Dagbók: janúar 2000

Mánudagur 31.1.2000 - 31.1.2000 0:00

Klukkan 13.00 heimsóttum við ráðuneytisfólk Iðnskólann í Hafnarfirði, áttum fyrst fund með nemendum og síðan kennurum.

Sunnudagur 30.1.2000 - 30.1.2000 0:00

Klukkan 14.00 flutti ég ávarp þegar Ýmir, tónlistarhús Karlakórs Reykjavíkur, var opnað.

Laugardagur 29.1.2000 - 29.1.2000 0:00

Klukkan 8.15 vorum við í Þjóðarbókhlöðunni til að fylgjast með því, þegar skjalaböggull Erlendar í Unuhúsi var opnaður, auk þess sem ég opnaði Tónlistarvef Tónskáldafélags Íslands. Klukkan 10.00 var ég á Sandskeiði, þegar kveikt var á Íslandsvitanum. Klukkan 14.00 opnaði ég sýningu á ljósmyndum Sigríðar Zoëga í Hafnarborg. Klukkan 15.00 flutti ég ávarp þegar sýning Claudio Pamiggiani var opnuð í Listasafni Íslands. Klukkan 20.00 flutti ávarp ég við upphaf tónleika Kammersveitar Reykjavíkur í Borgarleikhúsinu.

Fimmtudagur 27.1.2000 - 27.1.2000 0:00

Klukkan 13.00 voru fundir í Menntaskólanum í Kópavogi með nemendum og kennurum. Klukkan 17.00 tók ég þátt í athöfn í Margmiðlunarskólanum, þegar honum var hleypt af stokkunum í glæsilegu húsnæði með miklu af góðum tækjum. Þetta er einkaskóli, þar sem kraftar rafiðnaðar og prentiðnaðar eru sameinaðir. Klukkan 18.00 tókum við Rut þátt í því þegar Gallery Landsbréfa var opnað á netinu með sýningu á verkum Tolla. Var gestum boðið að þiggja veitingar á Rex.

Miðvikudagur 26.1.2000 - 26.1.2000 0:00

Klukkan 08.00 voru fundir í Borgarholtsskóla með kennurum og nemendum. Klukkan 14.00 fór ég í Tækniskóla Íslands og efndi þar til fundar með kennurum og öðrum starfsmönnum ásamt með Geir Gunnlaugssyni, formanni undirbúningsfélags um einkarekstur á skólanum. Kynntum við stöðu málsins og svöruðum spurningum.

Föstudagur 25.1.2000 - 25.1.2000 0:00

Klukkan 9.00 fórum við í Háskólann í Manitoba og skoðuðum íslenska bókasafnið en klukkan 10.30 var efnt þar til hátíðlegrar athafnar, þar sem við Hörður afhentum gjafir til styrktar íslenskunámi við skólann. Siðan fórum við í skoðunarferð um skólann og heimsóttum einstakar deildir. Hittum hóp Íslendinga síðdegis á heimili Svavars og Guðrúnar ræðismannshjóna.

Þriðjudagur 25.1.2000 - 25.1.2000 0:00

Klukkan 14.00 voru fundir í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ með nemendum og kennurum.

Mánudagur 24.1.2000 - 24.1.2000 0:00

Klukkan 13.00 voru fundir í Vélskóla Íslands með nemendum og kennurum.

Sunnudagur 23.1.2000 - 23.1.2000 0:00

Klukkan 13.00 var ég þátttakandi í umræðum um utanríkismál í þættinum Silfri Egils á Skjáeinum. Þau Þórunn Sveinbjarnadóttir frá Samfylkingunni og Ögmundur Jónasson frá vinstri/grænum tóku einnig þátt i umræðunum, sem lauk ekki fyrr en klukkan 14.00.

Laugardagur 22.1.2000 - 22.1.2000 0:00

Klukkan 13.15 hófst kjördæmisþing reykvískra sjálfstæðismanna. Klukkan 20.30 fórum við á Smíðaverkstæði Þjóðleikhússins og sáum leikritið Vér morðingjar eftir Guðmund Kamban.

Föstudagur 22.1.2000 - 22.1.2000 0:00

Klukkan 09.40 opnaði ég bókasafn Viðskiptaháskólans í Reykjavík. Klukkan 20.00 fórum við Bjarni Benedikt á frumsýningu á Horft frá brúnni í Borgarleikhúsinu.

Föstudagur 21.1.2000 - 21.1.2000 0:00

Klukkan 19.00 fórum við í Borgarleikhúsið og sáum leikgerð af Djöflunum.

Fimmtudagur 20.1.2000 - 20.1.2000 0:00

Klukkan 9.30 átti ég samtal við Hjálmar Jónsson blaðamann á Morgunblaðinu, sem birtist laugardaginn 22. janúar og snerist um verkefnaáætlun menntamálaráðuneytisins fyrir 1999 til 2003. Klukkan 10.30 var ég kominn í Skútuvog 1, þar sem skrifað var undir samning milli ráðuneytisins og Hugvits um fjarkennslubúnað á íslensku. Klukkan 13.00 var fundur með nemendum Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi og klukkustund síðar með kennurum skólans. Klukkan 17.00 vorum við Rut á Bessastöðum, þar sem Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands voru afhent. Klukkan 20.00 fórum við á tónleika Sinfónúhljómsveitar Íslands.

Miðvikudagur 19.1.2000 - 19.1.2000 0:00

Klukkan 14.00 var fundur með nemendum Flensborgarskóla í Hafnarfirði og síðan rúmlega 15.00 með kennurum skólans en um klukkustundu síðar með nemendum og kennurum Fiskvinnsluskólans í Hafnarfirði. Klukkan 17.15 var ég á Hallveigarstöðum, þar sem tilkynnt var um úthlutun styrkja úr Kvikmyndasjóði, og ég tók að mér að opna vef Kvikmyndasjóðs með upplýsingum um íslenskar kvikmyndir.

Þriðjudagur 18.1.2000 - 18.1.2000 0:00

Klukkan 14.00 var fundur með nemendum í Kvennaskólanum í Reykjavík og síðan klukkan rúmlega 15.00 með kennurum skólans. Klukkan 17.00 var fundur hjá SVS um öryggis- og varnarmál, þar sem ég einn fjögurra ræðumanna.

Mánudagur 17.1.2000 - 17.1.2000 0:00

Klukkan 7.50 var ég kominn í Stöð 2 og tók síðan þátt í því í beinni útsendingu að opna stjórnmálavef á Visir.is með Eiríki Hjálmarssyni ritstjóra Visir.is Klukkan 14.30 ávarpaði ég hátíðlega útskriftaratöfn í álverinu í Straumsvík, þegar fyrsti hópurinn lauk námi í Stóriðjuskólanum. Hann starfar á metnaðarfullan hátt í samvinnu Ísal og skólakerfisins, fyrst við Iðnskólann í Reykjavík en nú við Borgarholtsskóla.

Sunnudagur 16.1.2000 - 16.1.2000 0:00

Fórum um kvöldið í Bústaðakirkju og hlýddum á Eþos-kvartettinn leika á tónleikum Kammermúsikklúbbsins.

Laugardagur 14.1.2000 - 14.1.2000 0:00

Klukkan 14.00 sat ég málþing Stofnunar Sigurðar Nordals um Íslenzka menningu. Klukkan 16.00 fór ég Galleri Reykjavíkur við Skólavörðustíg, þar sem þeir Páll Guðmundsson myndlistarmaður og Thor Vilhjálmsson skáld voru að opna sýningu í nýjum sal.

Fimmtudagur 13.1.2000 - 13.1.2000 0:00

Klukkan 16.00 efndi ég til kynningarfundar í ráðuneytinu á verkefnaáætlun þess fyrir árin 1999 til 2003.

Þriðjudagur 12.1.2000 - 12.1.2000 0:00

Klukkan 8.30 fór ég á fund með forráðamönnum Blindrafélagsins, sem kynntu mér nýjan hljóðgervil fyrir tölvu. Var undravert að sjá og heyra, hvað hann getur gert.

Þriðjudagur 11.1.2000 - 11.1.2000 0:00

Klukkan 13.30 komu aðstandendur Snorrastofu í Reykholti til fundar í menntamálaráðuneytinu og rituðum við undir samning við þá um stuðning ríkisvaldsins við stofuna næstu þrjú ár. Verður í sumar lokið við gerð mannvirkja í Reykholti. Klukkan 16.00 efndum við Rut til móttöku til heiðurs Erni Arnarsyni afreksmanni í sundi og þeim, sem standa honum næstir, á glæsilegri sigurgöngu hans.

Laugardagur 8.1.2000 - 8.1.2000 0:00

Klukkan 11.00 hófst vígsluathöfn nýja iðnskólahússins í Hafnarfirði. Klukkan 15.00 var ég heiðursgestur á nýárssundi fatlaðra á vegum Íþróttasambands fatlaðra í Sundhöllinni í Reykjavík. Var ánægjulegt að fylgjast með dugnaði og áhuga hins unga sundfólks, en eins og alþekkt er hafa fatlaðir, íslenskir íþróttamenn náð frábærum árangri á alþjóðlegum móti, ekki síst í sundi. Er full ástæða fyrir þá, sem fjalla um íþróttir í fjölmiðlum, að gefa þessu íþróttastarfi gaum og skýra frá því.

Fimmtudagur 6.1.2000 - 6.1.2000 0:00

Klukkan 13.30 var ég í nýjum og glæsilegum húsakynnum Bifreiða- og landbúnaðarvéla að Grjóthálsi 1 og tók á móti 6 Hyundai-bifreiðum, sem Gísli Guðmundsson forstjóri afhenti Fræðslumiðstöð bíliðngreina (FMB), en hún er í Borgarholtsskólanum og hluti hans. Er einstakt, að eitt fyrirtæki styðji skólastarf með þessum hætti, en mörg bílgreinafyrirtæki hafa lagt sig fram um að búa FMB sem best tækjum. Klukkan 16.00 var ég í Flensborgarskóla, þar sem nýtt tölvu- og upplýsingatæknikerfi var tekið í notkun en það er að meginstofni gjöf frá eldri nemendum. Færir þessi mikli tækjakostur og tenging hans við netið Flensborg í fremstu röð framhaldsskóla á þessu sviði.

Miðvikudagur 5.1.2000 - 5.1.2000 0:00

Klukkan 16.00 var athöfn í Hafnarfjarðarleikhúsinu, þar sem við Magnús Gunnarsson bæjarstjóri, Hilmar Jónsson leikhússtjóri og Magnús Ragnarsson. formaður Leiklistarráðs, rituðum undir samning um þriggja ára stuðning við leikhúsið, sem hefur á skömmum tíma áunnið sér sess sem gott atvinnuleikhús

Mánudagur 3.1.2000 - 3.1.2000 0:00

Klukkan 16.00 fórum við Rut í Kennaraháskóla Íslands, þar sem Þórir Ólafsson lét formlega af embætti rektors og Ólafur Proppé tók við því.

Sunnudagur 2.1.2000 - 2.1.2000 0:00

Fórum klukkan 15.00 í Háskólabíó og sáum myndina Englar alheimsins eftir þá Friðrik Þór Friðriksson og Einar Má Guðmundsson.

Laugardagur 1.1.2000 - 1.1.2000 0:00

Klukkan 15.00 var ég á Bessastöðum í nýársmóttöku forseta Íslands. Klukkan 17.00 fórum við Rut á bænastund fyrir friði í Hallgrímskirkju, þar sem Raddir Evrópu sungu og ungt fólk frá þeim níu þjóðum, sem eiga fulltrúa í kórnum, las úr ritningunni á móðurmáli sínu en Bjarni Benedikt sonur okkar fór með upphafsbæn fyrir hönd íslensku kórfélaganna.