Þriðjudagur 11.1.2000
Klukkan 13.30 komu aðstandendur Snorrastofu í Reykholti til fundar í menntamálaráðuneytinu og rituðum við undir samning við þá um stuðning ríkisvaldsins við stofuna næstu þrjú ár. Verður í sumar lokið við gerð mannvirkja í Reykholti. Klukkan 16.00 efndum við Rut til móttöku til heiðurs Erni Arnarsyni afreksmanni í sundi og þeim, sem standa honum næstir, á glæsilegri sigurgöngu hans.