29.12.2010

Miðvikudagur 29. 12. 10.

Í dag ræddi ég við Bjarna Benediktsson í þætti mínum á ÍNN. Undir lok samtalsins spurði ég Bjarna að því hvort hann teldi meiri líkur en minni á því að kosið yrði til þings á næsta ári. Hann sagðist telja líkurnar jafnar. Sjálfur teldi hann nauðsynlegt að sem fyrst yrði tekist á í kosningum um ólíkar leiðir fyrir þjóðina út úr núverandi stöðu. Stefna ríkisstjórnarinnar væri gjaldþrota.  Hlutfall fjárfestinga miðað við þjóðarframleiðslu væri um þessar mundir til dæmis hið lægsta frá því í síðari heimsstyrjöldinni.

Við ræddum gjaldmiðilsmál. Bjarni lýsti undrun yfir ákefð sumra íslenskra verkalýðsleiðtoga í að taka upp evru. Hann hefði kynnt sér afstöðu verkalýðshreyfingar á Norðurlöndum og annars staðar, þar sem ekki væri evra til upptöku hennar. Þar mæltu forystumenn ekki með evrunni vegna ástandsins á evru-svæðinu, ekki síst hins mikla atvinnuleysis. Umræðan um gjaldmiðilinn væri of svart/hvít hér og leita þyrfti samstöðu hinna færustu manna, sér þætti upptaka evru of dýru verði keypt með ESB-aðild.

Ég ætla ekki að rekja samtal okkar frekar. Sjón er sögu ríkari. Þátturinn er sýndur ða tveggja tíma fresti, næst klukkan 12.00 á miðnætti, síðast klukkan 18.00 á morgun. Þá set ég tengil á hann hér á síðunni þegar hann verður kominn á inntv.is, vefsíðu ÍNN.