Dagbók: desember 2010

Föstudagur 31. 12. 10. - 31.12.2010

Í dag að morgni gamlaársdags klukkan 07.30 var ég gestur hjá Frey Eyjólfssyni á rás 2 á RÚV og ræddum við stjórnmálaástandið nú um áramótin eins og heyra má hér.

Freyr nefndi að hann hefði nýlega haft Guðmund Ólafsson sem gest sinn og hefði hann farið mikinn um njósnir sjálfstæðismanna fyrr á árum eins og þeim væri lýst af Guðna Th. Jóhannessyni í ævisögu Gunnars Thoroddsens. Ég hef ekki lesið nógu langt í sögunni til að sjá hvað Gunnar hefur um þetta að segja. Ég sagði hins vegar við Frey að af og frá væri að tala um njósnir í þessu sambandi. Hér hefði verið um markvissa kosningavinnu að ræða sem alls ekki hefði farið leynt heldur þvert á móti sætt öfund annarra flokka.

Ég sagðist muna vel eftir þessu kerfi. Kjörskráin hefði verið flokksmerkt eins og það var kallað, það er sett hefði verið S framan við örugga sjálfstæðismenn S? fyrir framan þá sem taldir voru volgir, sumir í skránni hefðu verið ómerktir en aðrir merktir öðrum flokkum. Þessar merkingar hefðu ekki byggst á neinum njósnum heldur mati þeirra sem sátu í fulltrúaráði flokksins.  Fulltrúar í kjördeilum skráðu hverjir komu á kjörstað. Þær upplýsingar bárust á kosningaskrifstofu og þar var merkt við í skránum og síðan lagt mat á hvernig kjörsókn stuðningsmanna flokksins væri háttað. Hringt hefði verið í þá sem ekki létu sjá sig. Sérstaklega var metið hvort aðeins ætti að hringja í S merkta, S? merkta og ómerkta.

Að kenna slíka kosningavinnu við njósnir sagði ég fráleitt. Ekki síst nú á tímum fésbókarinnar og hefði ég einnig getað nefnt Google-leitarkerfið í sömu andrá. Hingað kæmu nú erlendir menn sem teldu að unnt væri að ná til allrar þjóðarinnar í kosningabaráttu með símhringingum á örskömmum tíma. Þeir sem legðu út af frásögn Gunnars á þennan neikvæða hátt væru örugglega að rangtúlka afstöðu hans því að hlyti að hafa verið stoltur af fulltrúaráði sjálfstæðismanna og framlagi þess til kosningabaráttu fyrr og síðar meðan hún var háð undir þessum formerkjum.

Fimmtudagur 30. 12. 10. - 30.12.2010

Í dag birtist frétt í Morgunblaðinu um að líklega hækkuðu skattar á Icelandair um einn milljarð á árinu 2011 vegna ákvarðana ríkisstjórnarinnar og flokka hennar á þingi. Þá var einnig sagt frá því í morgun að verkmenntun hyrfi úr landinu vegna samdráttar á öllum sviðum. Eins og ég sagði hér frá í gær er fjárfesting nú í sögulegu lágmarki.

Viðskiptablaðið tilnefndi Rannveigu Rist, forstjóra álversins í Straumsvík, viðskiptamann ársins. Hún er fulltrúi atvinnugreinar sem er hættuleg Íslendingum að mati ríkisstjórnar Jóhönnu en hún leggur stein í götu allra framkvæmda við stóriðju.

Hið ótrúlega er, að ríkisstjórnin þorir ekki að stíga út úr gjaldeyrishaftakerfinu. Árni Páll, efnahags- og viðskiptaráðherra, segir það ekki verða gert nema með upptöku evru og þar með aðild að ESB. Með þeim afarkostum lýsir hann algjörri uppgjöf við frjálshuga efnahagsstjórn. Miklu fleiri vara við hættunni af því að halda áfram haftastefnunni en mæla með upptöku evru. Ríkisstjórnin hlustar ekki á þau sjónarmið frekar en önnur.

Í uppgjöri viðskiptablaðamanna vegna ársins 2010 er samdóma álit að mesta klúður ársins hafi verið tilraun ríkisins og seðlabankans til að selja Sjóvá. Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, rak smiðshöggið á þá hörmungasögu með geðþóttatúlkun á gjaldeyrishaftareglunum.

Hið sama gerist nú og áður á tímum gjaldeyrishafta að allra leiða er leitað til að komast í kringum þau. Bók Jakobs F. Ásgeirssonar Þjóð í hafti er leiðbeiningarit um það sem er í vændum. Einkennilegt er að þeir hrópa nú mest um spillingu á fyrri tíma haftaárum sem helst styðja þá ríkisstjórn sem telur skjól haftanna sér til bjargar.

Miðvikudagur 29. 12. 10. - 29.12.2010

Í dag ræddi ég við Bjarna Benediktsson í þætti mínum á ÍNN. Undir lok samtalsins spurði ég Bjarna að því hvort hann teldi meiri líkur en minni á því að kosið yrði til þings á næsta ári. Hann sagðist telja líkurnar jafnar. Sjálfur teldi hann nauðsynlegt að sem fyrst yrði tekist á í kosningum um ólíkar leiðir fyrir þjóðina út úr núverandi stöðu. Stefna ríkisstjórnarinnar væri gjaldþrota.  Hlutfall fjárfestinga miðað við þjóðarframleiðslu væri um þessar mundir til dæmis hið lægsta frá því í síðari heimsstyrjöldinni.

Við ræddum gjaldmiðilsmál. Bjarni lýsti undrun yfir ákefð sumra íslenskra verkalýðsleiðtoga í að taka upp evru. Hann hefði kynnt sér afstöðu verkalýðshreyfingar á Norðurlöndum og annars staðar, þar sem ekki væri evra til upptöku hennar. Þar mæltu forystumenn ekki með evrunni vegna ástandsins á evru-svæðinu, ekki síst hins mikla atvinnuleysis. Umræðan um gjaldmiðilinn væri of svart/hvít hér og leita þyrfti samstöðu hinna færustu manna, sér þætti upptaka evru of dýru verði keypt með ESB-aðild.

Ég ætla ekki að rekja samtal okkar frekar. Sjón er sögu ríkari. Þátturinn er sýndur ða tveggja tíma fresti, næst klukkan 12.00 á miðnætti, síðast klukkan 18.00 á morgun. Þá set ég tengil á hann hér á síðunni þegar hann verður kominn á inntv.is, vefsíðu ÍNN.

Þriðjudagur 28. 12. 10. - 28.12.2010

Þeir sem reikna með því að ríkisstjórnin sé að springa hafa ekki tekið skapgerð Jóhönnu Sigurðardóttur með í reikninginn. Þegar hún tapaði í formannskosningum gegn Jóni Baldvini Hannibalssyni hrópaði hún, að sinn tími mundi koma. Síðan stofnaði hún nýjan flokk til að skapa sér valdastöðu vinstra megin við miðjuna. Þegar þörf var á á leiðtoga til að leiða „tæra“ vinstri stjórn settist Jóhanna í stól forsætisráðherra, af því að talið var að hún yrði þar til friðs. Jóhanna skynjar ekki pólitískt umhverfi sitt á þann veg að hennar verkefni sé að leita sameiginlegra lausna með öðrum. Hún vill hafa sitt fram á einn hátt eða annan. Ríkisstjórnin situr undir forsæti hennar þar til þingflokkur Samfylkingarinnar tekur af skarið um að hún verði að víkja. Þá klofnar þingflokkur Samfylkingarinnar með hærri hvelli en klofningur vinstri-grænna.

Fyrsta atlaga spunaliða stjórnarflokkanna til að beina athygli frá vandræðum á stjórnarheimilinu er að hefja umræður um að Framsóknarflokkurinn taki að sér að styrkja ríkisstjórnina. Það mundi falla Samfylkingunni vel að fá nokkra ESB-sinnaða þingmenn Framsóknarflokksins til stuðnings við stjórnina og kljúfa á þann hátt þingflokk framsóknarmanna.


Mánudagur 27. 12. 10. - 27.12.2010

Sé krónan ónýt eins og Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, segir í grein í Fréttablaðinu í dag, þarf að rökstyðja það á betri hátt en hann gerir í grein sinni. Ég ræði grein ráðherrans í pistli sem ég ritaði á Evrópuvaktina og má lesa hérna.

Í fleiri löndum en hér velta menn fyrir sér nýjum gjaldmiðli. Á Spiegel Onlone má í dag lesa langa úttekt á vaxandi gagnrýni á evruna í Þýskalandi eins og sjá má hér.

Í frásögninni frá Þýskalandi er meðal annars sagt frá Frank Schäffler, sambandsþingmanni stjórnarflokksins Frjálsra demókrata, sem velti fyrir sér að stofna teboðshreyfingu gegn evrunni í Þýskalandi. Hann flutti nýlega erindi í Hayek-félaginu í München, þar sem hann lagði á jákvæðan hátt út af kenningu Friedrichs von Hayeks um að ríki ættu að leyfa ólíkum gjaldmiðlum að dafna inna hagkerfis síns, sá mundi sigra, sem félli fólki best í geð í samkeppni miðlanna.

Það er dæmigert fyrir skort á skilningi á því sem er að gerast innan ESB og á evru-svæðinu sérstaklega, að þá skuli Árni Páll Árnason sitja við að rita grein um gjaldmiðilsmál Íslendinga og leggja höfuðáherslu á evruna, án þess að víkja einu orði að áhyggjum um framtíð hennar.


Sunnudagur 26. 12. 10. - 26.12.2010

Sunnan undir Skálholtsdómkirkju er legsteinn sem á er letrað nafnið Bodil Begtrup (1903-1987). Bodil var sendiherra Dana á Íslandi 1949 til 1956. Hún varð fyrst kvenna sendiherra í dönsku utanríkisþjónustunni. Eftir dvölina hér á landi gegndi hún störfum á vegum dönsku utanríkisþjónustunnar og var meðal annars sendiherra í Sviss og Portúgal.

Á rás 1 var í dag fluttur þáttur um jólakveðjur í útvarpi og meðal annars frá Íslendingum erlendis. Mátti þar heyra raddir margra þjóðkunnra manna sem lásu kveðjur inn á bönd sem síðan voru flutt í útvarpið til landsmanna.

Daði Hjörvar tók upp kveðjur fólks í París í kringum 1960 en hjá honum voru sendiherrahjónin Marta Thors og Pétur Benediktsson, Thor Thors sendiherra Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum og í Bandaríkjunum, Kristján Albertsson og Bodil Begtrup, en Daði sagði hana nota jólaleyfi sitt til að sinna störfum fyrir danska ráðuneytið með því að sækja fundi hjá stofnunum Sameinuðu þjóðanna í París. Bodil flutti kveðju á íslensku í þættinum hjá Daða.

Ég man eftir Bodil úr æsku minni. Bauð hún meðal annars börnum í jólaboð í hinum glæsilega bústað sínum við Hverfisgötu. Hins vegar mundi ég ekki að hún hefði jafngott vald á íslensku og ég heyrði í þessum skemmtilega útvarpsþætti, sem sýndi enn og sannaði hve margar gamlar minningar er að finna í safni RÚV.

Hér mál lesa um Bodil.


Laugardagur 25. 12. 10. - 25.12.2010

Það var vel til fundið hjá sjónvarpinu að sýna heimildarmynd um Ragnar Bjarnason í tilefni af 75 ára afmælis hans að kvöldi jóladadags. Myndin brá lifandi ljósi á ævi og starf hins vinsæla söngvara og skemmtikrafts. Aldrei var dauður punktur í hinni 95 mínútna löngu mynd.

Gleðileg jól! Föstudagur 24. 12. 10. - 24.12.2010

Í pistli sem ég skrifaði í dag í tilefni jólanna og helgaði Maríu mey segi ég frá nýrri bók Leyndardómi Maríu eftir Gunnar Dal sem bókaélagið Ugla gaf út fyrir skömmu. Þar er sagt frá Maríusýnum og stöðum tengdum þeim. Í The New York Times í dag er sagt frá því að lítil kapella í sveitabyggð í Champion í Wisconsin-ríki í Bandaríkjunum, sem ber enska heitið Our Lady of Good Help, hafi 8. desember sl. hlotið viðurkenningu rómsversk-kaþólsku kirkjunnar sem helgistaður vegna Maríusýnar. Hefur enginn staður í Bandaríkjum áður hlotið slíka viðurkenningu.

Adele Brise, innflytjandi frá Belgíu, sagðist árið 1859 hafa séð heilaga Maríu birtast þrisvar sinnum í björtu ljósi á milli tveggja trjáa, hún var í ljómandi hvítum kjól með gulu mittisbandi og með stjörnukórónu á gylltum flökktandi lokkum. Brise helgaði líf sitt upp frá því barnafræðslu í kaþólskri trú eins og fyrir hana var lagt.

Guðfræðingar birtu viðurkenningu á helgi staðarins hinn 8. desember 2010. Þeir höfðu kynnt sér frásagnir um trúarlega vitrun, lækningar og guðlega forsjón sem tengdist sýnarstaðnum. Fundu þeir engin dæmi um svik eða villutrú. Frá því að kaþólska kirkjan veitti viðurkenningu sína hefur ferðum pílagríma til Champion fjölgað.

Árið 1871 urðu miklir skógareldar í héraðinu og 1.200 manns týndu lífi. Þeir sem söfnuðust saman á þeim stað þar sem María birtist björguðust.

Gleðileg jól!

 

Fimmtudagur 23. 12. 10. - 23.12.2010

Í morgun skrifaði ég leiðara á Evrópuvaktina um makríldeiluna og viðleitni Össurar Skarphéðinssonar og ESB-embættismanna utanríkisráðuneytisins til að gera lítið úr ágreiningi við Evrópusambandið um málið.

Mér er óskiljanlegt hvers vegna menn átta sig ekki á því hér á landi, að viðhorf meginlandsríkja Evrópu til auðlinda hafsins og yfirráða sjávar eru allt önnur en þeirra sem búa á eyjum. Bretar og Írar hafa kynnst þessu af eigin raun. Hér má lesa grein um hvernig hefur farið fyrir Bretum. Höfundur telur að þeir séu að hefna harma sinna á okkur Íslendingum í makrílmálinu.

Miðvikudagur 22. 12. 10. - 22.12.2010

Gunnar Eyjólfsson sagði frá brotum úr ævi sinni í Rótarýklúbbi Reykjavikur í hádeginu á sinn einstæða hátt. Í rúmar 30 mínútur sátu klúbbfélagar sem dáleiddir og hlustuðu á sagnameistarann.

Fréttir úr herbúðum vinstri-grænna og ríkisstjórnarinnar verða sífellt undarlegri. Ég sé í anda hvaða viðbrögð hefðu orðið í þingflokki sjálfstæðismanna ef formaður fjárlaganefndar úr samstarfsflokki okkar hefði sagt, að hann gæti ekki starfað með þeim þingmanni sem Sjálfstæðisflokkurinn hefði tilnefnt til setu í nefndinni. Samfylkingarkonan Oddný Harðardóttir hefur sagt að hún geti ekki starfað með Ásmundi Einari Daðasyni, þingmanni vinstri-grænna, í fjárlaganefnd. Lá í loftinu að Ásmundur Einar ætti að víkja úr nefndinni vegna þessarar afstöðu Oddnýjar. Engum datt í hug að spyrja hana, hvort hún gæti ekki auðveldlega verið sjálfri sér samkvæm, sagt af sér formennsku og horfið úr nefndinni.

Frosti Sigurjónsson ritar góða úttekt um nýtt sérrit Seðlabanka Íslands eins og lesa má hér.

Þriðjudagur 21. 12. 10. - 21.12.2010

Í morgun sá ég tunglmyrkvan þegar ég kom úr sundinu. Magnað fyrirbæri.

Í húskarlahorni Fréttablaðsins er fundið að því í dag, að Einar K. Guðfinnsson, þingmaður, skrifi um viðtalsbók Þórhalls Jakobssonar við Árna M. Mathiesen í tímaritið Þjóðmál. Er látið að því liggja að ekki sé að marka dóm Einars K. af því að hann hafi setið í ríkisstjórn með Árna. Þetta er fráleit skoðun. Það gefur umsögn Einars K. einmitt sérstakt gildi að hann þekkir ekki síður til þeirra mála sem um er fjallað en Árni.

Ég skrifa um bók Árna Bergmanns um Gunnar Eyjólfsson, Alvöru leiksins, í Þjóðmál. Ég þekki Gunnar vel og tel það ekki gera mig vanhæfan til að segja álit mitt á bók þeirra Árna og Gunnars - þvert á móti get ég sett hana í annað samhengi en þeir sem ekki þekkja Gunnar.

Skrifin í Fréttablaðinu bera þess merki að höfundurinn sætti sig ekki við að bók Þórhalls og Árna M. fái jákvæða umsögn. Hann ræðst þess vegna á þann sem umsögnina skrifar.

Í kvöld fórum við í þéttsetna Garðakirkju og hlýddum á Camerarctica-hópinn flytja tónlist við kertaljós.

Mánudagur 20. 12. 10. - 20.12.2010

Vek athygli á nýju hefti af tímaritinu Þjóðmálum með miklu af forvitnilegu efni. Þar er meðal annars að finna umsagnir eða ritdóma um margar af þeim bókum sem koma út fyrir jólin. Textinn er ítarlegri og efnismeiri en er að finna í dagblöðunum. 

Eitt af því sem hefur vikið til hliðar í dagblöðunum er hvers kyns gagnrýni. Þau eru hætt að gefa heildarmynd af því sem er að gerast á sviði menningar og listar. Þetta er aðeins eitt dæmi um breytingar á sviði fjölmiðla. Spurning er hvert menn eiga að leita í framtíðinni að mati samtíðarmanna á því sem er að gerast í bókmenntum, málaralist, leiklist og tónlist.

Sunnudagur 19. 12. 10. - 19.12.2010

Jólatónleikar Kammersveitar Reykjavíkur voru í dag klukkan 17.00 í Áskirkju með tónlist eftir Carl Emmanuel Bach.

Ég skrifaði pistil um hörmulega stöðu ríkisstjórnarinnar. Skoðanakönnun sýnir að í 11 málaflokkum af 13 treystir fólk Sjálfstæðisflokknum best. Í apríl 2009 nutu stjórnarflokkarnir mesta traustsins í öllum málaflokkunum 13.
Laugardagur 18. 12. 10. - 18.12.2010

Í dag birtir Fréttablaðið niðurstöður skoðanakönnunar sem MMR gerði 7. til 9. desember sem sýnir 40,4% stuðning við Sjálfstæðisflokkinn en 37,1% stuðning samtals við stjórnarflokkana, Samfylkingu og VG.

Í sömu könnun kemur fram að 46,7% treysta Sjálfstæðisflokknum best til að endurreisa atvinnulífið en aðeins 7,3% vinstri grænum en þeir eiga síðasta orðið í atvinnumálum innan ríkisstjórnarinnar eins og dæmin sanna.

Könnunin var gerð áður en fjárlög næsta árs voru samþykkt en samkvæmt þeim hækka skattar á fyrirtæki. Þar með er enn dreginn máttur úr þeim og grafið undan hagvexti sem leiðir til minni tekna af skattheimtu. Hækkun á tryggingargjaldi, það er gjaldi sem ríkið innheimtir af öllum atvinnurekendum og er hlutfall af launagreiðslu þeirra, hvetur til uppsagna á starfsfólki og ýtir þar með undir atvinnuleysi.


Föstudagur 17. 12. 10. - 17.12.2010

Helgi Seljan var eins og ákærandi fyrir hönd Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar, þegar hann ræddi við Lilju Mósesdóttur, þingmann vinstri-grænna í Kastljósi kvöldsins. Engu er líkara en fréttastofa RÚV líti á þrjá þingmenn vinstri-grænna sem tóku afstöðu til fjárlagafrumvarpsins í samræmi við sannfæringu sína sem pólitíska óbótamenn. Áður en Helgi saumaði að Lilju (án árangurs) hafði Gunnar Gunnarsson í Speglinum tekið að sér að yfirheyra Atla Gíslason. Gaf Gunnar til kynna að Atli hefði setið hjá við atkvæðagreiðslu um fjárlagafrumvarpið af því að hann hefði ekki orðið ráðherra í haust.

Nú hefur hollenska þingið samþykkt að Íslendingar fari ekki í ESB án þess að hætta hvalveiðum. Þýskir þingmenn ályktuðu á sama veg fyrr á árinu. ESB-þingmenn settu bann við hvalveiðum einnig sem skilyrði fyrir aðild Íslands að ESB. Þrátt fyrir þetta láta þeir sem stjórna pólitískri för Íslands inn í ESB, Össur Skarphéðinsson og Árni Þór Sigurðsson, eins og þetta skilyrði skipti engu máli, það megi tala sig frá þessum skilyrðum. Hvernig það verði gert er með öllu óljóst, því að auðvitað er ekki unnt að sameina stefnu Íslendinga og þingmanna í ESB-ríkjunum í þessu efni. Ísland verður ekki aðili að ESB nema þjóðþing ESB-ríkjanna samþykki það.Fimmtudagur 16. 12. 10. - 16.12.2010

Samtalsþáttur minn við Þór Whitehead á ÍNN frá 15. desember er kominn á netið og má sjá hann hér.

Ólafur Arnarson, pistlahöfundur á Pressunni, undrast að ég hafi ekki sagt neitt um niðurstöðu dómara í New York sem vísaði Glitnismálinu frá sér með þeim orðum að hann hefði nóg á sinni könnu auk þess sem ekki væri sanngjarnt að skattgreiðendur í New York bæru kostnað vegna málsins. Ég skil dómarann vel að vilja ekki taka þetta mál að sér fyrst lög knýja hann ekki til þess. Þetta var áhætta sem sækjendur málsins töldu vert að taka. Miðað við gögnin sem dómarinn krafðist og lögð voru fyrir hann virðist margt hafa áunnist í málinu, þrátt fyrir afstöðu dómarans.

Viðbrögð Jóns Ásgeirs og penna hans koma mér ekki heldur á óvart. Ólafur og Bubbi Morthens skrifa báðir fagnaðarpistla á Pressuna vegna afstöðu dómarans í New York. Jón Ásgeir tekur til við að kyrja sama sönginn og á tímum Baugsmálsins um að sér sé nóg boðið, hann hafi borgað háar fjárhæðir sér til varnar og muni fara í skaðabótamál. Allt er þetta gamalkunnugt.

Bjarni Benediktsson sannaði í Kastljósi kvöldsins að ekki þýðir lengur fyrir Steingrím J. Sigfússon að vaða yfir hann með hroka og köpuryrðum. Bjarni hefur betri sýn á stöðu Icesave og stöðu efnahags- og atvinnumála en Steingrímur J., en fjármálaráðherra fylgir efnahags- og skattastefnu sem dregur þrótt úr fjárfestum og fyrirtækjum.

Miðvikudagur 15.12.10. - 15.12.2010

Í dag hitti ég Þór Whitehead og tók við hann viðtal í þátt minn á ÍNN um nýja, stórmerka bók hans Sovét Ísland óskalandið um byltinguna sem aldrei varð hér á landi. Þór hefur kannað nýjar heimildir og tekur af skarið um að líta beri á drengsmálið svonefnda undir forystu Ólafs Friðrikssonar árið 1921 og Gúttóslagina fjóra um 1930 fram til 9. nóvember 1932 sem lið í byltingarstarfi kommúnista.

Má segja að tímabært sé eftir allt sem um þessi mál hefur verið sagt að hið sanna eðli þeirra birtist. Enginn lesandi bókar Þórs getur efast um að hún sé rituð í samræmi við ströngustu kröfur sagnfræðinnar og ekki meira fullyrt en styðja má með öruggum heimildum.

Í bókinni færir Þór skýr rök fyrir því að Jón Ólafsson, prófessor, sem hefur skrifað um tengsl kommúnista á Íslandi við Moskvuvaldið hafi ekki dregið réttar ályktanir af gögnum, sem hann þó hafði undir höndum. Guðni Th. Jóhannesson ritaði síðan bókina Óvinir ríkisins þar sem hann byggist frásögn sína á bók Jóns. Hvorugur þeirra virðist átta sig á hinu sanna eðli Kommúnistaflokks Íslands og arftaka eða ekki vilja horfast í augu við það sem heimildir segja um eðli flokksins, baráttuaðferðir hans og markmið.

Bók Þórs snýst um þrjú meginstef: kommúnista og flokk þeirra, löggæslu og almenna stjórnmálaþróun á árunum 1920 til 1946. Athyglisverður er hlutur þeirra Hermanns Jónassonar og Ólafs Thors þegar þeir standa frammi fyrir pólitískum tækifærum sem skapast vegna starfsemi kommúnista hvort heldur hún lýtur að ofbeldi eða hefðbundnu stjórnmálastarfi.

Bók Þórs er ómetanleg heimild fyrir alla sem vilja kynna sér stjórnmálasögu 20. aldarinnar og aðdraganda hinna miklu átaka um utanríkis- og öryggismál sem settu svip sinn á stjórnmálaátök á árum kalda stríðsins.

Þriðjudagur 14. 12. 10. - 14.12.2010

Sagt var frá því í fréttum sjónvarps klukkan 22.00 að fjárlagagafrumvarpið hefði verið afgreitt til þriðju umræðu á fundi fjárlaganefndar í kvöld eftir að afgreiðslunni hafði verið frestað vegna ágreinings um málið í þingflokki vinstri-grænna, það er flokki Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra. Í fréttunum var sagt að breytingar hefðu verið gerðar á frumvarpinu af meirihluta nefndarinnar.

Oddný G.  Harðardóttir, Samfylkingu, formaður fjárlaganefndar, sagði í hádegisfréttum RÚV að seinkun á afgreiðslu nefndarinnar á frumvarpinu ætti rætur að rekja til sameiningar ráðuneyta. Hún lét þá eins og engu skipti, þótt þingmenn vinstri-grænna vildu efnislegar breytingar án tillits til sameiningar ráðuneyta. Tillögur þeirra yrðu ekki teknar til umræðu í fjárlaganefnd. Sagði hún satt? RÚV hefur ekki skýrt frá því. Orð hennar bentu hins vegar til þess að Samfylkingin ætlaði ekki að stuðla að því að samkomulag tækist í þingflokki fjármálaráðherra.

Uppreisn þingmanna vinstri-grænna snýr einkum að málaflokkum sem falla undir ráðherra Samfylkingarinnar. Enginn hefur hins vegar haft fyrir því að spyrja Guðbjart Hannesson, velferðarráðherra, hvað honum finnist um að þingmenn vinstri-grænna séu að heimta hærri útgjöld á verkefnasviði hans.Mánudagur 13. 12. 10. - 13.12.2010

Stjórnarandstaðan ætlar að sjálfsögðu ekki að standa að flutningi lagafrumvarps um Icesave 3:0 með ríkisstjórninni. Spurning er hvort þau Jóhanna og Steingrímur J. fá óskoraðan stuðning eigin þingflokka til að flytja slíkt frumvarp. Frumvarp um Icesave 1:0 var afgreitt umræðulaust í Samfylkingunni á sínum tíma. Ástæða er til að efast um að hið sama gerist nú, nema ábyrgðarleysi þingmanna Samfylkingarinnar sé algjört. Ögmundur Jónasson segist ætla að styðja Icesave 3:0 og telur að Ólafur Ragnar Grímsson geri það líka. Rökin eru þau að ekki sé unnt að ná betri niðurstöðu. Þetta eru sömu rök og notuð voru um Icesave 1:0 og 2:0, hvort þau virka á alla þingmenn vinstri-grænna kemur í ljós. Hitt er síðan annað mál, hvernig nokkrum þingmanni kemur til hugar að treysta orðum Jóhönnu eða Steingríms J. um Icesave úr því sem komið er - að þau víki ætti að verða eitt af skilyrðunum við afgreiðslu málsins.

Ég hef lýst þessari skoðun áður. Ekkert traust er unnt að bera til Jóhönnu og Steingríms J. í Icesave-málinu. Að þetta sé sagt hleypur fyrir brjóstið á mörgum, þeirra á meðal Gísla Baldvinssyni samfylkingar-bloggara á Akureyri. Hann segir af þessu tilefni á síðu sinni 13. desember:

„Honum [Birni Bjarnasyni] var sætt í sinni ráðherratíð og aldrei kom til álita að hann stæði upp úr stólnum. Jafnvel Falum gong málið hreyfði ekki við honum.
Þess vegna fékk hann viðurnefnið Sitting Bear.“

Þetta sýnishorn af málsvörn fyrir Jóhönnu og Steingrím J. í Icesave-málinu er hrópandi dæmi um málefnaskortinn. Líklega á þetta að vera fyndið. Hið grátbroslega er að ég sat ekki í ríkisstjórn í sumarbyrjun árið 2002 þegar kínverski forsetinn kom hingað til lands og gripið var til þess ráðs að takmarka ferðir falun gong iðkenda til landsins í öryggisskyni, enda minnist ég þess ekki að hafa fengið neitt viðurnefni sem ráðherra í tilefni af falun gong. Er bulli stjórnarliða engin takmörk sett?

Sunnudagur 12. 12. 10. - 12.12.2010

Forsætisráðherra Svía hvatti þjóðina til þess í dag að halda ró sinni, þrátt fyrir hryðjuverkið í miðborg Stokkhólms í gær, þegar tvær sprengjur sprungu. Ódæðismaðurinn tíndi lífi í árásinni. Säpo, sænska öryggis- og leyniþjónustan, stjórnar rannsókn málsins. Hún miðlar upplýsingum til sambærilegra stofnana í öðrum löndum. Engin slík stofnun er hér á landi. Á meðan svo er, standa íslensk stjórnvöld verr að vígi en önnur við gæslu öryggis gagnvart hryðjuverkamönnum ekki síður en skipulagðri glæpastarfsemi.

Nýlega lýsti Ögmundur Jónasson, dómsmálaráðherra, þeirri skoðun að hann tryði því ekki að sendiráðsmenn frá Kína stundi iðnnjósnir hér á landi. Þess vegna þurfi ekki að athuga málið frekar, þrátt fyrir ósk um það frá Kára Stefánssyni hjá Íslenskri erfðagreiningu. Ögmundur er örugglega þeirrar skoðunar, að hér sé ekki hætta á hryðjuverkum eða hér komi þeir sér fyrir sem huga að hryðjuverkum í öðrum löndum.

Menn greinir á um hve mörg ár líði þar til hér þurfi menn að takast á við lögbrot sambærileg þeim sem unnin eru annars staðar á Norðurlöndum.


Laugardagur 11. 12. 09. - 11.12.2010

Einkennilegt er að ekki skuli meira fjallað um makrílveiðar árið 2011 í fjölmiðlum, þegar til þess er litið að deila Íslendinga og Færeyinga um veiðarnar heldur áfram við ESB og Norðmenn. Skotar heimta af meiri þunga en áður að ESB beiti sér gegn Íslendingum, ég fjallaði um málið í leiðara á Evrópuvaktinni í dag.

Að ráðherra hafi orðið vís að sambærilegum dómgreindarbresti og ósannindum og Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon og samt látið eins og ekkert sé eðlilegra en sitji áfram í embætti er í raun óhugsandi. Ráðherrar í þingræðislandi eiga sitt undir stuðningi þingmanna, þau Jóhanna og Steingrímur J. sitja í umboði þingmanna Samfylkingar og vinstri-grænna. Láti þeir við svo búið sitja leggja þeir blessun sína yfir brestina í embættisfærslu ráðherranna.

Þau Jóhanna og Steingrímur J. þröngvuðu stuðningsmönnum sínum á þingi tvisvar sinnum til að styðja Icesave-samninga sína. Nú ætla þau að gera það í þriðja sinn. Láta þingmennirnir undan kröfunum enn á ný eða sýna þeir formönnum sínum vantraustið sem þeir eiga skilið vegna framgöngu sinnar?

Föstudagur 09. 12. 10. - 10.12.2010

Við vorum í dag í Listháskóla Íslands þar sem efnt var til hátíðlegrar athafnar í tilefni af því að Erling Blöndal Bengtson, sellóleikari, gaf skólanum nótnasafn sitt sem er mikið af verkum og honum mjög kært. Hann komst svo að orði við athöfnina að þetta líktist því fyrir hljóðfæraleikara að gefa börnin sín. Hjálmar H. Ragnarsson rektor tók á móti gjöfinni en einnig Gunnar Kvaran, sellóleikari, sem lék einleik við athöfnina og einnig með Tríó Reykjavíkur. Minntist Gunnar þess með þökk að hafa verið nemandi og síðar aðstoðarmaður Erlings Blöndals við kennslu í Kaupmannahöfn.

Eftirminnilegust er stutt ræða sem Erling Blöndal flutti. Hann fékk heilabóðfall fyrir nokkrum árum á erfitt með gang og getur ekki lengur leikið á hljóðfæri sitt. Hann sat á stól fyrir framan okkur áheyrendur þegar mælti af munni fram. Hann minntist móður sinnar, Sigríðar Nielsen, og heimabæjar hennar, Ísafjarðar. Einnig rifjaði hann upp þegar hann lék fyrst tónleika ungur maður hér á landi og var að þeim loknum boðið í kvöldverð á Hótel Borg með forystumönnum Tónlistarfélagsins. Ragnar í Smára stóð upp fyrir þeirra hönd og sagði þá hafa ákveðið að gleðja Erling Blöndal með því að bjóða honum í ferðalag - hann sagðist hafa búist við ferð til Þingvalla, en þeir buðu honum tveggja ára námsdvöl í Bandaríkjunum sem skipti sköpum fyrir tónlistarferil hans. Þá gat hann einnig um DVD-disk sem hefði nýlega verið gefinn út um sig og notið hefði stuðnings úr íslenska menntamálaráðuneytinu. Fyrir allt þetta og almennt tengsl sín við Ísland vildi hann þakka með gjöf sinni.

Fimmtudagur 09. 12. 10. - 9.12.2010

Varðberg – samtök um vestræna samvinnu og alþjóðamál heitir félag sem stofnað var á fjölmennum fundi á Hótel Sögu klukkan 17.30 í dag. Með félaginu renna tvö félög: Samtök um vestræna samvinnu og Varðberg saman í eitt.

Tilgangur Varðbergs er:

1.     Að beita sér fyrir umræðum og kynningu á alþjóðamálum, einkum þeim þáttum þeirra sem snúa að öryggis- og varnarmálum á norðurhveli jarðar.

2.     Að efla skilning á gildi lýðræðislegra stjórnarhátta.

3.     Að vinna að kynningu á samstarfi og menningu þjóða, sérstaklega störfum og stefnu Atlantshafsbandalagsins.

4.     Að hafa samstarf við hliðstæð félög erlendis, eftir nánari ákvörðun stjórnar samtakanna.

Tilgangi sínum hyggst Varðberg ná:

1.     Með fundum, málstofum og ráðstefnum með innlendum og erlendum fyrirlestrum.

2.     Með samvinnu við háskóla og menntaskóla, rannsóknastofnanir, félög og hugveitur innan lands og utan.

3.     Með þátttöku í Atlantic Treaty Association og Young Atlantic Treaty Association.

4.     Með útgáfustarfi.

Á stofnfundinum  flutti Tryggvi Hjaltason, öryggis- og greiningafræðingur, erindi  um leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins í Lissabon 19. og 20. nóvember og nýja grunnstefnu bandalagsins í öryggismálum. Stefán Einar Stefánsson var fundarstjóri og Þórunn J. Hafstein, fundarritari.

Stjórn Varðbergs til næstu tveggja ára skipa:

Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, formaður.

Eiður Guðnason, fyrrverandi sendiherra og ráðherra.

Gísli Freyr Valdórsson, blaðamaður.

Kjartan Gunnarsson lögfræðingur.

Margrét Cela, doktorsnemi í alþjóðasamskiptum, formaður NEXUS, rannsóknarvettvangs fyrir öryggis- og varnarmál.

Tryggvi Hjaltason, öryggis- og greiningafræðingur.

Þuríður Jónsdóttir, lögfræðingur

Miðvikudagur 08. 12. 10. - 8.12.2010

Klukkan 16.00 var ég á útvarpi Sögu og ræddi við þau Arnþrúði Karlsdóttur og Pétur Gunnlaugsson, einkum um Icesave og ESB-málefni.

Í dag hafa íslenskir netmiðlar sagt frá bandarísku WikiLeaksskjali frá 2006 þar sem kemur fram það mat sendiráðsstarfmanna Bandaríkjanna hér á landi að mig hafi skort pólitískan vilja til að takast á við mögulegt mansal, ég hafi gert lítið úr vandanum og talað niður möguleikann á því að áhættuhópar, svo sem farandverkamenn og starfsfólk í kynlífsiðnaði, sé misnotað af vinnuveitendum sínum hér á landi. Þessi vitleysa úr bandaríska sendiráðinu hér á landi er ekki ný af nálinni. hún var til umræðu hér á landi sumarið 2006 en þá skrifaði ég hér í dagbókina, þjóðhátíðardag Bandaríkjanna 4. júlí:

Ég sagði í viðtali við Fréttablaðið, sem bar ummæli í skýrslu bandaríska sendiráðsins undir mig, en þar er meðal annars lagt mat á skoðun mína á mansali, að enginn frá sendiráðinu hefði rætt þessi mál við mig og ég skildi ekki hvernig unnt væri að álykta á þann veg um afstöðu mína og gert væri í skýrslunni. Ég hef ekki lesið skýrsluna og mér heyrðist á fréttum sjónvarpsins í kvöld, að ég þyrfti að minnsta kosti ekki að gera það, til að fræðast neitt um verkaskiptingu á þessu sviði innan stjórnarráðsins. Ég hef lagt á það áherslu, að lögreglan fái sem best tæki og heimildir til að takast á við mansal og annað, sem tengist skipulagðri glæpastarfsemi. Þar skiptir greining og mat á áhættu miklu.“

Í tilefni af því að nú er enn vitnað í þessar rangfærslur bandaríska sendiráðsins frá 2006 snýr vefsíðan Pressan sér til Margrétar Steinarsdóttur, framkvæmastjóra Mannréttindaskrifstofu Íslands, sem áður var lögfræðingur Alþjóðahúss. Af frásögn hennar má ráða, að hún hafi verið heimildarmaður bandaríska sendiráðsins, en hún hafi rætt við þá í trúnaði. Margrét segir á Pressunni 8. desember:

„Maður gaf upplýsingar í trúnaði í því skyni að knýja á um að stjórnvöld viðurkenndu vandann, en stjórnvöld höfðu alltaf talað um Ísland sem gegnumstreymislands í mansalsmálum en ekki sem áfangastað mansals.“

Af þessum orðum verður ekki annað ráðið en fyrir Margréti hafi vakað að nota bandaríska sendiráðið með leynd til að flytja gagnrýni á íslensk stjórnvöld. Sendiráðsmenn hefðu hins vegar vísað til lögfræðings Alþjóðahúss í skýrslu sinni, hún hefði ekki gefið sendiráðinu upplýsingar síðan. Við Pressuna segir Margrét að auk þess að rjúfa trúnað hafi bandarísku sendiráðsmennirnir ekki haft rétt eftir henni í skýrslunni árið 2006.

Sérkennilegt er að sjá hvernig þrýstihópar töldu sig geta notað bandaríska sendiráðið málstað sínum til framdráttar. Árni Finnsson fór þangað til að knýja Bandaríkjastjórn til að mótmæla hvalveiðum Íslendinga. Lögfræðingur Alþjóðahúss notaði sendiráðsmenn til að ófrægja íslensk stjórnvöld í mansalsmálum. Allt er þetta hlutaðeigandi og sendiráðinu til minnkunar.

Þriðjudagur 07. 12. 10. - 7.12.2010

Vegna tæknilegra vandræða hef ég ekki skrifað neitt hér á síðuna síðan fimmtudaginn 2. desember.

Hér má sjá samtal mitt við Gunnar Eyjólfsson á ÍNN frá 1. desember. Við ræðum um bókina Alvara leiksins en í henni skráir Árni Bergmann ævisögu Gunnars á listilegan hátt. Í kvöld hittumst við nokkrir qi gong félagar og fögnuðum útgáfu bókarinnar með Gunnari og Árna. Enginn verður vonsvikinn af því að lesa þessa ágætu bók.

Mikill áróður er nú stundaður til að telja okkur trú um að niðurstaða hafi fengist í Icesave-málinu. Mér virðist allt talið um þetta í RÚV sem hefur frá fyrsta degi þessarar ríkisstjórnar unnið með henni til að knýja fram samning um Icesave miði nú að því að sannfæra stjórnendur ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA, um að samningur sé að næsta leiti til að losa ESA-forstjórann undan því að herða skrúfurnar til að knýja  íslensk stjórnvöld til að svara ESA. Honum þykir þægilegt að geta skotið sér undan því, þar sem framganga hans gagnvart Íslandi er á þann veg, að væru hér á landi stjórnvöld sem vildu gæta hagsmuna sinna og þjóðarinnar mundu þau krefjast þess að hann viki sæti vegna vanhæfis.

Forstjóri ESA hefur greinilega smitast af hroka ESB-embættismanna í Brussel í garð þeirra þjóða, sem eiga að veita þeim starfsumboð.

Fimmtudagur 02. 12. 10. - 2.12.2010

Sá fyrsta hluta myndarinnar um Thor Vilhjálmsson á Jakobsveginum. Dáist ég að dugnaði hans á göngunni. Myndin gefur góða hugmynd um andlegt gildi þess að fara þessa ferð og er mun trúverðugri um tilgang þess en ferðasaga sem Jón Björnsson skrifaði um árið. Það mátti helst halda að hann bæri litla virðingu fyrir trúarlegri hlið pílagrímagöngunnar. Jón fór veginn á reiðhjóli ef ég man rétt. Hjólreiðamenn sáust ekki á leið Thors, þar voru hins vegar tveir Frakkar með asna að fornum sið og bar hann trúss þeirra.

Ég skrifaði í dag pistil um evruna og framtíð hennar sem ég byggði meðal annars á vísan til nýrrar skýrslu efti Willem Buiter, sem nú er aðalhagfræðingur hjá Citigroup, en var prófessor þegar hann lét sig málefni íslensku bankanna varða á árunum 2008 og 2009.

Þeir sem fylgjast með því sem ég skrifa á Evrópuvaktina sjá, að ég er gagnrýninn á framgöngu íslensku utanríkisþjónustunnar í samskiptum við ESB. Ég tel að af hálfu þjónustunnar sé allt gert til að túlka mál ESB í hag og síðan haldið fram, að viðræðuramminn sem ESB vill að gildi sé einhliða yfirlýsing og hún bindi ekki ráðuneytið. Gagnrýni formanns viðræðunefndar Íslands á forystu Bændasamtaka Íslands fyrir að hún gæti hagsmuna umbjóðenda sinna á þann veg, sem hún telur skynsamlegt, er með nokkrum ólíkindum. Í tilefni af þessu öllu ritaði ég enn einn leiðarann um málið á Evrópuvaktina í dag og hann má lesa hér.

Miðvikudagur 01. 12. 10. - 1.12.2010

Í dag ræddi ég við Gunnar Eyjólfsson, leikara, í þætti mínum á ÍNN en hann má sjá á tveggja tíma fresti næsta sólarhringinn t.d. kl. 22.00 í kvöld. Við tölum saman um ævisögu Gunnars, sem Árni Bergmann hefur skrifað. Frásagnarhæfileiki Gunnars er einstæður eins og sést og heyrist í viðtalinu.

Hanna Birna Kristjánsdóttir bar af Jóni Gnarr í samtali þeirra í Kastljósi kvöldsins. Eina kosningaloforðið sem Jón Gnarr ætlar að efna er að svíkja öll kosningaloforð. Sjálfumgleði Jóns var hin sama og áður. Hann tönnlast enn á því að Besti flokkurinn sé einsdæmi á heimsvísu sem sé mikið afrek.

Ögmundur Jónasson, dómsmálaráðherra, hóf umræður um að frá árinu 2007 hefðu fjárframlög til lögreglunnar verið skorin niður um 380 milljónir króna. Þegar þessi orð ráðherrans eru skoðuð er rétt að hafa eftirfarandi staðreynd í huga:

Á árinu 2007 námu heildarútgjöld til löggæslu ríflega 7 milljörðum króna, samanborið við rúmlega 5,4 milljarða árið 2004. Mest var aukning í útgjöldum til löggæslu milli áranna 2006 og 2007 eða úr 6,5 milljörðum í 7,2 milljarða króna. Á árinu 2008 námu heildarútgjöld til löggæslu ríflega 7,8 milljörðum króna.

Mér er hulin ráðgáta hvaða Ögmundur hefur tölur sínar um niðurskurð til löggæslu. Tölurnar sem ég birti hér eru í opinberum skýrslum frá dómsmálaráðuneytinu og embætti ríkislögreglustjóra.

Tveir nemendur við háskólann á Bifröst: Felix Rafn Felixson og Hrafn Hjaltason rita grein í Fréttablaðið í dag, þar sem þeir byggja á þessum tölum Ögmundar.