Dagbók: janúar 2007

Miðvikudagur, 31. 01. 07. - 31.1.2007 17:22

Flaug til Kaupmannahafnar klukkan 08.00, flugtíminn var ekki nema 2.25 klst. vegna meðvinds en rok og rigning er í Kaupmannahöfn, þar sem ég sæki fundi með ráðherrum og fleirum.

Í Staksteinum Morgunblaðsins var því fagnað nú í vikunni, að Danir væru að ræða stöðu dönskunnar og hún yrði til umræðu í þinginu þriðjudaginn 30. janúar. Danska málnefndin hefði vakið athygli á því að frá árinu 2003 hefði enskan rutt sér til rúms sem kennslumál á framhaldsskólastigi. Þá sagði í Staksteinum:

„Tæpast er ástandið orðið svo slæmt á framhaldsskólastigi hér en það veldur áhyggjum hvað kennsla á ensku í háskólum hér hefur breiðst út.“

Og enn segir í Staksteinum:

„Málið er orðið pólitískt. Danski þjóðarflokkurinn (hægri flokkur)hefur tekið dönskuna upp á sína arma og vill beita sér fyrir breytingu á lögum um dönsku og danska málnotkun.....

Það kemur ekki á óvart að flokkur, sem talinn er standa langt til hægri í dönskum stjórnmálum taki þetta mál upp.

Það er stutt á milli þjóðernisstefnu og hreintungustefnu, þótt það eigi ekki að fæla fólk frá stuðningi við eigið tungumál.“

Í Berlingske Tidende er í dag sagt frá þessum umræðum í danska þinginu, sem getið er í Staksteinum og þar er því lýst, að talsmaður Danska þjóðarflokksins hafi verið heldur dapur í bragði, þegar hann fylgdi tillögunni um lög um danska tungu úr hlaði, vegna þess hve lítinn áhuga hún vakti og hve lítils stuðnings hún naut. Þar er meðal annars gert ráð fyrir, að allar opinberar stofnanir skuli bera danskt nafn, ekki megi styrkja danskar kvikmyndir, þar sem töluð er enska, ekki eigi að veita þeim, sem hafa fast aðsetur í Danmörku túlkaaðstoð.

Ellen Trane Nörby, sem talaði fyrir stjórnarflokkinn Venstre, sagði, að það væru ekki allir á einu máli um að setja þyrfti slík lög, þjóðum gæti vegnað vel með tungu sína án slíkrar löggjafar og nefndi hún Ísland til marks um það. Elsebeth Gerner Nielsen, frá radíkölum, sagði þessar tillögur ganga of langt, þjóðarflokksmenn væru að breyta tungunni í sverð (gegn útlendingum). Hún taldi þó, að veita ætti dönskunni skjól með lögum, svo að henni yrði ekki ýtt til hliðar í æðri menntastofnunum.

Þriðjudagur, 30. 01. 07. - 30.1.2007 21:11

Leikurinn við Dani var spennandi og jafn fram á síðustu sekúndu í framlengingu og þá var boltinn í hendi Dana og dugði þeim til sigurs (41-42). Mér þótti glæsilegt að sjá, hve mikinn kraft strákarnir höfðu í seinni hálfleik, þegar þeir unnu upp forskot Dana.

Ég hafði spáð því, að okkar lið myndi keppa um þriðja sætið - nú verður keppt um hið fimmta við Rússa. Gangi strákunum okkar sem allra best!

Nicolas Sarkozy, forsetaframbjóðandi hægri manna í Frakklandi, var í London í dag. Hann snæddi hádegisverð með Tony Blair, forsætisráðherra Breta, og fór um hann lofsamlegum orðum og sagðist standa honum mjög nærri um margt. Blair hefði tekist að stuðla að friði á N-Írlandi, draga úr atvinnuleysi og nútímavæða Bretland. Sarkozy sagðist vilja vinna sem best fyrir þjóð sína og þess vegna vildi hann einnig hitta þá í öðrum löndum, sem hefðu gagnast þjóð sinni vel.

Þá hélt Sarkozy framboðsfund með brottfluttum Frökkum í London en þeir eru um 250 þúsund af um 300 þúsund í Bretlandi öllu. Hann sagðist mundu auðvelda þeim að snúa aftur til Frakklands með því að breyta frönsku atvinnu- og þjóðlífi og gagnrýndi þar sérstaklega 35 stunda vinnuvikuna í Frakklandi, sem komið hefði verið á í forsætisráðherratíð sósíalistans Lionels Jospins.

Í ráði hafði verið, að Michele Alliot-Marie, varnarmálaráðherra Frakka, yrði í för með Sarkozy til London til að staðfesta samstöðu þeirra í forsetakosningunum, en Alliot-Marie hafði verið orðuð við framboð gegn Sarkozy meðal franskra hægri manna, en hún er handgengin Jacques Chirac, firseta Frakklands, sem er ekki í hópi áköfustu stuðningsmanna Sarkozys.

Þau Sarkozy og Alliot-Mary voru á ráðherrafundi með Frakklandsforseta mánudaginn 29. janúar. Að fundinum loknum hnippti Chirac í varnarmálaráðherrann og sagði henni, að hún ætti ekkert erindi til London, hún ætti að hitta sig að nýju í forsetahöllinni í stað þess að slást í för með Sarkozy. Fór hún því hvergi. Í London sagðist Sarkozy sakna varnarmálaráðherrans en taldi fráleitt, að fjarvera hennar væri til marks um innanflokksátök vegna framboðs síns.

 

 

 

Mánudagur, 29. 01. 07. - 29.1.2007 21:48

Var klukkan 15. 30 í Keflavík og skrifaði við hátíðlega athöfn í lögreglustöðinni undir skipurit hins nýja embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum. Í ræðu lét ég þess getið, að þetta væri ekki aðeins söguleg stund vegna sameiningar lögregluliða sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli og sýslumannsins í Keflavík heldur einnig vegna þess, að nú færðist öll lögreglustarfsemi hins sameinaða embættis undir forræði dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.

Þegar við vorum að leggja lokahönd á frumvarpið að lögunum um nýskipan lögreglumála fyrir einu ári, var sett í þau ákvæði um, að hið nýja sameinaða lögregluembætti ætti einnig að sinna verkefnum á vegum utanríkisráðuneytisins á varnarsvæðunum. Þá sáu menn ekki fyrir, að um níu mánuðum síðar myndi varnarliðið hverfa úr landi og þar með einnig varnarsvæðin. Þau heyra nú sögunni til og einnig valdheimildir utanríkisráðuneytisins á þeim. Allt lögreglustarf í landinu, hverju nafni sem nefnist, heyrir nú undir dóms- og kirkjumálaráðuneytið.

Ég er þess fullviss, að undir forystu Jóhanns R. Benediktssonar lögreglustjóra tekst að sameina liðsheildina til góðra verka, en undir hans stjórn starfa um 220 manns, þar af um 90 lögregluþjónar og um 50 tollverðir, fjöldi öryggisgæslumanna í flugstöð Leifs Eiríkssonar, lögfræðingar og annað sérhæft fólk. Verkefni liðsins er annars vegar að tryggja, að öll gæsla á Keflavíkurflugvelli standist ströngustu kröfur og öryggi íbúanna á Suðurnesjum sé vel tryggt.

Frjálslyndi flokkurinn er klofinn, eftir að Margrét Sverrisdóttir lýsti yfir brotthvarfi sínu úr flokknum nú í kvöld. Eftir stendur valdahópur í kringum þá Guðjón Arnar Kristjánsson formann og Magnús Þór Hafsteinsson varaformann auk félaga úr Nýju afli undir forystu Jóns Magnússonar hrl. en með þeim hafa neikvæð viðhorf í garð útlendinga tekið að setja svip sinn á stefnu flokksins. Útvarp Saga er málgagn Nýs afls og þess sem eftir stendur af Frjálslynda flokknum, enda kalla menn stöðina nú níðstöng nútímans.

Lesa meira

Sunnudagur, 28. 01. 07. - 28.1.2007 21:39

Eftir að hafa skoðað nýju og glæsilegu Klausturstofuna við Þingeyrakirkju undir leiðsögn Erlendar Eysteinssonar, ókum við heim á leið. Allt annað var að aka í birtu en að kvöldlagi. Stóru flutningabílarnir slá ekki neitt af, þegar þeir koma á móti manni, hins vegar sýndu þeir lipurð við að hleyoa framúr.

Pólitísk tíðindi settu svip sinn á fréttir:

1. Jón Baldvin Hannibalsson telur Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur ekki fiska nóg fyrir Samfylkinguna. Í stað þess að skipta nú um kaptein í brúnni, vill hann frekar stofna nýjan flokk! Ég minni á tillögu mína um, að Ingibjörg Sólrún fari að dæmi Össurar fyrir fjórum árum og finni forsætisráðherraefni fyrir Samfylkinguna - Össur?

2. Þrátt fyrir, að Valgerður Sverrisdóttir hafi andmælt því í ræðu í Háskóla Íslands, að karlar settust á rökstóla í reykmettuðum bakherbergjum, virðist það einmitt hafa gerst við val á frambjóðanda í stað Hjálmars Árnasonar í þriðja sæti á lista framsóknarmanna í Suðurkjördæmi.

3. Svikabrigslin ganga á milli manna innan Frjálslynda flokksins. Margrét Sverrisdóttir telur ósigur sinn í varaformannskjörinu byggjast á kosningamisferli og hyggst hún kæra, þótt hún viti ekki hvert. Margrét hefur einnig sagt, að hún hafi um nokkurra vikna skeið búið við stöðugt níð á útvarpi Sögu. Þessari útvarpsstöð hefur raunar verið líkt við nútíma níðsstöng, því að engu er líkara en þráðurinn í sendingum hennar byggist á stöðugu níði.

 

Laugardagur, 27. 01. 07. - 27.1.2007 17:14

Ókum norður í Húnavatnssýslu í gærkvöldi og vorum um hádegi á Blönduósi og tókum síðan þátt í hátíðarhöldum þar með Bjarna Stefánssyni sýslumanni, Jóni Ísberg, fyrrverandi sýslumanni, starfsmönnum sýsluskrifstofunnar og öðrum gestum, þegar Innheimtumiðstöð sekta og sakarkostnaðar var formlega opnuð, en hún hefur verið starfrækt frá því sl. haust og með henni bættust 11 starfsmenn í hóp þeirra, sem vinna á sýsluskrifstofunni. Er gaman að fylgjast með því, hve vel hefur tekist að þróa þessa starfsemi á Blönduósi.

Hér má sjá myndir Jóns Sigurðssonar, fréttaritara Morgunblaðsins, frá athöfninni á Blönduósi.

Fyrir utan gott starfsfólk og forystu sýslumanns skipti miklu, að aðstaða var í stjórnsýsluhúsinu á staðnum til að hýsa þessa nýju starfsemi og má þakka það framsýni Jóns Ísbergs, sem réðst í það stórvirki á sínum tíma að reisa stjórnsýsluhúsið og voru ekki allir á eitt sáttir um það þá, þótt ástæða sé til að fagna framsýni hans nú.

Ég sé, að eitt orð féll úr texta mínum á fimmtudaginn, þegar ég var að velta því fyrir mér, hvort ég væri bloggari eða ekki, og mátti lesa það úr textanum, áður en ég leiðrétti hann, að ég kippti mér upp við að vera kallaður bloggari, en átti að standa, að ég kippti mér ekki upp við það, bið ég lesendur afsökunar á þessari fljótaskrift.

Ég hef síðan fengið ábendingar um, hvað felist í að vera bloggari og segir einn bréfritari, að í því felist meðal annars, að unnt sé að gera athugasemd við skrifin á sömu síðu og þau birtast. Mín síðan er ekki hönnuð á þennan hátt, svo að huga þessa manns er ég líklega ekki bloggari. Nú hefur Morgunblaðið tilkynnt, að unnt verði að gera athugasemdir við ritstjórnargreinar þess á vefsíðu blaðsins, þar með eru leiðara- eða staksteinahöfundar blaðsins orðnir bloggarar samkvæmt þeirri skilgreiningu, að í bloggi felist, að unnt sé að gera athugasemd á sömu síðu og upphafleg skrif höfundar birtast.

Föstudagur, 26. 01. 07. - 26.1.2007 17:24

Lögreglan á höfuborgarsvæðinu vann afreksverk í gærkvöldi, þegar hún stöðvaði dráttarbíl í ofsaakstri sjúks manns, áður en stórslys varð. Samhent og skjót viðbrögð hins nýstofnaða lögregluliðs á höfuðborgarsvæðinu réðu þarna úrslitum.

Klukkan 14.00 komum við efstu menn á framboðslistum Sjálfstæðisflokksins saman til fundar í Valhöll til að bera saman bækur okkar vegna komandi þingkosninga, þetta er öflugur hópur með góðan málstað og á því skilið gott brautargengi í kosningunum, enda mun forsjálni og skynsemi ráða afstöðu háttvirtra kjósenda.

Mér var falið að reifa stöðuna í Evrópumálum og varnarmálum á fundinum. Ég er þeirrar skoðunar, að Evrópumál verði ekki ofarlega á dagskrá fyrir kosningarnar, því að enginn flokkur mun gera tillögu um aðild að Evrópusambandinu. Í varnarmálum hefur verið haldið vel á málum og unnið eins vel og kostur er úr þeirri stöðu, sem skapaðist við brottför varnarliðsins.

Ég var spurður um fyrirhugaða greiningardeild á vegum utanríkisráðuneytisins á Keflavíkurflugvelli og hvernig verkaskipting yrði milli hennar og greiningarstarfsemi á vegum ríkislögreglustjóra. Ég sagðist ekki geta svarað fyrir utanríkisráðuneytið, þar sem ég þekkti ekki lögheimildir þess, hins vegar hefði verið ákveðið með breytingu á lögreglulögum að stofna greiningardeild hjá ríkislögreglustjóra.

Fimmtudagur, 25. 01. 07. - 25.1.2007 20:55

Nú dregur að 12 ára afmæli síðu minnar en ég miða við 29. janúar 1995, þegar ég ræði stofndag hennar. Mikið hefur breyst í netheimum á þessum árum og einhvers staðar sá ég, að nú væru 5000 bloggsíður á mbl.is. Ég veit ekki hver er munurinn á bloggsíðum og öðrum vefsíðum einstaklinga. Ég kippi mér að minnsta kosti ekki upp við að vera kallaður bloggari, þótt ég líti ekki endilega á mig sem slíkan, þar sem ég veit ekki alveg hvað í því felst að slást í þann félagsskap. Tilgangur minn með þessari síðu var, hefur verið og er að halda utan um það, sem mér finnst þess eðlis, að ég vilji geyma hér á þessum stað. Kannski er þetta ein tegund söfnunaráráttu, að halda utan um eitthvað, svo að það gleymist ekki.

Í dag var auglýst í John F. Kennedy School of Government í Harvard, að ég flytji þar fyrirlestur 21. febrúar næstkomandi.

Í gær festi ég það í minni síðunnar, að Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri/grænna, varð hinn versti og blótaði í þingsalnum vegna svars, sem ég gaf honum við spurningum hans um umfang leyniþjónustustarfsemi. Hann telur sig líklega vera að ná sér niðri á mér með því að leggja fyrir níu spurningar um þetta efni og krefjast skriflegs svars. Hann ritar greinargerð með þessum spurningum sínum og segir í lok hennar:

„Viðleitni dómsmálaráðherra til að svara efnislega, eins ítarlega og rétt og frekast er unnt og draga ekkert undan þó óþægilegt kunni að vera, verður prófsteinn á það hvort dómsmálaráðherra Björn Bjarnason hyggst sýna vilja, þó síðbúinn verði, til að virða stjórnarskrárvarinn rétt þingmanna til upplýsinga um opinber mál eður ei.“

Mér skilst á sjónvarpsfréttum, að Steingrímur J. ætli að klaga mig til forsætisnefndar þingsins fyrir að svara honum ekki eins og hann telur að svarið eigi að vera. Nefndin hlýtur að gefa mér færi á andmælum, taki hún kvörtunina fyrir. Ég vænti þess jafnframt, að forsætisnefnd hugi að orðbragði þingmannsins í þingsalnum um leið og hún skoðar þetta mál.

Lesa meira

Miðvikudagur, 24. 01. 07. - 24.1.2007 22:01

Evrópunefnd hélt 38. fund sinn í hádeginu.

Síðdegis svaraði ég þremur spurningum á alþingi. Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri/grænna, spurði mig um umfang leyniþjónustustarfsemi. Hann var hinn versti yfir svari mínu og sagði, að samkvæmt 54 gr. stjórnarskrárinnar bæri ráðherra skylda til að svara þingmönnum. Ég sagði, að stjórnarskráin skyldaði ráðherra ekki til að svara því, sem hann vissi ekki. Þá heyrði ég ekki betur en Steingrímur J. segði stundarhátt: Djöfulsins! í sæti sínu, áður en hann strunsaði úr þingsalnum.

Næst svaraði ég spurningu Guðjóns Ólafs Jónssonar, þingmanns Framsóknarflokksins, um nýtt fangelsi á Hólmsheiði. Sagði ég unnið að því að undirbúa það en ég vildi, að kannað yrði á skjótan hátt, hvort sameina mætti nýja lögreglustöð og gæsluvarðhaldsfangelsi, ef lóð væri á höfuðborgarsvæðinu undir slíka byggingu, hana mætti auðveldlega reisa í einkaframkvæmd.

Loks svaraði ég spurningu Kolbrúnar Halldórsdóttur um áætlun gegn mansali - ég sagðist ekki hafa sest yfir neina slíka áætlun heldur hefði ég gripið til margvíslegra aðgerða til að koma hér í veg fyrir mansal og uppræta það. Þótt Kolbrún læsi úr dönskum og norskum skýrslum, ætti hið sama ekki við hér á landi frekar en að fara að tillögu hennar um að samþykkja hér sænska vændislöggjöf.

Um klukkan 16.00 var ég á Reykjavíkurflugvelli og tók á móti fjórðu þyrlu landhelgisgæslunnar TF-Eir, sem var að koma frá Bretlandi.

Þriðjudagur, 23. 01. 07. - 23.1.2007 21:54

Klukkan 08.20 var ég í stofu 205 í Lögbergi við Háskóla Íslands og ræddi í tæpan kukkutíma við nemendur í námskeiði hjá Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni um fjölmiðla.

Klukkan 11.30 var ég í Marorku að Borgartúni 20 og ritaði undir samning um orkustjórnunarkerfi í nýja varðskipið, sem er í smíðum í Chile.

Þingfundur hófst 13.30 og þá átti að hefjast atkvæðagreiðsla um frumvarpið um RÚV ohf. Stjórnarandstaðan tók enn eina syrpuna og lauk ekki atkvæðagreiðslunni fyrr en klukkan 15.00. Þá hófst umræða utan dagskrár um auglýsingar um spilavíti á netinu. Ögmundur Jónasson var upphafsmaður en ég svaraði.

Klukkan 17.30 ræddu þeir félagar Þorgeir og Kristófer á Bylgjunni við mig um tálbeitur og barnaníðinga í beinni útsendingu í síma.

Mánudagur, 22. 01. 07. - 22.1.2007 19:57

Hljóðlega lagði stjórnarandstaðan niður vopn í stríðinu um, hvort ríkisútvarpið verði ríkisstofnun eða ríkishlutafélag, og lýsti uppgjöf sinni í morgun á blaðamannafundi á tólfta tímanum.

Eftir óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra, sem hófust 10.30, þar sem ég var spurður um mál fanga, sem dæmdur er fyrir kynferðislegt áreiti í garð barna, og sagt var frá í þættinum Kompás á Stöð 2 að kvöldi 21. janúar, ræddi ég við nokkra þingmenn, og var á leið á brott frá þinghúsinu, þegar hinn vígreifi formaður menntamálanefndar, Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vék sér að mér og spurði, hvað væri að gerast, hann hefði séð það á skjánum á sjónvarpinu í skrifstofu sinni, að stjórnarandstöðuþingmennirnir hefðu allir dottið út af mælendaskránni. Ég sagðist ekki vita neitt um þetta, en kæmi ekki á óvart eftir útreiðina í málþófinu.

Næstu fréttir voru af blaðamannafundi, þar sem stjórnarandstaðan lýsti uppgjöf sinni. Þá gátu þingstörf hafist samkvæmt eðlilegri dagskrá og klukkan 15.00 voru tekin fyrir fjögur frumvörp frá mér: 1. um hertar refsingar þeirra, sem vega að öryggi lögreglumanna og annarra opinberra starfsmanna, sem hafa heimild til valdbeitingar; 2. um breytingar á dómstólalögunum; 3. um ríkisborgararétt og 4. um staðfestingu á samkomulagi ríkis og kirkju um prestssetur og að dóms- og kirkjumálaráðherra hætti að skipa sóknarpresta.

Umræður urðu mestar um ríkisborgaralögin og þá kröfu, að umsækjendur gangi undir íslenskupróf. Ég vakti einnig máls á því, sem ekki er í frumvarpinu, en ég óskaði eftir, að allsherjarnefnd skoðaði, hvort þrengja eigi verulega skilyrði fyrir tvöföldum ríkisborgararétti. Miðað við yfirlýstan áhuga frjálslyndra á málefnum útlendinga, var ég undrandi á því, að enginn þingmaður þeirra skyldi taka þátt í þessum umræðum.

Sunnudagur, 21. 01. 07. - 21.1.2007 16:18

Um þetta leyti fyrir fjórum árum ákvað Össur Skarphéðinsson, þáverandi formaður Samfylkingarinnar, að laða borgarstjórann í Reykjavík, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, til sigurstanglegs framboðs til alþingis með því að bjóða henni að verða forsætisráðherraefni flokksins. Skyldi stefnt að því, að flokkurinn fengi hið minnsta 35% ef ekki 40% í þingkosningum þá um vorið.

Í dag birtist könnun í Fréttablaðinu, sem sýnir, að Samfylkingin rétt mer 20% og er þó forsætisráðherraefnið Ingibjörg Sólrún orðin flokksformaður. Spurning er, hvort hún fari nú að ráði Össurar, sem var með flokkinn í 35%, þegar hætti sem formaður, og leiti að einhverjum til að verða forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar í kosningabaráttunni framundan - einhverjum, sem ekki hefur eyðilagt sig á því að tala ábyrgðarlaust um evruna eða talað sig dauðann í málþófi um, hvort ríkisútvarpið sé betra sem ríkisstofnun eða ríkishlutafélag (auðvitað getur það þvælst illilega fyrir einhverjum) - kannski ætti Ingibjörg Sólrún bara að gera Össur að forsætisráðherraefni, jafnvel þótt hann stýri þingflokknum, sem hún treystir ekki eins og svo margir aðrir?

Fór klukkan 20.00 á tónleika Kammersveitar Reykjavíkur í Listasafni Íslands við upphaf Myrkra músíkdaga.

Laugardagur, 20. 01. 07. - 20.1.2007 22:47

Lesbók Morgunblaðsins gerir það ekki endasleppt, því að hún birtir í dag grein eftir dr. Þór Whitehead prófessor um tvískinnung Jóns Ólafssonar, prófessors á Bifröst, í afstöðunni til kommúnista á Íslandi og síðan lýsingu gamalkunnugs kommúnista Maríu Kristjánsdóttur, leiklistargagnrýnanda Morgunblaðsins, á því, hvernig er að vera ferðamaður í Venúzela, þar sem kommúnistinn Hugo Chávez ræður ríkjum, en honum er þannig lýst í fyrirsögn í Economist: With Marx, Lenin and Jesus Christ - Hugo Chávez's "21st-century socialism" starts to look even more like old-fashioned autocracy.

Economist segir, að persónudýrkun sé að aukast í kringum Chávez og hafi hún verið áberandi 8. janúar sl., þegar ný ríkisstjórn sór embættiseið, því að þá hafi það gerst fyrir framan 10 metra háa mynd af Chávez, þar sem hann lyftir höndum eins og blessandi biskup.

Þegar biskupar eða aðrir spyrja, hvað 21. aldar sósíalisminn feli eiginlega í sér, svarar Chávez þeim með þjósti og segir, að þeir skuli bara lesa Biblíuna. „Kristur var sannur kommúnisti, and-heimsvaldasinni og óvinur fámennisstjórnar,“ segir hann og bætir við, að sjálfur hafi hann verið „kommúnisti“ síðan að minnsta kosti 2002 (þá sagðist hann vilja „bæta kapítalismann“). Þessi orð lét hann falla í fyrsta sinn opinberlega fyrir skömmu. Nú lýkur hann ræðum sínum með slagorðum, sem hann hefur lært af Fídel Kastró, en Chávez segist vera í símasambandi við leiðtogann á Kúbu og fyrirmynd sína, sem sé alvarlega veikur.

Ólíklegt er, að mörg blöð fái gamla kommúnista nú um stundir til að skrifa um Venúzela og að þessu leyti er vissulega frumlegt hjá Lesbókinni að kalla eftir þessum greinaflokki frá Maríu. Þröstur Helgason umsjónarmaður Lesbókarinnar birtist í sjónvarpi mbl.is til að kynna blað sitt og gat þar sérstaklega um grein Maríu en sleppti því alveg að minnast á grein Þórs, sem byggir þó á miklu traustari grunni en þessi ferðasaga úr ríki einræðisherrans.

Föstudagur, 19. 01. 07. - 19.1.2007 20:53

Í Morgunblaðinu birtist í dag grein eftir mig, Um vígdreka og síldarflota, þar sem ég hafna því, að fyrir liggi ótvíræð gögn um, að Bandaríkjastjórn hafi látið undan þrábeiðni íslenskra stjórnvalda að senda fjóra tundurspilla á Íslandsmið sumarið 1950 vegna sovésks síldarflota á miðunum. Ég er þeirrar skoðunar, að íslenska og bandaríska ríkisstjórnin hafi verið samstiga í þessu máli en bandaríska herstjórnin hafi að sjálfsögðu tekið ákvörðun um að senda tundurspillanna á eigin forsendum en ekki Íslendinga.

Raunar skil ég ekki, hvers vegna Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur kýs að vera að þrefa um þetta mál í Morgunblaðinu, þar sem þetta er að sjálfsögðu ekki neitt lykilatriði í ákvörðunum Íslendinga og Bandaríkjamanna um varnarsamstarf.

Í morgun ræddi Jóhann Hauksson við Jón Ólafsson, prófessor á Bifröst, um þessi mál á útvarpi Sögu. Jóhann sleppti því að spyrja Jón, hvernig í ósköpunum hann hefði komist að þeirri niðurstöðu, að ríkisstjórn Íslands hefði ákveðið að styrkja öryggisþjónustu lögreglunnar í Reykjavík vegna sovéska síldarflotans. Í þessu samtali kveinkar Jón sér enn undan grein, sem ég ritaði í tilefni af umsögn hans um Óvini ríkisins. Jón veit ekki mikið um skoðanir mínar á þessum málum öllum, ef hann heldur mig álíta, að Sovétmenn hefðu gert árás á Ísland eitt, án þess að það væri liður í meiri hernaðaraðgerðum þeirra á Norður-Atlantshafi eða í Evrópu.

23. október 1969 hitti Bjarni Benediktsson forsætisráðherra William Rogers, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í Washongton en Bjarni var þar í tilefni af ráðstefnu Atlantshafsfélaganna, Atlantic Treaty Association vegna 20 ára afmælis NATO 4. apríl 1969.

Lesa meira

Fimmtudagur, 18. 01. 07. - 18.1.2007 18:54

Fór síðdegis í ferð með Magnúsi Gunnarssyni, formanni þróunarfélagsins um framtíð varnarsvæðisins á Keflavíkurflugvelli, um svæðið og kynnti mér ýmsar byggingar, sem þar er að finna.

Þá leit ég inn á glæsilega kosningaskrifstofu Vöku í JL-húsinu og heilsaði upp á hinn vaska hóp, sem þar vinnur ötull að sigri félagsins í komandi stúdentaráðskosningum.

Í alþingi hélt stjórnarandstaðan áfram málþófinu um hlutafélagavæðingu ríkisútvarpsins. Ég tek heilshugar undir með þessum bloggara. Hann lýsir því nákvæmlega, hvernig komið er fyrir stjórnarandstöðunni í málinu. Nú er sagt frá því í fréttum, að stjórnarandstaðan sé tilbúin til samninga um málið: Lögin taki ekki gildi, fyrr en eftir kosningar. ´

Tilboðið snýst að sjálfsögðu um, að meirhlutinn hjálpi stjórnarandstöðunni út úr ógöngum hennar. Er hún ekki lengur sjálfbjarga?

Nú hefur verið talað lengur á alþingi um þessa skipulagsbreytingu á RÚV en talað var um EES-samninginn á sínum tíma! Svo kemur formaður þingflokks Samfylkingarinnar og segir, að þetta snúist allt um gildistökudag laganna!! Náist meginmarkmið stjórnarandstöðunnar í kosningunum, þ e. að mynda nýjan meirihluta á þingi, getur hún breytt lögum um ríkisútvarpið eftir kosningar án tillits til gildistökudagsins.

Hvers vegna flytja stjórnarandstæðingar allar þessar ræður um frumvarpið, ef þeir hafa aðeins áhyggjur af gildistökudeginum?

 

 

Miðvikudagur, 17. 01. 06. - 17.1.2007 23:35

Við, sem börðumst fyrir frjálsu útvarpi fyrir rúmum 20 árum, skemmtum okkur oft við að rifja upp orð andstæðinga þess. Þeri fundu því allt til foráttu og töldu upphaf að endalokum heilbrigðrar fjölmiðlunar að leyfa fleirum en ríkinu að reka útvarpsstöð.

Um það mál má segja, að tekist hafi verið á um grundvallarbreytingu, að afnema einokun ríkisins á þessu mikilvæga sviði. Umræðurnar á alþingi núna, þegar stjórnarandstaðan talar daginn út og daginn inn. snúast um skipulagsbreytingu á ríkisútvarpinu, að breyta því úr ríkisstofnun í ríkishlutafélag. Ég er viss um, að margir munu skemmta sér vel yfir því, þegar fram líða stundir, að rifja upp maraþonræðurnar, sem nú hafa verið fluttar um þessa skipulagsbreytingu, eða við að rifja það upp, hve lengi margir hafa staðið gegn henni eins og heimurinn kunni að farast vegna þessa. Hið einkennilegasta verður, að þeir, sem eru á móti þessari leið til að efla ríkisútvarpið, segjast vera helstu stuðningsmenn þess.

Líklega verður stjórnarandstaðan, sem talar sig nú dauða í þessu máli, hlægilegri, þegar fram í sækir, en þeir, sem lögðust gegn því, að á Íslandi yrði litasjónvarp - það myndi setja efnahag þjóðarinnar á hliðina að innleiða það.

Í kvöld gafst mér tóm til að sjá þýsku kvikmyndina Das Leben der Anderen, sem gefur færi á því að skyggnast inn í Stasi-þjóðfélagið í Austur-Þýskalandi. Myndin hefur hlotið fjölda verðskuldaðra verðlauna í Þýskalandi. Póst-módernistarnir, sem skrifa um stjórnarhætti kommúnista á þessum árum, eins og þar hafi ekki verið alræðisstjórn, að minnsta kosti ekki eftir daga Stalíns, ættu að sjá þessa mynd, en hún gerist skömmu fyrir og eftir hrun Berlínarmúrsins.

 

Þriðjudagur, 16. 01. 07. - 16.1.2007 22:01

Ríkisstjórn samþykkti í morgun tillögu, sem flutt var að frumkvæði mínu, um að stofna starfshóp undir formennsku Stefáns Eiríkssonar, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, um úrræði vegna þeirra, sem verst eru settir af ofneyslu vímuefna eða vegna persónuleikaraskana. Félagsmálaráðherra og heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra munu tilnefna fulltrúa í nefndina auk mín.

Á alþingi hélt stjórnarandstaðan áfram að ræða um hlutafélagavæðingu RÚV. Ég sé á þingfréttasíðu Morgunblaðsins í dag, að nýjum þingfréttaritara blaðsins, sem ég veit ekki hver er, þykir fréttnæmt við umræðurnar í gær, að Mörður Árnason skuli hafa flutt þriggja tíma ræðu, án þess að bregða sér á salerni. Þetta er nýstárlegt þingfréttamat, en segir kannski allt, sem segja þarf um þriggja tíma boðskap Marðar.

Mörður fór svo ég viti. ekki upp í upphafi þingfundar í dag til að finna að fréttinni í Morgunblaðinu, hins vegar sá stjórnarandstaðan ástæðu til að ávíta Pál Magnússon útvarpsstjóra fyrir grein í Morgunblaðinu í gær, þar sem hann svaraði ranghermi ritstjóra Fréttablaðsins  um almenna andstöðu við  frumvarpið um RÚV ohf.

Í dag þótti Stöð 2 það fréttnæmt, að Hlynur Hallsson, varaþingmaður vinstri/grænna, væri með hálsbindi og á því væri mynd af hauskúpu, þá þótti einnig í frásögur færandi, að erindi úr Ferðalokum eftir Jónas Hallgrímsson væri letrað á jakka Hlyns, loks þótt fréttamanni hárgreiðsla Hlyns tíðindum sæta.

Allt sýnir þetta, hve mikla athygli málflutningur stjórnarandstöðunnar vekur, þegar hún tekur sig til og leggur þingsalinn undir sig með löngum ræðum, enda kemur í ljós, að henni er ekki meira niðri fyrir um efni frumvarpsins en svo, að hún vill semja um afgreiðslu þess, ef gildistaka laganna er ekki fyrr en eftir kosningar.

Mánudagur, 15. 01. 07. - 15.1.2007 7:01

Alþingi kom saman að nýju eftir jólaleyfi klukkan 13.30 í dag og þá strax tók stjórnarandstaðan til við að ræða um hlutafélagavæðingu RÚV og nú var hrópað út af því, að hún hefði ekki fengið að sjá bréf, sem gengið hefðu á milli eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) og ráðuneyta.

Hið einkennilega við þessar upphrópanir er, að þær snúast ekki um skipulag á RÚV heldur um það, hvort heimilt sé að evrópskum reglum að reka ríkisútvarp eða ekki. Evrópureglur hafa verið settar um þetta efni án tillits til þess, hvort ríkisútvarp eða útvarp í almannaþágu er hlutafélag eða ekki. Rupert Murdoch og öflugir félagar hans, sem eiga fjölmiðla í Evrópu, vilja þrengja að ríkisútvörpum og helst loka þeim.

Skiljanlegt er að Fréttablaðið og aðrir Baugsmiðlar leggist gegn ríkisútvarpi hér, þeir eru í sama liði og Rupert Murdoch, þeir vilja gera ríkisútvarpið sem tortryggilegast til að veikja stöðu þess, þeim er ljóst. að hlutafélagavæðing styrkir innviði þess og gerir það að öflugri keppinaut.

Hið einstaka við þessar umræður á alþingi Íslendinga er, að vinstriflokkar skuli gera hverja tilraunina eftir aðra til að hindra framgang lagasetningar, sem er til þess fallin í senn að nútímavæða ríkisútvarpið og hlutafélagavæða það til að styrkja innviði þess.

Væri þetta málþóf Marðar Árnasonar og Ögmundar Jónassonar til marks um, að þeir hefðu snúist til hægri, mætti sýna þeim skilning, því að beygjan hjá þeim þyrfti að vera stór og taka sinn tíma, en málþófið er ekki þess eðlis, það byggist á einhverri innbyggðri afturhaldssemi og andstöðu við allar breytingar. Raunar þarf ekki annað en nefna orðið hlutafélag í þingsalnum til að Ögmundur hlaupi upp til handa og fóta og hefji andmælaræður.

Ég hef í mörg ár verið talsmaður þess, að ríkisútvarpinu verði breytt í opinbert hlutafélag. Ef það verður ekki gert kemst það ekki úr tilvistarkreppunni.

Lesa meira

Sunnudagur, 14. 01. 07. - 14.1.2007 19:06

Af viðtali við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formann Samfylkingarinnar, í Morgunblaðinu í dag verður ráðið, að sú skoðun höfundar Reykjavíkurbéfs blaðsins í dag sé rétt, að þau Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Össur Skarphéðinsson telji síðasta tækifæri sitt til að setjast í ríkisstjórn verða að loknum þingkosningunum 12. maí nk. Spurning er að vísu, hvort Össur kæmist í stjórn með Ingibjörgu Sólrúnu, því að hún ætlar að hafa jafnmargar konur og karla í liði sínu.

Augljóst er af viðtalinu við Ingibjörgu Sólrúnu, að málefni verða henni ekki til trafala, ef hún gengur til samninga um stjórnarmyndun eftir 12. maí. Allt, sem hún segir um einstök mál, er svo losaralegt og almennt, að þann leir er unnt að hnoða að vild.

Af viðtalinu mætti álykta, að sérstakir þræðir lægju á milli kvenna í stjórnmálum og þar væri um launhelgar að ræða, sem við karlarnir skiljum ekki.

Reynsla þeirra, sem störfuðu með Ingibjörgu Sólrúnu í R-listanum, var á þann veg, að þeir settu henni að lokum afarkosti, af því að þeir treystu henni ekki. Sé litið yfir feril Ingibjargar Sólrúnar og framgöngu hennar, virðist ekki auðvelt að eiga við hana samstarf, grunnt sé á sérhagsmunagæslu, sem leiði til flokkadrátta. Nýjasta dæmið er auðvitað talið um  stjórnarandstöðuflokkana sem augljósan kost í stað ríkissjórnarinnar, en í Morgunblaðsviðtalinu segir Ingibjörg Sólrún þetta samstarf í raun ekki annað en kaffispjall - líklega minnkaði áhugi hennar eftir að Steingrímur J. krafðist þess að verða forsætisráðherra.

Þegar litið er til þess, hvernig Ingibjörg Sólrún hefur talað til sjálfstæðismanna um langt árabil, er einkennilegt að telja þá áhugamenn um að hefja hana til meiri valda.

Föstudagur 12. 01. 07. - 12.1.2007 16:46

Var klukkan 15.00 í austurhöfninni, þar sem grafið hefur verið niður fyrir sjávarmál vegna tónlistarhússins og nú var efnt til hátíðlegrar athafnar vegna þess að fyrstu steypunni var rennt í grunninn.

Hér á síðunni er unnt að fylgjast með ákvörðunum um að ráðast í að reisa tónlistarhúsið á þessum stað en ég hét því þegar ég varð menntamálaráðherra vorið 1995, að fyrir lok kjörtímabilsins 1999 hefði ég búið svo um hnúta, að í smíði tónlistarhúss verði ráðist.

Portus Group byggir húsið og sagði Björgólfur Guðmundsson stjórnarformaður, að á öllum byggingarreitnum yrðu 200 þúsund fermetrar og skiptist það jafnt, að helmingurinn yrði neðan jarðar, þar yrðu verslanir og hvers kyns þjónusta. Hann taldi, að 1000 ný störf myndu skapast í hinum miklu mannvirkjum.

Með því að slá leitarorðið tónlistarhús inn í leitarreit síðu minnar má sjá margar færslur mínar um bygginguna.

Fimmtudagur, 11. 01. 07. - 11.1.2007 13:51

Hitti Sören Gade, varnarmálaráðherra Dana, og fylgdarlið hans í björgunarmiðstöðinni Skógarhlíð klukkan 09.00. Við skoðuðum miðstöðina og fórum síðan í höfuðstöðvar Landhelgisgæslu Íslands, þar sem Sören heiðraði þyrluáhöfnina, sem bjargaði sjö sjóliðum af danska eftirlitsskipinu Triton skammt frá Sandgerði 19. desember. Þá héldum við um borð í Triton, þar sem við rituðum undir samning um samstarf landhelgisgæslunnar og danska flotans. Loks fylgdumst við með sameiginlegri björgunaræfingu Dana og Íslendinga í Reykjavíkurhöfn með þáttöku þyrla af Triton og landhelgisgæslunnar. Klukkan 12.15 kvaddi ég Sören á hafnarbakkanum, þegar hann flaug með gæsluþyrlunni til Keflavíkurflugvallar.

Eygló Harðardóttir er í framboði í 2. sæti á lista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi, hún heldur úti bloggsíðu til að auka vinsældir sínar og vonandi einnig traust. Mér þótti þó ekki mjög traustvekjandi að lesa það á síðu hennar, að verið væri að fækka í lögreglunni í Vestmannaeyjum og flytja þaðan rannsóknarlögreglumann, eíns og hún gefur til kynna. Þetta á ekki við nein rök að styðjast, þvert á móti var það sjálfstæð ákvörðun, að rannsóknarlögreglumaður yrði áfram í Eyjum, þrátt fyrir rannsóknardeild á Selfossi og skýrði dóms- og kirkjumálaráðuneytið málið í fréttatilkynningu í gær.

Af þessu tilefni segir Eygló: „Við megum víst þakka fyrir að verkefnin skulu allavega ekki fara beint til Reykjavíkur eins Björn Bjarnason myndi eflaust helst vilja, en verði áfram í Suðurkjördæmi“

Skyldi það alveg hafa farið fram hjá Eygló, að ég hef ákveðið að flytja ritstjórn Lögbirtingarblaðsins til Víkur í Mýrdal og sýslumaðurinn þar mun einnig annast stjórnsýslu vegna útfararþjónustu? Þá hef ég ákveðið að flytja eftirlit með happdrættum til sýslumannsins á Hvolsvelli auk þess fleiri verkefni verða flutt úr dóms- og kirkjumálaráðuneytinu eins og hér má sjá.

Ég hvet Eygló Harðardóttur eindregið til að kynna sér málin betur, áður en hún tekur til við gagnrýni sína.

Miðvikudagur, 10. 01. 07. - 10.1.2007 13:45

Klukkan 19.30 efndi ég til kvöldverðar í Ráðherrabústaðnum til heiðurs Sören Gade, varnarmálaráðherra Dana, og fylgdarliði hans.

Í ræðu sem ég flutti í kvöldverðinum rifjaði ég upp fund okkar í Kaupmannahöfn í júní 2005 en þar hvatti ég til þess, að við gengum frá þessu samkomulagi með sameiginlegri undirskrift, þegar frá því yrði gengið og Sören Gade kæmi hingað af því tilefni.

Það er ekki fyrr en nú, að Sören Gade hefur tök á að koma til landsins, en aðstæður hafa breyst síðan við hittumst 2005, ekki síst vegna brottfarar varnarliðsins.

Þriðjudagur, 09. 01. 07. - 9.1.2007 8:28

Klukkan 14.30 fór ég með embættismönnum í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu í heimsókn í höfuðstöðvar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu að Hverfisgötu 113-115. Stefán Eiríksson lögreglustjóri og hans menn tóku vel á móti okkur og var gaman að kynnast hinum mikla sóknaranda, sem ríkir þarna. Ég staðfesti skipurit nýja embættisins og opnaði vefsíðu þess. Skráði ég mig sem notanda í Hlíðahverfi og á von á tilkynningum um það, sem er að gerast í mínu hverfi og lögreglan telur nauðsynlegt að miðla til mín. Skora ég á lesendur síðu minnar að nýta þessa nýju þjónustu lögreglunnar.

Þá var í dag gefið út tölublað af Vefriti dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, þar sem lýst er þeim breytingum, sem eru orðnar í lögreglumálum og vísað á fjölda nýrra reglugerða.

Guðmundur Magnússon tekur við boltanum frá höfundi Staksteina Morgunblaðsins í gær og telur, að ég eigi að afhenda safni skjöl í minni vörslu. Ég hef vissulega velt þessu oft fyrir mér en jafnoft horfið frá því, þar sem svo virðist sem ég verði að útvega fé til að skrá skjölin eða kosta skráninguna sjálfur. Ekkert safn hefur nokkru sinni að fyrra bragði óskað eftir einkaskjölum frá mér eða boðið mér að láta skrá það safn, sem ég hef í vörslu minni.

Á sínum tíma ákvað ég að láta Ljósmyndasafni Reykjavíkur í té mikið safn ljósmynda í minni vörslu. Myndirnar voru óskráðar en á þeim tíma, sem ég afhenti þær, var enn nokkur áhugi á að nota sumar þeirra og taldi ég einfaldast að geta bent á safn sem vörsluaðila. Þegar myndirnar höfðu verið í kössum í mörg ár og ekkert var gert í því skyni að skrá þær eða búa um þær á nokkurn hátt auk þess mér fannst, að stjórnendum safnsins þætti nokkur ami af þeim nema með fráhrindandi skilyrðum, ákvað ég einfaldlega að taka kassana aftur í mína vörslu.

Lesa meira

Mánudagur, 08. 01. 07. - 8.1.2007 22:24

Skömmu fyrir jól var Dominique de Villepin, forsætisráðherra Frakka, í 17 klukkustunda yfirheyrslu hjá rannsóknardómurunum, sem eru að leitast við að upplýsa Clearstream málið, en það snýst meðal annars um það, hver hafi ranglega sett nafn Nicolas Sarkozys, innanríkisráðherra Frakka og forsetaframbjóðanda hægri manna, á lista yfir þá Frakka, sem hefðu fengið ólögmætar fjárgreiðslur vegna sölu á freigátum til Tævan fyrir meira en áratug.

Rannsóknardómararnir hafa ekki skilað skýrslu sinni. Á hinn bóginn var de Villepin í hálftíma sjónvarpssamtali á Canal + um helgina, án þess að segja eitt orð til stuðnings framboði Sarkozys. Þögn hans er þó ekki túlkuð á þann veg, að hann sé sjálfur að undirbúa framboð, heldur á þann veg, að enn sannist, hve litlir kærleikar séu á milli ráðherranna. Raunar undrast margir, að Sarkozy skuli enn sitja í ríkisstjórninni og velta fyrir sér, hve lengi honum verði enn sætt þar vegna forsetaframboðsins.

David Bowie er 60 ára í dag. Dagsins er víða minnst og ég geri það með því að endurbirta úr færslu hér á síðunni frá 23. júní 1996 en þar segir frá tónleikum afmælisbarnsins hér á landi 20. júní 1996:

„Um kvöldið fórum við á tónleika Davids Bowie í Laugardalshöllinni. Var ekki annað unnt en dást að frammistöðu goðsins. Hann var tvo klukkutíma á sviðinu, þar sem allt gekk eins og vel smurð vél. Stóð hann við loforð sitt við komuna til landsins, að efna hér til góðra tónleika í tvær stundir. Fyrir okkur óvana áheyrendur á slíkum tónleikum var hávaðinn næstum óbærilegur á stundum og bassinn skall á manni eins og bylgja. Þegar við hittum Bowie og menn hans eftir tónleikana, voru þeir undrandi á því, að við hefðum ekki sett tappa í eyrun til að draga úr hávaðanum! Í stuttu samtali var Bowie eins og margir aðrir heimsfrægir menn hógvær og velviljaður. Virtist hann hafa fullan hug á að koma hingað aftur til að kynnast landinu betur í fylgd með eiginkonu sinni.

Þegar við kvöddum hann var klukkan farin að halla í tvö eftir miðnætti og morguninn eftir var ferðinni heitið snemma morguns til Frankfurt, þar sem síðdegis átti að sinna sjónvarpsviðtölum og búa sig undir tónleika á laugardeginum. Hefur Bowie verið á sífelldu ferðalagi með tveimur stuttum hléum síðan í ágúst 1995 og haldið að meðaltali þrjá stórtónleika í viku hverri í nýju landi eða borg í hvert sinn.“

 

Sunnudagur, 07. 01. 07. - 7.1.2007 21:45

Las grein í bandaríska tímaritinu Commentary um franskan menntaskólakennara, Robert Redeker, sem ritaði harðorða grein í Le Figaro í deilunum um orð Benedikts 16. páfa um múslima. Greininni var dreift á netinu og barst samdægurs í arabískri þýðingu til þeirra, sem það mál tala. Greinin var úthrópuð í al Jazeera sjónvarpsstöðinni og tölublaðið af Le Figaro var bannað í Egyptalandi og Túnis.

Redeker var hótað með bréfum og tölvupósti. Á islamskri vefsíðu var hann dæmdur til dauða og þar var birt heimilisfang hans og mynd af húsi hans til að auðvelda framkvæmd dauðadómsins. Redeker óttaðist um eigið líf og fjölskyldu sinnar og leitaði ásjár hjá staðarlögreglunni en hún beindi tilmælunum til gagnjósnastofnunarinnar. Að ráði starfsmanna hennar flutti Redeker með konu sína og þrjú börn þeirra á brott frá heimili fjölskyldunnar og leituðu þau skjóls á leyndum stað. Síðan hafa þau ferðast úr einni borg í aðra á eigin kostnað en undir lögregluvernd. Franska menntamálaráðuneytið hefur skipað annan kennara í stað Redekers, sem snýr líklega aldrei aftur til síns fyrra starfs.

 

Laugardagur, 06. 01, 07. - 6.1.2007 22:45

Eftir of langa fjarveru komumst við í Fljótshlíðina. Við fórum í Sögusetrið á Hvolsvelli og skoðuðum málverkasýningu Jónda, Jóns Kristinssonar í Lambey, en þar hefur hann Gallerí Lambey.

Um kvöldið var álfadans og brenna á vegum UMF Þórsmörk hjá Goðalandi. Þangað komu nokkur hundruð manns í góðu veðri. Álfar dönsuðu og sungu og skotið var flugeldum. Þessi brenna hefur verið árlega, ef veður leyfir, í meira en 100 ár.

Morgunblaðið  birti grein eftir mig í dag. Hún snýst um viðbrögð íslenskra stjórnvalda við hættum á fyrstu árum kalda stríðsins. Ég skrifaði hana vegna þess að mér þótti Guðni Th. Jóhannesson fara villur vega í bókinni Óvinir ríkisins og enn vitlausari væri umsögn Jóns Ólafssonar prófessors á Bifröst um bókina.

Föstudagur, 05. 01. 07. - 5.1.2007 22:24

Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna (SUS) sendi frá sér tilkynningu í dag, þar sem sagði meðal annars:

„Stjórn SUS ákvað að nefna verðlaunin eftir Kjartani Gunnarssyni, fráfarandi framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, til að heiðra það mikla starf sem hann hefur skilað til þess að auka frelsi á Íslandi og bera út hugmyndir frjálshyggjunnar. Starf Kjartans í þágu frelsisins er langt í frá einskorðað við stöðu hans sem framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins í 26 ár. Frá unga aldri hefur hann verið í forystu meðal þeirra sem barist hafa fyrir frjálshyggjunni á Íslandi. Hann var meðal annars helsti hvatamaður og leiðtogi í þeim hópi sem gaf út ritið „Uppreisn frjálshyggjunnar“ en í henni má finna stefnu þeirrar kynslóðar sjálfstæðismanna sem hvað mest áhrif hefur haft á þróun landsmála á undanförnum áratugum.“

Vinir Kjartans samfagna honum vegna þessa heiðurs, sem sýnir enn, hve mikillar virðingar og vinsælda hann nýtur innan Sjálfstæðisflokksins, þegar hann lætur af störfum framkvæmdastjóra. Kjartan hefur ekki aðeins sett sterkan svip á Sjálfstæðisflokkinn heldur einnig á þjóðlífið allt með hógværð sinni, hjálpsemi og vináttu.

Í vikunni hef ég sagt frá vaxandi þunga í gagnrýni á evruna í ýmsum ríkjum, þar sem hún er notuð sem gjaldmiðill. OECD hefur nú gefið út skýrslu til varnar evrunni. Skýrslan ætti að evru-söfnuðinn hér á landi, þótt hún hafi ekki komið í veg fyrir að Jacques Chirac, forseti Frakklands, gagnrýndi evrustjórana fyrir ákvarðanir þeirra.

Þróun efnahagsmála ræðst af ákvörðunum einstaklinga og áhrif þeirra ráðast af stöðu og störfum. Vísasti vegurinn til að grafa undan íslensku krónuninni er að tala hana niður og láta eins og unnt sé með töfrasprota að taka upp evru og þá sé allur vandi leystur. Einföldun af þessu tagi stenst ekki gagnrýni.

 

Fimmtudagur, 04. 01. 07. - 4.1.2007 21:38

Myndskeiðið, sem birt var úr eftirlitsmyndavélinni á kínverska sendiráðshúsinu að Garðarstæti 41, og sýndi hrottalega árás ungra pilta á friðsama vegfarendur, hefur vakið óhug. Myndskeiðið sannar einnig gildi eftirlits af þessum toga, því að foreldrar piltanna komu þeim sama kvöld undir manna hendur og málið er upplýst.

Ákvörðun lögreglunnar um að senda myndskeiðið til birtingar er ein hlið sýnilegrar löggæslu. Hún felst ekki einvörðungu í því, að lögreglumenn séu sýnilegir, heldur einnig hinu, að beitt sé öðrum úrræðum, þar á meðal að lögreglan sýni almenningi þá, sem ógna öryggi borgaranna í því skyni að hafa hendur í hári þeirra.

Þegar ég las fréttayfirlit nýársdags rakst ég á þetta úr kvöldfréttum sjónvarps ríkisins:

„Vegna umfjöllunar um hleranir í svipmyndum af innlendum vettvangi í gærkvöld, skal það tekið fram að flestar kröfur dómsmálaráðuneytisins um dómsúrskurði til hlerana á árunum 1949 til 1968, voru lagðar fram í ráðherratíð Bjarna Benediktssonar, þáverandi dómsmálaráðherra, samkvæmt rannsókn Guðna Th. Birgissonar, sagnfræðings. Ranglega var sagt að ráðherrann hefði sjálfur heimilað hleranir.

Leiðrétting síðar í fréttatímanum: Og Guðni Th. sagnfræðingur sem við vorum að vitna í hér áðan er að sjálf sögðu Jóhannesson en ekki Birgisson. Við biðjumst velvirðingar á mistökunum.“

Í þessum fréttaannáli sjónvarpsins á gamlársdag sagði:

„Rannsóknir sagnfræðings á hlerunum skóku þjóðfélagið á árinu. Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur: Frá árinu 1949 til 1968 voru kveðnir upp átta úrskurðir um símahleranir. Skrifstofur Sósíalistaflokksins og Þjóðviljans voru hleraðar, heimasímar nokkurra þingmanna og skrifstofa ASÍ. Þjóðaröryggi var sagt í húfi í tengslum við NATO-slaginn á Austurvelli og í landhelgisdeilunni við Breta. Bjarni Benediktsson, þáverandi dómsmálaráðherra heimilaði í flestum tilvikum hleranirnar en Jóhann Hafstein einu sinni. “

Ég veit ekki, hver vakti athygli fréttastofunnar á þessum rangfærslum hennar, en athyglisvert er, að hún biðst velvirðingar á þeim mistökum, að segja Guðna Th. Jóhannesson Birgisson en ekki á því, að fara með rangt mál um það, hvernig staðið var að ákvörðunum um símhleranirnar.

Miðvikudagur, 03. 01. 07. - 3.1.2007 10:52

Um áramótin fluttist yfirstjórn lögreglumála á Keflavíkurflugvelli frá utanríkisráðuneyti til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins á grundvelli laganna um nýskipan lögreglumála og sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli varð lögreglustjóri á Suðurnesjum og stýrir nú öðru stærsta lögregluembætti landsins í umboði dómsmálaráðherra og ríkislögreglustjóra. Jóhann R. Benediktsson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, kom til fundar í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu í dag og ræddum við ýmis mikilvæg fjárhags- og framkvæmdaatriði vegna þessarar breytingar.

Þegar lesið er um söknuð Slóvena yfir að missa mynt sína tolarinn nú um áramótin og fá evruna í staðinn, hljómar það eins og öfugmælavísa að hlusta á allt talið hér um þessar mundi um, að krónan hafi gengið sér til húðar og að því hljóti að koma, að evran komi í stað hennar.

Fyrirsögn The New York Times á fréttinni í dag um upptöku evru í Slóveníu var á þessa leið: Euro-Wary Slovenians Already Miss Their Tolar. Í fréttinni segir, að Slóvenar séu eina nýja aðildarþjóðin, sem hafi ákveðið að taka upp evru, helmingur hinna hafi hætt við það á síðustu sex mánuðum og þær þjóðir hafi ekki tilkynnt um nýjar dagsetningar. Þjóðirnar hafi ekki viljað beygja sig undir ósveigjanlegar evru-reglurnar og afsala sér því sjálfstæði, sem eigin gjaldmiðill veitir.

The New York Times segir, að almenningi á Ítalíu, í Frakklandi og Hollandi sé nóg boðið vegna verðhækkana eftir innreið evrunnar.

Nýleg könnun þýska vikuritsins Stern og RTL sjónvarpsstöðvarinnar sýnir, að 58% þeirra Þjóðverja, sem spurðir voru, vildu frekar búa við deutsche mark en evru.

Í The New York Times segir meðal annars:

Lesa meira

Þriðjudagur, 02. 01. 07 - 2.1.2007 22:02

Frá morgni til kvölds mátti fylgjast með því í útvarpi og sjónvarpi, hvernig Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, varði fyrsta hvunndeginum í embætti sínu. Í kvöldfréttum sjónvarpsstöðvanna var sagt frá göngueftirliti hans í Reykjavík í dag og hann kom í Kastljós í einkennisbúningi sínum. Framganga hans einkenndist af öryggi og þeirri viðleitni að skapa aukna öryggistilfinningu meðal borgaranna.

Í dag var ég í Hádegisviðtali við Kristján Má Unnarsson á Stöð 2 um breytingarnar á lögreglustjórninni 1. janúar og allt, sem þeim fylgir.

Í gær lét ég í ljós undrun yfir því hér á þessum stað, að verið væri að fjargviðrast yfir því, að Alcan kostaði útsendingu á Kryddsíld Stöðvar 2 á gamlársdag. Ég hafði ekki tök á að horfa á þáttinn en sá í fréttum í kvöld, að þau Steingrímur J. og Ingibjörg Sólrún höfðu þar deilt um, hvort þeirra ætti að verða forsætisráðherra í vinstri stjórn að loknum kosningum. Við skulum vona, að kjósendur leysi þau undan því að þurfa að rífast meira um þann stól!

Mér heyrist mestur áhugi á að ræða Kryddsíldina og Alcan vera hjá fréttastofu hljóðvarps ríkisins. Mætti halda, að fólk talaði á annan veg en ella í þáttum af þessu tagi, eftir hver kostar þáttinn. Þetta er furðurlegt viðhorf. Ég held, að enginn stjórnmálamaður, sem kemur í þátt af þessu tagi, sé yfirleitt að velta því fyrir sér, hvort hann sé kostaður af þessum eða hinum. Eða er verið að gefa til kynna, að stjórnendur kostaðra þátta, dragi taum kostenda við stjórn sína á einstökum þáttum? 

Í hljóðvarpi ríkisins var þessi frétt flutt klukkan 18.00 á nýársdag um Kryddsíldina og Alcan:

 

Lesa meira

Mánudagur, 01. 01. 07. - 1.1.2007 22:38

Nýársdagur var bjartur og fagur, þegar ég fór í Dómkirkjuna klukkan 11.00, þar sem herra Karl Sigurbjörnsson biskup prédikaði.

Þegar ekið er um borgina, má víða sjá miklar pappaleifar eftir rakettu- og sprengjuflug gamlárskvölds. Vonandi verða leifarnar hreinsaðar sem fyrst og áður en þær verða að blautum og ljótum klessum. Þegar ég var strákur, var mikið sport að ganga um og leita að rakettuprikum eftir gamlársdag. Það eru greinilega ekki allir, sem nenna að hirða pappadraslið eftir sig. Skotpallarnir fyrr á árum voru ekki eins fyrirferðarmiklir - flöskur eða einfaldlega snjóskaflar.

Það ber ekki vott um mikla trú á eigin málstaða að fjargviðrast yfir því, að Alcan sendi Hafnfirðingum vinsælan hljómdisk Björgvins Halldórssonar eða taki að sér að kosta Kryddsíldina á Stöð 2.

Ákveðið hefur verið að efna til atkvæðagreiðslu um framtíð álvers Alcans í Hafnarfirði.  Af þessum kvörtunum vegna hljómdisksins eða kostunarinnar mætti draga þá ályktun, að andstæðingar Alcans litu svo á, að fyrirtækið væri vanhæft til að berjast fyrir eigin framtíð. Svo er auðvitað ekki og forystumenn fyrirtækisins héldu vel á málum, þegar nokkrir Hafnfirðingar neyttu þess réttar síns að skila aftur hljómdisknum, af því að þeim líkaði ekki við gefandann.

Þegar Hjörleifur Guttormsson var iðnaðarráðherra fyrir tæpum 30 árum, ætlaði hann að gera út af við álverið í Straumsvík, sem þá var í eigu Alusuisse, með því að sanna, að fyrirtækið hefði hagnast óeðlilega á því, sem þá var kallað „hækkun í hafi“. Aðför Hjörleifs var áreiðanlega til þess að draga úr áhuga erlendra fjárfesta á að skoða kosti á Íslandi - en honum tókst ekki að koma Alusuisse á kné. 

Á þessum árum var í tísku meðal vinstrisinna að útmála alþjóðleg fyrirtæki sem einskonar svikamyllur og kommúnistum var sérstaklega mikið í nöp við þau. Nú á tímum alþjóðavæðingar gengur sambærilegur hræðsluáróður við eðli þessara fyrirtækja ekki og þá er ráðist á þau í nafni umhverfis- og náttúruverndar. Árásir af því tagi eru heldur máttlitlar miðað við hina miklu framfarir, sem hafa orðið við hreinsun úrgangs.

Þótt komi ný öld og nýtt ár, fyllast margir enn heilagri vandlætingu, þegar að alþjóðafyrirtækjum kemur. Ekki er með neinum haldbærum rökum unnt að gera lítið úr gildi álversins í Straumsvík fyrir íslenskan efnahag og sem vinnustaður nýtur það vinsælda og virðingar - þá er gripið til þess ráðs að gera þar tortyggilegt vegna hljómdisks og kostunar á sjónvarpsþætti.