19.11.2005 21:38

Laugardagur, 19. 11. 05.

Var austur í Fljótshlíð og stofnaði þar félagið Fljótshlíðingar ehf. með nágrannabændum og öðrum til að sinna framfaramálum í sveitinni og rekstri fasteignar í eigu þess.

Guðmundur Magnússon, fulltrúi ritstjóra, dregur taum Jóns Ólafssonar í Skífunni í Fréttablaðinu í dag með því að skrifa hæðnislega um leiðréttingar á rangfærslum Jóns um menn og málefni. Eitt af því furðulega, sem nefnt hefur verið til sögunnar vegna útkomu bókar Einars Kárasonar um Jón, er ræða Davíðs Oddssonar til heiðurs Þórarni Eldjárn fimmtugum, en Jón Ólafsson, sem ekki var í afmælinu, hefur látið orð falla á þann veg, að hún hafi snúist að mestu um sig. Þórarinn hefur leiðrétt þessa rangfærslu um ræðu Davíðs, þar hafi að vísu verið minnst á Jón Ólafsson en sá hafi verið Indíafari en ekki kaupsýslumaður.  Þótt Jón Ólafsson í Skífunni hafi um tíma verið aðalræðismaður Indónesíu á Íslandi, hefur engum dottið í hug að nefna hann Indíufara. Guðmundur nefnir Davíð konung í athugasemd sinni og þá Þórarinn Eldjárn, Hannes Hólmstein og Baldur Hermannsson, sem ritaði um framgöngu Jóns í Kastljósi í Morgunblaðið, hirðmenn.