali mínu á reyndum dómara, þótt ungur sé að árum, og lögfræðingi með meistarapróf í Evrópurétti í hæstarétt. Þessar árásir eru ómaklegar gagnvart Ólafi Berki og þær breyta ekki neinu um ákvörðun mína, sem byggðist á skýrum málefnalegum sjónarmiðum. 

Laugardagur, 19. 11. 05. - 19.11.2005 21:38

Var austur í Fljótshlíð og stofnaði þar félagið Fljótshlíðingar ehf. með nágrannabændum og öðrum til að sinna framfaramálum í sveitinni og rekstri fasteignar í eigu þess.

Guðmundur Magnússon, fulltrúi ritstjóra, dregur taum Jóns Ólafssonar í Skífunni í Fréttablaðinu í dag með því að skrifa hæðnislega um leiðréttingar á rangfærslum Jóns um menn og málefni. Eitt af því furðulega, sem nefnt hefur verið til sögunnar vegna útkomu bókar Einars Kárasonar um Jón, er ræða Davíðs Oddssonar til heiðurs Þórarni Eldjárn fimmtugum, en Jón Ólafsson, sem ekki var í afmælinu, hefur látið orð falla á þann veg, að hún hafi snúist að mestu um sig. Þórarinn hefur leiðrétt þessa rangfærslu um ræðu Davíðs, þar hafi að vísu verið minnst á Jón Ólafsson en sá hafi verið Indíafari en ekki kaupsýslumaður.  Þótt Jón Ólafsson í Skífunni hafi um tíma verið aðalræðismaður Indónesíu á Íslandi, hefur engum dottið í hug að nefna hann Indíufara. Guðmundur nefnir Davíð konung í athugasemd sinni og þá Þórarinn Eldjárn, Hannes Hólmstein og Baldur Hermannsson, sem ritaði um framgöngu Jóns í Kastljósi í Morgunblaðið, hirðmenn.

Föstudagur, 18. 11. 05. - 18.11.2005 22:31

Á fundi ríkisstjórnarinnar lagði ég fram frumvarp til breytinga á alm. hegningarlögum í því skyni að þyngja viðbrögð og viðurlög við heimilisofbeldi. Hefur lengi verið rætt um nauðsyn endurskoðunar vegna slíkra brota og vann refsiréttiréttarnefnd undir formennsku Róberts Spanó þessar tillögur að minni ósk.

Alfreð Þorsteinsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, til margra áratuga tilkynnti í dag, að hann yrði ekki í framboði oftar og mundi helga sig formennsku í verkefnisstjórn vegna byggingar hátæknisjúkrahúss. Alfreð hefur verið burðarás í R-listanum og hann átti í fullu tré við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sem borgarstjóra og setti hennar oftar en einu sinni stólinn fyrir dyrnar.

Orkuveita Reykjavíkur hefur orðið ríki í ríkinu innan Reykjavíkurborgar undir stjórn Alfreðs og væri gengið fram á þann veg gagnvart ríkisstjórn og alþingi við stjórn fyrirtækis í þágu ríkisins og Alfreð hefur gert gagnvart borgarráði og borgarstjórn við stjórn orkuveitunnar, mundi aldeilis hvína í stjórnarsinnum og stjórnarandstöðu. Alfreð hefur hins vegar haldið R-listanum og fulltrúum Akurnesinga í greip sinni í stjórn orkuveitunnar og ekki hikað við að beita bolabrögðum gagnvart sjálfstæðismönnum.

Fimmtudagur, 17. 11. 05. - 17.11.2005 21:18

Ríkissjónvarpið ræddi í kvöldfréttum við Helga Hjörvar alþingismann vegna bréfs, sem ég hafði sent honum, en reyndi ekki að ná í mig. Auk þess var lagt þannig út af bréfi mínu eins og ég hefði gefið einhverja almenna yfirlýsingu fyrir hönd ríkisstjórnarinnar um rannsóknir vegna svonefndra fangaflugvéla. Ég var að svara bréfi Helga og sagði, að efni þess gæfi ekki tilefni til þess að hefja opinbera rannsókn eða eins og segir í bréfi mínu: „Samkvæmt mati dómsmálaráðuneytisins uppfyllir málsreifun í bréfi yðar og tilmæli yðar þar um opinbera rannsókn ekki þau skilyrði, sem lög og meginreglur um meðferð opinberra mála gera, til að orðið verði við framangreindu erindi yðar um opinbera rannsókn.“

Í kvöldfréttum hljóðvarps ríkisins var Helgi Hjörvar sagður „ötull talsmaður öryrkja á alþingi“ og var það Björg Eva þingfréttaritari hljóðvarpsins, sem gaf Helga þessa einkunn. Er það ný stefna, að gefa þingmönnum einkunnir og kenna þá við einstaka málaflokka?

Hvort heldur rætt er um svar mitt við bréfinu, sem Helgi Hjörvar sendi mér, eða umræður um málefni öryrkja, er með öllu ástæðulaust að gera meira úr hlut Helga Hjörvars í fréttum en annarra þingmanna. Úr því að fréttamaður ríkissjónvarpsins kaus að ræða við einhvern vegna bréfs frá mér, hefði að minnsta kosti mátt vænta þess, að hann reyndi að ná tali af mér. Að sjálfsögðu eru fleiri ötulir talsmenn öryrkja á alþingi en Helgi Hjörvar, eða telur fréttastofa hljóðvarpsins svo ekki vera?

 

 

Miðvikudagur, 16. 11. 05. - 16.11.2005 20:17

Dagur íslenskrar tungu! Ánægjulegt að hann hefur þróast á þann veg, sem ég vildi, þegar ég lagði til í ríkisstjórn á sínum tíma, að afmælisdagur Jónasar Hallgrímssonar yrði helgaður íslenskri tungu. Með því að fara í dagbók mína á þessum degi og lesa ræður mínar fyrstu daga íslenskrar tungu má sjá, hvernig þetta fór allt af stað.

Í dag hófst stóra upplestrarkeppnin og börn gerðu margt til hátíðabrigða í skólum sínum, ég hafði verið boðinn austur á Hvolsvöll til að hlusta á grunnskólabörn þar lesa úr Njálu en komst ekki, því að í hádeginu var ég í stofu 201 í Odda, húsi Háskóla Íslands, og ræddi þar um hverju ég teldi brýnast að dóms- og kirkjumálaráðuneytið sinnti í þágu ungmenna, en Sigrún Aðalbjarnardóttir, prófessor í félagsvísindadeild, hafði boðið mér að ræða þetta á málþingi og svara fyrirspurnum, sem ég gerði mér til ánægju og vonandi einhverjum til fróðleiks, en áheyrendur voru margir bæði úr háskólanum og utan hans.

Þegar ég hlustaði á kvöldfréttir,  heyrði ég, að lesið hefði verið úr verkum mínum í héraðsdómi í dag, en það gerðu verjendur Baugsmanna til að leiða sönnur að óvild minni í garð skjólstæðinga sinna. Ég vona, að textinn hafi ekki verið of slæmur til lestrar á degi íslenskrar tungu og þykir mér í sjálfu sér sögulegt, að vefsíða mín skuli á þeim degi verða skráð í dómabækur. Má með sanni segja, að  síðan rati víða og verði mörgum til umþenkinga, nú dómurum til að meta hæfi mitt sem dómsmálaráðherra. Ég hefði kannski átt að fara að ráðum Guðrúnar Helgadóttur, sem hlaut verðlaun Jónasar Hallgrímssonar í dag, en á sínum tíma taldi hún það mikla ósvinnu, að ég skyldi ætla að nota netið til samskipta við almenning, hvernig stjórnmálamanni dytti slík vitleysa í hug?

Baugsmiðlarinir fara mikinn vegna þess, að tæknileg bilun leiddi til þess, að ekki var unnt að sýna viðtal við Jón Ólafsson, kaupsýslumann kenndan við Skífuna, í Kastljósi á mánudagskvöld.  Er furðulegt að fylgjast með því, hvílíku hugarangri þetta hefur valdið þar á bæ. Hvernig skyldi þessu blessaða fólki hafa liðið í kvöld, þegar fréttatími Stöðvar 2 komst út með miklum harmkvælum? Og fyrsta fréttin var um, að á Reykjavíkurflugvelli væri vél, grunuð um flutninga fyrir CIA. Skyldi ekki einhvern samsærissmiðanna hafa grunað, að CIA væri að trufla útsendingar Stöðvar 2? Eða voru þetta kannski ósköp meinlaus tæknileg vandræði?

 

Þriðjudagur, 15. 11. 05. - 15.11.2005 22:56

Flaug norður á Akureyri klukkan 17.00 og talaði um stjórnskipun og stjórnsýslu í stjórnmálaskóla Sjálfstæðisflokksins, flaug til baka kl. 21.45 og lenti um kl. 22.30.

Ég ræddi meðal annars um þann einstæða atburð, þegar Ólafur Ragnar Grímsson beitti synjunarvaldinu á fjölmiðlalögin. Minnti ég á, að á landsfundi Sjálfstæðisflokksins hefði verið samþykkt að afnema þá grein stjórnarskrárinnar, sem veitir forseta Íslands þetta synjunarvald. Það sé miklu nær að hafa ákvæði í stjórnarskrá, sem mæli fyrir um þjóðaratkvæðagreiðslu og geri ráð fyrir því, að ákvörðun um hana hafi aðdraganda sem byggist á gegnsæi og umræðum, en byggist ekki á því, að tekin sé ákvörðun fyrirvaralaust og án alls efnislegs rökstuðnings og ekki sé unnt að ræða hana, þar sem ákvörðunin sé tekin af þeim, sem sé ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum og friðhelgur. Erfitt sé að átta sig á því, að stjórnarhættir af því tagi samrýmist kröfum um skýra ábyrgð á stjórnarathöfnum og þær byggist á augljósum rökum.

Mánudagur, 14. 11. 05. - 14.11.2005 20:46

Í morgun var þess krafist af verjendum Baugsmanna í héraðsdómi, að dómstólar fjölluðu um hæfi mitt til að skipa Sigurð Tómas Magnússon ríkissaksóknara í Baugsmálinu.

Borgarstjórnarflokkur sjálfstæðismanna kom saman til fyrsta fundar eftir prófkjör í hádeginu og voru menn mjög sáttir með niðurstöðu hins glæsilega prófkjörs.

Í upphafi þingfundar kvaddi Ingibjörg Sórún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, sér hljóðs vegna ummæla Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra á miðstjórnarfundi framsóknarmanna sl. föstudag um varnarviðræðurnar við Bandaríkjamenn. Þingumræðurnar leiddu í ljós, að Halldór er sömu skoðunar og áður, að hér eigi bandarískar herþotur að vera áfram í samkomulagi við Bandaríkjamenn.

Við Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri/grænna, ræddum síðan varnarmálin í Kastljósi við þau Sigmar Guðmundsson og Jóhönnu Vilhjálmsdóttur. Ég áréttaði þá skoðun mína, að rangt hefði verið á sínum tíma, að semja til ákveðins tíma um fyrirkomulag á Keflavíkurflugvelli, varnarsamningurinn einn ætti að duga og inntak hans að ráðast af aðstæðum hverju sinni, en hér væri nauðsynlegt að halda úti herþotum til að tryggja öryggi í lofthelginni. Þá hefði ég fyrir 10 árum bent á, að við Íslendingar þyrftum að búa okkur undir að axla sjálfir meiri ábyrgð á okkar eigin vörnum. Nú væri verið að efla landhelgisgæsluna og sérsveit lögreglunnar. Þá teldi ég að semja ætti við Dani og Norðmenn um eftirlit og öryggisgæslu á Norður-Atlantshafi.

Sunnudagur, 13. 11. 05. - 13.11.2005 19:33

Flaug heim frá London klukkan 13.00 og lenti í Keflavík rúmlega 16.00. Í bresku sunnudagsblöðunum er mikið rætt um vanda Blairs eftir tapið í atkvæðagreiðslunni á þingi sl. miðvikudag. Einnig mátti lesa þar viðtöl við Sir Christopher Meyer, fyrrverandi sendiherra, og eiginkonu hans, sem verja það, hve berorður hann er í bók sinni um ýmsa breska ráðherra. Frúin segir raunar að það sé sér að kenna, því að henni hafi þótt fyrsta handritið af bókinni svo þurrt og leiðinlegt, að hún hafi beðið hann að gera það dálítið meira krassandi!

Í viðtali við BBC í dag sagði Sir Christopher, að ráðherrar væru kjörnir fulltrúar og yrðu að sæta því, að lýst sé af nokkurri nákvæmni framgöngu þeirra erlendis.

Laugardagur, 12. 11. 05. - 12.11.2005 19:23

Naut þess að vera með fjölskyldu minni, sem býr í London. Við fórum síðdegis í National Portrait Gallery og skoðuðum þar einstæða sýningu af sjálfsmyndum listmálara frá endurreisnartímanum til okkar daga.

Föstudagur 11. 11. 05. - 11.11.2005 10:14

Fór í heimsókn í einkaskjalasafn Churchills og hafði vörðurinn tekið fram myndaalbúm, sem sýndi Churchill í Reykjavík. Þar var einnig að finna bréf frá honum og til hans, sem snertu Ísland. Einnig var á borði úrklippa úr Morgunblaðinu með viðtali við Sir Andrew Gilchrist, sem var sendiherra Breta á Íslandi í þorskastríðinu 1958, en hann h ánafnaði Churchill College einkaskjalasafni sínu. Gilchrist var góðvinur föður míns og ég þekkti hann vel, heimsótti ég hann einu sinni á heimili hans í Skotlandi, eftir að hann var kominn á eftirlaun.

Fyrir fáeinum árum ákvað Margaret Thatcher, að einkaskjalasafn sitt skyldi varðveitt í Churchill College og hefur nú verið reist nýtt stórt skjalageymsluhús við hlið hússins, sem geymir Churchill-skjölin, þar sem Thatcher-skjölin eru geymd og fengum við að skoða þá aðstöðu og nokkur skjalanna, en allt er þetta ótrúlega mikið að vöxtum.

Skjalavörðuinn sagði áhugann á Churchill-skjölunum mikinn og hið sama væri um Thatcher-skjölin en um mörg þeirra gilti 30 ára regla, svo að þau yrðu ekki almennt opnuð fyrr en eftir 30 ára geymslu. Charles Moore, fyrrverandi ritstjóri The Spectator, er ævisöguhöfundur Thatcher tilnefndur af henni og sagði skjalavörðurinn, að hann hefði sérstakan aðgang að skjölunum.

Þarna er fleiri einkaskjöl breskra stjórnmálamanna og embættismanna og einstaklega góð aðstaða bæði til að geyma þau og sinna rannsóknum.

Ég hafði aldrei komið til Cambridge áður og gekk frá Churhill College í um 20 mínútur þar til komið var inn í gamla bæinn um stóra garða Trinity College. Í bænum skoðuðum við fagrar háskólabyggingar á leið til Peterhouse College, sem er hinn elsti í háskólanum og er frá miðri 14. öld. Á leiðinni gengum við framjá galleríi, þar sem sjá mátti málverk og vatnslitamyndir eftir Karólínu Lárusdóttur, sem er búsett í eða við Cambridge. Þar var einnig unnt að kaupa póstkort með myndum eftir hana.

Í Peterhouse College hittum  við dr. Brendan Simms prófessor í alþjóðastjórnmáum. Þaðan fórum við síðan í alþjóðastjórnmálafræðimiðstöð háskólans, þar sem efnt var til málþings undir stjórn Christophers Hills prófessors og ég ræddi um þróun íslenskra öryggismála og afstöðu Íslands til Evrópusambandsins og svaraði síðan fyrirspurnum. (Christopher Hill sagði mér, að hann hefði verið prófessor Alberts Jónssonar sendiherra, þegar hann stundaði nám við London School of Economics.)

 

Við svo búið hélt ég aftur til London.

Fimmtudagur, 10. 11. 05. - 10.11.2005 9:59

Ók til Cambridge síðdegis frá London. Í Churchill College hitti ég Rasmus Gjedssö Bertelsen, doktorsnema við Cambridge-háskóla og ritstjóra tímaritsins Cambridge Review of International Affairs, hann hafði beðið mig um að taka þátt í umræðufundi á vegum The Phoenix Society um lífkenni eða biometrics. Fundurinn var haldinn klukkan 18.00 í sal í ráðstefnumiðstöð, Möller Centre, sem Maersk Mc-Kinney Möller gaf Churchill College og var miðstöðin opnuð 1992, en hún er teiknuð af Henning Larsen, sem síðan teiknaði óperuna í Kaupmannahöfn, en hún er einnig gjöf frá  Maersk Mc-Kinney Möller auk þess sem mun Larsen teikna tónlistarhúsið og ráðstefnumiðstöðina í Reykjavík. Auk mín töluðu þarna prófessor frá Cambridge, sem er sérfræðingur í lithimnugreiningum og notkun lithimnumynda og mannfræðiprófessor frá London. Að loknum ræðum okkar voru fyrirspurnir.

Við snæddum kvöldverð í matsal Churchill College og þar lýkur öllum kvöldverðum með því að risið er á fætur og einhver hrópar Sir Winston og viðstaddir skála fyrir Sir Winston Churchill, en hann sá fyrir sér stofnun þessa College á sjötta áratugnum og þarna eru einkaskjöl Churchills, Clementine og barna þeirra hýst.

Miðvikudagur, 09. 11. 05. - 9.11.2005 22:43

Evrópunefndin kom saman í hádeginu í dag, en síðdegis flaug ég til London vegna funda, sem ég mun sitja í Cambridge-háskóla á morgun og föstudag.

Eftir komu mína til London frétti ég, að Tony Blair hefði tapað fyrstu atkvæðagreiðslu í breska þinginu á þeim átta árum, sem hann hefur setið sem forsætisráðherra. Tekist var á um lagafrumvarp, þar sem mælt var fyrir um heimild lögreglunnar til að halda grunuðum hryðjuverkamönnum 90 daga í gæsluvarðhaldi án þess að birta þeim ákæru. Blair barðist fyrir 90 dögunum en varð að sætta sig við 28 daga, í stað 14 núna. Stjórnarandstaðan segir, að breska ríkisstjórnin og lögreglan hafi nú lengsta tíma allra lýðræðislegra ríkisstjórna til að halda mönnum í gæsluvarðhaldi án þess að birta þeim ákæru og alls ekki hafi verið þörf á 90 dögum.

Í BBCvelta menn því fyrir sér, hve lengi Blair eigi eftir að sitja sem forsætisráðherra. Dagar hans séu í raun taldir, spurningin sé, hve virðuleg brottför verði. Hann eigi ekki sjö dagana sæla, eftir að 49 af eigin þingmönnum hans snerust gegn honum. Þeir geti hæglega gert það aftur, eftir að hafa gert það í máli, sem forsætisráðherrann taldi snerta öryggi ríkisins, hvorki meira né minni.

Þriðjudagur, 08. 11. 05. - 8.11.2005 22:02

Flutti í dag framsöguræðu fyrir frumvarpi um breytingar á sifjalögum, þar sem meðal annars er mælt fyrir um, að sameiginleg forsjá yfir börnum eigi að vera meginregla við skilnað. Var frumvarpinu vel tekið af þingmönnum og er augljóst, að í allsherjarnefnd verður málinu sinnt af áhuga og leitað álits margra.

Klukkan 16.00 var ég í Þjóðmenningarhúsinu og opnaði þar vefsíðu með rafrænni útgáfu Stjórnartíðinda, sem kemur nú sem birtingarháttur laga og stjórnvaldafyrirmæla í stað prentaðrar útgáfu Stjórnartíðinda, sem hefur verið við lýði í 131 ár.

Heyrði í fréttum hljóðvarps, að Falun Gong fólk er að mótmæla forseta Kína í London – var talað um fólkið sem „heimspekihóp“ – skrýtið nafn á mótmælendum sem stunda lífsorkuæfingar og blanda þær með óvild í garð kínverskra stjórnvalda.

Þetta er álíka skrýtin nafngift og sú kenning, sem heyra má í fréttaskýringarþáttum hér, að í raun sé ekkert sjálfsagðra í Frakklandi en mótmæla, sú aðferð við að koma sjónarmiðum sínum á framfæri blundi einfaldlega í þjóðareðli Frakka og þess vegna séu þessi mótmæli núna næsta eðlileg. Stenst þetta, þegar til þess er litið, að mótmælendurnir eru almennt taldir standa utan við franska þjóðlífsstrauma? Vandinn sé sá, að þeir hafi aldrei lagast að frönskum háttum – nema kannski því að mótmæla – eða hvað?

Mánudagur, 07. 11. 05. - 7.11.2005 21:51

Tók þátt í umræðum utan dagskrár á alþingi um nýskipan lögreglumála og má finna ræðu mína í umræðunum hér.

Engu er líkara en Stefán Jón Hafstein, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, telji niðurstöðu prófkjörs okkar sjálfstæðismanna og hina miklu þátttöku í því stefnt gegn sér á einhvern hátt, því að hann hefur birt auglýsingu um sjálfan sig, blaðagrein og auglýsingu í útvarpi með áskorun um að lesa greinina, eftir að úrslit prófkjörsins lágu fyrir. Ég man ekki eftir framgöngu af þessum toga áður.

Hver étur það eftir öðrum í vangaveltum um mikið fylgi okkar sjálfstæðismanna í Reykjavík, að ekki sé að marka það, þar sem aðrir flokkar hafi ekki skipað á lista sína eða efnt til prófkjörs. Þetta er dæmigert vanhugsað fjölmiðlahjal, því að vinstri/grænir hafa þegar efnt til prófkjörs með þátttöku um 300 manns og fékk Árni Þór Sigurðsson, sem verið hefur oddviti v/g á þessu kjörtímabili um 140 atkvæði, ef ég man rétt, í annað sæti á listanum.

Hanna Birna Kristjánsdóttir var í morgunútvarpi RÚV að ræða um úrslit prófkjörsins og svaraði þar meðal annars einhverju, sem Birgir Guðmundsson, sem er fræðimaður Háskólans á Akureyri fyrir RÚV, þegar leita þarf álits á stjórnmálum. Sagðist Hanna Birna ekki skilja í þessu sífellda tali um einhverja arma innan Sjálfstæðisflokksins, því að flokksmenn væru aðeins í Sjálfstæðisflokknum en ekki neinum armi hans.

Þegar vinstrisinnar, sem ekkert þekkja til innviða Sjálfstæðisflokksins, eru fengnir til að segja álit sitt á innri málefnum flokksins, tala þeir líklega af þekkingu og reynslu sinni af öðrum flokkum en Sjálfstæðisflokknum. Ég veit ekki, hvernig Birgir Guðmundsson aflar sér vitneskju um málefni Sjálfstæðisflokksins. Hann hefur að minnsta kosti aldrei talað við mig en telur sér þó fært að lýsa einhverjum skoðunum, sem ég á að hafa á mönnum og málefnum. Hvaða háskólafræði ætli þetta séu?

Sunnudagur, 06. 11. 05. - 6.11.2005 23:02

Fór síðdegis í Hallgrímskirkju og hlustaði á Mótettukórinn, einsöngvara og hljómsveit flytja sálumessur eftir Mozart og Fauré undir stjórn Harðar Áskelssonar. Var kirkjan þéttsetin og listamönnunum vel fagnað.

Laugardagur, 05. 11. 05. - 5.11.2005 20:01

Þegar þetta er skrifað er ég fyrir austan fjall og fylgist með talningu atkvæða í prófkjöri okkar sjálfstæðismanna í Reykjavík. Prófkjörið hefur verið öllum frambjóðendum til mikils sóma og þátttakan er gríðarlega góð, en um 3000 manns hafa gengið í flokkinn í tilefni af prófkjörinu og félagar í Reykjavík eru nú um og yfir 20.000.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson er vel að sigrinum kominn, en hann virðist ljós miðað við tölur, þegar á þriðja þúsund atkvæði hafa verið talin. Eins og ég hef áður sagt, þótti mér ekki annað koma til álita, þegar ég sagði af mér oddvitasætinu í borgarstjórnarflokknum, en að Vilhjálmur Þ. tæki við af mér. Honum hefur tekist vel að virkja borgarstjórnarflokkinn til samstarfs um stefnu, sem hefur að nokkru verið kynnt nú þegar og verður lögð til grundvallar í borgarstjórnarkosningunum.

 

Um leið og ég óska Vilhjálmi Þ. til hamingju fagna ég því, hve góðan og afgerandi stuðning Hanna Birna Kristjánsdóttir fær í annað sætið. Raunar benda tölurnar núna til þess, að allar konurnar í prófkjörinu geti vel við unað og árangur Sifjar Sigfúsdóttur vekur sérstaka athygli.

 

Mér þótti gott og gaman að sjá, hve vel Gísli Marteinn Baldursson tók úrslitunum í sjónvarpsfréttunum. Enginn vafi er á því, að Gísli Marteinn hefur styrkt sig á stjórnmálavettvangi í þessari kosningarbaráttu, þótt hann hafi ekki náð markinu, sem hann setti sér.

 

Ég ætla ekki að segja meira um prófkjörið fyrr en úrslitin eru kunn í heild.

Föstudagur, 04. 11. 05. - 4.11.2005 22:05

Var í morgun í Ósló og hélt þaðan í lögregluumdæmið Follo og kynntist reynslu stjórnenda þess af stækkun norsku lögregluumdæmanna, sem þeir sögðu vera mjög góða, þegar litið væri til starfa lögreglumanna.

Flaug heim klukkan 14.05 með Icelandair frá Gardermoen og lenti í Keflavík 15.45.

Fór í Valhöll og kaus í prófkjöri okkar sjálfstæðismanna vegna borgarstjórnarkosninganna.

Fimmtudagur, 03. 11. 05. - 3.11.2005 22:36

Hitti í morgun Knut Storberget, nýjan dómsmálaráðherra Noregs, og var síðan á fundum hér í Ósló um dóms- og lögreglumál.

Í dag var einnig tilkynnt um þau áform að stofna innheimtumiðstöð sekta og sakarkostnaðar og hafa hana hjá sýslumannsembættinu á Blönduósi. Ég hef fengið góð viðbrögð við þeirri ákvörðun.

Miðvikudagur, 02. 11. 05. - 2.11.2005 22:08

Fór klukkan 07.35 með Icelandair til Ósló til funda um samstarf í lögreglumálum og um breytingar á norskum lögum til að laga störf lögreglunnar að nýjum kröfum.

Spurningarnar snúast ekki síst um það, sem ég ræddi á fundi með Félagi íslenskra rannsóknarlögreglumanna sl. laugardag, það er hvernig unnt er að koma í veg fyrir, að alvarleg og þjóðhættuleg afbrot séu framin og hvaða heimildir lögregla þarf að hafa til þess.

Þriðjudagur, 01. 11. 05. - 1.11.2005 21:39

Sat borgarstjórnarfund og hlustaði þar á furðulegan málflutning Ólafs F. Magnússonar, borgarfulltrúa frjálslyndra, vegna tillögu hans varðandi hugsanlega sölu á hlut borgarinnar í Landsvirkjun til ríkisins. Í fyrsta lagi endurtók hann það, sem hann hefur margsagt, að hann hafi verið hrakinn úr Sjálfstæðisflokknum vegna skoðana sinna á umhverfismálum, en hann varð undir í atkvæðagreiðslu á landsfundi flokksins og sætti þar þungri gagnrýni. Í öðru lagi ítrekaði hann ósannindi sín um, að við sjálfstæðismenn í borgarstjórn hefðum ákveðið að selja Orkuveitu Reykjavíkur. Í þriðja bætti hann nýjum þætti inn í þessa rullu sína. Hann er sá, að undir ritstjórn minni hafi verið séð til þess í Sögu Stjórnarráðs Íslands, að Jakob F. Ásgeirsson rithöfundur léti að engu getið undirskriftasöfnun Umhverfisvina undir forystu og á kostnað Ólafs F., en hún hafi orðið til þess „að breyta almenningsálitinu bæði í Noregi og á Íslandi og bjarga þannig náttúruperlunni á Eyjabökkum.“

Ég kann að gera þessum ótrúlega málflutningi betri skil síðar, því að hann endurspeglar eitt sérkennilegasta viðhorf til stjórnmála, sem ég hef kynnst, enda sagði ég í borgarstjórn, að mér þætti furðulegt að sitja þar undir ásökunum fyrir að hafa þurrkað Ólaf F. Magnússon út úr Íslandssögunni og í raun virtist þessi tillaga hans aðeins flutt í því skyni, að hann gæti talað um sjálfan sig, ofsóknir sjálfstæðismanna í sinn garð og  eigin fórnir í þágu umhverfismála.

Ekki er langt síðan Ólafur F. Magnússon lenti í útistöðum við stjórnendur Kastljóss og fór um þá illum orðum fyrir að útiloka sig. Nú ræðst hann að mér fyrir að hafa útilokað sig frá Sögu Stjórnarráðsins! Hins vegar hafi ég séð til þess, að þar sé sagt ítarlega frá undirskrifasöfnun Varins lands.